Síðan skein Sól

Undanfari

Barnið hafði skorðað sig á 36. viku og frá 38. viku var ég stundum að finna fyrir þrýsting niður í grind og seyðing neðst á baki og bumbu. Þegar nær dró fór ég að fá óreglulega „æfingasamdrætti“ sem komu á nokkurra daga fresti í svolítinn tíma og svo vikuna fyrir fæðingu var ég að fá þá á hverjum degi, stundum nokkrum sinnum á dag.

Fæðingin

Þann 19. desember var ég gengin 41 viku. Ég fann fyrir nokkuð sterkum samdráttum yfir nóttina og það kom smá bleikt í klósettpappírinn þegar ég þurrkaði mér eftir klósettferð. Um morguninn voru byrjaðir nokkuð reglulegir samdrættir með 5-7 mínútna millibili og við Róbert áttum rólegan morgun heima. Ég átti tíma í nálastungur og mæðravernd hjá Emblu, ljósmóður á Fæðingarheimili Reykjavíkur klukkan 12 og við fórum saman þangað. Ég lá í rúminu á fæðingarstofunni með nálarnar í klukkutíma, að þeim tíma liðnum kom Embla og fjarlægði þær. Í kjölfarið framkvæmdi hún belgjalosun og sagði okkur að leghálsinn væri mjög stuttur og mjúkur, u.þ.b. 2 cm í útvíkkun. Samdrættirnir síðustu daga höfðu verið að undirbúa okkur fyrir stóru stundina.

Við vorum komin heim um 13 leytið og samdrættirnir voru enn á 5-7 mín fresti. Við ætluðum að reyna að leysa þraut dagsins í jóladagatali sem við áttum en samdrættirnir voru orðnir svo kröftugir að ég gat ekki setið kyrr heldur varð ég að vera á hreyfingu þar til samdrátturinn byrjaði, þá þurfti ég að stoppa, styðja mig við eitthvað og anda mig í gegnum hann. Róbert notaði mjaðmakreistur til að hjálpa og mér fannst það mjög gott. Samdrættirnir voru á u.þ.b. 5 mín fresti í svolítinn tíma og styrkurinn hækkaði frekar hratt.

Við kveiktum á Spotify spilunarlista sem ég hafði búið til fyrir fæðinguna og ég ákvað að fara í sturtu sem hjálpaði mér mjög mikið. Ég skiptist á því að standa upprétt eða sitja á hækjum mér undir sturtunni með lokuð augun, fann fyrir dropunum lenda á mér og renna sér niður. Ég var í miklu slökunarástandi og andaði mig í gegnum kröftuga samdrætti, brosti svo til Róberts inn á milli sem var þarna hjá mér og skráði samdrættina. Kvíðinn sem ég hafði upplifað á meðgöngunni, varðandi fæðinguna, hvernig hún yrði og hvað gæti gerst var hvergi nær. Ég fann fyrir yfirvegaðri ró, gleði, tilhlökkun og ást. Um 16 leytið var ég ennþá í sturtunni og samdrættirnir farnir að vera á u.þ.b. 2 mínútna fresti. Róbert hringdi í Emblu til að láta hana vita og hún stakk upp á því að við myndum vera aðeins lengur heima þannig ég var í sturtunni í svona hálftíma í viðbót eða þar til að samdrættirnir voru farnir að vera mjög sterkir og á 1-2 mínútna fresti. Ég bað Róbert þá að hringja aftur og spyrja hvort við mættum koma á fæðingarheimilið sem var velkomið. Róbert hjálpaði mér úr sturtunni, aðstoðaði mig við að gera mig til og við mættum á fæðingarheimilið klukkan u.þ.b. 18 þar sem Embla tók á móti okkur og bauð okkur að koma inn á fæðingarstofu. Mér fannst rosalega gott að vera komin þangað, í hlýjuna og öryggið sem fyllti upp fallega herbergið. Embla framkvæmdi skoðun, það leit allt vel út og ég var komin 4 í útvíkkun. Samdrættirnir voru orðnir mjög kröftugir, með stuttu millibili og nú fór öll mín orka og einbeiting í að svífa á öldunum þegar þær komu og slaka alveg á þess á milli. Embla dempaði ljósin og lét renna í bað, Róbert kveikti á ilmkertum sem við höfðum tekið með og tónlist. Ég var komin ofan í baðið um 19, Róbert hélt köldum þvottapokum við ennið mitt og bringuna sem var mjög þægilegt en hann þurfti alltaf að fara frá til að kæla þá og á ákveðnum tímapunkti vildi ég bara hafa hann hjá mér þannig ég bað hann um það. Mér leið vel í baðinu en ég átti svolítið erfitt með að halda jafnvægi og að finna „rétta“ stellingu þar en ég var svo einbeitt og það var svo stutt á milli bylgja að mér datt ekki í hug að fara upp úr.

Ég byrjaði að finna fyrir rembingsþörf um 20 leytið en var þá komin 8 í útvíkkun, ég hlustaði á líkamann og var ekki að streitast á móti rembingsþörfinni en ég var ekki að rembast af fullum krafti heldur. Ég reyndi að „anda niður“ eins og ég hafði lært í myndbandi hjá doulu á youtube. Þarna fór að heyrast í frumkonunni sem ég hafði heyrt Helgu Reynis ljósmóður tala um, við fórum í fæðingarfræðslu hjá henni sem kom sér vel í fæðingunni. Mér fannst gott að anda niður en ég var ekki að ná að beina kraftinum nógu mikið í rembinginn, höfuðið rétt kíkti út og fór svo alltaf aftur inn, en það var góður undirbúningur sem hjálpaði með því að mýkja og teygja á svæðinu. 

Embla hringdi í Stefaníu, hina ljósmóðurina sem mætti stuttu seinna til að hjálpa. Hún tók líka fullt af myndum og einhver myndbönd því hún hafði lesið fæðingarplanið okkar þegar hún mætti þar sem stóð að við myndum endilega vilja að teknar yrðu myndir ef hægt væri. Ég tók svosem ekki mikið eftir því sem var að gerast í kringum mig þar sem ég fór svo mikið inn á við og var svo rosalega einbeitt alla fæðinguna. Ég var að anda mig í gegnum hverja bylgju fyrir sig, hugsandi að hver bylgja færi mig nær því að fá barnið okkar í fangið. Um 22 leytið var ég beðin um að fara upp úr baðinu og prófa að fara á klósettið, ég gerði það og fann fyrir miklum þrýsting. Eftir það langaði mig að prófa að koma mér fyrir í rúminu, þar sem ég var orðin þreytt og fann að ég þurfti að ná fullri slökun á milli bylgjanna, sem ég var ekki að ná í baðinu. Ljósmæðurnar gerðu rúmið tilbúið fyrir mig, ég lagðist á hliðina og Róbert lagðist hjá mér á því litla plássi sem ég hafði skilið eftir fyrir hann. Ég náði betri slökun milli bylgja í rúminu og það var mjög gott að hafa Róbert hjá mér, hann og Stefanía skiptust á að hjálpa mér að lyfta efri löppinni þegar ég þurfti að rembast á meðan Embla lagði heitan bakstur við spöngina og beið þess að taka á móti barninu. Þau voru öll með ótrúlega góða nærveru, hvetjandi og yndisleg. Embla spurði hvort ég vildi finna fyrir kollinum, sem ég gerði og mér fannst mjög hughreystandi að finna að hún væri alveg að koma.

Ég hætti að reyna að anda niður vegna þess að ég vildi ná að rembast af meiri krafti og fann strax mun. Þá fór þetta að ganga frekar hratt fyrir sig, stuttu seinna fann ég fyrir því að höfuðið var loksins að komast út og það tók nokkrar bylgjur. Í kjölfarið voru bara nokkrar bylgjur í viðbót þar til Embla tók á móti yndislegu stelpunni okkar og rétti mér hana. Samkvæmt myndunum var höfuðið komið út klukkan 23:34 og 23:36 fékk ég hana í fangið. Ég heyrði gráturinn hennar þegar hún var á leiðinni út og tók við henni þegar Embla rétti mér hana, talaði við hana og veitti henni hlýju, öryggi og nánd. Við kúrðum saman fjölskyldan og fundum fyrir einskærri hamingju og skilyrðislausri ást. Emilía Sól var loksins komin að lýsa upp heiminn okkar. Eftir að dágóður tími hafði liðið þá klippti Róbert naflastrenginn, hún var lögð á magann á mér og var ótrúlega sterk, skreið um og leitaði að brjóstinu sem hún fann að lokum með smá aðstoð.

Hún drakk hjá mér í rúman klukkutíma, Róbert lá við hliðina á okkur og það var ótrúlega notaleg stund sem mér mun alltaf þykja rosalega vænt um. Fylgjan kom klukkan 00:15, Stefanía sýndi okkur hana og fræddi okkur aðeins. Á einhverjum tímapunkti var ég deyfð og Embla hóf saumaskap, sem ég tók varla eftir. Þegar Emilía var búin að drekka þá fékk pabbi hennar að vera með hana húð við húð. Svo fórum við með hana á skiptiborðið, ljósmóðirin framkvæmdi skoðun þar sem allt leit mjög vel út, hún mældist 52 cm og vó 4050 g. Við nýbökuðu foreldrarnir fengum svo að setja á hana fyrstu bleyjuna og klæða hana í fyrstu fötin. Um 3 leytið var hún klædd og komin í fallegu bastvögguna við hliðina á rúminu okkar þar sem hún sofnaði fljótt. Við vorum á Fæðingarheimilinu yfir nótt og fórum svo heim daginn eftir. Embla sinnti heimaþjónustunni, veitti okkur ótrúlega góðan stuðning og var alveg yndisleg.

Fyrstu dagarnir

Dagana eftir fæðinguna var ég með einhverja verki í kviðnum sem við héldum að væri mögulega ristilkrampi, en þegar Emilía Sól var orðin 4 daga gömul þá var verkurinn orðinn staðbundinn neðarlega hægra megin og óbærilegur, ég var komin með hita og gat varla hreyft mig. Við hringdum í Emblu sem ráðlagði okkur að fara á kvennadeildina og hringdi þangað fyrir okkur. Róbert þurfti að gera Emilíu tilbúna og allt sem henni fylgdi, svo þurfti hann að hjálpa mér að klæða mig í föt og að komast út í bíl. Ég emjaði og grét alla leiðina þangað, ég hef aldrei á ævi minni fundið fyrir svona miklum sársauka. Eftir skoðanir og myndatökur kom í ljós að botnlanginn minn hefði sprungið og að ég myndi fara í aðgerð daginn eftir, þann 24. desember. Róbert og Emilía fengu að vera hjá mér sem var rosalega gott. 

Ég þurfti að liggja á bakinu í rúminu með halla og gat varla hreyft mig, Róbert og starfsfólkið á deildinni þurftu að hjálpa mér að gefa Emilíu brjóst með því að hjálpa mér að færa mig til hliðar, leggja kodda við hliðina á mér og leggja hana á koddann þannig hún gæti drukkið hjá mér og svo að færa mig aftur til hliðar, leggja kodda hinum megin og leggja hana á hann. Þetta var erfitt en mér þótti mjög vænt um þessar stundir þrátt fyrir erfiðleikana og var ótrúlega þakklát fyrir að geta gert þetta fyrir hana. Auk þessa þurfti hún að fá ábót og ég þurfti að pumpa mig reglulega til þess að ná upp brjóstamjólkinni. Það var mjög erfitt að fara frá Róberti og Emilíu þegar ég þurfti að fara í aðgerðina, ég var alveg svolítið hrædd og grét á leiðinni þangað. Þegar ég var komin rétt náði ég að sjá eitthvað fólk, svo taldi einhver niður og ég vaknaði á vöknun. Ég hugsaði strax til fjölskyldunnar minnar sem beið eftir mér og bað um að fá að hringja, Róbert svaraði mér, það var ótrúlega gott að heyra röddina hans og ég heyrði að það var léttir fyrir hann að heyra mína. Svo hringdi ég í alla mína nánustu og lét vita að aðgerðinni væri lokið og að það væri í lagi með mig. Ég fékk vökva og sýklalyf í æð auk þess sem ég fékk reglulega verkjastillingu. Ég var enn mjög verkjuð og þurfti aðstoð við að hreyfa mig, en það var hugsað ótrúlega vel um okkur og Róbert var ótrúlega duglegur að sinna okkur mæðgum. Við eyddum jólunum á spítalanum, höfðum það huggulegt þrátt fyrir allt og opnuðum pakkana frá hvort öðru. Ég var dugleg að hreyfa mig með aðstoð Róberts og vöggunar hennar Emilíu þar til ég var farin að geta hreyft mig án mikillar aðstoðar þó það væri enn svolítið vont. Mér fór batnandi með hverjum deginum en það tók samt langan tíma fyrir mig að ná mér almennilega og ég held að líkaminn sé ennþá að jafna sig, auk þess sem þetta hafði einhver áhrif á andlega líðan. Mér leið eins og ég væri að missa af því að eiga „eðlilega“ fyrstu daga með Emilíu og brjóstagjöfin átti í högg að sækja. En það var dásamlegt að fá að vera með fjölskyldunni yfir þetta erfiða tímabil og ég naut þess að kúra með Emilíu Sól mér við hlið, gefa henni brjóst, syngja fyrir hana og spjalla við hana. Hún var ljós mitt í myrkri og Róbert kletturinn okkar.

Ég útskrifaðist af spítalanum 28. desember og við héldum upp á aðeins öðruvísi jól með mömmu. Daginn eftir fékk ég sterkari verki og hita, hringdi á deildina og fékk tíma í blóðprufu morguninn eftir. Ég kjagaði um allt vegna verkja og átti ennþá erfitt með að hreyfa mig án aðstoðar en ég mætti á spítalann í blóðprufu og hitti svo einn af læknunum sem sá um mig. Hann sagði eftir niðurstöður og skoðun að þetta hefði ekki verið það sem hann hefði viljað sjá. Hvítum blóðkornum hafði fjölgað, ég var með hita og mjög verkjuð. Hann bað sjúkraflutningamann að sækja mig í hjólastól og fara með mig upp á 13D.

Það þurfti að taka nýjar myndir og ég þurfti að vera fastandi á deildinni þar til búið væri að skoða þær. Róbert og Emilía komu til mín og eftir einhvern tíma kom í ljós að það væri gröftur í kviðarholinu þar sem botnlanginn hafði sprungið og ég þurfti að fá meiri sýklalyfjagjöf í æð, auk þess sem þurfti að koma fyrir dreni. Við eyddum næstu dögum á 13EG og byrjuðum nýja árið með stæl. Ég losnaði á endanum við drenið og þann 3. janúar fengum við loksins að fara heim. Ég átti að taka sýklalyf um munn en las á sérlyfjaskrá að ekki mætti taka þau með brjóstagjöf og ákvað að hringja á deildina, konan sem svaraði ætlaði að tala við lækni. 

Tengdaforeldrar mínir komu í heimsókn og ætluðu að elda fyrir okkur jólamat en þá hringir deildin og segir mér að ég þurfi að koma og vera áfram á sýklalyfjum í æð vegna þess að ég skipti um lyf í miðri meðferð vegna útbrota og þurfti að vera lengur á því nýja. Ég vildi bara vera heima með fjölskyldunni minni þannig ég ákvað að mæta frekar fjórum sinnum á sólarhring í meðferðina, kl. 6, 12, 18 og 24. Síðasta sýklalyfjagjöfin kláraðist kl. 00:30 þann 6. janúar og ég fékk loksins að vera bara heima að hafa það huggulegt með yndislegu fjölskyldunni minni. Embla, dásamlega ljósmóðirin sem tók á móti Emilíu, sinnti heimaþjónustunni og sýndi mér ótrúlega mikinn stuðning í gegnum þessa erfiðu tíma kom og hjálpaði okkur að gefa Emilíu Sól fyrsta baðið sitt. Við tók bataferli heima, brjóstagjafir og brjóstapumpu sessions, kúr og notalegar stundir sem fjölskylda. Ég gerði mitt allra besta og vann hart að því að reyna að ná upp brjóstagjöfinni, fékk aðstoð og stuðning frá Edythe sem er brjóstagjafarráðgjafi á fæðingarheimilinu og náði að gefa henni brjóst í 5 mánuði þrátt fyrir veikindin. Þá var engin breyting á magninu sem hún fékk hjá mér, ég var orðin uppiskroppa með orku til þess að reyna að breyta því og Emilía farin að mótmæla þannig ég slakaði á þessu og þar af leiðandi fór framleiðslan minnkandi þar til við tókum síðustu brjóstagjöfina. Emilía dafnaði mjög vel, mér fór batnandi með hverjum degi sem leið og við fjölskyldan höfðum það ótrúlega gott. Þegar ég horfi til baka myndi ég ekki vilja breyta neinu, þetta mótaði okkur sem fjölskyldu og ég er ótrúlega ánægð með okkur eins og við erum. Ég er mjög þakklát fyrir lífið, heilsuna, fjölskylduna mína og alla sem studdu við okkur.