Áttavillt á leiðinni út

Ég fór í síðasta jógatímann minn í hádeginu fimmtudaginn 15. ágúst, gengin ákkurat 40 vikur, fjörutíu ára gömul, með fjórða barn. Ég geng alltaf vel og lengi með svo ég bjóst fastlega við að mæta í jóga í að minnsta kosti viku í viðbót, kannski alveg tvær. 

Kristbjörg ljósmóðir hefur fylgt mér í öllum mínum fæðingum og hjá henni hef ég líka fengið alla mæðravernd og heimaþjónustu, alveg samfellda þjónustu. Það er rosalegur lúxus. 

Ég hef alltaf farið af stað með því að missa vatnið svo ég gat ekki ímyndað mér að fara af stað einhvern veginn öðruvísi í þetta skiptið. Um kvöldið þennan fimmtudag fór maðurinn minn út og ég gaf krökkunum að borða, hafði einhverja tilfinningu og gat lítið gert annað en að rugga mér á jógaboltanum við matarborðið. Ég gladdist óskaplega þegar ég sá að slímtappinn var að losna, það var þá eitthvað á bakvið þessa tilfinningu hjá mér. Ég sendi Kristbjörgu ljósmóður skilaboð og reyndi að sofna snemma. Um nóttina vaknaði ég til að fara á klósettið og fann straum í öllum líkamanum, út í fingur og tær og vissi að það væri eitthvað meira að gerast. Um morguninn þegar ég rumska hugsa ég: Núna er vatnið kannski farið, dreg andann djúpt og gríp þetta síðasta augnablik þessarar meðgöngu í huganum. Ég rúlla mér fram úr rúminu og jú, vatnið lekur á gólfið og maðurinn minn vaknar við vatnsdropana.

Ekkert barn hefur nokkru sinni skorðað sig hjá mér svo ég lagðist bara aftur upp í rúm og sendi ljósmóðurinni skilaboð. Ég ætlaði að eiga heima eins og í öll hin skiptin. Skólinn var ekki byrjaður enn og þennan föstudag var meira að segja starfsdagur í leikskólanum. Það þýddi að öll fjölskyldan var heima og vakandi. Það var ákveðin pressa. Kristbjörg kom og hlustaði á hjartsláttinn og þreifaði bumbuna. Barnið óskorðað og í skrýtinni stöðu, líklega framhöfuðstaða. En ég komst á klósett, legvatnið lak út um allt og ég lagðist svo aftur upp í rúm. Fjögurra ára stelpan mín hvíslar stolt að mér að potturinn sé kominn upp inni í stofu.

Í öllum hinum fæðingunum mínum hafa öldurnar byrjað svona 1-2 klst eftir að ég missi vatnið en það gerðist ekki í þetta skiptið. Í staðinn eyddi ég deginum í læstri hliðarlegu á vinstri hliðinni til að fá barnið til að snúa sér og var hreinlega farið að leiðast. Ég reyndi hvíld, hugleiðslu, oxytocin vímu með yngsta barninu, örvun á geirvörtur, ilmkjarnaolíur og jurtir sem ljósmóðirin var með. Ekkert að gerast nema vatn út um allt. Kl 6 um kvöldið fara allir krakkarnir til afa síns og ég reyni að horfa á bíómynd með manninum mínum og við pöntum okkur mat. Næstum um leið finn ég fyrstu bylgjuna koma. Ég borða nokkra bita og svo fer maðurinn minn fram, ég var búin að biðja um að fá að vera sem mest ein. Barnið var þarna búið að snúa sér í betri stöðu en enn óskorðað.

Ég anda haföndun og gleðst yfir hverri bylgju, þakklát fyrir hverja og eina. Ég hlusta á Hypnobirthing slökunina mína og ímynda mér að ég sé að blása upp magann, eins og risastóra blöðru, og slaka niður í grindarbotn. Mér líður alveg rosalega vel. Alveg ofsalega vel. Um 9 eru bylgjurnar orðnar vel sterkar og ég sendi á ljósmóðurina að hún megi koma núna. Hún hafði kvatt okkur seinnipartinn eftir að hafa hangið heima hjá mér næstum allan daginn. Ég heyri manninn minn svæfa 4 ára stelpuna. 

Ég ligg ein í myrkrinu örugglega fram að miðnætti, með hypnobirthing á repeat og rosalega ánægð og hamingjusöm. Ég ákveð svo að ef ég ætli að fara í pottinn þá sé það núna. Er með noise cancellation heyrnartól og augnskýlu og strákarnir mínir tveir strjúka á mér bakið í pottinum meðan ég held áfram að hlusta á slökunina með lokuð augun. Bylgjurnar breytast eftir einhvern tíma, líkaminn byrjar ósjálfrátt að ýta og rembast. Ég veit að útvíkkun er lokið því ég er ekki að fá rembing bara í toppnum á bylgjunum heldur er öll bylgjan rembingur. 

Það er samt eitthvað aðeins að standa út af því ég finn enga enga tilfinningu um höfuð eða þrýsting ofan í grindinni svo ég fer upp úr pottinum, prófa að fara á klósettið. Ég tek svo á móti bylgjunum á dýnu á gólfinu en reisi mig upp og hangi um axlir og háls mannsins míns í bylgjunum. Ég prófa ýmsar stellingar, fer aftur á klósettið en allt er við það sama. Ekkert breytist. Eftir 3 klukkutíma af þessu er ég orðin ansi þreytt. 

Ég var búin að afþakka innri skoðanir fyrir fram og ljósmóðirin vissi að ég vildi helst ekkert vera neitt trufluð. Hún hlustaði af og til með doppler á hjartsláttinn hjá krílinu, annars var ég bara sjálf og ein að vinna ótrufluð með líkamanum sem mér fannst gott. En ég var orðin mjög þreytt og búin að prófa allt sem mér datt í hug. Ég var með rembing í öllum öldunum en ég hreinlega fann ekkert höfuð ofan í grindinni, engan þrýsting eins og ég hef alltaf fundið áður. Kannski var barnið bara enn óskorðað. Ég var orðin nokkuð viss um að barnið myndi ekki fæðast nema eitthvað breyttist og ég fann ákveðna uppgjöf. Ég vissi ekki hvað ég gæti gert meira. Klukkan var orðin um 4 um nóttina. 

Þarna segi ég ljósmóðurinni að ég sé orðin þreytt. Hún stingur upp á að halda og lyfta bumbunni í gegnum nokkra rembinga. Hún stendur þá fyrir aftan mig og heldur utan um bumbuna og lyftir meðan ég hangi á manninum mínum. Við tökum kannski 3 rembinga svona, þetta var mjög intense. Svo verð ég að fá einhverja hvíld, ég sit á gólfinu og halla bakinu upp að sófanum og reyni að hvíla mig og tempra rembinginn svo ég nái aðeins að safna kröftum. Ég ligg viljandi svona aflíðandi því ég vildi halda barninu eins nálægt hryggnum mínum og ég get, svo höfuðið rati vonandi rétta leið og þrýsti rétt á leghálsinn og ofan í grind.

Næst vill Kristbjörg að ég prófi að squatta djúpt við hurðarhúninn. Ég þarf að labba alveg 5m að næst hurðarhúni og fæ nokkra rembinga á leiðinni, ég labba líka svo hægt! Ég finn samt að nú er eitthvað búið að breytast, það er kominn þrýstingur aftur í átt að rassinum og reyni að tjá mig um það með takmörkuðum árangri. Ég reyni líka að drekka á þessum tímapunkti, ég sé það eftir á að ég hefði mátt vera duglegri að drekka yfir nóttina, þá hefði ég kannski ekki orðið jafn þreytt. Ég er svo í dágóða stund að koma mér í djúpt squat með sveigju á hryggnum en það var alls ekki jafn óþægileg stelling og ég hélt hún myndi verða. Við hurðarhúninn kom rífleg blæðing, þannig að Kristbjörg vildi gera innri skoðun. Ég var vel sátt við það á þessum tímapunkti enda sjálf orðin alveg mát á því af hverju það var ekki meira að gerast. 

Kristbjörg sagði að hún finndi vel fyrir kolli og staðfesti að útvíkkun væri lokið sem ég taldi mig vita að hefði gerst fyrir talsverðu síðan. En kollurinn var aðeins skakkur og krílið lá allt vinstra megin í bumbunni. Af einskærri ljósmóðurlist náði Kristbjörg að hnika kollinum svo hann lægi rétt og halda við bumbuna utan frá svo krílið færi inn að miðju og myndi nú vonandi takast að finna réttu leiðina út. Ég var eins og skjaldbaka föst á bakinu og gat mig hvergi hreyft og þurfti að biðja manninn minn um að hreinlega lyfta mér upp því ég vildi ekki takast á við öldurnar á bakinu, það finnst mér óþægilegasta stellingin af þeim öllum. Hann lyfti mér á fætur í einni lyftu og ég fann næstu bylgju skella á mér. Kristbjörg spurði hvaða stellingu ég vildi fara í en mér datt ekkert í hug, það var líka svo erfitt að hreyfa sig. Ég stóð því eins og valkyrja í gegnum þessa bylgju, með hendur um háls mannsins míns og kollurinn hreinlega datt í gegnum grindina og niður á spöngina. Ljósmóðirin var rosalega ánægð með þetta, ég líka, en aldrei hefði mér dottið í hug að ég myndi fæða standandi! Ég var á engan máta hæf til að skipta um stellingu og tók því á móti kollhríðinni líka standandi. Mér fannst undarlegt að vera svona standandi og það flaug í gegnum hausinn á mér að þetta barn myndi hreinlega hrynja niður á parketið, ég lagði allt traust mitt á Kristbjörgu sem myndi svo sannarlega þurfa að ,,grípa” þetta barn. Eftir á finnst mér alveg ótrúlega merkilegt og valdeflandi að ég hafi fætt standandi, við getum svo miklu meira en við höldum. 

Á þessum tímapunkti í fæðingu hef ég lært að slaka á og fara rólega. Nú liggur ekkert á. Auðvitað viltu klára þessa fæðingu og koma barninu í fangið sem fyrst en með smá rósemd á réttu augnabliki hefur mér alltaf tekist að fæða með heila spöng og ég ætlaði mér að endurtaka leikinn. Ætli þetta hafi því ekki verið 2-3 hríðar sem það tók kollinn að koma út. Ég leyfði líkamanum að stjórna. Og þyngdaraflinu. Kristbjörg spurði hvort ég vildi að hún héldi við og ég sagði bara já því þá myndi ég allavega finna fyrir henni þarna og vita að barnið myndi ekki gossa bara á gólfið. Kollhríðin sjálf er ekki nema örfáar sekúndur af blindri, óbilaðri trú á eigin líkama og algjörri eftirgjöf. Þegar höfuðið var komið út fann ég svo sterkt fyrir því þegar barnið snéri sér inni í mér til að axlirnar kæmust út í næstu hríð þar á eftir. Þyngdaraflið lét mig eflaust finna þetta svona sterkt. Afar sérstök tilfinning. 

Ég var svo glöð þegar barnið kom. Þakið fósturfitu og með stuttan streng vafinn um hálsinn. Barnið fór strax að gráta meðan Kristbjörg, maðurinn minn og ég héldum barninu upp við lærin á mér og en það tók smá stund að losa strenginn svo ég gæti tekið barnið í fangið. Öll börnin mín hafa fæðst með naflastrenginn um hálsinn svo ég veit vel að það er fullkomlega eðlilegt og ekkert til að hafa áhyggjur af. Það voru bara 17 mínútur liðnar frá innri skoðuninni. 

Elsti strákurinn minn, 12 ára, hafði sofnað örmagna á stofugólfinu bakvið fæðingarlaugina (ég vissi ekki að hann væri þarna) og pabbi hans vakti hann hlæjandi með hvítar hendur af fósturfitu og svo voru hin börnin vakin og þustu niður. 

Það var rosalega skemmtileg stund þegar öll fjölskyldan skoðaði litla krílið til að komast að því hvort þetta væri lítil systir eða lítill bróðir. Lítil stúlka reyndist það vera 😉

Litla dóttirin fór strax á brjóst. Það blæddi lítið sem ekkert en ég fékk sterka samdrætti því legið var að dragast hratt saman. Fylgjan fæddist 1 klst og 30 mín seinna þá voru strákarnir mínir sofnaðir aftur en 4 ára dóttir mín fylgdist með og fékk að klippa á naflastrenginn. Mikið rosalega var gaman að upplifa þessa fæðingu með allri fjölskyldunni en ofsalega voru allir þreyttir eftir þessa löngu nótt. 

Fjórða fæðingin mín varð því mín lengsta og átakamesta fæðing. Hún hefði orðið enn lengri ef ég hefði ekki haft svona hæfa og reynda ljósmóður til taks fyrir mig þegar ég vildi stuðning hennar og hjálp. Ég er samt svo þakklát fyrir að hafa fengið þennan tíma í útvíkkun ein og ótrufluð uppi í rúmi og að hún hafi ekkert truflað mig allan þennan tíma sem ég hékk á manninum mínum og dýnunni. Það er svo valdeflandi að eiga sína fæðingu sjálf.

Tólf ára strákurinn minn sem vakti næstum í gegnum þetta allt saman með mér. Hann náði því miður ekki að verða vitni að síðustu fæðingu eins og planað hafði verið.  Mér fannst svo gaman og gott að hafa hann hjá mér núna eins og hann hafði sjálfur beðið ítrekað um og við rætt í þaula. 

Hann sagði líka við mig daginn eftir:,,Mamma, þetta var algjörlega fullkomin fæðing”. Og það er rétt hjá honum.