Ég hafði ekki sagt neinum settan dag og af því við fjölskyldan vorum í sumarfríi var ég næstum hætt að fylgjast með dögunum sem liðu hver af öðrum. Það var því engin pressa. Mér leið vel og vissi að ekki þýddi að miða of mikið við dagatalið, seinast hafði ég gengið 41 viku og 6 daga.
Við Kristbjörg ljósmóðir vorum báðar afslappaðar og miðuðum hálft í hvoru við að ég gengi vel og lengi með, eins og í fyrra skiptið.
Ég vaknaði á fallegum miðvikudegi, gengin 40 vikur og 3 daga. Mágkona mín kom og sótti mig undir hádegið og við fórum saman í jógatíma til Auðar. Ég ákvað að skella mér á töfradýnuna í horninu, mér fannst það einhvern veginn viðeigandi í þetta skiptið. Ég tók orð Söru jógakennara um að við skyldum hlusta á líkamann bókstaflega og lagðist snemma undir teppið í slökun og naut þess sem ég vissi að myndi verða einn af mínum síðustu tímum í meðgöngujóga.
Eftir hádegið fórum við litla fjölskyldan í búðarferð, keyptum auka lak á hjónarúmið og bleyjupakka fyrir nýbura. Planið var svo að baka hafrakex eftir að minn 2 ára færi í háttinn um kvöldið. Það varð lítið úr bakstrinum því ég var svo þreytt í mjóbakinu upp úr klukkan 7 að ég treysti mér varla til að standa. Ég lagðist því bara upp í sófa og fór að horfa á sjónvarpið meðan eiginmaðurinn straujaði skyrtur og ungbarnarúmföt.
Rétt upp úr kl 10 um kvöldið fann ég sting niður og fannst ég heyra smell. Í nokkrar mínútur þorði ég ekki að hreyfa mig og sagði manninum mínum að þetta hefði nú verið eitthvað undarlegur stingur. Það var svo ekki fyrr en ég stóð upp úr sófanum sem ég fann vatnið leka. Maðurinn minn stökk og náði í handklæði og rétti mér svo síma til að hringja í Kristbjörgu. Seinast hafði fæðingin líka byrjað með því að vatnið fór, ég hafði búið mig undir að núna yrði þetta öðruvísi og að reglulegar bylgjur myndu segja mér að ég væri komin af stað. Mér var því nokkuð brugðið. Kristbjörg kom, allt leit vel út og litla krílið loks skorðað.
Ég fór upp í rúm til að reyna að hvílast, því ég bjóst við að fljótlega færi allt að gerast, þannig var það síðast. Ég hlustaði á Hypnobirthing slökunina og valin lög af playlistanum. Ég náði að dotta smá. Hægt og rólega fóru bylgjurnar að gera vart við sig og ég tók brosandi á móti þeim með djúpri öndun. Á einhverjum tímapunkti fann ég að bylgjurnar voru orðnar of sterkar til að eg gæti tekið á móti þeim útaf liggjandi og fór á fjóra fætur. Um svipað leyti fór ég að hnippa í sofandi eiginmanninn, hann svaf í gegnum stunurnar frá mér. Hann ræsti Kristbjörgu í annað sinn, lagði hitapoka á mjóbakið sem var enn jafn þreytt og gaf mér fiðrildanudd (e. light touch massage). Ég tók aldrei tímann á milli hríða, hafði augun lokuð og lét mér líða vel í eigi heimi.
Þegar Kristbjörg kom bauð hún mér að fara í laugina sem ég þáði. Á leið minni inn í stofu vissi ég að ég myndi ganga fram hjá eldhúsklukkunni en mér fannst skipta miklu máli að vita ekki hvað klukkan væri. Ég vissi að það myndi ekki hafa góð áhrif á mig að komast að því hvort langt eða stutt væri síðan vatnið fór, annað hvort myndi ég upplifa að fæðingin væri að ganga hratt fyrir sig sem myndi gera mig órólega eða að ég upplifði að ég væri búin að vera lengi í fæðingu og myndi þá meðvitað fara að þreytast eða vorkenna sjálfri mér. Ég vissi semsagt ekkert á þessarri stundu hvort ég hefði legið uppi í rúmi í eina klukkustund eða sex. Tímaleysið hafði þjónað mér vel í síðustu fæðingu og ég vildi að það gerði það líka núna.
Vatnið var notalegt en það var ég að prófa í fyrsta skipti. Ég man ég hugsaði þegar ég fór ofan í laugina að þegar ég færi upp úr þá myndi barnið vera fætt og þessarri meðgöngu lokið. Mér fannst það að vissu leyti leiðinlegt því ég hafði notið mín á meðgöngunni. Ég dúaði og vaggaði í vatninu í bylgjunum og reyndi að nýta mér þyngdarleysið. Ég var einnig í dágóða stund að finna þægilegustu stellinguna, átti í einhverjum vandræðum með hvernig ég vildi hafa hnén meðan ég hallaði mér yfir brúnina á lauginni og var því á smá iði. Mér finnst eins og fljótlega eftir að ég fór ofan í laugina að það væri kominn þrýstingur niður í toppunum á bylgjunum og Kristbjörg hafði orð á því. Ég leyfði líkamanum að stjórna og ýtti ekki með. Mig grunar að Kristbjörgu hafi eitthvað verið farið að lengja eftir því að eitthvað meira gerðist og bað mig að snúa mér við svo hún gæti skoðað leghálsinn. Hún sagði að allt væri mjúkt en það væri brún á leghálsinum. Fyrir mér þýddi þetta að rembingurinn væri ekki tímabær og frekar að trufla, ég þyrfti að einbeita mér að því að opna betur. Ég ákvað að prófa að fara á klósettið en gat ekkert pissað. Mér til mikils léttis duttu bylgjurnar niður meðan ég var á klósettinu, það kom svona eins og pása. Ég heyrði að strákurinn minn var vaknaður og var að koma niður. Hann var mjög glaður þegar hann sá mig koma út af klósettinu enda hafði hann komið að mömmu og pabbarúmi auðu og vissi ekki alveg hvað var í gangi. Einhver reyndi að útskýra fyrir honum að mamma væri upptekin meðan ég fékk aðstoð við að komast aftur ofan í laugina. Að mamma væri í sundlaug inni í miðri stofu vakti sko heldur betur áhuga en hann skynjaði samt að það væri eitthvað sérstakt í gangi, hélt ró sinni og strauk mér nokkrum sinnum áður en hann var lokkaður inn í eldhús með ABT mjólk. Amma hans kom svo innan fárra mínútna og sótti hann.
Fljótlega fór allt af stað aftur. Ég ímyndaði mér að leghálsinn væri eins og lítil gúmmíteygja og að hún stækkaði og það teygðist á henni í hverri bylgju. Tilfinningin í líkamanum var einhvern veginn þannig. Ef ég fann að bylgjan var sterk fór ég að fnæsa eins og hestur til að hemja rembinginn. Ég vildi ekki rembast því mér fannst rembingurinn þreyta mig. Ég reyndi líka að vagga mjöðmunum, dúa í vatninu, hreyfa fæturna og vera á einhvers konar hækjum, það virtist hjálpa mér að vera á smá hreyfingu. Þetta var samt stutt stund, fæðingarskýrslan segir 10 mínútur. Skyndilega fann ég svo barnið bara næstum detta niður fæðingarveginn í einni hríð og kollinn þrýsta á spöngina. Síðast hafði ég verið lengi að mjaka barninu neðar og neðar og mér fannst þetta því vera að ganga vel og örugglega fyrir sig, þakkaði fyrir í hljóði og sagði ,,kollur’’ við manninn minn og Kristbjörgu.
Ég leyfði líkamanum að stjórna ferðinni í kollhríðunum, einbeitti mér að önduninni og sagði sjálfri mér að taka mér þann tíma sem ég þyrfti, hægt og ljúft myndi verða þægilegast. Ég tengdist barninu mjög vel þegar ég fann svona vel fyrir kollinum. Alltaf þegar ég upplifði að það gæti ekki teygst meira á mér kom næsta hríð og afsannaði það. ,,I am big’’ eins og Ina May segir. Að lokum fæddist kollurinn og svo allt barnið í næstu bylgju, fæðingarskýrslan segir að þetta hafi tekið 30 mínútur. Ég sneri mér við í lauginni, tók barnið mitt upp og í fangið. Þetta var strákur.
Ég fæddi fylgjuna í sófanum hálftíma seinna, á sama tíma og ég lagði drenginn minn á brjóst í fyrsta skipti. Spöngin var heil. Ég bað um að stóri strákurinn minn fengi að koma og hann mætti galvaskur og glaður og fannst afar spennandi að sjá þetta litla barn drekka mjólk hjá mömmu sinni. Pabbinn klippti svo á naflastrenginn og mamma og litla kríli sofnuðu vært í sófanum.