Fæðing Elísabetar

Á fimmtudagskvöldið var ég eitthvað lengi að koma mér í háttinn og var að sniglast í tölvunni langt frameftir. Um kl. 3 var ég ennþá í tölvunni og fer að fá nokkuð öfluga samdrætti, en var alveg viss um að þetta væru bara fyrirvaraverkir svo ég ákvað að drífa mig í háttinn. Ca. 40 mínútum seinna vaknaði ég með þónokkuð mikið verri verki og núna voru samdrættirnir orðnir reglulegir. Þá fór ég fram og ákvað að mæla þá. Þá voru þeir á ca. 3 mínútna millibili og stóðu yfir í ca. mínútu hver. Ég var samt ennþá sannfærð um að þetta myndi bara detta allt niður, því ég var ekki að fara að eiga á settum degi. Það kemur aldrei fyrir!

En um kl. 5 voru samdrættirnir orðnir með 2 mínútna millibili og verkirnir með voru alls ekkert að minnka. Þá ákvað ég að hringja niður í Hreiður og þær vildu endilega fá mig í skoðun svo ég vakti Sigurjón og við drifum okkur niðureftir. Ég var þá með fullstyttan legháls en bara 1,5 í útvíkkun, svo ég gerði alveg ráð fyrir langri bið í barnið. Ég fékk tvær Parkódín og fór bara heim með þau skilaboð að reyna bara að slaka á og sofna.

Þegar við komum heim klukkan eitthvað um 6 reyndi ég að leggjast og var með hitapoka við bakið, en það var bara verra svo ég gekk um gólf og hékk á vaskinum inná baði í einhvern tíma. Svo allt í einu fékk ég þessa svakalegu rembingsþörf, svo ég öskraði á Sigurjón að við værum að fara aftur uppá spítala. Þá var klukkan 7:45 og umferðin eins og verst verður á kosið á föstudegi. Svo þessi stutta ferð uppá Landsspítala tók okkur hálftíma og ég með bullandi rembingsþörf allan tímann og hugsaði allan tímann hvað fólkið í hinum bílunum héldi eigilega um mig.

Við komum svo uppí Hreiður kl. 8:15 og ég staulast inn á næsta herbergi. Ljósan sem tók á móti mér, Guðlaug, var voða róleg og fer að spyrja hvort ég sé með einhverjar séróskir og mér tekst að stynja upp að ég vilji fara í baðið og að ég sé með roooosalega rembingsþörf. Þá ákveður hún að skoða mig svo ég hendi mér út buxunum og upp í rúm. Ég fæ svo glaðloftið sem ég held að sé besta uppfinning sem ég hef kynnst í langan tíma.

Þá var ég komin með fulla útvíkkun og allt komið vel af stað. Fimm mínútum eftir að ég kom inná deild finn ég einhverja furðulega tilfinningu milli fótana og segi Guðlaugu að það sé eitthvað að gerast. Þá var belgurinn að springa og kom í ljós að legvatnið var grænt, svo ég mátti ekki fara í baðið.

Svo ég lá bara í rúminu, hálfpartin ofaná Sigurjóni og mátti loksins rembast sem var furðulegt sambland af rosalegum sársauka og ánægju yfir því að eitthvað sé að gerast. Ég var samt alveg viss um að þetta myndi taka svo langan tíma að þegar Guðlaug bauð mér að finna kollinn trúði ég henni varla. Ég þreifaði þarna niður og fann fyrir slímugum haus sem mér fannst bara alls ekki að gæti komist fyrir þarna.

Guðlaugu og hinni ljósunni fannst hríðarnar mínar vera eitthvað of stuttar og fóru þá að tala um að gefa mér eitthvað hríðaraukandi í æð. Strax og ég heyrði að það ætti að fara að stinga mig var eins og ég fengi auka kraft og hún skaust út í næsta rembing klukkan 8:56. Hún var svo sett strax í fangið á mér, ég var meira að segja ennþá í bolnum sem ég kom inn í, og við fengum að knúsa hana á meðan fylgjan var að skila sér. Við vorum svo sannfærð um að þetta yrði strákur að við þurftum bæði að kíkja tvisvar til þess að sannfæra okkur um að þetta væri í alvörunni lítil stelpa.
Litla prinsessan var 3330 grömm, 13,5 merkur og 49 cm. Og ég sem hafði svo miklar áhyggjur af því að fötin sem ég keypti í 56 yrðu of lítil!!

Hún kúrði svo hjá pabba sínum á meðan ég var saumuð eitthvað smávegis, en spöngin hélst alveg heil.
Svo þurfti Sigurjón að fara niður í bíl, því í öllum hamaganginum hafði ég ákveðið að við þyrftum ekkert að taka spítalatöskuna með úr bílnum. Við vorum ekki einu sinni búin að setja bílstólinn í bílinn, höfðum ætlað okkur að gera það núna um helgina.

Þegar hann kom svo aftur fékk hann að setja fyrstu bleyjuna á hana og klæða hana í föt og svo röltum við fjölskyldan yfir ganginn og inn í fjölskylduherbergi. Þar létum við fara vel um okkur og hringdum í nýju ömmurnar og afana. Þá var klukkan um 11. Foreldrar okkar voru auðvitað frekar hissa á þessum fréttum, enda lá litlunni svo á í heiminn að enginn vissi að við værum á spítalanum. Mamma (Anna Rós) greyið var að keyra þegar hún heyrði fréttirnar og það lá við árekstri, svo mikil voru viðbrögðin.

Stuttu eftir það fengum við nýbökuðu foreldrarnir hádegismat sem féll vel í kramið og svo komu foreldrar og systkini til okkar til að sjá nýjasta fjölskyldumeðliminn.