Það var ekki eftir neinu að bíða, ég var gengin 40 vikur og 6 daga og bað ljósuna um að hreyfa við belgjum, þetta barn var meira en velkomið í heiminn. Þetta var þriðja barnið mitt, ég gekk vel og lengi með hin tvö líka, lengst 41 viku og 6 daga, og fannst því ekkert að vanbúnaði að reyna að koma þessu af stað. Ég ætlaði að eiga heima, alveg eins og í tvö fyrri skiptin.
Eftir ljósmæðraheimsóknina bauð ég 5 ára stráknum mínum í göngutúr í skammdeginu, ég hugsaði með mér að þetta gætu vel verið síðustu stundirnar áður en nýtt barn bættist í fjölskylduna. Hann vildi fara langt en ég var hikandi, vildi spara orkuna aðeins. Leið samt vel, hafði enga fyrirvaraverki eða seiðing og samkvæmt Kristbjörgu var ég með rétt um 2-3 í útvíkkun. Ég hafði samt einhverja tilfinningu sem ég vissi ekki alveg hvort ég þyrði að hlusta á. Við keyptum nýburableyjur og enduðum þennan göngutúr á því að labba óvart inn á opnunarhóf á Lífsgæðasetri St. Jó og bárum þar forsetann augum áður en við rákumst fyrir slysni á Kristbjörgu heimafæðingarljósmóðurina mína í eigin persónu þarna á staðnum og aðra ljósmóður sem var með henni. Sú ljósmóðir fékk að þreifa bumbuna þarna á ganginum en þrátt fyrir það var enn óljóst hvort barnið væri búið að skorða sig.
Ég vaknaði kl 9 næsta morgun og hugsaði með mér að ég þyrfti að fara að velta mér og þessari stóru bumbu fram úr þegar ég fann örlitla bleytutilfinningu. Fyrri fæðingarnar tvær hófust báðar með því að ég missi vatnið og því taldi ég mig vita hvað væri að gerast og stökk fram úr rúminu eins og engispretta. Það var eins gott því það kom risa gusa niður á milli fótanna á mér, ég hefði getað verið að leika í Hollywood mynd þetta var svo mikið vatn sem bara gusaðist niður og ætlaði engan endi að taka. Ég heyri ennþá hljóðið í höfðinu á mér. Fssssssssss. Svona hafði ég aldrei upplifað, í fyrri skiptin tvö var þetta bara pollur sem kom. Ég tók upp símann, vissi að strákarnir mínir tveir væru komnir í skóla og leikskóla en vissi ekki hvar maðurinn minn var. Hann svaraði og ég sagði um hæl: „Vatnið er farið“. Ég heyrði hann brosa í símann. Sem betur fer var hann bara inni í stofu og kom upp til mín þar sem ég stóð í stöðuvatni á svefnherbergisgólfinu. Það þurfti tvö stór baðhandklæði til að þurrka herlegheitin upp! Ég lagðist aftur upp í rúm og við hringdum í Kristbjörgu. Ekkert barnanna minna hefur skorðað sig og þetta barn var heldur ekki skorðað. Kristbjörg dreif sig af stað til okkar til að hlusta á hjartsláttinn sem var sterkur og góður og enn var barnið ekki skorðað.
Kristbjörg hvatti mig til að liggja bara og hvíla mig. Ég fór á klósettið og lagðist svo upp í rúm, kveikti á kerti og hlustaði á fallega tónlist. Ég var mjög þakklát fyrir að vera bara í eigin rúmi og fá ljósmóðurina til mín. Kristbjörg kvaddi fljótt, átti von á nokkrum til sín í mæðravernd fyrir hádegið og að við ættum bara að heyra í henni. Ég dorma og hlusta á Spotify playlistann og sem ég hafði sett saman og slökun úr Hypnobirthing. Ég var með hitapoka og maðurin minn strauk mér af og til um bakið. Fullt af hugsunum þutu gegnum höfuðið á mér, ég var spennt og óþreyjufull og vonaði að allt myndi ganga vel og ég hugsaði um hvenær barnið myndi fæðast og hvernig dagurinn yrði og ég kæmist ekki í hádegistímann í jóga og alls konar skrýtnar hugsanir komu fram. Það var stutt í kvíðann en ég hafði fengið svo mikinn jákvæðan boðskap í jóga og heilaþvegið sjálfa mig með jákvæðum staðhæfingum og fæðingarsögum að kvíðinn var kvaddur í hvert sinn sem hann bankaði upp á. Ég var samt ekki komin með neinar reglulegar bylgjur.
Að lokum tek ég af mér noise-cancellation heyrnartólin til að segja bara eitt orð við manninn minn: Kristbjörg. Hann segir að Kristbjörg sé á leiðinni, hann sé nú þegar búinn að hringja í hana. Hann sagði mér seinna að hann hefði heyrt mig gefa frá mér kunnugleg hljóð sem urðu til þess að hann ákvað að kalla Kristbjörgu til okkar án þess að trufla mig. Ég hafði greinilega bara mallað rólega í gang og klukkan er um 12 á hádegi þegar Kristbjörg kemur. Ég tók aldrei tímann á milli hríða og vissi ekkert hvað klukkan var, einbeitti mér að því að slaka á og hafa höfuðið á réttum stað.
Ég veit að Kristbjörg er komin því hún færir heyrnartólin mín og segir: „Ef þú vilt komast í vatnið, þá þarftu að koma núna.“ Ha?, hugsa ég, skil ekki af hverju hún segir þetta svona og spyr hvort laugin sé tilbúin. Jú, allt tilbúið svo ég gríp tækifærið milli bylgjanna og næstum hleyp niður stigann og inn í stofu. Ég fæ aðstoð við að klifra ofan í laugina og svo ligg ég bara í vatninu með heyrnartólin mín og augnskýlu, sé ekkert og heyri ekkert og veit ekkert hvað er að gerast í kringum mig. Af og til segi ég „Næsta lag“, en þá var Spotify playlistinn minn löngu búinn og nú var Spotify að spila bara eitthvað svipað. Einhver hélt á símanum mínum og ýtti á næsta lag. Maðurinn minn rétti mér kaldan þvottaklút sem ég hélt á enninu og þrýsti á augun í hverri bylgju. Hann var líka með vatnsglas með röri og kókosvatn með röri. Alveg hreint frábær þjónusta hjá mínu fæðingarteymi!
Ég byrja að fá rembingsþörf í toppunum á bylgjunum en það var kunnugleg tilfinning úr síðustu fæðingu. Af því rembingurinn var bara í toppunum en ekki alla bylgjuna, þóttist ég viss um að útvíkkun væri ekki lokið og rembingurinn því til lítils nema þá að þreyta mig. Hérna er öndunin ómetanleg og í toppunum keppist ég við að halda niðri ákefðinni í rembingnum. Ég hugsa að ég þurfi að drífa mig að klára útvíkkunina svo ég haldi orkunni. Ég segi: „Vil ekki rembast“. Ég get ekki sagt neitt meira, það er svo erfitt fyrir mig að tala í fæðingu. Kristbjörg svarar og segir að ég sé að standa mig vel en ég held að hún og allir viðstaddir haldi að ég sé komin lengra en ég er. Reynslan úr fyrri fæðingum sagði mér að núna vantaði mig tilfinninguna fyrir kollinum í grindinni, svona eins og þrýstingur á beinin í grindinni, það er þá sem rembingurinn er að skila einhverju fyrir mig, veit ég af fyrri reynslu. Ef beinin eru ekki að ýtast í sundur þá er þessi rembingur ekki að gera neitt. Ég vil leiðrétta þennan misskilning og bið því um innri skoðun ofan í vatninu. Það var auðveldara að fá innri skoðun en að ég færi að útskýra eitthvað að ég héldi að rembingur væri ótímabær, það er svo erfitt að tala. Varðandi innri skoðunina þarna segir Kristbjörg: „Ef þú vilt, allt á þínum forsendum“. Þetta var eina innri skoðunin í allri þessari fæðingu og hún var bara gerð af því ég bað um hana. Kristbjörg segir að það sé töluvert eftir og að það sé þykk og mikil brún á leghálsinum. Gott, hugsaði ég því ég fékk grun minn staðfestan: útvíkkun var ekki lokið. Rosalega er ég fegin að hún sagði enga tölu við mig. Ef ég hefði heyrt 5 þá hefði ég farið að gráta.
Ég ákvað að reyna eitthvað annað til að klára útvíkkun svo ég fór á klósettið. Ekki gat ég pissað og ekkert gerðist en rembingsþörfin minnkaði örlítið, kannski bara af því ég stóð upp og hreyfði mig. Ég var algjörlega í eigin heimi og leyfði mér að sökkva djúpt inn í sjálfa mig. Líkaminn minn myndi vita hvað ég ætti að gera til að klára þessa útvíkkun.
Ef einhver hefði sagt mér að ég myndi geta staðið og tekið á móti bylgjunum þannig i fæðingu þá hefði ég hlegið. Samt var það ákkurat það sem líkamanum fannst góð hugmynd á þessum tíma og ég hlustaði á likamann. Það var hvort sem er svo erfitt að klifra upp í laugina aftur. Svo ég stóð upprétt á stofugólfinu og notaði kantinn á lauginni mér til stuðnings. Enda kláraðist útvíkkunin þarna á kannski 20 mínútum. Fyrir mér voru þetta svona 2 til 3 bylgjur. Kannski voru þær miklu fleiri í rauninni, ég hafði ekki hugmynd um hversu langt var á milli og það var gott. Tímaleysið þjónaði mér vel. Það blæddi víst vel þarna, ég fann blóð leka, en kannski var þetta legvatn? Ég er ekki viss. Ég var ekki vitund hrædd, ég hugsaði bara Aaaahhhhh. Þetta hafði verið svipað í fyrstu fæðingunni minni og blóð þýddi að leghálsinn var að opna sig hratt.
Svo fann ég skyndilega breytingu á bylgjunum og nú var rembingurinn mættur. Rosalega var það góð tilfinning, ég vissi að það erfiðasta var að baki. Ég kastaði mér á 4 fætur á pullu á gólfinu og veslings Kristbjörg og ljósmóðurneminn að bisa við að koma undirlagi undir mig. Ég, sem rétt áðan hafði staðið eins og valkyrja, sagði nú: Ég get ekki hreyft mig og það var hverju orði sannara. Ég var samt orðin mega peppuð og bað manninn minn um að færa mér orkustykki úr frystinum sem ég hafði búið til svo ég hefði nú orku fyrir þetta og það alveg hlakkaði í mér. Ég var svo peppuð þarna á pullunni með orkustykkið mitt að ég man ég hugsaði að nú væri HÚN að koma og mér fannst góð hugmynd að skíra hana Hnetu (örugglega innblásin af orkustykkinu). Við vissum ekki kynið sko, þarna bara rauk það upp í kollinn á mér að þetta barn væri stelpa.
Stærsti munurinn á fyrstu fæðingunni minni og seinni tveimur er ákkurat á þessum punkti en í fyrsta skipti var ég heillengi að koma höfðinu niður grindina. Það tók alveg 2 klukkustundir í fyrstu fæðingu en nú gerðist þetta bara í einum rembing og þá er höfuðið komið á spöngina. Ég vildi gera allt til að forðast að rifna svo ‘ljúflega’ varð mitt mottó. Einn rembingur og ekkert höfuð sást en ég fann það hreyfast neðar inni í mér. Svo finn ég höfuðið renna upp þegar bylgjunni lýkur. Annar rembingur og höfuðið færist niður og sést. Svo rennur það aftur upp og hverfur. Þriðji rembingur og höfuðið kemur niður og hálft út og stoppar þar. Þarna er eldhringurinn og mig langar mest að klifra út úr eigin skinni. Ég reyndi mitt allra besta til að hægja á rembingnum í þessu ferli, ljúflega, ljúflega, ljúflega, þú ert ekki að flýta þér, vandaðu þig, ómaði í kollinum á mér og það þurfti allt sem ég átti til hemja kraftinn. Eftir bylgjuna slakar á sviðanum því höfuðið færist aftur aðeins inn. Næsta bylgja kemur fljótt af miklum krafti og höfuðið skýst út og ég man eftir að hafa beðið í nokkrar mínútur með heitt höfuðið milli læranna á mér, vitandi það að bara ein bylgja væri eftir af þessari fæðingu. Það er mjög sérstök tilfinning að vera með heilt höfuð standandi út úr sér, ég þorði ekki að hreyfa mig, beið og beið í það sem virtist heil eilífð.
Hún fæðist svo beint á pulluna, bara svona dettur næstum út. Ég sest á hækjur mér og horfi á þetta barn og já það var stelpa! Ég safna orku til að lyfta henni upp í fangið og hlæ og kyssi manninn minn. Ég þurfti í alvöru að safna orku, ég skalf einhvern veginn og hló og grét. Hún var með dökkt hár og þakin fósturfitu á höfði og baki, hin börnin mín fæddust nánast alveg laus við fósturfitu og með gegnsætt hár. Hún var grá eins og öll börn eru þegar þau fæðast og hún hafði líka kúkað í fæðingunni, það var svartur kúkur á henni og á fótunum á mér. Þetta var því ágætlega subbulegt allt saman býst ég við en ég var upptekin við annað og ljósmæðurnar þessar elskur þrifu allt og gerðu fínt 🙂 Pulluna góðu (sem ljósmæðurnar þrifu einhvern veginn) á ég enn og tek fram á vorin því þetta er pulla sem breytir pallettu í garðhúsgagn.
Við færum okkur svo upp í sófa og ég set litlu stelpuna á brjóst. Fylgjan kemur fljótlega, alveg áreynslulaust. Strákarnir mínir koma svo heim, þeir voru sóttir í skólann. Þeir klippa naflastrenginn sem þeir sögðu eftir á að hefði verið mjög erfitt því hann var svo seigur.
Ég grínaðist með það við Kristbjörgu að ég hefði svo sannarlega fætt þetta barn á skrifstofutíma, missti vatnið klukkan 9 og barnið var fætt fyrir 4. Ekkert næturbrölt á mér þetta skiptið. Það þurfti heldur ekkert að sauma og sængurlegan gekk eins og í sögu. Ég var ekkert að drífa mig af stað, eyddi örugglega heilum mánuði uppi í sófa með lillunni minni.