Hvar er mandarínan?

Ég var sett 1. desember. Meðgangan gekk vel og ég var bókstaflega dansandi hress alveg fram yfir fertugustu viku. Fór á djammið eftir settan dag og dansaði á barnum fram á nótt í þeirri von um að fara af stað. Fór ekki af stað og þegar ég vaknaði og fann engar hreyfingar panikkaði ég. Ég gat ekki vakið soninn með að pota í bumbuna, vakti Adda með kökkinn í hálsinum og við brunuðum á spítalann í þögn. Við sáum ekki fram úr þessu. Ég hélt að ég hefði gert of mikið og barnið hefði ekki höndlað það og sjálfshatrið var að byrja að malla í mestu hræðslu sem ég hef upplifað. Til allrar hamingju var sonurinn bara steinsofandi með dúndrandi hjartslátt í mónitornum. Ég hætti að dansa.

Þegar ég var gengin sex daga fram yfir hreyfði ljósmóðirin mín við belgnum án þess að ég hafi verið búin að ákveða mig hvort við ættum að gera það. Hún ætlaði að skoða mig og svo myndum við ákveða en svo bara potaði hún í þegar hún var að skoða. Mér fannst svo frekt að vera að draga son minn í heiminn sem hann var kannski ekki tilbúinn í. Ég vildi að hann kæmi þegar hann væri tilbúinn. Ég geri mér grein fyrir því núna að ég var í ruglinu og að það þarf að ná í börn sem ætla sér að mæta svo seint að það stofni þeim í hættu. Þannig að ég fyrirgaf ljósunni þegar ég var búin að skæla þetta út.

Þann 10. desember mættum við svo upp á fæðingargang í gangsetningu kl. 8:45. Ég þurfti smá æðruleysi til að sætta mig við að ekki gæti ég átt á Hreiðrinu. Við hittum Ingu ljósmóðurnema og hún spurði hvort ég vildi bað sem ég játaði áköf. Leiðir hún okkur ekki bara inn í stofu 5 með stærsta baði spítalans og ég gleymdi öllu sem heitir Hreiður á stundinni. Svo kemur í ljós að ég er komin með 6 í útvíkkun og ég send í labbitúr um spítalann. Addi minn var soldið stressaður og eiginlega bara úrvinda þannig að ég sendi hann að leggja sig og fór í labbitúr með huggulega tónlist í eyrunum. Þess má geta að ég gat ekki labbað áfram í samdráttunum og stóð kyrr og hélt um bumbuna og alltaf stoppaði einhver starfsmaður spítalans og spurði hvort mig vantaði aðstoð. Það fannst mér fallegt. Þegar ég kom til baka eftir að hafa villst nokkrum sinnum var ég ennþá bara með sex í útvíkkun og þá var ákveðið að sprengja belginn.

Það var gerti kl. 12:30 og ég fann ekkert fyrir því og ákvað að borða hádegismatinn minn sem var hveitikímssamloka og tvær mandarínur. Ég náði að borða samlokuna á milli samdrátta meðan ég sat á rúminu og vatnið drippaði niður á gólf. Svo stóð ég upp og í samdráttunum þurfti ég að hrista mig og dansa…ég bað Adda um að setja danslistann á fóninn. Danssporin voru ekki fögur…svona eins og tveggja ára barn að hossa sér frekar. Þegar ég gat klifraði ég svo ofan í pottinn og juggaði mér fram og aftur og borðaði eina mandarínu milli samdrátta. Ég verð nefnilega að klára matinn minn.

Hríðarnar urðu svolítið sterkar á þessum tímapunkti en þetta var ennþá bara soldið vont. Ég var í froskastöðunni, ruggaði mér og tók haföndunina eins og mér væri borgað fyrir það. Ljósan sagði að ég væri ýkt góð í þessu. Mér fannst það líka. Þegar dansinn í baðinu varð mér um megn dró ég Adda ofan í bað og klemmdi hann á mér grindina og það sló rosalega á sársaukann. Hann klemmdi með höndum og svo fótum til skiptis og þetta var líka hörkupúl fyrir hann. Ég bað um glaðloft en það hafði engin áhrif og pirraði mig bara. Þær sögðu mér þá að það hlyti að vera eitthvað bilað. Ég var tvo tíma í baðinu og seinni klukkutímann var ég með fingurinn á höfði sonarins og þvílíkt með augun á verðlaununum þegar ég andaði hann nær og nær og nær.

Klukkan 14:30 fór ég upp úr og var þá komin með tíu í útvíkkun. Ég lá á bakinu meðan þær voru að mæla útvíkkunina og það var ógeðslega vont. Ég hélt í Adda með einni og einhvern þríhyrning í lausu lofti með hinni og þetta var svo vont að ég hristist öll en ég man það bara því ég man að sjá handfangið, þríhyrninginn á fleygiferð með mér. Djöfull er vont að vera á bakinu!!! Ég fór þá á hnén og hallaði mér fram á púða og fékk rembingsþörfina. Addi sagði mér að rembast og ég öskraði á hann að ég mætti ekkert rembast…það væri ekki kominn tími. Ég var náttúrlega ekki búin að vera í sólahring og hélt þetta ætti að verða miklu sársaukafyllra áður en ég mætti rembast. Ljósan segir mér þá að ef ég þarf að rembast þá er kominn tími. Sársaukinn varð allt öðruvísi einhvernveginn. Í svona tvær sekúndur eftir hverja hríð var ég alveg verkjalaus og svolítið svona skringilega hress eitthvað…mjög skrýtið. Ekkert gerðist í hálftíma að mér fannst nema það að englarnir flugu yfir okkur í hverri hríð. Ég eyddi öllum mínum kröftum í rembinginn og þögnin í stofunni okkar var alger meðan ég varð öll eldrauð á litinn. Þessu tók ég náttúrlega ekki eftir fyrr en ég sá myndbandið sem við tókum upp en Adda datt allt í einu í hug að stilla bara símanum upp á einni hillunni og ég er honum rosalega þakklát fyrir það. Á myndbandinu sést semsagt framan í mig, bumban og brjóstin síðasta kortér fæðingarinnar…Ótrúlega gaman að horfa á þetta kraftaverk eftirá.

En já…eftir smástund í þessari stöðu langaði mig að leggja mig og fór virkilega að spá af hverju ég væri ekki á verkjalyfjum en það hafði einhvernveginn farið framhjá mér í allri þessari haföndun. Eftir hálftíma báðu ljósurnar mig um að fara á bakið og ég þverneitaði en þá vildu þær fá mig á hliðina og halda undir hnésbótina meðan ég remdist. Þarna var þetta orðið rosa vont og ég hristist öll og skalf og emjaði eitthvað um þyngdaraflið og að ég vildi standa og að mig sveið en svo kom hríð og ég í fyrsta skiptið báðu þær mig um að purra og það sem ég purrrrrraði. Ég var eins og fjórir hestar í kapppurri og eftir purrið æpti ég um leiðbeiningar og hvað ég ætti að gera og spurði hvað væri að gerast…ég var oggu lost þarna í nokkrar sekúndur og hvæsti á þær þegar þær buðu mér að finna kollinn. Ég hafði ekkert tíma í það!!! Um leið og þær segja mér að rembast eftir purrið poppar herforinginn út mér til mikillar furðu eftir tæpa þriggja tíma fæðingu eða kl.15:19. Ég var svo hissa og fór ekkert að skæla heldur horfði bara á hann og spurði hvar mandarínan mín væri. Eftir að hafa dáðst að honum fékk Addi hann meðan ég kláraði mandarínurnar og var saumuð saman en ég rifnaði soldið þar sem þetta gekk svo fljótt yfir og það var greinilega þessi sviði sem var að trufla mig undir það síðasta. Mér fannst ýkt pirrandi að bíða í klukkutíma meðan þær saumuðu mig og fannst þetta óþægilegt auk þess sem deyfingin virkaði ekki á einum staðnum og ég fann alltaf fyrir nálinni þar. Á meðan var Arnþórsson í fanginu á föður sínum og kúkaði feitt í sængina án þess að nokkur tæki eftir því.

Við fengum svo að vera í fjölskylduherbergi í Hreiðrinu um nóttina og um leið og ég hlustaði á aðra konu eignast barn gerði ég mér grein fyrir hvers ég væri mögnug. Ég grét af stolti yfir sjálfri mér og þessu djásni við hlið mér í gegnum fæðingu ókunnrar konu í næsta herbergi. Stundum þarf maður bara tíma til að átta sig á hlutunum.
Stelpur…var einhver af ykkur að eignast barn í Hreiðrinu um 02:30 þann 11. Des? Ef svo er…takk!

Foringinn er fullkominn. Hann heyrir og sér, er með tíu fingur og tær, englahvítt hár og eitt Pétursspor. Hann fæddist 15 merkur og 52 sentimetrar og augljóslega frekar þungar augabrúnir. Við erum viss um að hann sé snillingur og þessar fyrstu vikur með honum eru búnar að vera mesta rússíbanareið lífs míns.