Hér er keisari fæddur

Hér er keisari fæddur

Þessi fæðingarsaga var upphaflega birt á Siljabjork.com en er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi Silju.

Alheimurinn leggur aldrei meira á mann en maður þolir. Þetta var mantran mín í fæðingunni en syni mínum þótti ekki sæmandi að koma í heiminn þegjandi og hljóðalaust, heldur þurfti hann að láta hafa aðeins fyrir sér.

Ég var kominn tæpa viku fram yfir tímann. Hver og einn einasti dagur leið eins og heil eilífð að mér fannst og í hvert skipti sem ég fór á klósettið vonaðist ég nú til þess að slímtappinn væri farinn eða að vatnið færi að leka. Það gerðist aldrei. Í hvert einasta sinn sem ég fann smá verki eða óþægindi fór ég að telja og vonaðist til þess að nú væru samdrættirnir byrjaðir. Það gerðist ekki heldur.

Ég ætlaði að fæða son minn í rólegu umhverfi á Björkinni, án nokkura deyfilyfja, með fallegri tónlist og ilmkertum, kyrjandi jógamöntrur í vatnsbaði og láta taka fallegar myndir af ferlinu. Það gerðist heldur ekki. Í rauninni fór ekkert eins og “planað” var þegar kom að þessari fæðingu.

Það er rosalega gott að hafa plan og vera undirbúin fyrir fæðinguna. Ég undirbjó mig með því að lesa fæðingarsögur, tala við vinkonur mínar og fjölskyldu sem höfðu eignast börn, fór á fæðingarnámskeið og spurði ljósmæðurnar spjörunum úr. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að ég vissi ekkert hvað ég ætti í vændum og að fæðingar væru eins misjafnar og þær eru margar, svo ég var fullkomlega meðvituð um það að kannski yrði þessi upplifun ekki alveg eins töfrandi og ég hafði séð fyrir mér. Ég undirbjó mig undir ýmislegt – inngrip á spítalann, glaðloft, mænudeyfingar, nálastungur, fæðingarstellingar, vatnsfæðingar – en ekki keisaraaðgerð. Ég las ekki staf um keisaraaðgerðir því planið var ekki að enda í keisara.

Þess vegna er gott að vita að þó þú sért með eitthvað plan, þá getur það farið gjörsamlega í hina áttina.

Ég vaknaði laugardaginn 15.september um ellefuleytið og fann að ég var með smá verki. Verki sem líktust mjög mildum túrverkjum en þeir komu og fóru með reglulegu millibili. Ég varð ógeðslega spennt og langaði að hringja í alla, setja status á Facebook og tvíta um það að ég væri LOKSINS komin af stað. Ég hélt þó í mér og ákvað að bíða og sjá hvort verkirnir myndu ágerast og bilið á milli þeirra myndi styttast. Jú, viti menn – ég var komin af stað. Ég hringdi í Arneyju ljósmóðurina okkar á Björkinni og bað hana um að koma og athuga með mig. Klukkan var þá orðin tæplega þrjú en Arney bað mig um að vera róleg, halda áfram að fylgjast með hríðunum, borða og leggja mig og að hún myndi koma og kíkja á mig um kvöldmatarleytið.

Nú gat ég ekki lengur setið á mér og hringdi í Ísak og bað hann að koma heim úr vinnunni strax. Ég hringdi í vinkonur mínar og mömmu til að tilkynna þeim gleðifréttirnar. Svo pantaði ég mér tvær Dominos-pizzur og horfði á heilalausar bíómyndir á meðan ég beið eftir að verkirnir yrðu harðari og Arney kæmi að kíkja á okkur.

Þegar Arney kom loksins um kvöldið var belgurinn ennþá órofinn, vatnið ekki farið og ég aðeins komin með tæpa tvo í útvíkkun. Hún taldi þó að allt væri eðlilegt og að litli maðurinn myndi láta sjá sig í nótt eða undir morgun. Við áttum bara að halda áfram að bíða og vera róleg.

Í gegnum hverja hríð andaði ég djúpt niður í maga og andaði út eins og hafgola. Þessi ujjayi-öndun sem Auður kenndi okkur í meðgöngujóganu skipti sköpum fyrir mig í gegnum verkina, því hún hjálpaði mér ekki aðeins að halda mér rólegri heldur er ákveðin verkjastylling fólgin í slíkri öndun. Ég skoppaði um á jógaboltanum, kyrjaði om lengst niður í rófubeinið og beið eins spök og ég mögulega mátti, að farast úr spenningi fyrir þessari fæðingu sem ég hlakkaði svo mikið til.

 

Það er síðan um níuleytið að ég ligg í sófanum og finn skringilega tilfinningu í klofinu, svona eins hellt væri úr fötu í nærbuxurnar. Vatnið var að fara! Ég hoppaði upp úr sófanum og kjagaði eins og mörgæs inn á bað og beinustu leið í sturtuna þar sem ég klæddi mig úr rennandi blautum buxunum og lét restina af vatninu leka í sturtubotninn. Ég sá að vatnið var gruggugt og það boðar ekki gott. Ég hringdi í Arney og hún taldi það víst að þetta væri bara eðlilegt blóð þar sem hún hafði verið að hrærast í leginu klukkutíma áður til að finna útvíkkunina. Hún sagðist ætla að fara og gera baðið tilbúið á Björkinni og nú ættum við að fara að gera okkur klár að koma upp á stofu.

Því næst kemur græna vatnið. Fyrir þá sem ekki vita þá boðar það ekki gott ef legvatnið lekur grænt, því það er merki um streitu hjá barninu. Það þýðir að fylgjast þarf vel með öllum lífsmerkjum hjá barni og móður og er það ekki hægt á einkastofum eins og Björkinni. Við vissum því strax að ég gat ekki fætt hann á stofunni og þurftum við Ísak að bruna beinustu leið á Landspítalann. Það var að sjálfsögðu ákveðin vonbrigði en gerði þó lítið til því við Ísak vorum bæði svo spennt að fá litla son okkar í hendurnar. Ég hugsaði með mér að ég gæti alveg legið í vatni og kyrjað jógamöntrur þó það væri uppi á Landspítala og nú væri búið að leysa ljósmæðradeiluna þannig þetta væri nú allt í lagi.

Við komum upp á Landspítala á miðnætti og fengum stóra stofu útaf fyrir okkur. Ég var tengd við allskonar tæki og tól, skynjari settur yfir bumbuna til að fylgjast með syninum og okkur sagt að hringja bjöllunni þegar verkirnir færu að ágerast.

Svo gerðist ekkert.

Ég hætti að fylgjast með hvað tímanum leið því ég fann svo hryllilega mikið til. Ég sat með glaðloftsgrímuna fasta við munninn nánast allan tímann. Ég lognaði útaf hér og þar en vaknaði með reglulegu millibili til að anda mig í gegnum sársaukann. Ég hugsaði alltaf til Auðar jógakennara og sótti í visku hennar – sársauki er bara tímabundið ástand, láttu hann skola yfir þig eins og öldu. Öldurnar skoluðu yfir mig og lág ég í sjúkrarúminu veðurbarin og sjótekin í marga klukkutíma án þess að nokkuð bólaði á syninum.

Ég fékk tvær gangsetningartöflur. Svo kom morgun og ný ljósmóðir tók við okkur. Ekkert gerðist, ekkert nema sársauki. Ísak spreyjaði lofnarblómailmi yfir herbergið til að halda mér rólegri. Öldurnar héldu áfram að skella á mér. Þær sprengdu hinn belginn, meira vatn lak. Ekkert gerðist. Ég fékk “dripp” í æð til að koma hríðunum áfram og koma mér betur af stað í fæðinguna. Ekkert gerðist. Í hvert einasta skipti sem þær hækkuðu skammtinn, lækkaði hjartsláttur litla mannsins. Öldurnar börðu mig og mér leið eins og ég væri að veltast um í skæðum stormsjó. Sársaukinn var orðinn svo mikill að ég gat ekki lengur andað eða kyrjað mig í gegnum verkina heldur var ég farin að öskra hástöfum eins og sært dýr við hverja einustu hríð. Útvíkkunin var aðeins orðin þrír. Þrír af tíu. Þrír ponsulitlir sentimetrar.

Ljósmóðirin okkar, hún Steinunn, heyrði veinin í mér og taldi það best að nú fengi ég mænudeyfingu. Ég sem ætlaði svo allskostar ekki að deyfa mig með neinu nema jógamöntrum og nálastungu, var nú örugglega búin að sjúga glaðloftsbirgðir spítalans upp til agna og grét í fanginu á Ísak, mænudeyfingunni fegin.

Ég fékk mænudeyfingu. Rétt áður en svæfingarlæknirinn kom lá ég með glaðloftið og saup af áfergju. Ég datt inn og út og leið ýmist eins og ég væri sauðdrukkin eða sofandi. Hljóðið í grímunni fór að minna mig á hljóðið í köfunarbúnaði. Hugurinn fór að reika og til að eiga betur við sársaukann hætti ég að ímynda mér ólgusjó og fór að ímynda mér tæran, lygnan paradísarsjó þar sem ég gat svamlað um í kafi og synt í gegnum torfur af litríkum fiskum. Þar er minn hamingjustaður og því meira sem ég leit inn í þriðja augað og einbeitti mér að því að vera ekki á spítala, ekki mögulega á leiðinni í keisaraaðgerð og alls ekki að fá mænudeyfingu, því betur leið mér. Svo kom mænudeyfingin og ég rotaðist.

Þegar ég rankaði við mér hafði enn ekkert gerst. Nú voru sérfræðingarnir farnir að hafa áhyggjur. Þær gramsa og grafla í klofinu á mér, spenna leggöngin upp með stærðarinnar málmpípum og leita að kolli barnsins. Þær hreyfa við barninu og fann ég þegar fæðingarlæknirinn ýtti við honum neðan úr leggöngunum hvernig fæturnir hans spörkuðu undir rifbeinin á mér. Sonurinn er illa skorðaður og þar sem hann bregst svo illa við “drippinu” er hann líklegast flæktur í strenginn. Fæðingarlæknirinn og allar hennar hjálparhellur tjá okkur að þær muni reyna hvað þær geta til að koma mér af stað en útvíkkunin sé aðeins fimm og alltof langur tími liðinn frá fyrstu hríðum. Hún segir okkur að það séu töluverðar líkur á því að við förum í keisaraaðgerð.

Ég vil alls ekki fara í þessa keisaraaðgerð en ég segi ekki neitt. Ég veit ekkert við hverju á að búast, ég er hrædd og kvíðin. Allt í einu eru töluverðar líkur á því að ég þurfi að fara í stórfellda aðgerð og mikið inngrip, þegar ég ætlaði bara að eiga fallega, rólega fæðingu í vatnsbaði. Ég bið þær um að reyna aftur að snúa honum og athuga með útvíkkunina eftir enn meira “dripp”. Ég held að þær hafi frekar gert það sem greiða við mig heldur en nokkuð annað, það var öllum sérfræðingum morgunljóst að keisari væri eina leiðin með viti á þessum tímapunkti. Þær taka blóðprufu úr litla manninnum og þó hvorugt okkar sé í bráðri lífshættu erum við send í bráðakeisara.

Ég var gjörsamlega búin á því. Á aðra höndina vildi ég alls ekki fara í uppskurð, vildi halda áfram að reyna og fæða hann “náttúrulega” en á hina höndina hafði ég verið sárverkjuð í þrjátíu og eina klukkustund og þráði ekkert heitar en bara að fá að halda á syni mínum. Ljósmóðirin var svo góð við mig og strauk mér um hárið á meðan ég grét og Ísak kreisti hönd mína og kyssti. Það leið aðeins tæpur klukkutími frá því að fæðingarlæknirinn sagði okkur að við værum á leiðinni í keisara og þangað til við vorum komin með son okkar í hendurnar.

Eftir grátinn og ítarlegar útskýringar frá fæðingarlækninum um ferlið, uppskurðinn og batann varð ég aðeins rólegri. Þegar hún sagði mér að ég yrði vakandi á meðan aðgerðinni stóð róaðist ég niður, ótrúlegt en satt, því ég gat ekki hugsað mér að vera ekki vakandi þegar sonur minn tæki fyrsta andardráttinn utan legsins.

Ísak var færður í skurðstofugallann og mér var rennt inn á skurðstofuna. Ísak fékk að vera inni allan tímann og sat hjá mér, strauk mér um höfuðið og studdi mig í gegnum þetta. Inn á stofuna komu ótal læknar, hjúkrunarfræðingar, sérfræðingar og svæfingarlæknar sem öll tjáðu mér nöfn sín og tilgang þeirra á skurðstofunni. Ég fann hvernig flóðlýst herbergið, pípið í tækjunum og skurðaðgerðin þyrmdu yfir mig. Ég ákvað að loka augunum og byrjaði á hafönduninni. Ég sagði bara “já og namaste” við öllu sem læknarnir sögðu. Ég lá með opinn faðminn eins og krossfiskur á meðan dælt var í mig deyfingum og lyfjum. Öndunin var farin að róa mig og skyndilega laust sterkri hugsun niður í hausinn á mér, eins og fjarlæg rödd sem hvíslaði:

“SILJA, ALHEIMURINN LEGGUR ALDREI MEIRA Á OKKUR EN VIÐ ÞOLUM”

Þessi mantra varð minn sannleikur á þessu augnabliki og allt í einu var ég í sátt við almættið og örlögin. Ég heyrði Ísak anda órólega og snökta og fann að hann var orðinn stressaður, sjálfur í ákveðnu áfalli og auðvitað sárt að sjá konuna sína þjást þegar það er lítið sem þú getur gert til að laga það. Ég bað hann að leggja eyrað við varir mínar og hvíslaði að honum að þetta væri allt í lagi, ég væri í lagi og ég væri róleg. Ég sagði þetta við hann, alheimurinn leggur aldrei meira á okkur en við þolum og við getum gert þetta saman. Hugsaðu þér, Ísak, við fáum hann fljótlega í fangið.

Á meðan aðgerðinni stóð fann ég fyrir öllum hreyfingum, þrýstingi frá höndum læknanna og tilfærslu líffærana inn í mér, án þess þó að finna sársauka. Ég heyrði blautkennd hljóðin í blóðinu sem sullaðist til og fann einstaklega furðulega tómarúms tilfinningu þegar ég fann að barninu var kippt upp úr leginu.

Svo heyrðum við gráturinn, frumgráturinn í syni okkar. Foreldrar um allan heim geta vottað fyrir það að ekkert hljóð er þessu hljóði líkast. Herbergið lýstist upp, hjartað mitt opnaðist upp á gátt og það var eins og allt kæmi heim og saman á þessu kyngimagnaða augnabliki. Við Ísak grétum bæði og vissum að ekkert skipti lengur máli í þessari tilveru en þetta litla líf sem við höfðum skapað.

Allt var í lagi. Ekkert fór alvarlega úrskeiðis. Læknarnir sögðu okkur að sonurinn hefði verið flæktur þrívegis í strenginn, utan um hálsinn og undir báðar axlirnar, hvernig nú svo sem hann fór að því. Það væri því mikilvægt að vita að ég hefði aldrei getað fætt hann “náttúrulega”. Ég hugsaði hvað mér væri sléttsama, þær hefðu getað sótt hann út um nefið á mér ef því var að skipta.

Ísak hélt á honum í fanginu, þegar búið var að þvo honum og pakka inn í teppið, og grét. Ég leit upp á meðan lækarnir soghreinsuðu burtu fylgjuna og saumuðu mig saman og heilsaði syni okkar með nafni og sagði örugglega þúsund sinnum “ég elska þig, ég elska þig”. Hvílík stund.

Nú er ég orðin mamma. Eitthvað sem ég hef hugsað um og látið mig dreyma um í mörg ár er loksins orðið að veruleika. Eftir aðgerðina var Ísak færður aftur inn á stofuna okkar og þegar mér var loksins rúllað aftur inn eftir herlegheitin, fékk ég son minn í fangið í fyrsta sinn. Ég hef varla viljað sleppa honum síðan.

Hér er keisari fæddur