Hneta kom í heiminn

Það var ekki eftir neinu að bíða, ég var gengin 40 vikur og 6 daga og bað ljósuna um að hreyfa við belgjum, þetta barn var meira en velkomið í heiminn. Þetta var þriðja barnið mitt, ég gekk vel og lengi með hin tvö líka, lengst 41 viku og 6 daga, og fannst því ekkert að vanbúnaði að reyna að koma þessu af stað. Ég ætlaði að eiga heima, alveg eins og í tvö fyrri skiptin.

Eftir ljósmæðraheimsóknina bauð ég 5 ára stráknum mínum í göngutúr í skammdeginu, ég hugsaði með mér að þetta gætu vel verið síðustu stundirnar áður en nýtt barn bættist í fjölskylduna. Hann vildi fara langt en ég var hikandi, vildi spara orkuna aðeins. Leið samt vel, hafði enga fyrirvaraverki eða seiðing og samkvæmt Kristbjörgu var ég með rétt um 2-3 í útvíkkun. Ég hafði samt einhverja tilfinningu sem ég vissi ekki alveg hvort ég þyrði að hlusta á. Við keyptum nýburableyjur og enduðum þennan göngutúr á því að labba óvart inn á opnunarhóf á Lífsgæðasetri St. Jó og bárum þar forsetann augum áður en við rákumst fyrir slysni á Kristbjörgu heimafæðingarljósmóðurina mína í eigin persónu þarna á staðnum og aðra ljósmóður sem var með henni. Sú ljósmóðir fékk að þreifa bumbuna þarna á ganginum en þrátt fyrir það var enn óljóst hvort barnið væri búið að skorða sig.

Ég vaknaði kl 9 næsta morgun og hugsaði með mér að ég þyrfti að fara að velta mér og þessari stóru bumbu fram úr þegar ég fann örlitla bleytutilfinningu. Fyrri fæðingarnar tvær hófust báðar með því að ég missi vatnið og því taldi ég mig vita hvað væri að gerast og stökk fram úr rúminu eins og engispretta. Það var eins gott því það kom risa gusa niður á milli fótanna á mér, ég hefði getað verið að leika í Hollywood mynd þetta var svo mikið vatn sem bara gusaðist niður og ætlaði engan endi að taka. Ég heyri ennþá hljóðið í höfðinu á mér. Fssssssssss. Svona hafði ég aldrei upplifað, í fyrri skiptin tvö var þetta bara pollur sem kom. Ég tók upp símann, vissi að strákarnir mínir tveir væru komnir í skóla og leikskóla en vissi ekki hvar maðurinn minn var. Hann svaraði og ég sagði um hæl: „Vatnið er farið“. Ég heyrði hann brosa í símann. Sem betur fer var hann bara inni í stofu og kom upp til mín þar sem ég stóð í stöðuvatni á svefnherbergisgólfinu. Það þurfti tvö stór baðhandklæði til að þurrka herlegheitin upp! Ég lagðist aftur upp í rúm og við hringdum í Kristbjörgu. Ekkert barnanna minna hefur skorðað sig og þetta barn var heldur ekki skorðað. Kristbjörg dreif sig af stað til okkar til að hlusta á hjartsláttinn sem var sterkur og góður og enn var barnið ekki skorðað.

Kristbjörg hvatti mig til að liggja bara og hvíla mig. Ég fór á klósettið og lagðist svo upp í rúm, kveikti á kerti og hlustaði á fallega tónlist. Ég var mjög þakklát fyrir að vera bara í eigin rúmi og fá ljósmóðurina til mín. Kristbjörg kvaddi fljótt, átti von á nokkrum til sín í mæðravernd fyrir hádegið og að við ættum bara að heyra í henni. Ég dorma og hlusta á Spotify playlistann og sem ég hafði sett saman og slökun úr Hypnobirthing. Ég var með hitapoka og maðurin minn strauk mér af og til um bakið. Fullt af hugsunum þutu gegnum höfuðið á mér, ég var spennt og óþreyjufull og vonaði að allt myndi ganga vel og ég hugsaði um hvenær barnið myndi fæðast og hvernig dagurinn yrði og ég kæmist ekki í hádegistímann í jóga og alls konar skrýtnar hugsanir komu fram. Það var stutt í kvíðann en ég hafði fengið svo mikinn jákvæðan boðskap í jóga og heilaþvegið sjálfa mig með jákvæðum staðhæfingum og fæðingarsögum að kvíðinn var kvaddur í hvert sinn sem hann bankaði upp á. Ég var samt ekki komin með neinar reglulegar bylgjur.

Að lokum tek ég af mér noise-cancellation heyrnartólin til að segja bara eitt orð við manninn minn: Kristbjörg. Hann segir að Kristbjörg sé á leiðinni, hann sé nú þegar búinn að hringja í hana. Hann sagði mér seinna að hann hefði heyrt mig gefa frá mér kunnugleg hljóð sem urðu til þess að hann ákvað að kalla Kristbjörgu til okkar án þess að trufla mig. Ég hafði greinilega bara mallað rólega í gang og klukkan er um 12 á hádegi þegar Kristbjörg kemur. Ég tók aldrei tímann á milli hríða og vissi ekkert hvað klukkan var, einbeitti mér að því að slaka á og hafa höfuðið á réttum stað.

Ég veit að Kristbjörg er komin því hún færir heyrnartólin mín og segir: „Ef þú vilt komast í vatnið, þá þarftu að koma núna.“ Ha?, hugsa ég, skil ekki af hverju hún segir þetta svona og spyr hvort laugin sé tilbúin. Jú, allt tilbúið svo ég gríp tækifærið milli bylgjanna og næstum hleyp niður stigann og inn í stofu. Ég fæ aðstoð við að klifra ofan í laugina og svo ligg ég bara í vatninu með heyrnartólin mín og augnskýlu, sé ekkert og heyri ekkert og veit ekkert hvað er að gerast í kringum mig. Af og til segi ég „Næsta lag“, en þá var Spotify playlistinn minn löngu búinn og nú var Spotify að spila bara eitthvað svipað. Einhver hélt á símanum mínum og ýtti á næsta lag. Maðurinn minn rétti mér kaldan þvottaklút sem ég hélt á enninu og þrýsti á augun í hverri bylgju. Hann var líka með vatnsglas með röri og kókosvatn með röri. Alveg hreint frábær þjónusta hjá mínu fæðingarteymi!

Ég byrja að fá rembingsþörf í toppunum á bylgjunum en það var kunnugleg tilfinning úr síðustu fæðingu. Af því rembingurinn var bara í toppunum en ekki alla bylgjuna, þóttist ég viss um að útvíkkun væri ekki lokið og rembingurinn því til lítils nema þá að þreyta mig. Hérna er öndunin ómetanleg og í toppunum keppist ég við að halda niðri ákefðinni í rembingnum. Ég hugsa að ég þurfi að drífa mig að klára útvíkkunina svo ég haldi orkunni. Ég segi: „Vil ekki rembast“. Ég get ekki sagt neitt meira, það er svo erfitt fyrir mig að tala í fæðingu. Kristbjörg svarar og segir að ég sé að standa mig vel en ég held að hún og allir viðstaddir haldi að ég sé komin lengra en ég er. Reynslan úr fyrri fæðingum sagði mér að núna vantaði mig tilfinninguna fyrir kollinum í grindinni, svona eins og þrýstingur á beinin í grindinni, það er þá sem rembingurinn er að skila einhverju fyrir mig, veit ég af fyrri reynslu. Ef beinin eru ekki að ýtast í sundur þá er þessi rembingur ekki að gera neitt. Ég vil leiðrétta þennan misskilning og bið því um innri skoðun ofan í vatninu. Það var auðveldara að fá innri skoðun en að ég færi að útskýra eitthvað að ég héldi að rembingur væri ótímabær, það er svo erfitt að tala. Varðandi innri skoðunina þarna segir Kristbjörg: „Ef þú vilt, allt á þínum forsendum“. Þetta var eina innri skoðunin í allri þessari fæðingu og hún var bara gerð af því ég bað um hana. Kristbjörg segir að það sé töluvert eftir og að það sé þykk og mikil brún á leghálsinum. Gott, hugsaði ég því ég fékk grun minn staðfestan: útvíkkun var ekki lokið. Rosalega er ég fegin að hún sagði enga tölu við mig. Ef ég hefði heyrt 5 þá hefði ég farið að gráta. 

Ég ákvað að reyna eitthvað annað til að klára útvíkkun svo ég fór á klósettið. Ekki gat ég pissað og ekkert gerðist en rembingsþörfin minnkaði örlítið, kannski bara af því ég stóð upp og hreyfði mig. Ég var algjörlega í eigin heimi og leyfði mér að sökkva djúpt inn í sjálfa mig. Líkaminn minn myndi vita hvað ég ætti að gera til að klára þessa útvíkkun.

Ef einhver hefði sagt mér að ég myndi geta staðið og tekið á móti bylgjunum þannig i fæðingu þá hefði ég hlegið. Samt var það ákkurat það sem líkamanum fannst góð hugmynd á þessum tíma og ég hlustaði á likamann. Það var hvort sem er svo erfitt að klifra upp í laugina aftur. Svo ég stóð upprétt á stofugólfinu og notaði kantinn á lauginni mér til stuðnings. Enda kláraðist útvíkkunin þarna á kannski 20 mínútum. Fyrir mér voru þetta svona 2 til 3 bylgjur. Kannski voru þær miklu fleiri í rauninni, ég hafði ekki hugmynd um hversu langt var á milli og það var gott. Tímaleysið þjónaði mér vel. Það blæddi víst vel þarna, ég fann blóð leka, en kannski var þetta legvatn? Ég er ekki viss. Ég var ekki vitund hrædd, ég hugsaði bara Aaaahhhhh. Þetta hafði verið svipað í fyrstu fæðingunni minni og blóð þýddi að leghálsinn var að opna sig hratt. 

Svo fann ég skyndilega breytingu á bylgjunum og nú var rembingurinn mættur. Rosalega var það góð tilfinning, ég vissi að það erfiðasta var að baki. Ég kastaði mér á 4 fætur á pullu á gólfinu og veslings Kristbjörg og ljósmóðurneminn að bisa við að koma undirlagi undir mig. Ég, sem rétt áðan hafði staðið eins og valkyrja, sagði nú: Ég get ekki hreyft mig og það var hverju orði sannara. Ég var samt orðin mega peppuð og bað manninn minn um að færa mér orkustykki úr frystinum sem ég hafði búið til svo ég hefði nú orku fyrir þetta og það alveg hlakkaði í mér. Ég var svo peppuð þarna á pullunni með orkustykkið mitt að ég man ég hugsaði að nú væri HÚN að koma og mér fannst góð hugmynd að skíra hana Hnetu (örugglega innblásin af orkustykkinu). Við vissum ekki kynið sko, þarna bara rauk það upp í kollinn á mér að þetta barn væri stelpa.

Stærsti munurinn á fyrstu fæðingunni minni og seinni tveimur er ákkurat á þessum punkti en í fyrsta skipti var ég heillengi að koma höfðinu niður grindina. Það tók alveg 2 klukkustundir í fyrstu fæðingu en nú gerðist þetta bara í einum rembing og þá er höfuðið komið á spöngina. Ég vildi gera allt til að forðast að rifna svo ‘ljúflega’ varð mitt mottó. Einn rembingur og ekkert höfuð sást en ég fann það hreyfast neðar inni í mér. Svo finn ég höfuðið renna upp þegar bylgjunni lýkur. Annar rembingur og höfuðið færist niður og sést. Svo rennur það aftur upp og hverfur. Þriðji rembingur og höfuðið kemur niður og hálft út og stoppar þar. Þarna er eldhringurinn og mig langar mest að klifra út úr eigin skinni. Ég reyndi mitt allra besta til að hægja á rembingnum í þessu ferli, ljúflega, ljúflega, ljúflega, þú ert ekki að flýta þér, vandaðu þig, ómaði í kollinum á mér og það þurfti allt sem ég átti til hemja kraftinn. Eftir bylgjuna slakar á sviðanum því höfuðið færist aftur aðeins inn. Næsta bylgja kemur fljótt af miklum krafti og höfuðið skýst út og ég man eftir að hafa beðið í nokkrar mínútur með heitt höfuðið milli læranna á mér, vitandi það að bara ein bylgja væri eftir af þessari fæðingu. Það er mjög sérstök tilfinning að vera með heilt höfuð standandi út úr sér, ég þorði ekki að hreyfa mig, beið og beið í það sem virtist heil eilífð.

Hún fæðist svo beint á pulluna, bara svona dettur næstum út. Ég sest á hækjur mér og horfi á þetta barn og já það var stelpa! Ég safna orku til að lyfta henni upp í fangið og hlæ og kyssi manninn minn. Ég þurfti í alvöru að safna orku, ég skalf einhvern veginn og hló og grét. Hún var með dökkt hár og þakin fósturfitu á höfði og baki, hin börnin mín fæddust nánast alveg laus við fósturfitu og með gegnsætt hár. Hún var grá eins og öll börn eru þegar þau fæðast og hún hafði líka kúkað í fæðingunni, það var svartur kúkur á henni og á fótunum á mér. Þetta var því ágætlega subbulegt allt saman býst ég við en ég var upptekin við annað og ljósmæðurnar þessar elskur þrifu allt og gerðu fínt 🙂 Pulluna góðu (sem ljósmæðurnar þrifu einhvern veginn) á ég enn og tek fram á vorin því þetta er pulla sem breytir pallettu í garðhúsgagn.

Við færum okkur svo upp í sófa og ég set litlu stelpuna á brjóst. Fylgjan kemur fljótlega, alveg áreynslulaust. Strákarnir mínir koma svo heim, þeir voru sóttir í skólann. Þeir klippa naflastrenginn sem þeir sögðu eftir á að hefði verið mjög erfitt því hann var svo seigur. 

Ég grínaðist með það við Kristbjörgu að ég hefði svo sannarlega fætt þetta barn á skrifstofutíma, missti vatnið klukkan 9 og barnið var fætt fyrir 4. Ekkert næturbrölt á mér þetta skiptið. Það þurfti heldur ekkert að sauma og sængurlegan gekk eins og í sögu. Ég var ekkert að drífa mig af stað, eyddi örugglega heilum mánuði uppi í sófa með lillunni minni.

Fæðingarsaga Bryndísar Lenu – {óvænt heimafæðing}

Þetta byrjaði allt aðfaranótt sunnudagsins 11. október. Daginn áður vorum við með tveggja ára afmælisveislu fyrir stelpuna okkar og mikið búið að vera í gangi. Ég var algerlega óundirbúin, spítalataskan tóm og barnafötin niðri í geymslu, enda var rétt rúm vika í settan dag, og ég ekki beint þekkt fyrir að vera sérstaklega tímanleg manneskja. Ég var líka handviss um að stelpan ætlaði fæðast 12. október þar sem það er afmælisdagur ömmunnar sem hún átti að heita í höfuðið á og þá var akkúrat vika í settan dag en systir hennar kom einmitt viku fyrir sinn setta dag. Þetta var allt útpælt og planað og sunnudagurinn 11. október átti bara að fara í slökun fyrir komandi átök og undirbúning í rólegheitunum.

Um nóttina var lítið sofið eins og vanalega, bumban var alls staðar fyrir og stefnumótin við klósettið voru endalaus. Kkukkan var orðin rúmlega 6 og ég var að fara að staulast enn eina ferðina upp í rúm, sem var bæði tímafrekt og vandasamt verkefni á þessu stigi meðgöngunnar, þegar gusan kom. Það gat nú varla verið að ég væri að pissa á mig svona nýbúin á klósettinu, en það var svosem orðið fátt við þessa óléttu sem gat komið mér á óvart. Ég vakti Sigga með þeim orðum að ég héldi að ég hefði verið að missa vatnið og hann rauk upp, hentist fram úr með eldri stelpuna og var horfinn á nóinu. Ég var ekki alveg að meðtaka þennan hamagang og rölti aftur inn á klósett til að athuga málið betur. Þá var klukkan um 6:20.

Rétt á eftir fékk ég svo fyrsta verk og næsti kom nánast alveg í kjölfarið. Verkirnir urðu svo fljótlega mjög sárir og komu með örstuttu millibili. Þá varð ég víst að viðurkenna að ég væri komin með hríðar.

Ég var strax algjörlega ófær um að hugsa skýrt, hljóp bara um og reyndi að finna til dót í töskuna á milli hríða. Á meðan stökk Siggi niður í geymslu að sækja kassana með barnafötunum og ég fór enn einu sinni á klósettið og þá var byrjað að blæða. Ég vissi þá að útvíkkunin væri að verða búin af því þannig var það í síðustu fæðingu. Þá voru kannski liðnar 15-20 mínútur frá því vatnið fór. Siggi var búinn að taka Sóleyju

til á methraða og var rokinn út í bíl með hana og ég greip einhver föt úr kassanum og henti í töskuna og ætlaði svo að hlaupa út en varð að leggjast niður því verkirnir voru svo miklir. Ég endaði á fjórum fótum og gat ómögulega staðið upp aftur. Í því kom Siggi upp, sá mig þarna á gólfinu og spurði hvort ég kæmist ekki út í bíl, ég náði að stynja upp neitun og að krakkinn væri bara að koma og hann hljóp þá aftur niður til að sækja Sóleyju, skutlaði henni inn og hringdi á spítalann. Sóley hljóp strax til mín, hágrátandi, og skildi ekkert hvað var í gangi, greip í hárið mitt og reyndi að toga mömmu sína upp. Ég reyndi eitthvað að hugga hana en gat varla talað þannig við vorum þarna bara organdi í kór. Ég heyrði útundan mér í Sigga að reyna að fá konuna á spítalanum til að skilja hvað væri að gerast og senda sjúkrabíl en það gekk mjög erfiðlega. Líkt og flestir Norðmenn sem við höfum átt samskipti við var kunnátta hennar í ensku á svipuðu leveli og grunnskólakrakka og hún var engan veginn að átta sig á aðstæðum. Bara sultuslök og sagði honum nú bara að fara með mig út í bíl og koma uppeftir, ekkert vera að flækja þetta neitt.

Þarna var ástandið orðið frekar klikkað, við öll gargandi af mismunandi ástæðum og kaosið algjört. Ég var farin að sjá fram á að þurfa að fæða barnið þarna fyrir framan dauðhræddu stelpuna mína og tilhugsunin var skelfileg. Þá skyndilega kom hlaupandi inn um svaladyrnar öldruð nágrannakona okkar, eins og ekkert væri eðlilegra, og þvílík himnasending! Hún benti á Sóleyju, greip hana í fangið og var svo horfin jafn fljótt og hún birtist. Ég man að ég hugsaði hvað væri nú vandræðalegt að hún sæji mig þarna á orginu liggjandi á fjórum fótum og held ég hafi sent henni aumkunarvert bros en annars höfðum við Siggi engan tíma til að pæla í þessu því nú var farið að sjást i kollinn. Siggi henti sér niður fyrir aftan mig, setti símann á speaker og gargaði að það sæist í höfuðið. Þá loks tók konan í símanum við sér og ákvað að senda sjúkrabíl og reyndi svo eitthvað að leiðbeina Sigga sem var nú kominn í ljósmóðurhlutverk.

Ég byrjaði að ýta á fullu og mér fannst taka heila eilífð að koma hausnum út þar sem hann stoppaði á kjálkanum og sat þar fastur og það var einsog ég væri um það bil að rifna í tvennt. Þeirri tilfinningu, þegar hausinn var hálfur kominn út og Siggi að brasa við að ná taki á honum, mun ég seint gleyma! Siggi náði svo að gera einhverja galdra og hausinn poppaði út í næsta rembing en þá sat hún föst á öxlunum. Ekkert gerðist sama hvað ég ýtti og á endanum var Siggi farinn að toga í hausinn af krafti og nokkrum ofurrembingum síðar skaust hún út. Ég heyrði smá tíst frá henni og andaði léttar, var svo uppgefin og fegin að hún væri komin út að ég hreyfði mig ekki og lá bara þarna áfram. Svo var ég farin að hugsa af hverju hún grenjaði ekki.

Ég hafði ekki hugmynd um hvað gekk á bakvið mig þar sem Siggi var skíthræddur að reyna að fá hana til að gráta sem virtist taka heila eilífð. Hann nuddaði hana alla og hristi og sló á bakið og hún var víst orðin helblá og það var ekki fyrren hann tróð fingrinum ofan í kokið á henni að hún fór að taka við sér. Þá hafði ég afrekað það að snúa mér á bakið og Siggi vafði hana inní bolinn sinn og rétti mér, settist svo við hliðina á mér alveg stjarfur og sagði ekki orð. Þar sat hann svo og ég liggjandi með hana á bringunni enn fasta við naflastrenginn þegar sjúkraliðarnir og ljósmæðurnar komu flæðandi inn um svaladyrnar, nokkrum mínútum síðar en óratíma að okkur fannst. Ljósmæðurnar skoðuðu mig og Siggi klippti á strenginn, ennþá í massívu sjokki en ég var nokkuð róleg yfir þessu öllu saman. Ég vissi einhvern veginn frá byrjun að þetta færi allt vel enda er maðurinn minn algjör klettur og það er fátt sem hann ræður ekki við. Ljósmæðurnar græjuðu mig og gengu frá fylgjunni, vöfðu barnið inn í ótal handklæði og við mæðgur vorum svo bornar út í sjúkrabíl og Siggi keyrði á eftir okkur upp á spítala.

Bryndís Lena fékk toppeinkunn af ljósmæðrunum og mældist 12 merkur eða 3100 grömm og 47,5 cm. Hún fæddist kl 6:55 samkvæmt ljósmóðurinni sem var í símanum á meðan á þessu stóð, og fæðingin tók því um hálftíma frá því eg missti vatnið. Siggi var skráður ljósmóðir á fæðingarspjaldið hennar og við vorum eflaust vinsælasta fjölskyldan á deildinni þennan dag. Ljósurnar báðust afsökurnar og sögðust aldrei hafa lent í slíku áður og þess vegna ekki trúað Sigga þegar hann hringdi og sent sjúkrabíl strax. Þær munu eflaust ekki gera þau mistök aftur. Ég var líka í toppstandi og rifnaði ekkert og Sigga var hrósað í hástert fyrir að hafa afgreitt þetta svona vel og honum var meira að segja boðið ljósmóðurstarf í góðu gamni. Hann afþakkaði þó pent enda situr þessi lífsreynsla þungt í honum og mun eflaust gera lengi. Sú stutta tók brjóstið um leið, var vær og góð og fullkomin og við mæðgur áttum þrjá notalega daga saman á spítalanum og fórum svo heim að hefja öll saman nýtt og spennandi líf sem fjögurra manna fjölskylda.

Næst mun ég flytja á spítalann mánuði fyrir settan dag, það er á hreinu!

„Ég vildi sko alveg gera þetta strax aftur“

Þessi yndislega skotta fæddist þann 18. nóvember í heimafæðingu, 4.120 gr og 54 cm. Áætlaður fæðingardagur var 7. nóvember, svo að ég var gengin 11 daga framyfir. Hún er okkar þriðja barn, fyrir eigum við stúlku fædda 13. nóvember 2007 á sjúkrahúsinu á Akureyri, og dreng fæddan 24. desember 2009, sem fæddist heima.

Ég veit ekki alveg hvað varð til þess á sínum tíma að ég valdi heimafæðingu, en þegar ég var ófrísk af mínu öðru barni 2009, þá kom einhvernveginn aldrei neitt annað til greina. Ég fór í mína fyrstu mæðraskoðun og þá ræddi ég þetta við ljósuna, að ég vildi heimafæðingu, en þá var ég ekki einu sinni búin að nefna það við manninn minn. Ég var bara búin að ákveða þetta! Sú heimafæðing gekk ótrúlega vel og tók aðeins 6 klst, eins og ég sagði þá fæðist hann á aðfangadag og þessi upplifun var bara dásamleg. Hann fæðist í fæðingarlaug rétt fyrir klukkan 6 á aðfangadagsmorgun, nánast við hliðina á jólatrénu. Andrúmsloftið var svo rólegt og afslappað, jólaljós og jólatónlist og ljósurnar að borða jólasmákökur og 2.ára systir hans horfði á. Svo 12 klst eftir að hann fæddist settist ég við matarborðið og borðaði jólamatinn með fjölskyldunni, dásamlegt!!

Svo að þegar ég vissi að ég væri ófrísk af þriðja barninu þá kom að sjálfsögðu ekkert annað til greina en önnur heimafæðing, og var maðurinn minn alveg sammála mér þar. Ég fór daginn áður (10 dagar framyfir) og lét hreyfa við belgnum (áááááiiiii!!!!!). Kom heim og var með einhvern seiðing restina af deginum en samt ótrúlega hress, fór í mjög langan göngutúr í brjáluðu veðri og kom svo heim og steikti 200 kleinur, og hugsaði svo með mér, jæææja þetta kemur í nótt. Áður en ég fór að sofa gekk ég frá heimilinu eins og ég væri að fara að fæða, setti myndavélar og videovélar í hleðslu til að hafa þær alveg pottþétt fullhlaðnar, ég bara vissi að þetta kæmi um nóttina þó ég væri ekki komin með neina verki. Klukkan 4 um nóttina vakna ég svo til að snúa mér, og hugsa „Djöfullinn!!! Þetta kemur þá ekki í dag fyrst ég er ekki komin með verki!!“ Ég ligg andvaka og maðurinn minn vaknar og við liggjum og spjöllum… svo klukkan 5 kemur fyrsti verkurinn. Ég var ekki alveg að trúa því að ég væri að fara í gang og sagði við manninn minn að þetta væri ekki neitt. Svo þegar ég var búin að vera með verki í klukkutíma og frekar stutt á milli þá gaf ég mig og sagði manninum mínum að vekja mömmu (sem var í heimsókn hjá okkur). Við fórum fram og stuttu seinna hringdi maðurinn minn í ljósuna. Hún spurði hvort hún ætti að koma strax og við sögðum henni að vera ekkert að stressa sig. 30 mín seinna hringdi hann aftur í hana og sagði henni að jú, hún mætti kannski alveg fara að koma, verkirnir voru orðnir mjög harðir. Svo þurfti að vekja börnin í skólann, þau voru mjög spennt að sjá að barnið væri að fara að fæðast en fannst líka pínu skrítið að sjá mömmu sína finna svona til. Verkirnir voru mjög fljótt mjög harðir, ég var á jóga bolta og bað ljósuna um nálar í bakið, en þær gerðu ekkert fyrir mig í þetta skiptið.

Um 8 leitið fór ég ofan í fæðingarlaugina. Þegar ég var komin ofan í laugina var ég komin með smá rembingsþörf en ekki mikla, svo að ég rembdist létt í hríðunum. Maðurinn var hliðina á mér allann tímann og mátti sko ekki fara frá mér, ég gat ekki hugsað mér það, var alltaf að hvetja mig áfram og ég fékk óspart að nota hendina hans til að kremja í hríðunum. Um 8.30 var rembingsþörfin orðin mjög mikil og ég var farin að rembast að krafti, og svo klukkan 8.40 fæddist stúlkan, ofan í lauginni. Við mæðgur lágum í lauginni í einhvern tíma á eftir, ég hreinlega tímdi ekki að fara uppúr og þurfa að láta hana frá mér, þó að ég lægi í blóðugri sundlaug, þá bara stoppaði tíminn og ég hefði getað hugsað mér að vera þarna ofaní í marga klukkutíma! En að lokum þurftum við að fara uppúr, og þegar ég stóð upp þá leið yfir mig! Það var mjög spes, ég vaknaði bara í blóðpolli í gólfinu haha! Ljósurnar mínar sögðu mér að það væri ekki óalgengt að það líði yfir konur eftir fæðingar, svo að þetta var ekkert til að hafa áhyggjur af.

Ég færði mig yfir í rúmið þar sem ég var skoðuð og jibbý! Enginn saumaskapur, það jafnast ekkert á við það! En þó að fæðingin hafi gengið eins og í sögu þá voru smá eftirmálar af fæðingunni. En legið náði ekki að draga sig nógu vel saman og ég missti mjög mikið blóð eftir að ég var komin uppí rúm, áætlað var að ég hefði misst um 2 lítra af blóði. Þess vegna var ég mjög slöpp eftir fæðinguna, mér var boðið daginn eftir þegar ég fór blóðtöku (Var þá með 70 í blóði, á að vera um 120 skilst mér) að fara í blóðgjöf en þrjóska ég vildi ekkert vera eitthvað að fara inná sjúkrahús og láta leggja mig inn! Þannig að ég er búin að vera að taka járntöflur og er öll að koma til! Einnig fékk ég einhverja sýkingu sem er ekki alveg vitað samt hvar hún var, en ég fékk síendurtekið hita og fór því inná sjúkrahús í skoðun og fór heim með sýklalyf. Var sagt að þegar maður missir svona mikið blóð að þá er meiri sýkingarhætta. En ég er búin að jafna mig á því!

Ok vá þetta átti svo sannarlega ekki að vera svona langt! Ætlaði að skrifa „smá“ fæðingarsögu en sýnist þetta enda í heilli ritgerð! En allavegana, dagarnir líða og stúlkan stækkar, finnst hún orðinn algjör risi þó það sé bara eins og að hún hafi fæðst í gær, já stundum vill maður bara geta stoppað tímann, þau stækka svo hratt! Ég er svo ótrúlega heppin að finnast meðgangan og fæðingin það allra skemmtilegasta í heiminum, en ég hef heyrt konur tala oft svo neikvætt um meðgönguna sína og fæðinguna en fyrir mér er þetta dásamleg upplifun sem því miður ekki allar konur fá að njóta. Ég er svo þakklát fyrir þessi 3 dásamlegu og heilbrigðu börn sem ég á, og það að hafa fengið að eiga þau öll á eðlilegan hátt. Nokkrum mínútum eftir að hún fæddist sagði ég að ég vildi sko alveg gera þetta strax aftur, ég held að það lýsi minni upplifun af fæðingu ansi vel.

Fædd­ist á stofugólf­inu heima – {óvænt heimafæðing}

Þessi fæðingarsaga birtist upphaflega á mbl.is en er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi Hólmfríðar.

Sig­urður Aðal­geirs­son og unn­usta hans Hólm­fríður Guðmunds­dótt­ir eignuðust dótt­ur á stofugólf­inu heima hjá sér í Nor­egi. Hlut­irn­ir gerðust hratt og eng­inn tími var til þess að keyra upp á spít­ala. Sig­urður tók því á móti dótt­ur sinni og er skráður sem ljós­móðir henn­ar á fæðing­ar­skír­tein­inu.

Laug­ar­dag­inn 10. októ­ber héldu Sig­urður og unn­usta hans Hólm­fríður upp á tveggja ára af­mæli eldri dótt­ur sinn­ar, Sól­eyj­ar Rós­ar. Dag­ur­inn eft­ir átti að fara í ró­leg­heit og voru þau búin að ákveða að taka sam­an dót fyr­ir spít­al­ann en áætluð koma barns­ins var þann 19. októ­ber. „Við fór­um bara al­sæl að sofa þarna á laug­ar­deg­in­um,“ seg­ir Sig­urður í sam­tali við mbl.is.

Um nótt­ina missti Hólm­fríður vatnið og þá voru hlut­irn­ir fljót­ir að ger­ast. „Við vöknuðum og ég klæddi Sól­eyju Rós í föt og við ætluðum að drífa okk­ur upp á spít­ala.“ Sig­urður fór með Sól­eyju út í bíl en þegar hann kom aft­ur inn lá Hólm­fríður á gólf­inu og tjáði hon­um að barnið væri að koma.

„Ég hljóp því aft­ur út í bíl, sótti Sól­eyju og hringdi upp á spít­ala og bað þá um að koma.“ Sig­urður seg­ir að starfs­fólk spít­al­ans hafi verið poll­ró­legt í sím­an­um og ekki áttað sig á því hversu stutt væri í raun og veru í barnið. „Það var ekki fyrr en ég fór að kalla hátt í sím­ann og sagði þeim að ég væri far­inn að sjá í koll­inn á barn­inu að þeir áttuðu sig á al­var­leika máls­ins. Ég lagði sím­ann frá mér og sá að barnið var að fara að koma. Kon­an mín var á org­inu og einnig eldri dótt­ir­in. Ég hélt ég yrði ekki eldri.“

Á þeirri stundu birt­ist ná­granni þeirra Sig­urðar og Hólm­fríðar í dyr­un­um en hann er á átt­ræðis­aldri. „Hann kom á harðahlaup­um og greip Sól­eyju með sér. Fyrst hugsaði ég hvað í ósköp­un­um væri að ger­ast en var ánægður með hjálp­ina.“

Þá tók al­var­an við. Sig­urður sagði Hólm­fríði að rembast og barnið byrjaði að koma út. „Fyrst stoppaði hún á kjálk­an­um og það var erfitt að koma hon­um út. Ég var stressaður og vissi ekk­ert hvað ég ætti að gera en eft­ir smá stund kom höfuðið út. Þá stoppaði hún aft­ur af því að axl­irn­ar komust ekki út.“

Sig­urður seg­ist þá hafa verið orðinn hrædd­ur þar sem að barnið var farið að blána. „Ég var orðinn aga­lega hrædd­ur og byrjaði að toga á móti á meðan hún rembd­ist.“

Eft­ir smá stund kom svo litla stúlk­an í heim­inn. „Fyrst var hún al­veg blá og mátt­laus en ég byrjaði að strjúka henni og klappa henni á bakið og nudda hana. Svo stakk ég putt­an­um upp í hana og þá allt í einu vaknaði hún, hóstaði og byrjaði að gráta.“

Sig­urður klæddi sig úr boln­um og vafði hon­um utan um dótt­ur sína sem hann lagði svo í fang móður sinn­ar. „Þetta var það rosa­leg­asta sem ég hef upp­lifað.“

Um fimm mín­út­um seinna kom sjúkra­bíll­inn og þá var klippt á nafla­streng­inn. „Þeir komu og sögðu að allt liti vel út, bæði hjá móður og barni og buðu mér í leiðinni starf á spít­al­an­um,“ seg­ir Sig­urður. Hann seg­ist þó hafa afþakkað starfið þar sem að þessi upp­lif­un hafi verið nóg. Hann fór svo og sótti Sól­eyju Rós sem var í góðu yf­ir­læti hjá ná­grönn­um sín­um.

Bæði móður og barni heils­ast vel og hef­ur unga stúlk­an hlotið nafnið Bryn­dís Lena Sig­urðardótt­ir.

Fjöl­skyld­an flutt­ist bú­ferl­um í sum­ar til Hø­nefoss í Nor­egi þar sem að Sig­urður starfar sem bif­véla­virki. Hólm­fríður er heima með Bryn­dísi Lenu en Sól­ey Rós er á leik­skóla.

Lestu fæðingarsögu Bryndísar Lenu frá sjónarhóli Hólmfríðar hér

Fæðingarsagan – {heimafæðing í Danmörku}

Ég átti son minn fyrir 4 árum í yndislegri fæðingu á Hvidovre spítala í Kaupmannahöfn á sólbjörtum sumardegi. Sú fæðing var inngripalaus og gekk mjög eðlilega fyrir sig, en hún var átakamikil, tók 15 tíma og hríðar voru mjög harðar og örar megnið af tímanum. Ég hef alla tíð lýst þeirri fæðingu sem draumafæðingu, en vá, á mánudaginn var fékk ég svo sannarlega að upplifa sannkallaða draumafæðingu. Ljósmæður Hvidovre spítala hvöttu okkur hjónin til að velja heimafæðingu í þetta skiptið þar sem allt hefði gengið svo vel með fyrsta barn og eftir stuttan umhugsunarfrest þáðum við það. Við sjáum aldeilis ekki eftir því.

Hér er fæðingarsagan:
Á mánudagseftirmiðdag (30. nóv. – komin 39v4d) ákvað ég að hringja upp á deild því þá var ég búin að vera með fyrirvaraverki og glerharða kúlu nánast án pásu í tvo daga, hafði lítið sem ekkert sofið og var orðin mjög þreytt. Það var búið að vera mikið að gera hjá mér dagana á undan við að klára vinnutengd verkefni og almennan jólaundirbúning. Ljósmóðirin á deildinni sagði að líklegast væri ég bara að malla í gang, en vildi gjarnan að ég kæmi uppeftir í rit ef ég yrði ekki betri eftir rúma klst. af hvíld. Ég átti að taka eina panódíl, fara í heita sturtu og leggjast niður til að slaka alveg á. Þegar ég loksins fékkst til að slappa af fann ég að verkirnir breyttust og þennan eina og hálfa tíma sem ég lá komu vægar hríðar á 3-5 mínútna fresti. Klukkan hálfsex hringdi ég upp á deild og sagði þeim að ég þyrfti ekki að koma uppeftir þar sem ég væri nokkuð viss um að nú væri ég komin í gang. Heimaljósmóðirin sagðist koma eftir klukkutíma svo ég hringdi í manninn minn og sagði honum að hann mætti gjarnan koma með son okkar (4 ára) heim af taekwondo æfingu því fæðingin væri að hefjast. Feðgarnir komu heim og næsta klukkutímann gengum við um íbúðina og gerðum klárt. Mamma mín var hjá okkur hér í Kaupmannahöfn og hún tók strákinn inn í svefnherbergi vopnuð kvöldmat og iPad og þar voru þau í góðu yfirlæti.

Hríðarnar urðu svolítið sterkari og ég andaði mig í gegnum þær á meðan maðurinn minn setti mottur á gólfið, blés upp fæðingarlaugina, kveikti á kertum og gerði almennt kósý. Klukkan hálfsjö kom ljósmóðirin og um leið og hún kom fattaði hún að hún hafði gleymt hönskum. Nú voru góð ráð dýr. Hún þreifaði kúluna, hlustaði á hjartslátt og endaði á að mæla útvíkkun með skrjáfandi nestispoka á höndunum. Mjög notalegt (not). Ég var með tvo í útvíkkun. „Andskotinn“ hugsaði ég og sá fyrir mér langa og stranga nótt og var satt að segja svolítið fúl að vera að fara í gang svona þreytt. Ég var einhvern vegin ekki í „stuði“ til að fara að fæða og langaði til að afþakka pent og fá bara góðan nætursvefn. Það var auðvitað ekki mjög lógískt svo það næstbesta var að sætta sig við orðinn hlut og setja sig í gírinn. Það helltist yfir mig einhver hrollur svo ég skalf eins og hrísla og það var orka sem ég vildi ekki missa, svo ég náði í dáleiðsluæfinguna mína (Adam Eason – mæli með því!), setti á mig headphones og lagðist á gólfið í einbeitingu. Maðurinn minn kom með hitapoka fyrir mig og þarna lá ég og slakaði á. Í hríðunum talaði ég upphátt við sjálfa mig og sagði ýmist: „Já já já já“, „Komdu til mín elska mín – mamma vill fá þig“ eða „Opna opna opna opna“.

Klukkutíma síðar, um hálfátta, voru vaktaskipti hjá ljósmóðurinni og þegar nýja ljósmóðirin kom – með almennilega hanska og ljósmóðurnema í farteskinu – var ég skoðuð aftur og þá komin með 3 cm í útvíkkun. Þá ákvað ég að nú skyldi ég opna mig enn hraðar. Í hverri hríð hugsaði ég: „Þetta eru ekki verkir, þetta eru bara samdrættir. Hér er það ÉG sem ræði. Það er ÉG sem er að framkalla þessa samdrætti. Ekki hugsi-hausinn-ég, heldur líkams-ég, frum-ég. Þetta er minn líkami og hann gerir ekkert sem ég ræð ekki við. Nú ÆTLA ég að opnast og búa til gott pláss fyrir þetta barn.“ Ég fór í baðkarið, það var yndislegt og ég náði góðri slökun þar. Ég notfærði mér „Smertefri fødsel” tækni (mæli með henni!) og maðurinn minn var með mér í hverri hríð – það skipti sköpum. Líkamleg snerting við ástina sína og föður barnsins er besta verkjastilling sem hægt er að hugsa sér. Hann nuddaði ýmist bakið, axlirnar eða hendurnar. Knúsaði mig og kyssti og hvatti áfram. Þegar þarna var komið var ég hætt að fylgjast með klukkunni. Hríðarnar voru vel viðráðanlegar og mér fannst ég fá góða pásu á milli. Við brostum og slógum á létta strengi og stemningin var yndisleg. Ég hugsa að það hafi ekki liði meira en rúmur hálftími þar til ég var komin með 4-5 í útvíkkun og eftir annan hálftíma var ég komin með rúma sex. Við fögnuðum hverjum sentimetra eins og uppáhalds fótboltaliðið okkar hefði skorað sigurmark. Sonur okkar kom tvisvar fram úr herberginu með ömmu að kíkja á hvernig gengi og fannst bara voða spennandi að litla systir væri að koma.

Fljótlega eftir 6 cm var ég farin að fá svolitla rembingsþörf efst í hríðunum og ljósan tók eftir því og sagði mér að halda alls ekki aftur af því – leyfa líkamanum algjörlega að gera það sem hann kallaði á. Belgurinn var ekki sprunginn ennþá og hann bungaði niður í leghálsinn og gaf þessa þrýstingsþörf. Með hverri hríð eftir þetta jókst rembingurinn og á örskotsstundu var ég komin með 10 í útvíkkun og gat þreifað fyrir belgnum og kollinum nokkrum sentimentrum inni í leggöngunum. Þegar þarna var komið hoppaði maðurinn minn ofan í laugina til mín og settist með mig í fangið. Hann tók undan um hnén á mér og hjálpaði mér að halda mér vel opinni í rembingshríðunum. Það kom aðeins ein hríð þar sem ég veinaði af sársauka, en þá þrýsti höfuðið svo harkalega niður að ég vissi ekki út um hvaða gat barnið myndi koma. Ég varð að grípa um klofið á mér til að halda á móti svo hún færi ekki út of hratt.

Í næstu hríð kom svo kollurinn út, ennþá í belgnum og einni hríð síðar runnu axlirnar og restin af búknum út. Við hjónin tókum á móti henni sjálf og tókum hana beint í fangið. Barnið fæddist í sigurkufli, þ.e. ennþá í líknarbelgnum. Hún var með höfuðið örlítið skakkt, þ.e. í stað þess að andlit vísi niður, þá var andlitið inn að læri. Þegar hún var komin á bringuna slitum við gat á líknarbelginn og þá umlaði hún örlítið áður en hún lygndi aftur augunum og kúrði sig í fangið á okkur. Við hlógum og hlógum og táruðumst af gleði – dóttir okkar komin í heiminn í stofunni heima hjá okkur eftir ca. 5 tíma fæðingu kl. 21:51. Það var algjörlega ólýsanlegt að fá að gera þetta svona saman tvö, við stjórnuðum öllu ferlinu og okkur leið svo vel að vera inná fallega heimilinu okkar. Ljósmæðurnar héldu sér alveg til hlés allan tímann, komu af og til og hlustuðu hjartsláttinn hjá barninu og leiðbeindu mér með öndunina í rembingnum en unnu að öðru leyti sitt starf úr fjarlægð.

Heimafæðing yndislegu dömunnar minnar 5.2.2014

Formáli

Þegar ég fékk jákvætt þungunarpróf var ég orðin ákveðin, heimafæðing skyldi það verða. Fyndið að segja frá því að heimafæðingin var löngu ákveðin áður en við ákváðum að fara reyna við næsta barn. Ég hafði hitt Kristbjörgu ljósmóður á seinustu meðgöngu en hún hafði verið að leysa af á heilsugæslunni og man að mér fannst hún mjög indæl. Hafði ég samband við hana um 16. viku og hafði hún áhuga á að taka á móti. Maðurinn minn var alls ekki mótfallinn heimafæðingu, hann hafði meira áhyggjur af hlutum eins og við myndum trufla nágrannanna eða eyðileggja parketið. Eftir stutt spjall við Kristbjörgu var hann líka alveg heillaður af þessum áformum og var mjög gott að hafa hans stuðning í gegnum ferlið sérstaklega þar sem margir í kringum okkur voru ekki eins sannfærðir. Ég fann líka hvað ég náði vel saman við Kristbjörgu og heillaðist af hennar nálgun á meðgöngu og fæðingu sem náttúrulegt ferli sem á að grípa sem minnst inn í, konan gerir þetta alveg sjálf og líkaminn alveg fær um að fæða barnið í heiminn. Ákvað því strax á 16. viku að fara eingöngu í mæðraskoðanir til Kristbjargar til að tengjast og kynnast henni ennþá betur.

Meðgangan gekk mjög vel. Ég var dugleg að mæta í jóga og sund. Fannst það skipta miklu máli að komast út úr húsi öðru hvoru og eiga bara tíma með mér og ófædda barninu. Það átti til með að gleymast í amstri dagsins í fullri vinnu, með eina 2 ára orkubolta og heimili.

Fæðingin sjálf

Settur dagur var 1. febrúar, hann kom og fór án þess að eitthvað gerðist. Kristbjörg kom og kíkti á mig um kvöldið 4. febrúar. Þá var blóðþrýstingurinn búinn að fara hækkandi og fannst prótein í þvaginu. Annars leið mér mjög vel. Sama gerðist á seinustu meðgöngu en hún ætlaði að ráðleggja sig við lækni daginn eftir og ég þyrfti líklegast að fara niður á kvennadeild í monitor. Þetta kvöld varð ég alveg eyðilögð, þarna var ég handviss um að heimafæðing væri ekki í boði fyrir mig og ég myndi enda í gagnsetningu upp á sjúkrahúsi. Ég talaði heillengi við krílið mitt og bað það að fara koma í heiminn þar sem mamman væri aðeins að verða veik. Ég lofaði fullt af knúsum og mjólk í nýja heiminum.

Ég vakna rétt fyrir kl. 6 morguninn eftir þann 5. febrúar með slæma verk. Hélt fyrst að ég væri bara að fá í magann en verkurinn leið hjá og ég náði að sofna. Hálftíma seinna vakna ég upp við sama verk og fór fljótlega að átta mig á því að það væri kannski eitthvað farið að gerast. Vildi samt ekki gera mér neinar vonir, hélt áfram að kúra upp í rúmi, en verkirnir komu og fóru á uþb 15 mín fresti, missterkir. Lét kallinn minn vita að ég grunaði eitthvað og hann sleppti að fara í vinnuna þennan morguninn. Sendi líka sms til Kristbjörgu og sagði henni að það væri kannski eitthvað að gerast og ég átti að láta vita ef þetta myndi aukast. Sendum stóru stelpuna síðan bara í leikskólann en hún var 2,5 árs á þessum tíma.

Verkirnir héldu áfram að vera óreglulegir, og missterkir. Datt einu sinni niður í meira en 40 mín og þá hélt ég að öll von væri úti. Tók samt smá göngutúr með kallinum og eftir hann fór meira að gerast. Gengum meðal annars framhjá leikskólanum þar sem stelpan okkar er og sáum hana leika úti. Kallinn fór í leiðangur að kaupa mat og drykki, birgðir fyrir komandi átök. Fljótlega eftir að hann kom aftur voru verkirnir að verða ansi öflugir og hafði ég misst alla matarlyst. Kallinn byrjaði að undirbúa “hreiðrið” okkar heima, blés upp laugina, setti teppi yfir gluggana og færði til húsgöng. Ég kveikti á kertum og var orðið mjög kósý í stofunni okkar. Kveiktum svo á gamanmynd (Men in Black) og knúsuðum hvort annað. Það var rétt fyrir 12 sem hríðarnar fóru að verða reglulegar og sterkar, 5­7 mín á milli og ég þurfti að anda mig vel í gegnum þá. Fór líka að blæða frá leghálsinu sem er víst bara merki um að hann væri að undirbúa sig og að opnast. Sendi annað sms á Kristbjörgu og hún sagði mér bara að láta mig vita hvenær við vildum fá hana. Við slökktum á sjónvarpinu, kveiktum á Grace disknum og settum myndasýningu í sjónvarpið með myndum af eldri dóttur okkar nýfæddri, svona til að gefa mér innblástur og aukin kraft því þetta var markmiðið, litla barnið okkar.

Mér fannst best í hríðunum að standa yfir skeknum í stofunni og halla mér örlítið fram, Axel stóð fyrir aftan mig og nuddaði mjóbakið með hnefunum eða puttum. Þarna kom nuddkennsla sér vel í jóganum. Í lok hverja hríða hallaði ég mér upp að honum og kyssti hann. Já ég veit, ógeðslega væmna ég, bara hafði rosalega mikla þörf fyrir ást, snertingu og umhyggju. Rúmum 30 mín eftir að ég sendi sms­ið fóru hríðarnar að koma á 3­4 mín fresti og fóru að vera ennþá erfiðari og fór að finna þrýsting niður á við. Sendi þá strax sms og bað hana að koma. Hún kom rétt eftir 13. Hún sá strax að ég væri í fæðingu og ég komst í laugina. Það var himneskt.

Ég byrjaði að halla mér fram með höfuð og hendur á bakkanum og hné við botninn og fann vel hvernig kollurinn færðist neðar í hverri hríð. Eftir nokkur skipti fór ég að fá svo mikinn þrýsting niður í mjóbak að ég gat ekki lengur verið í þessari stellingu og ákvað að fara yfir á bakið og hvíldi höfuðið bakkanum. Þannig náði ég að slaka vel á og fljóta í vatninu. Þarna fór aðeins að lengjast á milli hríða og vill Kristbjörg meina að vatnið hafði verið aðeins of heitt en mér fannst það fínt, gaf mér betri hvíld á milli hríða. Fór síðan að finna kunnuglegan þrýsting niður á við og vissi að þetta færi að klárast. Ég þurfti að nota allan minn kraft til að slaka á þarna niðri til að leyfa hríðunum að gera sitt. Undir lokin fannst mér æðislegt að stynja í hríðunum, þá náði ég að slaka ennþá betur á.

Rembingsþörfin kom smátt og smátt. Kristbjörg sagði mér bara að hlusta á líkamann, ef ég þyrfti að rembast þá myndi ég bara rembast. Hún athugaði aldrei útvíkkunina. Fann hvernig hríðarnar breyttust, og var mikill léttir. Eins og seinast fannst mér rembingurinn mun auðveldari en útvíkkunin. Ákvað til að auðvelda allt að fara aftur í sömu stellingu og ég byrjaði í, því þannig náði ég að opna grindina vel og fann strax að það virkaði. Þannig náði ég líka að halda vel í hendurnar á kallinum mínum og gat kysst hann og knúsað eins og ég vildi. Byrjaði að rembast um 3 leitið og finnst mér alltaf jafn ótrúlegt að finna kollinn fara neðar og neðar. Ég passaði mig að um leið og ég fór að finna fyrir sviða, hægði ég á rembingnum og kollurinn fór aftur inn. Eftir 20 mín af rembing eða kl. 15:20 kom loksins kollurinn. Ótrúlegt að segja þá var það eina skiptið í fæðingunni sem ég missti stjórn á mér og öskraði en vá það var alveg ótrúlegt að þetta væri búið. Var ekki að átta mig að þetta væri búið og ég heyri Kristbjörgu segja fyrir aftan mig, “Mamma ég er komin út, ég þarf einhvern til að taka mig upp” en þá var barnið komið allt út og ég tók það sjálf upp úr vatninu. Væmna ég fór strax að hágráta enda yndislegasta augnablik í heiminum. Litla gullið var mjög rólegt en það andaði alveg strax, og grét stuttu seinna. Við kíktum í pakkann en við vissum ekki kynið á meðgöngunni og sáum strax að við höfðum eignast aðra litla stelpu. Þegar litlan var búin að átta sig á þessum nýja heim fór hún sjálf strax á brjóstið og hefur verið þar síðan. Klárlega besti staðurinn í heiminum.

Síðan vorum við bara í rólegheitum í lauginni og fór upp þegar ég var tilbúin. Fylgjan var ennþá ófædd enda fannst Kristbjörgu alveg óþarfi að koma henni út, hún kæmi út þegar hún væri tilbúin. Ég fór upp í mitt eigið rúm með dömuna og við litla fjölskyldan fórum að kynnast. Á meðan gengu Kristbjörg og ljósmóðurneminn sem hafði verið viðstaddur frá stofunni. Þegar ég fór fram þá var ekki að sjá að þarna hefði verið fæðing. Rúmlega 1,5 klst eftir fæðinguna kom fylgjan og það þurfti ekkert að sauma. Stelpan var vigtuð og mæld, 13 merkur og 51,5 cm. Algjörlega fullkomin.

Eftirmáli

Ég vissi hreinlega ekki að það væri hægt að eiga draumafæðingu. Þessi reynsla mín er gjörólík þeirri fyrri og það er tvennt ólíkt að eiga rólega heimafæðingu þar sem líkaminn fer sjálfur af stað heldur en að þurfa hríðaraukandi lyf til að koma ferlinu af stað eins og ég lenti í seinast. Mér fannst dásamlegt að geta kynnst eingöngu einni ljósmóður í gegnum allt ferlið, sem þekkir mann og óskir. Ég er óendanlega þakklát að hafa tekið þá ákvörðun að eiga heima og vera í mínu umhverfi þar sem ég er á heimavelli. Maðurinn minn er líka sammála því. Þetta var yndisleg upplifun frá byrjun og til enda og svíf ég á bleiku skýi þessa dagana. Lífið er sannlegar dásamlegt.

Fæðing í faðmi fjölskyldunnar

Þegar ég komst að því að ég væri ófrísk kom ekkert annað til greina en heimafæðing. Mig langaði að eiga draumafæðinguna mína, hafa hlutina eftir mínu höfði og vera stjórnandi en ekki þátttakandi í eigin fæðingu.

Ég setti mig strax í samband við Áslaugu Hauksdóttur ljósmóður og hitti hana á seinnihluta meðgöngunnar. Meðgangan gekk þokkalega eins og gengur og gerist, þurfti að vera í auknu eftirliti, en stefnan var alltaf á heimafæðingu hvað sem á dundi. Ég las og las og drakk í mig allan þann fróðleik sem ég gat fundið. Við hittum líka hana Eydísi doulu og það hjálpaði líka rosalega mikið að undirbúa eins yndislega og persónulega fæðingu og hægt var.

Þegar ég vaknaði 14. apríl grunaði mig ekki hvað sá dagur bæri í skauti sér. Hann var nokkuð frábrugðinn dögunum á undan. Ég var pirruð yfir því að ekkert væri að gerast hjá mér og sannfærð um að ég myndi enda á því að ganga framyfir 40 vikur. Þennan dag vildi ég bara vera ein og alls ekki að neinn væri í kringum mig. Svo fór ég bara að sofa á mínum venjulega tíma um kvöldið, talaði við bumbuna og bað drenginn vinsamlegast um að fara að koma sér í heiminn, það væru allir að bíða eftir honum.

Um klukkutíma seinna kl. 12.30 eftir miðnætti, 15. apríl, vaknaði ég við það að það var eitthvað að leka á milli lappanna á mér og var svolítið mál að pissa. Ég stóð þá upp og fór fram á bað og þegar ég ætlaði að stíga yfir þröskuldinn inn á baðið kom væn skvetta af legvatni. Ég var nú samt ekki sannfærð um að þetta væri legvatn, hélt svo sem alveg að ég væri að pissa á gólfið. Ég fór aftur upp í rúm og ætlaði að halda áfram að sofa. En við hverja hreyfingu lak alltaf meira og meira.

Þá vaknaði Daði við bröltið í mér og við vorum nokkuð viss um að nú færi þetta að gerast. Ég fór að fá aðeins sterkari verki, ekki reglulega, en á svona 4-6 mínútna fresti. Ég hringdi og lét Áslaugu vita að þetta væri að byrja hjá okkur. Ég fann samt að þetta var ekki að fara að gerast alveg strax svo mér fannst ég ekki þurfa að fá hana alveg strax til okkar. Ákvað að reyna að hvíla mig eitthvað smá, en það gekk nú ekkert svo rosalega vel. Ég tók til spítalatöskuna ef til þess kæmi að ég þyrfti að fara þangað. Fór fram og settist á grjónapúða og reyndi að slaka vel á. Hlustaði á tónlistina mína og reyndi að undirbúa mig fyrir átökin framundan.

Daði fór í að undirbúa heimilið. Hann blés í sundlaugina og kveikti á kertum og gerði allt svo kósí fyrir okkur. Um klukkan 3 hringdi ég svo í Áslaugu og hún kom stuttu seinna. Hún tók aðeins stöðuna sem var bara fín, þrír í útvíkkun, samdrættirnir á 2-4 mínútna fresti en ekkert svo vondir. Bjóst samt eiginlega við meiri útvíkkun og leið hálf kjánalega yfir því að hafa kallað svona snemma í hana.

Hún smellti svo nál á milli augnanna á mér sem átti að hjálpa til við slökunina og sagði okkur að reyna að hvíla okkur bara inni í rúmi og lagði sig svo sjálf í sófanum. Við fórum þá bara inn í herbergi og reyndum að hvíla okkur, ég sat uppi í rúmi og verkirnir byrjuðu að verða verri þarna en ekkert óbærilegir og ég andaði mig bara í gegnum þá. Lilja Bríet dóttir okkar, sem þá var fjögurra ára, vaknaði þarna og var ótrúlega spennt yfir því sem var að gerast. Kallaði inn í bumbuna og sagði litla bróður að drífa sig.

Um kl. 04:30 voru verkirnir orðnir frekar vondir og ég vildi fara í laugina. Það var alveg ótrúlegt hvað það var gott! Að geta hreyft sig að vild og slakað vel á var einmitt það sem ég þurfti á að halda. Ég svamlaði svo bara í lauginni og andaði og slakaði. Lilja Bríet og Daði gáfu mér kalda þvottapoka á ennið og Áslaug kom öðru hvoru til mín og tók hjartsláttinn hjá barninu. Hún rétt snerti magann til að finna samdrættina og notaði sinn innbyggða „mónitor” til að meta þá. Annars hélt hún sig bara til hlés og fylgdist með úr fjarlægð.

Klukkan 5 kom Arnbjörg vinkona mín til að líta eftir Lilju og þær dunduðu sér bara í stofunni, kíktu til mín öðru hverju og fóru svo bara inn í herbergi. Stuttu seinna fann ég að þetta var að fara að gerast, litli kútur vildi greinilega fara að komast í heiminn. Síðustu þrjár hríðar fyrir rembing komu hver á eftir annarri, voru langar og vondar og eina sem ég gat hugsað um var að fá smá hvíld fyrir rembinginn því mér fannst ég vera svo þreytt. Bara 5 mínútur var allt sem ég þurfti til að safna kröftum, en það var víst ekki í boði.

Daði hoppaði ofan í laugina til mín og tók sér stöðu fyrir aftan mig. Hann hélt undir handleggina á mér og ég hálf sat/stóð í vatninu. Í þremur hríðum og á 7 mínútum kom drengurinn syndandi út í vatnið, kl. 05:37. Ég veiddi hann sjálf upp úr og settist beint í fangið á Daða. Hann var kominn! Og hann var svo rólegur og dásamlegur, en skemmtilega brúnaþungur. Grét ekki en lét bara rétt heyra í sér að það væri allt í lagi með hann. Lilja Bríet kom þá hlaupandi innan úr herbergi og hoppaði ofan í til okkar.

Áslaug beið svo bara á hliðarlínunni, tilbúin að grípa inn í ef til þess kæmi. Þvílíka upplifunin að hafa alla fjölskylduna og æskuvinkonu hjá sér á þessu ótrúlega augnabliki. Og þessa dásamlegu ljósmóður sem veit upp á hár hvað hún er að gera. Lætur manni líða svo vel, eins og maður sé eina konan í heiminum sem er gerð til að fæða börn og engin geti gert það betur! Hvetur mann áfram á mildan og mjúkan hátt og leyfir manni að finna sínar eigin leiðir og treysta á sitt eigið innsæi. Er ekki sífellt að tékka á útvíkkun, gerði það bara þegar hún kom og svo ekkert aftur. Trúði því bara að þegar ég sagðist þurfa að rembast, þá var ég komin með fulla útvíkkun og mátti byrja.

Við lágum svo bara þarna í smá stund og dáðumst að nýja fjölskyldumeðlimnum. Um korteri seinna fæddi ég fylgjuna og við skoðuðum hana. Það sem Áslaugu þótti merkilegt við fæðinguna var að það blæddi ekki dropa af blóði, hvorki þegar ég fæddi barnið né fylgjuna. Ég fór svo upp í rúm og litli kútur kom á brjóstið og drakk eins og hann hefði aldrei gert neitt annað. Svo var einhver smáræðis saumaskapur og á meðan voru feðgarnir og stóra systir að skoða hvert annað. Þau hjálpuðust svo að frammi við að ganga frá og svo borðuðum við öll saman áður en Áslaug og Arnbjörg héldu út í morgunsólina.

Litla fjölskyldan fór öll upp í rúm að kúra eftir þessa viðburðaríku og skemmtilegu nótt. Hún gleymist aldrei.

Sagan var upphaflega birt á pressan.is

Fæðing Viktors

Ég hafði ekki sagt neinum settan dag og af því við fjölskyldan vorum í sumarfríi var ég næstum hætt að fylgjast með dögunum sem liðu hver af öðrum. Það var því engin pressa. Mér leið vel og vissi að ekki þýddi að miða of mikið við dagatalið, seinast hafði ég gengið 41 viku og 6 daga.

Við Kristbjörg ljósmóðir vorum báðar afslappaðar og miðuðum hálft í hvoru við að ég gengi vel og lengi með, eins og í fyrra skiptið.

Ég vaknaði á fallegum miðvikudegi, gengin 40 vikur og 3 daga. Mágkona mín kom og sótti mig undir hádegið og við fórum saman í jógatíma til Auðar. Ég ákvað að skella mér á töfradýnuna í horninu, mér fannst það einhvern veginn viðeigandi í þetta skiptið. Ég tók orð Söru jógakennara um að við skyldum hlusta á líkamann bókstaflega og lagðist snemma undir teppið í slökun og naut þess sem ég vissi að myndi verða einn af mínum síðustu tímum í meðgöngujóga.

Eftir hádegið fórum við litla fjölskyldan í búðarferð, keyptum auka lak á hjónarúmið og bleyjupakka fyrir nýbura. Planið var svo að baka hafrakex eftir að minn 2 ára færi í háttinn um kvöldið. Það varð lítið úr bakstrinum því ég var svo þreytt í mjóbakinu upp úr klukkan 7 að ég treysti mér varla til að standa. Ég lagðist því bara upp í sófa og fór að horfa á sjónvarpið meðan eiginmaðurinn straujaði skyrtur og ungbarnarúmföt.

Rétt upp úr kl 10 um kvöldið fann ég sting niður og fannst ég heyra smell. Í nokkrar mínútur þorði ég ekki að hreyfa mig og sagði manninum mínum að þetta hefði nú verið eitthvað undarlegur stingur. Það var svo ekki fyrr en ég stóð upp úr sófanum sem ég fann vatnið leka. Maðurinn minn stökk og náði í handklæði og rétti mér svo síma til að hringja í Kristbjörgu. Seinast hafði fæðingin líka byrjað með því að vatnið fór, ég hafði búið mig undir að núna yrði þetta öðruvísi og að reglulegar bylgjur myndu segja mér að ég væri komin af stað. Mér var því nokkuð brugðið. Kristbjörg kom, allt leit vel út og litla krílið loks skorðað.

Ég fór upp í rúm til að reyna að hvílast, því ég bjóst við að fljótlega færi allt að gerast, þannig var það síðast. Ég hlustaði á Hypnobirthing slökunina og valin lög af playlistanum. Ég náði að dotta smá. Hægt og rólega fóru bylgjurnar að gera vart við sig og ég tók brosandi á móti þeim með djúpri öndun. Á einhverjum tímapunkti fann ég að bylgjurnar voru orðnar of sterkar til að eg gæti tekið á móti þeim útaf liggjandi og fór á fjóra fætur. Um svipað leyti fór ég að hnippa í sofandi eiginmanninn, hann svaf í gegnum stunurnar frá mér. Hann ræsti Kristbjörgu í annað sinn, lagði hitapoka á mjóbakið sem var enn jafn þreytt og gaf mér fiðrildanudd (e. light touch massage). Ég tók aldrei tímann á milli hríða, hafði augun lokuð og lét mér líða vel í eigi heimi.

Þegar Kristbjörg kom bauð hún mér að fara í laugina sem ég þáði. Á leið minni inn í stofu vissi ég að ég myndi ganga fram hjá eldhúsklukkunni en mér fannst skipta miklu máli að vita ekki hvað klukkan væri. Ég vissi að það myndi ekki hafa góð áhrif á mig að komast að því hvort langt eða stutt væri síðan vatnið fór, annað hvort myndi ég upplifa að fæðingin væri að ganga hratt fyrir sig sem myndi gera mig órólega eða að ég upplifði að ég væri búin að vera lengi í fæðingu og myndi þá meðvitað fara að þreytast eða vorkenna sjálfri mér. Ég vissi semsagt ekkert á þessarri stundu hvort ég hefði legið uppi í rúmi í eina klukkustund eða sex. Tímaleysið hafði þjónað mér vel í síðustu fæðingu og ég vildi að það gerði það líka núna.

Vatnið var notalegt en það var ég að prófa í fyrsta skipti. Ég man ég hugsaði þegar ég fór ofan í laugina að þegar ég færi upp úr þá myndi barnið vera fætt og þessarri meðgöngu lokið. Mér fannst það að vissu leyti leiðinlegt því ég hafði notið mín á meðgöngunni. Ég dúaði og vaggaði í vatninu í bylgjunum og reyndi að nýta mér þyngdarleysið. Ég var einnig í dágóða stund að finna þægilegustu stellinguna, átti í einhverjum vandræðum með hvernig ég vildi hafa hnén meðan ég hallaði mér yfir brúnina á lauginni og var því á smá iði. Mér finnst eins og fljótlega eftir að ég fór ofan í laugina að það væri kominn þrýstingur niður í toppunum á bylgjunum og Kristbjörg hafði orð á því. Ég leyfði líkamanum að stjórna og ýtti ekki með. Mig grunar að Kristbjörgu hafi eitthvað verið farið að lengja eftir því að eitthvað meira gerðist og bað mig að snúa mér við svo hún gæti skoðað leghálsinn. Hún sagði að allt væri mjúkt en það væri brún á leghálsinum. Fyrir mér þýddi þetta að rembingurinn væri ekki tímabær og frekar að trufla, ég þyrfti að einbeita mér að því að opna betur. Ég ákvað að prófa að fara á klósettið en gat ekkert pissað. Mér til mikils léttis duttu bylgjurnar niður meðan ég var á klósettinu, það kom svona eins og pása. Ég heyrði að strákurinn minn var vaknaður og var að koma niður. Hann var mjög glaður þegar hann sá mig koma út af klósettinu enda hafði hann komið að mömmu og pabbarúmi auðu og vissi ekki alveg hvað var í gangi. Einhver reyndi að útskýra fyrir honum að mamma væri upptekin meðan ég fékk aðstoð við að komast aftur ofan í laugina. Að mamma væri í sundlaug inni í miðri stofu vakti sko heldur betur áhuga en hann skynjaði samt að það væri eitthvað sérstakt í gangi, hélt ró sinni og strauk mér nokkrum sinnum áður en hann var lokkaður inn í eldhús með ABT mjólk. Amma hans kom svo innan fárra mínútna og sótti hann.

Fljótlega fór allt af stað aftur. Ég ímyndaði mér að leghálsinn væri eins og lítil gúmmíteygja og að hún stækkaði og það teygðist á henni í hverri bylgju. Tilfinningin í líkamanum var einhvern veginn þannig. Ef ég fann að bylgjan var sterk fór ég að fnæsa eins og hestur til að hemja rembinginn. Ég vildi ekki rembast því mér fannst rembingurinn þreyta mig. Ég reyndi líka að vagga mjöðmunum, dúa í vatninu, hreyfa fæturna og vera á einhvers konar hækjum, það virtist hjálpa mér að vera á smá hreyfingu. Þetta var samt stutt stund, fæðingarskýrslan segir 10 mínútur. Skyndilega fann ég svo barnið bara næstum detta niður fæðingarveginn í einni hríð og kollinn þrýsta á spöngina. Síðast hafði ég verið lengi að mjaka barninu neðar og neðar og mér fannst þetta því vera að ganga vel og örugglega fyrir sig, þakkaði fyrir í hljóði og sagði ,,kollur’’ við manninn minn og Kristbjörgu.

Ég leyfði líkamanum að stjórna ferðinni í kollhríðunum, einbeitti mér að önduninni og sagði sjálfri mér að taka mér þann tíma sem ég þyrfti, hægt og ljúft myndi verða þægilegast. Ég tengdist barninu mjög vel þegar ég fann svona vel fyrir kollinum. Alltaf þegar ég upplifði að það gæti ekki teygst meira á mér kom næsta hríð og afsannaði það. ,,I am big’’ eins og Ina May segir. Að lokum fæddist kollurinn og svo allt barnið í næstu bylgju, fæðingarskýrslan segir að þetta hafi tekið 30 mínútur. Ég sneri mér við í lauginni, tók barnið mitt upp og í fangið. Þetta var strákur.

Ég fæddi fylgjuna í sófanum hálftíma seinna, á sama tíma og ég lagði drenginn minn á brjóst í fyrsta skipti. Spöngin var heil. Ég bað um að stóri strákurinn minn fengi að koma og hann mætti galvaskur og glaður og fannst afar spennandi að sjá þetta litla barn drekka mjólk hjá mömmu sinni. Pabbinn klippti svo á naflastrenginn og mamma og litla kríli sofnuðu vært í sófanum.

Fæðingarsaga Rökkva

Formáli

Í maí 2011 eignuðumst við stelpuna okkar. Meðgangan hafði verið frábær og ég uppfull af bjartsýni og tilhlökkun fyrir fæðingunni. Hafði ofurtrú á náttúrunni og datt ekki annað í hug en að líkami minn réði vel við fæðingu. Frá upphafi var stefnt að heimafæðingu, enda sá ég lítinn tilgang með að innritast á sjúkrahús nema þurfa aðhlynningu og verkfæri lækna. Sem blessunarlega minnihluti fæðandi kvenna þarf.

Náttúran hins vegar brást mér í það skipti. Fæðingin var óhemju löng og erfið. Höfuð barnsins kom skakkt niður – sem olli hægum framgangi þrátt fyrir kröftugar hríðir, og óskaplegu álagi á mjóbakið. Eftir hátt í sólarhringslanga fæðingu festist ég með 8 cm í útvíkkun í þrjá tíma og varð að sættast á að þessi fæðing yrði ekki kláruð án mænudeyfingar. Að losna við lamandi sársaukann eftir þennan erfiða sólarhring var heldur betur léttir, en seint verður þó sagt að spítalafæðingin hafi verið góð upplifun.

Líkt og örmagna foreldrarnir réð stelpan okkar illa við þessa löngu fæðingu og stuttu eftir komuna á LSH fór hún að sýna streitumerki, svo vel þurfti að fylgjast með hjartslætti og sýrustigi hennar í nokkra klukkutíma. Eftir þriggja tíma árangurslausan rembing var loks ákveðið að draga hana út með sogklukku. Við munum seint skilja af hverju beðið var svo lengi með inngrip, því í kjölfar þessa álags fæddist Ronja mín með aðeins 3 í apgar. Eftir nokkrar sekúndur á mömmubringu fór hún á vökudeild og þurfti þar vikudvöl til að jafna sig. Við vorum óskaplega heppin með sterku og kröftugu stelpuna okkar sem er fullkomlega heil í dag. Ekki eru allar fjölskyldur svo heppnar og auðvelt að verða fyrir súrefnisskorti í þess háttar fæðingu. Starfsfólk vökudeildar bað okkur að vera þakklát fyrir að stúlkan kom út þarna en ekki einni hríð síðar.

Minningin um fæðingarverki dofnar merkilega fljótt, en ennþá herpist maginn saman við að rifja upp fyrstu tvo tímana í lífi dóttur minnar – sem hún eyddi í hitakassa fjarri mömmulíkama sem hún hafði alla tíð tilheyrt. Að ég tali nú ekki um næturnar sem við eyddum heima á barnlausu heimili meðan skonsan dvaldi á vökudeild. Það var eins og rífa úr sér líffæri og skilja það eftir hjá ókunnugum (sem reyndust þó dásamlegar konur sem sinntu gullinu okkar vel í fjarveru foreldranna). Þá er ekki hægt að segja að sængurlegan hafi verið notaleg upplifun, við virðumst hafa verið sérdeilis óheppin með vinnubrögð starfsfólks (ef marka má reynslu margra annarra). Þrátt fyrir að vera þar nær vökubarninu mínu en heima, var ég afar fegin þegar ég yfirgaf sængurkvennaganginn og langaði aldrei þangað aftur.

Haustið 2013 fannst okkur kominn tími á fjölgun í fjölskyldunni – sem mætti við fyrsta kall. Þrátt fyrir að vera plönuð og hjartanlega velkomin viðbót, fengum við hálfgert áfall við að átta okkur á að nú væri aftur komið að fæðingu. Þá tók við talsverð vinna. Svo sem fundir með alls kyns fagfólki og yfirmönnum spítalans til að reyna að skilja vinnubrögðin úr síðustu fæðingu (sem enginn gat reyndar útskýrt en afsökunarbeiðnir var ljúft að heyra) og fá loforð um að næst yrði ólíkt brugðist við og engin óþarfa áhætta tekin með líf barnsins okkar.

Í þetta skipti var alls ekki á tæru hvar ég vildi fæða barnið, því síðasta heimafæðing reyndist líkamanum ofviða og spítalafæðingin var ömurleg upplifun. Það var óskaplega erfið staða að treysta engum fæðingarstað almennilega, og hefði ég gefið mikið fyrir bjartsýnina frá fyrri meðgöngu þegar engar erfiðar minningar þvældust fyrir. Það var loks þegar mér veittist sá heiður að ljósmynda heimafæðingu að ég ákvað að stefna þangað aftur. Sú mamma hafði átt svipað erfiða fæðingu og ég sama sumarið, en átti núna mun styttri og viðráðanlegri fæðingu. Að verða vitni að því eyddi loks þeim ótta mínum að ég væri kannski alls ekki byggð fyrir fæðingar og dæmd til að mistakast. Ég ákvað að við hefðum bara verið hrikalega óheppin og líkurnar á að vel gengi næst væru sannarlega okkur í hag. Þungu fargi var létt af mér við taka loks ákvörðun um fæðingarstað, og finna aftur til jákvæðni og tilhlökkunar.

Heimafæðinguna nálguðumst við þó á annan hátt en síðast. Okkur fannst mikið atriði að hafa aftur sömu ljósmæður sem vel þekktu söguna okkar, og ákváðum að hafa alla þröskulda fyrir inngripum lægri og tímamörk styttri. Í þetta skipti ætlaði ég að vera með fullri meðvitund á þeirri stóru stund þegar ég fengi barnið mitt í fangið en ekki út úr heiminum af örmögnun. Og mikilvægast af öllu var að nú skyldi ég fá drenginn minn í fangið og missa hann ekki þaðan aftur. Fæðingin skyldi öll miða við að leggja sem allra minnst á barnið mitt og forða því frá aðskilnaði frá mömmu sinni.

Með hverjum deginum sem styttist í fæðingu varð kvíðinn minni og tilhlökkunin meiri. Ekki síst hjá þeirri þriggja ára sem beið spennt eftir að verða stóra systir og ætlaði að gefa litla barninu sumt dótið sitt, hálft rúmið og alla þá kossa sem hún ætti til. Við vorum tilbúin fyrir litla bróður og tilbúin í aðra fæðingu.

Heimafæðing með smá spítalastoppi

Að morgni 19. júlí fór ég á fætur dauðþreytt og grautfúl yfir að hríðir næturinnar höfðu algjörlega dottið niður. Hafði reyndar ekki fengið mikinn svefnfrið síðustu nætur fyrir æfingarhríðum, en í þetta skiptið var ég handviss um að um alvöru hríðir væri að ræða og gapti af undrun yfir að allt dytti niður um morguninn. Bugaðist alveg og fannst eins og þetta barn kæmi aldrei út. Ennþá átti ég raunar þrjá daga í settan dag, en óttaðist að þegar loks kæmi að fæðingunni yrði ég örmagna eftir svefnleysið og réði ekkert við álagið. Aðrar reyndu að hughreysta mig með að allar þessar æfingar væru pottþétt að gera sitt gagn og stytta þar með sjálft fæðingarferlið, en mér gekk illa að trúa því þar sem ég hafði ekkert grætt á margra vikna fyrirvaraverkjum í löngu fæðingu dóttur minnar. Í fýlukasti fór ég ein út að labba í mígandi rigningunni og stoppaði lengi fyrir utan hús þar sem nýburi grét sárt. Eflaust erfitt hljóð í eyrum þeirra nýbökuðu foreldra, en mikið þráði ég að fá minn eigin vælandi kveisustrump í fangið.

Dagurinn leið og seinnipartinn byrjuðu samdrættirnir aftur, svo ég bjó mig undir aðra vökunótt. Enn í fýlu dró ég fjölskylduna út í bíl um kvöldið, varð að komast út úr húsi og hressa mig við. Við enduðum heima hjá foreldrum mínum þar sem systa og fjölskylda höfðu nýlokið við að borða dýrindis gæsabringur (hey takk fyrir að bjóða okkur!). Við borðuðum afganga og sóttin harðnaði smátt og smátt. Ég tók tímann á milli og þegar hríðirnar komu á 3-6 mínútna fresti ákváðum við að halda heim. Til öryggis þáðum við að Ronja myndi gista hjá frænku sinni, en ennþá þorði ég ekki að treysta á að þetta væru ekki plathríðir.

Heima fórum við í rúmið, staðráðin í að ná smá hvíld ef fæðingin væri í rauninni að skella á – óþægilega minnug þess hversu löng og lýjandi síðasta fæðing var. Sá blundur varð hins vegar mjög stuttur því sóttin harðnaði hratt. Við færðum okkur því inn í stofu í kringum miðnætti og gerðum heimilið fæðingarvænt. Ég kveikti á kertum um allt, setti á bíómynd og hrúgaði dýnum, púðum og teppum á gólfið. Ég lét ljósmæðurnar vita af yfirvofandi fæðingu en þurfti þó ekki á þeim að halda strax, hríðirnar voru vel viðráðanlegar með nuddi frá mínum ástkæra. Eftir eina bíómynd voru samdrættirnir farnir að taka slatta á, svo ég ákvað að dýfa mér ofan í baðkarið. Þar var yyyndislegt að vera. Hríðir á landi og hríðir í heitu vatni eru bara algjörlega sitthvor hluturinn! Eftir notalega stund í baðinu sá ég laugina í hillingum, bað Konna að blása hana upp og boða svo ljósurnar til okkar þar sem ég vildi innri skoðun áður en ég færi ofan í.

Arney og Hrafnhildur mættu kl. 2:45. Stuttu áður en þær komu snarbreyttist sóttin og allt varð skyndilega erfiðara. Ég skalf eins og hrísla, ógleðin helltist yfir og allar góðu gæsabringurnar enduðu í skúringafötunni. Þegar ég náði þessum ælu/skjálfta-punkti í síðustu fæðingu höfðu ljósmæðurnar þegar eytt heilum vinnudegi í að aðstoða mig í gegnum hríðirnar, svo ég ætlaði barasta ekki að trúa því hversu hratt þetta gekk. Innri skoðun staðfesti það en leghálsinn var kominn í góðan fæðingargír og útvíkkun komin í 6 cm! Sem hljómar kannski ekki merkilega í eyru margra mæðra… en voru himneskar fréttir fyrir konu sem áður þurfti 18 tíma hríðir til að ná þessum áfanga. Útvíkkunarsexan fyllti mig orku og trú á að ég væri í raun og veru að upplifa viðráðanlega fæðingu, og að þetta barn ætti góðan sjens á að fæðast heima án inngripa. Þarna voru bara örfáir tímar síðan hríðirnar urðu reglulegar og varla nema klukkustund síðan þær urðu erfiðar, svo greinilega höfðu andvökunæturnar gert sitt gagn (sorrý vantraustið kæru æfingarhríðir!).

Laugin var næst á dagskrá og þótt hríðirnar yrðu sífellt erfiðari urðu þær aldrei óviðráðanlegar. Fæðing er ansi hreint auðveldara verkefni þegar hún er það stutt að konan er langt frá örmögnun. Þegar ég bað um að drekka var mér alltaf rétt sama orkudrykkjarflaskan og ég hafði sjálf opnað í byrjun fæðingar. Þetta gladdi mig kjánalega mikið, því með gömlu 30 tíma fæðinguna í huga hafði ég keypt cirka tíu flöskur. Það fleytti mér langt í jákvæðu hugarfari að þetta ætlaði að verða „baraeinnarflöskufæðing“. Mestu munaði þó um að á milli hríða kom alltaf pása. Algjörlega sársaukalaus pása! Þetta var mér ný reynsla því síðast ýtti skakka höfuð dóttur minnar á rófubeinið en ekki leghálsinn, sem olli gríðarlegum sársauka í bakinu sem hvarf ekkert þó hríðin gengi yfir. Ég hafði mikla þörf fyrir að heyra uppörvandi orð – vera minnt á hvað hlutirnir væru að ganga hratt og vel, og að nú væri örstutt eftir. Svo ýmist sagði ég mér þá sjálf eða bað viðstadda að tyggja þetta ofan í mig. Orð eru svo kröftugt tæki.

Eftir tæpan klukkutíma í lauginni voru hríðirnar orðnar tussuerfiðar svo ég bað um innri skoðun. Ég hafði löngu ákveðið að grípa mun fyrr inn í ferlið en síðast, og hafði því þörf fyrir að vita nákvæmlega hvernig staðan væri. Ennþá brotin af fyrri reynslu óttaðist ég að þetta síðasta og erfiðasta tímabil útvíkkunarinnar yrði alltof langt fyrir mig að þola. Þá hafði tekið sex tíma að ná útvíkkun frá 6 cm í 10 cm – og á þessu tímabili færðum við okkur á spítala. Arney stakk upp á að klára næstu hríð og koma svo inn í rúm að tékka á útvíkkun… REEEEEMMMB! Skyndileg rembingsþörfin staðfesti að skoðun væri óþörf, útvíkkun var greinilega að klárast – bara klukkustund eftir að ljósmæðurnar mættu og mátu útvíkkun í 6 cm. Vúhú!!

Rembingsþörf var mér glæný upplifun. Síðast tók mænudeyfingin alla tilfinningu fyrir fæðingunni, og úrvinda rembdist ég í þrjá tíma – undir stjórn ljósmóður en ekki náttúrunnar – án þess að barnið haggaðist og loks var það sogklukka sem dró hana út. Mér líður því ekki eins og ég hafi í raun fætt stelpuna mína. Að upplifa þessa náttúrulegu rembingsþörf var allt önnur ella, og alveg eins og mamma hafði sagt mér fyrr um kvöldið – er hægt að grípa hríðina í kviðnum og færa hana niður í legháls, breyta henni úr sársauka í þrýsting. Nú þurfti ekki lengur að umbera kvalirnar heldur var hægt að nota þær í eitthvað gagnlegt. Að upplifa slíka stjórn á krafti náttúrunnar fannst mér mögnuð upplifun.

Rembingurinn tók þrjú korter og þarna tók þessi draumafæðing mín smá U-beygju, því mér fannst algjört helvíti að koma höfðinu út. Yfirveguð dönnuð kona breyttist í leiðinda væluskjóðu með endalaust: Are we there yet? Are we there yet? Í trylltum sársaukanum hélt ég mér fast í setningu sem ég hafði stuttu áður lesið í einni fæðingarbókinni: „Enn hefur engin kona rifnað í tvennt og þú verður ekki sú fyrsta“. Óttalega kjánaleg lesning svona í huggulegheitum á þriðjudagskvöldi – en bráðnauðsynleg vitneskja þegar barnshöfuð virtist í raun vera að gera sitt besta til að rífa mig í tvennt. Þarna varð mér líka hugsað til nágrannanna sem mér þótti betra að láta vita af yfirvofandi heimafæðingu. Flestir myndu jú líklega hringja á lögreglu eða banka upp á til að aðstoða nágrannakonu sem öskraði af lífs- og sálarkröftum á einhvern í íbúðinni sinni að DRULLA SÉR ÚÚÚÚÚT!!! Loksins var höfuðið úti og annan eins létti hef ég aldrei áður fundið. Með höfðinu fylgdi handleggur sem reif mig illa. Takk sonur, þú átt rassskellinn inni.

Mun minna mál var að ýta búknum út og skyndilega var drengur í fangi mér. Önnur ljósan opnaði munninn til að róa okkur með að stundum tæki nýbura smá tíma að taka við sér – en í sömu andrá opnaði hann sjálfur munninn og gargaði hressilega í góða stund. Vildi sjá um það sjálfur að fullvissa foreldra sína um að í þetta skipti ættu þau alheilbrigt barn með toppeinkunn sem þyrfti ekki á vökudeild eins og stóra systir sem fæddist líflaus. Mömmuhjartað jafnar sig aldrei alveg á þeirri minningu að skilja við glænýja barnið sitt, svo þarna rættist minn æðsti draumur fyrir þessa fæðingu – barnið mitt færi ekki fet frá mér.

Ég naut þess þó ekki lengi að dást að gaurnum mínum því fljótt helltist yfir mig hrikalegur sársauki í rófubeininu. Það var þessi sársauki sem hafði gert síðustu fæðingu hvað erfiðasta, en í þessari höfðu bakverkir verið blessunarlega fjarri. Á sínum tíma var ég lengi að jafna mig í mjóbakinu eftir fæðinguna, og við að remba öðru barni út virðist hið skaddaða rófubein hafa fengið flashback aftur í tímann og laskast á ný. Eftir að fylgjan var fædd og Konni hafði skilið á milli var ég leidd inn í rúm. Við bakverkinn bættust nú við mjög harkalegir samdráttarverkir svo ég hélt áfram að garga af kvölum. Kræst! Á ekki fæðingu að vera lokið á þessum tímapunkti?? Ég fékk verkjalyf, bakstra og nálastungur við verkjunum og lagði drenginn á brjóst. Hann leitaði ákafur og þolinmóður þar til hann náði fyrsta sopanum. Þetta var enn önnur ný reynsla í bankann, þar sem litla vakan okkar hafði verið of örmagna fyrir brjóstagjöf og fengið næringu í sondu fyrstu vikuna sína.

Illa staðsetti handleggurinn hafði ekki farið vel með neðri partinn á mér og hófust ljósurnar nú handa við saumaskap á meðan snúður svaf sultuslakur í pabbafangi. Mínar afar vandvirku ljósmæður taka saumaskap alvarlega og eyddu næstum klukkutíma í að sauma mig saman. Rófubeinsverkurinn + samdráttarverkirnir + potið og stungurnar í sundurrifið klofið var aaaðeins of mikill sársauki fyrir eina litla konu sem fannst hún alveg eiga skilið smá breik eftir afrek næturinnar. En þá var allavega huggun í að horfa á fallega drenginn sinn á meðan. Á endanum urðu ljósmæðurnar að játa sig sigraðar. Rifan virtist vera af þriðju gráðu – svo slæm að skurðlæknir varð að laga hana. Þær tilkynntu okkur því að við yrðum að færa okkur á spítalann þar sem ég myndi gangast undir aðgerð. Eftir að hafa haldið aftur af tárunum í erfiðasta hjalla útvíkkunar, löngum rembingi og sársaukafullum saumaskap missti ég alveg kúlið og hágrét. Mér hafði tekist að fæða heima eins og mig dreymdi um en SAMT var spítali fram undan. Þvílík vonbrigði.

Við tókum því rólega um morguninn og ég átti ljúfa stund með monsa mínum áður en við lögðum af stað, og fljótt komst ég yfir þessi vonbrigði. Hann fékk mælingar og reyndist 14 merkur og 52 cm – hálfu kílói og 4 cm stærri en systir hans. Enn önnur skemmtileg fæðingarnýung var að geta gengið um og m.a.s. niður af þriðju hæð. Þrátt fyrir verki og rifur var ég ótrúlega hress, annað en eftir síðustu fæðingu þar sem ég varla stóð upp úr hjólastólnum fyrstu dagana. Hrafnhildur kvaddi okkur en Arney kom með okkur á spítalann.

Á LSH var dálítið kaos (búhú mig langar heim í kertaljósin!). Ég var færð á milli sjúkrastofa á fæðingarganginum, alls kyns fólk kallað til í að stilla sjúkrarúmið sem enginn kunni á, og þar sem við mættum akkúrat á vaktaskiptum tók tíma að finna mannskap í aðgerðina. Loks mætti læknir og aftur tók við kvalarfullt pot neðra. Í þetta sinn með glaðloft fyrir vitunum – sem gerði ekkert gagn en dempaði allavega ópin í mér. Læknirinn staðfesti þriðju gráðu rifu og skurðstofan var bókuð á hádegi. Ég þurfti að hemja grátkast nr. 2 þegar mér var sagt að ég yrði svæfð og myndi líklega liggja inni heila nótt eftir aðgerðina. Á skurðstofunni ákvað svæfingarlæknirinn hins vegar að gefa mér frekar keisara-mænudeyfingu. Ég var auðvitað hæstánægð með að sleppa svæfingunni en vissi samt varla hvort skyldi hlæja eða gráta við að heyra M-orðið. Í þetta skiptið hafði mér tekist að fæða án deyfingar en samt fékk ég fríggin mænudeyfinguna EFTIR að krakkinn var mættur og kominn í ullarsokka? Æ þetta líf sko.

Eftir hálftíma aðgerð hitti ég aftur nýbökuðu feðgana og öll lögðum við okkur á meðan deyfingin fór úr líkamanum. Hjúkka tilkynnti mér að ég mætti fara heim um leið og ég gæti pissað, svo ég hellti í mig mörgum lítrum til að komast heim sem fyrst. Kl. 17:30 keyrðum við heim í skínandi hreina íbúð og risa blómvönd eftir tiltekt foreldra minna – sem mættu svo stuttu seinna með langþráð sushi og hvítvín handa mér og auðvitað stóru systur sem fyrst nú fékk að vita að litli bróðir væri kominn út úr bumbunni. Það var heldur betur sæl stúlka sem dáðist að fallega bróður sínum, og sæl mamma sem horfði á börnin sín saman og fannst hún loks hafa lokið hringnum í fæðingarreynslu og grætt gömul sár. Engin horror fæðing og enginn aðskilnaður frá nýja barninu fyrir utan hálftíma á skurðstofunni. Fjölskyldan mín var heil og sameinuð. Skítt með það þó slatti af vöðvum hafi ekki verið heilir.

Fæðingarsaga Ronju – {óvænt spítalafæðing}

Formáli

Frá því ég pissaði á prikið (og reyndar alveg frá því ponsan mín var ennþá bara hugmynd) var stefnan sett á heimafæðingu. Ég hafði lengi átt erfitt með að staðsetja sjálfa mig innan þeirrar hefðar að eiga heilbrigða fæðingu inni á sjúkrastofnun, líkt og um sjúkdóm eða slys væri að ræða. Við Konni höfðum því snemma samband við heimafæðingaljósmæðurnar Arney og Hrafnhildi, sem voru aldeilis til í að vera með okkur í fæðingunni. Ég fann mér aðrar konur í svipuðum pælingum að spjalla við, drakk í mig sögur af fæðingum, kynnti mér rannsóknir og fræðigreinar, og las fæðingarbækur með áherslu á náttúrulega nálgun. Ég undirbjó mig sumsé heil ósköp undir þennan merkilegasta dag ævinnar, og lagði mesta áherslu á að halda jákvæðu hugarfari. Að líta ekki á fæðinguna sem eitthvað hættulegt, ógnvekjandi, subbulegt eða sjúklegt – heldur eðlilegan og stórkostlegan atburð sem gæfi mér ekki aðeins barnið mitt, heldur einnig sterkari sjálfsmynd og betri sjálfsskilning. Hugarfar sem ég held að öllum verðandi mæðrum sé hollt að tileinka sér, óháð því hvar er stefnt á að fæða.

Auðvitað var ég meðvituð um að ekki eru allar fæðingar heilbrigðar eða viðráðanlegar, og því alltaf möguleiki að ég þyrfti að fæða á spítala. Þetta passaði ég að muna til að verða ekki fyrir áfalli ef svo færi, en reyndar gerði ég aldrei ráð fyrir öðru en fara temmilega létt með þessa fæðingu þar sem meðgangan var hreinlega til háborinnar fyrirmyndar. Á daginn kom að náttúran vildi ekki kvitta undir þetta fína samstarf sem ég stefndi á (við erum samt alveg vinkonur ennþá) svo notalega heimafæðingin mín endaði á spítala með mænudeyfingu, sogklukku og vökudeild.

Án efa hafði allur undirbúningurinn og jákvæða hugarfarið á meðgöngunni mikil áhrif á upplifun mína af fæðingunni. Framan af fannst mér fæðingin frábærlega skemmtilegt verkefni og vel viðráðanlegt, þótt vissulega tæki það á. Og þótt atburðarrásin hafi tekið U-beygju frá upphaflegum plönum þykir mér samt óskaplega vænt um hverja einustu mínútu sem átti hlut í því að koma dóttur minni í heiminn.

Heimafæðingin

Laugardagurinn 30. apríl var settur dagur. Þegar ég vaknaði um morguninn hafði ég aldrei þessu vant engar æfingahríðar haft yfir nóttina, og tók því sem merki um að það væri pottþétt langt í að litla gullið mitt fæddist. Við Konni fórum í barnaafmæli og seinni part dags fór ég að finna fyrir æfingahríðum. Töluvert sterkari en síðustu vikurnar en samt svo óreglulegum að ég afskrifaði að fæðing væri að fara í gang. Um kvöldið fór minn vita laglausi sambýlismaður að syngja júróvisjón-rokklag á sviði Laugardalshallar með karlakór og risabangsa með luftgítar. Þegar hann kom heim í kringum miðnætti voru hríðarnar orðnar reglulegar og ca 7 mínútur á milli, og mér því orðið ljóst að nú væri stuðið raunverulega að byrja og helgin yrði eftirminnileg fyrir fleira en að Konni og félagar lönduðu 5. sæti í árlegri söngkeppni Landsbankans.

Ég átti ekki sjens á að sofa – bæði fyrir samdráttum og spenningi – og dúllaði mér því um nóttina. Rölti um íbúðina og græjaði fyrir fæðinguna, naut mín við kertaljós og jólalegu snjókomuna fyrir utan gluggann – sem var auðvitað tóm steik á aðfaranótt 1. maí! Það var sumsé vetur þegar fæðingin hrökk í gang, en þegar daman kom sér loks út löngu seinna var komin bongóblíða. Veðurfræðingarnir segja engin fordæmi fyrir svona snöggum árstíðaskiptum hérlendis, svo í okkar huga verður skonsan alltaf vorboðinn ljúfi sem kom með langþráð sumar í bæinn.

Konni fékk að sofa fyrst um sinn, en ég var ekkert einmana því glænýju nágrannarnir á efri hæðinni voru með partý. Þar spilaði einhver voða fallega á gítar og stytti mér stundir. Konni vaknaði þegar ég skreið upp í rúm, þar sem við eyddum nóttinni við kertaljós, nudd og spjall. Og að telja á milli hríða með aðstoð hinnar stórfínu netsíðu contractionmaster.com (hvað gerði fæðandi fólk fyrir netið, taldi bara sjálft??). Um morguninn voru hríðarnar orðnar það sterkar, og ca 5 mínútur á milli, að við ákváðum að hringja í ljósurnar sem kíktu í heimsókn og blésu upp laugina. Klukkan 8 reyndist leghálsinn fullþynntur en útvíkkun þó aðeins komin í 2 cm. Hún hefði sannarlega mátt vera meiri eftir heila nótt… en það pirraði mig samt lítið, ég hafði svo gaman af þessu öllu saman. Ljósurnar gáfu mér nálastungur og ég lagðist inn í rúm. Náði fínni slökun á milli hríða svo þær skruppu aftur heim.

Fljótlega fóru þó hríðarnar að breytast, urðu mun kröftugri og við bættist þrýstingur niður, svo ég þorði ekki öðru en að kalla ljósurnar aftur til á hádegi en þá voru 3 mínútur á milli hríða. Látið var renna í laugina sem tók næstum klukkutíma að fylla – fokking vatnsþrýstingur í miðbænum – en vá hvað biðin var þess virði! Heita vatnið gaf þvílíka slökun og verkjastillingu að mér finnst ótrúlegt að hugsa til þess hversu stutt er síðan íslenskar konur fóru að nota vatn í fæðingum. En reyndar hægði vatnið aðeins á ferlinu svo lengdist á milli hríða. Klukkan rúmlega 15 var útvíkkun tékkuð oooog… heilir 3 cm! Æði, einn vesæll centimeter tók mig 7 fjandans tíma. Var orðin frekar þreytt þarna og alveg til í hraðara ferli… en vottever, þetta var ennþá vel viðráðanlegt verkefni.
Mér fannst alveg geggjað að finna hvernig líkaminn virkar í fæðingu. Þótt hríðarnar tækju orðið svakalega á (í nokkrum hugsaði ég með mér: Nei andskotinn þetta verður sko mitt eina barn!!!) kom alltaf smá pása á milli þeirra, og þá fann ég hvernig endorfínið sprautaðist út í líkamann og virkaði eins og góður verkjalyfjaskammtur. Í sjálfum hríðunum voru Konni og ljósurnar líka dugleg að minna mig á að slaka á öxlunum og anda rétt, og þannig fannst mér ég ávallt hafa stjórn á aðstæðum. Náttúruvænu fæðingarbækurnar og meðgöngujógað voru ekkert að djóka – slökun og haföndun er klárlega málið!

Konni var svo stórkostlegur fæðingarfélagi að ég ætti hreinlega að leigja hann út í slík djobb. Meðan allt gekk vel var hann 150% með mér í verkefninu og gerði allt sem ég þurfti – faðmaði mig, nuddaði mig, hellti drykkjum upp í mig, hvatti mig og hrósaði mér. Þegar allt fór svo að hrynja tókst honum að styðja mig fullkomlega þrátt fyrir að vera sjálfur niðurbrotinn. Í erfiðasta hjallanum hefði hans angist algjörlega farið fram hjá mér, nema af því ég varð þess áskynja að ljósmæðurnar og spítalastarfsfólk var sífellt að faðma hann og hughreysta. Enda stendur skrifað út um alla fæðingarskýrsluna okkar hvað pabbinn stóð sig vel.
Seinni part sunnudagsins var dæmið farið að taka allsvakalega á og hríðarnar orðnar mjög krefjandi, enda hátt í sólarhringur síðan fæðingin hófst og ég orðin skrambi þreytt. Það eina sem ég virkilega óttaðist á meðgöngunni var að verða óglatt í fæðingunni og kasta upp. Var alveg tilbúin að troða heilli manneskju út um ogguponsu gat, en að æla er það versta sem ég veit. Og það kom að því að ég kastaði upp. Skærbláu! Ég man eftir að hafa horft ofan í fötuna meðan ég ældi og hugsað: Blá æla? Djísús kræst hvað fæðing gerir klikkaða hluti við líkamann! En þetta var auðvitað bara blái orkudrykkurinn sem ég var nýbúin að drekka. Grannarnir uppi voru aftur með partý þetta kvöld (það þarf sko alvöru tjúttara til að ná tveimur partýum á meðan ein fæðing stendur yfir) og aftur var strákurinn með gítarinn mættur. Ég gaf skít í jógatónlistina og vildi miklu frekar hlusta á fallega trúbadorinn uppi.

Næstu klukkutímarnir voru óskaplega erfiðir, ég var orðin fullkomlega úrvinda og missti algjörlega þá fínu stjórn sem ég hafði haft á hríðunum hingað til. Klukkan 18 mældist útvíkkunin 5-6 cm, og rúmum klukkutíma seinna komin í 7 cm. Öðrum klukkutíma seinna var hún komin í 8 cm, en þar stoppaði hún. Á þeim tímapunkti fannst mér ég engan veginn geta meira. Þarna var ég farin að tapa flestum pásunum á milli hríða, því þótt hríðin gengi yfir fann ég sífellt gríðarlega sáran þrýsting niður – eins og rassinn væri að springa af! Ástæðan fyrir þeim sársauka og hægu ferlinu er að stelpan kláraði ekki að snúa höfðinu eins og börn eiga að gera í fæðingu, heldur þrýsti breiðasta hluta höfuðsins á kolrangan stað (hliðarbeinsstaða) og pyntaði þannig mömmu sína sem þurfti svo óskaplega smá hvíld. Þessi ranga höfuðstaða olli því að kollurinn gekk ekki niður og ferlið því nánast stopp, enda var ég föst með 8 cm í útvíkkun í 2,5 tíma – eða þar til belgirnir voru sprengdir og þá gekk kollurinn loks niður. Þetta var þó gert upp á spítala þar sem belgjarof með skökku höfði er almennt ekki framkvæmt í heimahúsi af öryggisástæðum.

Hugur og líkami eru merkileg fyrirbæri. Síðustu þrír klukkutímarnir heima voru hands down erfiðasta upplifun lífs míns (þótt mér fyndist þetta þó vera miklu styttri tími – náttúran aftur að sýna snilli sína). Sem var ömurleg breyting, því fram að þessu fannst mér hríðarnar skemmtileg átök. En á meðan líkaminn þjáðist fann hugurinn sér leiðir til að fúnkera.

Stundum var eins og ég stæði utan við líkamann og fylgdist með. Þá var hugurinn súrrealískt yfirvegaður og í fullkomnu ósamræmi við skjálfandi og vælandi fyrirbærið sem flaut um í fæðingarlauginni. Ástandið á mér var orðið þannig að ég grátbað um miskunn: Konni hjálpaðu mér! Þú verður að laga þetta! Láttu koma pásu! En salírólegi hugurinn sagði með sér: Hvernig dettur manneskjunni í hug að segja svona við hann Konna sinn, sem líður sko alveg nógu illa!? Og reyndar fannst pjöttuðu hugar-Eygló voða niðurlægjandi hvernig líkama-Eygló volaði eins og aumingi, hugurinn skammaðist sín fyrir hönd líkamans. Þegar ég sá svo sjúkraflutningamenninga birtast í dyrunum sagði yfirvegaði hugurinn: Æ ég vona að Sigurjón sé á sjúkrabílavakt í kvöld, mikið væri nú gaman að hitta hann. Einmitt. Af því ég er almennt svo mikið fyrir að fá gamla vini heim í kaffi þegar ég er nakin, blaut og ýlfrandi af kvölum.

En á öðrum stundum leitaði hugurinn inn á við og bjó sér til eigin heim til að forðast erfiðan raunveruleikann. Þær stundir hafði ég ekki hugmynd um hvað gerðist í kringum mig, ég var örugg inni í mér í félagsskap nettra ofskynjana. Best man ég eftir því þegar ein hríðin hét Guðmundur, og ég átti gott spjall við hann Guðmund um að stoppa nú ekki of lengi hjá mér.

Fram að þessu hafði stelpan ekki sýnt nein merki þess að líða illa – hjartslátturinn mældist alltaf sterkur og ég fann vel fyrir hreyfingum hennar. Hún var sumsé í góðu stuði og sparkaði á fullu, þótt ég væri of þreytt og þjáð til að muna nafnið mitt. Í von um að ferlið myndi fljótlega klárast reyndum við ítrekað að klára fæðinguna heima, þótt ég væri nokkurn veginn orðin sturluð og farin að grátbiðja um flutning á spítala til að fá einhvers konar hjálp. Klukkan 21 var hins vegar orðið ljóst að krakkinn væri ekkert á leiðinni út, og loks ákveðið að hringja á sjúkrabíl til að flytja mig á náðir mænudeyfingar. Konna mínum til mikils léttis, en hann var farinn að halda í fúlustu alvöru að hann myndi missa bæði konu og barn á stofugólfinu þetta kvöld. Sá ótti hvarf reyndar ekkert uppi á spítala – því þar tók í fyrsta sinn við hættuástand, þegar loks kom að því að barnið gat ekki meira af þessari erfiðu fæðingu frekar en mamman.

Óvænt spítalafæðing

Klukkan 21:30 vorum við komin inn á fæðingarherbergi LSH, þar sem tók á móti okkur frábær hópur starfskvenna. Konni minnist oft á hversu góðar þær hafi verið, svo þær hafa greinilega hugsað vel um þennan úrvinda og skíthrædda pabba. Ég var ekki alveg með rænu á þessum tímapunkti heldur staðsetti mig lengst inni í haus meðan ég beið eftir langþráðu hríðarpásunni minni. Vel gekk að setja upp mænudeyfingu og fljótlega fékk ég loksins hvíld.

Þá fór hjartsláttur barnsins að taka dýfur, svo ákveðið var að sprengja belgina og út rann tært og fínt legvatn. Þetta dreif í gang ferlið sem hafði verið alveg stopp, á miðnætti var útvíkkun komin í fulla 10 cm og seinna um nóttina kláraði höfuðið loks að snúa sér. Hjartslátturinn tók alvarlega dýfu svo ákveðið var að taka blóðprufu úr kolli barnsins til að mæla sýrustigið í líkamanum. Slíkar mælingar þykja öruggari en mónitorinn sem fylgist með hjartslættinum, en sýrustig líkamans segir til um undir hversu miklu álagi hann er. Þegar líkami verður fyrir gríðarlegu álagi verður hann mjög „súr“, en blóðprufan sýndi allt í góðu lagi með skonsuna. Hjartsláttur hennar hélt þó áfram að pompa niður eftir hríðar, svo á meðan ég rembdist næstu þrjá klukkutímana voru reglulega teknar blóðprufur sem allar sýndu eðlilegt sýrustig.

Klukkan 1 fór ljósmóðir að tala um að byrja að rembast. Í fyrstu kveikti ég engan veginn á því hvað manneskjan meinti – remba hverju hvert hvað?? Ég var loksins búin með þennan langa dag, hafði loks fengið pásuna mína sem ég hafði grátbeðið alheiminn um síðustu klukkutímana, hafði ekki sofið í 40 tíma og nú ætlaði ég náðarsamlegast að leggja mig takk fyrir pent. Var búin að steingleyma að partýið átti að enda með barni. En samkvæmt Konna sagðist ég aldeilis vera til í að hefja rembinginn og hófust þá leikar. Þótt mænudeyfingin tæki allan sársauka fann ég ennþá þrýsting niður í hverri hríð. Ég fann hinsvegar ekki neina rembingsþörf og gekk illa að fatta hvernig ég ætti að fara að þessu. Hvorki örmagna hugurinn né deyfður  líkaminn skildi verkefnið. Ljósan þurfti bókstaflega að kenna mér að remba barninu út, segja mér hvaða vöðva skyldi nota og hvernig. En við rembdumst og rembdumst í alls kyns stellingum í langan tíma. Í fæðingarskýrslunni stendur: Konan vill sjálf halda áfram að rembast sjálf. Ekki man ég hvers konar samtal það var eða hvað mér stóð annað til boða en að rembast sjálf.

Samkvæmt skýrslunni rembdist ég af krafti (hvar sá kraftur fannst er mér ráðgáta) en samt færðist kollurinn voða hægt niður. Eins og ég var mikið búin að kynna mér fæðingarstellingar og sá aldeilis ekki fyrir mér að fæða liggjandi á bakinu, gerði ég heldur aldrei ráð fyrir að vera svo örmagna að haldast ekki upprétt í fæðingarvænni stellingunum. Hvað þá gerði ég ráð fyrir að fæða á bakinu í fótastatífum eins og á ógeðslegri spítalaljósmynd frá 1965, en í sogklukkufæðingu er víst ekki annað í boði. Enda fannst mér statífin ljómandi fín þegar ég átti enga orku eftir til að halda fótunum uppi. Einhvern tímann sagðist ljósan sjá kollinn á barninu og fullt af ljósu hári, og ég gat sjálf snert hann. Sem var ótrúlega furðulegt augnablik. Annars vegar því við gerðum fastlega ráð fyrir dökkhærðri stúlku en ekki blondínunni sem þarna glitti í (enda búin að ákveða nafnið Ronja eftir hinni frábæru dökkhærðu Ronju Ræningjadóttur), og hins vegar af því þarna varð okkur ringlaða parinu ljóst að í alvöru væri alveg að koma alvöru barn með alvöru hár!

Klukkan tæplega 4 sást dökkgrænt legvatn – merki um að litlunni leið illa – svo ákveðið var að sækja sogklukku og koma henni út sem fyrst. Þvílíkur kraftur í þessu klukkufyrirbæri, í flestum rembingunum losnaði klukkan af höfðinu svo staffið hentist aftur á bak í látunum. Konna fannst þetta hrikaleg sýn, og í mínu ruglaða hugarástandi var ég í hvert sinn viss um að nú hefði hausinn rifnað af barninu. Þegar klukkan náði svo að tosa barnið út slitnaði naflastrengurinn í leiðinni.

Stúlkan fæddist klukkan 4:34 – 28,5 tímum eftir að ég viðurkenndi fyrir sjálfri mér að fæðingin væri hafin. Henni var skutlað upp á bringu mér, Konna rétt skæri til að skilja á milli og við grenjuðum í kór. Hún var strax tekin af mér og yfir á borð þar sem læknir skoðaði hana, og fylgjan skaust út rétt á eftir. Ég bað Konna að standa hjá dóttur okkar, snerta hana og tala við hana, svo hún væri ekki ein í heiminum með ókunnugum lækni. Þar stóð hann og gólaði í sífellu: Sérðu hana? Sérðu hana? Sérðu hvað hún er falleg?? Ég vissi varla hvort var stórkostlegri sjón – fallega barnið eða stolti pabbinn.

Þótt blóðprufurnar í rembingnum hafi ítrekað komið vel út, fæddist skonsan með mjög hátt sýrustig og algjörlega örmagna. Þessi langa og stranga fæðing gekk á endanum fram af litlu stelpunni minni – sem var þó þvílíkur nagli að halda þetta út allan þennan tíma. Hún virðist bara hafa loks fengið nóg og lífsmörkin þá skyndilega pompað niður. Blessunarlega fæddist hún í sömu andrá og hún gafst upp, því lengri rembingur í því ástandi hefði geta valdið súrefnisskorti. Hún fékk aðeins 3 á fyrsta apgar-prófinu, en var komin í 7 á því næsta. Þrátt fyrir slæmt ástand var það mikilvægasta í góðu lagi – hjartslátturinn sterkur og súrefnismettunin góð – svo við þurftum ekki að óttast varanlegan skaða. Dóttir mín var það sem kallast „óvænt slappur krakki“, þ.e. fæddist mun verr haldin en búast mátti við miðað við öll merkin. Morguninn eftir var víst farið vel yfir okkar mál á fæðingarganginum vegna þess hve slæmt ástand barnsins kom á óvart – til að fá á hreint hvort rangt hafi verið brugðist við. Sem var ekki málið heldur er lítill líkami bara óskaplega fljótur að missa tökin.

Stelpan var drifin á vökudeild vegna örmögnunar eftir erfiða fæðingu, hás sýrustigs og of hraðrar öndunar, og vegna hættu á sýkingu þar sem hún hafði gleypt grænt legvatn. Konni fór með henni, en ég lá eftir í fæðingarherberginu og lét tjasla mér saman eftir árás skæra og sogklukku. Tveimur tímum eftir fæðinguna hitti ég skonsuna mína á vökudeildinni og var svo sjálf lögð inn á sængurkvennagang. Hún var sett í hitakassa og á sýklalyf. Sonda var sett ofan í maga í gegnum nefið til að hægt væri að gefa henni að borða, en hún var of uppgefin til að ráða við brjóstið.
Þá tóku við afar skrýtnir dagar hjá nýbökuðu foreldrunum en skonsa var á vökudeild í viku. Fyrsta nóttin heima án hennar var hreint út sagt ömurleg og fátt gert annað en grátið. Hver sólarhringur sem leið var þó betri en sá fyrri, enda leitun að jafn frábærum konum og starfa á vöku. Skottan var eldsnögg að losa sig við hitakassann og klára sýklalyfjaskammtinn sinn, svo mestur tími fór í að þjálfa upp þrekið til að ráða við að drekka sjálf. Hún sýndi gríðarlegar framfarir við hverja matargjöf á þriggja tíma fresti. Ef við hefðum skálað í kampavíni í hvert sinn sem hún tók fleiri dropa úr brjóstinu og fékk þannig færri í sonduna, værum við núna með króníska áfengiseitrun. Eftir vikudvöl var hún svo útskrifuð af mjög hávöxnum barnalækni með toppeinkunnina: Flott stelpa, sterk og skapgóð!

Eftirmáli

Fæðingin mín fór ekki beint eftir planinu. Einhvern tímann mun eflaust koma að því að ég verð ógeðslega sár og reið yfir að hafa ekki fengið náttúrulegu og rómantísku heimafæðinguna sem ég skipulagði svo lengi og óskaði mér svo innilega, og þá verð ég bara að fá að kýla í vegg og vera tussufúl í smá stund. Einhvern tímann á síðustu metrunum sagði Konni við mig óskaplega bugaður: Ég hlakka svo til þegar þetta verður allt búið. Þarna brotnaði eitthvað pínu inni í mér. Þessi stórkostlegi atburður sem ég hafði hlakkað svo til í marga mánuði, var orðinn að einhverju skelfilegu sem beðið var eftir að lyki. Algjört svindl. En ef við skyldum seinna búa til fleiri gullklumpa mun ég aftur reyna við heimafæðingardrauminn. Að ýmsu leyti vorum við óheppin í þetta skipti, en þessi fæðing segir ekkert um almenna getu mína til að fæða barn og næst gæti allt gengið snurðulaust. Þá ætla ég samt að vera með tilbúna spítalatösku til öryggis, sem mér fannst óttalegur óþarfi núna – ég ætlaði sko ekkert á neinn spítala! Þar af leiðandi var ég ekki með svo mikið sem skó með mér á spítalanum, og fór á sokkunum heim eftir fæðinguna.

Ég lít samt jákvæðum augum á fæðinguna fyrst skonsan mín er heil og hraust, enda er fátt flottara en fæðing nýrrar manneskju (líka þegar krúttlegu heimafæðingarplönin bregðast). Líklega hjálpar til að ég svíf um á bleiku skýi þessa dagana með nýja frábæra barnið mitt, uppfull af ást á öllum og öllu.

Fyrir það fyrsta er ég himinlifandi yfir að hafa ákveðið heimafæðingu. Fyrstu 16-18 klukkutímarnir voru frábær upplifun og algjörlega í takt við þá jákvæðu fæðingarsýn sem ég tileinkaði mér á meðgöngunni. Að upplifa lyfjalausar hríðar var mögnuð reynsla. Aldrei hef ég skynjað þvílíkan kraft í líkama mínum eða upplifað mig jafn öfluga og þegar ég náði að hafa stjórn á þessum ógnarkrafti. Að vera í mínu umhverfi átti stóran þátt í því hversu vel mér leið og hversu góða stjórn á aðstæðunum ég hafði lengst af. Mitt rúm, mín sturta, minn ísskápur, mín kertaljós, mínar ljósmæður, mín Klovn-sería, minn partýnágranni með fína gítarspilið… Að vera heima í fæðingu einfaldlega rokkar!

Þá er ég líka ánægð með að hafa upplifað síðustu erfiðu klukkutímana heima, og að hafa ítrekað ákveðið að halda áfram þrátt fyrir að grátbiðja reglulega um deyfingu. Ég var búin að segja ansi oft að nú gæti ég sko ekki meira, en alltaf gat ég samt aðeins meira… þangað til ég raunverulega gat ekki meira. Nú veit ég hvernig fæðing er og nú þekki ég mín þolmörk – og það kom mér sko helling á óvart hvað minn veimiltítulíkami ræður við. Mér finnst ég því hafa lagt mig 150% fram, og mun aldrei líða eins og ég hafi brugðist sjálfri mér með að óska á endanum eftir mænudeyfingu á spítala. Enda hefði barnið aldrei fæðst heima, við hefðum auðvitað flutt okkur á spítalann um leið og stelpurófan sýndi að henni leið ekki vel – ef það hefði gerst áður en ljóst var orðið að fæðingin væri stopp og skynsamlegast í stöðunni að flytjast á spítalann. Og auðvitað er ég fegin að hafa á endanum haft aðgang að spítala, þar sem allar bjargir biðu minnar ofurslöppu dóttur þegar hún loks kom út.

Sjúkrarúm, mænudeyfing og sogklukka voru klárlega ekki á óskalistanum, en fyrst svo fór er ég í það minnsta glöð að hafa þó geta nýtt þá örlitlu orku sem ég átti eftir til að remba henni út um hið hefðbundna gat – loks eitthvað sem gekk eftir planinu! Hápunktur þessa langa og viðburðaríka ævintýris var svo auðvitað að fá loks í fangið undurfagra og rósbleika stúlku með englabros og blik í augum. Þannig er minningin, svo ég skil ekkert í því af hverju fæðingarskýrslan lýgur því til að hún hafi verið blá og líflaus.

Að lokum finnst mér ég nú eiga glænýjan mann sem er miklu merkilegri en sá gamli – og fannst mér hann þó ljómandi fínn. Dagarnir sem við eyddum saman við fæðingu og vökuvesen bundu streng á milli okkar sem ég sé ekki að geti mögulega slitnað. Maður gæti haldið að veikt barn, sundurklippt kynfæri, mjaltavélar og hjólastólar drægi úr rómantíkinni – en neibb við höfum aldrei verið eins ástfangin og þessa fáránlegu viku á spítalanum.

Svo í raun má barasta segja að þetta hafi verið frábær fæðing! ☺