Fæðing Ástrósar

Ég var búin að vera með væga túrverki í nokkra daga sem ég tók samt lítið mark á. Þeir voru að ágerast örlítið og þó að ég vonaði mikið að þeir væru að hafa einhver áhrif var ég samt róleg yfir þessu öllu. Á miðvikudeginum fyrir hitti ég Kristbjörgu og bað hana um að skoða mig og var ég þá komin með 3 í útvíkkun. Á laugardagskvöldið vorum við öll heima hjá foreldrum mínum að passa húsið þeirra því þau fóru til Akureyrar á frumsýningu. Ég og Sigurjón horfðum á Matrix og slökuðum vel á.

Við fórum svo bara að sofa og ég vaknaði um kl. 3 við það að Elísabet þurfti aðstoð á klósettinu. Svo ég fer og aðstoða hana en eftir það tek ég eftir að verkirnir höfðu aukist töluvert og ég var farin að finna greinilegt upphaf og endi. Svo ég leggst aftur uppí rúm og reyni að sofna en tekst það ekki svo ég ákveð að taka tímann á verkjunum. Þá voru svona 2-4 mínútur á milli. Klukkan 3:40 ákveð ég svo að fara á fætur og fara á klósettið. Ég sest á klósettið og pissa og svo kemur önnur alveg svaka gusa og þá fer vatnið. Verkirnir aukast lítið við það en ég þorði ekki annað en að ræsa út liðið. Svo ég vakti Sigurjón og sagði honum að við þyrftum að fara heim, hann hringdi í foreldra sína sem komu til að vera hjá Elísabetu og ég hringdi í Kristbjörgu ljósmóður.
Um leið og Siggi og Lísa komu þá brunuðum við heim á Hvammabraut og þau voru verkirnir orðnir ansi slæmir.

Við vorum komin heim rétt eftir 4 og Kristbjörg kom svo um hálf 5. Sigurjón fór í að pumpa upp laugina og Kristbjörg fór í símann að reyna að ræsa út nema sem ætlaði að vera með í fæðingunni.

Á meðan hélt ég mig inná baði því vatnið lak í hverri hríð og þá var best að vera ofaná handklæði. Um leið og laugin var svo tilbúin, kl. 5:30, fór ég ofaní. Mér fannst það mikill léttir að komast ofaní vatnið og auðveldaði allar hreyfingar. Mér fannst best að vera á hnjánum og hallaði mér að laugarbrúninni. Þar sat Sigurjón og hélt í hendurnar á mér þegar ég þurfti á því að halda. Fljótlega komu 2 hríðar og þeim fylgdi smávegis rembingtilfinning en mér fannst ég ekki alveg tilbúin að rembast. En svo í þriðju hríðinni fann ég að ég var alveg tilbúin. 
Eftir svona 4 hríðar fann ég vel fyrir kollinum.

Þá fannst mér mjög gott að halda sjálf við kollinn og gat þá stjórnað stefnunni, en mér fannst best að ýta höfðinu aðeins framávið. Svona 3 rembingum seinna var hún svo mætt í fangið á mér á slaginu kl. 6. Hún var þakin fósturfitu og alveg risastór. Af einskærri þrjósku og óþolinmæði þá átti ég það aðeins til að halda áfram að rembast þó hríðin væri búin, en Kristbjörg var fljót að sjá það og fékk mig til að hlusta betur á líkamann. Fylgjan kom svo 15 mínútum seinna. Með fylgjunni blæddi aðeins meira en Kristbjörg hefði viljað, en samt bara örlítið meira en þykir eðlilegt. Það var samt frekar óhugnalegt því vatnið í lauginni varð alveg eldrautt.

Það var mjög skrýtið að fara uppúr lauginni því ég var búin að vera næstum hreyfingarlaus á hnjánum í svo langan tíma að ég var komin með náladofa og svo fannst mér allar hreyfingar svo erfiðar og ég öll svo þung svona á “þurru landi”. Við fórum svo öll þrjú saman inní rúm og kúrðum á meðan ljósurnar sáu um að ganga frá öllu.

Hún var svo vigtuð og mæld og var hún 4390 gr, 17,5 merkur og 50 cm. Heilu kílói þyngri en Elísabet. Hún fæddist með einhvern blett, sem lítur út eins og mar, á síðunni, en Kristbjörg hafði litlar áhyggjur og vildi bara fylgjast með þessu.

Ég rifnaði örlítið en þurfti ekkert að sauma.

Fæðingin er skráð 2 tímar og 10 mínútur frá því að vatnið fór.

Siggi og Lísa komu svo í hádeginu með Elísabetu sem var mjög spennt að hitta litlu systur sína og virðist vera alveg fædd í hlutverk stóru systur.

Fæðingin var fullkomin í alla staði og væri alveg til í að upplifa aðra svona fæðingu ef við ákveðum að bæta öðru við. Nema kannski að ég myndi vilja vera heima þegar ég fer af stað.