Ástarjátning föðurs

Motherhood

Að kvöldi bjartrar sumarnætur sátum með vinum í sófanum og deildum berjate-i af tegundinni „Motherhood“ sem rímaði fyllilega við andrúmsloft liðinna mánaða. Í þeim fjögurra manna hópi sem stóð að te-supplinu voru tvær konur sem báru barn undir belti, þó svo að í tilviki annarrar þeirra væru þær upplýsingar ekki orðnar opinberar og voru umræðurnar í anda þess. Eftir að vinir voru kvaddir seint kvölds mætti mér alvarlegur svipur á andliti Katerynu – „Matti, þetta er byrjað“. Samdrættir voru þó vægir og langt leið á milli þeirra og við sem útskrifuð vorum úr hvorki fleiri né færri en fjórum fæðingarnámskeiðum og parameðgöngujógakvöldi vissum að ekki var tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu. Vaknað var seinna þá nóttina og sífellt jukust verkirnir og ég fékk tækifæri til að sýna hve vel ég hafði fylgst með á áðurnefndum námskeiðum. Nótt þessi rennur mér seint úr minni en hún einkenndist af haf-öndun, köldum þvottapokum á enni og heitum bakstri á mjóbakið- sem ilmaði af poppkorni sem rekja mátti til helsta tilgangs örbylgjuofnsins þaðan að. Sem sprenglærðir akademíkar í fræðum ljósmæðra, töldum við okkur hafa allar forsendur til þess að bruna upp á fæðingardeild á Akranesi þegar komið var undir morgun, enda ekki nema 3-4 mínútur á milli samdrátta sem hver fyrri sig entist í um 90 sekúndur. Ljósmóðirinn sem rætt var við í símann þegar lagt var af stað var ekki eins sannfærð og við um að tíminn væri kominn en sagði okkur þó velkomin. Samdrættirnir hættu nánast alfarið á meðan á keyrslunni stóð – sem þó var lengri en vonir stóðu til vegna þess að Hvalfjarðargöngin voru lokuð vegna framkvæmda og stressaðir verðandi foreldrar neyddust til að taka rómantískan rúnt um Hvalfjörðinn á leiðinni. Eftir stutta skoðun frá ljósmóður vorum við send heim að nýju, vonsvikin en þó staðráðin í því að mæta áskorunum í þessu ferli af bjartsýni og jákvæðni.

Ólýsanlega falleg

Sagt hefur verið að óléttar konur sem langt eru komnar beri með sér einskonar fegurðarljóma (e. glow). Í háði hafa konur í þeirri stöðu bent á ýmis einkenni óléttu sem vart teljast samræmast hefðbundnum hugmyndum um fegurð kvenna. Eftir þá reynslu að fylgjast með Katerynu í gegnum 41 vikna óléttu, því ferli að veita barninu líf og fæða það í heiminn að mér viðstuddum get ég með sanni sagt mig meðal þeirra sem tala um fegurðarljómann. Ekkert magn af maskara, meiki, púðri eða varalit, enginn þröngur kjóll eða glitrandi hælaskór, engin litun og engin plokkun hafa nokkurn tíma ljáð konu jafn ólýsanlega fegurð og fæðing Nadíu ljáði Katerynu. Það er nefnilega þannig að engin hugsanleg athöfn er jafn náttúrulega kvenleg og einmitt sú. Með alvarlegan og staðráðin svip á dauðþreyttu andlitinu lá hún í rúminu og vann sig í gegnum hríð eftir hríð af stakri einbeitingu, með risastóra bumbuna og svitann lekandi af vöngum sínum – fullkomin fegurðardís sem stuttu síðar varð mamma barnsins míns.

„Ég get ekki meira“

Dagarnir og næturnar sem fylgdu sýndust saman renna eins og þoka við sjónarrönd á hafi úti. Tíminn einkenndist af skemmtilegu spjalli okkar hjónanna á milli, stöku bíómynd sem reglulega var sett á pásu þegar samdrættir létu á sér bera og af tilraunum okkar til að njóta þessarar mögnuð vegferðar sem fyrir okkur stóð. Á tímum máttum við gleyma því verkefni sem framundan var, og samdrættirnir einungis til þess fallnir að trufla okkur við að fylgjast með afdrifum Jennifer Lopez í gervi viðskiptakvendis eða annars sem fyrir bar á sjónvarsskjánum. Á öðrum stundum mátti hvorugt okkar mæla af einbeitingu við að komast yfir sársaukann sem tíðum samdráttum fylgdi – ég í aukahlutverk við að lina þjáningar aðalhetjunnar, Katerynu – sem af stórkostlegum innri styrk sínum sigraðist á hverjum samdrættinum á fætur öðrum. Ég hef aldrei efast um styrk hennar og göfgi en á þessum tíma gat ég vart hamið aðdáun mína og lotningu fyrir þeirri stórkostlegu konu sem konan mín hefur að geyma. Það var því með öllu ljóst hvað koma skyldi á aðfaranótt Sunnudags, þegar hún þrýsti af alefli milli samanbitinna tanna sinna eftirfarandi setningu: „Ég get ekki meira, Matti.“ Stuttu áður en þangað var komið höfðum við átt samtal við aðra ósannfærða ljósmóður á Akranesspítala sem ekki taldi tilefni til athafna í ljósi þess hve stuttan tíma Kateryna hafði verið vakandi með svo tíða samdrætti. Við héldum af stað og í þetta skiptið voru samdrættirnir engu minni eða færri þegar í bílinn var komið. Bílferðin var sem allra óþæginlegust – skyndilega virtist leiðin til Akraness engu styttri en til Hornafjarðar og til baka. Ekki bætti það úr skák þegar Katerynu tilkynnti mér að verkir sínir höfðu nú komist á annað skref, svokallaðar rembingshríðar sem sannarlega veitti mér tilefni til að rjúfa þann snefil af innri kyrrð sem eftir var í iðrum mínum og kalla fram í huga mér vofu ofsakenndar örvæntingar. Af stakri tillitsemi við aðstæður takmarkaði ég þó útrás þessarar örvæntingar við aukin hraðakstur og tíðari óumbeðnar athugasemdir til Katerynu um að allt væri í lagi og að við kæmum brátt á spítalann. Eftir u.þ.b. 1874 km akstur frá Mosfellsbæ til Akraness komum við að læstum dyrum Heilbrigðisstofnunnar Vesturlands. Ég renndi fingrunum ítrekað yfir allar mögulegar bjöllur sem finna mátti við innganginn, ekki ósvipað því hátterni sem haft var við þegar gert var dyraat í Breiðholtinu hér á árum áður. Eftir stutta könnun ljósmóður var haldið til fæðingarstofu þá þegar – barnið var að koma núna, strax.

Toppurinn fjarlægður

Það höfðu einungis liðið um 5 mínútur eftir að Kateryna hafði komið sér fyrir á fæðingarrúminu þegar henni var bent á að e.t.v. væri réttast að hún skyldi fjarlægja toppinn sinn – svo leggja mætti barnið beint á brjóst þegar það kæmi. Skilaboð þessi komu báðum verðandi foreldrum í opna skjöldu þar sem þau færðu til raunveruleikans það merkilega atferli sem var að eiga sér stað. Biðtíminn eftir barninu frá því komið var upp á fæðingardeild var svipaður og eftir 16 tommu pítsu frá Dómínós á föstudagskvöldi – Nadía fæddist ca. 25 mínútum eftir komu á spítalann. Að vera vitni af komu hennar í heiminn er merkilegasta hlutskipti mitt í lífinu til þessa. Í einni hríð, eftir að kollurinn kom í ljós, skaust hún út í sigurkufli. Ég horfði slímugan, grábrúnan, pokann springa með látum er hann snerti rúmmið og eftir lá líflaust barnið á maganum, þakið eigin hægðum. Tvær skelfilegar sekúndur liðu uns lítil lungu drógu sinn fyrsta andardrátt og rödd þess ómaði um eyru stoltra foreldra í allra fyrsta sinn. Yfirþyrmandi léttir skók líkama minn og sál þegar ég sá fullfrískt barnið mitt í örmum fullfrískrar konunnar minnar. Þessu var lokið og á sama tíma var það rétt að byrja.

Dramatíkin

Ýmsu hefur verið haldið fram um foreldrahlutverkið sem ég hef ekki samsvarað við mína reynslu. Eitt er að þó að sem rétt er, enda eflaust með augljósari ábendingum sem verðandi foreldrar fá gjarnan, en það er að hlutskipti þetta er engu líkt. Þrátt fyrir að teljast með dramatískari persónuleikum í flestum félagslegum hópum í mínu umhverfi hefur það ekki komið fyrir mig fyrr en núna að tár streyma niður andlitið af einskærri hamingju. Þegar þessi orð eru skrifuð er Nadía 2 mánaða gömul og enn þann dag í dag kemur það fyrir að hnútur kemur í magann og gæsahúð myndast á örmum mér af þakklætinu fyrir þá staðreynd eina að tilvist hennar sé staðreynd. Í augum hennar speglast einskært sakleysi sem eru mér áminning um þá fegurð sem fyrirfinnst í heiminum. Ekkert gerir mig jafn óstöðvandi í eigin augum og þegar sár grátur hennar víkur fyrir svefni vegna vögguvísu sem kemur frá vörum minum. Nadía hefur hjálpað mér að ná hæðum á lífsins leið sem ég voru mér að öllu leyti ókunnugar áður fyrr. Geislandi bros hennar eða sár grátur, spyrjandi augnaráð eða rólegur andardráttur svefnsins eru sem vörður í vegferð að einskærri hamingju sem til er kominn fyrir tilstilli nýrrar tilfinningar í hjarta mér. Það er óbeisluð, skilyrðislaus, yfirþyrmandi ást.

Matthías nýbakaður faðir
Matthías, Kateryna og Nadia litla

Hypnofæðing Dagmar

Kæru konur – verðandi mæður.

Mig langar að deila með ykkur fæðingarsögunni minni af okkar öðru barni. Þessi fæðing var svo mögnuð upplifun og þess vegna er það skylda mín að miðla henni til ykkar í þeirri von um að þið finnið hvatningu og hugrekki til að takast á við þetta allra stærsta verkefni okkar kvenna – að koma barni í heiminn. Með fyrra barn gekk ég 14 daga framyfir settan dag og því sett í gang með öllum þeim ofsa og stjórnleysi sem því fylgir – mér fannst það erfitt. Núna þremur árum síðar var ég gengin 5 daga framyfir settan dag og aðeins nokkrir dagar í jól. Sökum yfirvofandi jólafrís þá var fæðingardeildin búin að bóka fyrir mig gangsetningu daginn fyrir gamlársdag. Allar frumur líkamans herptust saman við þá tilhugsun og ég þráði ekkert heitar en að þetta færi af stað af náttúrunnar hendi. Ég biðlaði til minnar yndislegu ljósmóður á fæðingardeildinni á Akranesi – Hafdísar Rúnarsdóttur að gefa mér nálastungur þennan fallega eftirmiðdag í desember. Ég hafði verið með samdrætti nánast alla meðgönguna og sérstaklega er leið á. Barnið var búið að skorða sig langt niður í grindina og ég var heldur betur tilbúin í þetta verkefni. Á báðum meðgöngum var ég í yogatímum hjá Auði Bjarnadóttur og hennar gyðjum og haföndunin var fyrir löngu orðinn hluti af sál minni og líkama. Mér hafði nýverið áskotnast bók um Hypnobirthing sem ég las í einum rykk en þar opnaðist mér alveg ný sýn og skilningur á fæðingarferlinu. Sérstaklega fannst mér áhugavert að lesa um sögu fæðinga í gengum árþúsundin. Það að setja okkur inn í sama mengi og dýrin og náttúruna hjálpaði mér að skilja grunnelementin sem þurfa að vera til staðar í fæðingu – friður og öryggi. Dýrin finna sér rólegan stað, eru yfirveguð og treysta því að að líkaminn stýri ferlinu sjálfur. Þau koma afkvæmum sínum í heiminn á hljóðlátan og yfirvegaðan hátt á þeim tíma sem líkaminn þarf í þetta verkefni. Í raun á það nákvæmlega sama við um okkur nema við mannfólkið höfum einnig það stóra verkefni að reyna að hafa stjórn á huganum – svo að hann taki ekki yfir. Mér tókst að tileinka mér þessar hugmyndir og öndunartækni að einhverju leyti en hvort ég gæti notfært mér í fæðingunni yrði að koma í ljós. Það er mikilvægt að vera algjörlega æðrulaus gagnvart fæðingarferlinu. Það fer eins og það fer.

Í nálastungunum leyfði ég ljósunni að skoða mig því ég var svo viss um að ég væri hægt og rólega byrjuð að opna fyrir krílinu. Sem var og rétt því ég var komin með 4 í útvíkkun þá þegar. Við maðurinn minn ákváðum að fara heim og borða kvöldmat með dóttur okkar og koma henni fyrir hjá ömmu og afa og bjuggumst svo við að fara aftur upp á skaga um nóttina. Ég var vissulega mjög spennt en á sama tíma pollróleg, því ég hafði einsett mér að halda ró og yfirvegun. Klukkan 19 fór ég að fá greinilega verki með samdráttunum. Ég tímasetti þá og þeir voru fljótlega orðnir taktfastir þannig að við settum tösku í bílinn og keyrðum aftur af stað á Akranes. Í hverri öldu notaði ég haföndunina. Því sárari verkur – því ýktari og kröftugri öndun. Svo gat ég hlegið og spjallað á milli og ég man hvað það var stórkostleg tilfinning að finna að ég réði við þetta! Ég var komin inn í eitthvað ferli sem ég varð strax hluti af – einbeitti mér að önduninni og fór eins mikið inn í hana og hægt er. Við komum upp á deild kl 20:30 og Hafdís sem var enn á vakt gerði baðið tilbúið fyrir mig. Ég rúllaði út yogadýnunni minni og á milli þess sem öldurnar riðu yfir settist ég á hækjur mér og vaggaði mér til hliðanna til þess að greikka leiðina niður fyrir krílið. Er aldan reið yfir lagðist ég út af og hvarf algjörlega inn í öndunina. EInhverjir þekkja eflaust hvernig það er að leika sér í sjónum í sólarlöndum í miklum öldum. Maður þarf að stinga sér inn í öldurnar og gefa eftir – leyfa öldunni að grípa sig og bíða eftir að yfirborðið róist. Þá kemst maður aftur upp á yfirborðið og bíður eftir þeirri næstu. Stundum kasta þær manni til undir yfirborðinu og þá er mikilvægt að gefa eftir og streitast ekki á móti heldur bíða eftir að yfirborðið róist. Því ef maður berst við ölduna þá finnur maður vanmátt sinn og getur auðveldlega orðið skelkaður, farið að ofanda og þá örmagnast maður fljótt… Nákvæmlega svona upplifði ég þetta fæðingarferli.

Smám saman stækkuðu öldurnar mínar og ég ákvað að fara í baðið. Ég fékk óstöðvandi sjálfta á tímabili sem eru viðbrögð líkamans við kraftinum í samdráttunum og andaði þá að mér glaðlofti nokkrum sinnum og sjálftinn stöðvaðist við það. Ofan í baðinu sat ég á hnjánum og hélt þessu ferðalagi mínu áfram í gegnum öldurnar. Á milli þeirra fékk ég alltaf stutt hlé til þess að opna augun og kyssa manninn minn og finna hvatninguna úr augum hans. Ég bað hann að þrýsta með fingrunum á þriðja augað er ég fór inn í öldurnar – það var kraftmikið og hjálpaði verulega. Það var eins og ég færi algjörlega inn í sjálfa mig þegar öldurnar riðu yfir, og ég einbeitti mér djúpt að eins hægri útöndun og ég réði við hverju sinni. Einbeiting og slökun er algjört lykilatriðið í fæðingu – að einbeita sér að önduninni, þá sérstaklega útönduninni. Við vorum öll í flæði og trausti yfir því að allt væri eins og það átti að vera. Enginn var að pæla í klukku eða tímanum á milli hríða, útvíkkun eða neinu slíku. Við vorum bara þarna saman í þessu verkefni. Smám saman ágerðust öldurnar, urðu stærri en samt var alltaf hlé á milli til þess að jafna mig og búa undir næstu. Á einhverjum tímapunkti þurfti ég að pissa og ljósan sagði mér bara að pissa í laugina ef ég vildi, til þess að trufla ekki slökunina og þetta flotta flæði sem ég var í. Svo fór ég að finna meiri og meiri þrýsting niður á opið og fann að það styttist í þetta. Ljósan skrapp fram að ná sér í kaffi og kom svo aftur og ég sagði henni að ég fyndi mjög aukinn þrýsting niður með hverri hríð. Hún stóð úti á gólfi með kaffibolla í hendinni og sagði við mig hlý og brosandi “þá máttu bara byrja að rembast elskan”. Örfáum sekúndum síðar kom þessi mikli þrýstingur sem ég andaði niður í af öllum kröftum – og viti menn kollurinn þrýstist út. Hafdís, sem átti alls ekki von á þessu frekar en ég, stökk til með hendurnar ofan í vatnið tilbúin að taka á móti. Ég fann eitthvað springa í vatninu og það reyndist vera belgurinn sem fram að þessu hafði verið órofinn. Ég sogaði allt loft til mín sem ég gat á næstu innöndun og á útönduninni komu axlir og svo kroppurinn. Barnið var fætt á fjórum mínútum í tveimur hríðum. Klukkan var 23:45. Ég settist í sætið í baðinu og fékk í fangið fullkomna stúlku dásamlega kraftmikla. Öll vorum við jafnhissa og skellihlægjandi yfir þessari ótrúlegu fæðingu. Með öndun, slökun og einbeitingu hafði mér tekist að leyfa líkamanum að koma barninu niður og svo þrýsta því út.

Það sem mér fannst merkilegast í hypnobirth fræðunum var að höfundur bókarinnar vill meina að hinn dæmigerði rembingur með tilheyrandi öskrum og djöfulgangi sé algjörlega röng hugsun, það sé í raun eitthvað sem hafi komið til með vestrænni sjúkrahúsmenningu. Við þurfum bara að anda – slaka og treysta og beina önduninni og orku niður á við. Líkaminn mun sjá um að þrýsta á hárréttum tímapunkti. Ég hafði lesið hypnobirth fæðingarsögur þar sem þessu er lýst en eftir fyrri reynslu átti ég bágt með að trúa að þetta væri virkilega hægt. En núna veit ég að þetta er mögulegt. Ég var róleg og yfirveguð allan tímann, fyrir utan eitt móment í kollhríðinni með miklum sársauka þar sem mér fannst ég í augnablik missa stjórn og rak upp vein og kastaði mér um hálsinn á eiginmanni mínum, en þetta augnablik var jafnskjótt liðið hjá því stúlkan var fædd. Ég fylgdi líkamanum og lét öndunina fylgja samdráttunum alveg þar til stúlkan fæddist. Daginn eftir var stysti dagur ársins, en jafnframt sá bjartasti síðustu mánaða. Fullt tungl, heiðskýrt og sjórinn spegilsléttur fyrir utan herbergisgluggan okkar. Stúlkan fékk nafnið Dagmar.

Ég var hátt uppi á hormónum eftir þessa mögnuðu fæðingu, og mun fljótari að jafna mig á allan hátt, heldur en ég var eftir fæðingu fyrsta barns. Legið dróst ótrúlega hratt saman – ég var dugleg að drekka hindberjalaufste fyrir og eftir fæðingu sem ég er viss um að hafi hjálpað. Þó svo að saumaskapurinn hafi verið andstyggilegur eftir báðar mínar fæðingar þá grær líkaminn á undraverðan hátt, bæði hratt og vel og áður en maður veit af þá er allt orðið heilt á ný. Það er mikið á okkur lagt en við getum þetta allar sem ein.

Gangi ykkur vel.

Birta