Hin fullkomna tvíburafæðing

Kæra Auður og mínar fallegu jógasystur

Hvernig byrjar maður á að lýsa því að eignast tvö börn í einni og sömu fæðingunni? Trúið mér, það er mjög erfitt. Ég vil byrja á að segja ykkur frá öllum smáatriðunum en á sama tíma kalla yfir hópinn það stórfenglegasta að öllu: Ég var að eignast tvo undurfagra drengi!

Þegar við hjónin fórum í snemmsónar rétt fyrir jól þá var ég búin að búa mig undir að fá slæmar fréttir. Ég hafði verið með verki sem ég þekkti ekki úr fyrri meðgöngu og á um áttundu viku hafði farið að blæða smá og ég var því búin að búa mig undir að ekki væri allt sem skyldi. Um leið og ég sá sónarmyndina þá áttaði ég mig á að hlutirnir væru vissulega óvenjulegir en þó ekki á þá vegu sem ég hafði ímyndað mér; þarna var tvennt af öllu sem hafði verið til staðar síðast – Tvíburar! Mín fyrstu viðbrögð voru að hlægja og gráta á sama tíma: Þvílík gjöf! En hvernig eignast maður 2 börn? Það eina sem ég náði þó að gera var að líta á manninn minn með hendur yfir munni og segja: „Við þurfum ekki einn bílstól heldur TVO!“ Og þá heyrðist í lækninum; „Tja, mér sýnist aftursætið hjá ykkur allavega vera orðið fullt!“. Ég var í svo miklu sjokki að þegar læknirinn spurði mig hvort það væru einhverjir tvíburar í ættinni þá svaraði ég „nei“. Þegar ég settist inn í bíl eftir skoðunina þá áttaði ég mig á að það væru jú víst tvíburar í ættinni og hafði afi minn tildæmis átt tvíburabróður. Að ég ætti von á tvíburum voru voru samt fréttir sem mig datt aldrei í hug að ég myndi fá!

Meðgangan gekk mjög vel þrátt fyrir smá ógleði og umtalsverða þreytu um miðbik meðgöngunnar, og smátt og smátt þá byrjuðum við að undirbúa komu barnanna. Jóga var stór hluti af meðgöngu og fæðingu dóttur minnar sem fæddist í mars 2009 og því var ekki um annað að ræða en að byrja sem fyrst að mæta í Borgartúnið og leyfa jógaandrúmsloftinu taka völdin í sálartetrinu.

Þar sem meðallengd tvíburarmeðgöngu er styttri en einburameðgöngu þá vorum við alltaf með það í huga að krílin gætu komið fyrr og við vonuðum að ég myndi ná í það minnsta 36 vikum. Við höfðum líka fengið að heyra það að 38 vikur hjá tvíburamömmu væru eins og 42 vikur hjá einburamömmu hvað varðar legvatnsmagn, heilbrigði fylgju og fleira og því vorum við engan vegin búin undir það að ég myndi ganga 39 vikur með strákana okkar, en það gerði ég. Og ég segi það satt að augnablikið þegar afleysingarkennarinn klæddi mig í skóna eftir síðasta jógatímann minn í 38 viku var eitt það auðmjúkasta sem ég hef upplifað!

Og hefst þá sagan sjálf af hinni „fullkomnu tvíburafæðingu“.

Að morgni mánudagsins 27. Júní var ég virkilega farin að öfunda þær tvíburamömmur sem áttu tíma í keisarafæðingu á einhverjum ákveðnum degi. Það að vera ólétt lengur en þann tíma sem maður er búin að búa sig undir er að mínu mati eins og að jólunum sé frestað hjá ungu barni. Spennan og eftirvæntingin, forvitnissímtöl úr öllum áttum og fleira gera það að verkum að þú þráir SVO heitt að fá gjöfina þína í hendurnar og ég held að það hafi gert það að verkum að ég samþykkti að láta hreyfa við belgnum hjá fæðingarlækninum þá um morguninn.

Að láta hreyfa við belgnum var sérkennilegt og mér leið hálfpartinn eins og ég væri að svindla. Þóra fæðingarlæknir hafði útskýrt að það væri ekki víst að þessi aðferð myndi virka til þess að koma mér af stað og að ég gæti jafnvel átt von á fyrirvaraverkjum sem ekki myndu skila neinni útvíkkun. Ég var því alveg róleg þegar ég fór að finna fyrir aðeins seiðingi neðarlega í bakinu um hádegisbilið, fór bara aðeins í búðina, lagði mig í nokkra tíma, sótti tilvonandi stóru systur til dagmömmunnar, skellti mér í afmæliskaffi til tengdamömmu og fleira. Smátt og smátt tók ég eftir daufum túrverkjum í bakinu á 6-7 mínútna fresti. Ég var samt bara róleg og borðaði kvöldmat og setti svo stelpuna mína í sturtu enda verkirnir eiginlega ekki „verkir“ og enn alltaf 6-7 mínútur á milli. Við horfðum svo á sjónvarpið fram eftir kvöldi og um miðnætti lögðumst við hjónin upp í rúm og mér tókst að sofna í um 30-40 mínútur þrátt fyrir verkina  sem voru smátt og smátt að aukast og verða taktfastari. Um klukkan 2 þá ákvað ég að það væri skynsamlegast að fara upp á deild og láta athuga líðan drengjanna því þrátt fyrir að ég hefði nú frekar bara viljað vera heima undir sæng þá væru þeir nú búnir að vera með hamagang í kringum sig í einhvern tíma. Mamma kom því og var hjá stelpunni okkar og þegar ég kvaddi hana þá sagði ég við hana að þau mættu jafnvel alveg búast við því að við kæmum bara aftur enda gætu þetta allt eins verið einhverjir fyrirvaraverkir.

Á leiðinni niður á spítala þá fann ég hvernig verkirnir ágerðust og þegar við vorum komin inn í skoðunarherbergið þá helltist yfir mig það sem þau kölluðu „glímuskjálfta“; ég byrjaði að skjálfa óstjórnanlega á milli verkjanna, mér leið eins og mér væri ískalt en samt var einhvernvegin engin leið að hlýja mér. Ég fékk að heyra að svona lagað er mjög algengt en ég verð að viðurkenna að það var frekar óþægilegt að geta ekki nýtt tímann á milli hríða (sem urðu enn kröftugari eftir að við komum niður á deild) til að slaka vel á. Ljósmóðirin hélt þó áfram að skoða mig og mér til mikillar furðu og augljósrar ánægju þá var ég komin með 6-7 í útvíkkun! Ég var því send inn á fæðingarstofu og byrjað var að undirbúa komu strákanna okkar.

Tíminn inn á stofu leið frekar hratt. Þegar ég átti stelpuna mína þá fannst mér best að vera á hreyfingu á milli hríða og í hríðum, en núna fann ég að mér leið langbest liggjandi á bakinu, algjörlega kyrr og með hugann algjörlega inn á við. Ég vildi helst ekki segja orð og á milli hríða var maðurinn minn tilbúinn með vatn á brúsa – það má eiginlega segja að við höfum verið eins og boxari og þjálfarinn hans; hann var rólegur á hliðarlínunni í hríðunum en sagði mér ef honum fannst ég ekki vera að anda nógu rétt og svo að hríð lokinni stökk hann til með vatnsbrúsann og þurrkaði mér um ennið.

Þegar hríðarnar voru orðnar hvað verstar var ég hvað þakklátust fyrir jógað. Upp í huga mér kom allt það sem ég hafði tileinkað mér um vorið, sem og heilræði úr sögum jógasystra okkar eins og það að hugsa um hverja hríð sem „kraftaverk“. Á vissum tímapunkti þá varst þú sjálf komin upp í huga minn Auður; brosandi og hvetjandi og það veitti mér mikla ró.

Þegar ég fór að ræða við ljósmóðurina um að verkirnir væru nú orðnir það harðir að það væri ekki nokkur möguleiki fyrir mig að geta meira þá bauð ljósmóðirin mér að fá glaðloft. Þegar ég átti stelpuna mína þá notaði ég glaðloft til að linna verkina en fannst það í raun aldrei gera neitt að viti, frekar bara rugla mig í ríminu og því ákvað ég að afþakka það í þetta skiptið. Þá sagði hún að mænudeyfing væri þá næsti valmöguleiki og lýsti því ferli fyrir okkur. Á þeim tímapunkti varð ég nú frekar svekkt út í sjálfa mig því ég vissi að það var ekki alveg sagan sem ég ætlaði að segja ykkur en sársaukinn var bara orðinn svo mikill að ég bara gat ekki meir. Hún vildi þó, áður en að sóttur yrði læknir til að koma mænudeyfingunni fyrir, athuga útvíkkunina mína og tilkynnti mér í kjölfarið að mænudeyfingar yrði ekki þörf; ég væri komin með 10 í útvíkkun og ef ég fyndi til þess þörf þá mætti ég í næstu hríð byrja að rembast.  Ég varð svo hissa við þessar fréttir að ég held ég hafi hreinlega bara gleymt að finna til í nokkrar hríðir.

Ein af stóru áhyggjunum mínum fyrir fæðinguna var sú að það eru alltaf mun fleiri starfsmenn staddir í tvíburafæðingum og ég hafði séð fyrir mér að verða rugluð í ríminu af öllum mannskapnum. Það reyndist hins vegar ekki verða vandamál hjá mér þar sem ljósmóðirin kallaði ekki á auka mannskap fyrr en að rembingshríðirnar voru hafnar og ég hafði því aldrei tíma til að tapa áttum.  Smátt og smátt týndist inn fleira fólk og mjög fljótlega kom fyrri strákurinn í heiminn með miklum gusugangi þar sem belgurinn var enn heill. Ég held að ég eigi aldrei eftir að gleyma augnablikinu þegar hann spýttist í heiminn og ljósmæður og læknar stukku aftur til að forða sér frá vatnsflóðinu. Aldrei hefði mér dottið í hug að ég ætti eftir eignast barn og vera hlægjandi  5 sekúndum seinna.

Í aðdraganda fæðingarinnar, og enn eftir fæðinguna, þá ræða konur við mig um hvernig í veröldinni konur fara að því að fæða eitt barn og eiga svo eftir að ýta öðru barni í heiminn. Í mínu tilfelli þá er svarið einfalt: Ég gerði það með bros á vör!  Þessar 11 mínútur sem liðu þar til seinni strákurinn kom í heiminn eru einhverjar þær skýrustu sem ég hef upplifað. Í heilar 11 mínútur átti ég bara 2 börn, upplifði það að horfa á barnið liggjandi á maganum á mér, fylgjast með honum fara til fæðingarlæknisins, heimta að fá að vita allt sem hann væri að sjá, horfa á ljósmóðurina byrja að reyna að örva næstu hríðar, og þegar líkaminn sagði að nú væri komið að næsta barni þá var takmarkið svo skýrt og krafturinn mikill að það tók bara nokkrar hríðar til að fá hann í heiminn. Og þá átti ég 3 börn!

Seinni strákurinn þurfti að fara á vökudeild í 3 tíma þar sem hann andaði grunnt þegar hann kom í heiminn. En eftir ristað brauð, smá saumaskap, og vel heppnaða brjóstagjöf hjá þeim fyrri rölti ég yfir á vökudeild og sótti hann. Svo mikil var gleðin og orkan! Ég var þó stoppuð á leiðinni af einni ljósmóðurinni sem spurði mig hvort ég hefði ekki verið að eignast barn og hún neitaði að hleypa mér yfir án þess að taka hjá mér blóðþrýstinginn☺

Við nutum þess í rúman sólarhring að láta dekra við okkur á sængurkvennaganginum.  Brjóstagjöfin komst vel af stað og reglulega litu yndislegar ljósmæður við hjá okkur til að sjá þessa fallegu stráka sem komið höfðu  í heiminn í fullkominni tvíburafæðingu að sögn viðstaddra.

Hér ætla ég að láta staðar numið og sleppa því að ræða sönduga kossa frá stóru systur, vatnslekann sem gerði það að verkum að nýbakaða fimm manna fjölskyldan flutti af heimann, ælupestir og allt hitt sem hefur gengið á síðustu tvo mánuðina. Ég skal samt segja ykkur það að í þessari umbreytingu og aðlögun sem ég hef gengið í gegnum frá því að fallegu drengirnir mínir komu í heiminn hefur jógað verið lykillinn.

Ég óska ykkur öllum velfarnaðar og gleði.

Ljós og friður,

Sólveig Kolbrún