Hypnofæðing Dagmar

Kæru konur – verðandi mæður.

Mig langar að deila með ykkur fæðingarsögunni minni af okkar öðru barni. Þessi fæðing var svo mögnuð upplifun og þess vegna er það skylda mín að miðla henni til ykkar í þeirri von um að þið finnið hvatningu og hugrekki til að takast á við þetta allra stærsta verkefni okkar kvenna – að koma barni í heiminn. Með fyrra barn gekk ég 14 daga framyfir settan dag og því sett í gang með öllum þeim ofsa og stjórnleysi sem því fylgir – mér fannst það erfitt. Núna þremur árum síðar var ég gengin 5 daga framyfir settan dag og aðeins nokkrir dagar í jól. Sökum yfirvofandi jólafrís þá var fæðingardeildin búin að bóka fyrir mig gangsetningu daginn fyrir gamlársdag. Allar frumur líkamans herptust saman við þá tilhugsun og ég þráði ekkert heitar en að þetta færi af stað af náttúrunnar hendi. Ég biðlaði til minnar yndislegu ljósmóður á fæðingardeildinni á Akranesi – Hafdísar Rúnarsdóttur að gefa mér nálastungur þennan fallega eftirmiðdag í desember. Ég hafði verið með samdrætti nánast alla meðgönguna og sérstaklega er leið á. Barnið var búið að skorða sig langt niður í grindina og ég var heldur betur tilbúin í þetta verkefni. Á báðum meðgöngum var ég í yogatímum hjá Auði Bjarnadóttur og hennar gyðjum og haföndunin var fyrir löngu orðinn hluti af sál minni og líkama. Mér hafði nýverið áskotnast bók um Hypnobirthing sem ég las í einum rykk en þar opnaðist mér alveg ný sýn og skilningur á fæðingarferlinu. Sérstaklega fannst mér áhugavert að lesa um sögu fæðinga í gengum árþúsundin. Það að setja okkur inn í sama mengi og dýrin og náttúruna hjálpaði mér að skilja grunnelementin sem þurfa að vera til staðar í fæðingu – friður og öryggi. Dýrin finna sér rólegan stað, eru yfirveguð og treysta því að að líkaminn stýri ferlinu sjálfur. Þau koma afkvæmum sínum í heiminn á hljóðlátan og yfirvegaðan hátt á þeim tíma sem líkaminn þarf í þetta verkefni. Í raun á það nákvæmlega sama við um okkur nema við mannfólkið höfum einnig það stóra verkefni að reyna að hafa stjórn á huganum – svo að hann taki ekki yfir. Mér tókst að tileinka mér þessar hugmyndir og öndunartækni að einhverju leyti en hvort ég gæti notfært mér í fæðingunni yrði að koma í ljós. Það er mikilvægt að vera algjörlega æðrulaus gagnvart fæðingarferlinu. Það fer eins og það fer.

Í nálastungunum leyfði ég ljósunni að skoða mig því ég var svo viss um að ég væri hægt og rólega byrjuð að opna fyrir krílinu. Sem var og rétt því ég var komin með 4 í útvíkkun þá þegar. Við maðurinn minn ákváðum að fara heim og borða kvöldmat með dóttur okkar og koma henni fyrir hjá ömmu og afa og bjuggumst svo við að fara aftur upp á skaga um nóttina. Ég var vissulega mjög spennt en á sama tíma pollróleg, því ég hafði einsett mér að halda ró og yfirvegun. Klukkan 19 fór ég að fá greinilega verki með samdráttunum. Ég tímasetti þá og þeir voru fljótlega orðnir taktfastir þannig að við settum tösku í bílinn og keyrðum aftur af stað á Akranes. Í hverri öldu notaði ég haföndunina. Því sárari verkur – því ýktari og kröftugri öndun. Svo gat ég hlegið og spjallað á milli og ég man hvað það var stórkostleg tilfinning að finna að ég réði við þetta! Ég var komin inn í eitthvað ferli sem ég varð strax hluti af – einbeitti mér að önduninni og fór eins mikið inn í hana og hægt er. Við komum upp á deild kl 20:30 og Hafdís sem var enn á vakt gerði baðið tilbúið fyrir mig. Ég rúllaði út yogadýnunni minni og á milli þess sem öldurnar riðu yfir settist ég á hækjur mér og vaggaði mér til hliðanna til þess að greikka leiðina niður fyrir krílið. Er aldan reið yfir lagðist ég út af og hvarf algjörlega inn í öndunina. EInhverjir þekkja eflaust hvernig það er að leika sér í sjónum í sólarlöndum í miklum öldum. Maður þarf að stinga sér inn í öldurnar og gefa eftir – leyfa öldunni að grípa sig og bíða eftir að yfirborðið róist. Þá kemst maður aftur upp á yfirborðið og bíður eftir þeirri næstu. Stundum kasta þær manni til undir yfirborðinu og þá er mikilvægt að gefa eftir og streitast ekki á móti heldur bíða eftir að yfirborðið róist. Því ef maður berst við ölduna þá finnur maður vanmátt sinn og getur auðveldlega orðið skelkaður, farið að ofanda og þá örmagnast maður fljótt… Nákvæmlega svona upplifði ég þetta fæðingarferli.

Smám saman stækkuðu öldurnar mínar og ég ákvað að fara í baðið. Ég fékk óstöðvandi sjálfta á tímabili sem eru viðbrögð líkamans við kraftinum í samdráttunum og andaði þá að mér glaðlofti nokkrum sinnum og sjálftinn stöðvaðist við það. Ofan í baðinu sat ég á hnjánum og hélt þessu ferðalagi mínu áfram í gegnum öldurnar. Á milli þeirra fékk ég alltaf stutt hlé til þess að opna augun og kyssa manninn minn og finna hvatninguna úr augum hans. Ég bað hann að þrýsta með fingrunum á þriðja augað er ég fór inn í öldurnar – það var kraftmikið og hjálpaði verulega. Það var eins og ég færi algjörlega inn í sjálfa mig þegar öldurnar riðu yfir, og ég einbeitti mér djúpt að eins hægri útöndun og ég réði við hverju sinni. Einbeiting og slökun er algjört lykilatriðið í fæðingu – að einbeita sér að önduninni, þá sérstaklega útönduninni. Við vorum öll í flæði og trausti yfir því að allt væri eins og það átti að vera. Enginn var að pæla í klukku eða tímanum á milli hríða, útvíkkun eða neinu slíku. Við vorum bara þarna saman í þessu verkefni. Smám saman ágerðust öldurnar, urðu stærri en samt var alltaf hlé á milli til þess að jafna mig og búa undir næstu. Á einhverjum tímapunkti þurfti ég að pissa og ljósan sagði mér bara að pissa í laugina ef ég vildi, til þess að trufla ekki slökunina og þetta flotta flæði sem ég var í. Svo fór ég að finna meiri og meiri þrýsting niður á opið og fann að það styttist í þetta. Ljósan skrapp fram að ná sér í kaffi og kom svo aftur og ég sagði henni að ég fyndi mjög aukinn þrýsting niður með hverri hríð. Hún stóð úti á gólfi með kaffibolla í hendinni og sagði við mig hlý og brosandi “þá máttu bara byrja að rembast elskan”. Örfáum sekúndum síðar kom þessi mikli þrýstingur sem ég andaði niður í af öllum kröftum – og viti menn kollurinn þrýstist út. Hafdís, sem átti alls ekki von á þessu frekar en ég, stökk til með hendurnar ofan í vatnið tilbúin að taka á móti. Ég fann eitthvað springa í vatninu og það reyndist vera belgurinn sem fram að þessu hafði verið órofinn. Ég sogaði allt loft til mín sem ég gat á næstu innöndun og á útönduninni komu axlir og svo kroppurinn. Barnið var fætt á fjórum mínútum í tveimur hríðum. Klukkan var 23:45. Ég settist í sætið í baðinu og fékk í fangið fullkomna stúlku dásamlega kraftmikla. Öll vorum við jafnhissa og skellihlægjandi yfir þessari ótrúlegu fæðingu. Með öndun, slökun og einbeitingu hafði mér tekist að leyfa líkamanum að koma barninu niður og svo þrýsta því út.

Það sem mér fannst merkilegast í hypnobirth fræðunum var að höfundur bókarinnar vill meina að hinn dæmigerði rembingur með tilheyrandi öskrum og djöfulgangi sé algjörlega röng hugsun, það sé í raun eitthvað sem hafi komið til með vestrænni sjúkrahúsmenningu. Við þurfum bara að anda – slaka og treysta og beina önduninni og orku niður á við. Líkaminn mun sjá um að þrýsta á hárréttum tímapunkti. Ég hafði lesið hypnobirth fæðingarsögur þar sem þessu er lýst en eftir fyrri reynslu átti ég bágt með að trúa að þetta væri virkilega hægt. En núna veit ég að þetta er mögulegt. Ég var róleg og yfirveguð allan tímann, fyrir utan eitt móment í kollhríðinni með miklum sársauka þar sem mér fannst ég í augnablik missa stjórn og rak upp vein og kastaði mér um hálsinn á eiginmanni mínum, en þetta augnablik var jafnskjótt liðið hjá því stúlkan var fædd. Ég fylgdi líkamanum og lét öndunina fylgja samdráttunum alveg þar til stúlkan fæddist. Daginn eftir var stysti dagur ársins, en jafnframt sá bjartasti síðustu mánaða. Fullt tungl, heiðskýrt og sjórinn spegilsléttur fyrir utan herbergisgluggan okkar. Stúlkan fékk nafnið Dagmar.

Ég var hátt uppi á hormónum eftir þessa mögnuðu fæðingu, og mun fljótari að jafna mig á allan hátt, heldur en ég var eftir fæðingu fyrsta barns. Legið dróst ótrúlega hratt saman – ég var dugleg að drekka hindberjalaufste fyrir og eftir fæðingu sem ég er viss um að hafi hjálpað. Þó svo að saumaskapurinn hafi verið andstyggilegur eftir báðar mínar fæðingar þá grær líkaminn á undraverðan hátt, bæði hratt og vel og áður en maður veit af þá er allt orðið heilt á ný. Það er mikið á okkur lagt en við getum þetta allar sem ein.

Gangi ykkur vel.

Birta

Fæðingarsaga Bryndísar Lenu – {óvænt heimafæðing}

Þetta byrjaði allt aðfaranótt sunnudagsins 11. október. Daginn áður vorum við með tveggja ára afmælisveislu fyrir stelpuna okkar og mikið búið að vera í gangi. Ég var algerlega óundirbúin, spítalataskan tóm og barnafötin niðri í geymslu, enda var rétt rúm vika í settan dag, og ég ekki beint þekkt fyrir að vera sérstaklega tímanleg manneskja. Ég var líka handviss um að stelpan ætlaði fæðast 12. október þar sem það er afmælisdagur ömmunnar sem hún átti að heita í höfuðið á og þá var akkúrat vika í settan dag en systir hennar kom einmitt viku fyrir sinn setta dag. Þetta var allt útpælt og planað og sunnudagurinn 11. október átti bara að fara í slökun fyrir komandi átök og undirbúning í rólegheitunum.

Um nóttina var lítið sofið eins og vanalega, bumban var alls staðar fyrir og stefnumótin við klósettið voru endalaus. Kkukkan var orðin rúmlega 6 og ég var að fara að staulast enn eina ferðina upp í rúm, sem var bæði tímafrekt og vandasamt verkefni á þessu stigi meðgöngunnar, þegar gusan kom. Það gat nú varla verið að ég væri að pissa á mig svona nýbúin á klósettinu, en það var svosem orðið fátt við þessa óléttu sem gat komið mér á óvart. Ég vakti Sigga með þeim orðum að ég héldi að ég hefði verið að missa vatnið og hann rauk upp, hentist fram úr með eldri stelpuna og var horfinn á nóinu. Ég var ekki alveg að meðtaka þennan hamagang og rölti aftur inn á klósett til að athuga málið betur. Þá var klukkan um 6:20.

Rétt á eftir fékk ég svo fyrsta verk og næsti kom nánast alveg í kjölfarið. Verkirnir urðu svo fljótlega mjög sárir og komu með örstuttu millibili. Þá varð ég víst að viðurkenna að ég væri komin með hríðar.

Ég var strax algjörlega ófær um að hugsa skýrt, hljóp bara um og reyndi að finna til dót í töskuna á milli hríða. Á meðan stökk Siggi niður í geymslu að sækja kassana með barnafötunum og ég fór enn einu sinni á klósettið og þá var byrjað að blæða. Ég vissi þá að útvíkkunin væri að verða búin af því þannig var það í síðustu fæðingu. Þá voru kannski liðnar 15-20 mínútur frá því vatnið fór. Siggi var búinn að taka Sóleyju

til á methraða og var rokinn út í bíl með hana og ég greip einhver föt úr kassanum og henti í töskuna og ætlaði svo að hlaupa út en varð að leggjast niður því verkirnir voru svo miklir. Ég endaði á fjórum fótum og gat ómögulega staðið upp aftur. Í því kom Siggi upp, sá mig þarna á gólfinu og spurði hvort ég kæmist ekki út í bíl, ég náði að stynja upp neitun og að krakkinn væri bara að koma og hann hljóp þá aftur niður til að sækja Sóleyju, skutlaði henni inn og hringdi á spítalann. Sóley hljóp strax til mín, hágrátandi, og skildi ekkert hvað var í gangi, greip í hárið mitt og reyndi að toga mömmu sína upp. Ég reyndi eitthvað að hugga hana en gat varla talað þannig við vorum þarna bara organdi í kór. Ég heyrði útundan mér í Sigga að reyna að fá konuna á spítalanum til að skilja hvað væri að gerast og senda sjúkrabíl en það gekk mjög erfiðlega. Líkt og flestir Norðmenn sem við höfum átt samskipti við var kunnátta hennar í ensku á svipuðu leveli og grunnskólakrakka og hún var engan veginn að átta sig á aðstæðum. Bara sultuslök og sagði honum nú bara að fara með mig út í bíl og koma uppeftir, ekkert vera að flækja þetta neitt.

Þarna var ástandið orðið frekar klikkað, við öll gargandi af mismunandi ástæðum og kaosið algjört. Ég var farin að sjá fram á að þurfa að fæða barnið þarna fyrir framan dauðhræddu stelpuna mína og tilhugsunin var skelfileg. Þá skyndilega kom hlaupandi inn um svaladyrnar öldruð nágrannakona okkar, eins og ekkert væri eðlilegra, og þvílík himnasending! Hún benti á Sóleyju, greip hana í fangið og var svo horfin jafn fljótt og hún birtist. Ég man að ég hugsaði hvað væri nú vandræðalegt að hún sæji mig þarna á orginu liggjandi á fjórum fótum og held ég hafi sent henni aumkunarvert bros en annars höfðum við Siggi engan tíma til að pæla í þessu því nú var farið að sjást i kollinn. Siggi henti sér niður fyrir aftan mig, setti símann á speaker og gargaði að það sæist í höfuðið. Þá loks tók konan í símanum við sér og ákvað að senda sjúkrabíl og reyndi svo eitthvað að leiðbeina Sigga sem var nú kominn í ljósmóðurhlutverk.

Ég byrjaði að ýta á fullu og mér fannst taka heila eilífð að koma hausnum út þar sem hann stoppaði á kjálkanum og sat þar fastur og það var einsog ég væri um það bil að rifna í tvennt. Þeirri tilfinningu, þegar hausinn var hálfur kominn út og Siggi að brasa við að ná taki á honum, mun ég seint gleyma! Siggi náði svo að gera einhverja galdra og hausinn poppaði út í næsta rembing en þá sat hún föst á öxlunum. Ekkert gerðist sama hvað ég ýtti og á endanum var Siggi farinn að toga í hausinn af krafti og nokkrum ofurrembingum síðar skaust hún út. Ég heyrði smá tíst frá henni og andaði léttar, var svo uppgefin og fegin að hún væri komin út að ég hreyfði mig ekki og lá bara þarna áfram. Svo var ég farin að hugsa af hverju hún grenjaði ekki.

Ég hafði ekki hugmynd um hvað gekk á bakvið mig þar sem Siggi var skíthræddur að reyna að fá hana til að gráta sem virtist taka heila eilífð. Hann nuddaði hana alla og hristi og sló á bakið og hún var víst orðin helblá og það var ekki fyrren hann tróð fingrinum ofan í kokið á henni að hún fór að taka við sér. Þá hafði ég afrekað það að snúa mér á bakið og Siggi vafði hana inní bolinn sinn og rétti mér, settist svo við hliðina á mér alveg stjarfur og sagði ekki orð. Þar sat hann svo og ég liggjandi með hana á bringunni enn fasta við naflastrenginn þegar sjúkraliðarnir og ljósmæðurnar komu flæðandi inn um svaladyrnar, nokkrum mínútum síðar en óratíma að okkur fannst. Ljósmæðurnar skoðuðu mig og Siggi klippti á strenginn, ennþá í massívu sjokki en ég var nokkuð róleg yfir þessu öllu saman. Ég vissi einhvern veginn frá byrjun að þetta færi allt vel enda er maðurinn minn algjör klettur og það er fátt sem hann ræður ekki við. Ljósmæðurnar græjuðu mig og gengu frá fylgjunni, vöfðu barnið inn í ótal handklæði og við mæðgur vorum svo bornar út í sjúkrabíl og Siggi keyrði á eftir okkur upp á spítala.

Bryndís Lena fékk toppeinkunn af ljósmæðrunum og mældist 12 merkur eða 3100 grömm og 47,5 cm. Hún fæddist kl 6:55 samkvæmt ljósmóðurinni sem var í símanum á meðan á þessu stóð, og fæðingin tók því um hálftíma frá því eg missti vatnið. Siggi var skráður ljósmóðir á fæðingarspjaldið hennar og við vorum eflaust vinsælasta fjölskyldan á deildinni þennan dag. Ljósurnar báðust afsökurnar og sögðust aldrei hafa lent í slíku áður og þess vegna ekki trúað Sigga þegar hann hringdi og sent sjúkrabíl strax. Þær munu eflaust ekki gera þau mistök aftur. Ég var líka í toppstandi og rifnaði ekkert og Sigga var hrósað í hástert fyrir að hafa afgreitt þetta svona vel og honum var meira að segja boðið ljósmóðurstarf í góðu gamni. Hann afþakkaði þó pent enda situr þessi lífsreynsla þungt í honum og mun eflaust gera lengi. Sú stutta tók brjóstið um leið, var vær og góð og fullkomin og við mæðgur áttum þrjá notalega daga saman á spítalanum og fórum svo heim að hefja öll saman nýtt og spennandi líf sem fjögurra manna fjölskylda.

Næst mun ég flytja á spítalann mánuði fyrir settan dag, það er á hreinu!

Fædd­ist á stofugólf­inu heima – {óvænt heimafæðing}

Þessi fæðingarsaga birtist upphaflega á mbl.is en er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi Hólmfríðar.

Sig­urður Aðal­geirs­son og unn­usta hans Hólm­fríður Guðmunds­dótt­ir eignuðust dótt­ur á stofugólf­inu heima hjá sér í Nor­egi. Hlut­irn­ir gerðust hratt og eng­inn tími var til þess að keyra upp á spít­ala. Sig­urður tók því á móti dótt­ur sinni og er skráður sem ljós­móðir henn­ar á fæðing­ar­skír­tein­inu.

Laug­ar­dag­inn 10. októ­ber héldu Sig­urður og unn­usta hans Hólm­fríður upp á tveggja ára af­mæli eldri dótt­ur sinn­ar, Sól­eyj­ar Rós­ar. Dag­ur­inn eft­ir átti að fara í ró­leg­heit og voru þau búin að ákveða að taka sam­an dót fyr­ir spít­al­ann en áætluð koma barns­ins var þann 19. októ­ber. „Við fór­um bara al­sæl að sofa þarna á laug­ar­deg­in­um,“ seg­ir Sig­urður í sam­tali við mbl.is.

Um nótt­ina missti Hólm­fríður vatnið og þá voru hlut­irn­ir fljót­ir að ger­ast. „Við vöknuðum og ég klæddi Sól­eyju Rós í föt og við ætluðum að drífa okk­ur upp á spít­ala.“ Sig­urður fór með Sól­eyju út í bíl en þegar hann kom aft­ur inn lá Hólm­fríður á gólf­inu og tjáði hon­um að barnið væri að koma.

„Ég hljóp því aft­ur út í bíl, sótti Sól­eyju og hringdi upp á spít­ala og bað þá um að koma.“ Sig­urður seg­ir að starfs­fólk spít­al­ans hafi verið poll­ró­legt í sím­an­um og ekki áttað sig á því hversu stutt væri í raun og veru í barnið. „Það var ekki fyrr en ég fór að kalla hátt í sím­ann og sagði þeim að ég væri far­inn að sjá í koll­inn á barn­inu að þeir áttuðu sig á al­var­leika máls­ins. Ég lagði sím­ann frá mér og sá að barnið var að fara að koma. Kon­an mín var á org­inu og einnig eldri dótt­ir­in. Ég hélt ég yrði ekki eldri.“

Á þeirri stundu birt­ist ná­granni þeirra Sig­urðar og Hólm­fríðar í dyr­un­um en hann er á átt­ræðis­aldri. „Hann kom á harðahlaup­um og greip Sól­eyju með sér. Fyrst hugsaði ég hvað í ósköp­un­um væri að ger­ast en var ánægður með hjálp­ina.“

Þá tók al­var­an við. Sig­urður sagði Hólm­fríði að rembast og barnið byrjaði að koma út. „Fyrst stoppaði hún á kjálk­an­um og það var erfitt að koma hon­um út. Ég var stressaður og vissi ekk­ert hvað ég ætti að gera en eft­ir smá stund kom höfuðið út. Þá stoppaði hún aft­ur af því að axl­irn­ar komust ekki út.“

Sig­urður seg­ist þá hafa verið orðinn hrædd­ur þar sem að barnið var farið að blána. „Ég var orðinn aga­lega hrædd­ur og byrjaði að toga á móti á meðan hún rembd­ist.“

Eft­ir smá stund kom svo litla stúlk­an í heim­inn. „Fyrst var hún al­veg blá og mátt­laus en ég byrjaði að strjúka henni og klappa henni á bakið og nudda hana. Svo stakk ég putt­an­um upp í hana og þá allt í einu vaknaði hún, hóstaði og byrjaði að gráta.“

Sig­urður klæddi sig úr boln­um og vafði hon­um utan um dótt­ur sína sem hann lagði svo í fang móður sinn­ar. „Þetta var það rosa­leg­asta sem ég hef upp­lifað.“

Um fimm mín­út­um seinna kom sjúkra­bíll­inn og þá var klippt á nafla­streng­inn. „Þeir komu og sögðu að allt liti vel út, bæði hjá móður og barni og buðu mér í leiðinni starf á spít­al­an­um,“ seg­ir Sig­urður. Hann seg­ist þó hafa afþakkað starfið þar sem að þessi upp­lif­un hafi verið nóg. Hann fór svo og sótti Sól­eyju Rós sem var í góðu yf­ir­læti hjá ná­grönn­um sín­um.

Bæði móður og barni heils­ast vel og hef­ur unga stúlk­an hlotið nafnið Bryn­dís Lena Sig­urðardótt­ir.

Fjöl­skyld­an flutt­ist bú­ferl­um í sum­ar til Hø­nefoss í Nor­egi þar sem að Sig­urður starfar sem bif­véla­virki. Hólm­fríður er heima með Bryn­dísi Lenu en Sól­ey Rós er á leik­skóla.

Lestu fæðingarsögu Bryndísar Lenu frá sjónarhóli Hólmfríðar hér

Fæðingarsagan – {heimafæðing í Danmörku}

Ég átti son minn fyrir 4 árum í yndislegri fæðingu á Hvidovre spítala í Kaupmannahöfn á sólbjörtum sumardegi. Sú fæðing var inngripalaus og gekk mjög eðlilega fyrir sig, en hún var átakamikil, tók 15 tíma og hríðar voru mjög harðar og örar megnið af tímanum. Ég hef alla tíð lýst þeirri fæðingu sem draumafæðingu, en vá, á mánudaginn var fékk ég svo sannarlega að upplifa sannkallaða draumafæðingu. Ljósmæður Hvidovre spítala hvöttu okkur hjónin til að velja heimafæðingu í þetta skiptið þar sem allt hefði gengið svo vel með fyrsta barn og eftir stuttan umhugsunarfrest þáðum við það. Við sjáum aldeilis ekki eftir því.

Hér er fæðingarsagan:
Á mánudagseftirmiðdag (30. nóv. – komin 39v4d) ákvað ég að hringja upp á deild því þá var ég búin að vera með fyrirvaraverki og glerharða kúlu nánast án pásu í tvo daga, hafði lítið sem ekkert sofið og var orðin mjög þreytt. Það var búið að vera mikið að gera hjá mér dagana á undan við að klára vinnutengd verkefni og almennan jólaundirbúning. Ljósmóðirin á deildinni sagði að líklegast væri ég bara að malla í gang, en vildi gjarnan að ég kæmi uppeftir í rit ef ég yrði ekki betri eftir rúma klst. af hvíld. Ég átti að taka eina panódíl, fara í heita sturtu og leggjast niður til að slaka alveg á. Þegar ég loksins fékkst til að slappa af fann ég að verkirnir breyttust og þennan eina og hálfa tíma sem ég lá komu vægar hríðar á 3-5 mínútna fresti. Klukkan hálfsex hringdi ég upp á deild og sagði þeim að ég þyrfti ekki að koma uppeftir þar sem ég væri nokkuð viss um að nú væri ég komin í gang. Heimaljósmóðirin sagðist koma eftir klukkutíma svo ég hringdi í manninn minn og sagði honum að hann mætti gjarnan koma með son okkar (4 ára) heim af taekwondo æfingu því fæðingin væri að hefjast. Feðgarnir komu heim og næsta klukkutímann gengum við um íbúðina og gerðum klárt. Mamma mín var hjá okkur hér í Kaupmannahöfn og hún tók strákinn inn í svefnherbergi vopnuð kvöldmat og iPad og þar voru þau í góðu yfirlæti.

Hríðarnar urðu svolítið sterkari og ég andaði mig í gegnum þær á meðan maðurinn minn setti mottur á gólfið, blés upp fæðingarlaugina, kveikti á kertum og gerði almennt kósý. Klukkan hálfsjö kom ljósmóðirin og um leið og hún kom fattaði hún að hún hafði gleymt hönskum. Nú voru góð ráð dýr. Hún þreifaði kúluna, hlustaði á hjartslátt og endaði á að mæla útvíkkun með skrjáfandi nestispoka á höndunum. Mjög notalegt (not). Ég var með tvo í útvíkkun. „Andskotinn“ hugsaði ég og sá fyrir mér langa og stranga nótt og var satt að segja svolítið fúl að vera að fara í gang svona þreytt. Ég var einhvern vegin ekki í „stuði“ til að fara að fæða og langaði til að afþakka pent og fá bara góðan nætursvefn. Það var auðvitað ekki mjög lógískt svo það næstbesta var að sætta sig við orðinn hlut og setja sig í gírinn. Það helltist yfir mig einhver hrollur svo ég skalf eins og hrísla og það var orka sem ég vildi ekki missa, svo ég náði í dáleiðsluæfinguna mína (Adam Eason – mæli með því!), setti á mig headphones og lagðist á gólfið í einbeitingu. Maðurinn minn kom með hitapoka fyrir mig og þarna lá ég og slakaði á. Í hríðunum talaði ég upphátt við sjálfa mig og sagði ýmist: „Já já já já“, „Komdu til mín elska mín – mamma vill fá þig“ eða „Opna opna opna opna“.

Klukkutíma síðar, um hálfátta, voru vaktaskipti hjá ljósmóðurinni og þegar nýja ljósmóðirin kom – með almennilega hanska og ljósmóðurnema í farteskinu – var ég skoðuð aftur og þá komin með 3 cm í útvíkkun. Þá ákvað ég að nú skyldi ég opna mig enn hraðar. Í hverri hríð hugsaði ég: „Þetta eru ekki verkir, þetta eru bara samdrættir. Hér er það ÉG sem ræði. Það er ÉG sem er að framkalla þessa samdrætti. Ekki hugsi-hausinn-ég, heldur líkams-ég, frum-ég. Þetta er minn líkami og hann gerir ekkert sem ég ræð ekki við. Nú ÆTLA ég að opnast og búa til gott pláss fyrir þetta barn.“ Ég fór í baðkarið, það var yndislegt og ég náði góðri slökun þar. Ég notfærði mér „Smertefri fødsel” tækni (mæli með henni!) og maðurinn minn var með mér í hverri hríð – það skipti sköpum. Líkamleg snerting við ástina sína og föður barnsins er besta verkjastilling sem hægt er að hugsa sér. Hann nuddaði ýmist bakið, axlirnar eða hendurnar. Knúsaði mig og kyssti og hvatti áfram. Þegar þarna var komið var ég hætt að fylgjast með klukkunni. Hríðarnar voru vel viðráðanlegar og mér fannst ég fá góða pásu á milli. Við brostum og slógum á létta strengi og stemningin var yndisleg. Ég hugsa að það hafi ekki liði meira en rúmur hálftími þar til ég var komin með 4-5 í útvíkkun og eftir annan hálftíma var ég komin með rúma sex. Við fögnuðum hverjum sentimetra eins og uppáhalds fótboltaliðið okkar hefði skorað sigurmark. Sonur okkar kom tvisvar fram úr herberginu með ömmu að kíkja á hvernig gengi og fannst bara voða spennandi að litla systir væri að koma.

Fljótlega eftir 6 cm var ég farin að fá svolitla rembingsþörf efst í hríðunum og ljósan tók eftir því og sagði mér að halda alls ekki aftur af því – leyfa líkamanum algjörlega að gera það sem hann kallaði á. Belgurinn var ekki sprunginn ennþá og hann bungaði niður í leghálsinn og gaf þessa þrýstingsþörf. Með hverri hríð eftir þetta jókst rembingurinn og á örskotsstundu var ég komin með 10 í útvíkkun og gat þreifað fyrir belgnum og kollinum nokkrum sentimentrum inni í leggöngunum. Þegar þarna var komið hoppaði maðurinn minn ofan í laugina til mín og settist með mig í fangið. Hann tók undan um hnén á mér og hjálpaði mér að halda mér vel opinni í rembingshríðunum. Það kom aðeins ein hríð þar sem ég veinaði af sársauka, en þá þrýsti höfuðið svo harkalega niður að ég vissi ekki út um hvaða gat barnið myndi koma. Ég varð að grípa um klofið á mér til að halda á móti svo hún færi ekki út of hratt.

Í næstu hríð kom svo kollurinn út, ennþá í belgnum og einni hríð síðar runnu axlirnar og restin af búknum út. Við hjónin tókum á móti henni sjálf og tókum hana beint í fangið. Barnið fæddist í sigurkufli, þ.e. ennþá í líknarbelgnum. Hún var með höfuðið örlítið skakkt, þ.e. í stað þess að andlit vísi niður, þá var andlitið inn að læri. Þegar hún var komin á bringuna slitum við gat á líknarbelginn og þá umlaði hún örlítið áður en hún lygndi aftur augunum og kúrði sig í fangið á okkur. Við hlógum og hlógum og táruðumst af gleði – dóttir okkar komin í heiminn í stofunni heima hjá okkur eftir ca. 5 tíma fæðingu kl. 21:51. Það var algjörlega ólýsanlegt að fá að gera þetta svona saman tvö, við stjórnuðum öllu ferlinu og okkur leið svo vel að vera inná fallega heimilinu okkar. Ljósmæðurnar héldu sér alveg til hlés allan tímann, komu af og til og hlustuðu hjartsláttinn hjá barninu og leiðbeindu mér með öndunina í rembingnum en unnu að öðru leyti sitt starf úr fjarlægð.

Jógafæðing 27.06.07

Þriðjudagsmorguninn 26. júní vaknaði ég upp af mjög svo værum blundi, hafði ekki sofið svona vel í nokkrar vikur að því er mér fannst.  Ég var komin 12 daga fram yfir settan fæðingardag og var farin að undirbúa mig fyrir annað hvort gangsetningu eða keisaraskurð fyrir lok vikunnar þar sem ég hafði áður farið í keisaraskurð út af barni í sitjandi stellingu.

En það var eitthvað þennan fallega júnímorgun sem sagði mér að eitthvað væri að fara af stað, ég svona úthvíld og svo var ég að fá einhverja samdrætti og útferð sem var meira áberandi en áður. Hugsið ykkur hvað líkaminn er fullkominn að leyfa manni að hvílast svona vel fyrir það sem koma skal!

Dagurinn leið, ég hafði það bara gott ein heima, las í bók úti á svölum í sólinni og fór svo um klukkan fjögur að sækja son minn á leikskóla og verslaði tvo fulla poka af mat í Nettó.  Verkirnir voru alveg bærilegir, ekkert þannig að þeir heftu mig í neinu þannig.  Klukkan rúmlega sex þegar maðurinn minn kom heim úr vinnu fór þetta að ágerast aðeins, voru komnir á svona 20 mínútna millibili og ég hugsaði með mér að ég þyrfti kannski að fara að huga að því að taka allt til, fá pössun og slíkt ef ske kynni að við þyrftum að fara upp á spítala.  Um þetta leyti fór ég að fá slímkennda blóðuga útferð og hringdi þá upp á fæðingardeild til þess helst að róa manninn minn sem var aðeins farinn að stressast…  Þær sögðu mér að ég væri velkomin til þeirra þegar ég vildi og ég gæti hringt hvenær sem er.  Nú fóru samdrættirnir að vera reglulegri en ég byrjaði þarna strax að anda haföndun og rugga mér í lendunum og fannst þetta bara allt í fínu lagi og áttaði mig á að þetta var bara byrjunin á einhverju miklu lengra ferli.

Klukkan ellefu ákváðum við að kíkja uppeftir svona fyrir nóttina og láta tékka á stöðunni.  Við hittum yndislegan ljósmóðurnema sem tók á móti okkur, hún setti mig í mónitor þar sem kom fram að samdrættirnir (því þetta hétu víst ekki hríðar ennþá) voru enn óreglulegir með svona 10-15 mínútum á milli, allt var enn bærilegt fyrir mig, ég stundaði bara mína haföndun og hrossaöndun og hún hafði strax orð á því ljósmóðirin hvað þetta væri flott hjá mér og ég hlyti að hafa verið í jóga. Þetta varð alveg til þess að ég einbeitti mér ennþá frekar að nota þessa öndun.  En þeim fannst ég ætti að fara heim því að þetta gæti allt eins gengið niður en ef þetta færi að verða reglulegra með 3-5 mínútna millibili þá skildum við koma aftur.  Við fórum heim og mamma ákvað að sofa hjá okkur ef ske kynni að við færum uppeftir aftur um nóttina, það var rosalega gott að hafa hana til öryggis.  Ég fór í bað þarna um miðnættið, rakaði á mér lappirnar og svona og fékk mér svo ristað brauð.  Ég reyndi síðan að fara að sofa en það er skemmst frá því að segja að ég gat aldrei sofnað því að verkirnir fóru strax að verða reglulegri en ég reyndi að slaka vel á á milli verkjanna.  Klukkan þrjú var þetta orðið á svona 5-7 mínútna millibili og ég vakti manninn minn af værum blundi og tilkynnti um brottför.  Mamma hafði orð á því þarna hvað ég væri róleg yfir þessu og hvað þetta jóga sem ég er ekki búin að geta hætt að hrósa hefði greinilega góð áhrif á mig því þarna var ég farin að halla mér fram á hvað sem ég fann næst mér þegar verkirnir komu og anda haföndunina á meðan.

Við vorum komin á Landspítalann klukkan hálf fjögur og þá var bara frekar rólegt hjá þeim og sömu ljósmæður (neminn sem hafði tekið á móti okkur fyrr um kvöldið) og sú sem var yfir henni tóku á móti okkur.  Neminn var svo ánægð að geta boðið okkur flottustu fæðingarstofuna með stórum heitum potti (hún var með glampa í augunum þegar hún sagði þetta við okkur) en hin var fljót að rífa þessa draumsýn niður þegar hún tilkynnti henni að ég væri fyrri keisari og mætti því ekki fara í vatnið.  Ég varð soldið mikið svekkt en þegar næsti verkur kom þá einhvern veginn gleymdist þetta bara og ég  sætti mig við þetta sem ég vissi svo sem áður.  Fékk samt nýja stofu með klósetti inn af og fínni sturtu.  Næstu klukkutímar liðu alveg ótrúlega fljótt.  Ég gat ekki hugsað mér að liggja þannig að ég stóð allan tímann með mónitor nemana utan um mig sem skrásetti hríðarnar (þetta hét það víst þegar þarna var komið).  Hreinsunin úr ristlinum hafði ekki verið mjög mikil þarna um daginn þannig að ég bað um svona hreinsikitt sem var minnsta mál að fá, mér leið allavegna betur með að losa aðeins um.  Einnig reyndi ég að pissa en gat það ekki þannig að það var settur upp þvagleggur sem samt skilaði ekki miklu.  En klukkan sex var fyrst athugað með útvíkkun og hún þá orðin 7 cm, ég trúði því ekki að ég væri komin svona langt án þess að vera eitthvað að drepast úr verkjum og þegar þær sögðu mér að ég myndi kannski bara klára þetta á þeirra vakt fannst mér það ótrúlegt, ég var einhvern veginn búin að ímynda mér að ég yrði þarna allavegna fram undir kvöldmatarleitið næsta dag!  En þessir síðustu 3 sentimetrar urðu þeir erfiðustu í þessu, þær stungu á belginn og þetta urðu verulega miklir verkir upp úr þessu.  Ég stóð alltaf og maðurinn minn hélt í hendina á mér og nuddaði á mér bakið sem mér fannst gott.  Neminn kom með kalda bakstra og lagði á mjóbakið á mér og svo í framan og það fannst mér líka mjög gott, einnig nuddaði hún á mér mjóbakið þannig að hún og maðurinn minn voru á fullu á bakinu á mér í verstu hríðunum og það var mjög gott.  Þegar ég fór svo að röfla um mænudeyfingu þarna örugglega á níunda sentimetranum vildu þær fyrst að ég prófaði glaðloftið, ég samþykkti það á endanum og hóf þá öndunina í grímuna sem var eftir á að hyggja mjög gott. Þarna breytti ég aðeins um og andaði inn um munninn og út um nefið en passaði samt að slaka á í þessum vöðvum sem notaðir eru í hafönduninni.  Þetta tók svona toppinn af hríðunum og um leið einbeitir þetta manni að önduninni.  Þegar klukkan var orðin átta komu nýjar ljósmæður á vaktina alveg jafn yndislegar og þær sem voru fyrir, skipti mig engu máli að fá nýtt sett.  Ég fékk þá nema sem var nafna mín og eldri ljósmóður með henni sem heitir Ágústa, frábærar konur.  Nú var útvíkkunin komin í 10 og Ágústa sagði mér að sleppa nú glaðloftinu enda var svo komið þarna að ég fékk þessa ótrúlegu rembingstilfinningu sem mjög erfitt er að lýsa en ég ætla samt að reyna að það.

Talað er um að merar kasti folöldum og mér fannst að þetta væri svona eins og þegar maður kastar upp þá tekur líkaminn einhvern veginn völdin. En þetta var eins og að kasta niður í stað upp, það bara fara einhverjir innri kraftar af stað og allt ýtist niður. Alveg undarleg tilfinning þegar maður fær þessa rembingstilfinningu og svo bara slokknar á öllu á milli og maður getur þá dregið andann og slakað aðeins á. Eitthvað fannst Ágústu að hríðarnar stæðu ekki nógu lengi yfir þannig að ég fékk dripp til að lengja þær. Hún hafði á orði að ég hefði mjög góða stjórn á þessu og hún gat alveg sagt mér hvenær ég átti að rembast ,,hægt” eða fast.  Hún bauð okkur að snerta kollinn þegar hann sást en við vildum nú hvorugt gera það, ég vildi bara einbeita mér að klára dæmið þegar þarna var komið. En það var mjög uppörvandi þegar hún fór að lýsa öllu hárinu sem hún sá og að þessi færi nú örugglega heim með slaufu. Svo fyrr en varði og miklu fyrr en ég áttaði mig á var stelpan mín komin í heiminn og lá allt í einu á bringunni á mér svo fullkomin að ég trúði ekki eigin augum. Með bústnar kinnar, mikið dökkt hár og langar neglur.  Þetta var allt svo eitthvað náttúrulegt og rólegt og ljósmæðurnar svo öruggar í öllum sínum handtökum að þessi stund hverfur manni aldrei úr minnum.  Fimm mínútum seinna kom fylgjan sem ég fann ekkert fyrir að fæða, við hjónin afþökkuðum líka pent nánari skoðun á henni…Ég fékk að skoða fæðingarskýrsluna mína eftir á og sé að lengd fæðingarinnar minnar er 5 klukkutímar og 22 mínútur og þá er talið frá fyrstu reglulegu hríðunum sem komu hjá mér um klukkan þrjú um nóttina.  Rembingstíminn hjá mér var 32 mínútur og því get ég ekki annað er verið í skýjunum með þessa fæðingu sem ég gæti vel hugsað mér að endurtaka þess vegna strax á morgun… Ég rifnaði eitthvað sem er kallað annars stigs en hún Ágústa var mjög fljót að sauma mig og við kjöftuðum bara öll saman á meðan og maðurinn minn knúsaði stelpuna og hún var mæld og vigtuð.  Við vorum þarna saman á fæðingarstofunni í góða tvo tíma eftir fæðinguna og löbbuðum síðan yfir í Hreiðrið þar sem var yndislega gott að vera.

Ég þakka þessa góðu fæðingarsögu skilyrðislaust jóganu sem ég er búin að stunda síðan í byrjun janúar og þeim frábæra undirbúningi sem ég tel að ég hafi fengið hjá þér Maggý mín. Það má ekki gleyma að þessi andlegi undirbúningur sem fylgir stundun jóga er svo mikilvægur og mun mikilvægari en margar konur grunar.  Að lokum vil ég biðja að heilsa öllum bumbulínunum og gangi ykkur innilega vel!

Heimafæðing yndislegu dömunnar minnar 5.2.2014

Formáli

Þegar ég fékk jákvætt þungunarpróf var ég orðin ákveðin, heimafæðing skyldi það verða. Fyndið að segja frá því að heimafæðingin var löngu ákveðin áður en við ákváðum að fara reyna við næsta barn. Ég hafði hitt Kristbjörgu ljósmóður á seinustu meðgöngu en hún hafði verið að leysa af á heilsugæslunni og man að mér fannst hún mjög indæl. Hafði ég samband við hana um 16. viku og hafði hún áhuga á að taka á móti. Maðurinn minn var alls ekki mótfallinn heimafæðingu, hann hafði meira áhyggjur af hlutum eins og við myndum trufla nágrannanna eða eyðileggja parketið. Eftir stutt spjall við Kristbjörgu var hann líka alveg heillaður af þessum áformum og var mjög gott að hafa hans stuðning í gegnum ferlið sérstaklega þar sem margir í kringum okkur voru ekki eins sannfærðir. Ég fann líka hvað ég náði vel saman við Kristbjörgu og heillaðist af hennar nálgun á meðgöngu og fæðingu sem náttúrulegt ferli sem á að grípa sem minnst inn í, konan gerir þetta alveg sjálf og líkaminn alveg fær um að fæða barnið í heiminn. Ákvað því strax á 16. viku að fara eingöngu í mæðraskoðanir til Kristbjargar til að tengjast og kynnast henni ennþá betur.

Meðgangan gekk mjög vel. Ég var dugleg að mæta í jóga og sund. Fannst það skipta miklu máli að komast út úr húsi öðru hvoru og eiga bara tíma með mér og ófædda barninu. Það átti til með að gleymast í amstri dagsins í fullri vinnu, með eina 2 ára orkubolta og heimili.

Fæðingin sjálf

Settur dagur var 1. febrúar, hann kom og fór án þess að eitthvað gerðist. Kristbjörg kom og kíkti á mig um kvöldið 4. febrúar. Þá var blóðþrýstingurinn búinn að fara hækkandi og fannst prótein í þvaginu. Annars leið mér mjög vel. Sama gerðist á seinustu meðgöngu en hún ætlaði að ráðleggja sig við lækni daginn eftir og ég þyrfti líklegast að fara niður á kvennadeild í monitor. Þetta kvöld varð ég alveg eyðilögð, þarna var ég handviss um að heimafæðing væri ekki í boði fyrir mig og ég myndi enda í gagnsetningu upp á sjúkrahúsi. Ég talaði heillengi við krílið mitt og bað það að fara koma í heiminn þar sem mamman væri aðeins að verða veik. Ég lofaði fullt af knúsum og mjólk í nýja heiminum.

Ég vakna rétt fyrir kl. 6 morguninn eftir þann 5. febrúar með slæma verk. Hélt fyrst að ég væri bara að fá í magann en verkurinn leið hjá og ég náði að sofna. Hálftíma seinna vakna ég upp við sama verk og fór fljótlega að átta mig á því að það væri kannski eitthvað farið að gerast. Vildi samt ekki gera mér neinar vonir, hélt áfram að kúra upp í rúmi, en verkirnir komu og fóru á uþb 15 mín fresti, missterkir. Lét kallinn minn vita að ég grunaði eitthvað og hann sleppti að fara í vinnuna þennan morguninn. Sendi líka sms til Kristbjörgu og sagði henni að það væri kannski eitthvað að gerast og ég átti að láta vita ef þetta myndi aukast. Sendum stóru stelpuna síðan bara í leikskólann en hún var 2,5 árs á þessum tíma.

Verkirnir héldu áfram að vera óreglulegir, og missterkir. Datt einu sinni niður í meira en 40 mín og þá hélt ég að öll von væri úti. Tók samt smá göngutúr með kallinum og eftir hann fór meira að gerast. Gengum meðal annars framhjá leikskólanum þar sem stelpan okkar er og sáum hana leika úti. Kallinn fór í leiðangur að kaupa mat og drykki, birgðir fyrir komandi átök. Fljótlega eftir að hann kom aftur voru verkirnir að verða ansi öflugir og hafði ég misst alla matarlyst. Kallinn byrjaði að undirbúa “hreiðrið” okkar heima, blés upp laugina, setti teppi yfir gluggana og færði til húsgöng. Ég kveikti á kertum og var orðið mjög kósý í stofunni okkar. Kveiktum svo á gamanmynd (Men in Black) og knúsuðum hvort annað. Það var rétt fyrir 12 sem hríðarnar fóru að verða reglulegar og sterkar, 5­7 mín á milli og ég þurfti að anda mig vel í gegnum þá. Fór líka að blæða frá leghálsinu sem er víst bara merki um að hann væri að undirbúa sig og að opnast. Sendi annað sms á Kristbjörgu og hún sagði mér bara að láta mig vita hvenær við vildum fá hana. Við slökktum á sjónvarpinu, kveiktum á Grace disknum og settum myndasýningu í sjónvarpið með myndum af eldri dóttur okkar nýfæddri, svona til að gefa mér innblástur og aukin kraft því þetta var markmiðið, litla barnið okkar.

Mér fannst best í hríðunum að standa yfir skeknum í stofunni og halla mér örlítið fram, Axel stóð fyrir aftan mig og nuddaði mjóbakið með hnefunum eða puttum. Þarna kom nuddkennsla sér vel í jóganum. Í lok hverja hríða hallaði ég mér upp að honum og kyssti hann. Já ég veit, ógeðslega væmna ég, bara hafði rosalega mikla þörf fyrir ást, snertingu og umhyggju. Rúmum 30 mín eftir að ég sendi sms­ið fóru hríðarnar að koma á 3­4 mín fresti og fóru að vera ennþá erfiðari og fór að finna þrýsting niður á við. Sendi þá strax sms og bað hana að koma. Hún kom rétt eftir 13. Hún sá strax að ég væri í fæðingu og ég komst í laugina. Það var himneskt.

Ég byrjaði að halla mér fram með höfuð og hendur á bakkanum og hné við botninn og fann vel hvernig kollurinn færðist neðar í hverri hríð. Eftir nokkur skipti fór ég að fá svo mikinn þrýsting niður í mjóbak að ég gat ekki lengur verið í þessari stellingu og ákvað að fara yfir á bakið og hvíldi höfuðið bakkanum. Þannig náði ég að slaka vel á og fljóta í vatninu. Þarna fór aðeins að lengjast á milli hríða og vill Kristbjörg meina að vatnið hafði verið aðeins of heitt en mér fannst það fínt, gaf mér betri hvíld á milli hríða. Fór síðan að finna kunnuglegan þrýsting niður á við og vissi að þetta færi að klárast. Ég þurfti að nota allan minn kraft til að slaka á þarna niðri til að leyfa hríðunum að gera sitt. Undir lokin fannst mér æðislegt að stynja í hríðunum, þá náði ég að slaka ennþá betur á.

Rembingsþörfin kom smátt og smátt. Kristbjörg sagði mér bara að hlusta á líkamann, ef ég þyrfti að rembast þá myndi ég bara rembast. Hún athugaði aldrei útvíkkunina. Fann hvernig hríðarnar breyttust, og var mikill léttir. Eins og seinast fannst mér rembingurinn mun auðveldari en útvíkkunin. Ákvað til að auðvelda allt að fara aftur í sömu stellingu og ég byrjaði í, því þannig náði ég að opna grindina vel og fann strax að það virkaði. Þannig náði ég líka að halda vel í hendurnar á kallinum mínum og gat kysst hann og knúsað eins og ég vildi. Byrjaði að rembast um 3 leitið og finnst mér alltaf jafn ótrúlegt að finna kollinn fara neðar og neðar. Ég passaði mig að um leið og ég fór að finna fyrir sviða, hægði ég á rembingnum og kollurinn fór aftur inn. Eftir 20 mín af rembing eða kl. 15:20 kom loksins kollurinn. Ótrúlegt að segja þá var það eina skiptið í fæðingunni sem ég missti stjórn á mér og öskraði en vá það var alveg ótrúlegt að þetta væri búið. Var ekki að átta mig að þetta væri búið og ég heyri Kristbjörgu segja fyrir aftan mig, “Mamma ég er komin út, ég þarf einhvern til að taka mig upp” en þá var barnið komið allt út og ég tók það sjálf upp úr vatninu. Væmna ég fór strax að hágráta enda yndislegasta augnablik í heiminum. Litla gullið var mjög rólegt en það andaði alveg strax, og grét stuttu seinna. Við kíktum í pakkann en við vissum ekki kynið á meðgöngunni og sáum strax að við höfðum eignast aðra litla stelpu. Þegar litlan var búin að átta sig á þessum nýja heim fór hún sjálf strax á brjóstið og hefur verið þar síðan. Klárlega besti staðurinn í heiminum.

Síðan vorum við bara í rólegheitum í lauginni og fór upp þegar ég var tilbúin. Fylgjan var ennþá ófædd enda fannst Kristbjörgu alveg óþarfi að koma henni út, hún kæmi út þegar hún væri tilbúin. Ég fór upp í mitt eigið rúm með dömuna og við litla fjölskyldan fórum að kynnast. Á meðan gengu Kristbjörg og ljósmóðurneminn sem hafði verið viðstaddur frá stofunni. Þegar ég fór fram þá var ekki að sjá að þarna hefði verið fæðing. Rúmlega 1,5 klst eftir fæðinguna kom fylgjan og það þurfti ekkert að sauma. Stelpan var vigtuð og mæld, 13 merkur og 51,5 cm. Algjörlega fullkomin.

Eftirmáli

Ég vissi hreinlega ekki að það væri hægt að eiga draumafæðingu. Þessi reynsla mín er gjörólík þeirri fyrri og það er tvennt ólíkt að eiga rólega heimafæðingu þar sem líkaminn fer sjálfur af stað heldur en að þurfa hríðaraukandi lyf til að koma ferlinu af stað eins og ég lenti í seinast. Mér fannst dásamlegt að geta kynnst eingöngu einni ljósmóður í gegnum allt ferlið, sem þekkir mann og óskir. Ég er óendanlega þakklát að hafa tekið þá ákvörðun að eiga heima og vera í mínu umhverfi þar sem ég er á heimavelli. Maðurinn minn er líka sammála því. Þetta var yndisleg upplifun frá byrjun og til enda og svíf ég á bleiku skýi þessa dagana. Lífið er sannlegar dásamlegt.

Fæðing í faðmi fjölskyldunnar

Þegar ég komst að því að ég væri ófrísk kom ekkert annað til greina en heimafæðing. Mig langaði að eiga draumafæðinguna mína, hafa hlutina eftir mínu höfði og vera stjórnandi en ekki þátttakandi í eigin fæðingu.

Ég setti mig strax í samband við Áslaugu Hauksdóttur ljósmóður og hitti hana á seinnihluta meðgöngunnar. Meðgangan gekk þokkalega eins og gengur og gerist, þurfti að vera í auknu eftirliti, en stefnan var alltaf á heimafæðingu hvað sem á dundi. Ég las og las og drakk í mig allan þann fróðleik sem ég gat fundið. Við hittum líka hana Eydísi doulu og það hjálpaði líka rosalega mikið að undirbúa eins yndislega og persónulega fæðingu og hægt var.

Þegar ég vaknaði 14. apríl grunaði mig ekki hvað sá dagur bæri í skauti sér. Hann var nokkuð frábrugðinn dögunum á undan. Ég var pirruð yfir því að ekkert væri að gerast hjá mér og sannfærð um að ég myndi enda á því að ganga framyfir 40 vikur. Þennan dag vildi ég bara vera ein og alls ekki að neinn væri í kringum mig. Svo fór ég bara að sofa á mínum venjulega tíma um kvöldið, talaði við bumbuna og bað drenginn vinsamlegast um að fara að koma sér í heiminn, það væru allir að bíða eftir honum.

Um klukkutíma seinna kl. 12.30 eftir miðnætti, 15. apríl, vaknaði ég við það að það var eitthvað að leka á milli lappanna á mér og var svolítið mál að pissa. Ég stóð þá upp og fór fram á bað og þegar ég ætlaði að stíga yfir þröskuldinn inn á baðið kom væn skvetta af legvatni. Ég var nú samt ekki sannfærð um að þetta væri legvatn, hélt svo sem alveg að ég væri að pissa á gólfið. Ég fór aftur upp í rúm og ætlaði að halda áfram að sofa. En við hverja hreyfingu lak alltaf meira og meira.

Þá vaknaði Daði við bröltið í mér og við vorum nokkuð viss um að nú færi þetta að gerast. Ég fór að fá aðeins sterkari verki, ekki reglulega, en á svona 4-6 mínútna fresti. Ég hringdi og lét Áslaugu vita að þetta væri að byrja hjá okkur. Ég fann samt að þetta var ekki að fara að gerast alveg strax svo mér fannst ég ekki þurfa að fá hana alveg strax til okkar. Ákvað að reyna að hvíla mig eitthvað smá, en það gekk nú ekkert svo rosalega vel. Ég tók til spítalatöskuna ef til þess kæmi að ég þyrfti að fara þangað. Fór fram og settist á grjónapúða og reyndi að slaka vel á. Hlustaði á tónlistina mína og reyndi að undirbúa mig fyrir átökin framundan.

Daði fór í að undirbúa heimilið. Hann blés í sundlaugina og kveikti á kertum og gerði allt svo kósí fyrir okkur. Um klukkan 3 hringdi ég svo í Áslaugu og hún kom stuttu seinna. Hún tók aðeins stöðuna sem var bara fín, þrír í útvíkkun, samdrættirnir á 2-4 mínútna fresti en ekkert svo vondir. Bjóst samt eiginlega við meiri útvíkkun og leið hálf kjánalega yfir því að hafa kallað svona snemma í hana.

Hún smellti svo nál á milli augnanna á mér sem átti að hjálpa til við slökunina og sagði okkur að reyna að hvíla okkur bara inni í rúmi og lagði sig svo sjálf í sófanum. Við fórum þá bara inn í herbergi og reyndum að hvíla okkur, ég sat uppi í rúmi og verkirnir byrjuðu að verða verri þarna en ekkert óbærilegir og ég andaði mig bara í gegnum þá. Lilja Bríet dóttir okkar, sem þá var fjögurra ára, vaknaði þarna og var ótrúlega spennt yfir því sem var að gerast. Kallaði inn í bumbuna og sagði litla bróður að drífa sig.

Um kl. 04:30 voru verkirnir orðnir frekar vondir og ég vildi fara í laugina. Það var alveg ótrúlegt hvað það var gott! Að geta hreyft sig að vild og slakað vel á var einmitt það sem ég þurfti á að halda. Ég svamlaði svo bara í lauginni og andaði og slakaði. Lilja Bríet og Daði gáfu mér kalda þvottapoka á ennið og Áslaug kom öðru hvoru til mín og tók hjartsláttinn hjá barninu. Hún rétt snerti magann til að finna samdrættina og notaði sinn innbyggða „mónitor” til að meta þá. Annars hélt hún sig bara til hlés og fylgdist með úr fjarlægð.

Klukkan 5 kom Arnbjörg vinkona mín til að líta eftir Lilju og þær dunduðu sér bara í stofunni, kíktu til mín öðru hverju og fóru svo bara inn í herbergi. Stuttu seinna fann ég að þetta var að fara að gerast, litli kútur vildi greinilega fara að komast í heiminn. Síðustu þrjár hríðar fyrir rembing komu hver á eftir annarri, voru langar og vondar og eina sem ég gat hugsað um var að fá smá hvíld fyrir rembinginn því mér fannst ég vera svo þreytt. Bara 5 mínútur var allt sem ég þurfti til að safna kröftum, en það var víst ekki í boði.

Daði hoppaði ofan í laugina til mín og tók sér stöðu fyrir aftan mig. Hann hélt undir handleggina á mér og ég hálf sat/stóð í vatninu. Í þremur hríðum og á 7 mínútum kom drengurinn syndandi út í vatnið, kl. 05:37. Ég veiddi hann sjálf upp úr og settist beint í fangið á Daða. Hann var kominn! Og hann var svo rólegur og dásamlegur, en skemmtilega brúnaþungur. Grét ekki en lét bara rétt heyra í sér að það væri allt í lagi með hann. Lilja Bríet kom þá hlaupandi innan úr herbergi og hoppaði ofan í til okkar.

Áslaug beið svo bara á hliðarlínunni, tilbúin að grípa inn í ef til þess kæmi. Þvílíka upplifunin að hafa alla fjölskylduna og æskuvinkonu hjá sér á þessu ótrúlega augnabliki. Og þessa dásamlegu ljósmóður sem veit upp á hár hvað hún er að gera. Lætur manni líða svo vel, eins og maður sé eina konan í heiminum sem er gerð til að fæða börn og engin geti gert það betur! Hvetur mann áfram á mildan og mjúkan hátt og leyfir manni að finna sínar eigin leiðir og treysta á sitt eigið innsæi. Er ekki sífellt að tékka á útvíkkun, gerði það bara þegar hún kom og svo ekkert aftur. Trúði því bara að þegar ég sagðist þurfa að rembast, þá var ég komin með fulla útvíkkun og mátti byrja.

Við lágum svo bara þarna í smá stund og dáðumst að nýja fjölskyldumeðlimnum. Um korteri seinna fæddi ég fylgjuna og við skoðuðum hana. Það sem Áslaugu þótti merkilegt við fæðinguna var að það blæddi ekki dropa af blóði, hvorki þegar ég fæddi barnið né fylgjuna. Ég fór svo upp í rúm og litli kútur kom á brjóstið og drakk eins og hann hefði aldrei gert neitt annað. Svo var einhver smáræðis saumaskapur og á meðan voru feðgarnir og stóra systir að skoða hvert annað. Þau hjálpuðust svo að frammi við að ganga frá og svo borðuðum við öll saman áður en Áslaug og Arnbjörg héldu út í morgunsólina.

Litla fjölskyldan fór öll upp í rúm að kúra eftir þessa viðburðaríku og skemmtilegu nótt. Hún gleymist aldrei.

Sagan var upphaflega birt á pressan.is

Fæðing Viktors

Ég hafði ekki sagt neinum settan dag og af því við fjölskyldan vorum í sumarfríi var ég næstum hætt að fylgjast með dögunum sem liðu hver af öðrum. Það var því engin pressa. Mér leið vel og vissi að ekki þýddi að miða of mikið við dagatalið, seinast hafði ég gengið 41 viku og 6 daga.

Við Kristbjörg ljósmóðir vorum báðar afslappaðar og miðuðum hálft í hvoru við að ég gengi vel og lengi með, eins og í fyrra skiptið.

Ég vaknaði á fallegum miðvikudegi, gengin 40 vikur og 3 daga. Mágkona mín kom og sótti mig undir hádegið og við fórum saman í jógatíma til Auðar. Ég ákvað að skella mér á töfradýnuna í horninu, mér fannst það einhvern veginn viðeigandi í þetta skiptið. Ég tók orð Söru jógakennara um að við skyldum hlusta á líkamann bókstaflega og lagðist snemma undir teppið í slökun og naut þess sem ég vissi að myndi verða einn af mínum síðustu tímum í meðgöngujóga.

Eftir hádegið fórum við litla fjölskyldan í búðarferð, keyptum auka lak á hjónarúmið og bleyjupakka fyrir nýbura. Planið var svo að baka hafrakex eftir að minn 2 ára færi í háttinn um kvöldið. Það varð lítið úr bakstrinum því ég var svo þreytt í mjóbakinu upp úr klukkan 7 að ég treysti mér varla til að standa. Ég lagðist því bara upp í sófa og fór að horfa á sjónvarpið meðan eiginmaðurinn straujaði skyrtur og ungbarnarúmföt.

Rétt upp úr kl 10 um kvöldið fann ég sting niður og fannst ég heyra smell. Í nokkrar mínútur þorði ég ekki að hreyfa mig og sagði manninum mínum að þetta hefði nú verið eitthvað undarlegur stingur. Það var svo ekki fyrr en ég stóð upp úr sófanum sem ég fann vatnið leka. Maðurinn minn stökk og náði í handklæði og rétti mér svo síma til að hringja í Kristbjörgu. Seinast hafði fæðingin líka byrjað með því að vatnið fór, ég hafði búið mig undir að núna yrði þetta öðruvísi og að reglulegar bylgjur myndu segja mér að ég væri komin af stað. Mér var því nokkuð brugðið. Kristbjörg kom, allt leit vel út og litla krílið loks skorðað.

Ég fór upp í rúm til að reyna að hvílast, því ég bjóst við að fljótlega færi allt að gerast, þannig var það síðast. Ég hlustaði á Hypnobirthing slökunina og valin lög af playlistanum. Ég náði að dotta smá. Hægt og rólega fóru bylgjurnar að gera vart við sig og ég tók brosandi á móti þeim með djúpri öndun. Á einhverjum tímapunkti fann ég að bylgjurnar voru orðnar of sterkar til að eg gæti tekið á móti þeim útaf liggjandi og fór á fjóra fætur. Um svipað leyti fór ég að hnippa í sofandi eiginmanninn, hann svaf í gegnum stunurnar frá mér. Hann ræsti Kristbjörgu í annað sinn, lagði hitapoka á mjóbakið sem var enn jafn þreytt og gaf mér fiðrildanudd (e. light touch massage). Ég tók aldrei tímann á milli hríða, hafði augun lokuð og lét mér líða vel í eigi heimi.

Þegar Kristbjörg kom bauð hún mér að fara í laugina sem ég þáði. Á leið minni inn í stofu vissi ég að ég myndi ganga fram hjá eldhúsklukkunni en mér fannst skipta miklu máli að vita ekki hvað klukkan væri. Ég vissi að það myndi ekki hafa góð áhrif á mig að komast að því hvort langt eða stutt væri síðan vatnið fór, annað hvort myndi ég upplifa að fæðingin væri að ganga hratt fyrir sig sem myndi gera mig órólega eða að ég upplifði að ég væri búin að vera lengi í fæðingu og myndi þá meðvitað fara að þreytast eða vorkenna sjálfri mér. Ég vissi semsagt ekkert á þessarri stundu hvort ég hefði legið uppi í rúmi í eina klukkustund eða sex. Tímaleysið hafði þjónað mér vel í síðustu fæðingu og ég vildi að það gerði það líka núna.

Vatnið var notalegt en það var ég að prófa í fyrsta skipti. Ég man ég hugsaði þegar ég fór ofan í laugina að þegar ég færi upp úr þá myndi barnið vera fætt og þessarri meðgöngu lokið. Mér fannst það að vissu leyti leiðinlegt því ég hafði notið mín á meðgöngunni. Ég dúaði og vaggaði í vatninu í bylgjunum og reyndi að nýta mér þyngdarleysið. Ég var einnig í dágóða stund að finna þægilegustu stellinguna, átti í einhverjum vandræðum með hvernig ég vildi hafa hnén meðan ég hallaði mér yfir brúnina á lauginni og var því á smá iði. Mér finnst eins og fljótlega eftir að ég fór ofan í laugina að það væri kominn þrýstingur niður í toppunum á bylgjunum og Kristbjörg hafði orð á því. Ég leyfði líkamanum að stjórna og ýtti ekki með. Mig grunar að Kristbjörgu hafi eitthvað verið farið að lengja eftir því að eitthvað meira gerðist og bað mig að snúa mér við svo hún gæti skoðað leghálsinn. Hún sagði að allt væri mjúkt en það væri brún á leghálsinum. Fyrir mér þýddi þetta að rembingurinn væri ekki tímabær og frekar að trufla, ég þyrfti að einbeita mér að því að opna betur. Ég ákvað að prófa að fara á klósettið en gat ekkert pissað. Mér til mikils léttis duttu bylgjurnar niður meðan ég var á klósettinu, það kom svona eins og pása. Ég heyrði að strákurinn minn var vaknaður og var að koma niður. Hann var mjög glaður þegar hann sá mig koma út af klósettinu enda hafði hann komið að mömmu og pabbarúmi auðu og vissi ekki alveg hvað var í gangi. Einhver reyndi að útskýra fyrir honum að mamma væri upptekin meðan ég fékk aðstoð við að komast aftur ofan í laugina. Að mamma væri í sundlaug inni í miðri stofu vakti sko heldur betur áhuga en hann skynjaði samt að það væri eitthvað sérstakt í gangi, hélt ró sinni og strauk mér nokkrum sinnum áður en hann var lokkaður inn í eldhús með ABT mjólk. Amma hans kom svo innan fárra mínútna og sótti hann.

Fljótlega fór allt af stað aftur. Ég ímyndaði mér að leghálsinn væri eins og lítil gúmmíteygja og að hún stækkaði og það teygðist á henni í hverri bylgju. Tilfinningin í líkamanum var einhvern veginn þannig. Ef ég fann að bylgjan var sterk fór ég að fnæsa eins og hestur til að hemja rembinginn. Ég vildi ekki rembast því mér fannst rembingurinn þreyta mig. Ég reyndi líka að vagga mjöðmunum, dúa í vatninu, hreyfa fæturna og vera á einhvers konar hækjum, það virtist hjálpa mér að vera á smá hreyfingu. Þetta var samt stutt stund, fæðingarskýrslan segir 10 mínútur. Skyndilega fann ég svo barnið bara næstum detta niður fæðingarveginn í einni hríð og kollinn þrýsta á spöngina. Síðast hafði ég verið lengi að mjaka barninu neðar og neðar og mér fannst þetta því vera að ganga vel og örugglega fyrir sig, þakkaði fyrir í hljóði og sagði ,,kollur’’ við manninn minn og Kristbjörgu.

Ég leyfði líkamanum að stjórna ferðinni í kollhríðunum, einbeitti mér að önduninni og sagði sjálfri mér að taka mér þann tíma sem ég þyrfti, hægt og ljúft myndi verða þægilegast. Ég tengdist barninu mjög vel þegar ég fann svona vel fyrir kollinum. Alltaf þegar ég upplifði að það gæti ekki teygst meira á mér kom næsta hríð og afsannaði það. ,,I am big’’ eins og Ina May segir. Að lokum fæddist kollurinn og svo allt barnið í næstu bylgju, fæðingarskýrslan segir að þetta hafi tekið 30 mínútur. Ég sneri mér við í lauginni, tók barnið mitt upp og í fangið. Þetta var strákur.

Ég fæddi fylgjuna í sófanum hálftíma seinna, á sama tíma og ég lagði drenginn minn á brjóst í fyrsta skipti. Spöngin var heil. Ég bað um að stóri strákurinn minn fengi að koma og hann mætti galvaskur og glaður og fannst afar spennandi að sjá þetta litla barn drekka mjólk hjá mömmu sinni. Pabbinn klippti svo á naflastrenginn og mamma og litla kríli sofnuðu vært í sófanum.

Fæðingarsaga Rökkva

Formáli

Í maí 2011 eignuðumst við stelpuna okkar. Meðgangan hafði verið frábær og ég uppfull af bjartsýni og tilhlökkun fyrir fæðingunni. Hafði ofurtrú á náttúrunni og datt ekki annað í hug en að líkami minn réði vel við fæðingu. Frá upphafi var stefnt að heimafæðingu, enda sá ég lítinn tilgang með að innritast á sjúkrahús nema þurfa aðhlynningu og verkfæri lækna. Sem blessunarlega minnihluti fæðandi kvenna þarf.

Náttúran hins vegar brást mér í það skipti. Fæðingin var óhemju löng og erfið. Höfuð barnsins kom skakkt niður – sem olli hægum framgangi þrátt fyrir kröftugar hríðir, og óskaplegu álagi á mjóbakið. Eftir hátt í sólarhringslanga fæðingu festist ég með 8 cm í útvíkkun í þrjá tíma og varð að sættast á að þessi fæðing yrði ekki kláruð án mænudeyfingar. Að losna við lamandi sársaukann eftir þennan erfiða sólarhring var heldur betur léttir, en seint verður þó sagt að spítalafæðingin hafi verið góð upplifun.

Líkt og örmagna foreldrarnir réð stelpan okkar illa við þessa löngu fæðingu og stuttu eftir komuna á LSH fór hún að sýna streitumerki, svo vel þurfti að fylgjast með hjartslætti og sýrustigi hennar í nokkra klukkutíma. Eftir þriggja tíma árangurslausan rembing var loks ákveðið að draga hana út með sogklukku. Við munum seint skilja af hverju beðið var svo lengi með inngrip, því í kjölfar þessa álags fæddist Ronja mín með aðeins 3 í apgar. Eftir nokkrar sekúndur á mömmubringu fór hún á vökudeild og þurfti þar vikudvöl til að jafna sig. Við vorum óskaplega heppin með sterku og kröftugu stelpuna okkar sem er fullkomlega heil í dag. Ekki eru allar fjölskyldur svo heppnar og auðvelt að verða fyrir súrefnisskorti í þess háttar fæðingu. Starfsfólk vökudeildar bað okkur að vera þakklát fyrir að stúlkan kom út þarna en ekki einni hríð síðar.

Minningin um fæðingarverki dofnar merkilega fljótt, en ennþá herpist maginn saman við að rifja upp fyrstu tvo tímana í lífi dóttur minnar – sem hún eyddi í hitakassa fjarri mömmulíkama sem hún hafði alla tíð tilheyrt. Að ég tali nú ekki um næturnar sem við eyddum heima á barnlausu heimili meðan skonsan dvaldi á vökudeild. Það var eins og rífa úr sér líffæri og skilja það eftir hjá ókunnugum (sem reyndust þó dásamlegar konur sem sinntu gullinu okkar vel í fjarveru foreldranna). Þá er ekki hægt að segja að sængurlegan hafi verið notaleg upplifun, við virðumst hafa verið sérdeilis óheppin með vinnubrögð starfsfólks (ef marka má reynslu margra annarra). Þrátt fyrir að vera þar nær vökubarninu mínu en heima, var ég afar fegin þegar ég yfirgaf sængurkvennaganginn og langaði aldrei þangað aftur.

Haustið 2013 fannst okkur kominn tími á fjölgun í fjölskyldunni – sem mætti við fyrsta kall. Þrátt fyrir að vera plönuð og hjartanlega velkomin viðbót, fengum við hálfgert áfall við að átta okkur á að nú væri aftur komið að fæðingu. Þá tók við talsverð vinna. Svo sem fundir með alls kyns fagfólki og yfirmönnum spítalans til að reyna að skilja vinnubrögðin úr síðustu fæðingu (sem enginn gat reyndar útskýrt en afsökunarbeiðnir var ljúft að heyra) og fá loforð um að næst yrði ólíkt brugðist við og engin óþarfa áhætta tekin með líf barnsins okkar.

Í þetta skipti var alls ekki á tæru hvar ég vildi fæða barnið, því síðasta heimafæðing reyndist líkamanum ofviða og spítalafæðingin var ömurleg upplifun. Það var óskaplega erfið staða að treysta engum fæðingarstað almennilega, og hefði ég gefið mikið fyrir bjartsýnina frá fyrri meðgöngu þegar engar erfiðar minningar þvældust fyrir. Það var loks þegar mér veittist sá heiður að ljósmynda heimafæðingu að ég ákvað að stefna þangað aftur. Sú mamma hafði átt svipað erfiða fæðingu og ég sama sumarið, en átti núna mun styttri og viðráðanlegri fæðingu. Að verða vitni að því eyddi loks þeim ótta mínum að ég væri kannski alls ekki byggð fyrir fæðingar og dæmd til að mistakast. Ég ákvað að við hefðum bara verið hrikalega óheppin og líkurnar á að vel gengi næst væru sannarlega okkur í hag. Þungu fargi var létt af mér við taka loks ákvörðun um fæðingarstað, og finna aftur til jákvæðni og tilhlökkunar.

Heimafæðinguna nálguðumst við þó á annan hátt en síðast. Okkur fannst mikið atriði að hafa aftur sömu ljósmæður sem vel þekktu söguna okkar, og ákváðum að hafa alla þröskulda fyrir inngripum lægri og tímamörk styttri. Í þetta skipti ætlaði ég að vera með fullri meðvitund á þeirri stóru stund þegar ég fengi barnið mitt í fangið en ekki út úr heiminum af örmögnun. Og mikilvægast af öllu var að nú skyldi ég fá drenginn minn í fangið og missa hann ekki þaðan aftur. Fæðingin skyldi öll miða við að leggja sem allra minnst á barnið mitt og forða því frá aðskilnaði frá mömmu sinni.

Með hverjum deginum sem styttist í fæðingu varð kvíðinn minni og tilhlökkunin meiri. Ekki síst hjá þeirri þriggja ára sem beið spennt eftir að verða stóra systir og ætlaði að gefa litla barninu sumt dótið sitt, hálft rúmið og alla þá kossa sem hún ætti til. Við vorum tilbúin fyrir litla bróður og tilbúin í aðra fæðingu.

Heimafæðing með smá spítalastoppi

Að morgni 19. júlí fór ég á fætur dauðþreytt og grautfúl yfir að hríðir næturinnar höfðu algjörlega dottið niður. Hafði reyndar ekki fengið mikinn svefnfrið síðustu nætur fyrir æfingarhríðum, en í þetta skiptið var ég handviss um að um alvöru hríðir væri að ræða og gapti af undrun yfir að allt dytti niður um morguninn. Bugaðist alveg og fannst eins og þetta barn kæmi aldrei út. Ennþá átti ég raunar þrjá daga í settan dag, en óttaðist að þegar loks kæmi að fæðingunni yrði ég örmagna eftir svefnleysið og réði ekkert við álagið. Aðrar reyndu að hughreysta mig með að allar þessar æfingar væru pottþétt að gera sitt gagn og stytta þar með sjálft fæðingarferlið, en mér gekk illa að trúa því þar sem ég hafði ekkert grætt á margra vikna fyrirvaraverkjum í löngu fæðingu dóttur minnar. Í fýlukasti fór ég ein út að labba í mígandi rigningunni og stoppaði lengi fyrir utan hús þar sem nýburi grét sárt. Eflaust erfitt hljóð í eyrum þeirra nýbökuðu foreldra, en mikið þráði ég að fá minn eigin vælandi kveisustrump í fangið.

Dagurinn leið og seinnipartinn byrjuðu samdrættirnir aftur, svo ég bjó mig undir aðra vökunótt. Enn í fýlu dró ég fjölskylduna út í bíl um kvöldið, varð að komast út úr húsi og hressa mig við. Við enduðum heima hjá foreldrum mínum þar sem systa og fjölskylda höfðu nýlokið við að borða dýrindis gæsabringur (hey takk fyrir að bjóða okkur!). Við borðuðum afganga og sóttin harðnaði smátt og smátt. Ég tók tímann á milli og þegar hríðirnar komu á 3-6 mínútna fresti ákváðum við að halda heim. Til öryggis þáðum við að Ronja myndi gista hjá frænku sinni, en ennþá þorði ég ekki að treysta á að þetta væru ekki plathríðir.

Heima fórum við í rúmið, staðráðin í að ná smá hvíld ef fæðingin væri í rauninni að skella á – óþægilega minnug þess hversu löng og lýjandi síðasta fæðing var. Sá blundur varð hins vegar mjög stuttur því sóttin harðnaði hratt. Við færðum okkur því inn í stofu í kringum miðnætti og gerðum heimilið fæðingarvænt. Ég kveikti á kertum um allt, setti á bíómynd og hrúgaði dýnum, púðum og teppum á gólfið. Ég lét ljósmæðurnar vita af yfirvofandi fæðingu en þurfti þó ekki á þeim að halda strax, hríðirnar voru vel viðráðanlegar með nuddi frá mínum ástkæra. Eftir eina bíómynd voru samdrættirnir farnir að taka slatta á, svo ég ákvað að dýfa mér ofan í baðkarið. Þar var yyyndislegt að vera. Hríðir á landi og hríðir í heitu vatni eru bara algjörlega sitthvor hluturinn! Eftir notalega stund í baðinu sá ég laugina í hillingum, bað Konna að blása hana upp og boða svo ljósurnar til okkar þar sem ég vildi innri skoðun áður en ég færi ofan í.

Arney og Hrafnhildur mættu kl. 2:45. Stuttu áður en þær komu snarbreyttist sóttin og allt varð skyndilega erfiðara. Ég skalf eins og hrísla, ógleðin helltist yfir og allar góðu gæsabringurnar enduðu í skúringafötunni. Þegar ég náði þessum ælu/skjálfta-punkti í síðustu fæðingu höfðu ljósmæðurnar þegar eytt heilum vinnudegi í að aðstoða mig í gegnum hríðirnar, svo ég ætlaði barasta ekki að trúa því hversu hratt þetta gekk. Innri skoðun staðfesti það en leghálsinn var kominn í góðan fæðingargír og útvíkkun komin í 6 cm! Sem hljómar kannski ekki merkilega í eyru margra mæðra… en voru himneskar fréttir fyrir konu sem áður þurfti 18 tíma hríðir til að ná þessum áfanga. Útvíkkunarsexan fyllti mig orku og trú á að ég væri í raun og veru að upplifa viðráðanlega fæðingu, og að þetta barn ætti góðan sjens á að fæðast heima án inngripa. Þarna voru bara örfáir tímar síðan hríðirnar urðu reglulegar og varla nema klukkustund síðan þær urðu erfiðar, svo greinilega höfðu andvökunæturnar gert sitt gagn (sorrý vantraustið kæru æfingarhríðir!).

Laugin var næst á dagskrá og þótt hríðirnar yrðu sífellt erfiðari urðu þær aldrei óviðráðanlegar. Fæðing er ansi hreint auðveldara verkefni þegar hún er það stutt að konan er langt frá örmögnun. Þegar ég bað um að drekka var mér alltaf rétt sama orkudrykkjarflaskan og ég hafði sjálf opnað í byrjun fæðingar. Þetta gladdi mig kjánalega mikið, því með gömlu 30 tíma fæðinguna í huga hafði ég keypt cirka tíu flöskur. Það fleytti mér langt í jákvæðu hugarfari að þetta ætlaði að verða „baraeinnarflöskufæðing“. Mestu munaði þó um að á milli hríða kom alltaf pása. Algjörlega sársaukalaus pása! Þetta var mér ný reynsla því síðast ýtti skakka höfuð dóttur minnar á rófubeinið en ekki leghálsinn, sem olli gríðarlegum sársauka í bakinu sem hvarf ekkert þó hríðin gengi yfir. Ég hafði mikla þörf fyrir að heyra uppörvandi orð – vera minnt á hvað hlutirnir væru að ganga hratt og vel, og að nú væri örstutt eftir. Svo ýmist sagði ég mér þá sjálf eða bað viðstadda að tyggja þetta ofan í mig. Orð eru svo kröftugt tæki.

Eftir tæpan klukkutíma í lauginni voru hríðirnar orðnar tussuerfiðar svo ég bað um innri skoðun. Ég hafði löngu ákveðið að grípa mun fyrr inn í ferlið en síðast, og hafði því þörf fyrir að vita nákvæmlega hvernig staðan væri. Ennþá brotin af fyrri reynslu óttaðist ég að þetta síðasta og erfiðasta tímabil útvíkkunarinnar yrði alltof langt fyrir mig að þola. Þá hafði tekið sex tíma að ná útvíkkun frá 6 cm í 10 cm – og á þessu tímabili færðum við okkur á spítala. Arney stakk upp á að klára næstu hríð og koma svo inn í rúm að tékka á útvíkkun… REEEEEMMMB! Skyndileg rembingsþörfin staðfesti að skoðun væri óþörf, útvíkkun var greinilega að klárast – bara klukkustund eftir að ljósmæðurnar mættu og mátu útvíkkun í 6 cm. Vúhú!!

Rembingsþörf var mér glæný upplifun. Síðast tók mænudeyfingin alla tilfinningu fyrir fæðingunni, og úrvinda rembdist ég í þrjá tíma – undir stjórn ljósmóður en ekki náttúrunnar – án þess að barnið haggaðist og loks var það sogklukka sem dró hana út. Mér líður því ekki eins og ég hafi í raun fætt stelpuna mína. Að upplifa þessa náttúrulegu rembingsþörf var allt önnur ella, og alveg eins og mamma hafði sagt mér fyrr um kvöldið – er hægt að grípa hríðina í kviðnum og færa hana niður í legháls, breyta henni úr sársauka í þrýsting. Nú þurfti ekki lengur að umbera kvalirnar heldur var hægt að nota þær í eitthvað gagnlegt. Að upplifa slíka stjórn á krafti náttúrunnar fannst mér mögnuð upplifun.

Rembingurinn tók þrjú korter og þarna tók þessi draumafæðing mín smá U-beygju, því mér fannst algjört helvíti að koma höfðinu út. Yfirveguð dönnuð kona breyttist í leiðinda væluskjóðu með endalaust: Are we there yet? Are we there yet? Í trylltum sársaukanum hélt ég mér fast í setningu sem ég hafði stuttu áður lesið í einni fæðingarbókinni: „Enn hefur engin kona rifnað í tvennt og þú verður ekki sú fyrsta“. Óttalega kjánaleg lesning svona í huggulegheitum á þriðjudagskvöldi – en bráðnauðsynleg vitneskja þegar barnshöfuð virtist í raun vera að gera sitt besta til að rífa mig í tvennt. Þarna varð mér líka hugsað til nágrannanna sem mér þótti betra að láta vita af yfirvofandi heimafæðingu. Flestir myndu jú líklega hringja á lögreglu eða banka upp á til að aðstoða nágrannakonu sem öskraði af lífs- og sálarkröftum á einhvern í íbúðinni sinni að DRULLA SÉR ÚÚÚÚÚT!!! Loksins var höfuðið úti og annan eins létti hef ég aldrei áður fundið. Með höfðinu fylgdi handleggur sem reif mig illa. Takk sonur, þú átt rassskellinn inni.

Mun minna mál var að ýta búknum út og skyndilega var drengur í fangi mér. Önnur ljósan opnaði munninn til að róa okkur með að stundum tæki nýbura smá tíma að taka við sér – en í sömu andrá opnaði hann sjálfur munninn og gargaði hressilega í góða stund. Vildi sjá um það sjálfur að fullvissa foreldra sína um að í þetta skipti ættu þau alheilbrigt barn með toppeinkunn sem þyrfti ekki á vökudeild eins og stóra systir sem fæddist líflaus. Mömmuhjartað jafnar sig aldrei alveg á þeirri minningu að skilja við glænýja barnið sitt, svo þarna rættist minn æðsti draumur fyrir þessa fæðingu – barnið mitt færi ekki fet frá mér.

Ég naut þess þó ekki lengi að dást að gaurnum mínum því fljótt helltist yfir mig hrikalegur sársauki í rófubeininu. Það var þessi sársauki sem hafði gert síðustu fæðingu hvað erfiðasta, en í þessari höfðu bakverkir verið blessunarlega fjarri. Á sínum tíma var ég lengi að jafna mig í mjóbakinu eftir fæðinguna, og við að remba öðru barni út virðist hið skaddaða rófubein hafa fengið flashback aftur í tímann og laskast á ný. Eftir að fylgjan var fædd og Konni hafði skilið á milli var ég leidd inn í rúm. Við bakverkinn bættust nú við mjög harkalegir samdráttarverkir svo ég hélt áfram að garga af kvölum. Kræst! Á ekki fæðingu að vera lokið á þessum tímapunkti?? Ég fékk verkjalyf, bakstra og nálastungur við verkjunum og lagði drenginn á brjóst. Hann leitaði ákafur og þolinmóður þar til hann náði fyrsta sopanum. Þetta var enn önnur ný reynsla í bankann, þar sem litla vakan okkar hafði verið of örmagna fyrir brjóstagjöf og fengið næringu í sondu fyrstu vikuna sína.

Illa staðsetti handleggurinn hafði ekki farið vel með neðri partinn á mér og hófust ljósurnar nú handa við saumaskap á meðan snúður svaf sultuslakur í pabbafangi. Mínar afar vandvirku ljósmæður taka saumaskap alvarlega og eyddu næstum klukkutíma í að sauma mig saman. Rófubeinsverkurinn + samdráttarverkirnir + potið og stungurnar í sundurrifið klofið var aaaðeins of mikill sársauki fyrir eina litla konu sem fannst hún alveg eiga skilið smá breik eftir afrek næturinnar. En þá var allavega huggun í að horfa á fallega drenginn sinn á meðan. Á endanum urðu ljósmæðurnar að játa sig sigraðar. Rifan virtist vera af þriðju gráðu – svo slæm að skurðlæknir varð að laga hana. Þær tilkynntu okkur því að við yrðum að færa okkur á spítalann þar sem ég myndi gangast undir aðgerð. Eftir að hafa haldið aftur af tárunum í erfiðasta hjalla útvíkkunar, löngum rembingi og sársaukafullum saumaskap missti ég alveg kúlið og hágrét. Mér hafði tekist að fæða heima eins og mig dreymdi um en SAMT var spítali fram undan. Þvílík vonbrigði.

Við tókum því rólega um morguninn og ég átti ljúfa stund með monsa mínum áður en við lögðum af stað, og fljótt komst ég yfir þessi vonbrigði. Hann fékk mælingar og reyndist 14 merkur og 52 cm – hálfu kílói og 4 cm stærri en systir hans. Enn önnur skemmtileg fæðingarnýung var að geta gengið um og m.a.s. niður af þriðju hæð. Þrátt fyrir verki og rifur var ég ótrúlega hress, annað en eftir síðustu fæðingu þar sem ég varla stóð upp úr hjólastólnum fyrstu dagana. Hrafnhildur kvaddi okkur en Arney kom með okkur á spítalann.

Á LSH var dálítið kaos (búhú mig langar heim í kertaljósin!). Ég var færð á milli sjúkrastofa á fæðingarganginum, alls kyns fólk kallað til í að stilla sjúkrarúmið sem enginn kunni á, og þar sem við mættum akkúrat á vaktaskiptum tók tíma að finna mannskap í aðgerðina. Loks mætti læknir og aftur tók við kvalarfullt pot neðra. Í þetta sinn með glaðloft fyrir vitunum – sem gerði ekkert gagn en dempaði allavega ópin í mér. Læknirinn staðfesti þriðju gráðu rifu og skurðstofan var bókuð á hádegi. Ég þurfti að hemja grátkast nr. 2 þegar mér var sagt að ég yrði svæfð og myndi líklega liggja inni heila nótt eftir aðgerðina. Á skurðstofunni ákvað svæfingarlæknirinn hins vegar að gefa mér frekar keisara-mænudeyfingu. Ég var auðvitað hæstánægð með að sleppa svæfingunni en vissi samt varla hvort skyldi hlæja eða gráta við að heyra M-orðið. Í þetta skiptið hafði mér tekist að fæða án deyfingar en samt fékk ég fríggin mænudeyfinguna EFTIR að krakkinn var mættur og kominn í ullarsokka? Æ þetta líf sko.

Eftir hálftíma aðgerð hitti ég aftur nýbökuðu feðgana og öll lögðum við okkur á meðan deyfingin fór úr líkamanum. Hjúkka tilkynnti mér að ég mætti fara heim um leið og ég gæti pissað, svo ég hellti í mig mörgum lítrum til að komast heim sem fyrst. Kl. 17:30 keyrðum við heim í skínandi hreina íbúð og risa blómvönd eftir tiltekt foreldra minna – sem mættu svo stuttu seinna með langþráð sushi og hvítvín handa mér og auðvitað stóru systur sem fyrst nú fékk að vita að litli bróðir væri kominn út úr bumbunni. Það var heldur betur sæl stúlka sem dáðist að fallega bróður sínum, og sæl mamma sem horfði á börnin sín saman og fannst hún loks hafa lokið hringnum í fæðingarreynslu og grætt gömul sár. Engin horror fæðing og enginn aðskilnaður frá nýja barninu fyrir utan hálftíma á skurðstofunni. Fjölskyldan mín var heil og sameinuð. Skítt með það þó slatti af vöðvum hafi ekki verið heilir.

Fæðing Ástrósar

Ég var búin að vera með væga túrverki í nokkra daga sem ég tók samt lítið mark á. Þeir voru að ágerast örlítið og þó að ég vonaði mikið að þeir væru að hafa einhver áhrif var ég samt róleg yfir þessu öllu. Á miðvikudeginum fyrir hitti ég Kristbjörgu og bað hana um að skoða mig og var ég þá komin með 3 í útvíkkun. Á laugardagskvöldið vorum við öll heima hjá foreldrum mínum að passa húsið þeirra því þau fóru til Akureyrar á frumsýningu. Ég og Sigurjón horfðum á Matrix og slökuðum vel á.

Við fórum svo bara að sofa og ég vaknaði um kl. 3 við það að Elísabet þurfti aðstoð á klósettinu. Svo ég fer og aðstoða hana en eftir það tek ég eftir að verkirnir höfðu aukist töluvert og ég var farin að finna greinilegt upphaf og endi. Svo ég leggst aftur uppí rúm og reyni að sofna en tekst það ekki svo ég ákveð að taka tímann á verkjunum. Þá voru svona 2-4 mínútur á milli. Klukkan 3:40 ákveð ég svo að fara á fætur og fara á klósettið. Ég sest á klósettið og pissa og svo kemur önnur alveg svaka gusa og þá fer vatnið. Verkirnir aukast lítið við það en ég þorði ekki annað en að ræsa út liðið. Svo ég vakti Sigurjón og sagði honum að við þyrftum að fara heim, hann hringdi í foreldra sína sem komu til að vera hjá Elísabetu og ég hringdi í Kristbjörgu ljósmóður.
Um leið og Siggi og Lísa komu þá brunuðum við heim á Hvammabraut og þau voru verkirnir orðnir ansi slæmir.

Við vorum komin heim rétt eftir 4 og Kristbjörg kom svo um hálf 5. Sigurjón fór í að pumpa upp laugina og Kristbjörg fór í símann að reyna að ræsa út nema sem ætlaði að vera með í fæðingunni.

Á meðan hélt ég mig inná baði því vatnið lak í hverri hríð og þá var best að vera ofaná handklæði. Um leið og laugin var svo tilbúin, kl. 5:30, fór ég ofaní. Mér fannst það mikill léttir að komast ofaní vatnið og auðveldaði allar hreyfingar. Mér fannst best að vera á hnjánum og hallaði mér að laugarbrúninni. Þar sat Sigurjón og hélt í hendurnar á mér þegar ég þurfti á því að halda. Fljótlega komu 2 hríðar og þeim fylgdi smávegis rembingtilfinning en mér fannst ég ekki alveg tilbúin að rembast. En svo í þriðju hríðinni fann ég að ég var alveg tilbúin. 
Eftir svona 4 hríðar fann ég vel fyrir kollinum.

Þá fannst mér mjög gott að halda sjálf við kollinn og gat þá stjórnað stefnunni, en mér fannst best að ýta höfðinu aðeins framávið. Svona 3 rembingum seinna var hún svo mætt í fangið á mér á slaginu kl. 6. Hún var þakin fósturfitu og alveg risastór. Af einskærri þrjósku og óþolinmæði þá átti ég það aðeins til að halda áfram að rembast þó hríðin væri búin, en Kristbjörg var fljót að sjá það og fékk mig til að hlusta betur á líkamann. Fylgjan kom svo 15 mínútum seinna. Með fylgjunni blæddi aðeins meira en Kristbjörg hefði viljað, en samt bara örlítið meira en þykir eðlilegt. Það var samt frekar óhugnalegt því vatnið í lauginni varð alveg eldrautt.

Það var mjög skrýtið að fara uppúr lauginni því ég var búin að vera næstum hreyfingarlaus á hnjánum í svo langan tíma að ég var komin með náladofa og svo fannst mér allar hreyfingar svo erfiðar og ég öll svo þung svona á “þurru landi”. Við fórum svo öll þrjú saman inní rúm og kúrðum á meðan ljósurnar sáu um að ganga frá öllu.

Hún var svo vigtuð og mæld og var hún 4390 gr, 17,5 merkur og 50 cm. Heilu kílói þyngri en Elísabet. Hún fæddist með einhvern blett, sem lítur út eins og mar, á síðunni, en Kristbjörg hafði litlar áhyggjur og vildi bara fylgjast með þessu.

Ég rifnaði örlítið en þurfti ekkert að sauma.

Fæðingin er skráð 2 tímar og 10 mínútur frá því að vatnið fór.

Siggi og Lísa komu svo í hádeginu með Elísabetu sem var mjög spennt að hitta litlu systur sína og virðist vera alveg fædd í hlutverk stóru systur.

Fæðingin var fullkomin í alla staði og væri alveg til í að upplifa aðra svona fæðingu ef við ákveðum að bæta öðru við. Nema kannski að ég myndi vilja vera heima þegar ég fer af stað.