Hneta kom í heiminn

Það var ekki eftir neinu að bíða, ég var gengin 40 vikur og 6 daga og bað ljósuna um að hreyfa við belgjum, þetta barn var meira en velkomið í heiminn. Þetta var þriðja barnið mitt, ég gekk vel og lengi með hin tvö líka, lengst 41 viku og 6 daga, og fannst því ekkert að vanbúnaði að reyna að koma þessu af stað. Ég ætlaði að eiga heima, alveg eins og í tvö fyrri skiptin.

Eftir ljósmæðraheimsóknina bauð ég 5 ára stráknum mínum í göngutúr í skammdeginu, ég hugsaði með mér að þetta gætu vel verið síðustu stundirnar áður en nýtt barn bættist í fjölskylduna. Hann vildi fara langt en ég var hikandi, vildi spara orkuna aðeins. Leið samt vel, hafði enga fyrirvaraverki eða seiðing og samkvæmt Kristbjörgu var ég með rétt um 2-3 í útvíkkun. Ég hafði samt einhverja tilfinningu sem ég vissi ekki alveg hvort ég þyrði að hlusta á. Við keyptum nýburableyjur og enduðum þennan göngutúr á því að labba óvart inn á opnunarhóf á Lífsgæðasetri St. Jó og bárum þar forsetann augum áður en við rákumst fyrir slysni á Kristbjörgu heimafæðingarljósmóðurina mína í eigin persónu þarna á staðnum og aðra ljósmóður sem var með henni. Sú ljósmóðir fékk að þreifa bumbuna þarna á ganginum en þrátt fyrir það var enn óljóst hvort barnið væri búið að skorða sig.

Ég vaknaði kl 9 næsta morgun og hugsaði með mér að ég þyrfti að fara að velta mér og þessari stóru bumbu fram úr þegar ég fann örlitla bleytutilfinningu. Fyrri fæðingarnar tvær hófust báðar með því að ég missi vatnið og því taldi ég mig vita hvað væri að gerast og stökk fram úr rúminu eins og engispretta. Það var eins gott því það kom risa gusa niður á milli fótanna á mér, ég hefði getað verið að leika í Hollywood mynd þetta var svo mikið vatn sem bara gusaðist niður og ætlaði engan endi að taka. Ég heyri ennþá hljóðið í höfðinu á mér. Fssssssssss. Svona hafði ég aldrei upplifað, í fyrri skiptin tvö var þetta bara pollur sem kom. Ég tók upp símann, vissi að strákarnir mínir tveir væru komnir í skóla og leikskóla en vissi ekki hvar maðurinn minn var. Hann svaraði og ég sagði um hæl: „Vatnið er farið“. Ég heyrði hann brosa í símann. Sem betur fer var hann bara inni í stofu og kom upp til mín þar sem ég stóð í stöðuvatni á svefnherbergisgólfinu. Það þurfti tvö stór baðhandklæði til að þurrka herlegheitin upp! Ég lagðist aftur upp í rúm og við hringdum í Kristbjörgu. Ekkert barnanna minna hefur skorðað sig og þetta barn var heldur ekki skorðað. Kristbjörg dreif sig af stað til okkar til að hlusta á hjartsláttinn sem var sterkur og góður og enn var barnið ekki skorðað.

Kristbjörg hvatti mig til að liggja bara og hvíla mig. Ég fór á klósettið og lagðist svo upp í rúm, kveikti á kerti og hlustaði á fallega tónlist. Ég var mjög þakklát fyrir að vera bara í eigin rúmi og fá ljósmóðurina til mín. Kristbjörg kvaddi fljótt, átti von á nokkrum til sín í mæðravernd fyrir hádegið og að við ættum bara að heyra í henni. Ég dorma og hlusta á Spotify playlistann og sem ég hafði sett saman og slökun úr Hypnobirthing. Ég var með hitapoka og maðurin minn strauk mér af og til um bakið. Fullt af hugsunum þutu gegnum höfuðið á mér, ég var spennt og óþreyjufull og vonaði að allt myndi ganga vel og ég hugsaði um hvenær barnið myndi fæðast og hvernig dagurinn yrði og ég kæmist ekki í hádegistímann í jóga og alls konar skrýtnar hugsanir komu fram. Það var stutt í kvíðann en ég hafði fengið svo mikinn jákvæðan boðskap í jóga og heilaþvegið sjálfa mig með jákvæðum staðhæfingum og fæðingarsögum að kvíðinn var kvaddur í hvert sinn sem hann bankaði upp á. Ég var samt ekki komin með neinar reglulegar bylgjur.

Að lokum tek ég af mér noise-cancellation heyrnartólin til að segja bara eitt orð við manninn minn: Kristbjörg. Hann segir að Kristbjörg sé á leiðinni, hann sé nú þegar búinn að hringja í hana. Hann sagði mér seinna að hann hefði heyrt mig gefa frá mér kunnugleg hljóð sem urðu til þess að hann ákvað að kalla Kristbjörgu til okkar án þess að trufla mig. Ég hafði greinilega bara mallað rólega í gang og klukkan er um 12 á hádegi þegar Kristbjörg kemur. Ég tók aldrei tímann á milli hríða og vissi ekkert hvað klukkan var, einbeitti mér að því að slaka á og hafa höfuðið á réttum stað.

Ég veit að Kristbjörg er komin því hún færir heyrnartólin mín og segir: „Ef þú vilt komast í vatnið, þá þarftu að koma núna.“ Ha?, hugsa ég, skil ekki af hverju hún segir þetta svona og spyr hvort laugin sé tilbúin. Jú, allt tilbúið svo ég gríp tækifærið milli bylgjanna og næstum hleyp niður stigann og inn í stofu. Ég fæ aðstoð við að klifra ofan í laugina og svo ligg ég bara í vatninu með heyrnartólin mín og augnskýlu, sé ekkert og heyri ekkert og veit ekkert hvað er að gerast í kringum mig. Af og til segi ég „Næsta lag“, en þá var Spotify playlistinn minn löngu búinn og nú var Spotify að spila bara eitthvað svipað. Einhver hélt á símanum mínum og ýtti á næsta lag. Maðurinn minn rétti mér kaldan þvottaklút sem ég hélt á enninu og þrýsti á augun í hverri bylgju. Hann var líka með vatnsglas með röri og kókosvatn með röri. Alveg hreint frábær þjónusta hjá mínu fæðingarteymi!

Ég byrja að fá rembingsþörf í toppunum á bylgjunum en það var kunnugleg tilfinning úr síðustu fæðingu. Af því rembingurinn var bara í toppunum en ekki alla bylgjuna, þóttist ég viss um að útvíkkun væri ekki lokið og rembingurinn því til lítils nema þá að þreyta mig. Hérna er öndunin ómetanleg og í toppunum keppist ég við að halda niðri ákefðinni í rembingnum. Ég hugsa að ég þurfi að drífa mig að klára útvíkkunina svo ég haldi orkunni. Ég segi: „Vil ekki rembast“. Ég get ekki sagt neitt meira, það er svo erfitt fyrir mig að tala í fæðingu. Kristbjörg svarar og segir að ég sé að standa mig vel en ég held að hún og allir viðstaddir haldi að ég sé komin lengra en ég er. Reynslan úr fyrri fæðingum sagði mér að núna vantaði mig tilfinninguna fyrir kollinum í grindinni, svona eins og þrýstingur á beinin í grindinni, það er þá sem rembingurinn er að skila einhverju fyrir mig, veit ég af fyrri reynslu. Ef beinin eru ekki að ýtast í sundur þá er þessi rembingur ekki að gera neitt. Ég vil leiðrétta þennan misskilning og bið því um innri skoðun ofan í vatninu. Það var auðveldara að fá innri skoðun en að ég færi að útskýra eitthvað að ég héldi að rembingur væri ótímabær, það er svo erfitt að tala. Varðandi innri skoðunina þarna segir Kristbjörg: „Ef þú vilt, allt á þínum forsendum“. Þetta var eina innri skoðunin í allri þessari fæðingu og hún var bara gerð af því ég bað um hana. Kristbjörg segir að það sé töluvert eftir og að það sé þykk og mikil brún á leghálsinum. Gott, hugsaði ég því ég fékk grun minn staðfestan: útvíkkun var ekki lokið. Rosalega er ég fegin að hún sagði enga tölu við mig. Ef ég hefði heyrt 5 þá hefði ég farið að gráta. 

Ég ákvað að reyna eitthvað annað til að klára útvíkkun svo ég fór á klósettið. Ekki gat ég pissað og ekkert gerðist en rembingsþörfin minnkaði örlítið, kannski bara af því ég stóð upp og hreyfði mig. Ég var algjörlega í eigin heimi og leyfði mér að sökkva djúpt inn í sjálfa mig. Líkaminn minn myndi vita hvað ég ætti að gera til að klára þessa útvíkkun.

Ef einhver hefði sagt mér að ég myndi geta staðið og tekið á móti bylgjunum þannig i fæðingu þá hefði ég hlegið. Samt var það ákkurat það sem líkamanum fannst góð hugmynd á þessum tíma og ég hlustaði á likamann. Það var hvort sem er svo erfitt að klifra upp í laugina aftur. Svo ég stóð upprétt á stofugólfinu og notaði kantinn á lauginni mér til stuðnings. Enda kláraðist útvíkkunin þarna á kannski 20 mínútum. Fyrir mér voru þetta svona 2 til 3 bylgjur. Kannski voru þær miklu fleiri í rauninni, ég hafði ekki hugmynd um hversu langt var á milli og það var gott. Tímaleysið þjónaði mér vel. Það blæddi víst vel þarna, ég fann blóð leka, en kannski var þetta legvatn? Ég er ekki viss. Ég var ekki vitund hrædd, ég hugsaði bara Aaaahhhhh. Þetta hafði verið svipað í fyrstu fæðingunni minni og blóð þýddi að leghálsinn var að opna sig hratt. 

Svo fann ég skyndilega breytingu á bylgjunum og nú var rembingurinn mættur. Rosalega var það góð tilfinning, ég vissi að það erfiðasta var að baki. Ég kastaði mér á 4 fætur á pullu á gólfinu og veslings Kristbjörg og ljósmóðurneminn að bisa við að koma undirlagi undir mig. Ég, sem rétt áðan hafði staðið eins og valkyrja, sagði nú: Ég get ekki hreyft mig og það var hverju orði sannara. Ég var samt orðin mega peppuð og bað manninn minn um að færa mér orkustykki úr frystinum sem ég hafði búið til svo ég hefði nú orku fyrir þetta og það alveg hlakkaði í mér. Ég var svo peppuð þarna á pullunni með orkustykkið mitt að ég man ég hugsaði að nú væri HÚN að koma og mér fannst góð hugmynd að skíra hana Hnetu (örugglega innblásin af orkustykkinu). Við vissum ekki kynið sko, þarna bara rauk það upp í kollinn á mér að þetta barn væri stelpa.

Stærsti munurinn á fyrstu fæðingunni minni og seinni tveimur er ákkurat á þessum punkti en í fyrsta skipti var ég heillengi að koma höfðinu niður grindina. Það tók alveg 2 klukkustundir í fyrstu fæðingu en nú gerðist þetta bara í einum rembing og þá er höfuðið komið á spöngina. Ég vildi gera allt til að forðast að rifna svo ‘ljúflega’ varð mitt mottó. Einn rembingur og ekkert höfuð sást en ég fann það hreyfast neðar inni í mér. Svo finn ég höfuðið renna upp þegar bylgjunni lýkur. Annar rembingur og höfuðið færist niður og sést. Svo rennur það aftur upp og hverfur. Þriðji rembingur og höfuðið kemur niður og hálft út og stoppar þar. Þarna er eldhringurinn og mig langar mest að klifra út úr eigin skinni. Ég reyndi mitt allra besta til að hægja á rembingnum í þessu ferli, ljúflega, ljúflega, ljúflega, þú ert ekki að flýta þér, vandaðu þig, ómaði í kollinum á mér og það þurfti allt sem ég átti til hemja kraftinn. Eftir bylgjuna slakar á sviðanum því höfuðið færist aftur aðeins inn. Næsta bylgja kemur fljótt af miklum krafti og höfuðið skýst út og ég man eftir að hafa beðið í nokkrar mínútur með heitt höfuðið milli læranna á mér, vitandi það að bara ein bylgja væri eftir af þessari fæðingu. Það er mjög sérstök tilfinning að vera með heilt höfuð standandi út úr sér, ég þorði ekki að hreyfa mig, beið og beið í það sem virtist heil eilífð.

Hún fæðist svo beint á pulluna, bara svona dettur næstum út. Ég sest á hækjur mér og horfi á þetta barn og já það var stelpa! Ég safna orku til að lyfta henni upp í fangið og hlæ og kyssi manninn minn. Ég þurfti í alvöru að safna orku, ég skalf einhvern veginn og hló og grét. Hún var með dökkt hár og þakin fósturfitu á höfði og baki, hin börnin mín fæddust nánast alveg laus við fósturfitu og með gegnsætt hár. Hún var grá eins og öll börn eru þegar þau fæðast og hún hafði líka kúkað í fæðingunni, það var svartur kúkur á henni og á fótunum á mér. Þetta var því ágætlega subbulegt allt saman býst ég við en ég var upptekin við annað og ljósmæðurnar þessar elskur þrifu allt og gerðu fínt 🙂 Pulluna góðu (sem ljósmæðurnar þrifu einhvern veginn) á ég enn og tek fram á vorin því þetta er pulla sem breytir pallettu í garðhúsgagn.

Við færum okkur svo upp í sófa og ég set litlu stelpuna á brjóst. Fylgjan kemur fljótlega, alveg áreynslulaust. Strákarnir mínir koma svo heim, þeir voru sóttir í skólann. Þeir klippa naflastrenginn sem þeir sögðu eftir á að hefði verið mjög erfitt því hann var svo seigur. 

Ég grínaðist með það við Kristbjörgu að ég hefði svo sannarlega fætt þetta barn á skrifstofutíma, missti vatnið klukkan 9 og barnið var fætt fyrir 4. Ekkert næturbrölt á mér þetta skiptið. Það þurfti heldur ekkert að sauma og sængurlegan gekk eins og í sögu. Ég var ekkert að drífa mig af stað, eyddi örugglega heilum mánuði uppi í sófa með lillunni minni.

Litla ofurkonan flaug í hendurnar á ljósmæðrunum

Júlíana mætti í heiminn 3. desember eftir dásamlega fæðingu á fæðingarstofu Bjarkarinnar. Ég var þá komin 38 vikur og 6 daga. Aðfaranótt 3. desember, kl. 2 vaknaði ég við það að ég hélt ég væri að pissa á mig. Við vorum ekki alveg viss um hvort að þetta væri sundvatn eða legvatn þar sem við höfðum farið í sund kvöldið áður. Við hringdum í Hörpu ljósmóður okkar á Björkinni en fengum samband við Hrafnhildi til að ræða næstu skref. Það kom önnur gusa með smá bleiku í bindið stuttu seinna svo þá vorum við viss um að við værum komin af stað. Það fylgdu þessu engir verkir. Ég var meðvituð um að ef fæðingin væri ekki langt komin fyrir kl. 2 næstu nótt þyrfti ég að eiga barnið á Landspítalanum vegna sýkingarhættu þegar að legvatnið lekur. Kærastinn var ákveðinn í að við skyldum hvíla okkur svo við fórum aftur að sofa um kl. 4 og sváfum til 8. Þá vaknaði ég við mjúka samdrætti en nokkuð reglulega og ég man hvað ég var ánægð. Það var gott að þeir byrjuðu hægt því það gerði mér kleift að ná takti við haföndunina. Við létum vita af okkur um kl. 9 og Hrafnhildur sagði að Arney myndi kíkja á okkur um hádegið. Það var mjög gott að hitta hana og hún sá án nokkurrar skoðunar að samdrættirnir voru ekki orðnir mjög harðir og að ég gæti verið róleg heima eins lengi og ég vildi.

Um klukkan hálf 4 fórum við að hugsa okkur til hreyfings og mæltum okkur mót við Hrafnhildi á fæðingarstofu Bjarkarinnar. Stuttu eftir að við komum athugaði Hrafnhildur útvíkkun og ég var þá komin 4 í útvíkkun. Slímtappinn fór en Hrafnhildi og Arney fannst mjög erfitt að greina hvort þetta væri slímtappinn eða brúnt legvatn í bleyjunni. Þær báðu mig því að fara nokkuð reglulega á klósettið til að athuga hvort meira væri komið. Það kom ekki meira svo til að taka allan vafa af þá lyftu þær kollinum aðeins upp til að fá út legvatn og sjá litinn. Ég hafði heyrt að það gæti verið mjög vont en með önduninni í takti við Hrafnhildi þá var það lítið mál. Það var allt í góðu með legvatnið svo við þurftum ekki að fara á Landspítalann. Það var mikill léttir. Ég var þarna komin 7 í útvíkkun og rosalega ánægð að fá að fara í pottinn fyrst að allt var í lagi.

Þetta fór hægt af stað hjá mér, ég gaf mér góðan tíma til að finna takt við bylgjurnar og haföndunina, mér finnst samlíkingin af því að samdrættir séu eins og öldur sem hellast yfir þig eiga mjög vel við. Þær byggjast upp, ná hápunkti og líða svo burt. Kærastinn stóð eins og klettur við bakið á mér. Heima þá tókst ég á við bylgjurnar liggjandi í rúminu og fékk knús og strokur frá honum milli þess sem hann tók til það sem við þurftum með okkur. Þegar við komum niður á Björkina fannst mér best að takast á við bylgjurnar krjúpandi fyrir framan rúmið, andandi haföndun og þrýstandi á þriðja augað undir augabrúnunum og kærastinn strauk yfir mjóbakið. Milli samdrátta þá hvíldi ég mig í fanginu á honum, hann sat á æfingabolta fyrir aftan mig og ég sat á gólfinu. Á leiðinni á klósettið þá þurfti ég oft að takast á við samdrátt standandi með hendurnar á hnjám og það var alls ekki verra. Ég prufaði að liggja í rúminu og takast á við hríð en það var alveg ómögulegt og gerði verkina mun verri. Vá hvað var gott að fara í pottinn og að geta látið líða úr sér í vatninu milli samdrátta, algjör dásemd að vera þarna þyngdarlaus. Kærastinn þurfti að stökkva á klósettið og tók Hrafnhildur við að nudda mjóbakið í samdrætti og eftir það þá vildi ég helst hafa kærastann hjá mér og hana að nudda mjóbakið. Eftir því sem samdrættirnir urðu harðari þá varð ég mun kröfuharðari á nudd frá henni og vatn frá kærastanum. Þetta voru einu orðin sem ég kom frá mér á tímabili. Kærastinn mátti sko alls ekki halda í hendurnar á mér, en mér fannst gott að hann legði þær á axlirnar. Ég fékk svo að vita eftir fæðinguna að á meðan að Hrafnhildur nuddaði mig þá nuddaði Harpa hana og aðstoðaði eftir fremsta megni J Ég man að ég leyfði mér bara að hugsa eina hríð í einu og að versti verkurinn gæti eingöngu varað í um 15 sek.

Og ég gat þolað þennan ótrúlega kraft keyra yfir í 15 sekúndur. Það var ekki mikið ljós í herberginu, en ég bað samt um að láta slökkva á lampa með mjúku ljósi því það truflaði mig. Ljósmæðurnar voru greinilega tilbúnar því þær náðu sér í vasaljós til þess að fylgjast með gangi mála. Þær tóku líka hjartsláttinn hjá litlu stelpunni okkar á milli hverrar hríðar þegar fór að líða á. Hún var með sterkann og flottan hjartslátt í gegnum þetta allt. Ég nýtti mér töluvert bæði purrið og haföndunina. Á milli samdrátta fann ég doða í höndum og fótum (sennilega vegna kröftugrar öndunar) svo ég fór að pumpa hendur og fætur eins og í jógatímunum milli samdrátta í pottinum. Þegar að ljósmæðurnar tilkynntu mér að ég mætti byrja að rembast í næstu hríð fór ég rólega á stað og nýtti mér purrið og fékk nokkra kossa frá kærastanum. Milli samdrátta dillaði ég mjöðmunum eins og til að mjaka henni neðar og bað hana upphátt um að koma, við værum tilbúin og að ég sagði líka að ég væri eins og silki þarna niðri og gerði mjúkar hreyfingar í vatninu með höndunum á milli hríða til að líkja eftir því hvernig væri að koma við silki allt til að koma mér í gírinn. Undir niðri þá hafði ég kviðið rembingnum meira en samdráttunum. Ljósmæðurnar buðu mér að athuga hvar höfuðið væri sjálf, sem ég gerði og rosalega er skrítið að koma við það. Þetta er svo mjúkt en þú býst við einhverju harðara. Þegar að lítið gerðist í pottinum sögðu ljósmæðurnar að það væri gott að skipta um stöðu og færa sig í rúmið ef að hún kæmi ekki í næstu samdráttum. Þær hvöttu mig til þess að rembast en ekki purra til þess að koma henni út. Við færðum okkur svo í rúmið og hún kom eftir nokkra samdrætti í hliðarlegu á rúminu. Ljósmæðurnar hjálpuðu mér með því að styðja við fæturnar. Í gegnum það var ég að hugsa að ég væri eins og pressukanna og rembdist með hökuna niður í bringu og í hálfgerðum keng til að nýta allan minn kraft til að pressa barninu út. Þetta hafði vinkona mín sem er ljósmóðir ráðlagt mér fyrir rembinginn. Og vá hvað það var magnað að fá hana á magann. Ég var svo hissa hvað hún var stór því ég hafði alltaf verið með nokkuð litla kúlu svo allir bjuggust við litlu barni. Hún var 3.490 gr og 52 cm, heilbrigð og yndisleg. Hún kom í heiminn um hálf 12 um kvöldið. Rembingurinn tók aðeins lengri tíma því að hún var með hendina á kinninni og hafði komið aðeins skakkt niður. En þegar hún loks kom þá flaug hún í fangið á ljósmæðrunum með báðar hendur fram, litla ofurkonan. Eftir á að hyggja var bara gott að ég tók minn tíma eftir hríðarnar til þess að byrja rembinginn og mjaka henni niður með purri og mjaðmadilli svo ég get bara sagt að það borgar sig að hlusta á líkamann og treysta ferlinu og ljósmæðrunum. Við fengum góðan tíma til að kynnast Júlíönu, hún náði ekki að komast sjálf á brjóst svo Hrafnhildur hjálpaði henni að lokum. Hrafnhildur saumaði mig með stuðningi frá Arney og það var eitthvað sem ég hafði kviðið fyrir en var ekkert mál. Við vorum svo komin heim 5 og hálfum tíma eftir fæðinguna, ég steinsofnaði í nokkra tíma og kærastinn vakti með Júlíönu til að hjálpa henni með að koma slími upp.

Ég er svo afskaplega þakklát fyrir þessa fallegu upplifun með kærastanum og litlu stelpunni minni og fyrir ljósmæðurnar á Björkinni. Harpa var aðalljósmóðirin okkar en var að koma erlendis frá svo Hrafnhildur og Arney tókust á við þetta með okkur til að byrja með og svo kom Harpa inn á lokametrunum og var svo með okkur í heimaþjónustunni. Við erum heppnar konur hér á Íslandi að njóta heimaþjónustu frá okkar færu ljósmæðrum. Ég get ekki þakkað þeim nógsamlega fyrir ómetanlegan stuðning í þessu ferli allt frá 34. viku og þar til að heimaþjónustu eftir fæðingu lauk. Mæli með þessari þjónustu fyrir allar konur sem eiga þess kost. Ég nýtti mörg ráðin úr meðgöngujóganu hjá Auði, rosalega góður andlegur og líkamlegur undirbúningur! Mæli líka með að lesa Natural Birth eftir Inu May Gaskin og Hypno Birthing. Þetta eru allt verkfæri sem hægt er að nýta sér sama hvernig fæðingin þín á sér stað og í hvaða kringumstæðum. Því andlegur styrkur í gegnum þetta ferli er eitt magnaðasta verkfærið og við stjórnum því sjálfar í annars mjög óstjórnanlegum aðstæðum.

Fæðing á fæðingarstofu Bjarkarinnar

ÁST – Anda, Slaka, Treysta ❤

Elsa

Hér er keisari fæddur

Þessi fæðingarsaga var upphaflega birt á Siljabjork.com en er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi Silju.

Alheimurinn leggur aldrei meira á mann en maður þolir. Þetta var mantran mín í fæðingunni en syni mínum þótti ekki sæmandi að koma í heiminn þegjandi og hljóðalaust, heldur þurfti hann að láta hafa aðeins fyrir sér.

Ég var kominn tæpa viku fram yfir tímann. Hver og einn einasti dagur leið eins og heil eilífð að mér fannst og í hvert skipti sem ég fór á klósettið vonaðist ég nú til þess að slímtappinn væri farinn eða að vatnið færi að leka. Það gerðist aldrei. Í hvert einasta sinn sem ég fann smá verki eða óþægindi fór ég að telja og vonaðist til þess að nú væru samdrættirnir byrjaðir. Það gerðist ekki heldur.

Ég ætlaði að fæða son minn í rólegu umhverfi á Björkinni, án nokkura deyfilyfja, með fallegri tónlist og ilmkertum, kyrjandi jógamöntrur í vatnsbaði og láta taka fallegar myndir af ferlinu. Það gerðist heldur ekki. Í rauninni fór ekkert eins og “planað” var þegar kom að þessari fæðingu.

Það er rosalega gott að hafa plan og vera undirbúin fyrir fæðinguna. Ég undirbjó mig með því að lesa fæðingarsögur, tala við vinkonur mínar og fjölskyldu sem höfðu eignast börn, fór á fæðingarnámskeið og spurði ljósmæðurnar spjörunum úr. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að ég vissi ekkert hvað ég ætti í vændum og að fæðingar væru eins misjafnar og þær eru margar, svo ég var fullkomlega meðvituð um það að kannski yrði þessi upplifun ekki alveg eins töfrandi og ég hafði séð fyrir mér. Ég undirbjó mig undir ýmislegt – inngrip á spítalann, glaðloft, mænudeyfingar, nálastungur, fæðingarstellingar, vatnsfæðingar – en ekki keisaraaðgerð. Ég las ekki staf um keisaraaðgerðir því planið var ekki að enda í keisara.

Þess vegna er gott að vita að þó þú sért með eitthvað plan, þá getur það farið gjörsamlega í hina áttina.

Ég vaknaði laugardaginn 15.september um ellefuleytið og fann að ég var með smá verki. Verki sem líktust mjög mildum túrverkjum en þeir komu og fóru með reglulegu millibili. Ég varð ógeðslega spennt og langaði að hringja í alla, setja status á Facebook og tvíta um það að ég væri LOKSINS komin af stað. Ég hélt þó í mér og ákvað að bíða og sjá hvort verkirnir myndu ágerast og bilið á milli þeirra myndi styttast. Jú, viti menn – ég var komin af stað. Ég hringdi í Arneyju ljósmóðurina okkar á Björkinni og bað hana um að koma og athuga með mig. Klukkan var þá orðin tæplega þrjú en Arney bað mig um að vera róleg, halda áfram að fylgjast með hríðunum, borða og leggja mig og að hún myndi koma og kíkja á mig um kvöldmatarleytið.

Nú gat ég ekki lengur setið á mér og hringdi í Ísak og bað hann að koma heim úr vinnunni strax. Ég hringdi í vinkonur mínar og mömmu til að tilkynna þeim gleðifréttirnar. Svo pantaði ég mér tvær Dominos-pizzur og horfði á heilalausar bíómyndir á meðan ég beið eftir að verkirnir yrðu harðari og Arney kæmi að kíkja á okkur.

Þegar Arney kom loksins um kvöldið var belgurinn ennþá órofinn, vatnið ekki farið og ég aðeins komin með tæpa tvo í útvíkkun. Hún taldi þó að allt væri eðlilegt og að litli maðurinn myndi láta sjá sig í nótt eða undir morgun. Við áttum bara að halda áfram að bíða og vera róleg.

Í gegnum hverja hríð andaði ég djúpt niður í maga og andaði út eins og hafgola. Þessi ujjayi-öndun sem Auður kenndi okkur í meðgöngujóganu skipti sköpum fyrir mig í gegnum verkina, því hún hjálpaði mér ekki aðeins að halda mér rólegri heldur er ákveðin verkjastylling fólgin í slíkri öndun. Ég skoppaði um á jógaboltanum, kyrjaði om lengst niður í rófubeinið og beið eins spök og ég mögulega mátti, að farast úr spenningi fyrir þessari fæðingu sem ég hlakkaði svo mikið til.

 

Það er síðan um níuleytið að ég ligg í sófanum og finn skringilega tilfinningu í klofinu, svona eins hellt væri úr fötu í nærbuxurnar. Vatnið var að fara! Ég hoppaði upp úr sófanum og kjagaði eins og mörgæs inn á bað og beinustu leið í sturtuna þar sem ég klæddi mig úr rennandi blautum buxunum og lét restina af vatninu leka í sturtubotninn. Ég sá að vatnið var gruggugt og það boðar ekki gott. Ég hringdi í Arney og hún taldi það víst að þetta væri bara eðlilegt blóð þar sem hún hafði verið að hrærast í leginu klukkutíma áður til að finna útvíkkunina. Hún sagðist ætla að fara og gera baðið tilbúið á Björkinni og nú ættum við að fara að gera okkur klár að koma upp á stofu.

Því næst kemur græna vatnið. Fyrir þá sem ekki vita þá boðar það ekki gott ef legvatnið lekur grænt, því það er merki um streitu hjá barninu. Það þýðir að fylgjast þarf vel með öllum lífsmerkjum hjá barni og móður og er það ekki hægt á einkastofum eins og Björkinni. Við vissum því strax að ég gat ekki fætt hann á stofunni og þurftum við Ísak að bruna beinustu leið á Landspítalann. Það var að sjálfsögðu ákveðin vonbrigði en gerði þó lítið til því við Ísak vorum bæði svo spennt að fá litla son okkar í hendurnar. Ég hugsaði með mér að ég gæti alveg legið í vatni og kyrjað jógamöntrur þó það væri uppi á Landspítala og nú væri búið að leysa ljósmæðradeiluna þannig þetta væri nú allt í lagi.

Við komum upp á Landspítala á miðnætti og fengum stóra stofu útaf fyrir okkur. Ég var tengd við allskonar tæki og tól, skynjari settur yfir bumbuna til að fylgjast með syninum og okkur sagt að hringja bjöllunni þegar verkirnir færu að ágerast.

Svo gerðist ekkert.

Ég hætti að fylgjast með hvað tímanum leið því ég fann svo hryllilega mikið til. Ég sat með glaðloftsgrímuna fasta við munninn nánast allan tímann. Ég lognaði útaf hér og þar en vaknaði með reglulegu millibili til að anda mig í gegnum sársaukann. Ég hugsaði alltaf til Auðar jógakennara og sótti í visku hennar – sársauki er bara tímabundið ástand, láttu hann skola yfir þig eins og öldu. Öldurnar skoluðu yfir mig og lág ég í sjúkrarúminu veðurbarin og sjótekin í marga klukkutíma án þess að nokkuð bólaði á syninum.

Ég fékk tvær gangsetningartöflur. Svo kom morgun og ný ljósmóðir tók við okkur. Ekkert gerðist, ekkert nema sársauki. Ísak spreyjaði lofnarblómailmi yfir herbergið til að halda mér rólegri. Öldurnar héldu áfram að skella á mér. Þær sprengdu hinn belginn, meira vatn lak. Ekkert gerðist. Ég fékk “dripp” í æð til að koma hríðunum áfram og koma mér betur af stað í fæðinguna. Ekkert gerðist. Í hvert einasta skipti sem þær hækkuðu skammtinn, lækkaði hjartsláttur litla mannsins. Öldurnar börðu mig og mér leið eins og ég væri að veltast um í skæðum stormsjó. Sársaukinn var orðinn svo mikill að ég gat ekki lengur andað eða kyrjað mig í gegnum verkina heldur var ég farin að öskra hástöfum eins og sært dýr við hverja einustu hríð. Útvíkkunin var aðeins orðin þrír. Þrír af tíu. Þrír ponsulitlir sentimetrar.

Ljósmóðirin okkar, hún Steinunn, heyrði veinin í mér og taldi það best að nú fengi ég mænudeyfingu. Ég sem ætlaði svo allskostar ekki að deyfa mig með neinu nema jógamöntrum og nálastungu, var nú örugglega búin að sjúga glaðloftsbirgðir spítalans upp til agna og grét í fanginu á Ísak, mænudeyfingunni fegin.

Ég fékk mænudeyfingu. Rétt áður en svæfingarlæknirinn kom lá ég með glaðloftið og saup af áfergju. Ég datt inn og út og leið ýmist eins og ég væri sauðdrukkin eða sofandi. Hljóðið í grímunni fór að minna mig á hljóðið í köfunarbúnaði. Hugurinn fór að reika og til að eiga betur við sársaukann hætti ég að ímynda mér ólgusjó og fór að ímynda mér tæran, lygnan paradísarsjó þar sem ég gat svamlað um í kafi og synt í gegnum torfur af litríkum fiskum. Þar er minn hamingjustaður og því meira sem ég leit inn í þriðja augað og einbeitti mér að því að vera ekki á spítala, ekki mögulega á leiðinni í keisaraaðgerð og alls ekki að fá mænudeyfingu, því betur leið mér. Svo kom mænudeyfingin og ég rotaðist.

Þegar ég rankaði við mér hafði enn ekkert gerst. Nú voru sérfræðingarnir farnir að hafa áhyggjur. Þær gramsa og grafla í klofinu á mér, spenna leggöngin upp með stærðarinnar málmpípum og leita að kolli barnsins. Þær hreyfa við barninu og fann ég þegar fæðingarlæknirinn ýtti við honum neðan úr leggöngunum hvernig fæturnir hans spörkuðu undir rifbeinin á mér. Sonurinn er illa skorðaður og þar sem hann bregst svo illa við “drippinu” er hann líklegast flæktur í strenginn. Fæðingarlæknirinn og allar hennar hjálparhellur tjá okkur að þær muni reyna hvað þær geta til að koma mér af stað en útvíkkunin sé aðeins fimm og alltof langur tími liðinn frá fyrstu hríðum. Hún segir okkur að það séu töluverðar líkur á því að við förum í keisaraaðgerð.

Ég vil alls ekki fara í þessa keisaraaðgerð en ég segi ekki neitt. Ég veit ekkert við hverju á að búast, ég er hrædd og kvíðin. Allt í einu eru töluverðar líkur á því að ég þurfi að fara í stórfellda aðgerð og mikið inngrip, þegar ég ætlaði bara að eiga fallega, rólega fæðingu í vatnsbaði. Ég bið þær um að reyna aftur að snúa honum og athuga með útvíkkunina eftir enn meira “dripp”. Ég held að þær hafi frekar gert það sem greiða við mig heldur en nokkuð annað, það var öllum sérfræðingum morgunljóst að keisari væri eina leiðin með viti á þessum tímapunkti. Þær taka blóðprufu úr litla manninnum og þó hvorugt okkar sé í bráðri lífshættu erum við send í bráðakeisara.

Ég var gjörsamlega búin á því. Á aðra höndina vildi ég alls ekki fara í uppskurð, vildi halda áfram að reyna og fæða hann “náttúrulega” en á hina höndina hafði ég verið sárverkjuð í þrjátíu og eina klukkustund og þráði ekkert heitar en bara að fá að halda á syni mínum. Ljósmóðirin var svo góð við mig og strauk mér um hárið á meðan ég grét og Ísak kreisti hönd mína og kyssti. Það leið aðeins tæpur klukkutími frá því að fæðingarlæknirinn sagði okkur að við værum á leiðinni í keisara og þangað til við vorum komin með son okkar í hendurnar.

Eftir grátinn og ítarlegar útskýringar frá fæðingarlækninum um ferlið, uppskurðinn og batann varð ég aðeins rólegri. Þegar hún sagði mér að ég yrði vakandi á meðan aðgerðinni stóð róaðist ég niður, ótrúlegt en satt, því ég gat ekki hugsað mér að vera ekki vakandi þegar sonur minn tæki fyrsta andardráttinn utan legsins.

Ísak var færður í skurðstofugallann og mér var rennt inn á skurðstofuna. Ísak fékk að vera inni allan tímann og sat hjá mér, strauk mér um höfuðið og studdi mig í gegnum þetta. Inn á stofuna komu ótal læknar, hjúkrunarfræðingar, sérfræðingar og svæfingarlæknar sem öll tjáðu mér nöfn sín og tilgang þeirra á skurðstofunni. Ég fann hvernig flóðlýst herbergið, pípið í tækjunum og skurðaðgerðin þyrmdu yfir mig. Ég ákvað að loka augunum og byrjaði á hafönduninni. Ég sagði bara “já og namaste” við öllu sem læknarnir sögðu. Ég lá með opinn faðminn eins og krossfiskur á meðan dælt var í mig deyfingum og lyfjum. Öndunin var farin að róa mig og skyndilega laust sterkri hugsun niður í hausinn á mér, eins og fjarlæg rödd sem hvíslaði:

“SILJA, ALHEIMURINN LEGGUR ALDREI MEIRA Á OKKUR EN VIÐ ÞOLUM”

Þessi mantra varð minn sannleikur á þessu augnabliki og allt í einu var ég í sátt við almættið og örlögin. Ég heyrði Ísak anda órólega og snökta og fann að hann var orðinn stressaður, sjálfur í ákveðnu áfalli og auðvitað sárt að sjá konuna sína þjást þegar það er lítið sem þú getur gert til að laga það. Ég bað hann að leggja eyrað við varir mínar og hvíslaði að honum að þetta væri allt í lagi, ég væri í lagi og ég væri róleg. Ég sagði þetta við hann, alheimurinn leggur aldrei meira á okkur en við þolum og við getum gert þetta saman. Hugsaðu þér, Ísak, við fáum hann fljótlega í fangið.

Á meðan aðgerðinni stóð fann ég fyrir öllum hreyfingum, þrýstingi frá höndum læknanna og tilfærslu líffærana inn í mér, án þess þó að finna sársauka. Ég heyrði blautkennd hljóðin í blóðinu sem sullaðist til og fann einstaklega furðulega tómarúms tilfinningu þegar ég fann að barninu var kippt upp úr leginu.

Svo heyrðum við gráturinn, frumgráturinn í syni okkar. Foreldrar um allan heim geta vottað fyrir það að ekkert hljóð er þessu hljóði líkast. Herbergið lýstist upp, hjartað mitt opnaðist upp á gátt og það var eins og allt kæmi heim og saman á þessu kyngimagnaða augnabliki. Við Ísak grétum bæði og vissum að ekkert skipti lengur máli í þessari tilveru en þetta litla líf sem við höfðum skapað.

Allt var í lagi. Ekkert fór alvarlega úrskeiðis. Læknarnir sögðu okkur að sonurinn hefði verið flæktur þrívegis í strenginn, utan um hálsinn og undir báðar axlirnar, hvernig nú svo sem hann fór að því. Það væri því mikilvægt að vita að ég hefði aldrei getað fætt hann “náttúrulega”. Ég hugsaði hvað mér væri sléttsama, þær hefðu getað sótt hann út um nefið á mér ef því var að skipta.

Ísak hélt á honum í fanginu, þegar búið var að þvo honum og pakka inn í teppið, og grét. Ég leit upp á meðan lækarnir soghreinsuðu burtu fylgjuna og saumuðu mig saman og heilsaði syni okkar með nafni og sagði örugglega þúsund sinnum “ég elska þig, ég elska þig”. Hvílík stund.

Nú er ég orðin mamma. Eitthvað sem ég hef hugsað um og látið mig dreyma um í mörg ár er loksins orðið að veruleika. Eftir aðgerðina var Ísak færður aftur inn á stofuna okkar og þegar mér var loksins rúllað aftur inn eftir herlegheitin, fékk ég son minn í fangið í fyrsta sinn. Ég hef varla viljað sleppa honum síðan.

Hér er keisari fæddur

Fæðingarsaga Bryndísar Lenu – {óvænt heimafæðing}

Þetta byrjaði allt aðfaranótt sunnudagsins 11. október. Daginn áður vorum við með tveggja ára afmælisveislu fyrir stelpuna okkar og mikið búið að vera í gangi. Ég var algerlega óundirbúin, spítalataskan tóm og barnafötin niðri í geymslu, enda var rétt rúm vika í settan dag, og ég ekki beint þekkt fyrir að vera sérstaklega tímanleg manneskja. Ég var líka handviss um að stelpan ætlaði fæðast 12. október þar sem það er afmælisdagur ömmunnar sem hún átti að heita í höfuðið á og þá var akkúrat vika í settan dag en systir hennar kom einmitt viku fyrir sinn setta dag. Þetta var allt útpælt og planað og sunnudagurinn 11. október átti bara að fara í slökun fyrir komandi átök og undirbúning í rólegheitunum.

Um nóttina var lítið sofið eins og vanalega, bumban var alls staðar fyrir og stefnumótin við klósettið voru endalaus. Kkukkan var orðin rúmlega 6 og ég var að fara að staulast enn eina ferðina upp í rúm, sem var bæði tímafrekt og vandasamt verkefni á þessu stigi meðgöngunnar, þegar gusan kom. Það gat nú varla verið að ég væri að pissa á mig svona nýbúin á klósettinu, en það var svosem orðið fátt við þessa óléttu sem gat komið mér á óvart. Ég vakti Sigga með þeim orðum að ég héldi að ég hefði verið að missa vatnið og hann rauk upp, hentist fram úr með eldri stelpuna og var horfinn á nóinu. Ég var ekki alveg að meðtaka þennan hamagang og rölti aftur inn á klósett til að athuga málið betur. Þá var klukkan um 6:20.

Rétt á eftir fékk ég svo fyrsta verk og næsti kom nánast alveg í kjölfarið. Verkirnir urðu svo fljótlega mjög sárir og komu með örstuttu millibili. Þá varð ég víst að viðurkenna að ég væri komin með hríðar.

Ég var strax algjörlega ófær um að hugsa skýrt, hljóp bara um og reyndi að finna til dót í töskuna á milli hríða. Á meðan stökk Siggi niður í geymslu að sækja kassana með barnafötunum og ég fór enn einu sinni á klósettið og þá var byrjað að blæða. Ég vissi þá að útvíkkunin væri að verða búin af því þannig var það í síðustu fæðingu. Þá voru kannski liðnar 15-20 mínútur frá því vatnið fór. Siggi var búinn að taka Sóleyju

til á methraða og var rokinn út í bíl með hana og ég greip einhver föt úr kassanum og henti í töskuna og ætlaði svo að hlaupa út en varð að leggjast niður því verkirnir voru svo miklir. Ég endaði á fjórum fótum og gat ómögulega staðið upp aftur. Í því kom Siggi upp, sá mig þarna á gólfinu og spurði hvort ég kæmist ekki út í bíl, ég náði að stynja upp neitun og að krakkinn væri bara að koma og hann hljóp þá aftur niður til að sækja Sóleyju, skutlaði henni inn og hringdi á spítalann. Sóley hljóp strax til mín, hágrátandi, og skildi ekkert hvað var í gangi, greip í hárið mitt og reyndi að toga mömmu sína upp. Ég reyndi eitthvað að hugga hana en gat varla talað þannig við vorum þarna bara organdi í kór. Ég heyrði útundan mér í Sigga að reyna að fá konuna á spítalanum til að skilja hvað væri að gerast og senda sjúkrabíl en það gekk mjög erfiðlega. Líkt og flestir Norðmenn sem við höfum átt samskipti við var kunnátta hennar í ensku á svipuðu leveli og grunnskólakrakka og hún var engan veginn að átta sig á aðstæðum. Bara sultuslök og sagði honum nú bara að fara með mig út í bíl og koma uppeftir, ekkert vera að flækja þetta neitt.

Þarna var ástandið orðið frekar klikkað, við öll gargandi af mismunandi ástæðum og kaosið algjört. Ég var farin að sjá fram á að þurfa að fæða barnið þarna fyrir framan dauðhræddu stelpuna mína og tilhugsunin var skelfileg. Þá skyndilega kom hlaupandi inn um svaladyrnar öldruð nágrannakona okkar, eins og ekkert væri eðlilegra, og þvílík himnasending! Hún benti á Sóleyju, greip hana í fangið og var svo horfin jafn fljótt og hún birtist. Ég man að ég hugsaði hvað væri nú vandræðalegt að hún sæji mig þarna á orginu liggjandi á fjórum fótum og held ég hafi sent henni aumkunarvert bros en annars höfðum við Siggi engan tíma til að pæla í þessu því nú var farið að sjást i kollinn. Siggi henti sér niður fyrir aftan mig, setti símann á speaker og gargaði að það sæist í höfuðið. Þá loks tók konan í símanum við sér og ákvað að senda sjúkrabíl og reyndi svo eitthvað að leiðbeina Sigga sem var nú kominn í ljósmóðurhlutverk.

Ég byrjaði að ýta á fullu og mér fannst taka heila eilífð að koma hausnum út þar sem hann stoppaði á kjálkanum og sat þar fastur og það var einsog ég væri um það bil að rifna í tvennt. Þeirri tilfinningu, þegar hausinn var hálfur kominn út og Siggi að brasa við að ná taki á honum, mun ég seint gleyma! Siggi náði svo að gera einhverja galdra og hausinn poppaði út í næsta rembing en þá sat hún föst á öxlunum. Ekkert gerðist sama hvað ég ýtti og á endanum var Siggi farinn að toga í hausinn af krafti og nokkrum ofurrembingum síðar skaust hún út. Ég heyrði smá tíst frá henni og andaði léttar, var svo uppgefin og fegin að hún væri komin út að ég hreyfði mig ekki og lá bara þarna áfram. Svo var ég farin að hugsa af hverju hún grenjaði ekki.

Ég hafði ekki hugmynd um hvað gekk á bakvið mig þar sem Siggi var skíthræddur að reyna að fá hana til að gráta sem virtist taka heila eilífð. Hann nuddaði hana alla og hristi og sló á bakið og hún var víst orðin helblá og það var ekki fyrren hann tróð fingrinum ofan í kokið á henni að hún fór að taka við sér. Þá hafði ég afrekað það að snúa mér á bakið og Siggi vafði hana inní bolinn sinn og rétti mér, settist svo við hliðina á mér alveg stjarfur og sagði ekki orð. Þar sat hann svo og ég liggjandi með hana á bringunni enn fasta við naflastrenginn þegar sjúkraliðarnir og ljósmæðurnar komu flæðandi inn um svaladyrnar, nokkrum mínútum síðar en óratíma að okkur fannst. Ljósmæðurnar skoðuðu mig og Siggi klippti á strenginn, ennþá í massívu sjokki en ég var nokkuð róleg yfir þessu öllu saman. Ég vissi einhvern veginn frá byrjun að þetta færi allt vel enda er maðurinn minn algjör klettur og það er fátt sem hann ræður ekki við. Ljósmæðurnar græjuðu mig og gengu frá fylgjunni, vöfðu barnið inn í ótal handklæði og við mæðgur vorum svo bornar út í sjúkrabíl og Siggi keyrði á eftir okkur upp á spítala.

Bryndís Lena fékk toppeinkunn af ljósmæðrunum og mældist 12 merkur eða 3100 grömm og 47,5 cm. Hún fæddist kl 6:55 samkvæmt ljósmóðurinni sem var í símanum á meðan á þessu stóð, og fæðingin tók því um hálftíma frá því eg missti vatnið. Siggi var skráður ljósmóðir á fæðingarspjaldið hennar og við vorum eflaust vinsælasta fjölskyldan á deildinni þennan dag. Ljósurnar báðust afsökurnar og sögðust aldrei hafa lent í slíku áður og þess vegna ekki trúað Sigga þegar hann hringdi og sent sjúkrabíl strax. Þær munu eflaust ekki gera þau mistök aftur. Ég var líka í toppstandi og rifnaði ekkert og Sigga var hrósað í hástert fyrir að hafa afgreitt þetta svona vel og honum var meira að segja boðið ljósmóðurstarf í góðu gamni. Hann afþakkaði þó pent enda situr þessi lífsreynsla þungt í honum og mun eflaust gera lengi. Sú stutta tók brjóstið um leið, var vær og góð og fullkomin og við mæðgur áttum þrjá notalega daga saman á spítalanum og fórum svo heim að hefja öll saman nýtt og spennandi líf sem fjögurra manna fjölskylda.

Næst mun ég flytja á spítalann mánuði fyrir settan dag, það er á hreinu!

Fædd­ist á stofugólf­inu heima – {óvænt heimafæðing}

Þessi fæðingarsaga birtist upphaflega á mbl.is en er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi Hólmfríðar.

Sig­urður Aðal­geirs­son og unn­usta hans Hólm­fríður Guðmunds­dótt­ir eignuðust dótt­ur á stofugólf­inu heima hjá sér í Nor­egi. Hlut­irn­ir gerðust hratt og eng­inn tími var til þess að keyra upp á spít­ala. Sig­urður tók því á móti dótt­ur sinni og er skráður sem ljós­móðir henn­ar á fæðing­ar­skír­tein­inu.

Laug­ar­dag­inn 10. októ­ber héldu Sig­urður og unn­usta hans Hólm­fríður upp á tveggja ára af­mæli eldri dótt­ur sinn­ar, Sól­eyj­ar Rós­ar. Dag­ur­inn eft­ir átti að fara í ró­leg­heit og voru þau búin að ákveða að taka sam­an dót fyr­ir spít­al­ann en áætluð koma barns­ins var þann 19. októ­ber. „Við fór­um bara al­sæl að sofa þarna á laug­ar­deg­in­um,“ seg­ir Sig­urður í sam­tali við mbl.is.

Um nótt­ina missti Hólm­fríður vatnið og þá voru hlut­irn­ir fljót­ir að ger­ast. „Við vöknuðum og ég klæddi Sól­eyju Rós í föt og við ætluðum að drífa okk­ur upp á spít­ala.“ Sig­urður fór með Sól­eyju út í bíl en þegar hann kom aft­ur inn lá Hólm­fríður á gólf­inu og tjáði hon­um að barnið væri að koma.

„Ég hljóp því aft­ur út í bíl, sótti Sól­eyju og hringdi upp á spít­ala og bað þá um að koma.“ Sig­urður seg­ir að starfs­fólk spít­al­ans hafi verið poll­ró­legt í sím­an­um og ekki áttað sig á því hversu stutt væri í raun og veru í barnið. „Það var ekki fyrr en ég fór að kalla hátt í sím­ann og sagði þeim að ég væri far­inn að sjá í koll­inn á barn­inu að þeir áttuðu sig á al­var­leika máls­ins. Ég lagði sím­ann frá mér og sá að barnið var að fara að koma. Kon­an mín var á org­inu og einnig eldri dótt­ir­in. Ég hélt ég yrði ekki eldri.“

Á þeirri stundu birt­ist ná­granni þeirra Sig­urðar og Hólm­fríðar í dyr­un­um en hann er á átt­ræðis­aldri. „Hann kom á harðahlaup­um og greip Sól­eyju með sér. Fyrst hugsaði ég hvað í ósköp­un­um væri að ger­ast en var ánægður með hjálp­ina.“

Þá tók al­var­an við. Sig­urður sagði Hólm­fríði að rembast og barnið byrjaði að koma út. „Fyrst stoppaði hún á kjálk­an­um og það var erfitt að koma hon­um út. Ég var stressaður og vissi ekk­ert hvað ég ætti að gera en eft­ir smá stund kom höfuðið út. Þá stoppaði hún aft­ur af því að axl­irn­ar komust ekki út.“

Sig­urður seg­ist þá hafa verið orðinn hrædd­ur þar sem að barnið var farið að blána. „Ég var orðinn aga­lega hrædd­ur og byrjaði að toga á móti á meðan hún rembd­ist.“

Eft­ir smá stund kom svo litla stúlk­an í heim­inn. „Fyrst var hún al­veg blá og mátt­laus en ég byrjaði að strjúka henni og klappa henni á bakið og nudda hana. Svo stakk ég putt­an­um upp í hana og þá allt í einu vaknaði hún, hóstaði og byrjaði að gráta.“

Sig­urður klæddi sig úr boln­um og vafði hon­um utan um dótt­ur sína sem hann lagði svo í fang móður sinn­ar. „Þetta var það rosa­leg­asta sem ég hef upp­lifað.“

Um fimm mín­út­um seinna kom sjúkra­bíll­inn og þá var klippt á nafla­streng­inn. „Þeir komu og sögðu að allt liti vel út, bæði hjá móður og barni og buðu mér í leiðinni starf á spít­al­an­um,“ seg­ir Sig­urður. Hann seg­ist þó hafa afþakkað starfið þar sem að þessi upp­lif­un hafi verið nóg. Hann fór svo og sótti Sól­eyju Rós sem var í góðu yf­ir­læti hjá ná­grönn­um sín­um.

Bæði móður og barni heils­ast vel og hef­ur unga stúlk­an hlotið nafnið Bryn­dís Lena Sig­urðardótt­ir.

Fjöl­skyld­an flutt­ist bú­ferl­um í sum­ar til Hø­nefoss í Nor­egi þar sem að Sig­urður starfar sem bif­véla­virki. Hólm­fríður er heima með Bryn­dísi Lenu en Sól­ey Rós er á leik­skóla.

Lestu fæðingarsögu Bryndísar Lenu frá sjónarhóli Hólmfríðar hér

Fæðingarsagan mín 3.8.2011

Litli gullmolinn minn sem reyndist vera lítil prinsessa kom í heiminn miðvikudaginn 3. ágúst kl. 14.34 eftir 41 vikna meðgöngu. Hún var 12,5 mörk, 51,5cm og höfuðmál 35 cm. Hún er fullkomin í alla staði.

Fæðingin gekk mjög vel og hratt fyrir sig en það er langur aðdragandi að henni enda var ég rúmlega tvo sólarhringa á spítalanum. Hlutirnir fóru ekki alveg eins og ég hafði ímyndað mér en ég er enga að síður mjög sátt við útkomuna.

Mér var búið að líða vel líkamlega og andlega á meðgöngunni en seinustu vikuna fór ég að fá hækkaðan blóðþrýsting og þurfti algjöra hvíld. Ég var orðin slöpp, þreytt og pirruð á biðinni. Um kvöldið mánudaginn 1.ágúst ákvað ég að reyna einhverja þrýstipunktanudd til að reyna að koma einhverju af stað. Um morguninn eftir byrjaði svo legvatnið að leka. Ég hringdi niður í Hreiður og sagði þeim frá þessu, þær ráðlögðu mér að leggja mig og slappa af, bíða eftir að verkir kæmu með þessu og svo kíkja niður til þeirra seinna um daginn. Ég hringdi í Axel sem var í vinnunni og bað hann um að koma heim. Síðan tók við mjög langt ferli og bið. Það var ekki fyrr en um 12 sem ég fór að finna samdrætti með verkjum en ekkert reglulegt en legvatnið hélt áfram að leka. Við fengum okkur að borða og ég reyndi að hvíla mig. Ég reyndi allt sem ég gat til að koma þessu af stað, göngutúrar, froskastellingin, geirvörtunudd. Um 7 leitið fórum við upp á deild í skoðun.

Ljosmóðirin sem tók á móti okkur vildi ganga úr skugga að þetta væri örugglega legvatn sem væri farið að leka. Ég sagði að það hlyti að vera legvatn, annars væri ég farin að pissa á mig. Eftir stutta skoðun var hún alveg sannfærð og athugaði útvíkkun í leiðinni. Hún náði að koma útvíkkun úr 1 í 4 því leghálsinn var svo þunnur og fullstyttur. Við vorum enn að vonast til að ég myndi nú malla sjálf af stað og ætlaði hún að fara að senda mig bara heim í rúmið en eftir að hafa mælt blóðþrýstinginn sem var orðin 160/110 vildu þau ekki senda mig heim heldur buðu mér að vera eftir. Ég mátti því ekki eiga í Hreiðrinu eins og ég var búin að vonast eftir en var þess í stað boðið að vera á fæðingarganginum þar sem ég þyrfti aukið eftirlit vegna blóðþrýstings. Ég fékk fínt herbergi þar með baði eins og ég hafi óskað.

Síðan tók við ennþá meiri bið. Ekkert var að gerast nema óreglulegir samdrættir og pínu verkjaseyðingur. Um 22 bauð ljósmóðirin mér belgjarof til að sjá hvort það myndi koma einhverju af stað. Ekkert gerðist nema auknir samdrættir og verkjaseyðingur í byrjun en þeir duttu svo aftur niður. Um vaktaskipti fór ég aðeins í göngu um sjúkrahúsið, upp og niður tröppurnar og reyndi nánast allt. Ákvað síðan að hætta að reyna og frekar að reyna að slaka á og hvíla mig. Ég setti Grace diskinn í tækið og náði að slaka heilmikið á. Upp undir morgun tjáði ljósmóðirin mér að það þyrfti líklegast að gefa mér hríðaraukandi lyf til að koma ferlinu á stað þar sem það langt var síðan legvatnið byrjaði að leka. Morgunvaktin tók við og fékk ég þennan yndislega ljósmóðurnema sem heitir Edda og útskýrði hún vel fyrir mér að þó að ég þyrfti lyf til að koma mér af stað þýddi það ekki að upplifun mín ætti að verða einhver önnur á fæðingunni. Hún var búin að lesa óskalistann minn vel og vissi að ég vildi gera þetta á náttúrulegan hátt. Útvíkkunin eftir nóttina var ennþá 4-­5 enda var ekki margt sem skeði.

Dreypið fór upp um 9 leitið og þá fór allt að gerast. Verkirnir og samdrættir jukust jafnt og þétt, urðu sárari og sárari. Ég byrjaði að ganga um gólf, sitja á bolta og halla mér yfir rúmið. Eg reyndi að vera eins mikið á hreyfingu og ég gat enda fannst mér óþægilegt að sitja kyrr. Ég var samt svoldið bundin þar sem ég var með nál og dreypið í æð og með mónítor (þráðlausan samt) um kviðinn til að fylgjast með hjartslættinum. Ég andaði mig í gegnum verkina,notaði allt það sem ég lærði í jóganu og reyndi að slaka vel á. Edda minnti mig líka á það að spyrnast ekki á móti verknum heldur leyfa hverri hríð að vinna sína vinnu. Það var erfitt en mér tókst það. Ég hugsaði bara að hver hríð færði mér nær barninu mínu og að þetta væru verkir með tilgang. Ég missti pínu tímaskyn eftir þetta og geri mér enga grein fyrir því hve hlutirnir gengu hratt fyrir sig. Það var um 12­leitið þá spurði ég hvort ég mætti fara í baðið, hún tjékkaði fyrst á útvíkkuninni og hún var orðin 6 og leghálsinn orðinn tilbúinn. Það var himneskt að komast í baðið og fann ég hvernig ég náði að slaka á í hverjum einasta vöðva líkamans. Ég kom mér þannig fyrir með höfuðið á brúninni og lét mig fljóta í vatninu. Axel stóð fyrir aftan mig allan tímann og hélt í hendurnar á mér. Mér fannst ótrúlegt öryggi að hafa hann þarna og hafði ótrúlega mikla þörf að hafa hann nálægðan mér. Í erfiðustu hríðunum fannst mér best að leggja höfuðið á mér upp í hálsakotið á honum og finna lyktina af honum. Það var svona cirka um 13 leitið sem verkirnir voru að vera óbærilegir og ég missti svoldið stjórninni á mér, ég fór að kalla að ég gæti þetta ekki lengur og vildi bara hætta við.

Edda heyrði mig öskra hástöfum en minnti mig á að panikka ekki, anda rólega, hvatti mig áfram og sagði að þetta gæti ég alveg, ég væri búin að standa mig það vel hingað til. Ég get svarið það að verkirnir voru orðnir það slæmir að ef mér hefði verið boðin mænudeyfing á þessum tímapunkti hefði ég þáð með þökkum. En ég var harðákveðin á óskalistanum að ég vildi hvorki fá deyfinguna eða vera spurð, og var ég mjög þakklát að þau hlustuðu ekki á vitleysuna í mér. Þá spurði Axel mig hvort ég vildi ekki prófa glaðloftið. Fyrst fannst mér það óþægilegt en ég prófaði aftur og vá það bjargaði alveg lífi mínu. Náði að einblína vel á öndunina og talandi ekki um áhrifin sem loftið hafði á mig, mér leið eins og ég hafi verið búin að drekka nokkra bjóra þarna. Ég náði liggur við að dotta á milli hverja hríða og mér leið þá mjög vel. Axel stóð ennþá fyrir aftan mig og var með kalda þvottapoka. Það er svo fyndið að þrátt fyrir að ég væri líklegast komin með 8-­9 í útvíkkun þá var ég alltaf að segja einhverja brandara við Axel og ljósuna. Síðan fóru verkirnir að breytast og ég fann þennan svakalega þrýsting niður í rass. Sagði ljósunni að ég héldi að rassinn á mér væri að springa og hún sagði þetta eðlilegt. Ég þurfti að hafa mig alla við að reyna að slaka á þarna niðri til að létta af þessum þrýsting en þetta var ótrúlega óþægilegt. Síðan fékk ég smátt og smátt rembingsþörf. Held að þetta sé undarlegasta og óþægilegasta tilfinning sem ég hef fundið. Í átökunum byrjaði ég að kasta upp og var glaðloftið tekið af mér. Edda spurði mig hvort ég vildi ekki koma upp úr til að athuga útvíkkunina, henni fyndist það betra en við gætum líka gert það ofan í baðkarinu. Nei ég var alveg tilbúin að fara upp úr. Á þessum tímapunkti breyttust verkirnir yfir í algjöra rembingsþörf og get ég sagt að ég var mjög fegin, þá vissi ég líka að þetta væri farið að styttast. Önnur ljósmóðir var þá líka komin inn.

Ég fór upp í rúm og athugaði hún með útvíkkun og hún var orðin 10. Ég vildi bara fá að liggja hálfupprétt í rúminu því þá náði ég að slaka vel á milli hríða. Edda var mjög góður leiðbeinandi og útskýrði hvernig best væri fyrir mig að anda og rembast. Ég reyndi að einblína alla orku mína niður. Hún bað Axel um að koma og hjálpa þannig að hann stóð í eldlínunni og í hverri hríð setti ég fæturnar á mér upp á mjaðmirnar á honum og henni. Er rosa stolt af honum að standa þarna og sjá allt saman, þó ég skil hann vel að hann hafi litið undan á tímum. Rembingurinn tók rúmlega 45 mín. Ég fékk að finna kollinn þegar hann var á leiðinni út og það var mjög undarlegt. Í seinasta rembingnum hélt Edda vel um spöngina á mér og dróg litla barnið út. Það var líka ótrúlega sárt en ég fékk litla barnið mitt strax í fangið og það fór að gráta. Ég fór líka að gráta og var strax búin að gleyma öllu. Þetta var það fallegasta sem ég hafði séð og ég var svo stolt að hafa komið þessu litla barni í heiminn. Síðan var það sem við höfðum beðið eftir var að athuga hvort við hefðum fengið litla prinsessu eða prins. Við kíktum undir handklæðið og jú viti menn þetta var lítil dama. Þarna sátum við öll þrjú, nýja litla fjölskyldan. Fylgjan fæddist nokkrum mínútum seinna og við tók smá saumaskapur. Spöngin var alveg heil en það þurfti nokkur spor í barmana.

Þetta er án efa það erfiðasta sem ég hef gert en ég er enga síður mjög stolt. Mér fannst mjög gott að fá hrós og hvatningu í gegnum fæðinguna enda held ég að annars hefði ég ekki getað gert þetta. Er líka þakklát fyrir að hafa fengið að hafa Eddu hjá mér því hún fór alveg eftir mínum óskum og reyndi að gera þetta að minni stund. Þrátt fyrir að fá ekki alveg það sem ég hefði ímyndað mér hefði ég ekki viljað breyta neinu og er mjög sátt með niðurstöðuna. Verðlaunin eru líka þau bestu í heimi. Þrátt fyrir að vera síþreytt, með slappan, slitin og sigin maga, saumuð saman í klofinu og með brjóstin úti allan daginn þá er þetta best í heimi enda á ég núna fallegustu stelpu í heimi.

Fæðing í faðmi fjölskyldunnar

Þegar ég komst að því að ég væri ófrísk kom ekkert annað til greina en heimafæðing. Mig langaði að eiga draumafæðinguna mína, hafa hlutina eftir mínu höfði og vera stjórnandi en ekki þátttakandi í eigin fæðingu.

Ég setti mig strax í samband við Áslaugu Hauksdóttur ljósmóður og hitti hana á seinnihluta meðgöngunnar. Meðgangan gekk þokkalega eins og gengur og gerist, þurfti að vera í auknu eftirliti, en stefnan var alltaf á heimafæðingu hvað sem á dundi. Ég las og las og drakk í mig allan þann fróðleik sem ég gat fundið. Við hittum líka hana Eydísi doulu og það hjálpaði líka rosalega mikið að undirbúa eins yndislega og persónulega fæðingu og hægt var.

Þegar ég vaknaði 14. apríl grunaði mig ekki hvað sá dagur bæri í skauti sér. Hann var nokkuð frábrugðinn dögunum á undan. Ég var pirruð yfir því að ekkert væri að gerast hjá mér og sannfærð um að ég myndi enda á því að ganga framyfir 40 vikur. Þennan dag vildi ég bara vera ein og alls ekki að neinn væri í kringum mig. Svo fór ég bara að sofa á mínum venjulega tíma um kvöldið, talaði við bumbuna og bað drenginn vinsamlegast um að fara að koma sér í heiminn, það væru allir að bíða eftir honum.

Um klukkutíma seinna kl. 12.30 eftir miðnætti, 15. apríl, vaknaði ég við það að það var eitthvað að leka á milli lappanna á mér og var svolítið mál að pissa. Ég stóð þá upp og fór fram á bað og þegar ég ætlaði að stíga yfir þröskuldinn inn á baðið kom væn skvetta af legvatni. Ég var nú samt ekki sannfærð um að þetta væri legvatn, hélt svo sem alveg að ég væri að pissa á gólfið. Ég fór aftur upp í rúm og ætlaði að halda áfram að sofa. En við hverja hreyfingu lak alltaf meira og meira.

Þá vaknaði Daði við bröltið í mér og við vorum nokkuð viss um að nú færi þetta að gerast. Ég fór að fá aðeins sterkari verki, ekki reglulega, en á svona 4-6 mínútna fresti. Ég hringdi og lét Áslaugu vita að þetta væri að byrja hjá okkur. Ég fann samt að þetta var ekki að fara að gerast alveg strax svo mér fannst ég ekki þurfa að fá hana alveg strax til okkar. Ákvað að reyna að hvíla mig eitthvað smá, en það gekk nú ekkert svo rosalega vel. Ég tók til spítalatöskuna ef til þess kæmi að ég þyrfti að fara þangað. Fór fram og settist á grjónapúða og reyndi að slaka vel á. Hlustaði á tónlistina mína og reyndi að undirbúa mig fyrir átökin framundan.

Daði fór í að undirbúa heimilið. Hann blés í sundlaugina og kveikti á kertum og gerði allt svo kósí fyrir okkur. Um klukkan 3 hringdi ég svo í Áslaugu og hún kom stuttu seinna. Hún tók aðeins stöðuna sem var bara fín, þrír í útvíkkun, samdrættirnir á 2-4 mínútna fresti en ekkert svo vondir. Bjóst samt eiginlega við meiri útvíkkun og leið hálf kjánalega yfir því að hafa kallað svona snemma í hana.

Hún smellti svo nál á milli augnanna á mér sem átti að hjálpa til við slökunina og sagði okkur að reyna að hvíla okkur bara inni í rúmi og lagði sig svo sjálf í sófanum. Við fórum þá bara inn í herbergi og reyndum að hvíla okkur, ég sat uppi í rúmi og verkirnir byrjuðu að verða verri þarna en ekkert óbærilegir og ég andaði mig bara í gegnum þá. Lilja Bríet dóttir okkar, sem þá var fjögurra ára, vaknaði þarna og var ótrúlega spennt yfir því sem var að gerast. Kallaði inn í bumbuna og sagði litla bróður að drífa sig.

Um kl. 04:30 voru verkirnir orðnir frekar vondir og ég vildi fara í laugina. Það var alveg ótrúlegt hvað það var gott! Að geta hreyft sig að vild og slakað vel á var einmitt það sem ég þurfti á að halda. Ég svamlaði svo bara í lauginni og andaði og slakaði. Lilja Bríet og Daði gáfu mér kalda þvottapoka á ennið og Áslaug kom öðru hvoru til mín og tók hjartsláttinn hjá barninu. Hún rétt snerti magann til að finna samdrættina og notaði sinn innbyggða „mónitor” til að meta þá. Annars hélt hún sig bara til hlés og fylgdist með úr fjarlægð.

Klukkan 5 kom Arnbjörg vinkona mín til að líta eftir Lilju og þær dunduðu sér bara í stofunni, kíktu til mín öðru hverju og fóru svo bara inn í herbergi. Stuttu seinna fann ég að þetta var að fara að gerast, litli kútur vildi greinilega fara að komast í heiminn. Síðustu þrjár hríðar fyrir rembing komu hver á eftir annarri, voru langar og vondar og eina sem ég gat hugsað um var að fá smá hvíld fyrir rembinginn því mér fannst ég vera svo þreytt. Bara 5 mínútur var allt sem ég þurfti til að safna kröftum, en það var víst ekki í boði.

Daði hoppaði ofan í laugina til mín og tók sér stöðu fyrir aftan mig. Hann hélt undir handleggina á mér og ég hálf sat/stóð í vatninu. Í þremur hríðum og á 7 mínútum kom drengurinn syndandi út í vatnið, kl. 05:37. Ég veiddi hann sjálf upp úr og settist beint í fangið á Daða. Hann var kominn! Og hann var svo rólegur og dásamlegur, en skemmtilega brúnaþungur. Grét ekki en lét bara rétt heyra í sér að það væri allt í lagi með hann. Lilja Bríet kom þá hlaupandi innan úr herbergi og hoppaði ofan í til okkar.

Áslaug beið svo bara á hliðarlínunni, tilbúin að grípa inn í ef til þess kæmi. Þvílíka upplifunin að hafa alla fjölskylduna og æskuvinkonu hjá sér á þessu ótrúlega augnabliki. Og þessa dásamlegu ljósmóður sem veit upp á hár hvað hún er að gera. Lætur manni líða svo vel, eins og maður sé eina konan í heiminum sem er gerð til að fæða börn og engin geti gert það betur! Hvetur mann áfram á mildan og mjúkan hátt og leyfir manni að finna sínar eigin leiðir og treysta á sitt eigið innsæi. Er ekki sífellt að tékka á útvíkkun, gerði það bara þegar hún kom og svo ekkert aftur. Trúði því bara að þegar ég sagðist þurfa að rembast, þá var ég komin með fulla útvíkkun og mátti byrja.

Við lágum svo bara þarna í smá stund og dáðumst að nýja fjölskyldumeðlimnum. Um korteri seinna fæddi ég fylgjuna og við skoðuðum hana. Það sem Áslaugu þótti merkilegt við fæðinguna var að það blæddi ekki dropa af blóði, hvorki þegar ég fæddi barnið né fylgjuna. Ég fór svo upp í rúm og litli kútur kom á brjóstið og drakk eins og hann hefði aldrei gert neitt annað. Svo var einhver smáræðis saumaskapur og á meðan voru feðgarnir og stóra systir að skoða hvert annað. Þau hjálpuðust svo að frammi við að ganga frá og svo borðuðum við öll saman áður en Áslaug og Arnbjörg héldu út í morgunsólina.

Litla fjölskyldan fór öll upp í rúm að kúra eftir þessa viðburðaríku og skemmtilegu nótt. Hún gleymist aldrei.

Sagan var upphaflega birt á pressan.is

Fæðing Viktors

Ég hafði ekki sagt neinum settan dag og af því við fjölskyldan vorum í sumarfríi var ég næstum hætt að fylgjast með dögunum sem liðu hver af öðrum. Það var því engin pressa. Mér leið vel og vissi að ekki þýddi að miða of mikið við dagatalið, seinast hafði ég gengið 41 viku og 6 daga.

Við Kristbjörg ljósmóðir vorum báðar afslappaðar og miðuðum hálft í hvoru við að ég gengi vel og lengi með, eins og í fyrra skiptið.

Ég vaknaði á fallegum miðvikudegi, gengin 40 vikur og 3 daga. Mágkona mín kom og sótti mig undir hádegið og við fórum saman í jógatíma til Auðar. Ég ákvað að skella mér á töfradýnuna í horninu, mér fannst það einhvern veginn viðeigandi í þetta skiptið. Ég tók orð Söru jógakennara um að við skyldum hlusta á líkamann bókstaflega og lagðist snemma undir teppið í slökun og naut þess sem ég vissi að myndi verða einn af mínum síðustu tímum í meðgöngujóga.

Eftir hádegið fórum við litla fjölskyldan í búðarferð, keyptum auka lak á hjónarúmið og bleyjupakka fyrir nýbura. Planið var svo að baka hafrakex eftir að minn 2 ára færi í háttinn um kvöldið. Það varð lítið úr bakstrinum því ég var svo þreytt í mjóbakinu upp úr klukkan 7 að ég treysti mér varla til að standa. Ég lagðist því bara upp í sófa og fór að horfa á sjónvarpið meðan eiginmaðurinn straujaði skyrtur og ungbarnarúmföt.

Rétt upp úr kl 10 um kvöldið fann ég sting niður og fannst ég heyra smell. Í nokkrar mínútur þorði ég ekki að hreyfa mig og sagði manninum mínum að þetta hefði nú verið eitthvað undarlegur stingur. Það var svo ekki fyrr en ég stóð upp úr sófanum sem ég fann vatnið leka. Maðurinn minn stökk og náði í handklæði og rétti mér svo síma til að hringja í Kristbjörgu. Seinast hafði fæðingin líka byrjað með því að vatnið fór, ég hafði búið mig undir að núna yrði þetta öðruvísi og að reglulegar bylgjur myndu segja mér að ég væri komin af stað. Mér var því nokkuð brugðið. Kristbjörg kom, allt leit vel út og litla krílið loks skorðað.

Ég fór upp í rúm til að reyna að hvílast, því ég bjóst við að fljótlega færi allt að gerast, þannig var það síðast. Ég hlustaði á Hypnobirthing slökunina og valin lög af playlistanum. Ég náði að dotta smá. Hægt og rólega fóru bylgjurnar að gera vart við sig og ég tók brosandi á móti þeim með djúpri öndun. Á einhverjum tímapunkti fann ég að bylgjurnar voru orðnar of sterkar til að eg gæti tekið á móti þeim útaf liggjandi og fór á fjóra fætur. Um svipað leyti fór ég að hnippa í sofandi eiginmanninn, hann svaf í gegnum stunurnar frá mér. Hann ræsti Kristbjörgu í annað sinn, lagði hitapoka á mjóbakið sem var enn jafn þreytt og gaf mér fiðrildanudd (e. light touch massage). Ég tók aldrei tímann á milli hríða, hafði augun lokuð og lét mér líða vel í eigi heimi.

Þegar Kristbjörg kom bauð hún mér að fara í laugina sem ég þáði. Á leið minni inn í stofu vissi ég að ég myndi ganga fram hjá eldhúsklukkunni en mér fannst skipta miklu máli að vita ekki hvað klukkan væri. Ég vissi að það myndi ekki hafa góð áhrif á mig að komast að því hvort langt eða stutt væri síðan vatnið fór, annað hvort myndi ég upplifa að fæðingin væri að ganga hratt fyrir sig sem myndi gera mig órólega eða að ég upplifði að ég væri búin að vera lengi í fæðingu og myndi þá meðvitað fara að þreytast eða vorkenna sjálfri mér. Ég vissi semsagt ekkert á þessarri stundu hvort ég hefði legið uppi í rúmi í eina klukkustund eða sex. Tímaleysið hafði þjónað mér vel í síðustu fæðingu og ég vildi að það gerði það líka núna.

Vatnið var notalegt en það var ég að prófa í fyrsta skipti. Ég man ég hugsaði þegar ég fór ofan í laugina að þegar ég færi upp úr þá myndi barnið vera fætt og þessarri meðgöngu lokið. Mér fannst það að vissu leyti leiðinlegt því ég hafði notið mín á meðgöngunni. Ég dúaði og vaggaði í vatninu í bylgjunum og reyndi að nýta mér þyngdarleysið. Ég var einnig í dágóða stund að finna þægilegustu stellinguna, átti í einhverjum vandræðum með hvernig ég vildi hafa hnén meðan ég hallaði mér yfir brúnina á lauginni og var því á smá iði. Mér finnst eins og fljótlega eftir að ég fór ofan í laugina að það væri kominn þrýstingur niður í toppunum á bylgjunum og Kristbjörg hafði orð á því. Ég leyfði líkamanum að stjórna og ýtti ekki með. Mig grunar að Kristbjörgu hafi eitthvað verið farið að lengja eftir því að eitthvað meira gerðist og bað mig að snúa mér við svo hún gæti skoðað leghálsinn. Hún sagði að allt væri mjúkt en það væri brún á leghálsinum. Fyrir mér þýddi þetta að rembingurinn væri ekki tímabær og frekar að trufla, ég þyrfti að einbeita mér að því að opna betur. Ég ákvað að prófa að fara á klósettið en gat ekkert pissað. Mér til mikils léttis duttu bylgjurnar niður meðan ég var á klósettinu, það kom svona eins og pása. Ég heyrði að strákurinn minn var vaknaður og var að koma niður. Hann var mjög glaður þegar hann sá mig koma út af klósettinu enda hafði hann komið að mömmu og pabbarúmi auðu og vissi ekki alveg hvað var í gangi. Einhver reyndi að útskýra fyrir honum að mamma væri upptekin meðan ég fékk aðstoð við að komast aftur ofan í laugina. Að mamma væri í sundlaug inni í miðri stofu vakti sko heldur betur áhuga en hann skynjaði samt að það væri eitthvað sérstakt í gangi, hélt ró sinni og strauk mér nokkrum sinnum áður en hann var lokkaður inn í eldhús með ABT mjólk. Amma hans kom svo innan fárra mínútna og sótti hann.

Fljótlega fór allt af stað aftur. Ég ímyndaði mér að leghálsinn væri eins og lítil gúmmíteygja og að hún stækkaði og það teygðist á henni í hverri bylgju. Tilfinningin í líkamanum var einhvern veginn þannig. Ef ég fann að bylgjan var sterk fór ég að fnæsa eins og hestur til að hemja rembinginn. Ég vildi ekki rembast því mér fannst rembingurinn þreyta mig. Ég reyndi líka að vagga mjöðmunum, dúa í vatninu, hreyfa fæturna og vera á einhvers konar hækjum, það virtist hjálpa mér að vera á smá hreyfingu. Þetta var samt stutt stund, fæðingarskýrslan segir 10 mínútur. Skyndilega fann ég svo barnið bara næstum detta niður fæðingarveginn í einni hríð og kollinn þrýsta á spöngina. Síðast hafði ég verið lengi að mjaka barninu neðar og neðar og mér fannst þetta því vera að ganga vel og örugglega fyrir sig, þakkaði fyrir í hljóði og sagði ,,kollur’’ við manninn minn og Kristbjörgu.

Ég leyfði líkamanum að stjórna ferðinni í kollhríðunum, einbeitti mér að önduninni og sagði sjálfri mér að taka mér þann tíma sem ég þyrfti, hægt og ljúft myndi verða þægilegast. Ég tengdist barninu mjög vel þegar ég fann svona vel fyrir kollinum. Alltaf þegar ég upplifði að það gæti ekki teygst meira á mér kom næsta hríð og afsannaði það. ,,I am big’’ eins og Ina May segir. Að lokum fæddist kollurinn og svo allt barnið í næstu bylgju, fæðingarskýrslan segir að þetta hafi tekið 30 mínútur. Ég sneri mér við í lauginni, tók barnið mitt upp og í fangið. Þetta var strákur.

Ég fæddi fylgjuna í sófanum hálftíma seinna, á sama tíma og ég lagði drenginn minn á brjóst í fyrsta skipti. Spöngin var heil. Ég bað um að stóri strákurinn minn fengi að koma og hann mætti galvaskur og glaður og fannst afar spennandi að sjá þetta litla barn drekka mjólk hjá mömmu sinni. Pabbinn klippti svo á naflastrenginn og mamma og litla kríli sofnuðu vært í sófanum.

Fæðing Óskars

Ég var ólétt að mínu fyrsta barni og við stefndum á heimafæðingu. Meðgangan gekk vel og ég var heilsuhraust og leið vel allan tímann. Ég notaði tímann til að undirbúa mig vel. Ég las allar bækur um fæðingar sem ég komst í, horfði á bíómyndir um fæðingar, og mætti á öll námskeiðin sem í boði voru. Fór meira að segja á tvö brjóstagjafanámskeið með eiginmanninn í eftirdragi 🙂 Ég mætti líka í hvern einasta jóga tíma í næstum því 6 mánuði og lokahnykkurinn var svo hypnobirthing námskeið hjá Kristbjörgu ljósmóður. Ég var því orðin afar tilbúin þegar stóri dagurinn fór að nálgast.

Ég hafði það reyndar á tilfinningunni alla meðgönguna að ég myndi ganga fram yfir. Gerði eiginlega ráð fyrir því. Mætti t.d. í síðasta planaða hypnobirthing tímann þegar ég var komin 5 daga fram yfir. Þegar ég var komin rúma viku fram yfir þurfti Arney heimafæðingarljósmóðirin mín að byrja að ræða gangsetningu og tímabókanir í monitor upp á spítala, það er venjan. Að hafa gangsetninguna hangandi yfir mér síðustu dagana var afar erfitt því ég hafði eytt öllum tíma mínum í að undirbúa mig fyrir heimafæðingu og af því ég var búin að lesa mér svona mikið til þá vissi ég líka að tölfræðin segir að gangsetning auki líkur á alls konar vandræðum. Þessa síðustu viku viðurkenni ég því að mér varð í fyrsta skipti órótt á meðgöngunni og grét þungum tárum yfir því að eiga svo ekki að fá að upplifa fæðinguna eins og mig langaði og hafði stefnt að. Arney kom reglulega til mín í mæðraskoðun þessa síðustu daga og það sést í mæðraskránni minni hvað blóðþrýstingurinn hækkaði þessa daga. Merkilegt nokk þá lækkaði hann aftur þegar Arney hughreysti mig og sagði að hún myndi gera allt sem hún gæti fyrir mig og hún hefði ekki enn misst eina einustu konu í gangsetningu sem hafði viljað fæða heima. Ég var líka sett á laugardegi og Arney sagði að ég gæti vel afþakkað gangsetningu fram yfir helgi því konur eru ekki gangsettar nema á virkum dögum 🙂 Ég hafði aldrei áhyggjur af barninu mínu þó meðgangan væri orðin þetta löng, ég vissi einhvern veginn að því liði vel.

Ég reyndi samt ALLT sem átti hugsanlega að geta komið fæðingu af stað og veit ekkert hvort eitthvað af því virkaði.

Á þriðjudeginum fékk ég svakalega úthreinsun. Þetta voru svo ofsaleg iðrahljóð, að á milli klósettferða vissi ég ekki alveg hvort ég ætti að hlæja eða gráta. En það gerðist ekkert meira í framhaldi af því.

Ég mætti svo í síðasta meðgöngujógatímann minn á fimmtudeginum, gengin 41 viku og 5 daga. Ég átti bókað í monitor upp á spítala daginn eftir og vissi að barnið yrði að fæðast núna á allra næstu dögum. Þetta var yndislegur jógatími og það kom mér á óvart hvað mér leið enn vel í líkamanum, gengin næstum fullar 42 vikur. Eftir tímann kom ein ykkar til mín og sagði falleg orð við mig, orð sem ég man varla í dag hver voru, en ég þurfti svo að heyra ákkurat þá. Takk fyrir það. Um kvöldið var ég að fá nokkra samdrætti, eins og undanfarna daga. Ég fann engin óþægindi í líkamanum þegar þeir komu, vissi bara að þeir voru þarna því bumban mín varð svo hörð. Í hvert skipti sem ég varð vör við samdrátt strauk maðurinn minn mér yfir magann, það hafði orðið að venju hjá okkur á síðastliðnum vikum.

Um kvöldið horfðum við á Birth as we know it þar sem konur fæddu börn bara syndandi í hafinu með höfrungum og eitthvað álíka yndislegt meðan ég fékk nudd og strokur frá manninum mínum. Svo fórum við að sofa. Ég vaknaði rétt upp úr 1 eftir miðnætti og þurfti á klósettið. Þegar ég var að leggjast aftur upp í rúm þá heyri ég smell og hoppa fram úr því ég held fyrst að þetta séu meiri iðrahljóð. Ég næ ekki að taka nema nokkur skref áleiðis á klósettið þegar ég finn heita gusu milli læranna. “Gestur, vatnið er farið”, segi ég við sofandi eiginmanninn. Gestur hringir í Arneyju ljósmóður meðan ég finn eitthvað út úr því hvað ég á gera við sjálfa mig og þessa bleytu. Arney kemur og athugar hvort barnið sé ekki örugglega vel skorðað sem það og var. Arney segir okkur að reyna að sofa meira, það sé líklegast ekkert að fara að gerast bráðlega og kveður í bili. Ég set hypnobirthing slökunina mína í gang og við leggjumst saman upp í sófa. Eiginmaðurinn byrjar fljótlega að dotta og ég slæ til hans, finnst hann kannski einum of afslappaður og auk þess voru hljóðin í honum að trufla mig. Eftir á segir hann mér að ég hafi hlustað á slökunina að minnsta kosti fjórum sinnum.

Ég man næst eftir mér hálfliggjandi uppi í rúmi með stóran kodda bak við mig. Það komu nokkrar öldur og ég einbeitti mér 100% að önduninni. Öndunin sem ég lærði á hypnobirthing námskeiðinu hentaði mér best þarna en hún er mjög svipuð hafönduninni. Í hápunkti öldunnar kipptist ég samt alltaf við, sama hversu djúpt ég andaði. Þegar aldan var byrjuð að fjara út þá fann ég endorfín flæða niður eftir líkamanum og það var yndisleg tilfinning. Ég man mig hlakkaði til endorfín-rússins í lok hverrar öldu. Ég opnaði held ég aldrei augun, leit ekkert á klukku og hugsaði enga meðvitaða hugsun. Ég held ég hafi verið hálfsofandi.

Næst þegar ég man eftir mér þá er ég nakin, nema í baðslopp mannsins míns, á fjórum fótum á stofugólfinu með undirlag undir mér. Mig grunar að ég hafi verið að koma af klósettinu. “Gestur, það blæðir”, segi ég við sofandi eiginmanninn. Hann hoppar ringlaður fram úr og bregður eflaust aðeins þegar hann sér blóð á undirlaginu. Hann hringir aftur í Arneyju en hún virðist ekkert alltof viss um að eitthvað sé farið að gerast hjá okkur. Vill samt koma fyrst það er blæðing. Þarna byrja ég að rugga mjöðmunum og í raun öllum líkamanum með hverri öldu og stynja djúpt. Ég vissi ekki af hverju það blæddi en ég hafði samt engar áhyggjur og leyfði öldunum að koma og fara eins og þær vildu. Ég held að jákvæða staðhæfingin: “I will calmly meet whatever turn my birthing may take” hafi hljómað í undirmeðvitundinni. Þegar Arney kemur segir hún: “Hér er allt að gerast!” en ég hugsa að hún sé nú örugglega að misskilja þetta og oftúlka þessar háværu stunur mínar. Ég hafði nefnilega alltaf heyrt að það myndi ekkert fara fram hjá mér þegar ég færi af stað og ég var ennþá að bíða eftir því augnabliki. Útaf blæðingunni gerði Arney innri skoðun og ég var komin með rúma 8 í útvíkkun. Blæðingin var líklegast frá leghálsinum því hann var að opna sig svo hratt. Við þessar yfirlýsingar átta ég mig loks á því að kannski sé ég komin í fæðingu núna.

Tímaskyn mitt var ekkert en seinna komst ég að því að klukkan var hálffimm um nóttina þegar Gestur hringdi í seinna skiptið og þegar Arney mætti voru 3-4 mínútur á milli. Gestur hafði tekið tímann án þess að láta mig vita.

Ég varð lítið vör við það sem var að gerast í kringum mig á þessum tíma. Veit t.d. bara að Arney er þarna því ég heyri hana tala, ég leit aldrei á hana held ég. Ég man svo eftir að hafa heyrt í henni í símanum að hringja í Kristbjörgu ljósmóður og biðja hana að koma og aðstoða. Ég man eftir að hafa heyrt: “Viltu koma og aðstoða í fæðingu sem er samt að verða búin?” Er að verða búin?, hugsa ég, hvað meinar hún, þessi fæðing var að byrja rétt áðan! Gestur og Arney byrja að blása í laugina í snarhasti. Ég man hvað mér líkaði rafmagnspumpan vel því það voru svona drunur í henni og það var þægilegt að stynja með þessum drunum. Þegar laugin er komin upp á mitt stofugólfið áttar einhver sig samt á því að barnið verði eflaust komið í heiminn áður en laugin verði orðin full af vatni. Einhver reynir að spyrja mig hvort mér sé sama eða hvort ég vilji samt að þau láti renna í laugina. Þetta var of flókin spurning til að ég gæti svarað henni 🙂

Arney hvetur mig til að reyna að fara á klósettið og pissa. Ég fer en get alls ekki pissað. Er líka svo hrædd um að aldan komi meðan ég sit á klósettinu en ég vil taka á móti henni á fjórum fótum. Ég opna baðhurðina, gef einhverja skipun um að fá dýnu á gólfið beint fyrir framan hurðina og fæ ósk mína uppfyllta. Gruna að þar hafi eiginmaðurinn verið að verki og áralöng reynsla hans í að átta sig á óskýrum óskum mínum og löngunum hafi þarna borið mikinn ávöxt. Áður en ég læt mig hrynja á dýnuna sé ég Kristbjörgu brosa til mín. Hún var semsagt mætt á svæðið.

Ég hef afar litla stjórn á líkamanum á þessum tímapunkti. Ég gat til dæmis ekki pissað í klósettið en þegar ég lá þarna á dýnunni þá pissaði líkaminn í bindið sem ég var svo heppilega með í buxunum. Ég hafði enga stjórn á þessu. Ég reyndi að láta einhvern vita að mér hefði tekist að pissa. Kannski skildi mig enginn.

Svo kom þessi svokallaða rembingsþörf skyndilega með einni öldu. Ég hafði lesið ógrynni af fæðingarsögum og þar með lýsingum á þessum rembing en ég vissi fyrst ekkert hvað var að gerast. Kannski var mín upplifun eitthvað öðruvísi en eftir að hafa upplifað þetta sjálfri finnst mér rembingsþörf mjög slæmt orð yfir þetta fyrirbæri. Þetta var engin ‘þörf’, svona eins og þegar maður þarf að klóra sér eða þarf að kúka. Þess í stað byrjaði líkaminn bara að æla barninu út. Þetta var í alvörunni alveg eins og að liggja yfir klósettskálinni með ælupest, nema það var verið að æla niður en ekki upp. Ég upplifði meira að segja sömu kippina í líkamanum. Ég myndi lýsa minni upplifun sem ósjálfráðu niðurkasti, miklu frekar en rembingsþörf.

Smátt og smátt öðlaðist ég svo stjórn á ákafanum og þetta varð minna krampakennt. Ég lét samt líkamann alfarið um að ýta barninu út, ég rembdist ekki neitt sjálf. Það eina sem ég gerði var að slaka á og fylgja eftir. Ég vissi ekki hvort mér myndi takast það fyrir fram því þegar maður heyrir um fæðingar eða sér atriði í sjónvarpinu þá er þetta alltaf svaka hasar og átök. Í hypnobirthing bókinni stendur að konur í dái hafi eignast börn án þess að nokkur hafi tekið eftir eða þurft að aðstoða og sú setning seldi mér svolítið þá hugmynd um að líkaminn væri fær um þetta sjálfur, og ég þyrfti ekki að láta hvetja mig áfram og telja upp á 10 og verða rauð í framan við að ýta svona eins og maður sér í sjónvarpinu. Mér leið líka best þegar ég var sem minnst að skipta mér af því sem var að gerast.

Til að gera langa sögu stutta þá held ég að ég hafi verið að ýta barninu út í 2 og hálfa klukkustund á fjórum fótum í sófanum. Aðrar stellingar virkuðu ekki. Þegar á leið byrjaði ég að halla mér yfir arminn á sófanum með hrúgu af púðum undir. Ég fékk góða hvíld milli hríða. Ég drakk kókosvatn gegnum rör, hlustaði á Grace diskinn og fékk kaldan þvottaklút á ennið. Ég man að ég sá sólina gægjast inn undan gluggatjöldunum og fannst það afar skrýtið því ég hélt það væri mið nótt. Arney segir á einum tímapunkti að ég geti örugglega fundið kollinn og ég prófa að þreifa fyrir honum. Það var ótrúlegt að finna fyrir mjúkum kollinum rétt fyrir innan spöngina; að snerta barnið sitt í fyrsta skipti.

Erfiðustu mínúturnar voru þegar höfuðið var að koma út. Þrjú skref áfram með hverri hríð, tvö skref til baka í hvíldinni. Ég passaði mig að drífa þetta ekki áfram og ýtti eins lítið og ég gat með. Þetta tók þó furðanlega fljótt af og það var ÓLÝSANLEGUR léttir þegar höfuðið var allt fætt og þrýstingurinn næstum hvarf. Axlirnar og líkaminn allur rann út í næstu hríð, Arney losaði í snöggheitum strenginn sem var tvívafinn um hálsinn og rétti mér svo barnið mitt upp milli fóta mér. Hann var sleipur og kaldur og ég tók hann í fangið. Tíu fingur og tíu tær. Þetta var fullkominn strákur sem öskraði hressilega.

Við foreldrarnir kysstumst og hlógum og dáðumst að litla kraftaverkinu okkar. Mér fannst þetta allt saman svo ótrúlegt og óraunverulegt. Hann fór svo strax á brjóst og tók vel. Fylgjan kom svo ekki fyrr en rúmum klukkutíma síðar eftir að það var búið að skilja á milli og þeir feðgar komnir upp í rúm að kúra. Ég slóst þá í hópinn og við kúrðum saman, öll fjölskyldan, í rúminu okkar. Spöngin var heil og þetta hafði ekki tekið nema rétt rúma 7 tíma frá því ég missti vatnið.

Ég held að það fyrsta sem ég hafi sagt við ljósmæðurnar eftir að ég fékk strákinn minn í fangið var: Þetta var bara eiginlega ekkert vont.

Það er þrennt sem ég þakka hvað mest fyrir hversu vel gekk. Fyrst er það undirbúningurinn en vegna hans vissi ég hvers ég mætti vænta og fátt sem kom mér á óvart. Ég öðlaðist einnig traust og trú á því að fæðing væri náttúrulegur og eðlilegur atburður og að líkaminn vissi alveg hvað hann væri að gera. Ég þakka einnig heilaleysinu og því hvernig ég náði að slökkva á meðvituðum hugsunum svo þær væru ekki að trufla framgang fæðingarinnar. Mig langar einnig að gerast svo djörf að hvetja ykkur til að sleppa því líka að taka tímann á hríðunum. Vatnið sýður ekki ef þú starir á pottinn. Fáðu fæðingarfélagann til að fylgjast með ef þetta skiptir þig máli. Að lokum: taktu þér tímann sem þú þarft til að ýta barninu út. Það er örugglega ekkert sem liggur á. Það er nefnilega tvenns konar tími í heiminum. Það eru dagarnir og klukkustundirnar sem við mælum á klukkunni og svo er það tíminn sem það tekur ferskjuna að þroskast á trénu.