Ástarjátning föðurs

Motherhood

Að kvöldi bjartrar sumarnætur sátum með vinum í sófanum og deildum berjate-i af tegundinni „Motherhood“ sem rímaði fyllilega við andrúmsloft liðinna mánaða. Í þeim fjögurra manna hópi sem stóð að te-supplinu voru tvær konur sem báru barn undir belti, þó svo að í tilviki annarrar þeirra væru þær upplýsingar ekki orðnar opinberar og voru umræðurnar í anda þess. Eftir að vinir voru kvaddir seint kvölds mætti mér alvarlegur svipur á andliti Katerynu – „Matti, þetta er byrjað“. Samdrættir voru þó vægir og langt leið á milli þeirra og við sem útskrifuð vorum úr hvorki fleiri né færri en fjórum fæðingarnámskeiðum og parameðgöngujógakvöldi vissum að ekki var tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu. Vaknað var seinna þá nóttina og sífellt jukust verkirnir og ég fékk tækifæri til að sýna hve vel ég hafði fylgst með á áðurnefndum námskeiðum. Nótt þessi rennur mér seint úr minni en hún einkenndist af haf-öndun, köldum þvottapokum á enni og heitum bakstri á mjóbakið- sem ilmaði af poppkorni sem rekja mátti til helsta tilgangs örbylgjuofnsins þaðan að. Sem sprenglærðir akademíkar í fræðum ljósmæðra, töldum við okkur hafa allar forsendur til þess að bruna upp á fæðingardeild á Akranesi þegar komið var undir morgun, enda ekki nema 3-4 mínútur á milli samdrátta sem hver fyrri sig entist í um 90 sekúndur. Ljósmóðirinn sem rætt var við í símann þegar lagt var af stað var ekki eins sannfærð og við um að tíminn væri kominn en sagði okkur þó velkomin. Samdrættirnir hættu nánast alfarið á meðan á keyrslunni stóð – sem þó var lengri en vonir stóðu til vegna þess að Hvalfjarðargöngin voru lokuð vegna framkvæmda og stressaðir verðandi foreldrar neyddust til að taka rómantískan rúnt um Hvalfjörðinn á leiðinni. Eftir stutta skoðun frá ljósmóður vorum við send heim að nýju, vonsvikin en þó staðráðin í því að mæta áskorunum í þessu ferli af bjartsýni og jákvæðni.

Ólýsanlega falleg

Sagt hefur verið að óléttar konur sem langt eru komnar beri með sér einskonar fegurðarljóma (e. glow). Í háði hafa konur í þeirri stöðu bent á ýmis einkenni óléttu sem vart teljast samræmast hefðbundnum hugmyndum um fegurð kvenna. Eftir þá reynslu að fylgjast með Katerynu í gegnum 41 vikna óléttu, því ferli að veita barninu líf og fæða það í heiminn að mér viðstuddum get ég með sanni sagt mig meðal þeirra sem tala um fegurðarljómann. Ekkert magn af maskara, meiki, púðri eða varalit, enginn þröngur kjóll eða glitrandi hælaskór, engin litun og engin plokkun hafa nokkurn tíma ljáð konu jafn ólýsanlega fegurð og fæðing Nadíu ljáði Katerynu. Það er nefnilega þannig að engin hugsanleg athöfn er jafn náttúrulega kvenleg og einmitt sú. Með alvarlegan og staðráðin svip á dauðþreyttu andlitinu lá hún í rúminu og vann sig í gegnum hríð eftir hríð af stakri einbeitingu, með risastóra bumbuna og svitann lekandi af vöngum sínum – fullkomin fegurðardís sem stuttu síðar varð mamma barnsins míns.

„Ég get ekki meira“

Dagarnir og næturnar sem fylgdu sýndust saman renna eins og þoka við sjónarrönd á hafi úti. Tíminn einkenndist af skemmtilegu spjalli okkar hjónanna á milli, stöku bíómynd sem reglulega var sett á pásu þegar samdrættir létu á sér bera og af tilraunum okkar til að njóta þessarar mögnuð vegferðar sem fyrir okkur stóð. Á tímum máttum við gleyma því verkefni sem framundan var, og samdrættirnir einungis til þess fallnir að trufla okkur við að fylgjast með afdrifum Jennifer Lopez í gervi viðskiptakvendis eða annars sem fyrir bar á sjónvarsskjánum. Á öðrum stundum mátti hvorugt okkar mæla af einbeitingu við að komast yfir sársaukann sem tíðum samdráttum fylgdi – ég í aukahlutverk við að lina þjáningar aðalhetjunnar, Katerynu – sem af stórkostlegum innri styrk sínum sigraðist á hverjum samdrættinum á fætur öðrum. Ég hef aldrei efast um styrk hennar og göfgi en á þessum tíma gat ég vart hamið aðdáun mína og lotningu fyrir þeirri stórkostlegu konu sem konan mín hefur að geyma. Það var því með öllu ljóst hvað koma skyldi á aðfaranótt Sunnudags, þegar hún þrýsti af alefli milli samanbitinna tanna sinna eftirfarandi setningu: „Ég get ekki meira, Matti.“ Stuttu áður en þangað var komið höfðum við átt samtal við aðra ósannfærða ljósmóður á Akranesspítala sem ekki taldi tilefni til athafna í ljósi þess hve stuttan tíma Kateryna hafði verið vakandi með svo tíða samdrætti. Við héldum af stað og í þetta skiptið voru samdrættirnir engu minni eða færri þegar í bílinn var komið. Bílferðin var sem allra óþæginlegust – skyndilega virtist leiðin til Akraness engu styttri en til Hornafjarðar og til baka. Ekki bætti það úr skák þegar Katerynu tilkynnti mér að verkir sínir höfðu nú komist á annað skref, svokallaðar rembingshríðar sem sannarlega veitti mér tilefni til að rjúfa þann snefil af innri kyrrð sem eftir var í iðrum mínum og kalla fram í huga mér vofu ofsakenndar örvæntingar. Af stakri tillitsemi við aðstæður takmarkaði ég þó útrás þessarar örvæntingar við aukin hraðakstur og tíðari óumbeðnar athugasemdir til Katerynu um að allt væri í lagi og að við kæmum brátt á spítalann. Eftir u.þ.b. 1874 km akstur frá Mosfellsbæ til Akraness komum við að læstum dyrum Heilbrigðisstofnunnar Vesturlands. Ég renndi fingrunum ítrekað yfir allar mögulegar bjöllur sem finna mátti við innganginn, ekki ósvipað því hátterni sem haft var við þegar gert var dyraat í Breiðholtinu hér á árum áður. Eftir stutta könnun ljósmóður var haldið til fæðingarstofu þá þegar – barnið var að koma núna, strax.

Toppurinn fjarlægður

Það höfðu einungis liðið um 5 mínútur eftir að Kateryna hafði komið sér fyrir á fæðingarrúminu þegar henni var bent á að e.t.v. væri réttast að hún skyldi fjarlægja toppinn sinn – svo leggja mætti barnið beint á brjóst þegar það kæmi. Skilaboð þessi komu báðum verðandi foreldrum í opna skjöldu þar sem þau færðu til raunveruleikans það merkilega atferli sem var að eiga sér stað. Biðtíminn eftir barninu frá því komið var upp á fæðingardeild var svipaður og eftir 16 tommu pítsu frá Dómínós á föstudagskvöldi – Nadía fæddist ca. 25 mínútum eftir komu á spítalann. Að vera vitni af komu hennar í heiminn er merkilegasta hlutskipti mitt í lífinu til þessa. Í einni hríð, eftir að kollurinn kom í ljós, skaust hún út í sigurkufli. Ég horfði slímugan, grábrúnan, pokann springa með látum er hann snerti rúmmið og eftir lá líflaust barnið á maganum, þakið eigin hægðum. Tvær skelfilegar sekúndur liðu uns lítil lungu drógu sinn fyrsta andardrátt og rödd þess ómaði um eyru stoltra foreldra í allra fyrsta sinn. Yfirþyrmandi léttir skók líkama minn og sál þegar ég sá fullfrískt barnið mitt í örmum fullfrískrar konunnar minnar. Þessu var lokið og á sama tíma var það rétt að byrja.

Dramatíkin

Ýmsu hefur verið haldið fram um foreldrahlutverkið sem ég hef ekki samsvarað við mína reynslu. Eitt er að þó að sem rétt er, enda eflaust með augljósari ábendingum sem verðandi foreldrar fá gjarnan, en það er að hlutskipti þetta er engu líkt. Þrátt fyrir að teljast með dramatískari persónuleikum í flestum félagslegum hópum í mínu umhverfi hefur það ekki komið fyrir mig fyrr en núna að tár streyma niður andlitið af einskærri hamingju. Þegar þessi orð eru skrifuð er Nadía 2 mánaða gömul og enn þann dag í dag kemur það fyrir að hnútur kemur í magann og gæsahúð myndast á örmum mér af þakklætinu fyrir þá staðreynd eina að tilvist hennar sé staðreynd. Í augum hennar speglast einskært sakleysi sem eru mér áminning um þá fegurð sem fyrirfinnst í heiminum. Ekkert gerir mig jafn óstöðvandi í eigin augum og þegar sár grátur hennar víkur fyrir svefni vegna vögguvísu sem kemur frá vörum minum. Nadía hefur hjálpað mér að ná hæðum á lífsins leið sem ég voru mér að öllu leyti ókunnugar áður fyrr. Geislandi bros hennar eða sár grátur, spyrjandi augnaráð eða rólegur andardráttur svefnsins eru sem vörður í vegferð að einskærri hamingju sem til er kominn fyrir tilstilli nýrrar tilfinningar í hjarta mér. Það er óbeisluð, skilyrðislaus, yfirþyrmandi ást.

Matthías nýbakaður faðir
Matthías, Kateryna og Nadia litla

Fædd­ist á stofugólf­inu heima – {óvænt heimafæðing}

Þessi fæðingarsaga birtist upphaflega á mbl.is en er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi Hólmfríðar.

Sig­urður Aðal­geirs­son og unn­usta hans Hólm­fríður Guðmunds­dótt­ir eignuðust dótt­ur á stofugólf­inu heima hjá sér í Nor­egi. Hlut­irn­ir gerðust hratt og eng­inn tími var til þess að keyra upp á spít­ala. Sig­urður tók því á móti dótt­ur sinni og er skráður sem ljós­móðir henn­ar á fæðing­ar­skír­tein­inu.

Laug­ar­dag­inn 10. októ­ber héldu Sig­urður og unn­usta hans Hólm­fríður upp á tveggja ára af­mæli eldri dótt­ur sinn­ar, Sól­eyj­ar Rós­ar. Dag­ur­inn eft­ir átti að fara í ró­leg­heit og voru þau búin að ákveða að taka sam­an dót fyr­ir spít­al­ann en áætluð koma barns­ins var þann 19. októ­ber. „Við fór­um bara al­sæl að sofa þarna á laug­ar­deg­in­um,“ seg­ir Sig­urður í sam­tali við mbl.is.

Um nótt­ina missti Hólm­fríður vatnið og þá voru hlut­irn­ir fljót­ir að ger­ast. „Við vöknuðum og ég klæddi Sól­eyju Rós í föt og við ætluðum að drífa okk­ur upp á spít­ala.“ Sig­urður fór með Sól­eyju út í bíl en þegar hann kom aft­ur inn lá Hólm­fríður á gólf­inu og tjáði hon­um að barnið væri að koma.

„Ég hljóp því aft­ur út í bíl, sótti Sól­eyju og hringdi upp á spít­ala og bað þá um að koma.“ Sig­urður seg­ir að starfs­fólk spít­al­ans hafi verið poll­ró­legt í sím­an­um og ekki áttað sig á því hversu stutt væri í raun og veru í barnið. „Það var ekki fyrr en ég fór að kalla hátt í sím­ann og sagði þeim að ég væri far­inn að sjá í koll­inn á barn­inu að þeir áttuðu sig á al­var­leika máls­ins. Ég lagði sím­ann frá mér og sá að barnið var að fara að koma. Kon­an mín var á org­inu og einnig eldri dótt­ir­in. Ég hélt ég yrði ekki eldri.“

Á þeirri stundu birt­ist ná­granni þeirra Sig­urðar og Hólm­fríðar í dyr­un­um en hann er á átt­ræðis­aldri. „Hann kom á harðahlaup­um og greip Sól­eyju með sér. Fyrst hugsaði ég hvað í ósköp­un­um væri að ger­ast en var ánægður með hjálp­ina.“

Þá tók al­var­an við. Sig­urður sagði Hólm­fríði að rembast og barnið byrjaði að koma út. „Fyrst stoppaði hún á kjálk­an­um og það var erfitt að koma hon­um út. Ég var stressaður og vissi ekk­ert hvað ég ætti að gera en eft­ir smá stund kom höfuðið út. Þá stoppaði hún aft­ur af því að axl­irn­ar komust ekki út.“

Sig­urður seg­ist þá hafa verið orðinn hrædd­ur þar sem að barnið var farið að blána. „Ég var orðinn aga­lega hrædd­ur og byrjaði að toga á móti á meðan hún rembd­ist.“

Eft­ir smá stund kom svo litla stúlk­an í heim­inn. „Fyrst var hún al­veg blá og mátt­laus en ég byrjaði að strjúka henni og klappa henni á bakið og nudda hana. Svo stakk ég putt­an­um upp í hana og þá allt í einu vaknaði hún, hóstaði og byrjaði að gráta.“

Sig­urður klæddi sig úr boln­um og vafði hon­um utan um dótt­ur sína sem hann lagði svo í fang móður sinn­ar. „Þetta var það rosa­leg­asta sem ég hef upp­lifað.“

Um fimm mín­út­um seinna kom sjúkra­bíll­inn og þá var klippt á nafla­streng­inn. „Þeir komu og sögðu að allt liti vel út, bæði hjá móður og barni og buðu mér í leiðinni starf á spít­al­an­um,“ seg­ir Sig­urður. Hann seg­ist þó hafa afþakkað starfið þar sem að þessi upp­lif­un hafi verið nóg. Hann fór svo og sótti Sól­eyju Rós sem var í góðu yf­ir­læti hjá ná­grönn­um sín­um.

Bæði móður og barni heils­ast vel og hef­ur unga stúlk­an hlotið nafnið Bryn­dís Lena Sig­urðardótt­ir.

Fjöl­skyld­an flutt­ist bú­ferl­um í sum­ar til Hø­nefoss í Nor­egi þar sem að Sig­urður starfar sem bif­véla­virki. Hólm­fríður er heima með Bryn­dísi Lenu en Sól­ey Rós er á leik­skóla.

Lestu fæðingarsögu Bryndísar Lenu frá sjónarhóli Hólmfríðar hér