Fjör í fjóra daga

Ég mætti í vinnuna 14. nóvember, vitandi að það væri síðasti vinnudagurinn minn þar sem að ég var sett á mánudeginum 17. nóvember.

Ég fór heim út vinnunni og beint að passa einn 4ra ára.Við lékum okkur og djöfluðumst. Hann ýtti svo eitt skiptið frekar fast í kúluna að mér fanst og eftir það þá byjuðu verkirnir. Þeir komu hægt og rólega til að byrja með og ég var lítið að spá í þessu. Svo um kl 21.00 þá er ég að keyra heim og tek eftir því að verkirnir eru farnir að vera ansi vondir og komu með 5-7 mínotna millibili. Ég gerði nú ekki mikið úr því, skellti mér í bað þegar ég kem heim og fer svo bara að sofa. Daginn eftir vakna ég frekar snemma eftir svefnlitla nótt að sökum verkja . Ég skelli mér í afmæli hjá fænku minni þar sem allir voru að veðja á hvenær barnið léti sjá sig. Ég sagði engum að ég væri með verki, en fór snemma heim þar sem ég var uppgefin. Um kl 17.00 á laugardeginum hringi ég í systir mína og segi henni að ég geti ekki meira og að hún verði að koma til mín. Hún kom og við hringdum uppá fæðingardeild þar sem ég var lögð inn. YES! Komin inn og nú skal þetta barn koma. Ljósmóðirin sagði að miðað við hvað samdrættirnir væru miklir þá kæmi barnið líklegast þessa nótt, en þar sem ég var ekki komin með nema 3,5 í útvíkkun þá vildi hún gefa mér lyf í æð sem áttu að vera vöðvalsakandi og ættu að geta leyft mér að sofa aðeins.

Ég fékk þessi lyf og af einhverjum ástæðum (sem enginn virðist skilja) þá gaf hún mér lyf sem minnka samdættina, sem varð þess valdandi að það datt allt niður. Ég ældi eins og múkki þá nótt og var svo bara send heim þar sem að allt datt niður.

Ég var komin á aftur á byrjunarreit. Úfff núna var bara að bretta upp ermarnar og byrja uppá nýtt. Á sunnudagsmorgni fór ég að malla af stað aftur (dagur 3 í verkjum) og núna ætlaði ég ekki að fara aftur í fýluferð upp á spítala og vildi sko ekki fara þangað fyrr en helst hausinn væri kominn. Ég þraukaði allan sunnudaginn til miðnættis, þá fór ég upp á deild aftur þar sem ég var send heim með Smarties (eina parkodín) og sagt að reyna að sofa þar sem að útvíkkunin var ekkert búin að breytast. OK ég fer heim og sef ekki baun. Reyni að drösla mér í bað heima aftur, horfi á fyndna mynd og reyni að hlægja barnið út sem var ekki að virka því ég gat varla talað út af verkjum. Í hádeginu á mánudegi (dagur 4) fer ég aftur uppá deild og bað til guðs að barnið færi nú að koma. Ég fer upp á deil og JEY!! Ég er komin með 4ra í útvíkkun jibbíkóla!

Þær ætluðu að senda mig heim, en þá kom æðisleg ljósa sem heitir Kristín og sagði að ég gæti ekkert hvílt mig heima með þessa verki og hún bókaði herbergi númer 9 í hreiðrinu (extra stórt með risa stóru baði) Hún fyllti baðið og ég svamlaði þar í dágóðan tíma með því að ég rétt stökk uppúr bara rétt til að soðna ekki um of.

Mér leið mikið betur og þar sem að ég má ekki fá mænudeifingu vegna bílslys sem ég lenti í þá var ekkert sem ég gat gert til að lina sársaukan nema bað, nálar og bíta á jaxlinn. kvöldið leið og ekkert var að frétta af útvíkkunni. Um kl 22.00 var ég komin í heila 5 og mér var bannað að fara meira í bað þar sem að ég slakaði of mikið á og samdættirnir urðu ekki jafn sterkir.

Mér var svo boðið morfín í æð um miðnætti, ásamt svefnlyfjum svo að ég næði að kvílast aðeins fyrir stóru átökin. Ég þáði það og um klukkustund síðar sofna ég. Þegar ég var búin að sofa í tæpan klukkutíma vakna ég við það að ég held að vatið sé farið. Kalla á ljósuna og hún kemur og staðfestir það og segir mér að fljótlega ætti allt að fara af stað. En viti menn… nei engin breyting klukkutíma síðar. Enþá 5 í útvíkkun og ég orðin út úr heiminum af morfíni og þreytu. Svo um kl 5 þá kemur ljósan inn og skoðar mig þar sem að ég var í sleep-coma. Ljósan er nýbúin að skoða mig og segir systum mínum að ég sé komin með 9 í útvíkkun. Ég fór út 5 í 9 á innan við einni klst. Þar sem ég var í þessu sleep coma þá var ég ekki viðræðuhæf þegar ljósan skoðaði mig og um leið og hún fer út úr herberginu þá byrja ég að rembast. Systur mínar fríka pínu út og hlaupa fram og kalla aftur á ljósuna.

Hún kemur inn og ég er látin rembanst í dágóðan tíma. Ég man ekkert eftir þessum tíma sem betur fer kanski. Ég rembist nokkrum sinnum og ekkert barn kemur, allt í einu fyllist stofan af læknum, hjúkkum, nemum og öllu tilheyrandi með nálar, sprautur og fæðingarrúm. Þegar mest var þá voru um 11 manns inni í herberginu fyrir utan mig. það eina sem ég man var að einhver sagði við mig „Stefanía ef þú vilt fá barið þitt lifandi í fangið á þér þá þarftu að rembast eins fast og þú mögulega getur NÚNA! Þú færð bara einn séns“ Ég hikaði ekki við það og rembdist eins og vindurinn. Barnið kom og ég svo rugluð að ég man lítið sem ekkert eftir því. Heilbrigður strákur kom í fangið á mér kl 8.21 á þriðjudagsmorgni. Og það eina sem ég gerði var að ég furðaði mig á því af hverju ég var komin í sjúkrarúm og hálfa leið út á gang.

En það var neflilega svo að hjartað í drengnum hætti að slá og þau byrjuðu að undir búa mig undir bráða keisara en ákváðu að reyna einusinni með sogklukku, sem betur fer gerði trixið. Ég missti mikið blóð í fæðingunni og mátti ekki standa upp nema hafa einhvern hjá mér í 24 klst eftir. Ég var rosalega fegin að fá að vera á sjúkrahúsinu sólarhring lengur en vaninn er, enda fyrsta barnið mitt og ég og pabbinn ekki í sambúð. í dag á ég fullkominn lítinn kút sem gerir lífið svo óendalega dásamlegt að ég myndi glöð ganga í gegnum þetta allt aftur fyrir hann.