Fæðingarsagan – {heimafæðing í Danmörku}

Ég átti son minn fyrir 4 árum í yndislegri fæðingu á Hvidovre spítala í Kaupmannahöfn á sólbjörtum sumardegi. Sú fæðing var inngripalaus og gekk mjög eðlilega fyrir sig, en hún var átakamikil, tók 15 tíma og hríðar voru mjög harðar og örar megnið af tímanum. Ég hef alla tíð lýst þeirri fæðingu sem draumafæðingu, en vá, á mánudaginn var fékk ég svo sannarlega að upplifa sannkallaða draumafæðingu. Ljósmæður Hvidovre spítala hvöttu okkur hjónin til að velja heimafæðingu í þetta skiptið þar sem allt hefði gengið svo vel með fyrsta barn og eftir stuttan umhugsunarfrest þáðum við það. Við sjáum aldeilis ekki eftir því.

Hér er fæðingarsagan:
Á mánudagseftirmiðdag (30. nóv. – komin 39v4d) ákvað ég að hringja upp á deild því þá var ég búin að vera með fyrirvaraverki og glerharða kúlu nánast án pásu í tvo daga, hafði lítið sem ekkert sofið og var orðin mjög þreytt. Það var búið að vera mikið að gera hjá mér dagana á undan við að klára vinnutengd verkefni og almennan jólaundirbúning. Ljósmóðirin á deildinni sagði að líklegast væri ég bara að malla í gang, en vildi gjarnan að ég kæmi uppeftir í rit ef ég yrði ekki betri eftir rúma klst. af hvíld. Ég átti að taka eina panódíl, fara í heita sturtu og leggjast niður til að slaka alveg á. Þegar ég loksins fékkst til að slappa af fann ég að verkirnir breyttust og þennan eina og hálfa tíma sem ég lá komu vægar hríðar á 3-5 mínútna fresti. Klukkan hálfsex hringdi ég upp á deild og sagði þeim að ég þyrfti ekki að koma uppeftir þar sem ég væri nokkuð viss um að nú væri ég komin í gang. Heimaljósmóðirin sagðist koma eftir klukkutíma svo ég hringdi í manninn minn og sagði honum að hann mætti gjarnan koma með son okkar (4 ára) heim af taekwondo æfingu því fæðingin væri að hefjast. Feðgarnir komu heim og næsta klukkutímann gengum við um íbúðina og gerðum klárt. Mamma mín var hjá okkur hér í Kaupmannahöfn og hún tók strákinn inn í svefnherbergi vopnuð kvöldmat og iPad og þar voru þau í góðu yfirlæti.

Hríðarnar urðu svolítið sterkari og ég andaði mig í gegnum þær á meðan maðurinn minn setti mottur á gólfið, blés upp fæðingarlaugina, kveikti á kertum og gerði almennt kósý. Klukkan hálfsjö kom ljósmóðirin og um leið og hún kom fattaði hún að hún hafði gleymt hönskum. Nú voru góð ráð dýr. Hún þreifaði kúluna, hlustaði á hjartslátt og endaði á að mæla útvíkkun með skrjáfandi nestispoka á höndunum. Mjög notalegt (not). Ég var með tvo í útvíkkun. „Andskotinn“ hugsaði ég og sá fyrir mér langa og stranga nótt og var satt að segja svolítið fúl að vera að fara í gang svona þreytt. Ég var einhvern vegin ekki í „stuði“ til að fara að fæða og langaði til að afþakka pent og fá bara góðan nætursvefn. Það var auðvitað ekki mjög lógískt svo það næstbesta var að sætta sig við orðinn hlut og setja sig í gírinn. Það helltist yfir mig einhver hrollur svo ég skalf eins og hrísla og það var orka sem ég vildi ekki missa, svo ég náði í dáleiðsluæfinguna mína (Adam Eason – mæli með því!), setti á mig headphones og lagðist á gólfið í einbeitingu. Maðurinn minn kom með hitapoka fyrir mig og þarna lá ég og slakaði á. Í hríðunum talaði ég upphátt við sjálfa mig og sagði ýmist: „Já já já já“, „Komdu til mín elska mín – mamma vill fá þig“ eða „Opna opna opna opna“.

Klukkutíma síðar, um hálfátta, voru vaktaskipti hjá ljósmóðurinni og þegar nýja ljósmóðirin kom – með almennilega hanska og ljósmóðurnema í farteskinu – var ég skoðuð aftur og þá komin með 3 cm í útvíkkun. Þá ákvað ég að nú skyldi ég opna mig enn hraðar. Í hverri hríð hugsaði ég: „Þetta eru ekki verkir, þetta eru bara samdrættir. Hér er það ÉG sem ræði. Það er ÉG sem er að framkalla þessa samdrætti. Ekki hugsi-hausinn-ég, heldur líkams-ég, frum-ég. Þetta er minn líkami og hann gerir ekkert sem ég ræð ekki við. Nú ÆTLA ég að opnast og búa til gott pláss fyrir þetta barn.“ Ég fór í baðkarið, það var yndislegt og ég náði góðri slökun þar. Ég notfærði mér „Smertefri fødsel” tækni (mæli með henni!) og maðurinn minn var með mér í hverri hríð – það skipti sköpum. Líkamleg snerting við ástina sína og föður barnsins er besta verkjastilling sem hægt er að hugsa sér. Hann nuddaði ýmist bakið, axlirnar eða hendurnar. Knúsaði mig og kyssti og hvatti áfram. Þegar þarna var komið var ég hætt að fylgjast með klukkunni. Hríðarnar voru vel viðráðanlegar og mér fannst ég fá góða pásu á milli. Við brostum og slógum á létta strengi og stemningin var yndisleg. Ég hugsa að það hafi ekki liði meira en rúmur hálftími þar til ég var komin með 4-5 í útvíkkun og eftir annan hálftíma var ég komin með rúma sex. Við fögnuðum hverjum sentimetra eins og uppáhalds fótboltaliðið okkar hefði skorað sigurmark. Sonur okkar kom tvisvar fram úr herberginu með ömmu að kíkja á hvernig gengi og fannst bara voða spennandi að litla systir væri að koma.

Fljótlega eftir 6 cm var ég farin að fá svolitla rembingsþörf efst í hríðunum og ljósan tók eftir því og sagði mér að halda alls ekki aftur af því – leyfa líkamanum algjörlega að gera það sem hann kallaði á. Belgurinn var ekki sprunginn ennþá og hann bungaði niður í leghálsinn og gaf þessa þrýstingsþörf. Með hverri hríð eftir þetta jókst rembingurinn og á örskotsstundu var ég komin með 10 í útvíkkun og gat þreifað fyrir belgnum og kollinum nokkrum sentimentrum inni í leggöngunum. Þegar þarna var komið hoppaði maðurinn minn ofan í laugina til mín og settist með mig í fangið. Hann tók undan um hnén á mér og hjálpaði mér að halda mér vel opinni í rembingshríðunum. Það kom aðeins ein hríð þar sem ég veinaði af sársauka, en þá þrýsti höfuðið svo harkalega niður að ég vissi ekki út um hvaða gat barnið myndi koma. Ég varð að grípa um klofið á mér til að halda á móti svo hún færi ekki út of hratt.

Í næstu hríð kom svo kollurinn út, ennþá í belgnum og einni hríð síðar runnu axlirnar og restin af búknum út. Við hjónin tókum á móti henni sjálf og tókum hana beint í fangið. Barnið fæddist í sigurkufli, þ.e. ennþá í líknarbelgnum. Hún var með höfuðið örlítið skakkt, þ.e. í stað þess að andlit vísi niður, þá var andlitið inn að læri. Þegar hún var komin á bringuna slitum við gat á líknarbelginn og þá umlaði hún örlítið áður en hún lygndi aftur augunum og kúrði sig í fangið á okkur. Við hlógum og hlógum og táruðumst af gleði – dóttir okkar komin í heiminn í stofunni heima hjá okkur eftir ca. 5 tíma fæðingu kl. 21:51. Það var algjörlega ólýsanlegt að fá að gera þetta svona saman tvö, við stjórnuðum öllu ferlinu og okkur leið svo vel að vera inná fallega heimilinu okkar. Ljósmæðurnar héldu sér alveg til hlés allan tímann, komu af og til og hlustuðu hjartsláttinn hjá barninu og leiðbeindu mér með öndunina í rembingnum en unnu að öðru leyti sitt starf úr fjarlægð.