Síðan skein Sól

Undanfari

Barnið hafði skorðað sig á 36. viku og frá 38. viku var ég stundum að finna fyrir þrýsting niður í grind og seyðing neðst á baki og bumbu. Þegar nær dró fór ég að fá óreglulega „æfingasamdrætti“ sem komu á nokkurra daga fresti í svolítinn tíma og svo vikuna fyrir fæðingu var ég að fá þá á hverjum degi, stundum nokkrum sinnum á dag.

Fæðingin

Þann 19. desember var ég gengin 41 viku. Ég fann fyrir nokkuð sterkum samdráttum yfir nóttina og það kom smá bleikt í klósettpappírinn þegar ég þurrkaði mér eftir klósettferð. Um morguninn voru byrjaðir nokkuð reglulegir samdrættir með 5-7 mínútna millibili og við Róbert áttum rólegan morgun heima. Ég átti tíma í nálastungur og mæðravernd hjá Emblu, ljósmóður á Fæðingarheimili Reykjavíkur klukkan 12 og við fórum saman þangað. Ég lá í rúminu á fæðingarstofunni með nálarnar í klukkutíma, að þeim tíma liðnum kom Embla og fjarlægði þær. Í kjölfarið framkvæmdi hún belgjalosun og sagði okkur að leghálsinn væri mjög stuttur og mjúkur, u.þ.b. 2 cm í útvíkkun. Samdrættirnir síðustu daga höfðu verið að undirbúa okkur fyrir stóru stundina.

Við vorum komin heim um 13 leytið og samdrættirnir voru enn á 5-7 mín fresti. Við ætluðum að reyna að leysa þraut dagsins í jóladagatali sem við áttum en samdrættirnir voru orðnir svo kröftugir að ég gat ekki setið kyrr heldur varð ég að vera á hreyfingu þar til samdrátturinn byrjaði, þá þurfti ég að stoppa, styðja mig við eitthvað og anda mig í gegnum hann. Róbert notaði mjaðmakreistur til að hjálpa og mér fannst það mjög gott. Samdrættirnir voru á u.þ.b. 5 mín fresti í svolítinn tíma og styrkurinn hækkaði frekar hratt.

Við kveiktum á Spotify spilunarlista sem ég hafði búið til fyrir fæðinguna og ég ákvað að fara í sturtu sem hjálpaði mér mjög mikið. Ég skiptist á því að standa upprétt eða sitja á hækjum mér undir sturtunni með lokuð augun, fann fyrir dropunum lenda á mér og renna sér niður. Ég var í miklu slökunarástandi og andaði mig í gegnum kröftuga samdrætti, brosti svo til Róberts inn á milli sem var þarna hjá mér og skráði samdrættina. Kvíðinn sem ég hafði upplifað á meðgöngunni, varðandi fæðinguna, hvernig hún yrði og hvað gæti gerst var hvergi nær. Ég fann fyrir yfirvegaðri ró, gleði, tilhlökkun og ást. Um 16 leytið var ég ennþá í sturtunni og samdrættirnir farnir að vera á u.þ.b. 2 mínútna fresti. Róbert hringdi í Emblu til að láta hana vita og hún stakk upp á því að við myndum vera aðeins lengur heima þannig ég var í sturtunni í svona hálftíma í viðbót eða þar til að samdrættirnir voru farnir að vera mjög sterkir og á 1-2 mínútna fresti. Ég bað Róbert þá að hringja aftur og spyrja hvort við mættum koma á fæðingarheimilið sem var velkomið. Róbert hjálpaði mér úr sturtunni, aðstoðaði mig við að gera mig til og við mættum á fæðingarheimilið klukkan u.þ.b. 18 þar sem Embla tók á móti okkur og bauð okkur að koma inn á fæðingarstofu. Mér fannst rosalega gott að vera komin þangað, í hlýjuna og öryggið sem fyllti upp fallega herbergið. Embla framkvæmdi skoðun, það leit allt vel út og ég var komin 4 í útvíkkun. Samdrættirnir voru orðnir mjög kröftugir, með stuttu millibili og nú fór öll mín orka og einbeiting í að svífa á öldunum þegar þær komu og slaka alveg á þess á milli. Embla dempaði ljósin og lét renna í bað, Róbert kveikti á ilmkertum sem við höfðum tekið með og tónlist. Ég var komin ofan í baðið um 19, Róbert hélt köldum þvottapokum við ennið mitt og bringuna sem var mjög þægilegt en hann þurfti alltaf að fara frá til að kæla þá og á ákveðnum tímapunkti vildi ég bara hafa hann hjá mér þannig ég bað hann um það. Mér leið vel í baðinu en ég átti svolítið erfitt með að halda jafnvægi og að finna „rétta“ stellingu þar en ég var svo einbeitt og það var svo stutt á milli bylgja að mér datt ekki í hug að fara upp úr.

Ég byrjaði að finna fyrir rembingsþörf um 20 leytið en var þá komin 8 í útvíkkun, ég hlustaði á líkamann og var ekki að streitast á móti rembingsþörfinni en ég var ekki að rembast af fullum krafti heldur. Ég reyndi að „anda niður“ eins og ég hafði lært í myndbandi hjá doulu á youtube. Þarna fór að heyrast í frumkonunni sem ég hafði heyrt Helgu Reynis ljósmóður tala um, við fórum í fæðingarfræðslu hjá henni sem kom sér vel í fæðingunni. Mér fannst gott að anda niður en ég var ekki að ná að beina kraftinum nógu mikið í rembinginn, höfuðið rétt kíkti út og fór svo alltaf aftur inn, en það var góður undirbúningur sem hjálpaði með því að mýkja og teygja á svæðinu. 

Embla hringdi í Stefaníu, hina ljósmóðurina sem mætti stuttu seinna til að hjálpa. Hún tók líka fullt af myndum og einhver myndbönd því hún hafði lesið fæðingarplanið okkar þegar hún mætti þar sem stóð að við myndum endilega vilja að teknar yrðu myndir ef hægt væri. Ég tók svosem ekki mikið eftir því sem var að gerast í kringum mig þar sem ég fór svo mikið inn á við og var svo rosalega einbeitt alla fæðinguna. Ég var að anda mig í gegnum hverja bylgju fyrir sig, hugsandi að hver bylgja færi mig nær því að fá barnið okkar í fangið. Um 22 leytið var ég beðin um að fara upp úr baðinu og prófa að fara á klósettið, ég gerði það og fann fyrir miklum þrýsting. Eftir það langaði mig að prófa að koma mér fyrir í rúminu, þar sem ég var orðin þreytt og fann að ég þurfti að ná fullri slökun á milli bylgjanna, sem ég var ekki að ná í baðinu. Ljósmæðurnar gerðu rúmið tilbúið fyrir mig, ég lagðist á hliðina og Róbert lagðist hjá mér á því litla plássi sem ég hafði skilið eftir fyrir hann. Ég náði betri slökun milli bylgja í rúminu og það var mjög gott að hafa Róbert hjá mér, hann og Stefanía skiptust á að hjálpa mér að lyfta efri löppinni þegar ég þurfti að rembast á meðan Embla lagði heitan bakstur við spöngina og beið þess að taka á móti barninu. Þau voru öll með ótrúlega góða nærveru, hvetjandi og yndisleg. Embla spurði hvort ég vildi finna fyrir kollinum, sem ég gerði og mér fannst mjög hughreystandi að finna að hún væri alveg að koma.

Ég hætti að reyna að anda niður vegna þess að ég vildi ná að rembast af meiri krafti og fann strax mun. Þá fór þetta að ganga frekar hratt fyrir sig, stuttu seinna fann ég fyrir því að höfuðið var loksins að komast út og það tók nokkrar bylgjur. Í kjölfarið voru bara nokkrar bylgjur í viðbót þar til Embla tók á móti yndislegu stelpunni okkar og rétti mér hana. Samkvæmt myndunum var höfuðið komið út klukkan 23:34 og 23:36 fékk ég hana í fangið. Ég heyrði gráturinn hennar þegar hún var á leiðinni út og tók við henni þegar Embla rétti mér hana, talaði við hana og veitti henni hlýju, öryggi og nánd. Við kúrðum saman fjölskyldan og fundum fyrir einskærri hamingju og skilyrðislausri ást. Emilía Sól var loksins komin að lýsa upp heiminn okkar. Eftir að dágóður tími hafði liðið þá klippti Róbert naflastrenginn, hún var lögð á magann á mér og var ótrúlega sterk, skreið um og leitaði að brjóstinu sem hún fann að lokum með smá aðstoð.

Hún drakk hjá mér í rúman klukkutíma, Róbert lá við hliðina á okkur og það var ótrúlega notaleg stund sem mér mun alltaf þykja rosalega vænt um. Fylgjan kom klukkan 00:15, Stefanía sýndi okkur hana og fræddi okkur aðeins. Á einhverjum tímapunkti var ég deyfð og Embla hóf saumaskap, sem ég tók varla eftir. Þegar Emilía var búin að drekka þá fékk pabbi hennar að vera með hana húð við húð. Svo fórum við með hana á skiptiborðið, ljósmóðirin framkvæmdi skoðun þar sem allt leit mjög vel út, hún mældist 52 cm og vó 4050 g. Við nýbökuðu foreldrarnir fengum svo að setja á hana fyrstu bleyjuna og klæða hana í fyrstu fötin. Um 3 leytið var hún klædd og komin í fallegu bastvögguna við hliðina á rúminu okkar þar sem hún sofnaði fljótt. Við vorum á Fæðingarheimilinu yfir nótt og fórum svo heim daginn eftir. Embla sinnti heimaþjónustunni, veitti okkur ótrúlega góðan stuðning og var alveg yndisleg.

Fyrstu dagarnir

Dagana eftir fæðinguna var ég með einhverja verki í kviðnum sem við héldum að væri mögulega ristilkrampi, en þegar Emilía Sól var orðin 4 daga gömul þá var verkurinn orðinn staðbundinn neðarlega hægra megin og óbærilegur, ég var komin með hita og gat varla hreyft mig. Við hringdum í Emblu sem ráðlagði okkur að fara á kvennadeildina og hringdi þangað fyrir okkur. Róbert þurfti að gera Emilíu tilbúna og allt sem henni fylgdi, svo þurfti hann að hjálpa mér að klæða mig í föt og að komast út í bíl. Ég emjaði og grét alla leiðina þangað, ég hef aldrei á ævi minni fundið fyrir svona miklum sársauka. Eftir skoðanir og myndatökur kom í ljós að botnlanginn minn hefði sprungið og að ég myndi fara í aðgerð daginn eftir, þann 24. desember. Róbert og Emilía fengu að vera hjá mér sem var rosalega gott. 

Ég þurfti að liggja á bakinu í rúminu með halla og gat varla hreyft mig, Róbert og starfsfólkið á deildinni þurftu að hjálpa mér að gefa Emilíu brjóst með því að hjálpa mér að færa mig til hliðar, leggja kodda við hliðina á mér og leggja hana á koddann þannig hún gæti drukkið hjá mér og svo að færa mig aftur til hliðar, leggja kodda hinum megin og leggja hana á hann. Þetta var erfitt en mér þótti mjög vænt um þessar stundir þrátt fyrir erfiðleikana og var ótrúlega þakklát fyrir að geta gert þetta fyrir hana. Auk þessa þurfti hún að fá ábót og ég þurfti að pumpa mig reglulega til þess að ná upp brjóstamjólkinni. Það var mjög erfitt að fara frá Róberti og Emilíu þegar ég þurfti að fara í aðgerðina, ég var alveg svolítið hrædd og grét á leiðinni þangað. Þegar ég var komin rétt náði ég að sjá eitthvað fólk, svo taldi einhver niður og ég vaknaði á vöknun. Ég hugsaði strax til fjölskyldunnar minnar sem beið eftir mér og bað um að fá að hringja, Róbert svaraði mér, það var ótrúlega gott að heyra röddina hans og ég heyrði að það var léttir fyrir hann að heyra mína. Svo hringdi ég í alla mína nánustu og lét vita að aðgerðinni væri lokið og að það væri í lagi með mig. Ég fékk vökva og sýklalyf í æð auk þess sem ég fékk reglulega verkjastillingu. Ég var enn mjög verkjuð og þurfti aðstoð við að hreyfa mig, en það var hugsað ótrúlega vel um okkur og Róbert var ótrúlega duglegur að sinna okkur mæðgum. Við eyddum jólunum á spítalanum, höfðum það huggulegt þrátt fyrir allt og opnuðum pakkana frá hvort öðru. Ég var dugleg að hreyfa mig með aðstoð Róberts og vöggunar hennar Emilíu þar til ég var farin að geta hreyft mig án mikillar aðstoðar þó það væri enn svolítið vont. Mér fór batnandi með hverjum deginum en það tók samt langan tíma fyrir mig að ná mér almennilega og ég held að líkaminn sé ennþá að jafna sig, auk þess sem þetta hafði einhver áhrif á andlega líðan. Mér leið eins og ég væri að missa af því að eiga „eðlilega“ fyrstu daga með Emilíu og brjóstagjöfin átti í högg að sækja. En það var dásamlegt að fá að vera með fjölskyldunni yfir þetta erfiða tímabil og ég naut þess að kúra með Emilíu Sól mér við hlið, gefa henni brjóst, syngja fyrir hana og spjalla við hana. Hún var ljós mitt í myrkri og Róbert kletturinn okkar.

Ég útskrifaðist af spítalanum 28. desember og við héldum upp á aðeins öðruvísi jól með mömmu. Daginn eftir fékk ég sterkari verki og hita, hringdi á deildina og fékk tíma í blóðprufu morguninn eftir. Ég kjagaði um allt vegna verkja og átti ennþá erfitt með að hreyfa mig án aðstoðar en ég mætti á spítalann í blóðprufu og hitti svo einn af læknunum sem sá um mig. Hann sagði eftir niðurstöður og skoðun að þetta hefði ekki verið það sem hann hefði viljað sjá. Hvítum blóðkornum hafði fjölgað, ég var með hita og mjög verkjuð. Hann bað sjúkraflutningamann að sækja mig í hjólastól og fara með mig upp á 13D.

Það þurfti að taka nýjar myndir og ég þurfti að vera fastandi á deildinni þar til búið væri að skoða þær. Róbert og Emilía komu til mín og eftir einhvern tíma kom í ljós að það væri gröftur í kviðarholinu þar sem botnlanginn hafði sprungið og ég þurfti að fá meiri sýklalyfjagjöf í æð, auk þess sem þurfti að koma fyrir dreni. Við eyddum næstu dögum á 13EG og byrjuðum nýja árið með stæl. Ég losnaði á endanum við drenið og þann 3. janúar fengum við loksins að fara heim. Ég átti að taka sýklalyf um munn en las á sérlyfjaskrá að ekki mætti taka þau með brjóstagjöf og ákvað að hringja á deildina, konan sem svaraði ætlaði að tala við lækni. 

Tengdaforeldrar mínir komu í heimsókn og ætluðu að elda fyrir okkur jólamat en þá hringir deildin og segir mér að ég þurfi að koma og vera áfram á sýklalyfjum í æð vegna þess að ég skipti um lyf í miðri meðferð vegna útbrota og þurfti að vera lengur á því nýja. Ég vildi bara vera heima með fjölskyldunni minni þannig ég ákvað að mæta frekar fjórum sinnum á sólarhring í meðferðina, kl. 6, 12, 18 og 24. Síðasta sýklalyfjagjöfin kláraðist kl. 00:30 þann 6. janúar og ég fékk loksins að vera bara heima að hafa það huggulegt með yndislegu fjölskyldunni minni. Embla, dásamlega ljósmóðirin sem tók á móti Emilíu, sinnti heimaþjónustunni og sýndi mér ótrúlega mikinn stuðning í gegnum þessa erfiðu tíma kom og hjálpaði okkur að gefa Emilíu Sól fyrsta baðið sitt. Við tók bataferli heima, brjóstagjafir og brjóstapumpu sessions, kúr og notalegar stundir sem fjölskylda. Ég gerði mitt allra besta og vann hart að því að reyna að ná upp brjóstagjöfinni, fékk aðstoð og stuðning frá Edythe sem er brjóstagjafarráðgjafi á fæðingarheimilinu og náði að gefa henni brjóst í 5 mánuði þrátt fyrir veikindin. Þá var engin breyting á magninu sem hún fékk hjá mér, ég var orðin uppiskroppa með orku til þess að reyna að breyta því og Emilía farin að mótmæla þannig ég slakaði á þessu og þar af leiðandi fór framleiðslan minnkandi þar til við tókum síðustu brjóstagjöfina. Emilía dafnaði mjög vel, mér fór batnandi með hverjum degi sem leið og við fjölskyldan höfðum það ótrúlega gott. Þegar ég horfi til baka myndi ég ekki vilja breyta neinu, þetta mótaði okkur sem fjölskyldu og ég er ótrúlega ánægð með okkur eins og við erum. Ég er mjög þakklát fyrir lífið, heilsuna, fjölskylduna mína og alla sem studdu við okkur.

Frábær fæðing þrátt fyrir gangsetningu og meðgöngueitrun

Ég var komin 41 v + 6 daga þegar ég var sett af stað, ég hafði kviðið svolítið fyrir þessum degi þar sem ég bjóst ekki við að þurfa að fara í gangsetningu. Ég upplifði það sem pínu vonbrigði að líkaminn minn hafi ekki bara gert þetta sjálfur. Ég sem hafði átt frábæra meðgöngu, lítil sem engin ógleði, fékk enga grindargliðnun og leið almennt vel, en þar sem ég var ólétt af fyrsta barni hafði ég engan samanburð, en miðað við þær sögur sem ég hafði heyrt og lesið var ég heppin. Undir lok meðgöngunnar var ég þó kominn með mikinn þrýsting niður í lífbein og fann fyrir mikilli þreytu. Ég ákvað að hlusta á líkamann minn og hætti að vinna þegar ég var komin rúmar 36 vikur.

Fannst tíminn þó líða heldur hægt en ég notaði tímann til að prjóna, fara í jóga hjá Auði  og undirbúa mig og dútla fyrir nýja heimilið, en við Eyvindur vorum nýlega búin að kaupa okkur íbúð sem við vorum að gera upp og markmiðið var að flytja inn áður en litli fæddist. Þannig vikurnar voru teknar í rólegheitum. Ég var mikið að dunda mér heima með mömmu þar sem hún var hætt að vinna. Var að prjóna vettlinga og trefil til að reyna að láta tímann líða. 

Settur dagur var 2. febrúar en ég hafði það á tilfinningunni að hann myndi koma aðeins seinna en það, svona 6-7 febrúar. Sá dagur leið og ekkert gekk og eftir 40 -41 vikurnar var þetta farið að reyna heldur á andlegu hliðina þar sem hann hefði geta komið hvenær sem er. Ég reyndi þó að nýta tímann eins og ég gat og hvíla mig en ekkert gerðist, þannig ég var oft að skreppa í búðir og stússast eitthvað fyrir íbúðina eins og ég treysti mér til.  Ég lét hreyfa við belgnum í 40+5 skoðun hjá ljósmóðurinni en það var ekki einu sinni hægt, fór í nálastungur, labbaði um Ikea og fleiri búðir, borðaði ananas en allt kom fyrir ekki. Ljósmóðirin pantaði svo tíma fyrir mig í gangsetningu til öryggis, en ég var frekar smeyk við að fara í gangsetningu og vildi helst fara sjálf af stað svo dagurinn var ákveðinn eins langt frá og hægt var.

Daginn fyrir gangsetningu fórum við Eyvindur í síðustu sundferðina og fórum í ísbíltúr og fengum okkur bragðaref hjá Huppu , það var frekar súrrealískt að hugsa til þess að þetta væri síðasti dagurinn sem við yrðum bara tvö.  En það var mjög gott og eftirminnilegt að eiga svona stund saman.

Gangsetningardagurinn, 15. febrúar rann upp og vorum við mætt upp á landsspítala kl 8 um morguninn í monitor. Ég var mæld vel og vandlega, en þar sem blóðþrýstingurinn var orðinn nokkuð hár þá var ég send í blóðprufu. Ljósmóðirin mældi mig og var ég komin með 1 í útvíkkun og náði hún að hreyfa við belgnum. Ég fékk svo fyrstu töflu kl 10 og var send heim með spjald og átti að taka eina töflu á tveggja tíma fresti. Við stoppuðum í bakaríinu og fengum okkur morgunmat og ætluðum að taka því rólega.

 Verkirnir urðu þó fljótt heldur verri og þegar ég kom heim gat ég varla setið. Ég fékk svo símtal frá spítalanum kl 13:30 um að niðurstöðurnar úr blóðprufunum sýndu að ég væri komin með byrjunareinkenni á meðgöngueitrun svo þau vildu fá mig upp á deild og átti ég að taka töflurnar hjá þeim. Það var pínu skrítið að hugsa til þess að ég myndi að öllum líkindum ekki fara aftur heim nema með barnið með mér. Mér fannst það þó líka ákveðinn léttir þar sem ég vissi að ég þyrfti ekki að vera að spá í tíma á milli samdrátta og ákveða hvenær tími væri kominn til að fara á spítalann. Þegar þarna var komið við sögu var ég nýbúin að taka 3 töflur og samdrættirnir voru búnir að versna talsvert. Við pökkuðum í rólegheitum í töskurnar og gat ég rétt svo staulast út í bíl og var bílferðin ekki þægileg. Þegar upp á deild var komið var kl um 14:30 og þá fékk ég fína stofu með baði. Það var settur á mig mónitor til að fylgjast með hjartslætti mínum og barnsins út af eitruninni og þurfti ég að vera með hann á mér allan tímann. Kl 15:30  voru vaktaskipti og fékk ég fínar ljósmæður og nema sem sáu mjög vel um mig, þær Margréti og Ingunni. Þar sem átti að reyna að hraða ferlinu aðeins út af eitruninni var stungið gat á belginn um kl 16 og fossaði vatnið út um allt í nokkrum skiptum. Þá var ég komin með 2-3 í útvíkkun. Kl 17 fór ég svo í baðið og var það mjög þægilegt. Hríðirnar urðu þó fljótt frekar harðar og var stutt á milli. Þá kynnti ljósmóðurneminn hún Ingunn mig fyrir glaðloftinu sem átti heldur betur eftir að vera besti vinur minn í þessarri fæðingu. Það komu tímabil þar sem mig  langaði að fá mænudeyfingu vegna verkjanna en þá hefði ég þurft að fara upp úr baðinu og það vildi ég ekki, heldur vildi ég vera þar sem lengst þar sem verkirnir virtust dofna í baðinu. Ákvað ég því að taka stöðuna aftur eftir klukkutíma. Klukkan 18 var svo útvíkkunin könnuð aftur og var ég komin með 4 í útvíkkun. Verkirnir voru alveg orðnir rosa vondir en ég náði að anda með jógaönduninni sem ég lærði í jóganu hjá Auði í gegnum glaðloftsgrímuna og tókst mér að halda ró minni og góðum takti með því. Í eitt skipti losnaði þó gasið frá grímunni þegar ég var í miðri hríð og eina sem ég gat var að öskra GAS GAS, eins og ég væri komin í  lögregluaðgerð í hruninu að spreyja táragasi.

Einnig var ég með jógamöntrurnar  á í græjunum og er ég ekki frá því að það róaði mig. Jógaundirbúningurinn hjálpaði mér mjög vel  Um 19 leytið fékk Eyvindur sér svo hamborgara í kvöldmat sem pabbi hans skutlaði til hans en ég hafði enga matarlyst, eina sem ég gat komið ofan í mig var gatorate og vatn. Mér fannst skrýtið að finna hamborgaralykt á meðan ég var að kveljast í baði, sem er reyndar frekar fyndið að hugsa til svona eftirá.  Kl 20 var svo tekin staðan aftur og var ég komin með 8 í útvíkkun. Þá var eiginlega orðið of seint fyrir mænudeyfingu og ákvað ég að harka þetta af mér þar sem ferlið var búið að ganga svo vel. Það var því aðeins farið að hraða á ferlinu. Út af meðgöngueitruninni þá mátti ég ekki eiga í baðinu og voru það svolítil vonbrigði. Mér var hjálpað upp úr baðinu um kl 20:30 og um 21 leytið var einhver brún eftir, svo kom einhver rembingur og um 21:20 var ég komin með fulla útvíkkun.  Mér fannst best að vera á fjórum fótum og var spítalarúmið ekki beint hannað til þess, ég náði því að liggja á hlið og með löppina upp Ég byrjaði að rembast. Það var enginn smá kraftur sem kom með þessum rembingi og öskraði ég með hverri hríð. Ljósmæðurnar sögðu mér þó að reyna að nota orkuna freka í að remba honum út í staðin fyrir að öskra og emja. Ég tók ráðleggingunum og einbeitti mér að því og þá fór þetta að rúlla. Eftir 3-4 rembinga kom höfuðið út og hann skaust svo út í næstu hríð í einu lagi kl 21:46. Stór og flottur strákur. 4252 gr og 52.5 sm og grét hann kröftuglega við fyrsta andardrátt. Mömmuhjartað fæddist á þessarri stundu. Ég fékk hann beint á bringuna og var ekki farið að líða á löngu fyrr en hann var farinn að sjúga brjóstið eins og hann hafi aldrei gert neitt annað. 

Ég þurfti svo að fæða fylgjuna og gekk það ágætlega, en þar sem belgirnir urðu eftir þurfti að bíða svolítið eftir þeim sem er eitthvað sem ég hafði aldrei heyrt um. Þeir komu þó að lokum Hélt að fylgjan og belgirnir myndu koma út saman. Þarna var ég alveg orðin örmagna af þreytu og verkjum. Við þurftum svo að bíða eftir fæðingarlækni sem átti að meta hvort að þurfti að sauma. Allt í einu um 23:30 leytið fylltist stofan af fólki. Barnalæknateymi kom og skoðaði strákinn og þar sem hann var með stórt naflaslit var honum trillað á vökudeild ásamt pabba sínum og var haldið að hann þyrfti jafnvel að fara í aðgerð strax og fékk ég ekki að vita hvort að ég fengi að hafa hann hjá mér yfir nóttina. Ég var svo að bíða eftir að komast á skurðarborðið þar sem ég fékk 3b gráðu rifu og þurfti að fá litla mænudeyfingu. Þessi deyfing var mjög kærkomin eftir alla þjáninguna.

Í öllu þessu róti voru líka vaktaskipti og kvöddu ljósmæðurnar mig og allt í einu var ég ein eftir á stofunni með engan síma og alveg búin á því og hrædd um litla strákinn minn og tíminn leið mjög hægt. Eftir klukkutíma af saumaskap var mér svo trillað aftur inn og komu strákurinn og Eyvindur aftur til mín eftir stutta viðkomu á vökudeildinni. Hann var svo stór og flottur að hann þurfti ekkert að vera þar nema  rétt í innskrift yfir nótt. Ég var mjög fegin að fá að hafa hann hjá mér. Þetta var algjörlega mögnuð lífsreynsla og frábær fæðing þrátt fyrir þessa gangsetningu og meðgöngueitrun og er ég fegin hvað allt gekk vel hjá okkur. Ég er mjög þakklát ljósmæðrum og læknum á landspítalanum fyrir að hafa hugsað svona vel um okkur litlu nýbökuðu fjölskylduna.

Margrét 30 ára, fyrsta barn, gangsetning.

„Ég vildi sko alveg gera þetta strax aftur“

Þessi yndislega skotta fæddist þann 18. nóvember í heimafæðingu, 4.120 gr og 54 cm. Áætlaður fæðingardagur var 7. nóvember, svo að ég var gengin 11 daga framyfir. Hún er okkar þriðja barn, fyrir eigum við stúlku fædda 13. nóvember 2007 á sjúkrahúsinu á Akureyri, og dreng fæddan 24. desember 2009, sem fæddist heima.

Ég veit ekki alveg hvað varð til þess á sínum tíma að ég valdi heimafæðingu, en þegar ég var ófrísk af mínu öðru barni 2009, þá kom einhvernveginn aldrei neitt annað til greina. Ég fór í mína fyrstu mæðraskoðun og þá ræddi ég þetta við ljósuna, að ég vildi heimafæðingu, en þá var ég ekki einu sinni búin að nefna það við manninn minn. Ég var bara búin að ákveða þetta! Sú heimafæðing gekk ótrúlega vel og tók aðeins 6 klst, eins og ég sagði þá fæðist hann á aðfangadag og þessi upplifun var bara dásamleg. Hann fæðist í fæðingarlaug rétt fyrir klukkan 6 á aðfangadagsmorgun, nánast við hliðina á jólatrénu. Andrúmsloftið var svo rólegt og afslappað, jólaljós og jólatónlist og ljósurnar að borða jólasmákökur og 2.ára systir hans horfði á. Svo 12 klst eftir að hann fæddist settist ég við matarborðið og borðaði jólamatinn með fjölskyldunni, dásamlegt!!

Svo að þegar ég vissi að ég væri ófrísk af þriðja barninu þá kom að sjálfsögðu ekkert annað til greina en önnur heimafæðing, og var maðurinn minn alveg sammála mér þar. Ég fór daginn áður (10 dagar framyfir) og lét hreyfa við belgnum (áááááiiiii!!!!!). Kom heim og var með einhvern seiðing restina af deginum en samt ótrúlega hress, fór í mjög langan göngutúr í brjáluðu veðri og kom svo heim og steikti 200 kleinur, og hugsaði svo með mér, jæææja þetta kemur í nótt. Áður en ég fór að sofa gekk ég frá heimilinu eins og ég væri að fara að fæða, setti myndavélar og videovélar í hleðslu til að hafa þær alveg pottþétt fullhlaðnar, ég bara vissi að þetta kæmi um nóttina þó ég væri ekki komin með neina verki. Klukkan 4 um nóttina vakna ég svo til að snúa mér, og hugsa „Djöfullinn!!! Þetta kemur þá ekki í dag fyrst ég er ekki komin með verki!!“ Ég ligg andvaka og maðurinn minn vaknar og við liggjum og spjöllum… svo klukkan 5 kemur fyrsti verkurinn. Ég var ekki alveg að trúa því að ég væri að fara í gang og sagði við manninn minn að þetta væri ekki neitt. Svo þegar ég var búin að vera með verki í klukkutíma og frekar stutt á milli þá gaf ég mig og sagði manninum mínum að vekja mömmu (sem var í heimsókn hjá okkur). Við fórum fram og stuttu seinna hringdi maðurinn minn í ljósuna. Hún spurði hvort hún ætti að koma strax og við sögðum henni að vera ekkert að stressa sig. 30 mín seinna hringdi hann aftur í hana og sagði henni að jú, hún mætti kannski alveg fara að koma, verkirnir voru orðnir mjög harðir. Svo þurfti að vekja börnin í skólann, þau voru mjög spennt að sjá að barnið væri að fara að fæðast en fannst líka pínu skrítið að sjá mömmu sína finna svona til. Verkirnir voru mjög fljótt mjög harðir, ég var á jóga bolta og bað ljósuna um nálar í bakið, en þær gerðu ekkert fyrir mig í þetta skiptið.

Um 8 leitið fór ég ofan í fæðingarlaugina. Þegar ég var komin ofan í laugina var ég komin með smá rembingsþörf en ekki mikla, svo að ég rembdist létt í hríðunum. Maðurinn var hliðina á mér allann tímann og mátti sko ekki fara frá mér, ég gat ekki hugsað mér það, var alltaf að hvetja mig áfram og ég fékk óspart að nota hendina hans til að kremja í hríðunum. Um 8.30 var rembingsþörfin orðin mjög mikil og ég var farin að rembast að krafti, og svo klukkan 8.40 fæddist stúlkan, ofan í lauginni. Við mæðgur lágum í lauginni í einhvern tíma á eftir, ég hreinlega tímdi ekki að fara uppúr og þurfa að láta hana frá mér, þó að ég lægi í blóðugri sundlaug, þá bara stoppaði tíminn og ég hefði getað hugsað mér að vera þarna ofaní í marga klukkutíma! En að lokum þurftum við að fara uppúr, og þegar ég stóð upp þá leið yfir mig! Það var mjög spes, ég vaknaði bara í blóðpolli í gólfinu haha! Ljósurnar mínar sögðu mér að það væri ekki óalgengt að það líði yfir konur eftir fæðingar, svo að þetta var ekkert til að hafa áhyggjur af.

Ég færði mig yfir í rúmið þar sem ég var skoðuð og jibbý! Enginn saumaskapur, það jafnast ekkert á við það! En þó að fæðingin hafi gengið eins og í sögu þá voru smá eftirmálar af fæðingunni. En legið náði ekki að draga sig nógu vel saman og ég missti mjög mikið blóð eftir að ég var komin uppí rúm, áætlað var að ég hefði misst um 2 lítra af blóði. Þess vegna var ég mjög slöpp eftir fæðinguna, mér var boðið daginn eftir þegar ég fór blóðtöku (Var þá með 70 í blóði, á að vera um 120 skilst mér) að fara í blóðgjöf en þrjóska ég vildi ekkert vera eitthvað að fara inná sjúkrahús og láta leggja mig inn! Þannig að ég er búin að vera að taka járntöflur og er öll að koma til! Einnig fékk ég einhverja sýkingu sem er ekki alveg vitað samt hvar hún var, en ég fékk síendurtekið hita og fór því inná sjúkrahús í skoðun og fór heim með sýklalyf. Var sagt að þegar maður missir svona mikið blóð að þá er meiri sýkingarhætta. En ég er búin að jafna mig á því!

Ok vá þetta átti svo sannarlega ekki að vera svona langt! Ætlaði að skrifa „smá“ fæðingarsögu en sýnist þetta enda í heilli ritgerð! En allavegana, dagarnir líða og stúlkan stækkar, finnst hún orðinn algjör risi þó það sé bara eins og að hún hafi fæðst í gær, já stundum vill maður bara geta stoppað tímann, þau stækka svo hratt! Ég er svo ótrúlega heppin að finnast meðgangan og fæðingin það allra skemmtilegasta í heiminum, en ég hef heyrt konur tala oft svo neikvætt um meðgönguna sína og fæðinguna en fyrir mér er þetta dásamleg upplifun sem því miður ekki allar konur fá að njóta. Ég er svo þakklát fyrir þessi 3 dásamlegu og heilbrigðu börn sem ég á, og það að hafa fengið að eiga þau öll á eðlilegan hátt. Nokkrum mínútum eftir að hún fæddist sagði ég að ég vildi sko alveg gera þetta strax aftur, ég held að það lýsi minni upplifun af fæðingu ansi vel.

Hvar er mandarínan?

Ég var sett 1. desember. Meðgangan gekk vel og ég var bókstaflega dansandi hress alveg fram yfir fertugustu viku. Fór á djammið eftir settan dag og dansaði á barnum fram á nótt í þeirri von um að fara af stað. Fór ekki af stað og þegar ég vaknaði og fann engar hreyfingar panikkaði ég. Ég gat ekki vakið soninn með að pota í bumbuna, vakti Adda með kökkinn í hálsinum og við brunuðum á spítalann í þögn. Við sáum ekki fram úr þessu. Ég hélt að ég hefði gert of mikið og barnið hefði ekki höndlað það og sjálfshatrið var að byrja að malla í mestu hræðslu sem ég hef upplifað. Til allrar hamingju var sonurinn bara steinsofandi með dúndrandi hjartslátt í mónitornum. Ég hætti að dansa.

Þegar ég var gengin sex daga fram yfir hreyfði ljósmóðirin mín við belgnum án þess að ég hafi verið búin að ákveða mig hvort við ættum að gera það. Hún ætlaði að skoða mig og svo myndum við ákveða en svo bara potaði hún í þegar hún var að skoða. Mér fannst svo frekt að vera að draga son minn í heiminn sem hann var kannski ekki tilbúinn í. Ég vildi að hann kæmi þegar hann væri tilbúinn. Ég geri mér grein fyrir því núna að ég var í ruglinu og að það þarf að ná í börn sem ætla sér að mæta svo seint að það stofni þeim í hættu. Þannig að ég fyrirgaf ljósunni þegar ég var búin að skæla þetta út.

Þann 10. desember mættum við svo upp á fæðingargang í gangsetningu kl. 8:45. Ég þurfti smá æðruleysi til að sætta mig við að ekki gæti ég átt á Hreiðrinu. Við hittum Ingu ljósmóðurnema og hún spurði hvort ég vildi bað sem ég játaði áköf. Leiðir hún okkur ekki bara inn í stofu 5 með stærsta baði spítalans og ég gleymdi öllu sem heitir Hreiður á stundinni. Svo kemur í ljós að ég er komin með 6 í útvíkkun og ég send í labbitúr um spítalann. Addi minn var soldið stressaður og eiginlega bara úrvinda þannig að ég sendi hann að leggja sig og fór í labbitúr með huggulega tónlist í eyrunum. Þess má geta að ég gat ekki labbað áfram í samdráttunum og stóð kyrr og hélt um bumbuna og alltaf stoppaði einhver starfsmaður spítalans og spurði hvort mig vantaði aðstoð. Það fannst mér fallegt. Þegar ég kom til baka eftir að hafa villst nokkrum sinnum var ég ennþá bara með sex í útvíkkun og þá var ákveðið að sprengja belginn.

Það var gerti kl. 12:30 og ég fann ekkert fyrir því og ákvað að borða hádegismatinn minn sem var hveitikímssamloka og tvær mandarínur. Ég náði að borða samlokuna á milli samdrátta meðan ég sat á rúminu og vatnið drippaði niður á gólf. Svo stóð ég upp og í samdráttunum þurfti ég að hrista mig og dansa…ég bað Adda um að setja danslistann á fóninn. Danssporin voru ekki fögur…svona eins og tveggja ára barn að hossa sér frekar. Þegar ég gat klifraði ég svo ofan í pottinn og juggaði mér fram og aftur og borðaði eina mandarínu milli samdrátta. Ég verð nefnilega að klára matinn minn.

Hríðarnar urðu svolítið sterkar á þessum tímapunkti en þetta var ennþá bara soldið vont. Ég var í froskastöðunni, ruggaði mér og tók haföndunina eins og mér væri borgað fyrir það. Ljósan sagði að ég væri ýkt góð í þessu. Mér fannst það líka. Þegar dansinn í baðinu varð mér um megn dró ég Adda ofan í bað og klemmdi hann á mér grindina og það sló rosalega á sársaukann. Hann klemmdi með höndum og svo fótum til skiptis og þetta var líka hörkupúl fyrir hann. Ég bað um glaðloft en það hafði engin áhrif og pirraði mig bara. Þær sögðu mér þá að það hlyti að vera eitthvað bilað. Ég var tvo tíma í baðinu og seinni klukkutímann var ég með fingurinn á höfði sonarins og þvílíkt með augun á verðlaununum þegar ég andaði hann nær og nær og nær.

Klukkan 14:30 fór ég upp úr og var þá komin með tíu í útvíkkun. Ég lá á bakinu meðan þær voru að mæla útvíkkunina og það var ógeðslega vont. Ég hélt í Adda með einni og einhvern þríhyrning í lausu lofti með hinni og þetta var svo vont að ég hristist öll en ég man það bara því ég man að sjá handfangið, þríhyrninginn á fleygiferð með mér. Djöfull er vont að vera á bakinu!!! Ég fór þá á hnén og hallaði mér fram á púða og fékk rembingsþörfina. Addi sagði mér að rembast og ég öskraði á hann að ég mætti ekkert rembast…það væri ekki kominn tími. Ég var náttúrlega ekki búin að vera í sólahring og hélt þetta ætti að verða miklu sársaukafyllra áður en ég mætti rembast. Ljósan segir mér þá að ef ég þarf að rembast þá er kominn tími. Sársaukinn varð allt öðruvísi einhvernveginn. Í svona tvær sekúndur eftir hverja hríð var ég alveg verkjalaus og svolítið svona skringilega hress eitthvað…mjög skrýtið. Ekkert gerðist í hálftíma að mér fannst nema það að englarnir flugu yfir okkur í hverri hríð. Ég eyddi öllum mínum kröftum í rembinginn og þögnin í stofunni okkar var alger meðan ég varð öll eldrauð á litinn. Þessu tók ég náttúrlega ekki eftir fyrr en ég sá myndbandið sem við tókum upp en Adda datt allt í einu í hug að stilla bara símanum upp á einni hillunni og ég er honum rosalega þakklát fyrir það. Á myndbandinu sést semsagt framan í mig, bumban og brjóstin síðasta kortér fæðingarinnar…Ótrúlega gaman að horfa á þetta kraftaverk eftirá.

En já…eftir smástund í þessari stöðu langaði mig að leggja mig og fór virkilega að spá af hverju ég væri ekki á verkjalyfjum en það hafði einhvernveginn farið framhjá mér í allri þessari haföndun. Eftir hálftíma báðu ljósurnar mig um að fara á bakið og ég þverneitaði en þá vildu þær fá mig á hliðina og halda undir hnésbótina meðan ég remdist. Þarna var þetta orðið rosa vont og ég hristist öll og skalf og emjaði eitthvað um þyngdaraflið og að ég vildi standa og að mig sveið en svo kom hríð og ég í fyrsta skiptið báðu þær mig um að purra og það sem ég purrrrrraði. Ég var eins og fjórir hestar í kapppurri og eftir purrið æpti ég um leiðbeiningar og hvað ég ætti að gera og spurði hvað væri að gerast…ég var oggu lost þarna í nokkrar sekúndur og hvæsti á þær þegar þær buðu mér að finna kollinn. Ég hafði ekkert tíma í það!!! Um leið og þær segja mér að rembast eftir purrið poppar herforinginn út mér til mikillar furðu eftir tæpa þriggja tíma fæðingu eða kl.15:19. Ég var svo hissa og fór ekkert að skæla heldur horfði bara á hann og spurði hvar mandarínan mín væri. Eftir að hafa dáðst að honum fékk Addi hann meðan ég kláraði mandarínurnar og var saumuð saman en ég rifnaði soldið þar sem þetta gekk svo fljótt yfir og það var greinilega þessi sviði sem var að trufla mig undir það síðasta. Mér fannst ýkt pirrandi að bíða í klukkutíma meðan þær saumuðu mig og fannst þetta óþægilegt auk þess sem deyfingin virkaði ekki á einum staðnum og ég fann alltaf fyrir nálinni þar. Á meðan var Arnþórsson í fanginu á föður sínum og kúkaði feitt í sængina án þess að nokkur tæki eftir því.

Við fengum svo að vera í fjölskylduherbergi í Hreiðrinu um nóttina og um leið og ég hlustaði á aðra konu eignast barn gerði ég mér grein fyrir hvers ég væri mögnug. Ég grét af stolti yfir sjálfri mér og þessu djásni við hlið mér í gegnum fæðingu ókunnrar konu í næsta herbergi. Stundum þarf maður bara tíma til að átta sig á hlutunum.
Stelpur…var einhver af ykkur að eignast barn í Hreiðrinu um 02:30 þann 11. Des? Ef svo er…takk!

Foringinn er fullkominn. Hann heyrir og sér, er með tíu fingur og tær, englahvítt hár og eitt Pétursspor. Hann fæddist 15 merkur og 52 sentimetrar og augljóslega frekar þungar augabrúnir. Við erum viss um að hann sé snillingur og þessar fyrstu vikur með honum eru búnar að vera mesta rússíbanareið lífs míns.

Fæðing Óskars

Ég var ólétt að mínu fyrsta barni og við stefndum á heimafæðingu. Meðgangan gekk vel og ég var heilsuhraust og leið vel allan tímann. Ég notaði tímann til að undirbúa mig vel. Ég las allar bækur um fæðingar sem ég komst í, horfði á bíómyndir um fæðingar, og mætti á öll námskeiðin sem í boði voru. Fór meira að segja á tvö brjóstagjafanámskeið með eiginmanninn í eftirdragi 🙂 Ég mætti líka í hvern einasta jóga tíma í næstum því 6 mánuði og lokahnykkurinn var svo hypnobirthing námskeið hjá Kristbjörgu ljósmóður. Ég var því orðin afar tilbúin þegar stóri dagurinn fór að nálgast.

Ég hafði það reyndar á tilfinningunni alla meðgönguna að ég myndi ganga fram yfir. Gerði eiginlega ráð fyrir því. Mætti t.d. í síðasta planaða hypnobirthing tímann þegar ég var komin 5 daga fram yfir. Þegar ég var komin rúma viku fram yfir þurfti Arney heimafæðingarljósmóðirin mín að byrja að ræða gangsetningu og tímabókanir í monitor upp á spítala, það er venjan. Að hafa gangsetninguna hangandi yfir mér síðustu dagana var afar erfitt því ég hafði eytt öllum tíma mínum í að undirbúa mig fyrir heimafæðingu og af því ég var búin að lesa mér svona mikið til þá vissi ég líka að tölfræðin segir að gangsetning auki líkur á alls konar vandræðum. Þessa síðustu viku viðurkenni ég því að mér varð í fyrsta skipti órótt á meðgöngunni og grét þungum tárum yfir því að eiga svo ekki að fá að upplifa fæðinguna eins og mig langaði og hafði stefnt að. Arney kom reglulega til mín í mæðraskoðun þessa síðustu daga og það sést í mæðraskránni minni hvað blóðþrýstingurinn hækkaði þessa daga. Merkilegt nokk þá lækkaði hann aftur þegar Arney hughreysti mig og sagði að hún myndi gera allt sem hún gæti fyrir mig og hún hefði ekki enn misst eina einustu konu í gangsetningu sem hafði viljað fæða heima. Ég var líka sett á laugardegi og Arney sagði að ég gæti vel afþakkað gangsetningu fram yfir helgi því konur eru ekki gangsettar nema á virkum dögum 🙂 Ég hafði aldrei áhyggjur af barninu mínu þó meðgangan væri orðin þetta löng, ég vissi einhvern veginn að því liði vel.

Ég reyndi samt ALLT sem átti hugsanlega að geta komið fæðingu af stað og veit ekkert hvort eitthvað af því virkaði.

Á þriðjudeginum fékk ég svakalega úthreinsun. Þetta voru svo ofsaleg iðrahljóð, að á milli klósettferða vissi ég ekki alveg hvort ég ætti að hlæja eða gráta. En það gerðist ekkert meira í framhaldi af því.

Ég mætti svo í síðasta meðgöngujógatímann minn á fimmtudeginum, gengin 41 viku og 5 daga. Ég átti bókað í monitor upp á spítala daginn eftir og vissi að barnið yrði að fæðast núna á allra næstu dögum. Þetta var yndislegur jógatími og það kom mér á óvart hvað mér leið enn vel í líkamanum, gengin næstum fullar 42 vikur. Eftir tímann kom ein ykkar til mín og sagði falleg orð við mig, orð sem ég man varla í dag hver voru, en ég þurfti svo að heyra ákkurat þá. Takk fyrir það. Um kvöldið var ég að fá nokkra samdrætti, eins og undanfarna daga. Ég fann engin óþægindi í líkamanum þegar þeir komu, vissi bara að þeir voru þarna því bumban mín varð svo hörð. Í hvert skipti sem ég varð vör við samdrátt strauk maðurinn minn mér yfir magann, það hafði orðið að venju hjá okkur á síðastliðnum vikum.

Um kvöldið horfðum við á Birth as we know it þar sem konur fæddu börn bara syndandi í hafinu með höfrungum og eitthvað álíka yndislegt meðan ég fékk nudd og strokur frá manninum mínum. Svo fórum við að sofa. Ég vaknaði rétt upp úr 1 eftir miðnætti og þurfti á klósettið. Þegar ég var að leggjast aftur upp í rúm þá heyri ég smell og hoppa fram úr því ég held fyrst að þetta séu meiri iðrahljóð. Ég næ ekki að taka nema nokkur skref áleiðis á klósettið þegar ég finn heita gusu milli læranna. “Gestur, vatnið er farið”, segi ég við sofandi eiginmanninn. Gestur hringir í Arneyju ljósmóður meðan ég finn eitthvað út úr því hvað ég á gera við sjálfa mig og þessa bleytu. Arney kemur og athugar hvort barnið sé ekki örugglega vel skorðað sem það og var. Arney segir okkur að reyna að sofa meira, það sé líklegast ekkert að fara að gerast bráðlega og kveður í bili. Ég set hypnobirthing slökunina mína í gang og við leggjumst saman upp í sófa. Eiginmaðurinn byrjar fljótlega að dotta og ég slæ til hans, finnst hann kannski einum of afslappaður og auk þess voru hljóðin í honum að trufla mig. Eftir á segir hann mér að ég hafi hlustað á slökunina að minnsta kosti fjórum sinnum.

Ég man næst eftir mér hálfliggjandi uppi í rúmi með stóran kodda bak við mig. Það komu nokkrar öldur og ég einbeitti mér 100% að önduninni. Öndunin sem ég lærði á hypnobirthing námskeiðinu hentaði mér best þarna en hún er mjög svipuð hafönduninni. Í hápunkti öldunnar kipptist ég samt alltaf við, sama hversu djúpt ég andaði. Þegar aldan var byrjuð að fjara út þá fann ég endorfín flæða niður eftir líkamanum og það var yndisleg tilfinning. Ég man mig hlakkaði til endorfín-rússins í lok hverrar öldu. Ég opnaði held ég aldrei augun, leit ekkert á klukku og hugsaði enga meðvitaða hugsun. Ég held ég hafi verið hálfsofandi.

Næst þegar ég man eftir mér þá er ég nakin, nema í baðslopp mannsins míns, á fjórum fótum á stofugólfinu með undirlag undir mér. Mig grunar að ég hafi verið að koma af klósettinu. “Gestur, það blæðir”, segi ég við sofandi eiginmanninn. Hann hoppar ringlaður fram úr og bregður eflaust aðeins þegar hann sér blóð á undirlaginu. Hann hringir aftur í Arneyju en hún virðist ekkert alltof viss um að eitthvað sé farið að gerast hjá okkur. Vill samt koma fyrst það er blæðing. Þarna byrja ég að rugga mjöðmunum og í raun öllum líkamanum með hverri öldu og stynja djúpt. Ég vissi ekki af hverju það blæddi en ég hafði samt engar áhyggjur og leyfði öldunum að koma og fara eins og þær vildu. Ég held að jákvæða staðhæfingin: “I will calmly meet whatever turn my birthing may take” hafi hljómað í undirmeðvitundinni. Þegar Arney kemur segir hún: “Hér er allt að gerast!” en ég hugsa að hún sé nú örugglega að misskilja þetta og oftúlka þessar háværu stunur mínar. Ég hafði nefnilega alltaf heyrt að það myndi ekkert fara fram hjá mér þegar ég færi af stað og ég var ennþá að bíða eftir því augnabliki. Útaf blæðingunni gerði Arney innri skoðun og ég var komin með rúma 8 í útvíkkun. Blæðingin var líklegast frá leghálsinum því hann var að opna sig svo hratt. Við þessar yfirlýsingar átta ég mig loks á því að kannski sé ég komin í fæðingu núna.

Tímaskyn mitt var ekkert en seinna komst ég að því að klukkan var hálffimm um nóttina þegar Gestur hringdi í seinna skiptið og þegar Arney mætti voru 3-4 mínútur á milli. Gestur hafði tekið tímann án þess að láta mig vita.

Ég varð lítið vör við það sem var að gerast í kringum mig á þessum tíma. Veit t.d. bara að Arney er þarna því ég heyri hana tala, ég leit aldrei á hana held ég. Ég man svo eftir að hafa heyrt í henni í símanum að hringja í Kristbjörgu ljósmóður og biðja hana að koma og aðstoða. Ég man eftir að hafa heyrt: “Viltu koma og aðstoða í fæðingu sem er samt að verða búin?” Er að verða búin?, hugsa ég, hvað meinar hún, þessi fæðing var að byrja rétt áðan! Gestur og Arney byrja að blása í laugina í snarhasti. Ég man hvað mér líkaði rafmagnspumpan vel því það voru svona drunur í henni og það var þægilegt að stynja með þessum drunum. Þegar laugin er komin upp á mitt stofugólfið áttar einhver sig samt á því að barnið verði eflaust komið í heiminn áður en laugin verði orðin full af vatni. Einhver reynir að spyrja mig hvort mér sé sama eða hvort ég vilji samt að þau láti renna í laugina. Þetta var of flókin spurning til að ég gæti svarað henni 🙂

Arney hvetur mig til að reyna að fara á klósettið og pissa. Ég fer en get alls ekki pissað. Er líka svo hrædd um að aldan komi meðan ég sit á klósettinu en ég vil taka á móti henni á fjórum fótum. Ég opna baðhurðina, gef einhverja skipun um að fá dýnu á gólfið beint fyrir framan hurðina og fæ ósk mína uppfyllta. Gruna að þar hafi eiginmaðurinn verið að verki og áralöng reynsla hans í að átta sig á óskýrum óskum mínum og löngunum hafi þarna borið mikinn ávöxt. Áður en ég læt mig hrynja á dýnuna sé ég Kristbjörgu brosa til mín. Hún var semsagt mætt á svæðið.

Ég hef afar litla stjórn á líkamanum á þessum tímapunkti. Ég gat til dæmis ekki pissað í klósettið en þegar ég lá þarna á dýnunni þá pissaði líkaminn í bindið sem ég var svo heppilega með í buxunum. Ég hafði enga stjórn á þessu. Ég reyndi að láta einhvern vita að mér hefði tekist að pissa. Kannski skildi mig enginn.

Svo kom þessi svokallaða rembingsþörf skyndilega með einni öldu. Ég hafði lesið ógrynni af fæðingarsögum og þar með lýsingum á þessum rembing en ég vissi fyrst ekkert hvað var að gerast. Kannski var mín upplifun eitthvað öðruvísi en eftir að hafa upplifað þetta sjálfri finnst mér rembingsþörf mjög slæmt orð yfir þetta fyrirbæri. Þetta var engin ‘þörf’, svona eins og þegar maður þarf að klóra sér eða þarf að kúka. Þess í stað byrjaði líkaminn bara að æla barninu út. Þetta var í alvörunni alveg eins og að liggja yfir klósettskálinni með ælupest, nema það var verið að æla niður en ekki upp. Ég upplifði meira að segja sömu kippina í líkamanum. Ég myndi lýsa minni upplifun sem ósjálfráðu niðurkasti, miklu frekar en rembingsþörf.

Smátt og smátt öðlaðist ég svo stjórn á ákafanum og þetta varð minna krampakennt. Ég lét samt líkamann alfarið um að ýta barninu út, ég rembdist ekki neitt sjálf. Það eina sem ég gerði var að slaka á og fylgja eftir. Ég vissi ekki hvort mér myndi takast það fyrir fram því þegar maður heyrir um fæðingar eða sér atriði í sjónvarpinu þá er þetta alltaf svaka hasar og átök. Í hypnobirthing bókinni stendur að konur í dái hafi eignast börn án þess að nokkur hafi tekið eftir eða þurft að aðstoða og sú setning seldi mér svolítið þá hugmynd um að líkaminn væri fær um þetta sjálfur, og ég þyrfti ekki að láta hvetja mig áfram og telja upp á 10 og verða rauð í framan við að ýta svona eins og maður sér í sjónvarpinu. Mér leið líka best þegar ég var sem minnst að skipta mér af því sem var að gerast.

Til að gera langa sögu stutta þá held ég að ég hafi verið að ýta barninu út í 2 og hálfa klukkustund á fjórum fótum í sófanum. Aðrar stellingar virkuðu ekki. Þegar á leið byrjaði ég að halla mér yfir arminn á sófanum með hrúgu af púðum undir. Ég fékk góða hvíld milli hríða. Ég drakk kókosvatn gegnum rör, hlustaði á Grace diskinn og fékk kaldan þvottaklút á ennið. Ég man að ég sá sólina gægjast inn undan gluggatjöldunum og fannst það afar skrýtið því ég hélt það væri mið nótt. Arney segir á einum tímapunkti að ég geti örugglega fundið kollinn og ég prófa að þreifa fyrir honum. Það var ótrúlegt að finna fyrir mjúkum kollinum rétt fyrir innan spöngina; að snerta barnið sitt í fyrsta skipti.

Erfiðustu mínúturnar voru þegar höfuðið var að koma út. Þrjú skref áfram með hverri hríð, tvö skref til baka í hvíldinni. Ég passaði mig að drífa þetta ekki áfram og ýtti eins lítið og ég gat með. Þetta tók þó furðanlega fljótt af og það var ÓLÝSANLEGUR léttir þegar höfuðið var allt fætt og þrýstingurinn næstum hvarf. Axlirnar og líkaminn allur rann út í næstu hríð, Arney losaði í snöggheitum strenginn sem var tvívafinn um hálsinn og rétti mér svo barnið mitt upp milli fóta mér. Hann var sleipur og kaldur og ég tók hann í fangið. Tíu fingur og tíu tær. Þetta var fullkominn strákur sem öskraði hressilega.

Við foreldrarnir kysstumst og hlógum og dáðumst að litla kraftaverkinu okkar. Mér fannst þetta allt saman svo ótrúlegt og óraunverulegt. Hann fór svo strax á brjóst og tók vel. Fylgjan kom svo ekki fyrr en rúmum klukkutíma síðar eftir að það var búið að skilja á milli og þeir feðgar komnir upp í rúm að kúra. Ég slóst þá í hópinn og við kúrðum saman, öll fjölskyldan, í rúminu okkar. Spöngin var heil og þetta hafði ekki tekið nema rétt rúma 7 tíma frá því ég missti vatnið.

Ég held að það fyrsta sem ég hafi sagt við ljósmæðurnar eftir að ég fékk strákinn minn í fangið var: Þetta var bara eiginlega ekkert vont.

Það er þrennt sem ég þakka hvað mest fyrir hversu vel gekk. Fyrst er það undirbúningurinn en vegna hans vissi ég hvers ég mætti vænta og fátt sem kom mér á óvart. Ég öðlaðist einnig traust og trú á því að fæðing væri náttúrulegur og eðlilegur atburður og að líkaminn vissi alveg hvað hann væri að gera. Ég þakka einnig heilaleysinu og því hvernig ég náði að slökkva á meðvituðum hugsunum svo þær væru ekki að trufla framgang fæðingarinnar. Mig langar einnig að gerast svo djörf að hvetja ykkur til að sleppa því líka að taka tímann á hríðunum. Vatnið sýður ekki ef þú starir á pottinn. Fáðu fæðingarfélagann til að fylgjast með ef þetta skiptir þig máli. Að lokum: taktu þér tímann sem þú þarft til að ýta barninu út. Það er örugglega ekkert sem liggur á. Það er nefnilega tvenns konar tími í heiminum. Það eru dagarnir og klukkustundirnar sem við mælum á klukkunni og svo er það tíminn sem það tekur ferskjuna að þroskast á trénu.