Áttavillt á leiðinni út

Ég fór í síðasta jógatímann minn í hádeginu fimmtudaginn 15. ágúst, gengin ákkurat 40 vikur, fjörutíu ára gömul, með fjórða barn. Ég geng alltaf vel og lengi með svo ég bjóst fastlega við að mæta í jóga í að minnsta kosti viku í viðbót, kannski alveg tvær. 

Kristbjörg ljósmóðir hefur fylgt mér í öllum mínum fæðingum og hjá henni hef ég líka fengið alla mæðravernd og heimaþjónustu, alveg samfellda þjónustu. Það er rosalegur lúxus. 

Ég hef alltaf farið af stað með því að missa vatnið svo ég gat ekki ímyndað mér að fara af stað einhvern veginn öðruvísi í þetta skiptið. Um kvöldið þennan fimmtudag fór maðurinn minn út og ég gaf krökkunum að borða, hafði einhverja tilfinningu og gat lítið gert annað en að rugga mér á jógaboltanum við matarborðið. Ég gladdist óskaplega þegar ég sá að slímtappinn var að losna, það var þá eitthvað á bakvið þessa tilfinningu hjá mér. Ég sendi Kristbjörgu ljósmóður skilaboð og reyndi að sofna snemma. Um nóttina vaknaði ég til að fara á klósettið og fann straum í öllum líkamanum, út í fingur og tær og vissi að það væri eitthvað meira að gerast. Um morguninn þegar ég rumska hugsa ég: Núna er vatnið kannski farið, dreg andann djúpt og gríp þetta síðasta augnablik þessarar meðgöngu í huganum. Ég rúlla mér fram úr rúminu og jú, vatnið lekur á gólfið og maðurinn minn vaknar við vatnsdropana.

Ekkert barn hefur nokkru sinni skorðað sig hjá mér svo ég lagðist bara aftur upp í rúm og sendi ljósmóðurinni skilaboð. Ég ætlaði að eiga heima eins og í öll hin skiptin. Skólinn var ekki byrjaður enn og þennan föstudag var meira að segja starfsdagur í leikskólanum. Það þýddi að öll fjölskyldan var heima og vakandi. Það var ákveðin pressa. Kristbjörg kom og hlustaði á hjartsláttinn og þreifaði bumbuna. Barnið óskorðað og í skrýtinni stöðu, líklega framhöfuðstaða. En ég komst á klósett, legvatnið lak út um allt og ég lagðist svo aftur upp í rúm. Fjögurra ára stelpan mín hvíslar stolt að mér að potturinn sé kominn upp inni í stofu.

Í öllum hinum fæðingunum mínum hafa öldurnar byrjað svona 1-2 klst eftir að ég missi vatnið en það gerðist ekki í þetta skiptið. Í staðinn eyddi ég deginum í læstri hliðarlegu á vinstri hliðinni til að fá barnið til að snúa sér og var hreinlega farið að leiðast. Ég reyndi hvíld, hugleiðslu, oxytocin vímu með yngsta barninu, örvun á geirvörtur, ilmkjarnaolíur og jurtir sem ljósmóðirin var með. Ekkert að gerast nema vatn út um allt. Kl 6 um kvöldið fara allir krakkarnir til afa síns og ég reyni að horfa á bíómynd með manninum mínum og við pöntum okkur mat. Næstum um leið finn ég fyrstu bylgjuna koma. Ég borða nokkra bita og svo fer maðurinn minn fram, ég var búin að biðja um að fá að vera sem mest ein. Barnið var þarna búið að snúa sér í betri stöðu en enn óskorðað.

Ég anda haföndun og gleðst yfir hverri bylgju, þakklát fyrir hverja og eina. Ég hlusta á Hypnobirthing slökunina mína og ímynda mér að ég sé að blása upp magann, eins og risastóra blöðru, og slaka niður í grindarbotn. Mér líður alveg rosalega vel. Alveg ofsalega vel. Um 9 eru bylgjurnar orðnar vel sterkar og ég sendi á ljósmóðurina að hún megi koma núna. Hún hafði kvatt okkur seinnipartinn eftir að hafa hangið heima hjá mér næstum allan daginn. Ég heyri manninn minn svæfa 4 ára stelpuna. 

Ég ligg ein í myrkrinu örugglega fram að miðnætti, með hypnobirthing á repeat og rosalega ánægð og hamingjusöm. Ég ákveð svo að ef ég ætli að fara í pottinn þá sé það núna. Er með noise cancellation heyrnartól og augnskýlu og strákarnir mínir tveir strjúka á mér bakið í pottinum meðan ég held áfram að hlusta á slökunina með lokuð augun. Bylgjurnar breytast eftir einhvern tíma, líkaminn byrjar ósjálfrátt að ýta og rembast. Ég veit að útvíkkun er lokið því ég er ekki að fá rembing bara í toppnum á bylgjunum heldur er öll bylgjan rembingur. 

Það er samt eitthvað aðeins að standa út af því ég finn enga enga tilfinningu um höfuð eða þrýsting ofan í grindinni svo ég fer upp úr pottinum, prófa að fara á klósettið. Ég tek svo á móti bylgjunum á dýnu á gólfinu en reisi mig upp og hangi um axlir og háls mannsins míns í bylgjunum. Ég prófa ýmsar stellingar, fer aftur á klósettið en allt er við það sama. Ekkert breytist. Eftir 3 klukkutíma af þessu er ég orðin ansi þreytt. 

Ég var búin að afþakka innri skoðanir fyrir fram og ljósmóðirin vissi að ég vildi helst ekkert vera neitt trufluð. Hún hlustaði af og til með doppler á hjartsláttinn hjá krílinu, annars var ég bara sjálf og ein að vinna ótrufluð með líkamanum sem mér fannst gott. En ég var orðin mjög þreytt og búin að prófa allt sem mér datt í hug. Ég var með rembing í öllum öldunum en ég hreinlega fann ekkert höfuð ofan í grindinni, engan þrýsting eins og ég hef alltaf fundið áður. Kannski var barnið bara enn óskorðað. Ég var orðin nokkuð viss um að barnið myndi ekki fæðast nema eitthvað breyttist og ég fann ákveðna uppgjöf. Ég vissi ekki hvað ég gæti gert meira. Klukkan var orðin um 4 um nóttina. 

Þarna segi ég ljósmóðurinni að ég sé orðin þreytt. Hún stingur upp á að halda og lyfta bumbunni í gegnum nokkra rembinga. Hún stendur þá fyrir aftan mig og heldur utan um bumbuna og lyftir meðan ég hangi á manninum mínum. Við tökum kannski 3 rembinga svona, þetta var mjög intense. Svo verð ég að fá einhverja hvíld, ég sit á gólfinu og halla bakinu upp að sófanum og reyni að hvíla mig og tempra rembinginn svo ég nái aðeins að safna kröftum. Ég ligg viljandi svona aflíðandi því ég vildi halda barninu eins nálægt hryggnum mínum og ég get, svo höfuðið rati vonandi rétta leið og þrýsti rétt á leghálsinn og ofan í grind.

Næst vill Kristbjörg að ég prófi að squatta djúpt við hurðarhúninn. Ég þarf að labba alveg 5m að næst hurðarhúni og fæ nokkra rembinga á leiðinni, ég labba líka svo hægt! Ég finn samt að nú er eitthvað búið að breytast, það er kominn þrýstingur aftur í átt að rassinum og reyni að tjá mig um það með takmörkuðum árangri. Ég reyni líka að drekka á þessum tímapunkti, ég sé það eftir á að ég hefði mátt vera duglegri að drekka yfir nóttina, þá hefði ég kannski ekki orðið jafn þreytt. Ég er svo í dágóða stund að koma mér í djúpt squat með sveigju á hryggnum en það var alls ekki jafn óþægileg stelling og ég hélt hún myndi verða. Við hurðarhúninn kom rífleg blæðing, þannig að Kristbjörg vildi gera innri skoðun. Ég var vel sátt við það á þessum tímapunkti enda sjálf orðin alveg mát á því af hverju það var ekki meira að gerast. 

Kristbjörg sagði að hún finndi vel fyrir kolli og staðfesti að útvíkkun væri lokið sem ég taldi mig vita að hefði gerst fyrir talsverðu síðan. En kollurinn var aðeins skakkur og krílið lá allt vinstra megin í bumbunni. Af einskærri ljósmóðurlist náði Kristbjörg að hnika kollinum svo hann lægi rétt og halda við bumbuna utan frá svo krílið færi inn að miðju og myndi nú vonandi takast að finna réttu leiðina út. Ég var eins og skjaldbaka föst á bakinu og gat mig hvergi hreyft og þurfti að biðja manninn minn um að hreinlega lyfta mér upp því ég vildi ekki takast á við öldurnar á bakinu, það finnst mér óþægilegasta stellingin af þeim öllum. Hann lyfti mér á fætur í einni lyftu og ég fann næstu bylgju skella á mér. Kristbjörg spurði hvaða stellingu ég vildi fara í en mér datt ekkert í hug, það var líka svo erfitt að hreyfa sig. Ég stóð því eins og valkyrja í gegnum þessa bylgju, með hendur um háls mannsins míns og kollurinn hreinlega datt í gegnum grindina og niður á spöngina. Ljósmóðirin var rosalega ánægð með þetta, ég líka, en aldrei hefði mér dottið í hug að ég myndi fæða standandi! Ég var á engan máta hæf til að skipta um stellingu og tók því á móti kollhríðinni líka standandi. Mér fannst undarlegt að vera svona standandi og það flaug í gegnum hausinn á mér að þetta barn myndi hreinlega hrynja niður á parketið, ég lagði allt traust mitt á Kristbjörgu sem myndi svo sannarlega þurfa að ,,grípa” þetta barn. Eftir á finnst mér alveg ótrúlega merkilegt og valdeflandi að ég hafi fætt standandi, við getum svo miklu meira en við höldum. 

Á þessum tímapunkti í fæðingu hef ég lært að slaka á og fara rólega. Nú liggur ekkert á. Auðvitað viltu klára þessa fæðingu og koma barninu í fangið sem fyrst en með smá rósemd á réttu augnabliki hefur mér alltaf tekist að fæða með heila spöng og ég ætlaði mér að endurtaka leikinn. Ætli þetta hafi því ekki verið 2-3 hríðar sem það tók kollinn að koma út. Ég leyfði líkamanum að stjórna. Og þyngdaraflinu. Kristbjörg spurði hvort ég vildi að hún héldi við og ég sagði bara já því þá myndi ég allavega finna fyrir henni þarna og vita að barnið myndi ekki gossa bara á gólfið. Kollhríðin sjálf er ekki nema örfáar sekúndur af blindri, óbilaðri trú á eigin líkama og algjörri eftirgjöf. Þegar höfuðið var komið út fann ég svo sterkt fyrir því þegar barnið snéri sér inni í mér til að axlirnar kæmust út í næstu hríð þar á eftir. Þyngdaraflið lét mig eflaust finna þetta svona sterkt. Afar sérstök tilfinning. 

Ég var svo glöð þegar barnið kom. Þakið fósturfitu og með stuttan streng vafinn um hálsinn. Barnið fór strax að gráta meðan Kristbjörg, maðurinn minn og ég héldum barninu upp við lærin á mér og en það tók smá stund að losa strenginn svo ég gæti tekið barnið í fangið. Öll börnin mín hafa fæðst með naflastrenginn um hálsinn svo ég veit vel að það er fullkomlega eðlilegt og ekkert til að hafa áhyggjur af. Það voru bara 17 mínútur liðnar frá innri skoðuninni. 

Elsti strákurinn minn, 12 ára, hafði sofnað örmagna á stofugólfinu bakvið fæðingarlaugina (ég vissi ekki að hann væri þarna) og pabbi hans vakti hann hlæjandi með hvítar hendur af fósturfitu og svo voru hin börnin vakin og þustu niður. 

Það var rosalega skemmtileg stund þegar öll fjölskyldan skoðaði litla krílið til að komast að því hvort þetta væri lítil systir eða lítill bróðir. Lítil stúlka reyndist það vera 😉

Litla dóttirin fór strax á brjóst. Það blæddi lítið sem ekkert en ég fékk sterka samdrætti því legið var að dragast hratt saman. Fylgjan fæddist 1 klst og 30 mín seinna þá voru strákarnir mínir sofnaðir aftur en 4 ára dóttir mín fylgdist með og fékk að klippa á naflastrenginn. Mikið rosalega var gaman að upplifa þessa fæðingu með allri fjölskyldunni en ofsalega voru allir þreyttir eftir þessa löngu nótt. 

Fjórða fæðingin mín varð því mín lengsta og átakamesta fæðing. Hún hefði orðið enn lengri ef ég hefði ekki haft svona hæfa og reynda ljósmóður til taks fyrir mig þegar ég vildi stuðning hennar og hjálp. Ég er samt svo þakklát fyrir að hafa fengið þennan tíma í útvíkkun ein og ótrufluð uppi í rúmi og að hún hafi ekkert truflað mig allan þennan tíma sem ég hékk á manninum mínum og dýnunni. Það er svo valdeflandi að eiga sína fæðingu sjálf.

Tólf ára strákurinn minn sem vakti næstum í gegnum þetta allt saman með mér. Hann náði því miður ekki að verða vitni að síðustu fæðingu eins og planað hafði verið.  Mér fannst svo gaman og gott að hafa hann hjá mér núna eins og hann hafði sjálfur beðið ítrekað um og við rætt í þaula. 

Hann sagði líka við mig daginn eftir:,,Mamma, þetta var algjörlega fullkomin fæðing”. Og það er rétt hjá honum. 

Hypnofæðing Dagmar

Kæru konur – verðandi mæður.

Mig langar að deila með ykkur fæðingarsögunni minni af okkar öðru barni. Þessi fæðing var svo mögnuð upplifun og þess vegna er það skylda mín að miðla henni til ykkar í þeirri von um að þið finnið hvatningu og hugrekki til að takast á við þetta allra stærsta verkefni okkar kvenna – að koma barni í heiminn. Með fyrra barn gekk ég 14 daga framyfir settan dag og því sett í gang með öllum þeim ofsa og stjórnleysi sem því fylgir – mér fannst það erfitt. Núna þremur árum síðar var ég gengin 5 daga framyfir settan dag og aðeins nokkrir dagar í jól. Sökum yfirvofandi jólafrís þá var fæðingardeildin búin að bóka fyrir mig gangsetningu daginn fyrir gamlársdag. Allar frumur líkamans herptust saman við þá tilhugsun og ég þráði ekkert heitar en að þetta færi af stað af náttúrunnar hendi. Ég biðlaði til minnar yndislegu ljósmóður á fæðingardeildinni á Akranesi – Hafdísar Rúnarsdóttur að gefa mér nálastungur þennan fallega eftirmiðdag í desember. Ég hafði verið með samdrætti nánast alla meðgönguna og sérstaklega er leið á. Barnið var búið að skorða sig langt niður í grindina og ég var heldur betur tilbúin í þetta verkefni. Á báðum meðgöngum var ég í yogatímum hjá Auði Bjarnadóttur og hennar gyðjum og haföndunin var fyrir löngu orðinn hluti af sál minni og líkama. Mér hafði nýverið áskotnast bók um Hypnobirthing sem ég las í einum rykk en þar opnaðist mér alveg ný sýn og skilningur á fæðingarferlinu. Sérstaklega fannst mér áhugavert að lesa um sögu fæðinga í gengum árþúsundin. Það að setja okkur inn í sama mengi og dýrin og náttúruna hjálpaði mér að skilja grunnelementin sem þurfa að vera til staðar í fæðingu – friður og öryggi. Dýrin finna sér rólegan stað, eru yfirveguð og treysta því að að líkaminn stýri ferlinu sjálfur. Þau koma afkvæmum sínum í heiminn á hljóðlátan og yfirvegaðan hátt á þeim tíma sem líkaminn þarf í þetta verkefni. Í raun á það nákvæmlega sama við um okkur nema við mannfólkið höfum einnig það stóra verkefni að reyna að hafa stjórn á huganum – svo að hann taki ekki yfir. Mér tókst að tileinka mér þessar hugmyndir og öndunartækni að einhverju leyti en hvort ég gæti notfært mér í fæðingunni yrði að koma í ljós. Það er mikilvægt að vera algjörlega æðrulaus gagnvart fæðingarferlinu. Það fer eins og það fer.

Í nálastungunum leyfði ég ljósunni að skoða mig því ég var svo viss um að ég væri hægt og rólega byrjuð að opna fyrir krílinu. Sem var og rétt því ég var komin með 4 í útvíkkun þá þegar. Við maðurinn minn ákváðum að fara heim og borða kvöldmat með dóttur okkar og koma henni fyrir hjá ömmu og afa og bjuggumst svo við að fara aftur upp á skaga um nóttina. Ég var vissulega mjög spennt en á sama tíma pollróleg, því ég hafði einsett mér að halda ró og yfirvegun. Klukkan 19 fór ég að fá greinilega verki með samdráttunum. Ég tímasetti þá og þeir voru fljótlega orðnir taktfastir þannig að við settum tösku í bílinn og keyrðum aftur af stað á Akranes. Í hverri öldu notaði ég haföndunina. Því sárari verkur – því ýktari og kröftugri öndun. Svo gat ég hlegið og spjallað á milli og ég man hvað það var stórkostleg tilfinning að finna að ég réði við þetta! Ég var komin inn í eitthvað ferli sem ég varð strax hluti af – einbeitti mér að önduninni og fór eins mikið inn í hana og hægt er. Við komum upp á deild kl 20:30 og Hafdís sem var enn á vakt gerði baðið tilbúið fyrir mig. Ég rúllaði út yogadýnunni minni og á milli þess sem öldurnar riðu yfir settist ég á hækjur mér og vaggaði mér til hliðanna til þess að greikka leiðina niður fyrir krílið. Er aldan reið yfir lagðist ég út af og hvarf algjörlega inn í öndunina. EInhverjir þekkja eflaust hvernig það er að leika sér í sjónum í sólarlöndum í miklum öldum. Maður þarf að stinga sér inn í öldurnar og gefa eftir – leyfa öldunni að grípa sig og bíða eftir að yfirborðið róist. Þá kemst maður aftur upp á yfirborðið og bíður eftir þeirri næstu. Stundum kasta þær manni til undir yfirborðinu og þá er mikilvægt að gefa eftir og streitast ekki á móti heldur bíða eftir að yfirborðið róist. Því ef maður berst við ölduna þá finnur maður vanmátt sinn og getur auðveldlega orðið skelkaður, farið að ofanda og þá örmagnast maður fljótt… Nákvæmlega svona upplifði ég þetta fæðingarferli.

Smám saman stækkuðu öldurnar mínar og ég ákvað að fara í baðið. Ég fékk óstöðvandi sjálfta á tímabili sem eru viðbrögð líkamans við kraftinum í samdráttunum og andaði þá að mér glaðlofti nokkrum sinnum og sjálftinn stöðvaðist við það. Ofan í baðinu sat ég á hnjánum og hélt þessu ferðalagi mínu áfram í gegnum öldurnar. Á milli þeirra fékk ég alltaf stutt hlé til þess að opna augun og kyssa manninn minn og finna hvatninguna úr augum hans. Ég bað hann að þrýsta með fingrunum á þriðja augað er ég fór inn í öldurnar – það var kraftmikið og hjálpaði verulega. Það var eins og ég færi algjörlega inn í sjálfa mig þegar öldurnar riðu yfir, og ég einbeitti mér djúpt að eins hægri útöndun og ég réði við hverju sinni. Einbeiting og slökun er algjört lykilatriðið í fæðingu – að einbeita sér að önduninni, þá sérstaklega útönduninni. Við vorum öll í flæði og trausti yfir því að allt væri eins og það átti að vera. Enginn var að pæla í klukku eða tímanum á milli hríða, útvíkkun eða neinu slíku. Við vorum bara þarna saman í þessu verkefni. Smám saman ágerðust öldurnar, urðu stærri en samt var alltaf hlé á milli til þess að jafna mig og búa undir næstu. Á einhverjum tímapunkti þurfti ég að pissa og ljósan sagði mér bara að pissa í laugina ef ég vildi, til þess að trufla ekki slökunina og þetta flotta flæði sem ég var í. Svo fór ég að finna meiri og meiri þrýsting niður á opið og fann að það styttist í þetta. Ljósan skrapp fram að ná sér í kaffi og kom svo aftur og ég sagði henni að ég fyndi mjög aukinn þrýsting niður með hverri hríð. Hún stóð úti á gólfi með kaffibolla í hendinni og sagði við mig hlý og brosandi “þá máttu bara byrja að rembast elskan”. Örfáum sekúndum síðar kom þessi mikli þrýstingur sem ég andaði niður í af öllum kröftum – og viti menn kollurinn þrýstist út. Hafdís, sem átti alls ekki von á þessu frekar en ég, stökk til með hendurnar ofan í vatnið tilbúin að taka á móti. Ég fann eitthvað springa í vatninu og það reyndist vera belgurinn sem fram að þessu hafði verið órofinn. Ég sogaði allt loft til mín sem ég gat á næstu innöndun og á útönduninni komu axlir og svo kroppurinn. Barnið var fætt á fjórum mínútum í tveimur hríðum. Klukkan var 23:45. Ég settist í sætið í baðinu og fékk í fangið fullkomna stúlku dásamlega kraftmikla. Öll vorum við jafnhissa og skellihlægjandi yfir þessari ótrúlegu fæðingu. Með öndun, slökun og einbeitingu hafði mér tekist að leyfa líkamanum að koma barninu niður og svo þrýsta því út.

Það sem mér fannst merkilegast í hypnobirth fræðunum var að höfundur bókarinnar vill meina að hinn dæmigerði rembingur með tilheyrandi öskrum og djöfulgangi sé algjörlega röng hugsun, það sé í raun eitthvað sem hafi komið til með vestrænni sjúkrahúsmenningu. Við þurfum bara að anda – slaka og treysta og beina önduninni og orku niður á við. Líkaminn mun sjá um að þrýsta á hárréttum tímapunkti. Ég hafði lesið hypnobirth fæðingarsögur þar sem þessu er lýst en eftir fyrri reynslu átti ég bágt með að trúa að þetta væri virkilega hægt. En núna veit ég að þetta er mögulegt. Ég var róleg og yfirveguð allan tímann, fyrir utan eitt móment í kollhríðinni með miklum sársauka þar sem mér fannst ég í augnablik missa stjórn og rak upp vein og kastaði mér um hálsinn á eiginmanni mínum, en þetta augnablik var jafnskjótt liðið hjá því stúlkan var fædd. Ég fylgdi líkamanum og lét öndunina fylgja samdráttunum alveg þar til stúlkan fæddist. Daginn eftir var stysti dagur ársins, en jafnframt sá bjartasti síðustu mánaða. Fullt tungl, heiðskýrt og sjórinn spegilsléttur fyrir utan herbergisgluggan okkar. Stúlkan fékk nafnið Dagmar.

Ég var hátt uppi á hormónum eftir þessa mögnuðu fæðingu, og mun fljótari að jafna mig á allan hátt, heldur en ég var eftir fæðingu fyrsta barns. Legið dróst ótrúlega hratt saman – ég var dugleg að drekka hindberjalaufste fyrir og eftir fæðingu sem ég er viss um að hafi hjálpað. Þó svo að saumaskapurinn hafi verið andstyggilegur eftir báðar mínar fæðingar þá grær líkaminn á undraverðan hátt, bæði hratt og vel og áður en maður veit af þá er allt orðið heilt á ný. Það er mikið á okkur lagt en við getum þetta allar sem ein.

Gangi ykkur vel.

Birta

Fæðingarsagan – {heimafæðing í Danmörku}

Ég átti son minn fyrir 4 árum í yndislegri fæðingu á Hvidovre spítala í Kaupmannahöfn á sólbjörtum sumardegi. Sú fæðing var inngripalaus og gekk mjög eðlilega fyrir sig, en hún var átakamikil, tók 15 tíma og hríðar voru mjög harðar og örar megnið af tímanum. Ég hef alla tíð lýst þeirri fæðingu sem draumafæðingu, en vá, á mánudaginn var fékk ég svo sannarlega að upplifa sannkallaða draumafæðingu. Ljósmæður Hvidovre spítala hvöttu okkur hjónin til að velja heimafæðingu í þetta skiptið þar sem allt hefði gengið svo vel með fyrsta barn og eftir stuttan umhugsunarfrest þáðum við það. Við sjáum aldeilis ekki eftir því.

Hér er fæðingarsagan:
Á mánudagseftirmiðdag (30. nóv. – komin 39v4d) ákvað ég að hringja upp á deild því þá var ég búin að vera með fyrirvaraverki og glerharða kúlu nánast án pásu í tvo daga, hafði lítið sem ekkert sofið og var orðin mjög þreytt. Það var búið að vera mikið að gera hjá mér dagana á undan við að klára vinnutengd verkefni og almennan jólaundirbúning. Ljósmóðirin á deildinni sagði að líklegast væri ég bara að malla í gang, en vildi gjarnan að ég kæmi uppeftir í rit ef ég yrði ekki betri eftir rúma klst. af hvíld. Ég átti að taka eina panódíl, fara í heita sturtu og leggjast niður til að slaka alveg á. Þegar ég loksins fékkst til að slappa af fann ég að verkirnir breyttust og þennan eina og hálfa tíma sem ég lá komu vægar hríðar á 3-5 mínútna fresti. Klukkan hálfsex hringdi ég upp á deild og sagði þeim að ég þyrfti ekki að koma uppeftir þar sem ég væri nokkuð viss um að nú væri ég komin í gang. Heimaljósmóðirin sagðist koma eftir klukkutíma svo ég hringdi í manninn minn og sagði honum að hann mætti gjarnan koma með son okkar (4 ára) heim af taekwondo æfingu því fæðingin væri að hefjast. Feðgarnir komu heim og næsta klukkutímann gengum við um íbúðina og gerðum klárt. Mamma mín var hjá okkur hér í Kaupmannahöfn og hún tók strákinn inn í svefnherbergi vopnuð kvöldmat og iPad og þar voru þau í góðu yfirlæti.

Hríðarnar urðu svolítið sterkari og ég andaði mig í gegnum þær á meðan maðurinn minn setti mottur á gólfið, blés upp fæðingarlaugina, kveikti á kertum og gerði almennt kósý. Klukkan hálfsjö kom ljósmóðirin og um leið og hún kom fattaði hún að hún hafði gleymt hönskum. Nú voru góð ráð dýr. Hún þreifaði kúluna, hlustaði á hjartslátt og endaði á að mæla útvíkkun með skrjáfandi nestispoka á höndunum. Mjög notalegt (not). Ég var með tvo í útvíkkun. „Andskotinn“ hugsaði ég og sá fyrir mér langa og stranga nótt og var satt að segja svolítið fúl að vera að fara í gang svona þreytt. Ég var einhvern vegin ekki í „stuði“ til að fara að fæða og langaði til að afþakka pent og fá bara góðan nætursvefn. Það var auðvitað ekki mjög lógískt svo það næstbesta var að sætta sig við orðinn hlut og setja sig í gírinn. Það helltist yfir mig einhver hrollur svo ég skalf eins og hrísla og það var orka sem ég vildi ekki missa, svo ég náði í dáleiðsluæfinguna mína (Adam Eason – mæli með því!), setti á mig headphones og lagðist á gólfið í einbeitingu. Maðurinn minn kom með hitapoka fyrir mig og þarna lá ég og slakaði á. Í hríðunum talaði ég upphátt við sjálfa mig og sagði ýmist: „Já já já já“, „Komdu til mín elska mín – mamma vill fá þig“ eða „Opna opna opna opna“.

Klukkutíma síðar, um hálfátta, voru vaktaskipti hjá ljósmóðurinni og þegar nýja ljósmóðirin kom – með almennilega hanska og ljósmóðurnema í farteskinu – var ég skoðuð aftur og þá komin með 3 cm í útvíkkun. Þá ákvað ég að nú skyldi ég opna mig enn hraðar. Í hverri hríð hugsaði ég: „Þetta eru ekki verkir, þetta eru bara samdrættir. Hér er það ÉG sem ræði. Það er ÉG sem er að framkalla þessa samdrætti. Ekki hugsi-hausinn-ég, heldur líkams-ég, frum-ég. Þetta er minn líkami og hann gerir ekkert sem ég ræð ekki við. Nú ÆTLA ég að opnast og búa til gott pláss fyrir þetta barn.“ Ég fór í baðkarið, það var yndislegt og ég náði góðri slökun þar. Ég notfærði mér „Smertefri fødsel” tækni (mæli með henni!) og maðurinn minn var með mér í hverri hríð – það skipti sköpum. Líkamleg snerting við ástina sína og föður barnsins er besta verkjastilling sem hægt er að hugsa sér. Hann nuddaði ýmist bakið, axlirnar eða hendurnar. Knúsaði mig og kyssti og hvatti áfram. Þegar þarna var komið var ég hætt að fylgjast með klukkunni. Hríðarnar voru vel viðráðanlegar og mér fannst ég fá góða pásu á milli. Við brostum og slógum á létta strengi og stemningin var yndisleg. Ég hugsa að það hafi ekki liði meira en rúmur hálftími þar til ég var komin með 4-5 í útvíkkun og eftir annan hálftíma var ég komin með rúma sex. Við fögnuðum hverjum sentimetra eins og uppáhalds fótboltaliðið okkar hefði skorað sigurmark. Sonur okkar kom tvisvar fram úr herberginu með ömmu að kíkja á hvernig gengi og fannst bara voða spennandi að litla systir væri að koma.

Fljótlega eftir 6 cm var ég farin að fá svolitla rembingsþörf efst í hríðunum og ljósan tók eftir því og sagði mér að halda alls ekki aftur af því – leyfa líkamanum algjörlega að gera það sem hann kallaði á. Belgurinn var ekki sprunginn ennþá og hann bungaði niður í leghálsinn og gaf þessa þrýstingsþörf. Með hverri hríð eftir þetta jókst rembingurinn og á örskotsstundu var ég komin með 10 í útvíkkun og gat þreifað fyrir belgnum og kollinum nokkrum sentimentrum inni í leggöngunum. Þegar þarna var komið hoppaði maðurinn minn ofan í laugina til mín og settist með mig í fangið. Hann tók undan um hnén á mér og hjálpaði mér að halda mér vel opinni í rembingshríðunum. Það kom aðeins ein hríð þar sem ég veinaði af sársauka, en þá þrýsti höfuðið svo harkalega niður að ég vissi ekki út um hvaða gat barnið myndi koma. Ég varð að grípa um klofið á mér til að halda á móti svo hún færi ekki út of hratt.

Í næstu hríð kom svo kollurinn út, ennþá í belgnum og einni hríð síðar runnu axlirnar og restin af búknum út. Við hjónin tókum á móti henni sjálf og tókum hana beint í fangið. Barnið fæddist í sigurkufli, þ.e. ennþá í líknarbelgnum. Hún var með höfuðið örlítið skakkt, þ.e. í stað þess að andlit vísi niður, þá var andlitið inn að læri. Þegar hún var komin á bringuna slitum við gat á líknarbelginn og þá umlaði hún örlítið áður en hún lygndi aftur augunum og kúrði sig í fangið á okkur. Við hlógum og hlógum og táruðumst af gleði – dóttir okkar komin í heiminn í stofunni heima hjá okkur eftir ca. 5 tíma fæðingu kl. 21:51. Það var algjörlega ólýsanlegt að fá að gera þetta svona saman tvö, við stjórnuðum öllu ferlinu og okkur leið svo vel að vera inná fallega heimilinu okkar. Ljósmæðurnar héldu sér alveg til hlés allan tímann, komu af og til og hlustuðu hjartsláttinn hjá barninu og leiðbeindu mér með öndunina í rembingnum en unnu að öðru leyti sitt starf úr fjarlægð.

Fæðing Viktors

Ég hafði ekki sagt neinum settan dag og af því við fjölskyldan vorum í sumarfríi var ég næstum hætt að fylgjast með dögunum sem liðu hver af öðrum. Það var því engin pressa. Mér leið vel og vissi að ekki þýddi að miða of mikið við dagatalið, seinast hafði ég gengið 41 viku og 6 daga.

Við Kristbjörg ljósmóðir vorum báðar afslappaðar og miðuðum hálft í hvoru við að ég gengi vel og lengi með, eins og í fyrra skiptið.

Ég vaknaði á fallegum miðvikudegi, gengin 40 vikur og 3 daga. Mágkona mín kom og sótti mig undir hádegið og við fórum saman í jógatíma til Auðar. Ég ákvað að skella mér á töfradýnuna í horninu, mér fannst það einhvern veginn viðeigandi í þetta skiptið. Ég tók orð Söru jógakennara um að við skyldum hlusta á líkamann bókstaflega og lagðist snemma undir teppið í slökun og naut þess sem ég vissi að myndi verða einn af mínum síðustu tímum í meðgöngujóga.

Eftir hádegið fórum við litla fjölskyldan í búðarferð, keyptum auka lak á hjónarúmið og bleyjupakka fyrir nýbura. Planið var svo að baka hafrakex eftir að minn 2 ára færi í háttinn um kvöldið. Það varð lítið úr bakstrinum því ég var svo þreytt í mjóbakinu upp úr klukkan 7 að ég treysti mér varla til að standa. Ég lagðist því bara upp í sófa og fór að horfa á sjónvarpið meðan eiginmaðurinn straujaði skyrtur og ungbarnarúmföt.

Rétt upp úr kl 10 um kvöldið fann ég sting niður og fannst ég heyra smell. Í nokkrar mínútur þorði ég ekki að hreyfa mig og sagði manninum mínum að þetta hefði nú verið eitthvað undarlegur stingur. Það var svo ekki fyrr en ég stóð upp úr sófanum sem ég fann vatnið leka. Maðurinn minn stökk og náði í handklæði og rétti mér svo síma til að hringja í Kristbjörgu. Seinast hafði fæðingin líka byrjað með því að vatnið fór, ég hafði búið mig undir að núna yrði þetta öðruvísi og að reglulegar bylgjur myndu segja mér að ég væri komin af stað. Mér var því nokkuð brugðið. Kristbjörg kom, allt leit vel út og litla krílið loks skorðað.

Ég fór upp í rúm til að reyna að hvílast, því ég bjóst við að fljótlega færi allt að gerast, þannig var það síðast. Ég hlustaði á Hypnobirthing slökunina og valin lög af playlistanum. Ég náði að dotta smá. Hægt og rólega fóru bylgjurnar að gera vart við sig og ég tók brosandi á móti þeim með djúpri öndun. Á einhverjum tímapunkti fann ég að bylgjurnar voru orðnar of sterkar til að eg gæti tekið á móti þeim útaf liggjandi og fór á fjóra fætur. Um svipað leyti fór ég að hnippa í sofandi eiginmanninn, hann svaf í gegnum stunurnar frá mér. Hann ræsti Kristbjörgu í annað sinn, lagði hitapoka á mjóbakið sem var enn jafn þreytt og gaf mér fiðrildanudd (e. light touch massage). Ég tók aldrei tímann á milli hríða, hafði augun lokuð og lét mér líða vel í eigi heimi.

Þegar Kristbjörg kom bauð hún mér að fara í laugina sem ég þáði. Á leið minni inn í stofu vissi ég að ég myndi ganga fram hjá eldhúsklukkunni en mér fannst skipta miklu máli að vita ekki hvað klukkan væri. Ég vissi að það myndi ekki hafa góð áhrif á mig að komast að því hvort langt eða stutt væri síðan vatnið fór, annað hvort myndi ég upplifa að fæðingin væri að ganga hratt fyrir sig sem myndi gera mig órólega eða að ég upplifði að ég væri búin að vera lengi í fæðingu og myndi þá meðvitað fara að þreytast eða vorkenna sjálfri mér. Ég vissi semsagt ekkert á þessarri stundu hvort ég hefði legið uppi í rúmi í eina klukkustund eða sex. Tímaleysið hafði þjónað mér vel í síðustu fæðingu og ég vildi að það gerði það líka núna.

Vatnið var notalegt en það var ég að prófa í fyrsta skipti. Ég man ég hugsaði þegar ég fór ofan í laugina að þegar ég færi upp úr þá myndi barnið vera fætt og þessarri meðgöngu lokið. Mér fannst það að vissu leyti leiðinlegt því ég hafði notið mín á meðgöngunni. Ég dúaði og vaggaði í vatninu í bylgjunum og reyndi að nýta mér þyngdarleysið. Ég var einnig í dágóða stund að finna þægilegustu stellinguna, átti í einhverjum vandræðum með hvernig ég vildi hafa hnén meðan ég hallaði mér yfir brúnina á lauginni og var því á smá iði. Mér finnst eins og fljótlega eftir að ég fór ofan í laugina að það væri kominn þrýstingur niður í toppunum á bylgjunum og Kristbjörg hafði orð á því. Ég leyfði líkamanum að stjórna og ýtti ekki með. Mig grunar að Kristbjörgu hafi eitthvað verið farið að lengja eftir því að eitthvað meira gerðist og bað mig að snúa mér við svo hún gæti skoðað leghálsinn. Hún sagði að allt væri mjúkt en það væri brún á leghálsinum. Fyrir mér þýddi þetta að rembingurinn væri ekki tímabær og frekar að trufla, ég þyrfti að einbeita mér að því að opna betur. Ég ákvað að prófa að fara á klósettið en gat ekkert pissað. Mér til mikils léttis duttu bylgjurnar niður meðan ég var á klósettinu, það kom svona eins og pása. Ég heyrði að strákurinn minn var vaknaður og var að koma niður. Hann var mjög glaður þegar hann sá mig koma út af klósettinu enda hafði hann komið að mömmu og pabbarúmi auðu og vissi ekki alveg hvað var í gangi. Einhver reyndi að útskýra fyrir honum að mamma væri upptekin meðan ég fékk aðstoð við að komast aftur ofan í laugina. Að mamma væri í sundlaug inni í miðri stofu vakti sko heldur betur áhuga en hann skynjaði samt að það væri eitthvað sérstakt í gangi, hélt ró sinni og strauk mér nokkrum sinnum áður en hann var lokkaður inn í eldhús með ABT mjólk. Amma hans kom svo innan fárra mínútna og sótti hann.

Fljótlega fór allt af stað aftur. Ég ímyndaði mér að leghálsinn væri eins og lítil gúmmíteygja og að hún stækkaði og það teygðist á henni í hverri bylgju. Tilfinningin í líkamanum var einhvern veginn þannig. Ef ég fann að bylgjan var sterk fór ég að fnæsa eins og hestur til að hemja rembinginn. Ég vildi ekki rembast því mér fannst rembingurinn þreyta mig. Ég reyndi líka að vagga mjöðmunum, dúa í vatninu, hreyfa fæturna og vera á einhvers konar hækjum, það virtist hjálpa mér að vera á smá hreyfingu. Þetta var samt stutt stund, fæðingarskýrslan segir 10 mínútur. Skyndilega fann ég svo barnið bara næstum detta niður fæðingarveginn í einni hríð og kollinn þrýsta á spöngina. Síðast hafði ég verið lengi að mjaka barninu neðar og neðar og mér fannst þetta því vera að ganga vel og örugglega fyrir sig, þakkaði fyrir í hljóði og sagði ,,kollur’’ við manninn minn og Kristbjörgu.

Ég leyfði líkamanum að stjórna ferðinni í kollhríðunum, einbeitti mér að önduninni og sagði sjálfri mér að taka mér þann tíma sem ég þyrfti, hægt og ljúft myndi verða þægilegast. Ég tengdist barninu mjög vel þegar ég fann svona vel fyrir kollinum. Alltaf þegar ég upplifði að það gæti ekki teygst meira á mér kom næsta hríð og afsannaði það. ,,I am big’’ eins og Ina May segir. Að lokum fæddist kollurinn og svo allt barnið í næstu bylgju, fæðingarskýrslan segir að þetta hafi tekið 30 mínútur. Ég sneri mér við í lauginni, tók barnið mitt upp og í fangið. Þetta var strákur.

Ég fæddi fylgjuna í sófanum hálftíma seinna, á sama tíma og ég lagði drenginn minn á brjóst í fyrsta skipti. Spöngin var heil. Ég bað um að stóri strákurinn minn fengi að koma og hann mætti galvaskur og glaður og fannst afar spennandi að sjá þetta litla barn drekka mjólk hjá mömmu sinni. Pabbinn klippti svo á naflastrenginn og mamma og litla kríli sofnuðu vært í sófanum.

Fæðing Óskars

Ég var ólétt að mínu fyrsta barni og við stefndum á heimafæðingu. Meðgangan gekk vel og ég var heilsuhraust og leið vel allan tímann. Ég notaði tímann til að undirbúa mig vel. Ég las allar bækur um fæðingar sem ég komst í, horfði á bíómyndir um fæðingar, og mætti á öll námskeiðin sem í boði voru. Fór meira að segja á tvö brjóstagjafanámskeið með eiginmanninn í eftirdragi 🙂 Ég mætti líka í hvern einasta jóga tíma í næstum því 6 mánuði og lokahnykkurinn var svo hypnobirthing námskeið hjá Kristbjörgu ljósmóður. Ég var því orðin afar tilbúin þegar stóri dagurinn fór að nálgast.

Ég hafði það reyndar á tilfinningunni alla meðgönguna að ég myndi ganga fram yfir. Gerði eiginlega ráð fyrir því. Mætti t.d. í síðasta planaða hypnobirthing tímann þegar ég var komin 5 daga fram yfir. Þegar ég var komin rúma viku fram yfir þurfti Arney heimafæðingarljósmóðirin mín að byrja að ræða gangsetningu og tímabókanir í monitor upp á spítala, það er venjan. Að hafa gangsetninguna hangandi yfir mér síðustu dagana var afar erfitt því ég hafði eytt öllum tíma mínum í að undirbúa mig fyrir heimafæðingu og af því ég var búin að lesa mér svona mikið til þá vissi ég líka að tölfræðin segir að gangsetning auki líkur á alls konar vandræðum. Þessa síðustu viku viðurkenni ég því að mér varð í fyrsta skipti órótt á meðgöngunni og grét þungum tárum yfir því að eiga svo ekki að fá að upplifa fæðinguna eins og mig langaði og hafði stefnt að. Arney kom reglulega til mín í mæðraskoðun þessa síðustu daga og það sést í mæðraskránni minni hvað blóðþrýstingurinn hækkaði þessa daga. Merkilegt nokk þá lækkaði hann aftur þegar Arney hughreysti mig og sagði að hún myndi gera allt sem hún gæti fyrir mig og hún hefði ekki enn misst eina einustu konu í gangsetningu sem hafði viljað fæða heima. Ég var líka sett á laugardegi og Arney sagði að ég gæti vel afþakkað gangsetningu fram yfir helgi því konur eru ekki gangsettar nema á virkum dögum 🙂 Ég hafði aldrei áhyggjur af barninu mínu þó meðgangan væri orðin þetta löng, ég vissi einhvern veginn að því liði vel.

Ég reyndi samt ALLT sem átti hugsanlega að geta komið fæðingu af stað og veit ekkert hvort eitthvað af því virkaði.

Á þriðjudeginum fékk ég svakalega úthreinsun. Þetta voru svo ofsaleg iðrahljóð, að á milli klósettferða vissi ég ekki alveg hvort ég ætti að hlæja eða gráta. En það gerðist ekkert meira í framhaldi af því.

Ég mætti svo í síðasta meðgöngujógatímann minn á fimmtudeginum, gengin 41 viku og 5 daga. Ég átti bókað í monitor upp á spítala daginn eftir og vissi að barnið yrði að fæðast núna á allra næstu dögum. Þetta var yndislegur jógatími og það kom mér á óvart hvað mér leið enn vel í líkamanum, gengin næstum fullar 42 vikur. Eftir tímann kom ein ykkar til mín og sagði falleg orð við mig, orð sem ég man varla í dag hver voru, en ég þurfti svo að heyra ákkurat þá. Takk fyrir það. Um kvöldið var ég að fá nokkra samdrætti, eins og undanfarna daga. Ég fann engin óþægindi í líkamanum þegar þeir komu, vissi bara að þeir voru þarna því bumban mín varð svo hörð. Í hvert skipti sem ég varð vör við samdrátt strauk maðurinn minn mér yfir magann, það hafði orðið að venju hjá okkur á síðastliðnum vikum.

Um kvöldið horfðum við á Birth as we know it þar sem konur fæddu börn bara syndandi í hafinu með höfrungum og eitthvað álíka yndislegt meðan ég fékk nudd og strokur frá manninum mínum. Svo fórum við að sofa. Ég vaknaði rétt upp úr 1 eftir miðnætti og þurfti á klósettið. Þegar ég var að leggjast aftur upp í rúm þá heyri ég smell og hoppa fram úr því ég held fyrst að þetta séu meiri iðrahljóð. Ég næ ekki að taka nema nokkur skref áleiðis á klósettið þegar ég finn heita gusu milli læranna. “Gestur, vatnið er farið”, segi ég við sofandi eiginmanninn. Gestur hringir í Arneyju ljósmóður meðan ég finn eitthvað út úr því hvað ég á gera við sjálfa mig og þessa bleytu. Arney kemur og athugar hvort barnið sé ekki örugglega vel skorðað sem það og var. Arney segir okkur að reyna að sofa meira, það sé líklegast ekkert að fara að gerast bráðlega og kveður í bili. Ég set hypnobirthing slökunina mína í gang og við leggjumst saman upp í sófa. Eiginmaðurinn byrjar fljótlega að dotta og ég slæ til hans, finnst hann kannski einum of afslappaður og auk þess voru hljóðin í honum að trufla mig. Eftir á segir hann mér að ég hafi hlustað á slökunina að minnsta kosti fjórum sinnum.

Ég man næst eftir mér hálfliggjandi uppi í rúmi með stóran kodda bak við mig. Það komu nokkrar öldur og ég einbeitti mér 100% að önduninni. Öndunin sem ég lærði á hypnobirthing námskeiðinu hentaði mér best þarna en hún er mjög svipuð hafönduninni. Í hápunkti öldunnar kipptist ég samt alltaf við, sama hversu djúpt ég andaði. Þegar aldan var byrjuð að fjara út þá fann ég endorfín flæða niður eftir líkamanum og það var yndisleg tilfinning. Ég man mig hlakkaði til endorfín-rússins í lok hverrar öldu. Ég opnaði held ég aldrei augun, leit ekkert á klukku og hugsaði enga meðvitaða hugsun. Ég held ég hafi verið hálfsofandi.

Næst þegar ég man eftir mér þá er ég nakin, nema í baðslopp mannsins míns, á fjórum fótum á stofugólfinu með undirlag undir mér. Mig grunar að ég hafi verið að koma af klósettinu. “Gestur, það blæðir”, segi ég við sofandi eiginmanninn. Hann hoppar ringlaður fram úr og bregður eflaust aðeins þegar hann sér blóð á undirlaginu. Hann hringir aftur í Arneyju en hún virðist ekkert alltof viss um að eitthvað sé farið að gerast hjá okkur. Vill samt koma fyrst það er blæðing. Þarna byrja ég að rugga mjöðmunum og í raun öllum líkamanum með hverri öldu og stynja djúpt. Ég vissi ekki af hverju það blæddi en ég hafði samt engar áhyggjur og leyfði öldunum að koma og fara eins og þær vildu. Ég held að jákvæða staðhæfingin: “I will calmly meet whatever turn my birthing may take” hafi hljómað í undirmeðvitundinni. Þegar Arney kemur segir hún: “Hér er allt að gerast!” en ég hugsa að hún sé nú örugglega að misskilja þetta og oftúlka þessar háværu stunur mínar. Ég hafði nefnilega alltaf heyrt að það myndi ekkert fara fram hjá mér þegar ég færi af stað og ég var ennþá að bíða eftir því augnabliki. Útaf blæðingunni gerði Arney innri skoðun og ég var komin með rúma 8 í útvíkkun. Blæðingin var líklegast frá leghálsinum því hann var að opna sig svo hratt. Við þessar yfirlýsingar átta ég mig loks á því að kannski sé ég komin í fæðingu núna.

Tímaskyn mitt var ekkert en seinna komst ég að því að klukkan var hálffimm um nóttina þegar Gestur hringdi í seinna skiptið og þegar Arney mætti voru 3-4 mínútur á milli. Gestur hafði tekið tímann án þess að láta mig vita.

Ég varð lítið vör við það sem var að gerast í kringum mig á þessum tíma. Veit t.d. bara að Arney er þarna því ég heyri hana tala, ég leit aldrei á hana held ég. Ég man svo eftir að hafa heyrt í henni í símanum að hringja í Kristbjörgu ljósmóður og biðja hana að koma og aðstoða. Ég man eftir að hafa heyrt: “Viltu koma og aðstoða í fæðingu sem er samt að verða búin?” Er að verða búin?, hugsa ég, hvað meinar hún, þessi fæðing var að byrja rétt áðan! Gestur og Arney byrja að blása í laugina í snarhasti. Ég man hvað mér líkaði rafmagnspumpan vel því það voru svona drunur í henni og það var þægilegt að stynja með þessum drunum. Þegar laugin er komin upp á mitt stofugólfið áttar einhver sig samt á því að barnið verði eflaust komið í heiminn áður en laugin verði orðin full af vatni. Einhver reynir að spyrja mig hvort mér sé sama eða hvort ég vilji samt að þau láti renna í laugina. Þetta var of flókin spurning til að ég gæti svarað henni 🙂

Arney hvetur mig til að reyna að fara á klósettið og pissa. Ég fer en get alls ekki pissað. Er líka svo hrædd um að aldan komi meðan ég sit á klósettinu en ég vil taka á móti henni á fjórum fótum. Ég opna baðhurðina, gef einhverja skipun um að fá dýnu á gólfið beint fyrir framan hurðina og fæ ósk mína uppfyllta. Gruna að þar hafi eiginmaðurinn verið að verki og áralöng reynsla hans í að átta sig á óskýrum óskum mínum og löngunum hafi þarna borið mikinn ávöxt. Áður en ég læt mig hrynja á dýnuna sé ég Kristbjörgu brosa til mín. Hún var semsagt mætt á svæðið.

Ég hef afar litla stjórn á líkamanum á þessum tímapunkti. Ég gat til dæmis ekki pissað í klósettið en þegar ég lá þarna á dýnunni þá pissaði líkaminn í bindið sem ég var svo heppilega með í buxunum. Ég hafði enga stjórn á þessu. Ég reyndi að láta einhvern vita að mér hefði tekist að pissa. Kannski skildi mig enginn.

Svo kom þessi svokallaða rembingsþörf skyndilega með einni öldu. Ég hafði lesið ógrynni af fæðingarsögum og þar með lýsingum á þessum rembing en ég vissi fyrst ekkert hvað var að gerast. Kannski var mín upplifun eitthvað öðruvísi en eftir að hafa upplifað þetta sjálfri finnst mér rembingsþörf mjög slæmt orð yfir þetta fyrirbæri. Þetta var engin ‘þörf’, svona eins og þegar maður þarf að klóra sér eða þarf að kúka. Þess í stað byrjaði líkaminn bara að æla barninu út. Þetta var í alvörunni alveg eins og að liggja yfir klósettskálinni með ælupest, nema það var verið að æla niður en ekki upp. Ég upplifði meira að segja sömu kippina í líkamanum. Ég myndi lýsa minni upplifun sem ósjálfráðu niðurkasti, miklu frekar en rembingsþörf.

Smátt og smátt öðlaðist ég svo stjórn á ákafanum og þetta varð minna krampakennt. Ég lét samt líkamann alfarið um að ýta barninu út, ég rembdist ekki neitt sjálf. Það eina sem ég gerði var að slaka á og fylgja eftir. Ég vissi ekki hvort mér myndi takast það fyrir fram því þegar maður heyrir um fæðingar eða sér atriði í sjónvarpinu þá er þetta alltaf svaka hasar og átök. Í hypnobirthing bókinni stendur að konur í dái hafi eignast börn án þess að nokkur hafi tekið eftir eða þurft að aðstoða og sú setning seldi mér svolítið þá hugmynd um að líkaminn væri fær um þetta sjálfur, og ég þyrfti ekki að láta hvetja mig áfram og telja upp á 10 og verða rauð í framan við að ýta svona eins og maður sér í sjónvarpinu. Mér leið líka best þegar ég var sem minnst að skipta mér af því sem var að gerast.

Til að gera langa sögu stutta þá held ég að ég hafi verið að ýta barninu út í 2 og hálfa klukkustund á fjórum fótum í sófanum. Aðrar stellingar virkuðu ekki. Þegar á leið byrjaði ég að halla mér yfir arminn á sófanum með hrúgu af púðum undir. Ég fékk góða hvíld milli hríða. Ég drakk kókosvatn gegnum rör, hlustaði á Grace diskinn og fékk kaldan þvottaklút á ennið. Ég man að ég sá sólina gægjast inn undan gluggatjöldunum og fannst það afar skrýtið því ég hélt það væri mið nótt. Arney segir á einum tímapunkti að ég geti örugglega fundið kollinn og ég prófa að þreifa fyrir honum. Það var ótrúlegt að finna fyrir mjúkum kollinum rétt fyrir innan spöngina; að snerta barnið sitt í fyrsta skipti.

Erfiðustu mínúturnar voru þegar höfuðið var að koma út. Þrjú skref áfram með hverri hríð, tvö skref til baka í hvíldinni. Ég passaði mig að drífa þetta ekki áfram og ýtti eins lítið og ég gat með. Þetta tók þó furðanlega fljótt af og það var ÓLÝSANLEGUR léttir þegar höfuðið var allt fætt og þrýstingurinn næstum hvarf. Axlirnar og líkaminn allur rann út í næstu hríð, Arney losaði í snöggheitum strenginn sem var tvívafinn um hálsinn og rétti mér svo barnið mitt upp milli fóta mér. Hann var sleipur og kaldur og ég tók hann í fangið. Tíu fingur og tíu tær. Þetta var fullkominn strákur sem öskraði hressilega.

Við foreldrarnir kysstumst og hlógum og dáðumst að litla kraftaverkinu okkar. Mér fannst þetta allt saman svo ótrúlegt og óraunverulegt. Hann fór svo strax á brjóst og tók vel. Fylgjan kom svo ekki fyrr en rúmum klukkutíma síðar eftir að það var búið að skilja á milli og þeir feðgar komnir upp í rúm að kúra. Ég slóst þá í hópinn og við kúrðum saman, öll fjölskyldan, í rúminu okkar. Spöngin var heil og þetta hafði ekki tekið nema rétt rúma 7 tíma frá því ég missti vatnið.

Ég held að það fyrsta sem ég hafi sagt við ljósmæðurnar eftir að ég fékk strákinn minn í fangið var: Þetta var bara eiginlega ekkert vont.

Það er þrennt sem ég þakka hvað mest fyrir hversu vel gekk. Fyrst er það undirbúningurinn en vegna hans vissi ég hvers ég mætti vænta og fátt sem kom mér á óvart. Ég öðlaðist einnig traust og trú á því að fæðing væri náttúrulegur og eðlilegur atburður og að líkaminn vissi alveg hvað hann væri að gera. Ég þakka einnig heilaleysinu og því hvernig ég náði að slökkva á meðvituðum hugsunum svo þær væru ekki að trufla framgang fæðingarinnar. Mig langar einnig að gerast svo djörf að hvetja ykkur til að sleppa því líka að taka tímann á hríðunum. Vatnið sýður ekki ef þú starir á pottinn. Fáðu fæðingarfélagann til að fylgjast með ef þetta skiptir þig máli. Að lokum: taktu þér tímann sem þú þarft til að ýta barninu út. Það er örugglega ekkert sem liggur á. Það er nefnilega tvenns konar tími í heiminum. Það eru dagarnir og klukkustundirnar sem við mælum á klukkunni og svo er það tíminn sem það tekur ferskjuna að þroskast á trénu.