Heimafæðing yndislegu dömunnar minnar 5.2.2014

Formáli

Þegar ég fékk jákvætt þungunarpróf var ég orðin ákveðin, heimafæðing skyldi það verða. Fyndið að segja frá því að heimafæðingin var löngu ákveðin áður en við ákváðum að fara reyna við næsta barn. Ég hafði hitt Kristbjörgu ljósmóður á seinustu meðgöngu en hún hafði verið að leysa af á heilsugæslunni og man að mér fannst hún mjög indæl. Hafði ég samband við hana um 16. viku og hafði hún áhuga á að taka á móti. Maðurinn minn var alls ekki mótfallinn heimafæðingu, hann hafði meira áhyggjur af hlutum eins og við myndum trufla nágrannanna eða eyðileggja parketið. Eftir stutt spjall við Kristbjörgu var hann líka alveg heillaður af þessum áformum og var mjög gott að hafa hans stuðning í gegnum ferlið sérstaklega þar sem margir í kringum okkur voru ekki eins sannfærðir. Ég fann líka hvað ég náði vel saman við Kristbjörgu og heillaðist af hennar nálgun á meðgöngu og fæðingu sem náttúrulegt ferli sem á að grípa sem minnst inn í, konan gerir þetta alveg sjálf og líkaminn alveg fær um að fæða barnið í heiminn. Ákvað því strax á 16. viku að fara eingöngu í mæðraskoðanir til Kristbjargar til að tengjast og kynnast henni ennþá betur.

Meðgangan gekk mjög vel. Ég var dugleg að mæta í jóga og sund. Fannst það skipta miklu máli að komast út úr húsi öðru hvoru og eiga bara tíma með mér og ófædda barninu. Það átti til með að gleymast í amstri dagsins í fullri vinnu, með eina 2 ára orkubolta og heimili.

Fæðingin sjálf

Settur dagur var 1. febrúar, hann kom og fór án þess að eitthvað gerðist. Kristbjörg kom og kíkti á mig um kvöldið 4. febrúar. Þá var blóðþrýstingurinn búinn að fara hækkandi og fannst prótein í þvaginu. Annars leið mér mjög vel. Sama gerðist á seinustu meðgöngu en hún ætlaði að ráðleggja sig við lækni daginn eftir og ég þyrfti líklegast að fara niður á kvennadeild í monitor. Þetta kvöld varð ég alveg eyðilögð, þarna var ég handviss um að heimafæðing væri ekki í boði fyrir mig og ég myndi enda í gagnsetningu upp á sjúkrahúsi. Ég talaði heillengi við krílið mitt og bað það að fara koma í heiminn þar sem mamman væri aðeins að verða veik. Ég lofaði fullt af knúsum og mjólk í nýja heiminum.

Ég vakna rétt fyrir kl. 6 morguninn eftir þann 5. febrúar með slæma verk. Hélt fyrst að ég væri bara að fá í magann en verkurinn leið hjá og ég náði að sofna. Hálftíma seinna vakna ég upp við sama verk og fór fljótlega að átta mig á því að það væri kannski eitthvað farið að gerast. Vildi samt ekki gera mér neinar vonir, hélt áfram að kúra upp í rúmi, en verkirnir komu og fóru á uþb 15 mín fresti, missterkir. Lét kallinn minn vita að ég grunaði eitthvað og hann sleppti að fara í vinnuna þennan morguninn. Sendi líka sms til Kristbjörgu og sagði henni að það væri kannski eitthvað að gerast og ég átti að láta vita ef þetta myndi aukast. Sendum stóru stelpuna síðan bara í leikskólann en hún var 2,5 árs á þessum tíma.

Verkirnir héldu áfram að vera óreglulegir, og missterkir. Datt einu sinni niður í meira en 40 mín og þá hélt ég að öll von væri úti. Tók samt smá göngutúr með kallinum og eftir hann fór meira að gerast. Gengum meðal annars framhjá leikskólanum þar sem stelpan okkar er og sáum hana leika úti. Kallinn fór í leiðangur að kaupa mat og drykki, birgðir fyrir komandi átök. Fljótlega eftir að hann kom aftur voru verkirnir að verða ansi öflugir og hafði ég misst alla matarlyst. Kallinn byrjaði að undirbúa “hreiðrið” okkar heima, blés upp laugina, setti teppi yfir gluggana og færði til húsgöng. Ég kveikti á kertum og var orðið mjög kósý í stofunni okkar. Kveiktum svo á gamanmynd (Men in Black) og knúsuðum hvort annað. Það var rétt fyrir 12 sem hríðarnar fóru að verða reglulegar og sterkar, 5­7 mín á milli og ég þurfti að anda mig vel í gegnum þá. Fór líka að blæða frá leghálsinu sem er víst bara merki um að hann væri að undirbúa sig og að opnast. Sendi annað sms á Kristbjörgu og hún sagði mér bara að láta mig vita hvenær við vildum fá hana. Við slökktum á sjónvarpinu, kveiktum á Grace disknum og settum myndasýningu í sjónvarpið með myndum af eldri dóttur okkar nýfæddri, svona til að gefa mér innblástur og aukin kraft því þetta var markmiðið, litla barnið okkar.

Mér fannst best í hríðunum að standa yfir skeknum í stofunni og halla mér örlítið fram, Axel stóð fyrir aftan mig og nuddaði mjóbakið með hnefunum eða puttum. Þarna kom nuddkennsla sér vel í jóganum. Í lok hverja hríða hallaði ég mér upp að honum og kyssti hann. Já ég veit, ógeðslega væmna ég, bara hafði rosalega mikla þörf fyrir ást, snertingu og umhyggju. Rúmum 30 mín eftir að ég sendi sms­ið fóru hríðarnar að koma á 3­4 mín fresti og fóru að vera ennþá erfiðari og fór að finna þrýsting niður á við. Sendi þá strax sms og bað hana að koma. Hún kom rétt eftir 13. Hún sá strax að ég væri í fæðingu og ég komst í laugina. Það var himneskt.

Ég byrjaði að halla mér fram með höfuð og hendur á bakkanum og hné við botninn og fann vel hvernig kollurinn færðist neðar í hverri hríð. Eftir nokkur skipti fór ég að fá svo mikinn þrýsting niður í mjóbak að ég gat ekki lengur verið í þessari stellingu og ákvað að fara yfir á bakið og hvíldi höfuðið bakkanum. Þannig náði ég að slaka vel á og fljóta í vatninu. Þarna fór aðeins að lengjast á milli hríða og vill Kristbjörg meina að vatnið hafði verið aðeins of heitt en mér fannst það fínt, gaf mér betri hvíld á milli hríða. Fór síðan að finna kunnuglegan þrýsting niður á við og vissi að þetta færi að klárast. Ég þurfti að nota allan minn kraft til að slaka á þarna niðri til að leyfa hríðunum að gera sitt. Undir lokin fannst mér æðislegt að stynja í hríðunum, þá náði ég að slaka ennþá betur á.

Rembingsþörfin kom smátt og smátt. Kristbjörg sagði mér bara að hlusta á líkamann, ef ég þyrfti að rembast þá myndi ég bara rembast. Hún athugaði aldrei útvíkkunina. Fann hvernig hríðarnar breyttust, og var mikill léttir. Eins og seinast fannst mér rembingurinn mun auðveldari en útvíkkunin. Ákvað til að auðvelda allt að fara aftur í sömu stellingu og ég byrjaði í, því þannig náði ég að opna grindina vel og fann strax að það virkaði. Þannig náði ég líka að halda vel í hendurnar á kallinum mínum og gat kysst hann og knúsað eins og ég vildi. Byrjaði að rembast um 3 leitið og finnst mér alltaf jafn ótrúlegt að finna kollinn fara neðar og neðar. Ég passaði mig að um leið og ég fór að finna fyrir sviða, hægði ég á rembingnum og kollurinn fór aftur inn. Eftir 20 mín af rembing eða kl. 15:20 kom loksins kollurinn. Ótrúlegt að segja þá var það eina skiptið í fæðingunni sem ég missti stjórn á mér og öskraði en vá það var alveg ótrúlegt að þetta væri búið. Var ekki að átta mig að þetta væri búið og ég heyri Kristbjörgu segja fyrir aftan mig, “Mamma ég er komin út, ég þarf einhvern til að taka mig upp” en þá var barnið komið allt út og ég tók það sjálf upp úr vatninu. Væmna ég fór strax að hágráta enda yndislegasta augnablik í heiminum. Litla gullið var mjög rólegt en það andaði alveg strax, og grét stuttu seinna. Við kíktum í pakkann en við vissum ekki kynið á meðgöngunni og sáum strax að við höfðum eignast aðra litla stelpu. Þegar litlan var búin að átta sig á þessum nýja heim fór hún sjálf strax á brjóstið og hefur verið þar síðan. Klárlega besti staðurinn í heiminum.

Síðan vorum við bara í rólegheitum í lauginni og fór upp þegar ég var tilbúin. Fylgjan var ennþá ófædd enda fannst Kristbjörgu alveg óþarfi að koma henni út, hún kæmi út þegar hún væri tilbúin. Ég fór upp í mitt eigið rúm með dömuna og við litla fjölskyldan fórum að kynnast. Á meðan gengu Kristbjörg og ljósmóðurneminn sem hafði verið viðstaddur frá stofunni. Þegar ég fór fram þá var ekki að sjá að þarna hefði verið fæðing. Rúmlega 1,5 klst eftir fæðinguna kom fylgjan og það þurfti ekkert að sauma. Stelpan var vigtuð og mæld, 13 merkur og 51,5 cm. Algjörlega fullkomin.

Eftirmáli

Ég vissi hreinlega ekki að það væri hægt að eiga draumafæðingu. Þessi reynsla mín er gjörólík þeirri fyrri og það er tvennt ólíkt að eiga rólega heimafæðingu þar sem líkaminn fer sjálfur af stað heldur en að þurfa hríðaraukandi lyf til að koma ferlinu af stað eins og ég lenti í seinast. Mér fannst dásamlegt að geta kynnst eingöngu einni ljósmóður í gegnum allt ferlið, sem þekkir mann og óskir. Ég er óendanlega þakklát að hafa tekið þá ákvörðun að eiga heima og vera í mínu umhverfi þar sem ég er á heimavelli. Maðurinn minn er líka sammála því. Þetta var yndisleg upplifun frá byrjun og til enda og svíf ég á bleiku skýi þessa dagana. Lífið er sannlegar dásamlegt.