Litla ljósið okkar ákvað að koma í heiminn um morguninn 11 febrúar 2022 klukkan 05:28, rúmlega 5 tímum eftir settan dag. Hún valdi sér nafnið Lukka Rún Gilbert. Fæðingin var einstaklega göldrótt og falleg á heimilinu okkar í Hvalfirðinum. Við fjölskyldan erum endanlaust þakklát fyrir því að hafa átt tök á því að fæða heima – án deyfingu, hláturgas eða verkjalyfja. Í stað þess vorum við með ilmkjarnaolíur og kirsuberja Sun Lolly til handa, vel valda tónlist, og helling af kertaljósum, með Katrínu ljósu og Ösp nema til aðstoðar, og elsku Kristján, maka minn, sem ómetanlegur stuðningur í gegnum allt ferlið. Fæðingarsagan hefst eftir að hafa gist í bænum hjá mömmu minni og pabba í tvær nætur vegna tveggja daga óveðurs og óvissu með færð. Við vorum nýkomin aftur heim í Hvalfjörðinn 9. febrúar og það var eins og Lukka hafi vitað að nú væri í lagi fyrir hana að láta sjá sig, en seinna um kvöldið fór ég að finna fyrir léttum hríðum.
Næsta dag lagðist bjart og fagurt vetrar veður yfir fjörðinn, sólin glampandi í snjóþakinni birkiskógarhlíð með mildri þoku yfir hafsútsýnið sem leiðir að borginni. Til þess að taka sem best á móti hríðunum, sem voru stöðugt að aukast, þá nýtti ég þess að leggjast í heitapottinn og setja á fæðingar tónlistina mína. Um 17.00 leitið létum við Katrínu ljósmóður vita að verkirnir voru farnir að aukast verulega og hún sagðist vilja leggja af stað til okkar úr bænum þegar það væru komnar 8-10 mín á milli hríða í að minnsta lagi klukkustund. Seinna um kvöldið, áður en við náðum að sofna, voru hríðarnar komnar á 6 mín millibil, en það entist ekki í nema 40 mín fyrr en þær hægðu svo aftur á sér. Við vorum bæði smá óróleg að sjá hvað myndi eiga sér stað um nóttina, en þá var ég að vakna á 20-30 mín millibili með þunga verki í legi og mjóbaki.
Ekkert skeði þessa nótt og næsta dag urðu verkirnir mildari en héldu áfram óreglulega. Seinna um kvöldið, eftir kvöldmat, lagðist ég aftur í pottinn í rúmlega tvær klukkustundir undir stjörnubjörtum himni og glampandi norðurljósum og beið þolinmóð eftir því að hún kæmi. Klukkan slær 23:00 og ég er orðin ansi mjúk og lipur. Þá rís ég upp úr pottinum og leggst upp í rúm að bera á mig olíublöndur, teygja mig smá og hugleiða – en þá voru verkirnir virkilega farnir að rífa í. Ég átti erfitt með að átta mig á því hvenær verkirnir voru að byrja eða taka enda, en ekki virtist núna vera nema 3 mínútur á milli hríða. Óviss fer ég fram og segi Kristjáni að ég haldi að þetta sé allt að fara að gerast. Ég sit og rugga mér á æfingarboltanum að ræða þetta við hann þegar það hellist yfir mig einskonar “trans” tilfinning, ég fæ léttan svima, sting í fingurnar og hjartað fór að slá hraðar. Ég er lent í öðrum heimi.
Kristján hringir þá í Katrínu til að láta hana vita og fyllir fæðingarlaugina af vatni, á meðan ég kem mér fyrir á júdó dýnunni á öllum fjórum að rugga mér fram og til baka á æfingarboltanum. Þegar Katrín mætir klukkutíma seinna, klukkan sirka 00:30, gat ég ómögulega komið mér fyrir í annarri stellingu. Hún reynir að fá mig til að leggjast í sófann svo að hún geti skoðað mig en ekki gat ég setið í meira en 10 sekúndur fyrr en verkirnir urðu óbærilegir í þeirri stellingu. Þá kemur í ljós að litla Lukka mín hafi snúið sér bak í bak og er að þrýsti svona harkalega á mjóbakið mitt. Ég kem mér svo fljótlega fyrir í lauginni en er þar að rembast við sársaukann í gegnum söng og öskur fram að loka sprettinum. Kristján var hjá mér allan tímann að heila mig og veita mér góðan stuðning, leiða mig, anda í takt við mig, og minna mig á að Anda, Slaka, Treysta. Á tveim tímapunktum fann ég fyrir einskonar “Kundalini” titring niður allann hryggjaliðinn, sem var fyrir mér einhverskonar áminning um að þetta ferli væri svo miklu stærra en ég – ég stjórnaði engu, nema því að sleppa tökunum.
Rétt fyrir 05:00 hvatti Katrín mig til að koma upp úr lauginni og færa mig inn í svefnherbergi. Ég vildi alls ekki leggjast upp í rúm þar sem ég vissi að ég gæti ekki legið á bakinu, en við færðum okkur yfir og byrjuðum á því að setjast aðeins á klósettið. Á þessum tímapunkti var ég með svo mikla verki að mér leið eins og ég væri að fara að gefast upp og fara að gráta. En ég vissi að ekki væri aftur snúið þannig í hvert skipti náði ég að hrista af mér fórnarlambið og í staðinn sækja í villikellingar orkuna og koma upp góðu GARGI í staðin fyrir tárum. Ég vildi nú ekki taka á móti henni á klósettinu, þannig við komum mér á fætur og upp í rúm, aftur á fjórar fætur. Katrín var búin að vara mig við að þegar höfuðið kæmi að lokum myndi ég finna fyrir tilfinningu sem kallast “RING OF FIRE.” Sú tilfinning entist í gegnum þrjár hríðir en þá hafði ég komið mér í standandi stöðu, með Katrínu á gólfinu fyrir aftan mig og Kristján sitjandi á rúminu fyrir framan mig að styðja við mig. Fáum mínutum seinna kom hausinn og búkurinn með stuttu millibili og áður en ég vissi af því var ég komin með hana í fangið! Ég tárast við að skrifa þetta, því á þeirri stundu brást ég í grát, hjartað að springa, þakklát því að sársaukinn væri búinn, orðlaus yfir fegurð hennar og ástfangin á einhvern hátt sem hefur áður ekki verið partur af mínum raunveruleika. Ég var orðin móðir.
Þegar hún fæðist var hún með naflastrenginn í kringum hálsinn, en Katrín var fljót að bregðast við. Áður en ég vissi af var ég farin að fæða fylgjuna, sem mér var búið að kvíða fyrir því ég hafði heyrt að það væri svo sársaukafullt, en var það alls ekki og ekki var verra að vera komin með Lukku í fangið. Katrín aðstoðaði mig við það með því að draga fylgjuna út þannig ég þurfti ekki að hafa jafn mikið fyrir því. Að því loknu, skoðar Katrín skaðann og segir mér að ég hafi ekkert rifnað sem var mér líka mikill léttir, enda var hún svo lítil, einungis 2560g eða 9 merkur, 49 cm í lengd og 31,5 í höfuðmáli. Litli gullmolinn minn, hún Lukka Rún.