Fæðing í faðmi fjölskyldunnar

Fæðing í faðmi fjölskyldunnar

Þegar ég komst að því að ég væri ófrísk kom ekkert annað til greina en heimafæðing. Mig langaði að eiga draumafæðinguna mína, hafa hlutina eftir mínu höfði og vera stjórnandi en ekki þátttakandi í eigin fæðingu.

Ég setti mig strax í samband við Áslaugu Hauksdóttur ljósmóður og hitti hana á seinnihluta meðgöngunnar. Meðgangan gekk þokkalega eins og gengur og gerist, þurfti að vera í auknu eftirliti, en stefnan var alltaf á heimafæðingu hvað sem á dundi. Ég las og las og drakk í mig allan þann fróðleik sem ég gat fundið. Við hittum líka hana Eydísi doulu og það hjálpaði líka rosalega mikið að undirbúa eins yndislega og persónulega fæðingu og hægt var.

Þegar ég vaknaði 14. apríl grunaði mig ekki hvað sá dagur bæri í skauti sér. Hann var nokkuð frábrugðinn dögunum á undan. Ég var pirruð yfir því að ekkert væri að gerast hjá mér og sannfærð um að ég myndi enda á því að ganga framyfir 40 vikur. Þennan dag vildi ég bara vera ein og alls ekki að neinn væri í kringum mig. Svo fór ég bara að sofa á mínum venjulega tíma um kvöldið, talaði við bumbuna og bað drenginn vinsamlegast um að fara að koma sér í heiminn, það væru allir að bíða eftir honum.

Um klukkutíma seinna kl. 12.30 eftir miðnætti, 15. apríl, vaknaði ég við það að það var eitthvað að leka á milli lappanna á mér og var svolítið mál að pissa. Ég stóð þá upp og fór fram á bað og þegar ég ætlaði að stíga yfir þröskuldinn inn á baðið kom væn skvetta af legvatni. Ég var nú samt ekki sannfærð um að þetta væri legvatn, hélt svo sem alveg að ég væri að pissa á gólfið. Ég fór aftur upp í rúm og ætlaði að halda áfram að sofa. En við hverja hreyfingu lak alltaf meira og meira.

Þá vaknaði Daði við bröltið í mér og við vorum nokkuð viss um að nú færi þetta að gerast. Ég fór að fá aðeins sterkari verki, ekki reglulega, en á svona 4-6 mínútna fresti. Ég hringdi og lét Áslaugu vita að þetta væri að byrja hjá okkur. Ég fann samt að þetta var ekki að fara að gerast alveg strax svo mér fannst ég ekki þurfa að fá hana alveg strax til okkar. Ákvað að reyna að hvíla mig eitthvað smá, en það gekk nú ekkert svo rosalega vel. Ég tók til spítalatöskuna ef til þess kæmi að ég þyrfti að fara þangað. Fór fram og settist á grjónapúða og reyndi að slaka vel á. Hlustaði á tónlistina mína og reyndi að undirbúa mig fyrir átökin framundan.

Daði fór í að undirbúa heimilið. Hann blés í sundlaugina og kveikti á kertum og gerði allt svo kósí fyrir okkur. Um klukkan 3 hringdi ég svo í Áslaugu og hún kom stuttu seinna. Hún tók aðeins stöðuna sem var bara fín, þrír í útvíkkun, samdrættirnir á 2-4 mínútna fresti en ekkert svo vondir. Bjóst samt eiginlega við meiri útvíkkun og leið hálf kjánalega yfir því að hafa kallað svona snemma í hana.

Hún smellti svo nál á milli augnanna á mér sem átti að hjálpa til við slökunina og sagði okkur að reyna að hvíla okkur bara inni í rúmi og lagði sig svo sjálf í sófanum. Við fórum þá bara inn í herbergi og reyndum að hvíla okkur, ég sat uppi í rúmi og verkirnir byrjuðu að verða verri þarna en ekkert óbærilegir og ég andaði mig bara í gegnum þá. Lilja Bríet dóttir okkar, sem þá var fjögurra ára, vaknaði þarna og var ótrúlega spennt yfir því sem var að gerast. Kallaði inn í bumbuna og sagði litla bróður að drífa sig.

Um kl. 04:30 voru verkirnir orðnir frekar vondir og ég vildi fara í laugina. Það var alveg ótrúlegt hvað það var gott! Að geta hreyft sig að vild og slakað vel á var einmitt það sem ég þurfti á að halda. Ég svamlaði svo bara í lauginni og andaði og slakaði. Lilja Bríet og Daði gáfu mér kalda þvottapoka á ennið og Áslaug kom öðru hvoru til mín og tók hjartsláttinn hjá barninu. Hún rétt snerti magann til að finna samdrættina og notaði sinn innbyggða „mónitor” til að meta þá. Annars hélt hún sig bara til hlés og fylgdist með úr fjarlægð.

Klukkan 5 kom Arnbjörg vinkona mín til að líta eftir Lilju og þær dunduðu sér bara í stofunni, kíktu til mín öðru hverju og fóru svo bara inn í herbergi. Stuttu seinna fann ég að þetta var að fara að gerast, litli kútur vildi greinilega fara að komast í heiminn. Síðustu þrjár hríðar fyrir rembing komu hver á eftir annarri, voru langar og vondar og eina sem ég gat hugsað um var að fá smá hvíld fyrir rembinginn því mér fannst ég vera svo þreytt. Bara 5 mínútur var allt sem ég þurfti til að safna kröftum, en það var víst ekki í boði.

Daði hoppaði ofan í laugina til mín og tók sér stöðu fyrir aftan mig. Hann hélt undir handleggina á mér og ég hálf sat/stóð í vatninu. Í þremur hríðum og á 7 mínútum kom drengurinn syndandi út í vatnið, kl. 05:37. Ég veiddi hann sjálf upp úr og settist beint í fangið á Daða. Hann var kominn! Og hann var svo rólegur og dásamlegur, en skemmtilega brúnaþungur. Grét ekki en lét bara rétt heyra í sér að það væri allt í lagi með hann. Lilja Bríet kom þá hlaupandi innan úr herbergi og hoppaði ofan í til okkar.

Áslaug beið svo bara á hliðarlínunni, tilbúin að grípa inn í ef til þess kæmi. Þvílíka upplifunin að hafa alla fjölskylduna og æskuvinkonu hjá sér á þessu ótrúlega augnabliki. Og þessa dásamlegu ljósmóður sem veit upp á hár hvað hún er að gera. Lætur manni líða svo vel, eins og maður sé eina konan í heiminum sem er gerð til að fæða börn og engin geti gert það betur! Hvetur mann áfram á mildan og mjúkan hátt og leyfir manni að finna sínar eigin leiðir og treysta á sitt eigið innsæi. Er ekki sífellt að tékka á útvíkkun, gerði það bara þegar hún kom og svo ekkert aftur. Trúði því bara að þegar ég sagðist þurfa að rembast, þá var ég komin með fulla útvíkkun og mátti byrja.

Við lágum svo bara þarna í smá stund og dáðumst að nýja fjölskyldumeðlimnum. Um korteri seinna fæddi ég fylgjuna og við skoðuðum hana. Það sem Áslaugu þótti merkilegt við fæðinguna var að það blæddi ekki dropa af blóði, hvorki þegar ég fæddi barnið né fylgjuna. Ég fór svo upp í rúm og litli kútur kom á brjóstið og drakk eins og hann hefði aldrei gert neitt annað. Svo var einhver smáræðis saumaskapur og á meðan voru feðgarnir og stóra systir að skoða hvert annað. Þau hjálpuðust svo að frammi við að ganga frá og svo borðuðum við öll saman áður en Áslaug og Arnbjörg héldu út í morgunsólina.

Litla fjölskyldan fór öll upp í rúm að kúra eftir þessa viðburðaríku og skemmtilegu nótt. Hún gleymist aldrei.

Sagan var upphaflega birt á pressan.is