Fjör í fjóra daga

Ég mætti í vinnuna 14. nóvember, vitandi að það væri síðasti vinnudagurinn minn þar sem að ég var sett á mánudeginum 17. nóvember.

Ég fór heim út vinnunni og beint að passa einn 4ra ára.Við lékum okkur og djöfluðumst. Hann ýtti svo eitt skiptið frekar fast í kúluna að mér fanst og eftir það þá byjuðu verkirnir. Þeir komu hægt og rólega til að byrja með og ég var lítið að spá í þessu. Svo um kl 21.00 þá er ég að keyra heim og tek eftir því að verkirnir eru farnir að vera ansi vondir og komu með 5-7 mínotna millibili. Ég gerði nú ekki mikið úr því, skellti mér í bað þegar ég kem heim og fer svo bara að sofa. Daginn eftir vakna ég frekar snemma eftir svefnlitla nótt að sökum verkja . Ég skelli mér í afmæli hjá fænku minni þar sem allir voru að veðja á hvenær barnið léti sjá sig. Ég sagði engum að ég væri með verki, en fór snemma heim þar sem ég var uppgefin. Um kl 17.00 á laugardeginum hringi ég í systir mína og segi henni að ég geti ekki meira og að hún verði að koma til mín. Hún kom og við hringdum uppá fæðingardeild þar sem ég var lögð inn. YES! Komin inn og nú skal þetta barn koma. Ljósmóðirin sagði að miðað við hvað samdrættirnir væru miklir þá kæmi barnið líklegast þessa nótt, en þar sem ég var ekki komin með nema 3,5 í útvíkkun þá vildi hún gefa mér lyf í æð sem áttu að vera vöðvalsakandi og ættu að geta leyft mér að sofa aðeins.

Ég fékk þessi lyf og af einhverjum ástæðum (sem enginn virðist skilja) þá gaf hún mér lyf sem minnka samdættina, sem varð þess valdandi að það datt allt niður. Ég ældi eins og múkki þá nótt og var svo bara send heim þar sem að allt datt niður.

Ég var komin á aftur á byrjunarreit. Úfff núna var bara að bretta upp ermarnar og byrja uppá nýtt. Á sunnudagsmorgni fór ég að malla af stað aftur (dagur 3 í verkjum) og núna ætlaði ég ekki að fara aftur í fýluferð upp á spítala og vildi sko ekki fara þangað fyrr en helst hausinn væri kominn. Ég þraukaði allan sunnudaginn til miðnættis, þá fór ég upp á deild aftur þar sem ég var send heim með Smarties (eina parkodín) og sagt að reyna að sofa þar sem að útvíkkunin var ekkert búin að breytast. OK ég fer heim og sef ekki baun. Reyni að drösla mér í bað heima aftur, horfi á fyndna mynd og reyni að hlægja barnið út sem var ekki að virka því ég gat varla talað út af verkjum. Í hádeginu á mánudegi (dagur 4) fer ég aftur uppá deild og bað til guðs að barnið færi nú að koma. Ég fer upp á deil og JEY!! Ég er komin með 4ra í útvíkkun jibbíkóla!

Þær ætluðu að senda mig heim, en þá kom æðisleg ljósa sem heitir Kristín og sagði að ég gæti ekkert hvílt mig heima með þessa verki og hún bókaði herbergi númer 9 í hreiðrinu (extra stórt með risa stóru baði) Hún fyllti baðið og ég svamlaði þar í dágóðan tíma með því að ég rétt stökk uppúr bara rétt til að soðna ekki um of.

Mér leið mikið betur og þar sem að ég má ekki fá mænudeifingu vegna bílslys sem ég lenti í þá var ekkert sem ég gat gert til að lina sársaukan nema bað, nálar og bíta á jaxlinn. kvöldið leið og ekkert var að frétta af útvíkkunni. Um kl 22.00 var ég komin í heila 5 og mér var bannað að fara meira í bað þar sem að ég slakaði of mikið á og samdættirnir urðu ekki jafn sterkir.

Mér var svo boðið morfín í æð um miðnætti, ásamt svefnlyfjum svo að ég næði að kvílast aðeins fyrir stóru átökin. Ég þáði það og um klukkustund síðar sofna ég. Þegar ég var búin að sofa í tæpan klukkutíma vakna ég við það að ég held að vatið sé farið. Kalla á ljósuna og hún kemur og staðfestir það og segir mér að fljótlega ætti allt að fara af stað. En viti menn… nei engin breyting klukkutíma síðar. Enþá 5 í útvíkkun og ég orðin út úr heiminum af morfíni og þreytu. Svo um kl 5 þá kemur ljósan inn og skoðar mig þar sem að ég var í sleep-coma. Ljósan er nýbúin að skoða mig og segir systum mínum að ég sé komin með 9 í útvíkkun. Ég fór út 5 í 9 á innan við einni klst. Þar sem ég var í þessu sleep coma þá var ég ekki viðræðuhæf þegar ljósan skoðaði mig og um leið og hún fer út úr herberginu þá byrja ég að rembast. Systur mínar fríka pínu út og hlaupa fram og kalla aftur á ljósuna.

Hún kemur inn og ég er látin rembanst í dágóðan tíma. Ég man ekkert eftir þessum tíma sem betur fer kanski. Ég rembist nokkrum sinnum og ekkert barn kemur, allt í einu fyllist stofan af læknum, hjúkkum, nemum og öllu tilheyrandi með nálar, sprautur og fæðingarrúm. Þegar mest var þá voru um 11 manns inni í herberginu fyrir utan mig. það eina sem ég man var að einhver sagði við mig „Stefanía ef þú vilt fá barið þitt lifandi í fangið á þér þá þarftu að rembast eins fast og þú mögulega getur NÚNA! Þú færð bara einn séns“ Ég hikaði ekki við það og rembdist eins og vindurinn. Barnið kom og ég svo rugluð að ég man lítið sem ekkert eftir því. Heilbrigður strákur kom í fangið á mér kl 8.21 á þriðjudagsmorgni. Og það eina sem ég gerði var að ég furðaði mig á því af hverju ég var komin í sjúkrarúm og hálfa leið út á gang.

En það var neflilega svo að hjartað í drengnum hætti að slá og þau byrjuðu að undir búa mig undir bráða keisara en ákváðu að reyna einusinni með sogklukku, sem betur fer gerði trixið. Ég missti mikið blóð í fæðingunni og mátti ekki standa upp nema hafa einhvern hjá mér í 24 klst eftir. Ég var rosalega fegin að fá að vera á sjúkrahúsinu sólarhring lengur en vaninn er, enda fyrsta barnið mitt og ég og pabbinn ekki í sambúð. í dag á ég fullkominn lítinn kút sem gerir lífið svo óendalega dásamlegt að ég myndi glöð ganga í gegnum þetta allt aftur fyrir hann.

Hvar er mandarínan?

Ég var sett 1. desember. Meðgangan gekk vel og ég var bókstaflega dansandi hress alveg fram yfir fertugustu viku. Fór á djammið eftir settan dag og dansaði á barnum fram á nótt í þeirri von um að fara af stað. Fór ekki af stað og þegar ég vaknaði og fann engar hreyfingar panikkaði ég. Ég gat ekki vakið soninn með að pota í bumbuna, vakti Adda með kökkinn í hálsinum og við brunuðum á spítalann í þögn. Við sáum ekki fram úr þessu. Ég hélt að ég hefði gert of mikið og barnið hefði ekki höndlað það og sjálfshatrið var að byrja að malla í mestu hræðslu sem ég hef upplifað. Til allrar hamingju var sonurinn bara steinsofandi með dúndrandi hjartslátt í mónitornum. Ég hætti að dansa.

Þegar ég var gengin sex daga fram yfir hreyfði ljósmóðirin mín við belgnum án þess að ég hafi verið búin að ákveða mig hvort við ættum að gera það. Hún ætlaði að skoða mig og svo myndum við ákveða en svo bara potaði hún í þegar hún var að skoða. Mér fannst svo frekt að vera að draga son minn í heiminn sem hann var kannski ekki tilbúinn í. Ég vildi að hann kæmi þegar hann væri tilbúinn. Ég geri mér grein fyrir því núna að ég var í ruglinu og að það þarf að ná í börn sem ætla sér að mæta svo seint að það stofni þeim í hættu. Þannig að ég fyrirgaf ljósunni þegar ég var búin að skæla þetta út.

Þann 10. desember mættum við svo upp á fæðingargang í gangsetningu kl. 8:45. Ég þurfti smá æðruleysi til að sætta mig við að ekki gæti ég átt á Hreiðrinu. Við hittum Ingu ljósmóðurnema og hún spurði hvort ég vildi bað sem ég játaði áköf. Leiðir hún okkur ekki bara inn í stofu 5 með stærsta baði spítalans og ég gleymdi öllu sem heitir Hreiður á stundinni. Svo kemur í ljós að ég er komin með 6 í útvíkkun og ég send í labbitúr um spítalann. Addi minn var soldið stressaður og eiginlega bara úrvinda þannig að ég sendi hann að leggja sig og fór í labbitúr með huggulega tónlist í eyrunum. Þess má geta að ég gat ekki labbað áfram í samdráttunum og stóð kyrr og hélt um bumbuna og alltaf stoppaði einhver starfsmaður spítalans og spurði hvort mig vantaði aðstoð. Það fannst mér fallegt. Þegar ég kom til baka eftir að hafa villst nokkrum sinnum var ég ennþá bara með sex í útvíkkun og þá var ákveðið að sprengja belginn.

Það var gerti kl. 12:30 og ég fann ekkert fyrir því og ákvað að borða hádegismatinn minn sem var hveitikímssamloka og tvær mandarínur. Ég náði að borða samlokuna á milli samdrátta meðan ég sat á rúminu og vatnið drippaði niður á gólf. Svo stóð ég upp og í samdráttunum þurfti ég að hrista mig og dansa…ég bað Adda um að setja danslistann á fóninn. Danssporin voru ekki fögur…svona eins og tveggja ára barn að hossa sér frekar. Þegar ég gat klifraði ég svo ofan í pottinn og juggaði mér fram og aftur og borðaði eina mandarínu milli samdrátta. Ég verð nefnilega að klára matinn minn.

Hríðarnar urðu svolítið sterkar á þessum tímapunkti en þetta var ennþá bara soldið vont. Ég var í froskastöðunni, ruggaði mér og tók haföndunina eins og mér væri borgað fyrir það. Ljósan sagði að ég væri ýkt góð í þessu. Mér fannst það líka. Þegar dansinn í baðinu varð mér um megn dró ég Adda ofan í bað og klemmdi hann á mér grindina og það sló rosalega á sársaukann. Hann klemmdi með höndum og svo fótum til skiptis og þetta var líka hörkupúl fyrir hann. Ég bað um glaðloft en það hafði engin áhrif og pirraði mig bara. Þær sögðu mér þá að það hlyti að vera eitthvað bilað. Ég var tvo tíma í baðinu og seinni klukkutímann var ég með fingurinn á höfði sonarins og þvílíkt með augun á verðlaununum þegar ég andaði hann nær og nær og nær.

Klukkan 14:30 fór ég upp úr og var þá komin með tíu í útvíkkun. Ég lá á bakinu meðan þær voru að mæla útvíkkunina og það var ógeðslega vont. Ég hélt í Adda með einni og einhvern þríhyrning í lausu lofti með hinni og þetta var svo vont að ég hristist öll en ég man það bara því ég man að sjá handfangið, þríhyrninginn á fleygiferð með mér. Djöfull er vont að vera á bakinu!!! Ég fór þá á hnén og hallaði mér fram á púða og fékk rembingsþörfina. Addi sagði mér að rembast og ég öskraði á hann að ég mætti ekkert rembast…það væri ekki kominn tími. Ég var náttúrlega ekki búin að vera í sólahring og hélt þetta ætti að verða miklu sársaukafyllra áður en ég mætti rembast. Ljósan segir mér þá að ef ég þarf að rembast þá er kominn tími. Sársaukinn varð allt öðruvísi einhvernveginn. Í svona tvær sekúndur eftir hverja hríð var ég alveg verkjalaus og svolítið svona skringilega hress eitthvað…mjög skrýtið. Ekkert gerðist í hálftíma að mér fannst nema það að englarnir flugu yfir okkur í hverri hríð. Ég eyddi öllum mínum kröftum í rembinginn og þögnin í stofunni okkar var alger meðan ég varð öll eldrauð á litinn. Þessu tók ég náttúrlega ekki eftir fyrr en ég sá myndbandið sem við tókum upp en Adda datt allt í einu í hug að stilla bara símanum upp á einni hillunni og ég er honum rosalega þakklát fyrir það. Á myndbandinu sést semsagt framan í mig, bumban og brjóstin síðasta kortér fæðingarinnar…Ótrúlega gaman að horfa á þetta kraftaverk eftirá.

En já…eftir smástund í þessari stöðu langaði mig að leggja mig og fór virkilega að spá af hverju ég væri ekki á verkjalyfjum en það hafði einhvernveginn farið framhjá mér í allri þessari haföndun. Eftir hálftíma báðu ljósurnar mig um að fara á bakið og ég þverneitaði en þá vildu þær fá mig á hliðina og halda undir hnésbótina meðan ég remdist. Þarna var þetta orðið rosa vont og ég hristist öll og skalf og emjaði eitthvað um þyngdaraflið og að ég vildi standa og að mig sveið en svo kom hríð og ég í fyrsta skiptið báðu þær mig um að purra og það sem ég purrrrrraði. Ég var eins og fjórir hestar í kapppurri og eftir purrið æpti ég um leiðbeiningar og hvað ég ætti að gera og spurði hvað væri að gerast…ég var oggu lost þarna í nokkrar sekúndur og hvæsti á þær þegar þær buðu mér að finna kollinn. Ég hafði ekkert tíma í það!!! Um leið og þær segja mér að rembast eftir purrið poppar herforinginn út mér til mikillar furðu eftir tæpa þriggja tíma fæðingu eða kl.15:19. Ég var svo hissa og fór ekkert að skæla heldur horfði bara á hann og spurði hvar mandarínan mín væri. Eftir að hafa dáðst að honum fékk Addi hann meðan ég kláraði mandarínurnar og var saumuð saman en ég rifnaði soldið þar sem þetta gekk svo fljótt yfir og það var greinilega þessi sviði sem var að trufla mig undir það síðasta. Mér fannst ýkt pirrandi að bíða í klukkutíma meðan þær saumuðu mig og fannst þetta óþægilegt auk þess sem deyfingin virkaði ekki á einum staðnum og ég fann alltaf fyrir nálinni þar. Á meðan var Arnþórsson í fanginu á föður sínum og kúkaði feitt í sængina án þess að nokkur tæki eftir því.

Við fengum svo að vera í fjölskylduherbergi í Hreiðrinu um nóttina og um leið og ég hlustaði á aðra konu eignast barn gerði ég mér grein fyrir hvers ég væri mögnug. Ég grét af stolti yfir sjálfri mér og þessu djásni við hlið mér í gegnum fæðingu ókunnrar konu í næsta herbergi. Stundum þarf maður bara tíma til að átta sig á hlutunum.
Stelpur…var einhver af ykkur að eignast barn í Hreiðrinu um 02:30 þann 11. Des? Ef svo er…takk!

Foringinn er fullkominn. Hann heyrir og sér, er með tíu fingur og tær, englahvítt hár og eitt Pétursspor. Hann fæddist 15 merkur og 52 sentimetrar og augljóslega frekar þungar augabrúnir. Við erum viss um að hann sé snillingur og þessar fyrstu vikur með honum eru búnar að vera mesta rússíbanareið lífs míns.

Fæðing Elísabetar

Á fimmtudagskvöldið var ég eitthvað lengi að koma mér í háttinn og var að sniglast í tölvunni langt frameftir. Um kl. 3 var ég ennþá í tölvunni og fer að fá nokkuð öfluga samdrætti, en var alveg viss um að þetta væru bara fyrirvaraverkir svo ég ákvað að drífa mig í háttinn. Ca. 40 mínútum seinna vaknaði ég með þónokkuð mikið verri verki og núna voru samdrættirnir orðnir reglulegir. Þá fór ég fram og ákvað að mæla þá. Þá voru þeir á ca. 3 mínútna millibili og stóðu yfir í ca. mínútu hver. Ég var samt ennþá sannfærð um að þetta myndi bara detta allt niður, því ég var ekki að fara að eiga á settum degi. Það kemur aldrei fyrir!

En um kl. 5 voru samdrættirnir orðnir með 2 mínútna millibili og verkirnir með voru alls ekkert að minnka. Þá ákvað ég að hringja niður í Hreiður og þær vildu endilega fá mig í skoðun svo ég vakti Sigurjón og við drifum okkur niðureftir. Ég var þá með fullstyttan legháls en bara 1,5 í útvíkkun, svo ég gerði alveg ráð fyrir langri bið í barnið. Ég fékk tvær Parkódín og fór bara heim með þau skilaboð að reyna bara að slaka á og sofna.

Þegar við komum heim klukkan eitthvað um 6 reyndi ég að leggjast og var með hitapoka við bakið, en það var bara verra svo ég gekk um gólf og hékk á vaskinum inná baði í einhvern tíma. Svo allt í einu fékk ég þessa svakalegu rembingsþörf, svo ég öskraði á Sigurjón að við værum að fara aftur uppá spítala. Þá var klukkan 7:45 og umferðin eins og verst verður á kosið á föstudegi. Svo þessi stutta ferð uppá Landsspítala tók okkur hálftíma og ég með bullandi rembingsþörf allan tímann og hugsaði allan tímann hvað fólkið í hinum bílunum héldi eigilega um mig.

Við komum svo uppí Hreiður kl. 8:15 og ég staulast inn á næsta herbergi. Ljósan sem tók á móti mér, Guðlaug, var voða róleg og fer að spyrja hvort ég sé með einhverjar séróskir og mér tekst að stynja upp að ég vilji fara í baðið og að ég sé með roooosalega rembingsþörf. Þá ákveður hún að skoða mig svo ég hendi mér út buxunum og upp í rúm. Ég fæ svo glaðloftið sem ég held að sé besta uppfinning sem ég hef kynnst í langan tíma.

Þá var ég komin með fulla útvíkkun og allt komið vel af stað. Fimm mínútum eftir að ég kom inná deild finn ég einhverja furðulega tilfinningu milli fótana og segi Guðlaugu að það sé eitthvað að gerast. Þá var belgurinn að springa og kom í ljós að legvatnið var grænt, svo ég mátti ekki fara í baðið.

Svo ég lá bara í rúminu, hálfpartin ofaná Sigurjóni og mátti loksins rembast sem var furðulegt sambland af rosalegum sársauka og ánægju yfir því að eitthvað sé að gerast. Ég var samt alveg viss um að þetta myndi taka svo langan tíma að þegar Guðlaug bauð mér að finna kollinn trúði ég henni varla. Ég þreifaði þarna niður og fann fyrir slímugum haus sem mér fannst bara alls ekki að gæti komist fyrir þarna.

Guðlaugu og hinni ljósunni fannst hríðarnar mínar vera eitthvað of stuttar og fóru þá að tala um að gefa mér eitthvað hríðaraukandi í æð. Strax og ég heyrði að það ætti að fara að stinga mig var eins og ég fengi auka kraft og hún skaust út í næsta rembing klukkan 8:56. Hún var svo sett strax í fangið á mér, ég var meira að segja ennþá í bolnum sem ég kom inn í, og við fengum að knúsa hana á meðan fylgjan var að skila sér. Við vorum svo sannfærð um að þetta yrði strákur að við þurftum bæði að kíkja tvisvar til þess að sannfæra okkur um að þetta væri í alvörunni lítil stelpa.
Litla prinsessan var 3330 grömm, 13,5 merkur og 49 cm. Og ég sem hafði svo miklar áhyggjur af því að fötin sem ég keypti í 56 yrðu of lítil!!

Hún kúrði svo hjá pabba sínum á meðan ég var saumuð eitthvað smávegis, en spöngin hélst alveg heil.
Svo þurfti Sigurjón að fara niður í bíl, því í öllum hamaganginum hafði ég ákveðið að við þyrftum ekkert að taka spítalatöskuna með úr bílnum. Við vorum ekki einu sinni búin að setja bílstólinn í bílinn, höfðum ætlað okkur að gera það núna um helgina.

Þegar hann kom svo aftur fékk hann að setja fyrstu bleyjuna á hana og klæða hana í föt og svo röltum við fjölskyldan yfir ganginn og inn í fjölskylduherbergi. Þar létum við fara vel um okkur og hringdum í nýju ömmurnar og afana. Þá var klukkan um 11. Foreldrar okkar voru auðvitað frekar hissa á þessum fréttum, enda lá litlunni svo á í heiminn að enginn vissi að við værum á spítalanum. Mamma (Anna Rós) greyið var að keyra þegar hún heyrði fréttirnar og það lá við árekstri, svo mikil voru viðbrögðin.

Stuttu eftir það fengum við nýbökuðu foreldrarnir hádegismat sem féll vel í kramið og svo komu foreldrar og systkini til okkar til að sjá nýjasta fjölskyldumeðliminn.