Fæðingarsagan mín

Þessi fæðingarsaga var upphaflega birt á lady.is en er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi Guðrúnar.

Ég var sett 15. ágúst 2015. Föstudaginn 14. ágúst fer ég á heilsugæsluna að hitta ljósuna mína til að athuga stöðuna á mér. Litla stelpan mín var ennþá óskorðuð og ég var ekki komin með neitt í útvíkkun. Ég var pínu svekkt. Mig verkjaði svo mikið í grindinni að ég haltraði af sársauka. Brjóstsviðinn var heldur ekki að hjálpa til, ég beið bara eftir því að það kæmi kolamoli uppúr mér. Það var ekki mikill svefn þessa dagana vegna verkja í grindinni. Á mánudeginum (17.ágúst) fór ég í nálastungur og hreyft var við belgnum, daman var enn óskorðuð. Daginn eftir, á þriðjudeginum, byrjaði ég að fá samdrætti og versnuðu þeir með kvöldinu og nóttinni. Á miðvikudagsmorgninum áttum við pantaðan tíma hjá fæðingarlækni, en hún átti að meta hvort það ætti að setja mig af stað. Ég var nefnilega með mjög stóra kúlu.

Á þessari mynd er ég gengin 36 vikur en kúlan stækkaði ennþá meira í lokin.

Ég fór í auka vaxtasónar á seinni hluta meðgöngunnar og var talið að barnið mitt yrði allavegana um 18 merkur þegar það myndi fæðast.

Það er reyndar oft mikil skekkja í þessum mælingum þannig að þetta var ekki pottþétt. En þennan miðvikudagsmorgun fórum við uppá deild og þá var daman loksins skorðuð og ég komin með 2-3 í útvíkkun. Það var hreyft aftur við belgnum og við svo send heim að leggja okkur. Ég gat ekkert sofið og leið ekkert mjög vel. Við áttum að fara aftur uppá deild um klukkan 18 til að athuga stöðuna. Allt var óbreytt og ég var send heim með verkjalyf og svefnlyf. Ég gat loksins sofið eitthvað smá en vaknaði 4 um nóttina með mikla verki. Við fórum uppá deild og ég var lögð inn. Á fimmtudagsmorgninum var ég með 5-6 í útvíkkun. Um 10 leitið gat ég ekki meira af sársaukanum og fékk mænudeyfingu. Þvílíkur munur! Ég gat loksins andað venjulega, slakað á og sofnað! Með næsta barni ætla ég að biðja fyrr um mænudeyfingu, ekki spurning. Klukkan 13 var aftur tekin staðan og ég með um 6 í útvíkkun og hríðarnar voru mjög óreglulegar. Belgurinn var sprengdur líka. Um klukkan 16 þegar þriðja ljósmóðirin kom á vakt þá sagði hún að belgurinn hafði ekki verið nógu vel sprengdur þannig að hún gerði það aftur. Ég fékk einnig dripp til að reyna auka hríðarnar en þær voru ennþá mjög óreglulegar. Klukkan 20 um kvöldið kom ljósmóðirin inn til okkar og sagði að þetta væri ekki að ganga svona og að hún ætlaði að ná í stelpuna. Ég skildi ekkert hvað hún var að meina.. ná í stelpuna? Hvernig ætlaði hún að gera það eiginlega. Ég spurði hana dauðþreytt og ringluð „haa ætlaru að ná í hana“. Já hún ætlaði bara að ná í hana sagði hún aftur. Þá spurði Óli hvort hún væri þá að meina með keisara, og jú hún var að meina það. Ég fór að hágráta. Tilfinningarnar voru útum allt og ég búin að bíða og bíða eftir að geta fætt barnið mitt og svo allt í einu átti bara að skera mig upp. En ég var fljót að jafna mig, ég var svo þreytt og langaði bara að fá barnið mitt strax. 20 mínútum seinna var stelpan okkar komin í heiminn eða klukkan 20:18. Hún var 17 merkur og 52 sentimetrar.

Ágústa Erla komin í heimferðarsettið