Fyrirburahetja

Loksins kom ég mér að því að setjast í ró og næði og skrifa söguna mína.
Þetta er mín fyrsta meðganga en Árni á eina dóttur fyrir. Meðgangan gékk eins og í sögu fyrstu mánuðina og leið mér rosa vel að vera ólétt fyrir utan örlitla þreytu sem stafaði af járnskorti og auðvelt að laga þegar það var vitað.

Þegar ég var gengin 21 viku fékk ég flensu sem ég hafði litlar áhyggjur af fyrr en á þriðja degi þá verð ég vör við örlitla blæðingu, ég hafði samband við ljósmóður inn í Keflavík sem segir þetta í það litlu magni að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur. Á fimmtudeginum 2 dögum seinna er ég ekki ennþá orðin hress og þá blæðir aðeins aftur, en eins og seinast þá er það í svo litlu magni að líklegast var um slímhúða blæðingu að ræða. Ég átti morgun flug til Boston daginn eftir og Árna var ekkert að farið að litast á blikuna því ég var ekkert að hressast og vildi að við mundum biðja um skoðun áður en ég færi í flug. Á fimmtudagskvöldið fórum við upp á Lsh og fengum skoðun og eftir langa bið þá kom í ljós að ég var komin með 3 í útvíkkun og belgurinn byrjaður að síga. Ég var ekki gengin 22 vikur og okkur því tjáð að því miður sé ekkert hægt að gera til að bjarga fóstrinu og ég væri komin afstað í fæðingu.Við fengum herbergi á sængurkvenna ganginum og okkur sagt að slaka á og reyna að sofa.Við vorum í vægast sagt miklu sjokki og ég trúði bara ekki að þau gætu ekkert gert til að bjarga barninu mínu, ég fann hann hreyfa sig og á sama tíma er verið að reyna að segja mér að þetta sé búið.

Um morguninn voru komnar niðurstöður úr blóðprufu sem var tekin og það kom í ljós að ég var ekki með neina sýkingu þannig að þetta væri leghálsinn sem væri að opnast og byrjaður að gefa sig. Í ljósi þess að enginn sýking væri þá voru þau tilbúin til að fara í bráðaaðgerð til að sauma leghálsinn saman en þá væri samt meiri hætta á að í aðgerðinn mundi belgurinn rofna. Við urðum að taka lokaákvörðina hvað við vildum gera en ég var gengin 22 vikur þarna og við viku 23 þá er fóstrið orðið barn og þá er allt gert til að reyna að bjarga því. Við ákváðum að þiggja neyðarsauminn og treysta á að belgurinn mundi ekki rofna. Aðgerðin tókst og við tók algjör rúmlega fyrir mig. Markmiðið var að ná allaveganna 7 daga rúmlegu og allt aukalegt yrði guðsgjöf.

Ég náði að liggja í tæpar 2 vikur en þegar ég var gengin 23v4d þá var ég komin með sýkingu og örlítið legvatn byrjað að leka. Ég fór beint á sýklalyf og við trúðum því að við mundum sigra þessa sýkingu. Á miðvikudagskvöldi þá gengin 23v5d þá fékk ég fyrsta verk um hálf 8 um kvöldið. Þarna vissum við strax hvað mundi gerast í framhaldinu og fórum strax að hugsa hvað við vorum heppin að hafa náð fram yfir þessi mörk en hræðslan og óvissan var svo mikil þrátt fyrir það. Ég var komin upp í fæðingarherbergi um hálf ellefu með töluverða verki og 6 í útvíkkun. Hann var í höfuðstöðu og því var ekki gripið til keisara en þau voru viðbúin öllu því hann hafði nóg pláss til að hreyfa sig um í belgnum. Við vorum með æðislega ljósmóður og allt fagfólk sem mögulegt er að hafa var hjá okkur bæði kvennalækna og eins sérfræðinga í nýburum tilbúna til að taka á móti honum. Ég var með mikinn hita og slappleika út frá sýkingunni sem ég var með og langaði bara að klára þetta. Ég fékk þó aldrei neina rembingstilfinningu að ráði þannig að þetta tók mun lengri tíma en áætlað var í upphafi. Þær voru allar svo varkárar og vildu helst ekki grípa inn í á neinn hátt en svo ákvað ljósmóðirin að sprengja belginn. Stuttu eftir það eða kl 03:24 kom litli agnarsmái drengurinn okkar svo í heiminn eftir 23v6d meðgöngu 658 gr og 32 cm. Hann fæddist lifandi en andaði ekki. Kristín sérfræðingur í nýburum og teymi frá vökudeildinni tekur við honum og það tekur 10 mínútur að fá hann til að svara öndum í gegnum öndunarvélina. Þessi tími var endalaus en á sama tíma var ég svo dofin og langaði bara til að fá að sjá hann. Hann fæddist með sýkingu sem hann fær frá mér í móðurkviði og því mjög erfiðir dagar framundan og ástandið tvísýnt.

Hann er þvílíkur baráttukarl og eftir 110 erfiða daga þá var hann útskrifaður af vökudeild og þá hefði ég verið gengin 39v3d.

Í dag er hann flottur 1 árs strákur, hetjan okkar!

💙