Hneta kom í heiminn

Það var ekki eftir neinu að bíða, ég var gengin 40 vikur og 6 daga og bað ljósuna um að hreyfa við belgjum, þetta barn var meira en velkomið í heiminn. Þetta var þriðja barnið mitt, ég gekk vel og lengi með hin tvö líka, lengst 41 viku og 6 daga, og fannst því ekkert að vanbúnaði að reyna að koma þessu af stað. Ég ætlaði að eiga heima, alveg eins og í tvö fyrri skiptin.

Eftir ljósmæðraheimsóknina bauð ég 5 ára stráknum mínum í göngutúr í skammdeginu, ég hugsaði með mér að þetta gætu vel verið síðustu stundirnar áður en nýtt barn bættist í fjölskylduna. Hann vildi fara langt en ég var hikandi, vildi spara orkuna aðeins. Leið samt vel, hafði enga fyrirvaraverki eða seiðing og samkvæmt Kristbjörgu var ég með rétt um 2-3 í útvíkkun. Ég hafði samt einhverja tilfinningu sem ég vissi ekki alveg hvort ég þyrði að hlusta á. Við keyptum nýburableyjur og enduðum þennan göngutúr á því að labba óvart inn á opnunarhóf á Lífsgæðasetri St. Jó og bárum þar forsetann augum áður en við rákumst fyrir slysni á Kristbjörgu heimafæðingarljósmóðurina mína í eigin persónu þarna á staðnum og aðra ljósmóður sem var með henni. Sú ljósmóðir fékk að þreifa bumbuna þarna á ganginum en þrátt fyrir það var enn óljóst hvort barnið væri búið að skorða sig.

Ég vaknaði kl 9 næsta morgun og hugsaði með mér að ég þyrfti að fara að velta mér og þessari stóru bumbu fram úr þegar ég fann örlitla bleytutilfinningu. Fyrri fæðingarnar tvær hófust báðar með því að ég missi vatnið og því taldi ég mig vita hvað væri að gerast og stökk fram úr rúminu eins og engispretta. Það var eins gott því það kom risa gusa niður á milli fótanna á mér, ég hefði getað verið að leika í Hollywood mynd þetta var svo mikið vatn sem bara gusaðist niður og ætlaði engan endi að taka. Ég heyri ennþá hljóðið í höfðinu á mér. Fssssssssss. Svona hafði ég aldrei upplifað, í fyrri skiptin tvö var þetta bara pollur sem kom. Ég tók upp símann, vissi að strákarnir mínir tveir væru komnir í skóla og leikskóla en vissi ekki hvar maðurinn minn var. Hann svaraði og ég sagði um hæl: „Vatnið er farið“. Ég heyrði hann brosa í símann. Sem betur fer var hann bara inni í stofu og kom upp til mín þar sem ég stóð í stöðuvatni á svefnherbergisgólfinu. Það þurfti tvö stór baðhandklæði til að þurrka herlegheitin upp! Ég lagðist aftur upp í rúm og við hringdum í Kristbjörgu. Ekkert barnanna minna hefur skorðað sig og þetta barn var heldur ekki skorðað. Kristbjörg dreif sig af stað til okkar til að hlusta á hjartsláttinn sem var sterkur og góður og enn var barnið ekki skorðað.

Kristbjörg hvatti mig til að liggja bara og hvíla mig. Ég fór á klósettið og lagðist svo upp í rúm, kveikti á kerti og hlustaði á fallega tónlist. Ég var mjög þakklát fyrir að vera bara í eigin rúmi og fá ljósmóðurina til mín. Kristbjörg kvaddi fljótt, átti von á nokkrum til sín í mæðravernd fyrir hádegið og að við ættum bara að heyra í henni. Ég dorma og hlusta á Spotify playlistann og sem ég hafði sett saman og slökun úr Hypnobirthing. Ég var með hitapoka og maðurin minn strauk mér af og til um bakið. Fullt af hugsunum þutu gegnum höfuðið á mér, ég var spennt og óþreyjufull og vonaði að allt myndi ganga vel og ég hugsaði um hvenær barnið myndi fæðast og hvernig dagurinn yrði og ég kæmist ekki í hádegistímann í jóga og alls konar skrýtnar hugsanir komu fram. Það var stutt í kvíðann en ég hafði fengið svo mikinn jákvæðan boðskap í jóga og heilaþvegið sjálfa mig með jákvæðum staðhæfingum og fæðingarsögum að kvíðinn var kvaddur í hvert sinn sem hann bankaði upp á. Ég var samt ekki komin með neinar reglulegar bylgjur.

Að lokum tek ég af mér noise-cancellation heyrnartólin til að segja bara eitt orð við manninn minn: Kristbjörg. Hann segir að Kristbjörg sé á leiðinni, hann sé nú þegar búinn að hringja í hana. Hann sagði mér seinna að hann hefði heyrt mig gefa frá mér kunnugleg hljóð sem urðu til þess að hann ákvað að kalla Kristbjörgu til okkar án þess að trufla mig. Ég hafði greinilega bara mallað rólega í gang og klukkan er um 12 á hádegi þegar Kristbjörg kemur. Ég tók aldrei tímann á milli hríða og vissi ekkert hvað klukkan var, einbeitti mér að því að slaka á og hafa höfuðið á réttum stað.

Ég veit að Kristbjörg er komin því hún færir heyrnartólin mín og segir: „Ef þú vilt komast í vatnið, þá þarftu að koma núna.“ Ha?, hugsa ég, skil ekki af hverju hún segir þetta svona og spyr hvort laugin sé tilbúin. Jú, allt tilbúið svo ég gríp tækifærið milli bylgjanna og næstum hleyp niður stigann og inn í stofu. Ég fæ aðstoð við að klifra ofan í laugina og svo ligg ég bara í vatninu með heyrnartólin mín og augnskýlu, sé ekkert og heyri ekkert og veit ekkert hvað er að gerast í kringum mig. Af og til segi ég „Næsta lag“, en þá var Spotify playlistinn minn löngu búinn og nú var Spotify að spila bara eitthvað svipað. Einhver hélt á símanum mínum og ýtti á næsta lag. Maðurinn minn rétti mér kaldan þvottaklút sem ég hélt á enninu og þrýsti á augun í hverri bylgju. Hann var líka með vatnsglas með röri og kókosvatn með röri. Alveg hreint frábær þjónusta hjá mínu fæðingarteymi!

Ég byrja að fá rembingsþörf í toppunum á bylgjunum en það var kunnugleg tilfinning úr síðustu fæðingu. Af því rembingurinn var bara í toppunum en ekki alla bylgjuna, þóttist ég viss um að útvíkkun væri ekki lokið og rembingurinn því til lítils nema þá að þreyta mig. Hérna er öndunin ómetanleg og í toppunum keppist ég við að halda niðri ákefðinni í rembingnum. Ég hugsa að ég þurfi að drífa mig að klára útvíkkunina svo ég haldi orkunni. Ég segi: „Vil ekki rembast“. Ég get ekki sagt neitt meira, það er svo erfitt fyrir mig að tala í fæðingu. Kristbjörg svarar og segir að ég sé að standa mig vel en ég held að hún og allir viðstaddir haldi að ég sé komin lengra en ég er. Reynslan úr fyrri fæðingum sagði mér að núna vantaði mig tilfinninguna fyrir kollinum í grindinni, svona eins og þrýstingur á beinin í grindinni, það er þá sem rembingurinn er að skila einhverju fyrir mig, veit ég af fyrri reynslu. Ef beinin eru ekki að ýtast í sundur þá er þessi rembingur ekki að gera neitt. Ég vil leiðrétta þennan misskilning og bið því um innri skoðun ofan í vatninu. Það var auðveldara að fá innri skoðun en að ég færi að útskýra eitthvað að ég héldi að rembingur væri ótímabær, það er svo erfitt að tala. Varðandi innri skoðunina þarna segir Kristbjörg: „Ef þú vilt, allt á þínum forsendum“. Þetta var eina innri skoðunin í allri þessari fæðingu og hún var bara gerð af því ég bað um hana. Kristbjörg segir að það sé töluvert eftir og að það sé þykk og mikil brún á leghálsinum. Gott, hugsaði ég því ég fékk grun minn staðfestan: útvíkkun var ekki lokið. Rosalega er ég fegin að hún sagði enga tölu við mig. Ef ég hefði heyrt 5 þá hefði ég farið að gráta. 

Ég ákvað að reyna eitthvað annað til að klára útvíkkun svo ég fór á klósettið. Ekki gat ég pissað og ekkert gerðist en rembingsþörfin minnkaði örlítið, kannski bara af því ég stóð upp og hreyfði mig. Ég var algjörlega í eigin heimi og leyfði mér að sökkva djúpt inn í sjálfa mig. Líkaminn minn myndi vita hvað ég ætti að gera til að klára þessa útvíkkun.

Ef einhver hefði sagt mér að ég myndi geta staðið og tekið á móti bylgjunum þannig i fæðingu þá hefði ég hlegið. Samt var það ákkurat það sem líkamanum fannst góð hugmynd á þessum tíma og ég hlustaði á likamann. Það var hvort sem er svo erfitt að klifra upp í laugina aftur. Svo ég stóð upprétt á stofugólfinu og notaði kantinn á lauginni mér til stuðnings. Enda kláraðist útvíkkunin þarna á kannski 20 mínútum. Fyrir mér voru þetta svona 2 til 3 bylgjur. Kannski voru þær miklu fleiri í rauninni, ég hafði ekki hugmynd um hversu langt var á milli og það var gott. Tímaleysið þjónaði mér vel. Það blæddi víst vel þarna, ég fann blóð leka, en kannski var þetta legvatn? Ég er ekki viss. Ég var ekki vitund hrædd, ég hugsaði bara Aaaahhhhh. Þetta hafði verið svipað í fyrstu fæðingunni minni og blóð þýddi að leghálsinn var að opna sig hratt. 

Svo fann ég skyndilega breytingu á bylgjunum og nú var rembingurinn mættur. Rosalega var það góð tilfinning, ég vissi að það erfiðasta var að baki. Ég kastaði mér á 4 fætur á pullu á gólfinu og veslings Kristbjörg og ljósmóðurneminn að bisa við að koma undirlagi undir mig. Ég, sem rétt áðan hafði staðið eins og valkyrja, sagði nú: Ég get ekki hreyft mig og það var hverju orði sannara. Ég var samt orðin mega peppuð og bað manninn minn um að færa mér orkustykki úr frystinum sem ég hafði búið til svo ég hefði nú orku fyrir þetta og það alveg hlakkaði í mér. Ég var svo peppuð þarna á pullunni með orkustykkið mitt að ég man ég hugsaði að nú væri HÚN að koma og mér fannst góð hugmynd að skíra hana Hnetu (örugglega innblásin af orkustykkinu). Við vissum ekki kynið sko, þarna bara rauk það upp í kollinn á mér að þetta barn væri stelpa.

Stærsti munurinn á fyrstu fæðingunni minni og seinni tveimur er ákkurat á þessum punkti en í fyrsta skipti var ég heillengi að koma höfðinu niður grindina. Það tók alveg 2 klukkustundir í fyrstu fæðingu en nú gerðist þetta bara í einum rembing og þá er höfuðið komið á spöngina. Ég vildi gera allt til að forðast að rifna svo ‘ljúflega’ varð mitt mottó. Einn rembingur og ekkert höfuð sást en ég fann það hreyfast neðar inni í mér. Svo finn ég höfuðið renna upp þegar bylgjunni lýkur. Annar rembingur og höfuðið færist niður og sést. Svo rennur það aftur upp og hverfur. Þriðji rembingur og höfuðið kemur niður og hálft út og stoppar þar. Þarna er eldhringurinn og mig langar mest að klifra út úr eigin skinni. Ég reyndi mitt allra besta til að hægja á rembingnum í þessu ferli, ljúflega, ljúflega, ljúflega, þú ert ekki að flýta þér, vandaðu þig, ómaði í kollinum á mér og það þurfti allt sem ég átti til hemja kraftinn. Eftir bylgjuna slakar á sviðanum því höfuðið færist aftur aðeins inn. Næsta bylgja kemur fljótt af miklum krafti og höfuðið skýst út og ég man eftir að hafa beðið í nokkrar mínútur með heitt höfuðið milli læranna á mér, vitandi það að bara ein bylgja væri eftir af þessari fæðingu. Það er mjög sérstök tilfinning að vera með heilt höfuð standandi út úr sér, ég þorði ekki að hreyfa mig, beið og beið í það sem virtist heil eilífð.

Hún fæðist svo beint á pulluna, bara svona dettur næstum út. Ég sest á hækjur mér og horfi á þetta barn og já það var stelpa! Ég safna orku til að lyfta henni upp í fangið og hlæ og kyssi manninn minn. Ég þurfti í alvöru að safna orku, ég skalf einhvern veginn og hló og grét. Hún var með dökkt hár og þakin fósturfitu á höfði og baki, hin börnin mín fæddust nánast alveg laus við fósturfitu og með gegnsætt hár. Hún var grá eins og öll börn eru þegar þau fæðast og hún hafði líka kúkað í fæðingunni, það var svartur kúkur á henni og á fótunum á mér. Þetta var því ágætlega subbulegt allt saman býst ég við en ég var upptekin við annað og ljósmæðurnar þessar elskur þrifu allt og gerðu fínt 🙂 Pulluna góðu (sem ljósmæðurnar þrifu einhvern veginn) á ég enn og tek fram á vorin því þetta er pulla sem breytir pallettu í garðhúsgagn.

Við færum okkur svo upp í sófa og ég set litlu stelpuna á brjóst. Fylgjan kemur fljótlega, alveg áreynslulaust. Strákarnir mínir koma svo heim, þeir voru sóttir í skólann. Þeir klippa naflastrenginn sem þeir sögðu eftir á að hefði verið mjög erfitt því hann var svo seigur. 

Ég grínaðist með það við Kristbjörgu að ég hefði svo sannarlega fætt þetta barn á skrifstofutíma, missti vatnið klukkan 9 og barnið var fætt fyrir 4. Ekkert næturbrölt á mér þetta skiptið. Það þurfti heldur ekkert að sauma og sængurlegan gekk eins og í sögu. Ég var ekkert að drífa mig af stað, eyddi örugglega heilum mánuði uppi í sófa með lillunni minni.

Ástarjátning föðurs

Motherhood

Að kvöldi bjartrar sumarnætur sátum með vinum í sófanum og deildum berjate-i af tegundinni „Motherhood“ sem rímaði fyllilega við andrúmsloft liðinna mánaða. Í þeim fjögurra manna hópi sem stóð að te-supplinu voru tvær konur sem báru barn undir belti, þó svo að í tilviki annarrar þeirra væru þær upplýsingar ekki orðnar opinberar og voru umræðurnar í anda þess. Eftir að vinir voru kvaddir seint kvölds mætti mér alvarlegur svipur á andliti Katerynu – „Matti, þetta er byrjað“. Samdrættir voru þó vægir og langt leið á milli þeirra og við sem útskrifuð vorum úr hvorki fleiri né færri en fjórum fæðingarnámskeiðum og parameðgöngujógakvöldi vissum að ekki var tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu. Vaknað var seinna þá nóttina og sífellt jukust verkirnir og ég fékk tækifæri til að sýna hve vel ég hafði fylgst með á áðurnefndum námskeiðum. Nótt þessi rennur mér seint úr minni en hún einkenndist af haf-öndun, köldum þvottapokum á enni og heitum bakstri á mjóbakið- sem ilmaði af poppkorni sem rekja mátti til helsta tilgangs örbylgjuofnsins þaðan að. Sem sprenglærðir akademíkar í fræðum ljósmæðra, töldum við okkur hafa allar forsendur til þess að bruna upp á fæðingardeild á Akranesi þegar komið var undir morgun, enda ekki nema 3-4 mínútur á milli samdrátta sem hver fyrri sig entist í um 90 sekúndur. Ljósmóðirinn sem rætt var við í símann þegar lagt var af stað var ekki eins sannfærð og við um að tíminn væri kominn en sagði okkur þó velkomin. Samdrættirnir hættu nánast alfarið á meðan á keyrslunni stóð – sem þó var lengri en vonir stóðu til vegna þess að Hvalfjarðargöngin voru lokuð vegna framkvæmda og stressaðir verðandi foreldrar neyddust til að taka rómantískan rúnt um Hvalfjörðinn á leiðinni. Eftir stutta skoðun frá ljósmóður vorum við send heim að nýju, vonsvikin en þó staðráðin í því að mæta áskorunum í þessu ferli af bjartsýni og jákvæðni.

Ólýsanlega falleg

Sagt hefur verið að óléttar konur sem langt eru komnar beri með sér einskonar fegurðarljóma (e. glow). Í háði hafa konur í þeirri stöðu bent á ýmis einkenni óléttu sem vart teljast samræmast hefðbundnum hugmyndum um fegurð kvenna. Eftir þá reynslu að fylgjast með Katerynu í gegnum 41 vikna óléttu, því ferli að veita barninu líf og fæða það í heiminn að mér viðstuddum get ég með sanni sagt mig meðal þeirra sem tala um fegurðarljómann. Ekkert magn af maskara, meiki, púðri eða varalit, enginn þröngur kjóll eða glitrandi hælaskór, engin litun og engin plokkun hafa nokkurn tíma ljáð konu jafn ólýsanlega fegurð og fæðing Nadíu ljáði Katerynu. Það er nefnilega þannig að engin hugsanleg athöfn er jafn náttúrulega kvenleg og einmitt sú. Með alvarlegan og staðráðin svip á dauðþreyttu andlitinu lá hún í rúminu og vann sig í gegnum hríð eftir hríð af stakri einbeitingu, með risastóra bumbuna og svitann lekandi af vöngum sínum – fullkomin fegurðardís sem stuttu síðar varð mamma barnsins míns.

„Ég get ekki meira“

Dagarnir og næturnar sem fylgdu sýndust saman renna eins og þoka við sjónarrönd á hafi úti. Tíminn einkenndist af skemmtilegu spjalli okkar hjónanna á milli, stöku bíómynd sem reglulega var sett á pásu þegar samdrættir létu á sér bera og af tilraunum okkar til að njóta þessarar mögnuð vegferðar sem fyrir okkur stóð. Á tímum máttum við gleyma því verkefni sem framundan var, og samdrættirnir einungis til þess fallnir að trufla okkur við að fylgjast með afdrifum Jennifer Lopez í gervi viðskiptakvendis eða annars sem fyrir bar á sjónvarsskjánum. Á öðrum stundum mátti hvorugt okkar mæla af einbeitingu við að komast yfir sársaukann sem tíðum samdráttum fylgdi – ég í aukahlutverk við að lina þjáningar aðalhetjunnar, Katerynu – sem af stórkostlegum innri styrk sínum sigraðist á hverjum samdrættinum á fætur öðrum. Ég hef aldrei efast um styrk hennar og göfgi en á þessum tíma gat ég vart hamið aðdáun mína og lotningu fyrir þeirri stórkostlegu konu sem konan mín hefur að geyma. Það var því með öllu ljóst hvað koma skyldi á aðfaranótt Sunnudags, þegar hún þrýsti af alefli milli samanbitinna tanna sinna eftirfarandi setningu: „Ég get ekki meira, Matti.“ Stuttu áður en þangað var komið höfðum við átt samtal við aðra ósannfærða ljósmóður á Akranesspítala sem ekki taldi tilefni til athafna í ljósi þess hve stuttan tíma Kateryna hafði verið vakandi með svo tíða samdrætti. Við héldum af stað og í þetta skiptið voru samdrættirnir engu minni eða færri þegar í bílinn var komið. Bílferðin var sem allra óþæginlegust – skyndilega virtist leiðin til Akraness engu styttri en til Hornafjarðar og til baka. Ekki bætti það úr skák þegar Katerynu tilkynnti mér að verkir sínir höfðu nú komist á annað skref, svokallaðar rembingshríðar sem sannarlega veitti mér tilefni til að rjúfa þann snefil af innri kyrrð sem eftir var í iðrum mínum og kalla fram í huga mér vofu ofsakenndar örvæntingar. Af stakri tillitsemi við aðstæður takmarkaði ég þó útrás þessarar örvæntingar við aukin hraðakstur og tíðari óumbeðnar athugasemdir til Katerynu um að allt væri í lagi og að við kæmum brátt á spítalann. Eftir u.þ.b. 1874 km akstur frá Mosfellsbæ til Akraness komum við að læstum dyrum Heilbrigðisstofnunnar Vesturlands. Ég renndi fingrunum ítrekað yfir allar mögulegar bjöllur sem finna mátti við innganginn, ekki ósvipað því hátterni sem haft var við þegar gert var dyraat í Breiðholtinu hér á árum áður. Eftir stutta könnun ljósmóður var haldið til fæðingarstofu þá þegar – barnið var að koma núna, strax.

Toppurinn fjarlægður

Það höfðu einungis liðið um 5 mínútur eftir að Kateryna hafði komið sér fyrir á fæðingarrúminu þegar henni var bent á að e.t.v. væri réttast að hún skyldi fjarlægja toppinn sinn – svo leggja mætti barnið beint á brjóst þegar það kæmi. Skilaboð þessi komu báðum verðandi foreldrum í opna skjöldu þar sem þau færðu til raunveruleikans það merkilega atferli sem var að eiga sér stað. Biðtíminn eftir barninu frá því komið var upp á fæðingardeild var svipaður og eftir 16 tommu pítsu frá Dómínós á föstudagskvöldi – Nadía fæddist ca. 25 mínútum eftir komu á spítalann. Að vera vitni af komu hennar í heiminn er merkilegasta hlutskipti mitt í lífinu til þessa. Í einni hríð, eftir að kollurinn kom í ljós, skaust hún út í sigurkufli. Ég horfði slímugan, grábrúnan, pokann springa með látum er hann snerti rúmmið og eftir lá líflaust barnið á maganum, þakið eigin hægðum. Tvær skelfilegar sekúndur liðu uns lítil lungu drógu sinn fyrsta andardrátt og rödd þess ómaði um eyru stoltra foreldra í allra fyrsta sinn. Yfirþyrmandi léttir skók líkama minn og sál þegar ég sá fullfrískt barnið mitt í örmum fullfrískrar konunnar minnar. Þessu var lokið og á sama tíma var það rétt að byrja.

Dramatíkin

Ýmsu hefur verið haldið fram um foreldrahlutverkið sem ég hef ekki samsvarað við mína reynslu. Eitt er að þó að sem rétt er, enda eflaust með augljósari ábendingum sem verðandi foreldrar fá gjarnan, en það er að hlutskipti þetta er engu líkt. Þrátt fyrir að teljast með dramatískari persónuleikum í flestum félagslegum hópum í mínu umhverfi hefur það ekki komið fyrir mig fyrr en núna að tár streyma niður andlitið af einskærri hamingju. Þegar þessi orð eru skrifuð er Nadía 2 mánaða gömul og enn þann dag í dag kemur það fyrir að hnútur kemur í magann og gæsahúð myndast á örmum mér af þakklætinu fyrir þá staðreynd eina að tilvist hennar sé staðreynd. Í augum hennar speglast einskært sakleysi sem eru mér áminning um þá fegurð sem fyrirfinnst í heiminum. Ekkert gerir mig jafn óstöðvandi í eigin augum og þegar sár grátur hennar víkur fyrir svefni vegna vögguvísu sem kemur frá vörum minum. Nadía hefur hjálpað mér að ná hæðum á lífsins leið sem ég voru mér að öllu leyti ókunnugar áður fyrr. Geislandi bros hennar eða sár grátur, spyrjandi augnaráð eða rólegur andardráttur svefnsins eru sem vörður í vegferð að einskærri hamingju sem til er kominn fyrir tilstilli nýrrar tilfinningar í hjarta mér. Það er óbeisluð, skilyrðislaus, yfirþyrmandi ást.

Matthías nýbakaður faðir
Matthías, Kateryna og Nadia litla

Hypnofæðing Dagmar

Kæru konur – verðandi mæður.

Mig langar að deila með ykkur fæðingarsögunni minni af okkar öðru barni. Þessi fæðing var svo mögnuð upplifun og þess vegna er það skylda mín að miðla henni til ykkar í þeirri von um að þið finnið hvatningu og hugrekki til að takast á við þetta allra stærsta verkefni okkar kvenna – að koma barni í heiminn. Með fyrra barn gekk ég 14 daga framyfir settan dag og því sett í gang með öllum þeim ofsa og stjórnleysi sem því fylgir – mér fannst það erfitt. Núna þremur árum síðar var ég gengin 5 daga framyfir settan dag og aðeins nokkrir dagar í jól. Sökum yfirvofandi jólafrís þá var fæðingardeildin búin að bóka fyrir mig gangsetningu daginn fyrir gamlársdag. Allar frumur líkamans herptust saman við þá tilhugsun og ég þráði ekkert heitar en að þetta færi af stað af náttúrunnar hendi. Ég biðlaði til minnar yndislegu ljósmóður á fæðingardeildinni á Akranesi – Hafdísar Rúnarsdóttur að gefa mér nálastungur þennan fallega eftirmiðdag í desember. Ég hafði verið með samdrætti nánast alla meðgönguna og sérstaklega er leið á. Barnið var búið að skorða sig langt niður í grindina og ég var heldur betur tilbúin í þetta verkefni. Á báðum meðgöngum var ég í yogatímum hjá Auði Bjarnadóttur og hennar gyðjum og haföndunin var fyrir löngu orðinn hluti af sál minni og líkama. Mér hafði nýverið áskotnast bók um Hypnobirthing sem ég las í einum rykk en þar opnaðist mér alveg ný sýn og skilningur á fæðingarferlinu. Sérstaklega fannst mér áhugavert að lesa um sögu fæðinga í gengum árþúsundin. Það að setja okkur inn í sama mengi og dýrin og náttúruna hjálpaði mér að skilja grunnelementin sem þurfa að vera til staðar í fæðingu – friður og öryggi. Dýrin finna sér rólegan stað, eru yfirveguð og treysta því að að líkaminn stýri ferlinu sjálfur. Þau koma afkvæmum sínum í heiminn á hljóðlátan og yfirvegaðan hátt á þeim tíma sem líkaminn þarf í þetta verkefni. Í raun á það nákvæmlega sama við um okkur nema við mannfólkið höfum einnig það stóra verkefni að reyna að hafa stjórn á huganum – svo að hann taki ekki yfir. Mér tókst að tileinka mér þessar hugmyndir og öndunartækni að einhverju leyti en hvort ég gæti notfært mér í fæðingunni yrði að koma í ljós. Það er mikilvægt að vera algjörlega æðrulaus gagnvart fæðingarferlinu. Það fer eins og það fer.

Í nálastungunum leyfði ég ljósunni að skoða mig því ég var svo viss um að ég væri hægt og rólega byrjuð að opna fyrir krílinu. Sem var og rétt því ég var komin með 4 í útvíkkun þá þegar. Við maðurinn minn ákváðum að fara heim og borða kvöldmat með dóttur okkar og koma henni fyrir hjá ömmu og afa og bjuggumst svo við að fara aftur upp á skaga um nóttina. Ég var vissulega mjög spennt en á sama tíma pollróleg, því ég hafði einsett mér að halda ró og yfirvegun. Klukkan 19 fór ég að fá greinilega verki með samdráttunum. Ég tímasetti þá og þeir voru fljótlega orðnir taktfastir þannig að við settum tösku í bílinn og keyrðum aftur af stað á Akranes. Í hverri öldu notaði ég haföndunina. Því sárari verkur – því ýktari og kröftugri öndun. Svo gat ég hlegið og spjallað á milli og ég man hvað það var stórkostleg tilfinning að finna að ég réði við þetta! Ég var komin inn í eitthvað ferli sem ég varð strax hluti af – einbeitti mér að önduninni og fór eins mikið inn í hana og hægt er. Við komum upp á deild kl 20:30 og Hafdís sem var enn á vakt gerði baðið tilbúið fyrir mig. Ég rúllaði út yogadýnunni minni og á milli þess sem öldurnar riðu yfir settist ég á hækjur mér og vaggaði mér til hliðanna til þess að greikka leiðina niður fyrir krílið. Er aldan reið yfir lagðist ég út af og hvarf algjörlega inn í öndunina. EInhverjir þekkja eflaust hvernig það er að leika sér í sjónum í sólarlöndum í miklum öldum. Maður þarf að stinga sér inn í öldurnar og gefa eftir – leyfa öldunni að grípa sig og bíða eftir að yfirborðið róist. Þá kemst maður aftur upp á yfirborðið og bíður eftir þeirri næstu. Stundum kasta þær manni til undir yfirborðinu og þá er mikilvægt að gefa eftir og streitast ekki á móti heldur bíða eftir að yfirborðið róist. Því ef maður berst við ölduna þá finnur maður vanmátt sinn og getur auðveldlega orðið skelkaður, farið að ofanda og þá örmagnast maður fljótt… Nákvæmlega svona upplifði ég þetta fæðingarferli.

Smám saman stækkuðu öldurnar mínar og ég ákvað að fara í baðið. Ég fékk óstöðvandi sjálfta á tímabili sem eru viðbrögð líkamans við kraftinum í samdráttunum og andaði þá að mér glaðlofti nokkrum sinnum og sjálftinn stöðvaðist við það. Ofan í baðinu sat ég á hnjánum og hélt þessu ferðalagi mínu áfram í gegnum öldurnar. Á milli þeirra fékk ég alltaf stutt hlé til þess að opna augun og kyssa manninn minn og finna hvatninguna úr augum hans. Ég bað hann að þrýsta með fingrunum á þriðja augað er ég fór inn í öldurnar – það var kraftmikið og hjálpaði verulega. Það var eins og ég færi algjörlega inn í sjálfa mig þegar öldurnar riðu yfir, og ég einbeitti mér djúpt að eins hægri útöndun og ég réði við hverju sinni. Einbeiting og slökun er algjört lykilatriðið í fæðingu – að einbeita sér að önduninni, þá sérstaklega útönduninni. Við vorum öll í flæði og trausti yfir því að allt væri eins og það átti að vera. Enginn var að pæla í klukku eða tímanum á milli hríða, útvíkkun eða neinu slíku. Við vorum bara þarna saman í þessu verkefni. Smám saman ágerðust öldurnar, urðu stærri en samt var alltaf hlé á milli til þess að jafna mig og búa undir næstu. Á einhverjum tímapunkti þurfti ég að pissa og ljósan sagði mér bara að pissa í laugina ef ég vildi, til þess að trufla ekki slökunina og þetta flotta flæði sem ég var í. Svo fór ég að finna meiri og meiri þrýsting niður á opið og fann að það styttist í þetta. Ljósan skrapp fram að ná sér í kaffi og kom svo aftur og ég sagði henni að ég fyndi mjög aukinn þrýsting niður með hverri hríð. Hún stóð úti á gólfi með kaffibolla í hendinni og sagði við mig hlý og brosandi “þá máttu bara byrja að rembast elskan”. Örfáum sekúndum síðar kom þessi mikli þrýstingur sem ég andaði niður í af öllum kröftum – og viti menn kollurinn þrýstist út. Hafdís, sem átti alls ekki von á þessu frekar en ég, stökk til með hendurnar ofan í vatnið tilbúin að taka á móti. Ég fann eitthvað springa í vatninu og það reyndist vera belgurinn sem fram að þessu hafði verið órofinn. Ég sogaði allt loft til mín sem ég gat á næstu innöndun og á útönduninni komu axlir og svo kroppurinn. Barnið var fætt á fjórum mínútum í tveimur hríðum. Klukkan var 23:45. Ég settist í sætið í baðinu og fékk í fangið fullkomna stúlku dásamlega kraftmikla. Öll vorum við jafnhissa og skellihlægjandi yfir þessari ótrúlegu fæðingu. Með öndun, slökun og einbeitingu hafði mér tekist að leyfa líkamanum að koma barninu niður og svo þrýsta því út.

Það sem mér fannst merkilegast í hypnobirth fræðunum var að höfundur bókarinnar vill meina að hinn dæmigerði rembingur með tilheyrandi öskrum og djöfulgangi sé algjörlega röng hugsun, það sé í raun eitthvað sem hafi komið til með vestrænni sjúkrahúsmenningu. Við þurfum bara að anda – slaka og treysta og beina önduninni og orku niður á við. Líkaminn mun sjá um að þrýsta á hárréttum tímapunkti. Ég hafði lesið hypnobirth fæðingarsögur þar sem þessu er lýst en eftir fyrri reynslu átti ég bágt með að trúa að þetta væri virkilega hægt. En núna veit ég að þetta er mögulegt. Ég var róleg og yfirveguð allan tímann, fyrir utan eitt móment í kollhríðinni með miklum sársauka þar sem mér fannst ég í augnablik missa stjórn og rak upp vein og kastaði mér um hálsinn á eiginmanni mínum, en þetta augnablik var jafnskjótt liðið hjá því stúlkan var fædd. Ég fylgdi líkamanum og lét öndunina fylgja samdráttunum alveg þar til stúlkan fæddist. Daginn eftir var stysti dagur ársins, en jafnframt sá bjartasti síðustu mánaða. Fullt tungl, heiðskýrt og sjórinn spegilsléttur fyrir utan herbergisgluggan okkar. Stúlkan fékk nafnið Dagmar.

Ég var hátt uppi á hormónum eftir þessa mögnuðu fæðingu, og mun fljótari að jafna mig á allan hátt, heldur en ég var eftir fæðingu fyrsta barns. Legið dróst ótrúlega hratt saman – ég var dugleg að drekka hindberjalaufste fyrir og eftir fæðingu sem ég er viss um að hafi hjálpað. Þó svo að saumaskapurinn hafi verið andstyggilegur eftir báðar mínar fæðingar þá grær líkaminn á undraverðan hátt, bæði hratt og vel og áður en maður veit af þá er allt orðið heilt á ný. Það er mikið á okkur lagt en við getum þetta allar sem ein.

Gangi ykkur vel.

Birta

Frábær fæðing þrátt fyrir gangsetningu og meðgöngueitrun

Ég var komin 41 v + 6 daga þegar ég var sett af stað, ég hafði kviðið svolítið fyrir þessum degi þar sem ég bjóst ekki við að þurfa að fara í gangsetningu. Ég upplifði það sem pínu vonbrigði að líkaminn minn hafi ekki bara gert þetta sjálfur. Ég sem hafði átt frábæra meðgöngu, lítil sem engin ógleði, fékk enga grindargliðnun og leið almennt vel, en þar sem ég var ólétt af fyrsta barni hafði ég engan samanburð, en miðað við þær sögur sem ég hafði heyrt og lesið var ég heppin. Undir lok meðgöngunnar var ég þó kominn með mikinn þrýsting niður í lífbein og fann fyrir mikilli þreytu. Ég ákvað að hlusta á líkamann minn og hætti að vinna þegar ég var komin rúmar 36 vikur.

Fannst tíminn þó líða heldur hægt en ég notaði tímann til að prjóna, fara í jóga hjá Auði  og undirbúa mig og dútla fyrir nýja heimilið, en við Eyvindur vorum nýlega búin að kaupa okkur íbúð sem við vorum að gera upp og markmiðið var að flytja inn áður en litli fæddist. Þannig vikurnar voru teknar í rólegheitum. Ég var mikið að dunda mér heima með mömmu þar sem hún var hætt að vinna. Var að prjóna vettlinga og trefil til að reyna að láta tímann líða. 

Settur dagur var 2. febrúar en ég hafði það á tilfinningunni að hann myndi koma aðeins seinna en það, svona 6-7 febrúar. Sá dagur leið og ekkert gekk og eftir 40 -41 vikurnar var þetta farið að reyna heldur á andlegu hliðina þar sem hann hefði geta komið hvenær sem er. Ég reyndi þó að nýta tímann eins og ég gat og hvíla mig en ekkert gerðist, þannig ég var oft að skreppa í búðir og stússast eitthvað fyrir íbúðina eins og ég treysti mér til.  Ég lét hreyfa við belgnum í 40+5 skoðun hjá ljósmóðurinni en það var ekki einu sinni hægt, fór í nálastungur, labbaði um Ikea og fleiri búðir, borðaði ananas en allt kom fyrir ekki. Ljósmóðirin pantaði svo tíma fyrir mig í gangsetningu til öryggis, en ég var frekar smeyk við að fara í gangsetningu og vildi helst fara sjálf af stað svo dagurinn var ákveðinn eins langt frá og hægt var.

Daginn fyrir gangsetningu fórum við Eyvindur í síðustu sundferðina og fórum í ísbíltúr og fengum okkur bragðaref hjá Huppu , það var frekar súrrealískt að hugsa til þess að þetta væri síðasti dagurinn sem við yrðum bara tvö.  En það var mjög gott og eftirminnilegt að eiga svona stund saman.

Gangsetningardagurinn, 15. febrúar rann upp og vorum við mætt upp á landsspítala kl 8 um morguninn í monitor. Ég var mæld vel og vandlega, en þar sem blóðþrýstingurinn var orðinn nokkuð hár þá var ég send í blóðprufu. Ljósmóðirin mældi mig og var ég komin með 1 í útvíkkun og náði hún að hreyfa við belgnum. Ég fékk svo fyrstu töflu kl 10 og var send heim með spjald og átti að taka eina töflu á tveggja tíma fresti. Við stoppuðum í bakaríinu og fengum okkur morgunmat og ætluðum að taka því rólega.

 Verkirnir urðu þó fljótt heldur verri og þegar ég kom heim gat ég varla setið. Ég fékk svo símtal frá spítalanum kl 13:30 um að niðurstöðurnar úr blóðprufunum sýndu að ég væri komin með byrjunareinkenni á meðgöngueitrun svo þau vildu fá mig upp á deild og átti ég að taka töflurnar hjá þeim. Það var pínu skrítið að hugsa til þess að ég myndi að öllum líkindum ekki fara aftur heim nema með barnið með mér. Mér fannst það þó líka ákveðinn léttir þar sem ég vissi að ég þyrfti ekki að vera að spá í tíma á milli samdrátta og ákveða hvenær tími væri kominn til að fara á spítalann. Þegar þarna var komið við sögu var ég nýbúin að taka 3 töflur og samdrættirnir voru búnir að versna talsvert. Við pökkuðum í rólegheitum í töskurnar og gat ég rétt svo staulast út í bíl og var bílferðin ekki þægileg. Þegar upp á deild var komið var kl um 14:30 og þá fékk ég fína stofu með baði. Það var settur á mig mónitor til að fylgjast með hjartslætti mínum og barnsins út af eitruninni og þurfti ég að vera með hann á mér allan tímann. Kl 15:30  voru vaktaskipti og fékk ég fínar ljósmæður og nema sem sáu mjög vel um mig, þær Margréti og Ingunni. Þar sem átti að reyna að hraða ferlinu aðeins út af eitruninni var stungið gat á belginn um kl 16 og fossaði vatnið út um allt í nokkrum skiptum. Þá var ég komin með 2-3 í útvíkkun. Kl 17 fór ég svo í baðið og var það mjög þægilegt. Hríðirnar urðu þó fljótt frekar harðar og var stutt á milli. Þá kynnti ljósmóðurneminn hún Ingunn mig fyrir glaðloftinu sem átti heldur betur eftir að vera besti vinur minn í þessarri fæðingu. Það komu tímabil þar sem mig  langaði að fá mænudeyfingu vegna verkjanna en þá hefði ég þurft að fara upp úr baðinu og það vildi ég ekki, heldur vildi ég vera þar sem lengst þar sem verkirnir virtust dofna í baðinu. Ákvað ég því að taka stöðuna aftur eftir klukkutíma. Klukkan 18 var svo útvíkkunin könnuð aftur og var ég komin með 4 í útvíkkun. Verkirnir voru alveg orðnir rosa vondir en ég náði að anda með jógaönduninni sem ég lærði í jóganu hjá Auði í gegnum glaðloftsgrímuna og tókst mér að halda ró minni og góðum takti með því. Í eitt skipti losnaði þó gasið frá grímunni þegar ég var í miðri hríð og eina sem ég gat var að öskra GAS GAS, eins og ég væri komin í  lögregluaðgerð í hruninu að spreyja táragasi.

Einnig var ég með jógamöntrurnar  á í græjunum og er ég ekki frá því að það róaði mig. Jógaundirbúningurinn hjálpaði mér mjög vel  Um 19 leytið fékk Eyvindur sér svo hamborgara í kvöldmat sem pabbi hans skutlaði til hans en ég hafði enga matarlyst, eina sem ég gat komið ofan í mig var gatorate og vatn. Mér fannst skrýtið að finna hamborgaralykt á meðan ég var að kveljast í baði, sem er reyndar frekar fyndið að hugsa til svona eftirá.  Kl 20 var svo tekin staðan aftur og var ég komin með 8 í útvíkkun. Þá var eiginlega orðið of seint fyrir mænudeyfingu og ákvað ég að harka þetta af mér þar sem ferlið var búið að ganga svo vel. Það var því aðeins farið að hraða á ferlinu. Út af meðgöngueitruninni þá mátti ég ekki eiga í baðinu og voru það svolítil vonbrigði. Mér var hjálpað upp úr baðinu um kl 20:30 og um 21 leytið var einhver brún eftir, svo kom einhver rembingur og um 21:20 var ég komin með fulla útvíkkun.  Mér fannst best að vera á fjórum fótum og var spítalarúmið ekki beint hannað til þess, ég náði því að liggja á hlið og með löppina upp Ég byrjaði að rembast. Það var enginn smá kraftur sem kom með þessum rembingi og öskraði ég með hverri hríð. Ljósmæðurnar sögðu mér þó að reyna að nota orkuna freka í að remba honum út í staðin fyrir að öskra og emja. Ég tók ráðleggingunum og einbeitti mér að því og þá fór þetta að rúlla. Eftir 3-4 rembinga kom höfuðið út og hann skaust svo út í næstu hríð í einu lagi kl 21:46. Stór og flottur strákur. 4252 gr og 52.5 sm og grét hann kröftuglega við fyrsta andardrátt. Mömmuhjartað fæddist á þessarri stundu. Ég fékk hann beint á bringuna og var ekki farið að líða á löngu fyrr en hann var farinn að sjúga brjóstið eins og hann hafi aldrei gert neitt annað. 

Ég þurfti svo að fæða fylgjuna og gekk það ágætlega, en þar sem belgirnir urðu eftir þurfti að bíða svolítið eftir þeim sem er eitthvað sem ég hafði aldrei heyrt um. Þeir komu þó að lokum Hélt að fylgjan og belgirnir myndu koma út saman. Þarna var ég alveg orðin örmagna af þreytu og verkjum. Við þurftum svo að bíða eftir fæðingarlækni sem átti að meta hvort að þurfti að sauma. Allt í einu um 23:30 leytið fylltist stofan af fólki. Barnalæknateymi kom og skoðaði strákinn og þar sem hann var með stórt naflaslit var honum trillað á vökudeild ásamt pabba sínum og var haldið að hann þyrfti jafnvel að fara í aðgerð strax og fékk ég ekki að vita hvort að ég fengi að hafa hann hjá mér yfir nóttina. Ég var svo að bíða eftir að komast á skurðarborðið þar sem ég fékk 3b gráðu rifu og þurfti að fá litla mænudeyfingu. Þessi deyfing var mjög kærkomin eftir alla þjáninguna.

Í öllu þessu róti voru líka vaktaskipti og kvöddu ljósmæðurnar mig og allt í einu var ég ein eftir á stofunni með engan síma og alveg búin á því og hrædd um litla strákinn minn og tíminn leið mjög hægt. Eftir klukkutíma af saumaskap var mér svo trillað aftur inn og komu strákurinn og Eyvindur aftur til mín eftir stutta viðkomu á vökudeildinni. Hann var svo stór og flottur að hann þurfti ekkert að vera þar nema  rétt í innskrift yfir nótt. Ég var mjög fegin að fá að hafa hann hjá mér. Þetta var algjörlega mögnuð lífsreynsla og frábær fæðing þrátt fyrir þessa gangsetningu og meðgöngueitrun og er ég fegin hvað allt gekk vel hjá okkur. Ég er mjög þakklát ljósmæðrum og læknum á landspítalanum fyrir að hafa hugsað svona vel um okkur litlu nýbökuðu fjölskylduna.

Margrét 30 ára, fyrsta barn, gangsetning.

Litla ofurkonan flaug í hendurnar á ljósmæðrunum

Júlíana mætti í heiminn 3. desember eftir dásamlega fæðingu á fæðingarstofu Bjarkarinnar. Ég var þá komin 38 vikur og 6 daga. Aðfaranótt 3. desember, kl. 2 vaknaði ég við það að ég hélt ég væri að pissa á mig. Við vorum ekki alveg viss um hvort að þetta væri sundvatn eða legvatn þar sem við höfðum farið í sund kvöldið áður. Við hringdum í Hörpu ljósmóður okkar á Björkinni en fengum samband við Hrafnhildi til að ræða næstu skref. Það kom önnur gusa með smá bleiku í bindið stuttu seinna svo þá vorum við viss um að við værum komin af stað. Það fylgdu þessu engir verkir. Ég var meðvituð um að ef fæðingin væri ekki langt komin fyrir kl. 2 næstu nótt þyrfti ég að eiga barnið á Landspítalanum vegna sýkingarhættu þegar að legvatnið lekur. Kærastinn var ákveðinn í að við skyldum hvíla okkur svo við fórum aftur að sofa um kl. 4 og sváfum til 8. Þá vaknaði ég við mjúka samdrætti en nokkuð reglulega og ég man hvað ég var ánægð. Það var gott að þeir byrjuðu hægt því það gerði mér kleift að ná takti við haföndunina. Við létum vita af okkur um kl. 9 og Hrafnhildur sagði að Arney myndi kíkja á okkur um hádegið. Það var mjög gott að hitta hana og hún sá án nokkurrar skoðunar að samdrættirnir voru ekki orðnir mjög harðir og að ég gæti verið róleg heima eins lengi og ég vildi.

Um klukkan hálf 4 fórum við að hugsa okkur til hreyfings og mæltum okkur mót við Hrafnhildi á fæðingarstofu Bjarkarinnar. Stuttu eftir að við komum athugaði Hrafnhildur útvíkkun og ég var þá komin 4 í útvíkkun. Slímtappinn fór en Hrafnhildi og Arney fannst mjög erfitt að greina hvort þetta væri slímtappinn eða brúnt legvatn í bleyjunni. Þær báðu mig því að fara nokkuð reglulega á klósettið til að athuga hvort meira væri komið. Það kom ekki meira svo til að taka allan vafa af þá lyftu þær kollinum aðeins upp til að fá út legvatn og sjá litinn. Ég hafði heyrt að það gæti verið mjög vont en með önduninni í takti við Hrafnhildi þá var það lítið mál. Það var allt í góðu með legvatnið svo við þurftum ekki að fara á Landspítalann. Það var mikill léttir. Ég var þarna komin 7 í útvíkkun og rosalega ánægð að fá að fara í pottinn fyrst að allt var í lagi.

Þetta fór hægt af stað hjá mér, ég gaf mér góðan tíma til að finna takt við bylgjurnar og haföndunina, mér finnst samlíkingin af því að samdrættir séu eins og öldur sem hellast yfir þig eiga mjög vel við. Þær byggjast upp, ná hápunkti og líða svo burt. Kærastinn stóð eins og klettur við bakið á mér. Heima þá tókst ég á við bylgjurnar liggjandi í rúminu og fékk knús og strokur frá honum milli þess sem hann tók til það sem við þurftum með okkur. Þegar við komum niður á Björkina fannst mér best að takast á við bylgjurnar krjúpandi fyrir framan rúmið, andandi haföndun og þrýstandi á þriðja augað undir augabrúnunum og kærastinn strauk yfir mjóbakið. Milli samdrátta þá hvíldi ég mig í fanginu á honum, hann sat á æfingabolta fyrir aftan mig og ég sat á gólfinu. Á leiðinni á klósettið þá þurfti ég oft að takast á við samdrátt standandi með hendurnar á hnjám og það var alls ekki verra. Ég prufaði að liggja í rúminu og takast á við hríð en það var alveg ómögulegt og gerði verkina mun verri. Vá hvað var gott að fara í pottinn og að geta látið líða úr sér í vatninu milli samdrátta, algjör dásemd að vera þarna þyngdarlaus. Kærastinn þurfti að stökkva á klósettið og tók Hrafnhildur við að nudda mjóbakið í samdrætti og eftir það þá vildi ég helst hafa kærastann hjá mér og hana að nudda mjóbakið. Eftir því sem samdrættirnir urðu harðari þá varð ég mun kröfuharðari á nudd frá henni og vatn frá kærastanum. Þetta voru einu orðin sem ég kom frá mér á tímabili. Kærastinn mátti sko alls ekki halda í hendurnar á mér, en mér fannst gott að hann legði þær á axlirnar. Ég fékk svo að vita eftir fæðinguna að á meðan að Hrafnhildur nuddaði mig þá nuddaði Harpa hana og aðstoðaði eftir fremsta megni J Ég man að ég leyfði mér bara að hugsa eina hríð í einu og að versti verkurinn gæti eingöngu varað í um 15 sek.

Og ég gat þolað þennan ótrúlega kraft keyra yfir í 15 sekúndur. Það var ekki mikið ljós í herberginu, en ég bað samt um að láta slökkva á lampa með mjúku ljósi því það truflaði mig. Ljósmæðurnar voru greinilega tilbúnar því þær náðu sér í vasaljós til þess að fylgjast með gangi mála. Þær tóku líka hjartsláttinn hjá litlu stelpunni okkar á milli hverrar hríðar þegar fór að líða á. Hún var með sterkann og flottan hjartslátt í gegnum þetta allt. Ég nýtti mér töluvert bæði purrið og haföndunina. Á milli samdrátta fann ég doða í höndum og fótum (sennilega vegna kröftugrar öndunar) svo ég fór að pumpa hendur og fætur eins og í jógatímunum milli samdrátta í pottinum. Þegar að ljósmæðurnar tilkynntu mér að ég mætti byrja að rembast í næstu hríð fór ég rólega á stað og nýtti mér purrið og fékk nokkra kossa frá kærastanum. Milli samdrátta dillaði ég mjöðmunum eins og til að mjaka henni neðar og bað hana upphátt um að koma, við værum tilbúin og að ég sagði líka að ég væri eins og silki þarna niðri og gerði mjúkar hreyfingar í vatninu með höndunum á milli hríða til að líkja eftir því hvernig væri að koma við silki allt til að koma mér í gírinn. Undir niðri þá hafði ég kviðið rembingnum meira en samdráttunum. Ljósmæðurnar buðu mér að athuga hvar höfuðið væri sjálf, sem ég gerði og rosalega er skrítið að koma við það. Þetta er svo mjúkt en þú býst við einhverju harðara. Þegar að lítið gerðist í pottinum sögðu ljósmæðurnar að það væri gott að skipta um stöðu og færa sig í rúmið ef að hún kæmi ekki í næstu samdráttum. Þær hvöttu mig til þess að rembast en ekki purra til þess að koma henni út. Við færðum okkur svo í rúmið og hún kom eftir nokkra samdrætti í hliðarlegu á rúminu. Ljósmæðurnar hjálpuðu mér með því að styðja við fæturnar. Í gegnum það var ég að hugsa að ég væri eins og pressukanna og rembdist með hökuna niður í bringu og í hálfgerðum keng til að nýta allan minn kraft til að pressa barninu út. Þetta hafði vinkona mín sem er ljósmóðir ráðlagt mér fyrir rembinginn. Og vá hvað það var magnað að fá hana á magann. Ég var svo hissa hvað hún var stór því ég hafði alltaf verið með nokkuð litla kúlu svo allir bjuggust við litlu barni. Hún var 3.490 gr og 52 cm, heilbrigð og yndisleg. Hún kom í heiminn um hálf 12 um kvöldið. Rembingurinn tók aðeins lengri tíma því að hún var með hendina á kinninni og hafði komið aðeins skakkt niður. En þegar hún loks kom þá flaug hún í fangið á ljósmæðrunum með báðar hendur fram, litla ofurkonan. Eftir á að hyggja var bara gott að ég tók minn tíma eftir hríðarnar til þess að byrja rembinginn og mjaka henni niður með purri og mjaðmadilli svo ég get bara sagt að það borgar sig að hlusta á líkamann og treysta ferlinu og ljósmæðrunum. Við fengum góðan tíma til að kynnast Júlíönu, hún náði ekki að komast sjálf á brjóst svo Hrafnhildur hjálpaði henni að lokum. Hrafnhildur saumaði mig með stuðningi frá Arney og það var eitthvað sem ég hafði kviðið fyrir en var ekkert mál. Við vorum svo komin heim 5 og hálfum tíma eftir fæðinguna, ég steinsofnaði í nokkra tíma og kærastinn vakti með Júlíönu til að hjálpa henni með að koma slími upp.

Ég er svo afskaplega þakklát fyrir þessa fallegu upplifun með kærastanum og litlu stelpunni minni og fyrir ljósmæðurnar á Björkinni. Harpa var aðalljósmóðirin okkar en var að koma erlendis frá svo Hrafnhildur og Arney tókust á við þetta með okkur til að byrja með og svo kom Harpa inn á lokametrunum og var svo með okkur í heimaþjónustunni. Við erum heppnar konur hér á Íslandi að njóta heimaþjónustu frá okkar færu ljósmæðrum. Ég get ekki þakkað þeim nógsamlega fyrir ómetanlegan stuðning í þessu ferli allt frá 34. viku og þar til að heimaþjónustu eftir fæðingu lauk. Mæli með þessari þjónustu fyrir allar konur sem eiga þess kost. Ég nýtti mörg ráðin úr meðgöngujóganu hjá Auði, rosalega góður andlegur og líkamlegur undirbúningur! Mæli líka með að lesa Natural Birth eftir Inu May Gaskin og Hypno Birthing. Þetta eru allt verkfæri sem hægt er að nýta sér sama hvernig fæðingin þín á sér stað og í hvaða kringumstæðum. Því andlegur styrkur í gegnum þetta ferli er eitt magnaðasta verkfærið og við stjórnum því sjálfar í annars mjög óstjórnanlegum aðstæðum.

Fæðing á fæðingarstofu Bjarkarinnar

ÁST – Anda, Slaka, Treysta ❤

Elsa

Hér er keisari fæddur

Þessi fæðingarsaga var upphaflega birt á Siljabjork.com en er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi Silju.

Alheimurinn leggur aldrei meira á mann en maður þolir. Þetta var mantran mín í fæðingunni en syni mínum þótti ekki sæmandi að koma í heiminn þegjandi og hljóðalaust, heldur þurfti hann að láta hafa aðeins fyrir sér.

Ég var kominn tæpa viku fram yfir tímann. Hver og einn einasti dagur leið eins og heil eilífð að mér fannst og í hvert skipti sem ég fór á klósettið vonaðist ég nú til þess að slímtappinn væri farinn eða að vatnið færi að leka. Það gerðist aldrei. Í hvert einasta sinn sem ég fann smá verki eða óþægindi fór ég að telja og vonaðist til þess að nú væru samdrættirnir byrjaðir. Það gerðist ekki heldur.

Ég ætlaði að fæða son minn í rólegu umhverfi á Björkinni, án nokkura deyfilyfja, með fallegri tónlist og ilmkertum, kyrjandi jógamöntrur í vatnsbaði og láta taka fallegar myndir af ferlinu. Það gerðist heldur ekki. Í rauninni fór ekkert eins og “planað” var þegar kom að þessari fæðingu.

Það er rosalega gott að hafa plan og vera undirbúin fyrir fæðinguna. Ég undirbjó mig með því að lesa fæðingarsögur, tala við vinkonur mínar og fjölskyldu sem höfðu eignast börn, fór á fæðingarnámskeið og spurði ljósmæðurnar spjörunum úr. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að ég vissi ekkert hvað ég ætti í vændum og að fæðingar væru eins misjafnar og þær eru margar, svo ég var fullkomlega meðvituð um það að kannski yrði þessi upplifun ekki alveg eins töfrandi og ég hafði séð fyrir mér. Ég undirbjó mig undir ýmislegt – inngrip á spítalann, glaðloft, mænudeyfingar, nálastungur, fæðingarstellingar, vatnsfæðingar – en ekki keisaraaðgerð. Ég las ekki staf um keisaraaðgerðir því planið var ekki að enda í keisara.

Þess vegna er gott að vita að þó þú sért með eitthvað plan, þá getur það farið gjörsamlega í hina áttina.

Ég vaknaði laugardaginn 15.september um ellefuleytið og fann að ég var með smá verki. Verki sem líktust mjög mildum túrverkjum en þeir komu og fóru með reglulegu millibili. Ég varð ógeðslega spennt og langaði að hringja í alla, setja status á Facebook og tvíta um það að ég væri LOKSINS komin af stað. Ég hélt þó í mér og ákvað að bíða og sjá hvort verkirnir myndu ágerast og bilið á milli þeirra myndi styttast. Jú, viti menn – ég var komin af stað. Ég hringdi í Arneyju ljósmóðurina okkar á Björkinni og bað hana um að koma og athuga með mig. Klukkan var þá orðin tæplega þrjú en Arney bað mig um að vera róleg, halda áfram að fylgjast með hríðunum, borða og leggja mig og að hún myndi koma og kíkja á mig um kvöldmatarleytið.

Nú gat ég ekki lengur setið á mér og hringdi í Ísak og bað hann að koma heim úr vinnunni strax. Ég hringdi í vinkonur mínar og mömmu til að tilkynna þeim gleðifréttirnar. Svo pantaði ég mér tvær Dominos-pizzur og horfði á heilalausar bíómyndir á meðan ég beið eftir að verkirnir yrðu harðari og Arney kæmi að kíkja á okkur.

Þegar Arney kom loksins um kvöldið var belgurinn ennþá órofinn, vatnið ekki farið og ég aðeins komin með tæpa tvo í útvíkkun. Hún taldi þó að allt væri eðlilegt og að litli maðurinn myndi láta sjá sig í nótt eða undir morgun. Við áttum bara að halda áfram að bíða og vera róleg.

Í gegnum hverja hríð andaði ég djúpt niður í maga og andaði út eins og hafgola. Þessi ujjayi-öndun sem Auður kenndi okkur í meðgöngujóganu skipti sköpum fyrir mig í gegnum verkina, því hún hjálpaði mér ekki aðeins að halda mér rólegri heldur er ákveðin verkjastylling fólgin í slíkri öndun. Ég skoppaði um á jógaboltanum, kyrjaði om lengst niður í rófubeinið og beið eins spök og ég mögulega mátti, að farast úr spenningi fyrir þessari fæðingu sem ég hlakkaði svo mikið til.

 

Það er síðan um níuleytið að ég ligg í sófanum og finn skringilega tilfinningu í klofinu, svona eins hellt væri úr fötu í nærbuxurnar. Vatnið var að fara! Ég hoppaði upp úr sófanum og kjagaði eins og mörgæs inn á bað og beinustu leið í sturtuna þar sem ég klæddi mig úr rennandi blautum buxunum og lét restina af vatninu leka í sturtubotninn. Ég sá að vatnið var gruggugt og það boðar ekki gott. Ég hringdi í Arney og hún taldi það víst að þetta væri bara eðlilegt blóð þar sem hún hafði verið að hrærast í leginu klukkutíma áður til að finna útvíkkunina. Hún sagðist ætla að fara og gera baðið tilbúið á Björkinni og nú ættum við að fara að gera okkur klár að koma upp á stofu.

Því næst kemur græna vatnið. Fyrir þá sem ekki vita þá boðar það ekki gott ef legvatnið lekur grænt, því það er merki um streitu hjá barninu. Það þýðir að fylgjast þarf vel með öllum lífsmerkjum hjá barni og móður og er það ekki hægt á einkastofum eins og Björkinni. Við vissum því strax að ég gat ekki fætt hann á stofunni og þurftum við Ísak að bruna beinustu leið á Landspítalann. Það var að sjálfsögðu ákveðin vonbrigði en gerði þó lítið til því við Ísak vorum bæði svo spennt að fá litla son okkar í hendurnar. Ég hugsaði með mér að ég gæti alveg legið í vatni og kyrjað jógamöntrur þó það væri uppi á Landspítala og nú væri búið að leysa ljósmæðradeiluna þannig þetta væri nú allt í lagi.

Við komum upp á Landspítala á miðnætti og fengum stóra stofu útaf fyrir okkur. Ég var tengd við allskonar tæki og tól, skynjari settur yfir bumbuna til að fylgjast með syninum og okkur sagt að hringja bjöllunni þegar verkirnir færu að ágerast.

Svo gerðist ekkert.

Ég hætti að fylgjast með hvað tímanum leið því ég fann svo hryllilega mikið til. Ég sat með glaðloftsgrímuna fasta við munninn nánast allan tímann. Ég lognaði útaf hér og þar en vaknaði með reglulegu millibili til að anda mig í gegnum sársaukann. Ég hugsaði alltaf til Auðar jógakennara og sótti í visku hennar – sársauki er bara tímabundið ástand, láttu hann skola yfir þig eins og öldu. Öldurnar skoluðu yfir mig og lág ég í sjúkrarúminu veðurbarin og sjótekin í marga klukkutíma án þess að nokkuð bólaði á syninum.

Ég fékk tvær gangsetningartöflur. Svo kom morgun og ný ljósmóðir tók við okkur. Ekkert gerðist, ekkert nema sársauki. Ísak spreyjaði lofnarblómailmi yfir herbergið til að halda mér rólegri. Öldurnar héldu áfram að skella á mér. Þær sprengdu hinn belginn, meira vatn lak. Ekkert gerðist. Ég fékk “dripp” í æð til að koma hríðunum áfram og koma mér betur af stað í fæðinguna. Ekkert gerðist. Í hvert einasta skipti sem þær hækkuðu skammtinn, lækkaði hjartsláttur litla mannsins. Öldurnar börðu mig og mér leið eins og ég væri að veltast um í skæðum stormsjó. Sársaukinn var orðinn svo mikill að ég gat ekki lengur andað eða kyrjað mig í gegnum verkina heldur var ég farin að öskra hástöfum eins og sært dýr við hverja einustu hríð. Útvíkkunin var aðeins orðin þrír. Þrír af tíu. Þrír ponsulitlir sentimetrar.

Ljósmóðirin okkar, hún Steinunn, heyrði veinin í mér og taldi það best að nú fengi ég mænudeyfingu. Ég sem ætlaði svo allskostar ekki að deyfa mig með neinu nema jógamöntrum og nálastungu, var nú örugglega búin að sjúga glaðloftsbirgðir spítalans upp til agna og grét í fanginu á Ísak, mænudeyfingunni fegin.

Ég fékk mænudeyfingu. Rétt áður en svæfingarlæknirinn kom lá ég með glaðloftið og saup af áfergju. Ég datt inn og út og leið ýmist eins og ég væri sauðdrukkin eða sofandi. Hljóðið í grímunni fór að minna mig á hljóðið í köfunarbúnaði. Hugurinn fór að reika og til að eiga betur við sársaukann hætti ég að ímynda mér ólgusjó og fór að ímynda mér tæran, lygnan paradísarsjó þar sem ég gat svamlað um í kafi og synt í gegnum torfur af litríkum fiskum. Þar er minn hamingjustaður og því meira sem ég leit inn í þriðja augað og einbeitti mér að því að vera ekki á spítala, ekki mögulega á leiðinni í keisaraaðgerð og alls ekki að fá mænudeyfingu, því betur leið mér. Svo kom mænudeyfingin og ég rotaðist.

Þegar ég rankaði við mér hafði enn ekkert gerst. Nú voru sérfræðingarnir farnir að hafa áhyggjur. Þær gramsa og grafla í klofinu á mér, spenna leggöngin upp með stærðarinnar málmpípum og leita að kolli barnsins. Þær hreyfa við barninu og fann ég þegar fæðingarlæknirinn ýtti við honum neðan úr leggöngunum hvernig fæturnir hans spörkuðu undir rifbeinin á mér. Sonurinn er illa skorðaður og þar sem hann bregst svo illa við “drippinu” er hann líklegast flæktur í strenginn. Fæðingarlæknirinn og allar hennar hjálparhellur tjá okkur að þær muni reyna hvað þær geta til að koma mér af stað en útvíkkunin sé aðeins fimm og alltof langur tími liðinn frá fyrstu hríðum. Hún segir okkur að það séu töluverðar líkur á því að við förum í keisaraaðgerð.

Ég vil alls ekki fara í þessa keisaraaðgerð en ég segi ekki neitt. Ég veit ekkert við hverju á að búast, ég er hrædd og kvíðin. Allt í einu eru töluverðar líkur á því að ég þurfi að fara í stórfellda aðgerð og mikið inngrip, þegar ég ætlaði bara að eiga fallega, rólega fæðingu í vatnsbaði. Ég bið þær um að reyna aftur að snúa honum og athuga með útvíkkunina eftir enn meira “dripp”. Ég held að þær hafi frekar gert það sem greiða við mig heldur en nokkuð annað, það var öllum sérfræðingum morgunljóst að keisari væri eina leiðin með viti á þessum tímapunkti. Þær taka blóðprufu úr litla manninnum og þó hvorugt okkar sé í bráðri lífshættu erum við send í bráðakeisara.

Ég var gjörsamlega búin á því. Á aðra höndina vildi ég alls ekki fara í uppskurð, vildi halda áfram að reyna og fæða hann “náttúrulega” en á hina höndina hafði ég verið sárverkjuð í þrjátíu og eina klukkustund og þráði ekkert heitar en bara að fá að halda á syni mínum. Ljósmóðirin var svo góð við mig og strauk mér um hárið á meðan ég grét og Ísak kreisti hönd mína og kyssti. Það leið aðeins tæpur klukkutími frá því að fæðingarlæknirinn sagði okkur að við værum á leiðinni í keisara og þangað til við vorum komin með son okkar í hendurnar.

Eftir grátinn og ítarlegar útskýringar frá fæðingarlækninum um ferlið, uppskurðinn og batann varð ég aðeins rólegri. Þegar hún sagði mér að ég yrði vakandi á meðan aðgerðinni stóð róaðist ég niður, ótrúlegt en satt, því ég gat ekki hugsað mér að vera ekki vakandi þegar sonur minn tæki fyrsta andardráttinn utan legsins.

Ísak var færður í skurðstofugallann og mér var rennt inn á skurðstofuna. Ísak fékk að vera inni allan tímann og sat hjá mér, strauk mér um höfuðið og studdi mig í gegnum þetta. Inn á stofuna komu ótal læknar, hjúkrunarfræðingar, sérfræðingar og svæfingarlæknar sem öll tjáðu mér nöfn sín og tilgang þeirra á skurðstofunni. Ég fann hvernig flóðlýst herbergið, pípið í tækjunum og skurðaðgerðin þyrmdu yfir mig. Ég ákvað að loka augunum og byrjaði á hafönduninni. Ég sagði bara “já og namaste” við öllu sem læknarnir sögðu. Ég lá með opinn faðminn eins og krossfiskur á meðan dælt var í mig deyfingum og lyfjum. Öndunin var farin að róa mig og skyndilega laust sterkri hugsun niður í hausinn á mér, eins og fjarlæg rödd sem hvíslaði:

“SILJA, ALHEIMURINN LEGGUR ALDREI MEIRA Á OKKUR EN VIÐ ÞOLUM”

Þessi mantra varð minn sannleikur á þessu augnabliki og allt í einu var ég í sátt við almættið og örlögin. Ég heyrði Ísak anda órólega og snökta og fann að hann var orðinn stressaður, sjálfur í ákveðnu áfalli og auðvitað sárt að sjá konuna sína þjást þegar það er lítið sem þú getur gert til að laga það. Ég bað hann að leggja eyrað við varir mínar og hvíslaði að honum að þetta væri allt í lagi, ég væri í lagi og ég væri róleg. Ég sagði þetta við hann, alheimurinn leggur aldrei meira á okkur en við þolum og við getum gert þetta saman. Hugsaðu þér, Ísak, við fáum hann fljótlega í fangið.

Á meðan aðgerðinni stóð fann ég fyrir öllum hreyfingum, þrýstingi frá höndum læknanna og tilfærslu líffærana inn í mér, án þess þó að finna sársauka. Ég heyrði blautkennd hljóðin í blóðinu sem sullaðist til og fann einstaklega furðulega tómarúms tilfinningu þegar ég fann að barninu var kippt upp úr leginu.

Svo heyrðum við gráturinn, frumgráturinn í syni okkar. Foreldrar um allan heim geta vottað fyrir það að ekkert hljóð er þessu hljóði líkast. Herbergið lýstist upp, hjartað mitt opnaðist upp á gátt og það var eins og allt kæmi heim og saman á þessu kyngimagnaða augnabliki. Við Ísak grétum bæði og vissum að ekkert skipti lengur máli í þessari tilveru en þetta litla líf sem við höfðum skapað.

Allt var í lagi. Ekkert fór alvarlega úrskeiðis. Læknarnir sögðu okkur að sonurinn hefði verið flæktur þrívegis í strenginn, utan um hálsinn og undir báðar axlirnar, hvernig nú svo sem hann fór að því. Það væri því mikilvægt að vita að ég hefði aldrei getað fætt hann “náttúrulega”. Ég hugsaði hvað mér væri sléttsama, þær hefðu getað sótt hann út um nefið á mér ef því var að skipta.

Ísak hélt á honum í fanginu, þegar búið var að þvo honum og pakka inn í teppið, og grét. Ég leit upp á meðan lækarnir soghreinsuðu burtu fylgjuna og saumuðu mig saman og heilsaði syni okkar með nafni og sagði örugglega þúsund sinnum “ég elska þig, ég elska þig”. Hvílík stund.

Nú er ég orðin mamma. Eitthvað sem ég hef hugsað um og látið mig dreyma um í mörg ár er loksins orðið að veruleika. Eftir aðgerðina var Ísak færður aftur inn á stofuna okkar og þegar mér var loksins rúllað aftur inn eftir herlegheitin, fékk ég son minn í fangið í fyrsta sinn. Ég hef varla viljað sleppa honum síðan.

Hér er keisari fæddur

Jógafæðing 27.06.07

Þriðjudagsmorguninn 26. júní vaknaði ég upp af mjög svo værum blundi, hafði ekki sofið svona vel í nokkrar vikur að því er mér fannst.  Ég var komin 12 daga fram yfir settan fæðingardag og var farin að undirbúa mig fyrir annað hvort gangsetningu eða keisaraskurð fyrir lok vikunnar þar sem ég hafði áður farið í keisaraskurð út af barni í sitjandi stellingu.

En það var eitthvað þennan fallega júnímorgun sem sagði mér að eitthvað væri að fara af stað, ég svona úthvíld og svo var ég að fá einhverja samdrætti og útferð sem var meira áberandi en áður. Hugsið ykkur hvað líkaminn er fullkominn að leyfa manni að hvílast svona vel fyrir það sem koma skal!

Dagurinn leið, ég hafði það bara gott ein heima, las í bók úti á svölum í sólinni og fór svo um klukkan fjögur að sækja son minn á leikskóla og verslaði tvo fulla poka af mat í Nettó.  Verkirnir voru alveg bærilegir, ekkert þannig að þeir heftu mig í neinu þannig.  Klukkan rúmlega sex þegar maðurinn minn kom heim úr vinnu fór þetta að ágerast aðeins, voru komnir á svona 20 mínútna millibili og ég hugsaði með mér að ég þyrfti kannski að fara að huga að því að taka allt til, fá pössun og slíkt ef ske kynni að við þyrftum að fara upp á spítala.  Um þetta leyti fór ég að fá slímkennda blóðuga útferð og hringdi þá upp á fæðingardeild til þess helst að róa manninn minn sem var aðeins farinn að stressast…  Þær sögðu mér að ég væri velkomin til þeirra þegar ég vildi og ég gæti hringt hvenær sem er.  Nú fóru samdrættirnir að vera reglulegri en ég byrjaði þarna strax að anda haföndun og rugga mér í lendunum og fannst þetta bara allt í fínu lagi og áttaði mig á að þetta var bara byrjunin á einhverju miklu lengra ferli.

Klukkan ellefu ákváðum við að kíkja uppeftir svona fyrir nóttina og láta tékka á stöðunni.  Við hittum yndislegan ljósmóðurnema sem tók á móti okkur, hún setti mig í mónitor þar sem kom fram að samdrættirnir (því þetta hétu víst ekki hríðar ennþá) voru enn óreglulegir með svona 10-15 mínútum á milli, allt var enn bærilegt fyrir mig, ég stundaði bara mína haföndun og hrossaöndun og hún hafði strax orð á því ljósmóðirin hvað þetta væri flott hjá mér og ég hlyti að hafa verið í jóga. Þetta varð alveg til þess að ég einbeitti mér ennþá frekar að nota þessa öndun.  En þeim fannst ég ætti að fara heim því að þetta gæti allt eins gengið niður en ef þetta færi að verða reglulegra með 3-5 mínútna millibili þá skildum við koma aftur.  Við fórum heim og mamma ákvað að sofa hjá okkur ef ske kynni að við færum uppeftir aftur um nóttina, það var rosalega gott að hafa hana til öryggis.  Ég fór í bað þarna um miðnættið, rakaði á mér lappirnar og svona og fékk mér svo ristað brauð.  Ég reyndi síðan að fara að sofa en það er skemmst frá því að segja að ég gat aldrei sofnað því að verkirnir fóru strax að verða reglulegri en ég reyndi að slaka vel á á milli verkjanna.  Klukkan þrjú var þetta orðið á svona 5-7 mínútna millibili og ég vakti manninn minn af værum blundi og tilkynnti um brottför.  Mamma hafði orð á því þarna hvað ég væri róleg yfir þessu og hvað þetta jóga sem ég er ekki búin að geta hætt að hrósa hefði greinilega góð áhrif á mig því þarna var ég farin að halla mér fram á hvað sem ég fann næst mér þegar verkirnir komu og anda haföndunina á meðan.

Við vorum komin á Landspítalann klukkan hálf fjögur og þá var bara frekar rólegt hjá þeim og sömu ljósmæður (neminn sem hafði tekið á móti okkur fyrr um kvöldið) og sú sem var yfir henni tóku á móti okkur.  Neminn var svo ánægð að geta boðið okkur flottustu fæðingarstofuna með stórum heitum potti (hún var með glampa í augunum þegar hún sagði þetta við okkur) en hin var fljót að rífa þessa draumsýn niður þegar hún tilkynnti henni að ég væri fyrri keisari og mætti því ekki fara í vatnið.  Ég varð soldið mikið svekkt en þegar næsti verkur kom þá einhvern veginn gleymdist þetta bara og ég  sætti mig við þetta sem ég vissi svo sem áður.  Fékk samt nýja stofu með klósetti inn af og fínni sturtu.  Næstu klukkutímar liðu alveg ótrúlega fljótt.  Ég gat ekki hugsað mér að liggja þannig að ég stóð allan tímann með mónitor nemana utan um mig sem skrásetti hríðarnar (þetta hét það víst þegar þarna var komið).  Hreinsunin úr ristlinum hafði ekki verið mjög mikil þarna um daginn þannig að ég bað um svona hreinsikitt sem var minnsta mál að fá, mér leið allavegna betur með að losa aðeins um.  Einnig reyndi ég að pissa en gat það ekki þannig að það var settur upp þvagleggur sem samt skilaði ekki miklu.  En klukkan sex var fyrst athugað með útvíkkun og hún þá orðin 7 cm, ég trúði því ekki að ég væri komin svona langt án þess að vera eitthvað að drepast úr verkjum og þegar þær sögðu mér að ég myndi kannski bara klára þetta á þeirra vakt fannst mér það ótrúlegt, ég var einhvern veginn búin að ímynda mér að ég yrði þarna allavegna fram undir kvöldmatarleitið næsta dag!  En þessir síðustu 3 sentimetrar urðu þeir erfiðustu í þessu, þær stungu á belginn og þetta urðu verulega miklir verkir upp úr þessu.  Ég stóð alltaf og maðurinn minn hélt í hendina á mér og nuddaði á mér bakið sem mér fannst gott.  Neminn kom með kalda bakstra og lagði á mjóbakið á mér og svo í framan og það fannst mér líka mjög gott, einnig nuddaði hún á mér mjóbakið þannig að hún og maðurinn minn voru á fullu á bakinu á mér í verstu hríðunum og það var mjög gott.  Þegar ég fór svo að röfla um mænudeyfingu þarna örugglega á níunda sentimetranum vildu þær fyrst að ég prófaði glaðloftið, ég samþykkti það á endanum og hóf þá öndunina í grímuna sem var eftir á að hyggja mjög gott. Þarna breytti ég aðeins um og andaði inn um munninn og út um nefið en passaði samt að slaka á í þessum vöðvum sem notaðir eru í hafönduninni.  Þetta tók svona toppinn af hríðunum og um leið einbeitir þetta manni að önduninni.  Þegar klukkan var orðin átta komu nýjar ljósmæður á vaktina alveg jafn yndislegar og þær sem voru fyrir, skipti mig engu máli að fá nýtt sett.  Ég fékk þá nema sem var nafna mín og eldri ljósmóður með henni sem heitir Ágústa, frábærar konur.  Nú var útvíkkunin komin í 10 og Ágústa sagði mér að sleppa nú glaðloftinu enda var svo komið þarna að ég fékk þessa ótrúlegu rembingstilfinningu sem mjög erfitt er að lýsa en ég ætla samt að reyna að það.

Talað er um að merar kasti folöldum og mér fannst að þetta væri svona eins og þegar maður kastar upp þá tekur líkaminn einhvern veginn völdin. En þetta var eins og að kasta niður í stað upp, það bara fara einhverjir innri kraftar af stað og allt ýtist niður. Alveg undarleg tilfinning þegar maður fær þessa rembingstilfinningu og svo bara slokknar á öllu á milli og maður getur þá dregið andann og slakað aðeins á. Eitthvað fannst Ágústu að hríðarnar stæðu ekki nógu lengi yfir þannig að ég fékk dripp til að lengja þær. Hún hafði á orði að ég hefði mjög góða stjórn á þessu og hún gat alveg sagt mér hvenær ég átti að rembast ,,hægt” eða fast.  Hún bauð okkur að snerta kollinn þegar hann sást en við vildum nú hvorugt gera það, ég vildi bara einbeita mér að klára dæmið þegar þarna var komið. En það var mjög uppörvandi þegar hún fór að lýsa öllu hárinu sem hún sá og að þessi færi nú örugglega heim með slaufu. Svo fyrr en varði og miklu fyrr en ég áttaði mig á var stelpan mín komin í heiminn og lá allt í einu á bringunni á mér svo fullkomin að ég trúði ekki eigin augum. Með bústnar kinnar, mikið dökkt hár og langar neglur.  Þetta var allt svo eitthvað náttúrulegt og rólegt og ljósmæðurnar svo öruggar í öllum sínum handtökum að þessi stund hverfur manni aldrei úr minnum.  Fimm mínútum seinna kom fylgjan sem ég fann ekkert fyrir að fæða, við hjónin afþökkuðum líka pent nánari skoðun á henni…Ég fékk að skoða fæðingarskýrsluna mína eftir á og sé að lengd fæðingarinnar minnar er 5 klukkutímar og 22 mínútur og þá er talið frá fyrstu reglulegu hríðunum sem komu hjá mér um klukkan þrjú um nóttina.  Rembingstíminn hjá mér var 32 mínútur og því get ég ekki annað er verið í skýjunum með þessa fæðingu sem ég gæti vel hugsað mér að endurtaka þess vegna strax á morgun… Ég rifnaði eitthvað sem er kallað annars stigs en hún Ágústa var mjög fljót að sauma mig og við kjöftuðum bara öll saman á meðan og maðurinn minn knúsaði stelpuna og hún var mæld og vigtuð.  Við vorum þarna saman á fæðingarstofunni í góða tvo tíma eftir fæðinguna og löbbuðum síðan yfir í Hreiðrið þar sem var yndislega gott að vera.

Ég þakka þessa góðu fæðingarsögu skilyrðislaust jóganu sem ég er búin að stunda síðan í byrjun janúar og þeim frábæra undirbúningi sem ég tel að ég hafi fengið hjá þér Maggý mín. Það má ekki gleyma að þessi andlegi undirbúningur sem fylgir stundun jóga er svo mikilvægur og mun mikilvægari en margar konur grunar.  Að lokum vil ég biðja að heilsa öllum bumbulínunum og gangi ykkur innilega vel!

Hin fullkomna tvíburafæðing

Kæra Auður og mínar fallegu jógasystur

Hvernig byrjar maður á að lýsa því að eignast tvö börn í einni og sömu fæðingunni? Trúið mér, það er mjög erfitt. Ég vil byrja á að segja ykkur frá öllum smáatriðunum en á sama tíma kalla yfir hópinn það stórfenglegasta að öllu: Ég var að eignast tvo undurfagra drengi!

Þegar við hjónin fórum í snemmsónar rétt fyrir jól þá var ég búin að búa mig undir að fá slæmar fréttir. Ég hafði verið með verki sem ég þekkti ekki úr fyrri meðgöngu og á um áttundu viku hafði farið að blæða smá og ég var því búin að búa mig undir að ekki væri allt sem skyldi. Um leið og ég sá sónarmyndina þá áttaði ég mig á að hlutirnir væru vissulega óvenjulegir en þó ekki á þá vegu sem ég hafði ímyndað mér; þarna var tvennt af öllu sem hafði verið til staðar síðast – Tvíburar! Mín fyrstu viðbrögð voru að hlægja og gráta á sama tíma: Þvílík gjöf! En hvernig eignast maður 2 börn? Það eina sem ég náði þó að gera var að líta á manninn minn með hendur yfir munni og segja: „Við þurfum ekki einn bílstól heldur TVO!“ Og þá heyrðist í lækninum; „Tja, mér sýnist aftursætið hjá ykkur allavega vera orðið fullt!“. Ég var í svo miklu sjokki að þegar læknirinn spurði mig hvort það væru einhverjir tvíburar í ættinni þá svaraði ég „nei“. Þegar ég settist inn í bíl eftir skoðunina þá áttaði ég mig á að það væru jú víst tvíburar í ættinni og hafði afi minn tildæmis átt tvíburabróður. Að ég ætti von á tvíburum voru voru samt fréttir sem mig datt aldrei í hug að ég myndi fá!

Meðgangan gekk mjög vel þrátt fyrir smá ógleði og umtalsverða þreytu um miðbik meðgöngunnar, og smátt og smátt þá byrjuðum við að undirbúa komu barnanna. Jóga var stór hluti af meðgöngu og fæðingu dóttur minnar sem fæddist í mars 2009 og því var ekki um annað að ræða en að byrja sem fyrst að mæta í Borgartúnið og leyfa jógaandrúmsloftinu taka völdin í sálartetrinu.

Þar sem meðallengd tvíburarmeðgöngu er styttri en einburameðgöngu þá vorum við alltaf með það í huga að krílin gætu komið fyrr og við vonuðum að ég myndi ná í það minnsta 36 vikum. Við höfðum líka fengið að heyra það að 38 vikur hjá tvíburamömmu væru eins og 42 vikur hjá einburamömmu hvað varðar legvatnsmagn, heilbrigði fylgju og fleira og því vorum við engan vegin búin undir það að ég myndi ganga 39 vikur með strákana okkar, en það gerði ég. Og ég segi það satt að augnablikið þegar afleysingarkennarinn klæddi mig í skóna eftir síðasta jógatímann minn í 38 viku var eitt það auðmjúkasta sem ég hef upplifað!

Og hefst þá sagan sjálf af hinni „fullkomnu tvíburafæðingu“.

Að morgni mánudagsins 27. Júní var ég virkilega farin að öfunda þær tvíburamömmur sem áttu tíma í keisarafæðingu á einhverjum ákveðnum degi. Það að vera ólétt lengur en þann tíma sem maður er búin að búa sig undir er að mínu mati eins og að jólunum sé frestað hjá ungu barni. Spennan og eftirvæntingin, forvitnissímtöl úr öllum áttum og fleira gera það að verkum að þú þráir SVO heitt að fá gjöfina þína í hendurnar og ég held að það hafi gert það að verkum að ég samþykkti að láta hreyfa við belgnum hjá fæðingarlækninum þá um morguninn.

Að láta hreyfa við belgnum var sérkennilegt og mér leið hálfpartinn eins og ég væri að svindla. Þóra fæðingarlæknir hafði útskýrt að það væri ekki víst að þessi aðferð myndi virka til þess að koma mér af stað og að ég gæti jafnvel átt von á fyrirvaraverkjum sem ekki myndu skila neinni útvíkkun. Ég var því alveg róleg þegar ég fór að finna fyrir aðeins seiðingi neðarlega í bakinu um hádegisbilið, fór bara aðeins í búðina, lagði mig í nokkra tíma, sótti tilvonandi stóru systur til dagmömmunnar, skellti mér í afmæliskaffi til tengdamömmu og fleira. Smátt og smátt tók ég eftir daufum túrverkjum í bakinu á 6-7 mínútna fresti. Ég var samt bara róleg og borðaði kvöldmat og setti svo stelpuna mína í sturtu enda verkirnir eiginlega ekki „verkir“ og enn alltaf 6-7 mínútur á milli. Við horfðum svo á sjónvarpið fram eftir kvöldi og um miðnætti lögðumst við hjónin upp í rúm og mér tókst að sofna í um 30-40 mínútur þrátt fyrir verkina  sem voru smátt og smátt að aukast og verða taktfastari. Um klukkan 2 þá ákvað ég að það væri skynsamlegast að fara upp á deild og láta athuga líðan drengjanna því þrátt fyrir að ég hefði nú frekar bara viljað vera heima undir sæng þá væru þeir nú búnir að vera með hamagang í kringum sig í einhvern tíma. Mamma kom því og var hjá stelpunni okkar og þegar ég kvaddi hana þá sagði ég við hana að þau mættu jafnvel alveg búast við því að við kæmum bara aftur enda gætu þetta allt eins verið einhverjir fyrirvaraverkir.

Á leiðinni niður á spítala þá fann ég hvernig verkirnir ágerðust og þegar við vorum komin inn í skoðunarherbergið þá helltist yfir mig það sem þau kölluðu „glímuskjálfta“; ég byrjaði að skjálfa óstjórnanlega á milli verkjanna, mér leið eins og mér væri ískalt en samt var einhvernvegin engin leið að hlýja mér. Ég fékk að heyra að svona lagað er mjög algengt en ég verð að viðurkenna að það var frekar óþægilegt að geta ekki nýtt tímann á milli hríða (sem urðu enn kröftugari eftir að við komum niður á deild) til að slaka vel á. Ljósmóðirin hélt þó áfram að skoða mig og mér til mikillar furðu og augljósrar ánægju þá var ég komin með 6-7 í útvíkkun! Ég var því send inn á fæðingarstofu og byrjað var að undirbúa komu strákanna okkar.

Tíminn inn á stofu leið frekar hratt. Þegar ég átti stelpuna mína þá fannst mér best að vera á hreyfingu á milli hríða og í hríðum, en núna fann ég að mér leið langbest liggjandi á bakinu, algjörlega kyrr og með hugann algjörlega inn á við. Ég vildi helst ekki segja orð og á milli hríða var maðurinn minn tilbúinn með vatn á brúsa – það má eiginlega segja að við höfum verið eins og boxari og þjálfarinn hans; hann var rólegur á hliðarlínunni í hríðunum en sagði mér ef honum fannst ég ekki vera að anda nógu rétt og svo að hríð lokinni stökk hann til með vatnsbrúsann og þurrkaði mér um ennið.

Þegar hríðarnar voru orðnar hvað verstar var ég hvað þakklátust fyrir jógað. Upp í huga mér kom allt það sem ég hafði tileinkað mér um vorið, sem og heilræði úr sögum jógasystra okkar eins og það að hugsa um hverja hríð sem „kraftaverk“. Á vissum tímapunkti þá varst þú sjálf komin upp í huga minn Auður; brosandi og hvetjandi og það veitti mér mikla ró.

Þegar ég fór að ræða við ljósmóðurina um að verkirnir væru nú orðnir það harðir að það væri ekki nokkur möguleiki fyrir mig að geta meira þá bauð ljósmóðirin mér að fá glaðloft. Þegar ég átti stelpuna mína þá notaði ég glaðloft til að linna verkina en fannst það í raun aldrei gera neitt að viti, frekar bara rugla mig í ríminu og því ákvað ég að afþakka það í þetta skiptið. Þá sagði hún að mænudeyfing væri þá næsti valmöguleiki og lýsti því ferli fyrir okkur. Á þeim tímapunkti varð ég nú frekar svekkt út í sjálfa mig því ég vissi að það var ekki alveg sagan sem ég ætlaði að segja ykkur en sársaukinn var bara orðinn svo mikill að ég bara gat ekki meir. Hún vildi þó, áður en að sóttur yrði læknir til að koma mænudeyfingunni fyrir, athuga útvíkkunina mína og tilkynnti mér í kjölfarið að mænudeyfingar yrði ekki þörf; ég væri komin með 10 í útvíkkun og ef ég fyndi til þess þörf þá mætti ég í næstu hríð byrja að rembast.  Ég varð svo hissa við þessar fréttir að ég held ég hafi hreinlega bara gleymt að finna til í nokkrar hríðir.

Ein af stóru áhyggjunum mínum fyrir fæðinguna var sú að það eru alltaf mun fleiri starfsmenn staddir í tvíburafæðingum og ég hafði séð fyrir mér að verða rugluð í ríminu af öllum mannskapnum. Það reyndist hins vegar ekki verða vandamál hjá mér þar sem ljósmóðirin kallaði ekki á auka mannskap fyrr en að rembingshríðirnar voru hafnar og ég hafði því aldrei tíma til að tapa áttum.  Smátt og smátt týndist inn fleira fólk og mjög fljótlega kom fyrri strákurinn í heiminn með miklum gusugangi þar sem belgurinn var enn heill. Ég held að ég eigi aldrei eftir að gleyma augnablikinu þegar hann spýttist í heiminn og ljósmæður og læknar stukku aftur til að forða sér frá vatnsflóðinu. Aldrei hefði mér dottið í hug að ég ætti eftir eignast barn og vera hlægjandi  5 sekúndum seinna.

Í aðdraganda fæðingarinnar, og enn eftir fæðinguna, þá ræða konur við mig um hvernig í veröldinni konur fara að því að fæða eitt barn og eiga svo eftir að ýta öðru barni í heiminn. Í mínu tilfelli þá er svarið einfalt: Ég gerði það með bros á vör!  Þessar 11 mínútur sem liðu þar til seinni strákurinn kom í heiminn eru einhverjar þær skýrustu sem ég hef upplifað. Í heilar 11 mínútur átti ég bara 2 börn, upplifði það að horfa á barnið liggjandi á maganum á mér, fylgjast með honum fara til fæðingarlæknisins, heimta að fá að vita allt sem hann væri að sjá, horfa á ljósmóðurina byrja að reyna að örva næstu hríðar, og þegar líkaminn sagði að nú væri komið að næsta barni þá var takmarkið svo skýrt og krafturinn mikill að það tók bara nokkrar hríðar til að fá hann í heiminn. Og þá átti ég 3 börn!

Seinni strákurinn þurfti að fara á vökudeild í 3 tíma þar sem hann andaði grunnt þegar hann kom í heiminn. En eftir ristað brauð, smá saumaskap, og vel heppnaða brjóstagjöf hjá þeim fyrri rölti ég yfir á vökudeild og sótti hann. Svo mikil var gleðin og orkan! Ég var þó stoppuð á leiðinni af einni ljósmóðurinni sem spurði mig hvort ég hefði ekki verið að eignast barn og hún neitaði að hleypa mér yfir án þess að taka hjá mér blóðþrýstinginn☺

Við nutum þess í rúman sólarhring að láta dekra við okkur á sængurkvennaganginum.  Brjóstagjöfin komst vel af stað og reglulega litu yndislegar ljósmæður við hjá okkur til að sjá þessa fallegu stráka sem komið höfðu  í heiminn í fullkominni tvíburafæðingu að sögn viðstaddra.

Hér ætla ég að láta staðar numið og sleppa því að ræða sönduga kossa frá stóru systur, vatnslekann sem gerði það að verkum að nýbakaða fimm manna fjölskyldan flutti af heimann, ælupestir og allt hitt sem hefur gengið á síðustu tvo mánuðina. Ég skal samt segja ykkur það að í þessari umbreytingu og aðlögun sem ég hef gengið í gegnum frá því að fallegu drengirnir mínir komu í heiminn hefur jógað verið lykillinn.

Ég óska ykkur öllum velfarnaðar og gleði.

Ljós og friður,

Sólveig Kolbrún

Hvar er mandarínan?

Ég var sett 1. desember. Meðgangan gekk vel og ég var bókstaflega dansandi hress alveg fram yfir fertugustu viku. Fór á djammið eftir settan dag og dansaði á barnum fram á nótt í þeirri von um að fara af stað. Fór ekki af stað og þegar ég vaknaði og fann engar hreyfingar panikkaði ég. Ég gat ekki vakið soninn með að pota í bumbuna, vakti Adda með kökkinn í hálsinum og við brunuðum á spítalann í þögn. Við sáum ekki fram úr þessu. Ég hélt að ég hefði gert of mikið og barnið hefði ekki höndlað það og sjálfshatrið var að byrja að malla í mestu hræðslu sem ég hef upplifað. Til allrar hamingju var sonurinn bara steinsofandi með dúndrandi hjartslátt í mónitornum. Ég hætti að dansa.

Þegar ég var gengin sex daga fram yfir hreyfði ljósmóðirin mín við belgnum án þess að ég hafi verið búin að ákveða mig hvort við ættum að gera það. Hún ætlaði að skoða mig og svo myndum við ákveða en svo bara potaði hún í þegar hún var að skoða. Mér fannst svo frekt að vera að draga son minn í heiminn sem hann var kannski ekki tilbúinn í. Ég vildi að hann kæmi þegar hann væri tilbúinn. Ég geri mér grein fyrir því núna að ég var í ruglinu og að það þarf að ná í börn sem ætla sér að mæta svo seint að það stofni þeim í hættu. Þannig að ég fyrirgaf ljósunni þegar ég var búin að skæla þetta út.

Þann 10. desember mættum við svo upp á fæðingargang í gangsetningu kl. 8:45. Ég þurfti smá æðruleysi til að sætta mig við að ekki gæti ég átt á Hreiðrinu. Við hittum Ingu ljósmóðurnema og hún spurði hvort ég vildi bað sem ég játaði áköf. Leiðir hún okkur ekki bara inn í stofu 5 með stærsta baði spítalans og ég gleymdi öllu sem heitir Hreiður á stundinni. Svo kemur í ljós að ég er komin með 6 í útvíkkun og ég send í labbitúr um spítalann. Addi minn var soldið stressaður og eiginlega bara úrvinda þannig að ég sendi hann að leggja sig og fór í labbitúr með huggulega tónlist í eyrunum. Þess má geta að ég gat ekki labbað áfram í samdráttunum og stóð kyrr og hélt um bumbuna og alltaf stoppaði einhver starfsmaður spítalans og spurði hvort mig vantaði aðstoð. Það fannst mér fallegt. Þegar ég kom til baka eftir að hafa villst nokkrum sinnum var ég ennþá bara með sex í útvíkkun og þá var ákveðið að sprengja belginn.

Það var gerti kl. 12:30 og ég fann ekkert fyrir því og ákvað að borða hádegismatinn minn sem var hveitikímssamloka og tvær mandarínur. Ég náði að borða samlokuna á milli samdrátta meðan ég sat á rúminu og vatnið drippaði niður á gólf. Svo stóð ég upp og í samdráttunum þurfti ég að hrista mig og dansa…ég bað Adda um að setja danslistann á fóninn. Danssporin voru ekki fögur…svona eins og tveggja ára barn að hossa sér frekar. Þegar ég gat klifraði ég svo ofan í pottinn og juggaði mér fram og aftur og borðaði eina mandarínu milli samdrátta. Ég verð nefnilega að klára matinn minn.

Hríðarnar urðu svolítið sterkar á þessum tímapunkti en þetta var ennþá bara soldið vont. Ég var í froskastöðunni, ruggaði mér og tók haföndunina eins og mér væri borgað fyrir það. Ljósan sagði að ég væri ýkt góð í þessu. Mér fannst það líka. Þegar dansinn í baðinu varð mér um megn dró ég Adda ofan í bað og klemmdi hann á mér grindina og það sló rosalega á sársaukann. Hann klemmdi með höndum og svo fótum til skiptis og þetta var líka hörkupúl fyrir hann. Ég bað um glaðloft en það hafði engin áhrif og pirraði mig bara. Þær sögðu mér þá að það hlyti að vera eitthvað bilað. Ég var tvo tíma í baðinu og seinni klukkutímann var ég með fingurinn á höfði sonarins og þvílíkt með augun á verðlaununum þegar ég andaði hann nær og nær og nær.

Klukkan 14:30 fór ég upp úr og var þá komin með tíu í útvíkkun. Ég lá á bakinu meðan þær voru að mæla útvíkkunina og það var ógeðslega vont. Ég hélt í Adda með einni og einhvern þríhyrning í lausu lofti með hinni og þetta var svo vont að ég hristist öll en ég man það bara því ég man að sjá handfangið, þríhyrninginn á fleygiferð með mér. Djöfull er vont að vera á bakinu!!! Ég fór þá á hnén og hallaði mér fram á púða og fékk rembingsþörfina. Addi sagði mér að rembast og ég öskraði á hann að ég mætti ekkert rembast…það væri ekki kominn tími. Ég var náttúrlega ekki búin að vera í sólahring og hélt þetta ætti að verða miklu sársaukafyllra áður en ég mætti rembast. Ljósan segir mér þá að ef ég þarf að rembast þá er kominn tími. Sársaukinn varð allt öðruvísi einhvernveginn. Í svona tvær sekúndur eftir hverja hríð var ég alveg verkjalaus og svolítið svona skringilega hress eitthvað…mjög skrýtið. Ekkert gerðist í hálftíma að mér fannst nema það að englarnir flugu yfir okkur í hverri hríð. Ég eyddi öllum mínum kröftum í rembinginn og þögnin í stofunni okkar var alger meðan ég varð öll eldrauð á litinn. Þessu tók ég náttúrlega ekki eftir fyrr en ég sá myndbandið sem við tókum upp en Adda datt allt í einu í hug að stilla bara símanum upp á einni hillunni og ég er honum rosalega þakklát fyrir það. Á myndbandinu sést semsagt framan í mig, bumban og brjóstin síðasta kortér fæðingarinnar…Ótrúlega gaman að horfa á þetta kraftaverk eftirá.

En já…eftir smástund í þessari stöðu langaði mig að leggja mig og fór virkilega að spá af hverju ég væri ekki á verkjalyfjum en það hafði einhvernveginn farið framhjá mér í allri þessari haföndun. Eftir hálftíma báðu ljósurnar mig um að fara á bakið og ég þverneitaði en þá vildu þær fá mig á hliðina og halda undir hnésbótina meðan ég remdist. Þarna var þetta orðið rosa vont og ég hristist öll og skalf og emjaði eitthvað um þyngdaraflið og að ég vildi standa og að mig sveið en svo kom hríð og ég í fyrsta skiptið báðu þær mig um að purra og það sem ég purrrrrraði. Ég var eins og fjórir hestar í kapppurri og eftir purrið æpti ég um leiðbeiningar og hvað ég ætti að gera og spurði hvað væri að gerast…ég var oggu lost þarna í nokkrar sekúndur og hvæsti á þær þegar þær buðu mér að finna kollinn. Ég hafði ekkert tíma í það!!! Um leið og þær segja mér að rembast eftir purrið poppar herforinginn út mér til mikillar furðu eftir tæpa þriggja tíma fæðingu eða kl.15:19. Ég var svo hissa og fór ekkert að skæla heldur horfði bara á hann og spurði hvar mandarínan mín væri. Eftir að hafa dáðst að honum fékk Addi hann meðan ég kláraði mandarínurnar og var saumuð saman en ég rifnaði soldið þar sem þetta gekk svo fljótt yfir og það var greinilega þessi sviði sem var að trufla mig undir það síðasta. Mér fannst ýkt pirrandi að bíða í klukkutíma meðan þær saumuðu mig og fannst þetta óþægilegt auk þess sem deyfingin virkaði ekki á einum staðnum og ég fann alltaf fyrir nálinni þar. Á meðan var Arnþórsson í fanginu á föður sínum og kúkaði feitt í sængina án þess að nokkur tæki eftir því.

Við fengum svo að vera í fjölskylduherbergi í Hreiðrinu um nóttina og um leið og ég hlustaði á aðra konu eignast barn gerði ég mér grein fyrir hvers ég væri mögnug. Ég grét af stolti yfir sjálfri mér og þessu djásni við hlið mér í gegnum fæðingu ókunnrar konu í næsta herbergi. Stundum þarf maður bara tíma til að átta sig á hlutunum.
Stelpur…var einhver af ykkur að eignast barn í Hreiðrinu um 02:30 þann 11. Des? Ef svo er…takk!

Foringinn er fullkominn. Hann heyrir og sér, er með tíu fingur og tær, englahvítt hár og eitt Pétursspor. Hann fæddist 15 merkur og 52 sentimetrar og augljóslega frekar þungar augabrúnir. Við erum viss um að hann sé snillingur og þessar fyrstu vikur með honum eru búnar að vera mesta rússíbanareið lífs míns.

Heimafæðing yndislegu dömunnar minnar 5.2.2014

Formáli

Þegar ég fékk jákvætt þungunarpróf var ég orðin ákveðin, heimafæðing skyldi það verða. Fyndið að segja frá því að heimafæðingin var löngu ákveðin áður en við ákváðum að fara reyna við næsta barn. Ég hafði hitt Kristbjörgu ljósmóður á seinustu meðgöngu en hún hafði verið að leysa af á heilsugæslunni og man að mér fannst hún mjög indæl. Hafði ég samband við hana um 16. viku og hafði hún áhuga á að taka á móti. Maðurinn minn var alls ekki mótfallinn heimafæðingu, hann hafði meira áhyggjur af hlutum eins og við myndum trufla nágrannanna eða eyðileggja parketið. Eftir stutt spjall við Kristbjörgu var hann líka alveg heillaður af þessum áformum og var mjög gott að hafa hans stuðning í gegnum ferlið sérstaklega þar sem margir í kringum okkur voru ekki eins sannfærðir. Ég fann líka hvað ég náði vel saman við Kristbjörgu og heillaðist af hennar nálgun á meðgöngu og fæðingu sem náttúrulegt ferli sem á að grípa sem minnst inn í, konan gerir þetta alveg sjálf og líkaminn alveg fær um að fæða barnið í heiminn. Ákvað því strax á 16. viku að fara eingöngu í mæðraskoðanir til Kristbjargar til að tengjast og kynnast henni ennþá betur.

Meðgangan gekk mjög vel. Ég var dugleg að mæta í jóga og sund. Fannst það skipta miklu máli að komast út úr húsi öðru hvoru og eiga bara tíma með mér og ófædda barninu. Það átti til með að gleymast í amstri dagsins í fullri vinnu, með eina 2 ára orkubolta og heimili.

Fæðingin sjálf

Settur dagur var 1. febrúar, hann kom og fór án þess að eitthvað gerðist. Kristbjörg kom og kíkti á mig um kvöldið 4. febrúar. Þá var blóðþrýstingurinn búinn að fara hækkandi og fannst prótein í þvaginu. Annars leið mér mjög vel. Sama gerðist á seinustu meðgöngu en hún ætlaði að ráðleggja sig við lækni daginn eftir og ég þyrfti líklegast að fara niður á kvennadeild í monitor. Þetta kvöld varð ég alveg eyðilögð, þarna var ég handviss um að heimafæðing væri ekki í boði fyrir mig og ég myndi enda í gagnsetningu upp á sjúkrahúsi. Ég talaði heillengi við krílið mitt og bað það að fara koma í heiminn þar sem mamman væri aðeins að verða veik. Ég lofaði fullt af knúsum og mjólk í nýja heiminum.

Ég vakna rétt fyrir kl. 6 morguninn eftir þann 5. febrúar með slæma verk. Hélt fyrst að ég væri bara að fá í magann en verkurinn leið hjá og ég náði að sofna. Hálftíma seinna vakna ég upp við sama verk og fór fljótlega að átta mig á því að það væri kannski eitthvað farið að gerast. Vildi samt ekki gera mér neinar vonir, hélt áfram að kúra upp í rúmi, en verkirnir komu og fóru á uþb 15 mín fresti, missterkir. Lét kallinn minn vita að ég grunaði eitthvað og hann sleppti að fara í vinnuna þennan morguninn. Sendi líka sms til Kristbjörgu og sagði henni að það væri kannski eitthvað að gerast og ég átti að láta vita ef þetta myndi aukast. Sendum stóru stelpuna síðan bara í leikskólann en hún var 2,5 árs á þessum tíma.

Verkirnir héldu áfram að vera óreglulegir, og missterkir. Datt einu sinni niður í meira en 40 mín og þá hélt ég að öll von væri úti. Tók samt smá göngutúr með kallinum og eftir hann fór meira að gerast. Gengum meðal annars framhjá leikskólanum þar sem stelpan okkar er og sáum hana leika úti. Kallinn fór í leiðangur að kaupa mat og drykki, birgðir fyrir komandi átök. Fljótlega eftir að hann kom aftur voru verkirnir að verða ansi öflugir og hafði ég misst alla matarlyst. Kallinn byrjaði að undirbúa “hreiðrið” okkar heima, blés upp laugina, setti teppi yfir gluggana og færði til húsgöng. Ég kveikti á kertum og var orðið mjög kósý í stofunni okkar. Kveiktum svo á gamanmynd (Men in Black) og knúsuðum hvort annað. Það var rétt fyrir 12 sem hríðarnar fóru að verða reglulegar og sterkar, 5­7 mín á milli og ég þurfti að anda mig vel í gegnum þá. Fór líka að blæða frá leghálsinu sem er víst bara merki um að hann væri að undirbúa sig og að opnast. Sendi annað sms á Kristbjörgu og hún sagði mér bara að láta mig vita hvenær við vildum fá hana. Við slökktum á sjónvarpinu, kveiktum á Grace disknum og settum myndasýningu í sjónvarpið með myndum af eldri dóttur okkar nýfæddri, svona til að gefa mér innblástur og aukin kraft því þetta var markmiðið, litla barnið okkar.

Mér fannst best í hríðunum að standa yfir skeknum í stofunni og halla mér örlítið fram, Axel stóð fyrir aftan mig og nuddaði mjóbakið með hnefunum eða puttum. Þarna kom nuddkennsla sér vel í jóganum. Í lok hverja hríða hallaði ég mér upp að honum og kyssti hann. Já ég veit, ógeðslega væmna ég, bara hafði rosalega mikla þörf fyrir ást, snertingu og umhyggju. Rúmum 30 mín eftir að ég sendi sms­ið fóru hríðarnar að koma á 3­4 mín fresti og fóru að vera ennþá erfiðari og fór að finna þrýsting niður á við. Sendi þá strax sms og bað hana að koma. Hún kom rétt eftir 13. Hún sá strax að ég væri í fæðingu og ég komst í laugina. Það var himneskt.

Ég byrjaði að halla mér fram með höfuð og hendur á bakkanum og hné við botninn og fann vel hvernig kollurinn færðist neðar í hverri hríð. Eftir nokkur skipti fór ég að fá svo mikinn þrýsting niður í mjóbak að ég gat ekki lengur verið í þessari stellingu og ákvað að fara yfir á bakið og hvíldi höfuðið bakkanum. Þannig náði ég að slaka vel á og fljóta í vatninu. Þarna fór aðeins að lengjast á milli hríða og vill Kristbjörg meina að vatnið hafði verið aðeins of heitt en mér fannst það fínt, gaf mér betri hvíld á milli hríða. Fór síðan að finna kunnuglegan þrýsting niður á við og vissi að þetta færi að klárast. Ég þurfti að nota allan minn kraft til að slaka á þarna niðri til að leyfa hríðunum að gera sitt. Undir lokin fannst mér æðislegt að stynja í hríðunum, þá náði ég að slaka ennþá betur á.

Rembingsþörfin kom smátt og smátt. Kristbjörg sagði mér bara að hlusta á líkamann, ef ég þyrfti að rembast þá myndi ég bara rembast. Hún athugaði aldrei útvíkkunina. Fann hvernig hríðarnar breyttust, og var mikill léttir. Eins og seinast fannst mér rembingurinn mun auðveldari en útvíkkunin. Ákvað til að auðvelda allt að fara aftur í sömu stellingu og ég byrjaði í, því þannig náði ég að opna grindina vel og fann strax að það virkaði. Þannig náði ég líka að halda vel í hendurnar á kallinum mínum og gat kysst hann og knúsað eins og ég vildi. Byrjaði að rembast um 3 leitið og finnst mér alltaf jafn ótrúlegt að finna kollinn fara neðar og neðar. Ég passaði mig að um leið og ég fór að finna fyrir sviða, hægði ég á rembingnum og kollurinn fór aftur inn. Eftir 20 mín af rembing eða kl. 15:20 kom loksins kollurinn. Ótrúlegt að segja þá var það eina skiptið í fæðingunni sem ég missti stjórn á mér og öskraði en vá það var alveg ótrúlegt að þetta væri búið. Var ekki að átta mig að þetta væri búið og ég heyri Kristbjörgu segja fyrir aftan mig, “Mamma ég er komin út, ég þarf einhvern til að taka mig upp” en þá var barnið komið allt út og ég tók það sjálf upp úr vatninu. Væmna ég fór strax að hágráta enda yndislegasta augnablik í heiminum. Litla gullið var mjög rólegt en það andaði alveg strax, og grét stuttu seinna. Við kíktum í pakkann en við vissum ekki kynið á meðgöngunni og sáum strax að við höfðum eignast aðra litla stelpu. Þegar litlan var búin að átta sig á þessum nýja heim fór hún sjálf strax á brjóstið og hefur verið þar síðan. Klárlega besti staðurinn í heiminum.

Síðan vorum við bara í rólegheitum í lauginni og fór upp þegar ég var tilbúin. Fylgjan var ennþá ófædd enda fannst Kristbjörgu alveg óþarfi að koma henni út, hún kæmi út þegar hún væri tilbúin. Ég fór upp í mitt eigið rúm með dömuna og við litla fjölskyldan fórum að kynnast. Á meðan gengu Kristbjörg og ljósmóðurneminn sem hafði verið viðstaddur frá stofunni. Þegar ég fór fram þá var ekki að sjá að þarna hefði verið fæðing. Rúmlega 1,5 klst eftir fæðinguna kom fylgjan og það þurfti ekkert að sauma. Stelpan var vigtuð og mæld, 13 merkur og 51,5 cm. Algjörlega fullkomin.

Eftirmáli

Ég vissi hreinlega ekki að það væri hægt að eiga draumafæðingu. Þessi reynsla mín er gjörólík þeirri fyrri og það er tvennt ólíkt að eiga rólega heimafæðingu þar sem líkaminn fer sjálfur af stað heldur en að þurfa hríðaraukandi lyf til að koma ferlinu af stað eins og ég lenti í seinast. Mér fannst dásamlegt að geta kynnst eingöngu einni ljósmóður í gegnum allt ferlið, sem þekkir mann og óskir. Ég er óendanlega þakklát að hafa tekið þá ákvörðun að eiga heima og vera í mínu umhverfi þar sem ég er á heimavelli. Maðurinn minn er líka sammála því. Þetta var yndisleg upplifun frá byrjun og til enda og svíf ég á bleiku skýi þessa dagana. Lífið er sannlegar dásamlegt.