Jógafæðing 27.06.07

Þriðjudagsmorguninn 26. júní vaknaði ég upp af mjög svo værum blundi, hafði ekki sofið svona vel í nokkrar vikur að því er mér fannst.  Ég var komin 12 daga fram yfir settan fæðingardag og var farin að undirbúa mig fyrir annað hvort gangsetningu eða keisaraskurð fyrir lok vikunnar þar sem ég hafði áður farið í keisaraskurð út af barni í sitjandi stellingu.

En það var eitthvað þennan fallega júnímorgun sem sagði mér að eitthvað væri að fara af stað, ég svona úthvíld og svo var ég að fá einhverja samdrætti og útferð sem var meira áberandi en áður. Hugsið ykkur hvað líkaminn er fullkominn að leyfa manni að hvílast svona vel fyrir það sem koma skal!

Dagurinn leið, ég hafði það bara gott ein heima, las í bók úti á svölum í sólinni og fór svo um klukkan fjögur að sækja son minn á leikskóla og verslaði tvo fulla poka af mat í Nettó.  Verkirnir voru alveg bærilegir, ekkert þannig að þeir heftu mig í neinu þannig.  Klukkan rúmlega sex þegar maðurinn minn kom heim úr vinnu fór þetta að ágerast aðeins, voru komnir á svona 20 mínútna millibili og ég hugsaði með mér að ég þyrfti kannski að fara að huga að því að taka allt til, fá pössun og slíkt ef ske kynni að við þyrftum að fara upp á spítala.  Um þetta leyti fór ég að fá slímkennda blóðuga útferð og hringdi þá upp á fæðingardeild til þess helst að róa manninn minn sem var aðeins farinn að stressast…  Þær sögðu mér að ég væri velkomin til þeirra þegar ég vildi og ég gæti hringt hvenær sem er.  Nú fóru samdrættirnir að vera reglulegri en ég byrjaði þarna strax að anda haföndun og rugga mér í lendunum og fannst þetta bara allt í fínu lagi og áttaði mig á að þetta var bara byrjunin á einhverju miklu lengra ferli.

Klukkan ellefu ákváðum við að kíkja uppeftir svona fyrir nóttina og láta tékka á stöðunni.  Við hittum yndislegan ljósmóðurnema sem tók á móti okkur, hún setti mig í mónitor þar sem kom fram að samdrættirnir (því þetta hétu víst ekki hríðar ennþá) voru enn óreglulegir með svona 10-15 mínútum á milli, allt var enn bærilegt fyrir mig, ég stundaði bara mína haföndun og hrossaöndun og hún hafði strax orð á því ljósmóðirin hvað þetta væri flott hjá mér og ég hlyti að hafa verið í jóga. Þetta varð alveg til þess að ég einbeitti mér ennþá frekar að nota þessa öndun.  En þeim fannst ég ætti að fara heim því að þetta gæti allt eins gengið niður en ef þetta færi að verða reglulegra með 3-5 mínútna millibili þá skildum við koma aftur.  Við fórum heim og mamma ákvað að sofa hjá okkur ef ske kynni að við færum uppeftir aftur um nóttina, það var rosalega gott að hafa hana til öryggis.  Ég fór í bað þarna um miðnættið, rakaði á mér lappirnar og svona og fékk mér svo ristað brauð.  Ég reyndi síðan að fara að sofa en það er skemmst frá því að segja að ég gat aldrei sofnað því að verkirnir fóru strax að verða reglulegri en ég reyndi að slaka vel á á milli verkjanna.  Klukkan þrjú var þetta orðið á svona 5-7 mínútna millibili og ég vakti manninn minn af værum blundi og tilkynnti um brottför.  Mamma hafði orð á því þarna hvað ég væri róleg yfir þessu og hvað þetta jóga sem ég er ekki búin að geta hætt að hrósa hefði greinilega góð áhrif á mig því þarna var ég farin að halla mér fram á hvað sem ég fann næst mér þegar verkirnir komu og anda haföndunina á meðan.

Við vorum komin á Landspítalann klukkan hálf fjögur og þá var bara frekar rólegt hjá þeim og sömu ljósmæður (neminn sem hafði tekið á móti okkur fyrr um kvöldið) og sú sem var yfir henni tóku á móti okkur.  Neminn var svo ánægð að geta boðið okkur flottustu fæðingarstofuna með stórum heitum potti (hún var með glampa í augunum þegar hún sagði þetta við okkur) en hin var fljót að rífa þessa draumsýn niður þegar hún tilkynnti henni að ég væri fyrri keisari og mætti því ekki fara í vatnið.  Ég varð soldið mikið svekkt en þegar næsti verkur kom þá einhvern veginn gleymdist þetta bara og ég  sætti mig við þetta sem ég vissi svo sem áður.  Fékk samt nýja stofu með klósetti inn af og fínni sturtu.  Næstu klukkutímar liðu alveg ótrúlega fljótt.  Ég gat ekki hugsað mér að liggja þannig að ég stóð allan tímann með mónitor nemana utan um mig sem skrásetti hríðarnar (þetta hét það víst þegar þarna var komið).  Hreinsunin úr ristlinum hafði ekki verið mjög mikil þarna um daginn þannig að ég bað um svona hreinsikitt sem var minnsta mál að fá, mér leið allavegna betur með að losa aðeins um.  Einnig reyndi ég að pissa en gat það ekki þannig að það var settur upp þvagleggur sem samt skilaði ekki miklu.  En klukkan sex var fyrst athugað með útvíkkun og hún þá orðin 7 cm, ég trúði því ekki að ég væri komin svona langt án þess að vera eitthvað að drepast úr verkjum og þegar þær sögðu mér að ég myndi kannski bara klára þetta á þeirra vakt fannst mér það ótrúlegt, ég var einhvern veginn búin að ímynda mér að ég yrði þarna allavegna fram undir kvöldmatarleitið næsta dag!  En þessir síðustu 3 sentimetrar urðu þeir erfiðustu í þessu, þær stungu á belginn og þetta urðu verulega miklir verkir upp úr þessu.  Ég stóð alltaf og maðurinn minn hélt í hendina á mér og nuddaði á mér bakið sem mér fannst gott.  Neminn kom með kalda bakstra og lagði á mjóbakið á mér og svo í framan og það fannst mér líka mjög gott, einnig nuddaði hún á mér mjóbakið þannig að hún og maðurinn minn voru á fullu á bakinu á mér í verstu hríðunum og það var mjög gott.  Þegar ég fór svo að röfla um mænudeyfingu þarna örugglega á níunda sentimetranum vildu þær fyrst að ég prófaði glaðloftið, ég samþykkti það á endanum og hóf þá öndunina í grímuna sem var eftir á að hyggja mjög gott. Þarna breytti ég aðeins um og andaði inn um munninn og út um nefið en passaði samt að slaka á í þessum vöðvum sem notaðir eru í hafönduninni.  Þetta tók svona toppinn af hríðunum og um leið einbeitir þetta manni að önduninni.  Þegar klukkan var orðin átta komu nýjar ljósmæður á vaktina alveg jafn yndislegar og þær sem voru fyrir, skipti mig engu máli að fá nýtt sett.  Ég fékk þá nema sem var nafna mín og eldri ljósmóður með henni sem heitir Ágústa, frábærar konur.  Nú var útvíkkunin komin í 10 og Ágústa sagði mér að sleppa nú glaðloftinu enda var svo komið þarna að ég fékk þessa ótrúlegu rembingstilfinningu sem mjög erfitt er að lýsa en ég ætla samt að reyna að það.

Talað er um að merar kasti folöldum og mér fannst að þetta væri svona eins og þegar maður kastar upp þá tekur líkaminn einhvern veginn völdin. En þetta var eins og að kasta niður í stað upp, það bara fara einhverjir innri kraftar af stað og allt ýtist niður. Alveg undarleg tilfinning þegar maður fær þessa rembingstilfinningu og svo bara slokknar á öllu á milli og maður getur þá dregið andann og slakað aðeins á. Eitthvað fannst Ágústu að hríðarnar stæðu ekki nógu lengi yfir þannig að ég fékk dripp til að lengja þær. Hún hafði á orði að ég hefði mjög góða stjórn á þessu og hún gat alveg sagt mér hvenær ég átti að rembast ,,hægt” eða fast.  Hún bauð okkur að snerta kollinn þegar hann sást en við vildum nú hvorugt gera það, ég vildi bara einbeita mér að klára dæmið þegar þarna var komið. En það var mjög uppörvandi þegar hún fór að lýsa öllu hárinu sem hún sá og að þessi færi nú örugglega heim með slaufu. Svo fyrr en varði og miklu fyrr en ég áttaði mig á var stelpan mín komin í heiminn og lá allt í einu á bringunni á mér svo fullkomin að ég trúði ekki eigin augum. Með bústnar kinnar, mikið dökkt hár og langar neglur.  Þetta var allt svo eitthvað náttúrulegt og rólegt og ljósmæðurnar svo öruggar í öllum sínum handtökum að þessi stund hverfur manni aldrei úr minnum.  Fimm mínútum seinna kom fylgjan sem ég fann ekkert fyrir að fæða, við hjónin afþökkuðum líka pent nánari skoðun á henni…Ég fékk að skoða fæðingarskýrsluna mína eftir á og sé að lengd fæðingarinnar minnar er 5 klukkutímar og 22 mínútur og þá er talið frá fyrstu reglulegu hríðunum sem komu hjá mér um klukkan þrjú um nóttina.  Rembingstíminn hjá mér var 32 mínútur og því get ég ekki annað er verið í skýjunum með þessa fæðingu sem ég gæti vel hugsað mér að endurtaka þess vegna strax á morgun… Ég rifnaði eitthvað sem er kallað annars stigs en hún Ágústa var mjög fljót að sauma mig og við kjöftuðum bara öll saman á meðan og maðurinn minn knúsaði stelpuna og hún var mæld og vigtuð.  Við vorum þarna saman á fæðingarstofunni í góða tvo tíma eftir fæðinguna og löbbuðum síðan yfir í Hreiðrið þar sem var yndislega gott að vera.

Ég þakka þessa góðu fæðingarsögu skilyrðislaust jóganu sem ég er búin að stunda síðan í byrjun janúar og þeim frábæra undirbúningi sem ég tel að ég hafi fengið hjá þér Maggý mín. Það má ekki gleyma að þessi andlegi undirbúningur sem fylgir stundun jóga er svo mikilvægur og mun mikilvægari en margar konur grunar.  Að lokum vil ég biðja að heilsa öllum bumbulínunum og gangi ykkur innilega vel!