Hér er keisari fæddur

Þessi fæðingarsaga var upphaflega birt á Siljabjork.com en er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi Silju.

Alheimurinn leggur aldrei meira á mann en maður þolir. Þetta var mantran mín í fæðingunni en syni mínum þótti ekki sæmandi að koma í heiminn þegjandi og hljóðalaust, heldur þurfti hann að láta hafa aðeins fyrir sér.

Ég var kominn tæpa viku fram yfir tímann. Hver og einn einasti dagur leið eins og heil eilífð að mér fannst og í hvert skipti sem ég fór á klósettið vonaðist ég nú til þess að slímtappinn væri farinn eða að vatnið færi að leka. Það gerðist aldrei. Í hvert einasta sinn sem ég fann smá verki eða óþægindi fór ég að telja og vonaðist til þess að nú væru samdrættirnir byrjaðir. Það gerðist ekki heldur.

Ég ætlaði að fæða son minn í rólegu umhverfi á Björkinni, án nokkura deyfilyfja, með fallegri tónlist og ilmkertum, kyrjandi jógamöntrur í vatnsbaði og láta taka fallegar myndir af ferlinu. Það gerðist heldur ekki. Í rauninni fór ekkert eins og “planað” var þegar kom að þessari fæðingu.

Það er rosalega gott að hafa plan og vera undirbúin fyrir fæðinguna. Ég undirbjó mig með því að lesa fæðingarsögur, tala við vinkonur mínar og fjölskyldu sem höfðu eignast börn, fór á fæðingarnámskeið og spurði ljósmæðurnar spjörunum úr. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að ég vissi ekkert hvað ég ætti í vændum og að fæðingar væru eins misjafnar og þær eru margar, svo ég var fullkomlega meðvituð um það að kannski yrði þessi upplifun ekki alveg eins töfrandi og ég hafði séð fyrir mér. Ég undirbjó mig undir ýmislegt – inngrip á spítalann, glaðloft, mænudeyfingar, nálastungur, fæðingarstellingar, vatnsfæðingar – en ekki keisaraaðgerð. Ég las ekki staf um keisaraaðgerðir því planið var ekki að enda í keisara.

Þess vegna er gott að vita að þó þú sért með eitthvað plan, þá getur það farið gjörsamlega í hina áttina.

Ég vaknaði laugardaginn 15.september um ellefuleytið og fann að ég var með smá verki. Verki sem líktust mjög mildum túrverkjum en þeir komu og fóru með reglulegu millibili. Ég varð ógeðslega spennt og langaði að hringja í alla, setja status á Facebook og tvíta um það að ég væri LOKSINS komin af stað. Ég hélt þó í mér og ákvað að bíða og sjá hvort verkirnir myndu ágerast og bilið á milli þeirra myndi styttast. Jú, viti menn – ég var komin af stað. Ég hringdi í Arneyju ljósmóðurina okkar á Björkinni og bað hana um að koma og athuga með mig. Klukkan var þá orðin tæplega þrjú en Arney bað mig um að vera róleg, halda áfram að fylgjast með hríðunum, borða og leggja mig og að hún myndi koma og kíkja á mig um kvöldmatarleytið.

Nú gat ég ekki lengur setið á mér og hringdi í Ísak og bað hann að koma heim úr vinnunni strax. Ég hringdi í vinkonur mínar og mömmu til að tilkynna þeim gleðifréttirnar. Svo pantaði ég mér tvær Dominos-pizzur og horfði á heilalausar bíómyndir á meðan ég beið eftir að verkirnir yrðu harðari og Arney kæmi að kíkja á okkur.

Þegar Arney kom loksins um kvöldið var belgurinn ennþá órofinn, vatnið ekki farið og ég aðeins komin með tæpa tvo í útvíkkun. Hún taldi þó að allt væri eðlilegt og að litli maðurinn myndi láta sjá sig í nótt eða undir morgun. Við áttum bara að halda áfram að bíða og vera róleg.

Í gegnum hverja hríð andaði ég djúpt niður í maga og andaði út eins og hafgola. Þessi ujjayi-öndun sem Auður kenndi okkur í meðgöngujóganu skipti sköpum fyrir mig í gegnum verkina, því hún hjálpaði mér ekki aðeins að halda mér rólegri heldur er ákveðin verkjastylling fólgin í slíkri öndun. Ég skoppaði um á jógaboltanum, kyrjaði om lengst niður í rófubeinið og beið eins spök og ég mögulega mátti, að farast úr spenningi fyrir þessari fæðingu sem ég hlakkaði svo mikið til.

 

Það er síðan um níuleytið að ég ligg í sófanum og finn skringilega tilfinningu í klofinu, svona eins hellt væri úr fötu í nærbuxurnar. Vatnið var að fara! Ég hoppaði upp úr sófanum og kjagaði eins og mörgæs inn á bað og beinustu leið í sturtuna þar sem ég klæddi mig úr rennandi blautum buxunum og lét restina af vatninu leka í sturtubotninn. Ég sá að vatnið var gruggugt og það boðar ekki gott. Ég hringdi í Arney og hún taldi það víst að þetta væri bara eðlilegt blóð þar sem hún hafði verið að hrærast í leginu klukkutíma áður til að finna útvíkkunina. Hún sagðist ætla að fara og gera baðið tilbúið á Björkinni og nú ættum við að fara að gera okkur klár að koma upp á stofu.

Því næst kemur græna vatnið. Fyrir þá sem ekki vita þá boðar það ekki gott ef legvatnið lekur grænt, því það er merki um streitu hjá barninu. Það þýðir að fylgjast þarf vel með öllum lífsmerkjum hjá barni og móður og er það ekki hægt á einkastofum eins og Björkinni. Við vissum því strax að ég gat ekki fætt hann á stofunni og þurftum við Ísak að bruna beinustu leið á Landspítalann. Það var að sjálfsögðu ákveðin vonbrigði en gerði þó lítið til því við Ísak vorum bæði svo spennt að fá litla son okkar í hendurnar. Ég hugsaði með mér að ég gæti alveg legið í vatni og kyrjað jógamöntrur þó það væri uppi á Landspítala og nú væri búið að leysa ljósmæðradeiluna þannig þetta væri nú allt í lagi.

Við komum upp á Landspítala á miðnætti og fengum stóra stofu útaf fyrir okkur. Ég var tengd við allskonar tæki og tól, skynjari settur yfir bumbuna til að fylgjast með syninum og okkur sagt að hringja bjöllunni þegar verkirnir færu að ágerast.

Svo gerðist ekkert.

Ég hætti að fylgjast með hvað tímanum leið því ég fann svo hryllilega mikið til. Ég sat með glaðloftsgrímuna fasta við munninn nánast allan tímann. Ég lognaði útaf hér og þar en vaknaði með reglulegu millibili til að anda mig í gegnum sársaukann. Ég hugsaði alltaf til Auðar jógakennara og sótti í visku hennar – sársauki er bara tímabundið ástand, láttu hann skola yfir þig eins og öldu. Öldurnar skoluðu yfir mig og lág ég í sjúkrarúminu veðurbarin og sjótekin í marga klukkutíma án þess að nokkuð bólaði á syninum.

Ég fékk tvær gangsetningartöflur. Svo kom morgun og ný ljósmóðir tók við okkur. Ekkert gerðist, ekkert nema sársauki. Ísak spreyjaði lofnarblómailmi yfir herbergið til að halda mér rólegri. Öldurnar héldu áfram að skella á mér. Þær sprengdu hinn belginn, meira vatn lak. Ekkert gerðist. Ég fékk “dripp” í æð til að koma hríðunum áfram og koma mér betur af stað í fæðinguna. Ekkert gerðist. Í hvert einasta skipti sem þær hækkuðu skammtinn, lækkaði hjartsláttur litla mannsins. Öldurnar börðu mig og mér leið eins og ég væri að veltast um í skæðum stormsjó. Sársaukinn var orðinn svo mikill að ég gat ekki lengur andað eða kyrjað mig í gegnum verkina heldur var ég farin að öskra hástöfum eins og sært dýr við hverja einustu hríð. Útvíkkunin var aðeins orðin þrír. Þrír af tíu. Þrír ponsulitlir sentimetrar.

Ljósmóðirin okkar, hún Steinunn, heyrði veinin í mér og taldi það best að nú fengi ég mænudeyfingu. Ég sem ætlaði svo allskostar ekki að deyfa mig með neinu nema jógamöntrum og nálastungu, var nú örugglega búin að sjúga glaðloftsbirgðir spítalans upp til agna og grét í fanginu á Ísak, mænudeyfingunni fegin.

Ég fékk mænudeyfingu. Rétt áður en svæfingarlæknirinn kom lá ég með glaðloftið og saup af áfergju. Ég datt inn og út og leið ýmist eins og ég væri sauðdrukkin eða sofandi. Hljóðið í grímunni fór að minna mig á hljóðið í köfunarbúnaði. Hugurinn fór að reika og til að eiga betur við sársaukann hætti ég að ímynda mér ólgusjó og fór að ímynda mér tæran, lygnan paradísarsjó þar sem ég gat svamlað um í kafi og synt í gegnum torfur af litríkum fiskum. Þar er minn hamingjustaður og því meira sem ég leit inn í þriðja augað og einbeitti mér að því að vera ekki á spítala, ekki mögulega á leiðinni í keisaraaðgerð og alls ekki að fá mænudeyfingu, því betur leið mér. Svo kom mænudeyfingin og ég rotaðist.

Þegar ég rankaði við mér hafði enn ekkert gerst. Nú voru sérfræðingarnir farnir að hafa áhyggjur. Þær gramsa og grafla í klofinu á mér, spenna leggöngin upp með stærðarinnar málmpípum og leita að kolli barnsins. Þær hreyfa við barninu og fann ég þegar fæðingarlæknirinn ýtti við honum neðan úr leggöngunum hvernig fæturnir hans spörkuðu undir rifbeinin á mér. Sonurinn er illa skorðaður og þar sem hann bregst svo illa við “drippinu” er hann líklegast flæktur í strenginn. Fæðingarlæknirinn og allar hennar hjálparhellur tjá okkur að þær muni reyna hvað þær geta til að koma mér af stað en útvíkkunin sé aðeins fimm og alltof langur tími liðinn frá fyrstu hríðum. Hún segir okkur að það séu töluverðar líkur á því að við förum í keisaraaðgerð.

Ég vil alls ekki fara í þessa keisaraaðgerð en ég segi ekki neitt. Ég veit ekkert við hverju á að búast, ég er hrædd og kvíðin. Allt í einu eru töluverðar líkur á því að ég þurfi að fara í stórfellda aðgerð og mikið inngrip, þegar ég ætlaði bara að eiga fallega, rólega fæðingu í vatnsbaði. Ég bið þær um að reyna aftur að snúa honum og athuga með útvíkkunina eftir enn meira “dripp”. Ég held að þær hafi frekar gert það sem greiða við mig heldur en nokkuð annað, það var öllum sérfræðingum morgunljóst að keisari væri eina leiðin með viti á þessum tímapunkti. Þær taka blóðprufu úr litla manninnum og þó hvorugt okkar sé í bráðri lífshættu erum við send í bráðakeisara.

Ég var gjörsamlega búin á því. Á aðra höndina vildi ég alls ekki fara í uppskurð, vildi halda áfram að reyna og fæða hann “náttúrulega” en á hina höndina hafði ég verið sárverkjuð í þrjátíu og eina klukkustund og þráði ekkert heitar en bara að fá að halda á syni mínum. Ljósmóðirin var svo góð við mig og strauk mér um hárið á meðan ég grét og Ísak kreisti hönd mína og kyssti. Það leið aðeins tæpur klukkutími frá því að fæðingarlæknirinn sagði okkur að við værum á leiðinni í keisara og þangað til við vorum komin með son okkar í hendurnar.

Eftir grátinn og ítarlegar útskýringar frá fæðingarlækninum um ferlið, uppskurðinn og batann varð ég aðeins rólegri. Þegar hún sagði mér að ég yrði vakandi á meðan aðgerðinni stóð róaðist ég niður, ótrúlegt en satt, því ég gat ekki hugsað mér að vera ekki vakandi þegar sonur minn tæki fyrsta andardráttinn utan legsins.

Ísak var færður í skurðstofugallann og mér var rennt inn á skurðstofuna. Ísak fékk að vera inni allan tímann og sat hjá mér, strauk mér um höfuðið og studdi mig í gegnum þetta. Inn á stofuna komu ótal læknar, hjúkrunarfræðingar, sérfræðingar og svæfingarlæknar sem öll tjáðu mér nöfn sín og tilgang þeirra á skurðstofunni. Ég fann hvernig flóðlýst herbergið, pípið í tækjunum og skurðaðgerðin þyrmdu yfir mig. Ég ákvað að loka augunum og byrjaði á hafönduninni. Ég sagði bara “já og namaste” við öllu sem læknarnir sögðu. Ég lá með opinn faðminn eins og krossfiskur á meðan dælt var í mig deyfingum og lyfjum. Öndunin var farin að róa mig og skyndilega laust sterkri hugsun niður í hausinn á mér, eins og fjarlæg rödd sem hvíslaði:

“SILJA, ALHEIMURINN LEGGUR ALDREI MEIRA Á OKKUR EN VIÐ ÞOLUM”

Þessi mantra varð minn sannleikur á þessu augnabliki og allt í einu var ég í sátt við almættið og örlögin. Ég heyrði Ísak anda órólega og snökta og fann að hann var orðinn stressaður, sjálfur í ákveðnu áfalli og auðvitað sárt að sjá konuna sína þjást þegar það er lítið sem þú getur gert til að laga það. Ég bað hann að leggja eyrað við varir mínar og hvíslaði að honum að þetta væri allt í lagi, ég væri í lagi og ég væri róleg. Ég sagði þetta við hann, alheimurinn leggur aldrei meira á okkur en við þolum og við getum gert þetta saman. Hugsaðu þér, Ísak, við fáum hann fljótlega í fangið.

Á meðan aðgerðinni stóð fann ég fyrir öllum hreyfingum, þrýstingi frá höndum læknanna og tilfærslu líffærana inn í mér, án þess þó að finna sársauka. Ég heyrði blautkennd hljóðin í blóðinu sem sullaðist til og fann einstaklega furðulega tómarúms tilfinningu þegar ég fann að barninu var kippt upp úr leginu.

Svo heyrðum við gráturinn, frumgráturinn í syni okkar. Foreldrar um allan heim geta vottað fyrir það að ekkert hljóð er þessu hljóði líkast. Herbergið lýstist upp, hjartað mitt opnaðist upp á gátt og það var eins og allt kæmi heim og saman á þessu kyngimagnaða augnabliki. Við Ísak grétum bæði og vissum að ekkert skipti lengur máli í þessari tilveru en þetta litla líf sem við höfðum skapað.

Allt var í lagi. Ekkert fór alvarlega úrskeiðis. Læknarnir sögðu okkur að sonurinn hefði verið flæktur þrívegis í strenginn, utan um hálsinn og undir báðar axlirnar, hvernig nú svo sem hann fór að því. Það væri því mikilvægt að vita að ég hefði aldrei getað fætt hann “náttúrulega”. Ég hugsaði hvað mér væri sléttsama, þær hefðu getað sótt hann út um nefið á mér ef því var að skipta.

Ísak hélt á honum í fanginu, þegar búið var að þvo honum og pakka inn í teppið, og grét. Ég leit upp á meðan lækarnir soghreinsuðu burtu fylgjuna og saumuðu mig saman og heilsaði syni okkar með nafni og sagði örugglega þúsund sinnum “ég elska þig, ég elska þig”. Hvílík stund.

Nú er ég orðin mamma. Eitthvað sem ég hef hugsað um og látið mig dreyma um í mörg ár er loksins orðið að veruleika. Eftir aðgerðina var Ísak færður aftur inn á stofuna okkar og þegar mér var loksins rúllað aftur inn eftir herlegheitin, fékk ég son minn í fangið í fyrsta sinn. Ég hef varla viljað sleppa honum síðan.

Hér er keisari fæddur

Fæðingarsaga Ronju – {óvænt spítalafæðing}

Formáli

Frá því ég pissaði á prikið (og reyndar alveg frá því ponsan mín var ennþá bara hugmynd) var stefnan sett á heimafæðingu. Ég hafði lengi átt erfitt með að staðsetja sjálfa mig innan þeirrar hefðar að eiga heilbrigða fæðingu inni á sjúkrastofnun, líkt og um sjúkdóm eða slys væri að ræða. Við Konni höfðum því snemma samband við heimafæðingaljósmæðurnar Arney og Hrafnhildi, sem voru aldeilis til í að vera með okkur í fæðingunni. Ég fann mér aðrar konur í svipuðum pælingum að spjalla við, drakk í mig sögur af fæðingum, kynnti mér rannsóknir og fræðigreinar, og las fæðingarbækur með áherslu á náttúrulega nálgun. Ég undirbjó mig sumsé heil ósköp undir þennan merkilegasta dag ævinnar, og lagði mesta áherslu á að halda jákvæðu hugarfari. Að líta ekki á fæðinguna sem eitthvað hættulegt, ógnvekjandi, subbulegt eða sjúklegt – heldur eðlilegan og stórkostlegan atburð sem gæfi mér ekki aðeins barnið mitt, heldur einnig sterkari sjálfsmynd og betri sjálfsskilning. Hugarfar sem ég held að öllum verðandi mæðrum sé hollt að tileinka sér, óháð því hvar er stefnt á að fæða.

Auðvitað var ég meðvituð um að ekki eru allar fæðingar heilbrigðar eða viðráðanlegar, og því alltaf möguleiki að ég þyrfti að fæða á spítala. Þetta passaði ég að muna til að verða ekki fyrir áfalli ef svo færi, en reyndar gerði ég aldrei ráð fyrir öðru en fara temmilega létt með þessa fæðingu þar sem meðgangan var hreinlega til háborinnar fyrirmyndar. Á daginn kom að náttúran vildi ekki kvitta undir þetta fína samstarf sem ég stefndi á (við erum samt alveg vinkonur ennþá) svo notalega heimafæðingin mín endaði á spítala með mænudeyfingu, sogklukku og vökudeild.

Án efa hafði allur undirbúningurinn og jákvæða hugarfarið á meðgöngunni mikil áhrif á upplifun mína af fæðingunni. Framan af fannst mér fæðingin frábærlega skemmtilegt verkefni og vel viðráðanlegt, þótt vissulega tæki það á. Og þótt atburðarrásin hafi tekið U-beygju frá upphaflegum plönum þykir mér samt óskaplega vænt um hverja einustu mínútu sem átti hlut í því að koma dóttur minni í heiminn.

Heimafæðingin

Laugardagurinn 30. apríl var settur dagur. Þegar ég vaknaði um morguninn hafði ég aldrei þessu vant engar æfingahríðar haft yfir nóttina, og tók því sem merki um að það væri pottþétt langt í að litla gullið mitt fæddist. Við Konni fórum í barnaafmæli og seinni part dags fór ég að finna fyrir æfingahríðum. Töluvert sterkari en síðustu vikurnar en samt svo óreglulegum að ég afskrifaði að fæðing væri að fara í gang. Um kvöldið fór minn vita laglausi sambýlismaður að syngja júróvisjón-rokklag á sviði Laugardalshallar með karlakór og risabangsa með luftgítar. Þegar hann kom heim í kringum miðnætti voru hríðarnar orðnar reglulegar og ca 7 mínútur á milli, og mér því orðið ljóst að nú væri stuðið raunverulega að byrja og helgin yrði eftirminnileg fyrir fleira en að Konni og félagar lönduðu 5. sæti í árlegri söngkeppni Landsbankans.

Ég átti ekki sjens á að sofa – bæði fyrir samdráttum og spenningi – og dúllaði mér því um nóttina. Rölti um íbúðina og græjaði fyrir fæðinguna, naut mín við kertaljós og jólalegu snjókomuna fyrir utan gluggann – sem var auðvitað tóm steik á aðfaranótt 1. maí! Það var sumsé vetur þegar fæðingin hrökk í gang, en þegar daman kom sér loks út löngu seinna var komin bongóblíða. Veðurfræðingarnir segja engin fordæmi fyrir svona snöggum árstíðaskiptum hérlendis, svo í okkar huga verður skonsan alltaf vorboðinn ljúfi sem kom með langþráð sumar í bæinn.

Konni fékk að sofa fyrst um sinn, en ég var ekkert einmana því glænýju nágrannarnir á efri hæðinni voru með partý. Þar spilaði einhver voða fallega á gítar og stytti mér stundir. Konni vaknaði þegar ég skreið upp í rúm, þar sem við eyddum nóttinni við kertaljós, nudd og spjall. Og að telja á milli hríða með aðstoð hinnar stórfínu netsíðu contractionmaster.com (hvað gerði fæðandi fólk fyrir netið, taldi bara sjálft??). Um morguninn voru hríðarnar orðnar það sterkar, og ca 5 mínútur á milli, að við ákváðum að hringja í ljósurnar sem kíktu í heimsókn og blésu upp laugina. Klukkan 8 reyndist leghálsinn fullþynntur en útvíkkun þó aðeins komin í 2 cm. Hún hefði sannarlega mátt vera meiri eftir heila nótt… en það pirraði mig samt lítið, ég hafði svo gaman af þessu öllu saman. Ljósurnar gáfu mér nálastungur og ég lagðist inn í rúm. Náði fínni slökun á milli hríða svo þær skruppu aftur heim.

Fljótlega fóru þó hríðarnar að breytast, urðu mun kröftugri og við bættist þrýstingur niður, svo ég þorði ekki öðru en að kalla ljósurnar aftur til á hádegi en þá voru 3 mínútur á milli hríða. Látið var renna í laugina sem tók næstum klukkutíma að fylla – fokking vatnsþrýstingur í miðbænum – en vá hvað biðin var þess virði! Heita vatnið gaf þvílíka slökun og verkjastillingu að mér finnst ótrúlegt að hugsa til þess hversu stutt er síðan íslenskar konur fóru að nota vatn í fæðingum. En reyndar hægði vatnið aðeins á ferlinu svo lengdist á milli hríða. Klukkan rúmlega 15 var útvíkkun tékkuð oooog… heilir 3 cm! Æði, einn vesæll centimeter tók mig 7 fjandans tíma. Var orðin frekar þreytt þarna og alveg til í hraðara ferli… en vottever, þetta var ennþá vel viðráðanlegt verkefni.
Mér fannst alveg geggjað að finna hvernig líkaminn virkar í fæðingu. Þótt hríðarnar tækju orðið svakalega á (í nokkrum hugsaði ég með mér: Nei andskotinn þetta verður sko mitt eina barn!!!) kom alltaf smá pása á milli þeirra, og þá fann ég hvernig endorfínið sprautaðist út í líkamann og virkaði eins og góður verkjalyfjaskammtur. Í sjálfum hríðunum voru Konni og ljósurnar líka dugleg að minna mig á að slaka á öxlunum og anda rétt, og þannig fannst mér ég ávallt hafa stjórn á aðstæðum. Náttúruvænu fæðingarbækurnar og meðgöngujógað voru ekkert að djóka – slökun og haföndun er klárlega málið!

Konni var svo stórkostlegur fæðingarfélagi að ég ætti hreinlega að leigja hann út í slík djobb. Meðan allt gekk vel var hann 150% með mér í verkefninu og gerði allt sem ég þurfti – faðmaði mig, nuddaði mig, hellti drykkjum upp í mig, hvatti mig og hrósaði mér. Þegar allt fór svo að hrynja tókst honum að styðja mig fullkomlega þrátt fyrir að vera sjálfur niðurbrotinn. Í erfiðasta hjallanum hefði hans angist algjörlega farið fram hjá mér, nema af því ég varð þess áskynja að ljósmæðurnar og spítalastarfsfólk var sífellt að faðma hann og hughreysta. Enda stendur skrifað út um alla fæðingarskýrsluna okkar hvað pabbinn stóð sig vel.
Seinni part sunnudagsins var dæmið farið að taka allsvakalega á og hríðarnar orðnar mjög krefjandi, enda hátt í sólarhringur síðan fæðingin hófst og ég orðin skrambi þreytt. Það eina sem ég virkilega óttaðist á meðgöngunni var að verða óglatt í fæðingunni og kasta upp. Var alveg tilbúin að troða heilli manneskju út um ogguponsu gat, en að æla er það versta sem ég veit. Og það kom að því að ég kastaði upp. Skærbláu! Ég man eftir að hafa horft ofan í fötuna meðan ég ældi og hugsað: Blá æla? Djísús kræst hvað fæðing gerir klikkaða hluti við líkamann! En þetta var auðvitað bara blái orkudrykkurinn sem ég var nýbúin að drekka. Grannarnir uppi voru aftur með partý þetta kvöld (það þarf sko alvöru tjúttara til að ná tveimur partýum á meðan ein fæðing stendur yfir) og aftur var strákurinn með gítarinn mættur. Ég gaf skít í jógatónlistina og vildi miklu frekar hlusta á fallega trúbadorinn uppi.

Næstu klukkutímarnir voru óskaplega erfiðir, ég var orðin fullkomlega úrvinda og missti algjörlega þá fínu stjórn sem ég hafði haft á hríðunum hingað til. Klukkan 18 mældist útvíkkunin 5-6 cm, og rúmum klukkutíma seinna komin í 7 cm. Öðrum klukkutíma seinna var hún komin í 8 cm, en þar stoppaði hún. Á þeim tímapunkti fannst mér ég engan veginn geta meira. Þarna var ég farin að tapa flestum pásunum á milli hríða, því þótt hríðin gengi yfir fann ég sífellt gríðarlega sáran þrýsting niður – eins og rassinn væri að springa af! Ástæðan fyrir þeim sársauka og hægu ferlinu er að stelpan kláraði ekki að snúa höfðinu eins og börn eiga að gera í fæðingu, heldur þrýsti breiðasta hluta höfuðsins á kolrangan stað (hliðarbeinsstaða) og pyntaði þannig mömmu sína sem þurfti svo óskaplega smá hvíld. Þessi ranga höfuðstaða olli því að kollurinn gekk ekki niður og ferlið því nánast stopp, enda var ég föst með 8 cm í útvíkkun í 2,5 tíma – eða þar til belgirnir voru sprengdir og þá gekk kollurinn loks niður. Þetta var þó gert upp á spítala þar sem belgjarof með skökku höfði er almennt ekki framkvæmt í heimahúsi af öryggisástæðum.

Hugur og líkami eru merkileg fyrirbæri. Síðustu þrír klukkutímarnir heima voru hands down erfiðasta upplifun lífs míns (þótt mér fyndist þetta þó vera miklu styttri tími – náttúran aftur að sýna snilli sína). Sem var ömurleg breyting, því fram að þessu fannst mér hríðarnar skemmtileg átök. En á meðan líkaminn þjáðist fann hugurinn sér leiðir til að fúnkera.

Stundum var eins og ég stæði utan við líkamann og fylgdist með. Þá var hugurinn súrrealískt yfirvegaður og í fullkomnu ósamræmi við skjálfandi og vælandi fyrirbærið sem flaut um í fæðingarlauginni. Ástandið á mér var orðið þannig að ég grátbað um miskunn: Konni hjálpaðu mér! Þú verður að laga þetta! Láttu koma pásu! En salírólegi hugurinn sagði með sér: Hvernig dettur manneskjunni í hug að segja svona við hann Konna sinn, sem líður sko alveg nógu illa!? Og reyndar fannst pjöttuðu hugar-Eygló voða niðurlægjandi hvernig líkama-Eygló volaði eins og aumingi, hugurinn skammaðist sín fyrir hönd líkamans. Þegar ég sá svo sjúkraflutningamenninga birtast í dyrunum sagði yfirvegaði hugurinn: Æ ég vona að Sigurjón sé á sjúkrabílavakt í kvöld, mikið væri nú gaman að hitta hann. Einmitt. Af því ég er almennt svo mikið fyrir að fá gamla vini heim í kaffi þegar ég er nakin, blaut og ýlfrandi af kvölum.

En á öðrum stundum leitaði hugurinn inn á við og bjó sér til eigin heim til að forðast erfiðan raunveruleikann. Þær stundir hafði ég ekki hugmynd um hvað gerðist í kringum mig, ég var örugg inni í mér í félagsskap nettra ofskynjana. Best man ég eftir því þegar ein hríðin hét Guðmundur, og ég átti gott spjall við hann Guðmund um að stoppa nú ekki of lengi hjá mér.

Fram að þessu hafði stelpan ekki sýnt nein merki þess að líða illa – hjartslátturinn mældist alltaf sterkur og ég fann vel fyrir hreyfingum hennar. Hún var sumsé í góðu stuði og sparkaði á fullu, þótt ég væri of þreytt og þjáð til að muna nafnið mitt. Í von um að ferlið myndi fljótlega klárast reyndum við ítrekað að klára fæðinguna heima, þótt ég væri nokkurn veginn orðin sturluð og farin að grátbiðja um flutning á spítala til að fá einhvers konar hjálp. Klukkan 21 var hins vegar orðið ljóst að krakkinn væri ekkert á leiðinni út, og loks ákveðið að hringja á sjúkrabíl til að flytja mig á náðir mænudeyfingar. Konna mínum til mikils léttis, en hann var farinn að halda í fúlustu alvöru að hann myndi missa bæði konu og barn á stofugólfinu þetta kvöld. Sá ótti hvarf reyndar ekkert uppi á spítala – því þar tók í fyrsta sinn við hættuástand, þegar loks kom að því að barnið gat ekki meira af þessari erfiðu fæðingu frekar en mamman.

Óvænt spítalafæðing

Klukkan 21:30 vorum við komin inn á fæðingarherbergi LSH, þar sem tók á móti okkur frábær hópur starfskvenna. Konni minnist oft á hversu góðar þær hafi verið, svo þær hafa greinilega hugsað vel um þennan úrvinda og skíthrædda pabba. Ég var ekki alveg með rænu á þessum tímapunkti heldur staðsetti mig lengst inni í haus meðan ég beið eftir langþráðu hríðarpásunni minni. Vel gekk að setja upp mænudeyfingu og fljótlega fékk ég loksins hvíld.

Þá fór hjartsláttur barnsins að taka dýfur, svo ákveðið var að sprengja belgina og út rann tært og fínt legvatn. Þetta dreif í gang ferlið sem hafði verið alveg stopp, á miðnætti var útvíkkun komin í fulla 10 cm og seinna um nóttina kláraði höfuðið loks að snúa sér. Hjartslátturinn tók alvarlega dýfu svo ákveðið var að taka blóðprufu úr kolli barnsins til að mæla sýrustigið í líkamanum. Slíkar mælingar þykja öruggari en mónitorinn sem fylgist með hjartslættinum, en sýrustig líkamans segir til um undir hversu miklu álagi hann er. Þegar líkami verður fyrir gríðarlegu álagi verður hann mjög „súr“, en blóðprufan sýndi allt í góðu lagi með skonsuna. Hjartsláttur hennar hélt þó áfram að pompa niður eftir hríðar, svo á meðan ég rembdist næstu þrjá klukkutímana voru reglulega teknar blóðprufur sem allar sýndu eðlilegt sýrustig.

Klukkan 1 fór ljósmóðir að tala um að byrja að rembast. Í fyrstu kveikti ég engan veginn á því hvað manneskjan meinti – remba hverju hvert hvað?? Ég var loksins búin með þennan langa dag, hafði loks fengið pásuna mína sem ég hafði grátbeðið alheiminn um síðustu klukkutímana, hafði ekki sofið í 40 tíma og nú ætlaði ég náðarsamlegast að leggja mig takk fyrir pent. Var búin að steingleyma að partýið átti að enda með barni. En samkvæmt Konna sagðist ég aldeilis vera til í að hefja rembinginn og hófust þá leikar. Þótt mænudeyfingin tæki allan sársauka fann ég ennþá þrýsting niður í hverri hríð. Ég fann hinsvegar ekki neina rembingsþörf og gekk illa að fatta hvernig ég ætti að fara að þessu. Hvorki örmagna hugurinn né deyfður  líkaminn skildi verkefnið. Ljósan þurfti bókstaflega að kenna mér að remba barninu út, segja mér hvaða vöðva skyldi nota og hvernig. En við rembdumst og rembdumst í alls kyns stellingum í langan tíma. Í fæðingarskýrslunni stendur: Konan vill sjálf halda áfram að rembast sjálf. Ekki man ég hvers konar samtal það var eða hvað mér stóð annað til boða en að rembast sjálf.

Samkvæmt skýrslunni rembdist ég af krafti (hvar sá kraftur fannst er mér ráðgáta) en samt færðist kollurinn voða hægt niður. Eins og ég var mikið búin að kynna mér fæðingarstellingar og sá aldeilis ekki fyrir mér að fæða liggjandi á bakinu, gerði ég heldur aldrei ráð fyrir að vera svo örmagna að haldast ekki upprétt í fæðingarvænni stellingunum. Hvað þá gerði ég ráð fyrir að fæða á bakinu í fótastatífum eins og á ógeðslegri spítalaljósmynd frá 1965, en í sogklukkufæðingu er víst ekki annað í boði. Enda fannst mér statífin ljómandi fín þegar ég átti enga orku eftir til að halda fótunum uppi. Einhvern tímann sagðist ljósan sjá kollinn á barninu og fullt af ljósu hári, og ég gat sjálf snert hann. Sem var ótrúlega furðulegt augnablik. Annars vegar því við gerðum fastlega ráð fyrir dökkhærðri stúlku en ekki blondínunni sem þarna glitti í (enda búin að ákveða nafnið Ronja eftir hinni frábæru dökkhærðu Ronju Ræningjadóttur), og hins vegar af því þarna varð okkur ringlaða parinu ljóst að í alvöru væri alveg að koma alvöru barn með alvöru hár!

Klukkan tæplega 4 sást dökkgrænt legvatn – merki um að litlunni leið illa – svo ákveðið var að sækja sogklukku og koma henni út sem fyrst. Þvílíkur kraftur í þessu klukkufyrirbæri, í flestum rembingunum losnaði klukkan af höfðinu svo staffið hentist aftur á bak í látunum. Konna fannst þetta hrikaleg sýn, og í mínu ruglaða hugarástandi var ég í hvert sinn viss um að nú hefði hausinn rifnað af barninu. Þegar klukkan náði svo að tosa barnið út slitnaði naflastrengurinn í leiðinni.

Stúlkan fæddist klukkan 4:34 – 28,5 tímum eftir að ég viðurkenndi fyrir sjálfri mér að fæðingin væri hafin. Henni var skutlað upp á bringu mér, Konna rétt skæri til að skilja á milli og við grenjuðum í kór. Hún var strax tekin af mér og yfir á borð þar sem læknir skoðaði hana, og fylgjan skaust út rétt á eftir. Ég bað Konna að standa hjá dóttur okkar, snerta hana og tala við hana, svo hún væri ekki ein í heiminum með ókunnugum lækni. Þar stóð hann og gólaði í sífellu: Sérðu hana? Sérðu hana? Sérðu hvað hún er falleg?? Ég vissi varla hvort var stórkostlegri sjón – fallega barnið eða stolti pabbinn.

Þótt blóðprufurnar í rembingnum hafi ítrekað komið vel út, fæddist skonsan með mjög hátt sýrustig og algjörlega örmagna. Þessi langa og stranga fæðing gekk á endanum fram af litlu stelpunni minni – sem var þó þvílíkur nagli að halda þetta út allan þennan tíma. Hún virðist bara hafa loks fengið nóg og lífsmörkin þá skyndilega pompað niður. Blessunarlega fæddist hún í sömu andrá og hún gafst upp, því lengri rembingur í því ástandi hefði geta valdið súrefnisskorti. Hún fékk aðeins 3 á fyrsta apgar-prófinu, en var komin í 7 á því næsta. Þrátt fyrir slæmt ástand var það mikilvægasta í góðu lagi – hjartslátturinn sterkur og súrefnismettunin góð – svo við þurftum ekki að óttast varanlegan skaða. Dóttir mín var það sem kallast „óvænt slappur krakki“, þ.e. fæddist mun verr haldin en búast mátti við miðað við öll merkin. Morguninn eftir var víst farið vel yfir okkar mál á fæðingarganginum vegna þess hve slæmt ástand barnsins kom á óvart – til að fá á hreint hvort rangt hafi verið brugðist við. Sem var ekki málið heldur er lítill líkami bara óskaplega fljótur að missa tökin.

Stelpan var drifin á vökudeild vegna örmögnunar eftir erfiða fæðingu, hás sýrustigs og of hraðrar öndunar, og vegna hættu á sýkingu þar sem hún hafði gleypt grænt legvatn. Konni fór með henni, en ég lá eftir í fæðingarherberginu og lét tjasla mér saman eftir árás skæra og sogklukku. Tveimur tímum eftir fæðinguna hitti ég skonsuna mína á vökudeildinni og var svo sjálf lögð inn á sængurkvennagang. Hún var sett í hitakassa og á sýklalyf. Sonda var sett ofan í maga í gegnum nefið til að hægt væri að gefa henni að borða, en hún var of uppgefin til að ráða við brjóstið.
Þá tóku við afar skrýtnir dagar hjá nýbökuðu foreldrunum en skonsa var á vökudeild í viku. Fyrsta nóttin heima án hennar var hreint út sagt ömurleg og fátt gert annað en grátið. Hver sólarhringur sem leið var þó betri en sá fyrri, enda leitun að jafn frábærum konum og starfa á vöku. Skottan var eldsnögg að losa sig við hitakassann og klára sýklalyfjaskammtinn sinn, svo mestur tími fór í að þjálfa upp þrekið til að ráða við að drekka sjálf. Hún sýndi gríðarlegar framfarir við hverja matargjöf á þriggja tíma fresti. Ef við hefðum skálað í kampavíni í hvert sinn sem hún tók fleiri dropa úr brjóstinu og fékk þannig færri í sonduna, værum við núna með króníska áfengiseitrun. Eftir vikudvöl var hún svo útskrifuð af mjög hávöxnum barnalækni með toppeinkunnina: Flott stelpa, sterk og skapgóð!

Eftirmáli

Fæðingin mín fór ekki beint eftir planinu. Einhvern tímann mun eflaust koma að því að ég verð ógeðslega sár og reið yfir að hafa ekki fengið náttúrulegu og rómantísku heimafæðinguna sem ég skipulagði svo lengi og óskaði mér svo innilega, og þá verð ég bara að fá að kýla í vegg og vera tussufúl í smá stund. Einhvern tímann á síðustu metrunum sagði Konni við mig óskaplega bugaður: Ég hlakka svo til þegar þetta verður allt búið. Þarna brotnaði eitthvað pínu inni í mér. Þessi stórkostlegi atburður sem ég hafði hlakkað svo til í marga mánuði, var orðinn að einhverju skelfilegu sem beðið var eftir að lyki. Algjört svindl. En ef við skyldum seinna búa til fleiri gullklumpa mun ég aftur reyna við heimafæðingardrauminn. Að ýmsu leyti vorum við óheppin í þetta skipti, en þessi fæðing segir ekkert um almenna getu mína til að fæða barn og næst gæti allt gengið snurðulaust. Þá ætla ég samt að vera með tilbúna spítalatösku til öryggis, sem mér fannst óttalegur óþarfi núna – ég ætlaði sko ekkert á neinn spítala! Þar af leiðandi var ég ekki með svo mikið sem skó með mér á spítalanum, og fór á sokkunum heim eftir fæðinguna.

Ég lít samt jákvæðum augum á fæðinguna fyrst skonsan mín er heil og hraust, enda er fátt flottara en fæðing nýrrar manneskju (líka þegar krúttlegu heimafæðingarplönin bregðast). Líklega hjálpar til að ég svíf um á bleiku skýi þessa dagana með nýja frábæra barnið mitt, uppfull af ást á öllum og öllu.

Fyrir það fyrsta er ég himinlifandi yfir að hafa ákveðið heimafæðingu. Fyrstu 16-18 klukkutímarnir voru frábær upplifun og algjörlega í takt við þá jákvæðu fæðingarsýn sem ég tileinkaði mér á meðgöngunni. Að upplifa lyfjalausar hríðar var mögnuð reynsla. Aldrei hef ég skynjað þvílíkan kraft í líkama mínum eða upplifað mig jafn öfluga og þegar ég náði að hafa stjórn á þessum ógnarkrafti. Að vera í mínu umhverfi átti stóran þátt í því hversu vel mér leið og hversu góða stjórn á aðstæðunum ég hafði lengst af. Mitt rúm, mín sturta, minn ísskápur, mín kertaljós, mínar ljósmæður, mín Klovn-sería, minn partýnágranni með fína gítarspilið… Að vera heima í fæðingu einfaldlega rokkar!

Þá er ég líka ánægð með að hafa upplifað síðustu erfiðu klukkutímana heima, og að hafa ítrekað ákveðið að halda áfram þrátt fyrir að grátbiðja reglulega um deyfingu. Ég var búin að segja ansi oft að nú gæti ég sko ekki meira, en alltaf gat ég samt aðeins meira… þangað til ég raunverulega gat ekki meira. Nú veit ég hvernig fæðing er og nú þekki ég mín þolmörk – og það kom mér sko helling á óvart hvað minn veimiltítulíkami ræður við. Mér finnst ég því hafa lagt mig 150% fram, og mun aldrei líða eins og ég hafi brugðist sjálfri mér með að óska á endanum eftir mænudeyfingu á spítala. Enda hefði barnið aldrei fæðst heima, við hefðum auðvitað flutt okkur á spítalann um leið og stelpurófan sýndi að henni leið ekki vel – ef það hefði gerst áður en ljóst var orðið að fæðingin væri stopp og skynsamlegast í stöðunni að flytjast á spítalann. Og auðvitað er ég fegin að hafa á endanum haft aðgang að spítala, þar sem allar bjargir biðu minnar ofurslöppu dóttur þegar hún loks kom út.

Sjúkrarúm, mænudeyfing og sogklukka voru klárlega ekki á óskalistanum, en fyrst svo fór er ég í það minnsta glöð að hafa þó geta nýtt þá örlitlu orku sem ég átti eftir til að remba henni út um hið hefðbundna gat – loks eitthvað sem gekk eftir planinu! Hápunktur þessa langa og viðburðaríka ævintýris var svo auðvitað að fá loks í fangið undurfagra og rósbleika stúlku með englabros og blik í augum. Þannig er minningin, svo ég skil ekkert í því af hverju fæðingarskýrslan lýgur því til að hún hafi verið blá og líflaus.

Að lokum finnst mér ég nú eiga glænýjan mann sem er miklu merkilegri en sá gamli – og fannst mér hann þó ljómandi fínn. Dagarnir sem við eyddum saman við fæðingu og vökuvesen bundu streng á milli okkar sem ég sé ekki að geti mögulega slitnað. Maður gæti haldið að veikt barn, sundurklippt kynfæri, mjaltavélar og hjólastólar drægi úr rómantíkinni – en neibb við höfum aldrei verið eins ástfangin og þessa fáránlegu viku á spítalanum.

Svo í raun má barasta segja að þetta hafi verið frábær fæðing! ☺