Ég átti tíma hjá ljósunni á settum degi og þegar ég mætti í skoðun kom í ljós að blóðþrýstingurinn hafði hækkað og neðri mörkin voru komin yfir 100. Ég hef verið með háan blóðþrýsting síðan hann var mældur fyrst þegar ég var 17 ára og aldrei fundið neitt fyrir því, held að það sé mér bara eðlilegt. Hann hafði líka haldið sér nær alla meðgönguna og meira að segja lækkað á öðrum þriðjungi hennar. Ég var svo búin að vera á lyfjum við honum frá 35. viku þegar hann fór aðeins að stíga en hann hafði haldið sig á mottunni þangað til. Ljósan ákvað þennan umrædda dag að senda mig í dagönn og ég mætti niður á deild nokkrum tímum seinna.
Ég var klukkutíma í mónitor og mældust töluverðir samdrættir á meðan. Blóðþrýstingurinn hélst jafn hár og eftir að það mældust tveir plúsar í þvagi hjá mér var ég úrskurðuð með meðgöngueitrun og ákveðið að setja mig af stað daginn eftir. Það er óneitanleg skrítin tilfinning að fá að vita fyrir víst að maður fái ungann sinn í hendurnar eftir einn til tvo daga! Ég var að springa úr spenningi þegar ég hringdi í konuna mína og mömmu til að segja þeim fréttirnar, kannski yrði komið barn á morgun!
Við tók undirbúningur fyrir gangsetninguna og spítalavist, stóra systir látin vita af fréttunum sem og pössunarpían og svo var bara að bíða. Þar sem ég var með samdrætti með verkjum ákvað ég að taka verkjatöflu, fara í sturtu og reyna að sofa og það tókst bara ágætlega. Spúsan var hins vegar eins og hengd upp á þráð og alveg að farast úr stressi og sat alla nóttina inni í stofu og bjó til stuttmynd í tölvunni.
Við áttum kósý morgun með stelpunni okkar og fengum góða vinkonu í heimsókn sem var ágætt til að dreifa huganum. Vorum svo mættar með allt okkar hafurtask niður á deild á slaginu eitt. Það var búið að segja mér að mæta bara með maka og hringja svo í mömmu þegar eitthvað færi að gerast en við vorum löngu búnar að ákveða á hún yrði viðstödd þessa merkisstund. Það var mikið að gera niðri á deild og við látnar bíða í meira en hálftíma frammi á gangi. Þá var okkur loks vísað á herbergi, nokkurs konar biðherbergi en þar áttum við að vera þangað til fæðingin færi að malla í gang. Þar sem ég var með meðgöngueitrun mátti ég ekki eiga í Hreiðrinu sem var pínu svekkjandi en sem betur fer var herbergið sem við fengum æðislegt, tvö stór, stillanlega rúm, sjónvarp (eina herbergið með sjónvarpi) og stórt baðherbergi. Ég var sett í mónitor og klukkan þrjú fékk ég fyrstu gangsetningartöfluna. Við krossuðum putta og vonuðum að ég þyrfti bara eina.
Stuttu seinna kom ljósan til okkar með þær fréttir að viðbúnaðarstig spítalans hefði verið fært á hæsta stig vegna svínaflensunnar, lokað hefði verið fyrir allar heimsóknir og bara einn mátti vera viðstaddur fæðinguna. Mér leið eins og ég hefði verið kýld í magann og ljósan hafði varlað lokað dyrunum þegar ég byrjaði að háskæla af vonbrigðum. Mig hafði dreymt svo lengi um að deila þessari stund með mömmu og svo fannst mér líka sárt að Rakel fengi ekki að koma upp á deild að sjá barnið nýfætt. Ég held ég hafi grátið stanslaust í klukkutíma og treysti mér ekki til að segja mömmu fréttirnar svo Hrund sá um það. Mamma var að vonum svekkt en við skildum alveg afhverju þurfti að gera þessar ráðstafanir, það var pakkað á gjörgæslu og berskjaldaðir nýburar í húsinu.
Ég náði aðeins að jafna mig og þá var komið að næstu töflu, fimm tímum frá þeirri fyrstu. Eftir hana fór ég að fá reglulega og sterka samdrætti og voru um 5 mín. á milli. Ný og yndisleg ljósa var komin á vakt og tilkynnti mér að leghálsinn væri fullstyttur og mjúkur og ég komin með 1 í útvíkkun. Þegar þriðja ljósan kom á vakt á miðnætti ákvað hún að færa okkur yfir á fæðingargang þar sem hún átti von á því að útvíkkunin væri orðin meiri og hægt yrði að sprengja belginn. Aftur vorum við heppnar og fengum stærsta fæðingarherbergið með baðkari sem var einmitt það sem ég hafði beðið um. Því miður var leghálsinn alveg eins og því ekki hægt að reyna að sprengja belginn. Samdrættirnir voru meira og minna dottnir niður en ég var með stöðuga verki svo ég fékk verkjatöflu, þriðju gangsetningartöfluna og skipun um að reyna að sofa. Verkirnir og spenningurinn héldu fyrir mér vöku og auk þess þurfti stöðugt að vera að mæla blóðþrýstinginn og setja mig í mónitor svo það var lítill svefnfriður. Klukkan þrjú fékk ég fjórðu gangsetningartöfluna og þær fréttir að það væru ekki gefnar fleiri en fimm, eftir það væri gripið til annarra ráðstafanna. Ég var orðin úrvinda af verkjum og þreytu og bað og vonaði að það þyrfti ekki fleiri töflur.
Áður en ljósan fór af vakt ákvað hún að reyna að sprengja belginn en það hafðist ekkert upp úr því nema hrikalegur sársauki fyrir mig. Það var kominn bjúgur í leghálsinn þar sem hann hafði verið fullstyttur svo lengi en samdrættirnir dottnir niður. Ég fékk aftur verkjatöflu og nýja ljósu á vakt og náði þetta skiptið að sofa í um einn og hálfan tíma.
Sem betur fer náði ég að hvílast aðeins því ballið var að byrja. Ég vissi ekki fyrr en inn komu tveir læknar og ljósan með þær fréttir að það eigi að gera aðra tilraun til að sprengja belginn. Hálfsofandi geri ég mig klára og en vakna snögglega við nístandi sársauka. Annar læknirinn ýtti barninu ofan í grindina á meðan hinn læknirinn notaði alla sína krafta til að komast inn fyrir og sprengja belginn. Eftir óratíma fann ég loks vatnið seytla en þessi meðferð hafði það í för með sér að í hvert skipti eftir þetta sem ég var skoðuð ætluðu augun út úr höfðinu á mér af sársauka, ég var öll svo aum.
Samdrættirnir hrukku í gang. Þarna var klukkan rétt um tíu á föstudagsmorgni, 17 tímar frá fyrstu gangsetningartöflu. Ljósan hafði ákveðið að bíða með að gefa mér hríðaukandi dreypi þar sem ég var með samdrætti en eftir einn og hálfan tíma höfðu þeir ekkert aukist svo dreypið var sett upp. Þá fór sko allt í gang.
Fyrst rólega og ég andaði mig gegnum verkina. Eftir því sem dreypið var aukið hertust verkirnir og ég bað um að fá að fara í baðið þar sem mér var farið að vera mjög illt. Læknarnir vildu hins vegar ekki leyfa mér það, bæði var ég með dreypi í æð og mónitor um mig miðja en svo var blóðþrýstingurinn líka farinn að hækka svo mikið. Ég fékk blóðrþýstingslyf í töfluformi og í æð en þrýstingurinn var áfram hár. Dreypið var aukið og allt í einu ruddust verkirnir fram. Ég greyp andann á lofti í hverri hríð og fannst eins og bakið væri að brotna. Mér var svo illt að ég stóð ekki í fæturna og engdist því um sitjandi í rúminu. Á klukkutíma urðu verkirnir óbærilegir og ég missti mig algjörlega. Grét og veinaði í hverri hríð og leið eins og ég væri að deyja, þvílíkur sársauki. Elsku Hrund var alveg miður sín en ljósan var fljót að átta sig og sagði kominn tíma á mænudeyfingu. Bæði var þrýstingurinn svo hár (og mænudeyfing besta meðalið við því) og svo sá hún að ég gat ekki meir. Það er víst ekki óalgengt að svona fari í gangsetningu, sóttin verður allt öðruvísi en þegar maður fer sjálfur af stað.
Þessi yndislega ljósa (hún var uppáhaldið mitt af þeim sex sem unnu sínar vaktir á meðan öllu stóð) var 5 mínútur að ná í svæfingarlækni og hann var 4 mínútur að setja upp deyfinguna og svo ég var ekkert smá heppin með það. Þetta gekk eins og í sögu og klukkan tvö lá ég í rúminu og mestu verkirnir farnir. Deyfingin tekur reyndar ekki þrýstinginn sem er líka sársaukafullur en ég réð vel við hann. Við Hrund fengum okkar að borða og ég gat dottað.
Um hálf fjögur var tekin blóðprufa úr kollinum á krílinu og útvíkkunin skoðuð en hún var þá komin í 5-6. Ég fékk ábót á deyfinguna og nýja ljósu og ljósmóðurnema. Verkirnir hertust svo skyndilega og um leið og það var hægt fékk ég ábót á deyfingua og þær yndislegu fréttir að útvíkkunin væri fullkláruð og aðeins smá brún eftir. Útvíkkunin hafði farið úr 5 í 10 á einhverjum klukkutíma. Deyfingin virkaði takmarkað og ég var byrjuð að fá rembingstilfinningu. Blóðþrýstingurin rauk upp úr öllu valdi og allt einu fór hjartsláttur ungans að taka dýfur. Það var hræðilegasta stund lífs míns þegar ég heyrði hvernig hægðist á honum og svo datt hann skyndilega út þrátt fyrir að elektróða (fyrir þá sem ekki vita virkar hún eins og móntor og mælir hjartsláttinn nema hún er fest beint við barnið) væri tengd við kollinn á krílinu. Læknirinn sem hafði fylgst með blóðþrýstingum og dælt í mig blóðþrýstingslyfjum í æð undanfarna tvo tímana ákvað að það væri kominn tími á sogklukku. Ég mátti svo bara rembast þegar ég vildi og ég var byrjuð að rembast áður en sogklukkunni var komið fyrir.
Þegar allt var klárt tók það þrjár hríðar að koma unganum út. Miðað við sársaukann í hríðunum áður en ég fékk mænudeyfinguna var rembingurinn lítið mál þótt það væri frekar sárt að vera með kollinn á milli fótanna. Léttirinn þegar barnið skaust út og ég fékk það upp á magann var ólýsanlegur. Fyrir einhvern misskilning héldum við Hrund í smá stund að við hefðum fengið strák, ég get svo svarið að mér heyrðist einhver segja það. Ljósan spurði svo hvort við værum búnar að kíkja á kynið og þá sáum við að þetta var þess gullfallega stelpa!
Ég var búin að gleyma að ég þurfti að fæða fylgjuna og dauðbrá þegar þær byrjuðu að ýta á magann á mér. Fylgjan kom og tonn af blóði með. Þar sem fæðingin hafði verið svo lengi í gang var legið orðið mjög þreytt og við fæðingu fylgjunnar sprungu æðar í því. Blæðingin ætlaði aldrei að hætta og í klukkutíma hömuðust tvær ljósur á maganum á mér til þess að fá legið til að dragast saman. Ég fékk lyf í æð sem átti að hjálpa til og Hrund reyndi að róa stelpuna sem var sármóðguð yfir því að fá ekki brjóst.
Sársaukinn við hnoðið var meiri en í hríðunum og rembingnum samanlagt. Ég lá bara þarna og tárin láku niður kinnarnar á mér og ég hélt ég myndi ekki hafa þetta af. Sem betur fer tekur allt enda og loksins minnkaði blæðingin og það var hægt að sauma mig. Þrátt fyrir sogklukkuna rifnaði ég lítið sem ekkert og mér var líka nokkuð sama þar sem ég fékk að gefa stelpunni á meðan lappað var upp á mig. Við Hrund vorum búnar að ákveða nafn svo hún var nefnd í fanginu á mér og það var ólýsanleg tilfinning að halda á Aðalbjörgu Röskvu í fyrsta skipti.
Þrátt fyrir að fæðingin tæki 27 tíma frá gangsetninu tók hún enga stund þegar hríðarnar loksins byrjuðu eða rétt um 4-5 tíma. Mér var rúllað niður á sængurkvennagang og við mæðgurnar þrjár fengum smá stund áður en Hrund þurfti að fara heim. Það var erfitt að vera ein um nóttina og Sprundin gat ekki haldið aftur af tárunum þegar hún þurfti að fara. Röskva grét þangað til ég tók hana upp í en þar svaf hún eins og steinn. Við fengum svo að fara heim á hádegi daginn eftir þar sem blóðþrýstingurinn lækkaði fljótt eftir fæðingu og ég var öll að koma til.
Við fundum ekki fyrir því að það væri niðurskurður á spítalanum þar sem allir sýndu natni og mikla umhyggju og ljósurnar voru hver annarri frábærari. Þar sem ég missti um 1 lítra af blóði er ég búin að vera lengi að jafna mig en brjóstagjöfin gengur vel og Röskva er algjör draumur.
Sagan var upphaflega birt á litlahusid.blog.is