Fæðingarsaga Rökkva

Formáli

Í maí 2011 eignuðumst við stelpuna okkar. Meðgangan hafði verið frábær og ég uppfull af bjartsýni og tilhlökkun fyrir fæðingunni. Hafði ofurtrú á náttúrunni og datt ekki annað í hug en að líkami minn réði vel við fæðingu. Frá upphafi var stefnt að heimafæðingu, enda sá ég lítinn tilgang með að innritast á sjúkrahús nema þurfa aðhlynningu og verkfæri lækna. Sem blessunarlega minnihluti fæðandi kvenna þarf.

Náttúran hins vegar brást mér í það skipti. Fæðingin var óhemju löng og erfið. Höfuð barnsins kom skakkt niður – sem olli hægum framgangi þrátt fyrir kröftugar hríðir, og óskaplegu álagi á mjóbakið. Eftir hátt í sólarhringslanga fæðingu festist ég með 8 cm í útvíkkun í þrjá tíma og varð að sættast á að þessi fæðing yrði ekki kláruð án mænudeyfingar. Að losna við lamandi sársaukann eftir þennan erfiða sólarhring var heldur betur léttir, en seint verður þó sagt að spítalafæðingin hafi verið góð upplifun.

Líkt og örmagna foreldrarnir réð stelpan okkar illa við þessa löngu fæðingu og stuttu eftir komuna á LSH fór hún að sýna streitumerki, svo vel þurfti að fylgjast með hjartslætti og sýrustigi hennar í nokkra klukkutíma. Eftir þriggja tíma árangurslausan rembing var loks ákveðið að draga hana út með sogklukku. Við munum seint skilja af hverju beðið var svo lengi með inngrip, því í kjölfar þessa álags fæddist Ronja mín með aðeins 3 í apgar. Eftir nokkrar sekúndur á mömmubringu fór hún á vökudeild og þurfti þar vikudvöl til að jafna sig. Við vorum óskaplega heppin með sterku og kröftugu stelpuna okkar sem er fullkomlega heil í dag. Ekki eru allar fjölskyldur svo heppnar og auðvelt að verða fyrir súrefnisskorti í þess háttar fæðingu. Starfsfólk vökudeildar bað okkur að vera þakklát fyrir að stúlkan kom út þarna en ekki einni hríð síðar.

Minningin um fæðingarverki dofnar merkilega fljótt, en ennþá herpist maginn saman við að rifja upp fyrstu tvo tímana í lífi dóttur minnar – sem hún eyddi í hitakassa fjarri mömmulíkama sem hún hafði alla tíð tilheyrt. Að ég tali nú ekki um næturnar sem við eyddum heima á barnlausu heimili meðan skonsan dvaldi á vökudeild. Það var eins og rífa úr sér líffæri og skilja það eftir hjá ókunnugum (sem reyndust þó dásamlegar konur sem sinntu gullinu okkar vel í fjarveru foreldranna). Þá er ekki hægt að segja að sængurlegan hafi verið notaleg upplifun, við virðumst hafa verið sérdeilis óheppin með vinnubrögð starfsfólks (ef marka má reynslu margra annarra). Þrátt fyrir að vera þar nær vökubarninu mínu en heima, var ég afar fegin þegar ég yfirgaf sængurkvennaganginn og langaði aldrei þangað aftur.

Haustið 2013 fannst okkur kominn tími á fjölgun í fjölskyldunni – sem mætti við fyrsta kall. Þrátt fyrir að vera plönuð og hjartanlega velkomin viðbót, fengum við hálfgert áfall við að átta okkur á að nú væri aftur komið að fæðingu. Þá tók við talsverð vinna. Svo sem fundir með alls kyns fagfólki og yfirmönnum spítalans til að reyna að skilja vinnubrögðin úr síðustu fæðingu (sem enginn gat reyndar útskýrt en afsökunarbeiðnir var ljúft að heyra) og fá loforð um að næst yrði ólíkt brugðist við og engin óþarfa áhætta tekin með líf barnsins okkar.

Í þetta skipti var alls ekki á tæru hvar ég vildi fæða barnið, því síðasta heimafæðing reyndist líkamanum ofviða og spítalafæðingin var ömurleg upplifun. Það var óskaplega erfið staða að treysta engum fæðingarstað almennilega, og hefði ég gefið mikið fyrir bjartsýnina frá fyrri meðgöngu þegar engar erfiðar minningar þvældust fyrir. Það var loks þegar mér veittist sá heiður að ljósmynda heimafæðingu að ég ákvað að stefna þangað aftur. Sú mamma hafði átt svipað erfiða fæðingu og ég sama sumarið, en átti núna mun styttri og viðráðanlegri fæðingu. Að verða vitni að því eyddi loks þeim ótta mínum að ég væri kannski alls ekki byggð fyrir fæðingar og dæmd til að mistakast. Ég ákvað að við hefðum bara verið hrikalega óheppin og líkurnar á að vel gengi næst væru sannarlega okkur í hag. Þungu fargi var létt af mér við taka loks ákvörðun um fæðingarstað, og finna aftur til jákvæðni og tilhlökkunar.

Heimafæðinguna nálguðumst við þó á annan hátt en síðast. Okkur fannst mikið atriði að hafa aftur sömu ljósmæður sem vel þekktu söguna okkar, og ákváðum að hafa alla þröskulda fyrir inngripum lægri og tímamörk styttri. Í þetta skipti ætlaði ég að vera með fullri meðvitund á þeirri stóru stund þegar ég fengi barnið mitt í fangið en ekki út úr heiminum af örmögnun. Og mikilvægast af öllu var að nú skyldi ég fá drenginn minn í fangið og missa hann ekki þaðan aftur. Fæðingin skyldi öll miða við að leggja sem allra minnst á barnið mitt og forða því frá aðskilnaði frá mömmu sinni.

Með hverjum deginum sem styttist í fæðingu varð kvíðinn minni og tilhlökkunin meiri. Ekki síst hjá þeirri þriggja ára sem beið spennt eftir að verða stóra systir og ætlaði að gefa litla barninu sumt dótið sitt, hálft rúmið og alla þá kossa sem hún ætti til. Við vorum tilbúin fyrir litla bróður og tilbúin í aðra fæðingu.

Heimafæðing með smá spítalastoppi

Að morgni 19. júlí fór ég á fætur dauðþreytt og grautfúl yfir að hríðir næturinnar höfðu algjörlega dottið niður. Hafði reyndar ekki fengið mikinn svefnfrið síðustu nætur fyrir æfingarhríðum, en í þetta skiptið var ég handviss um að um alvöru hríðir væri að ræða og gapti af undrun yfir að allt dytti niður um morguninn. Bugaðist alveg og fannst eins og þetta barn kæmi aldrei út. Ennþá átti ég raunar þrjá daga í settan dag, en óttaðist að þegar loks kæmi að fæðingunni yrði ég örmagna eftir svefnleysið og réði ekkert við álagið. Aðrar reyndu að hughreysta mig með að allar þessar æfingar væru pottþétt að gera sitt gagn og stytta þar með sjálft fæðingarferlið, en mér gekk illa að trúa því þar sem ég hafði ekkert grætt á margra vikna fyrirvaraverkjum í löngu fæðingu dóttur minnar. Í fýlukasti fór ég ein út að labba í mígandi rigningunni og stoppaði lengi fyrir utan hús þar sem nýburi grét sárt. Eflaust erfitt hljóð í eyrum þeirra nýbökuðu foreldra, en mikið þráði ég að fá minn eigin vælandi kveisustrump í fangið.

Dagurinn leið og seinnipartinn byrjuðu samdrættirnir aftur, svo ég bjó mig undir aðra vökunótt. Enn í fýlu dró ég fjölskylduna út í bíl um kvöldið, varð að komast út úr húsi og hressa mig við. Við enduðum heima hjá foreldrum mínum þar sem systa og fjölskylda höfðu nýlokið við að borða dýrindis gæsabringur (hey takk fyrir að bjóða okkur!). Við borðuðum afganga og sóttin harðnaði smátt og smátt. Ég tók tímann á milli og þegar hríðirnar komu á 3-6 mínútna fresti ákváðum við að halda heim. Til öryggis þáðum við að Ronja myndi gista hjá frænku sinni, en ennþá þorði ég ekki að treysta á að þetta væru ekki plathríðir.

Heima fórum við í rúmið, staðráðin í að ná smá hvíld ef fæðingin væri í rauninni að skella á – óþægilega minnug þess hversu löng og lýjandi síðasta fæðing var. Sá blundur varð hins vegar mjög stuttur því sóttin harðnaði hratt. Við færðum okkur því inn í stofu í kringum miðnætti og gerðum heimilið fæðingarvænt. Ég kveikti á kertum um allt, setti á bíómynd og hrúgaði dýnum, púðum og teppum á gólfið. Ég lét ljósmæðurnar vita af yfirvofandi fæðingu en þurfti þó ekki á þeim að halda strax, hríðirnar voru vel viðráðanlegar með nuddi frá mínum ástkæra. Eftir eina bíómynd voru samdrættirnir farnir að taka slatta á, svo ég ákvað að dýfa mér ofan í baðkarið. Þar var yyyndislegt að vera. Hríðir á landi og hríðir í heitu vatni eru bara algjörlega sitthvor hluturinn! Eftir notalega stund í baðinu sá ég laugina í hillingum, bað Konna að blása hana upp og boða svo ljósurnar til okkar þar sem ég vildi innri skoðun áður en ég færi ofan í.

Arney og Hrafnhildur mættu kl. 2:45. Stuttu áður en þær komu snarbreyttist sóttin og allt varð skyndilega erfiðara. Ég skalf eins og hrísla, ógleðin helltist yfir og allar góðu gæsabringurnar enduðu í skúringafötunni. Þegar ég náði þessum ælu/skjálfta-punkti í síðustu fæðingu höfðu ljósmæðurnar þegar eytt heilum vinnudegi í að aðstoða mig í gegnum hríðirnar, svo ég ætlaði barasta ekki að trúa því hversu hratt þetta gekk. Innri skoðun staðfesti það en leghálsinn var kominn í góðan fæðingargír og útvíkkun komin í 6 cm! Sem hljómar kannski ekki merkilega í eyru margra mæðra… en voru himneskar fréttir fyrir konu sem áður þurfti 18 tíma hríðir til að ná þessum áfanga. Útvíkkunarsexan fyllti mig orku og trú á að ég væri í raun og veru að upplifa viðráðanlega fæðingu, og að þetta barn ætti góðan sjens á að fæðast heima án inngripa. Þarna voru bara örfáir tímar síðan hríðirnar urðu reglulegar og varla nema klukkustund síðan þær urðu erfiðar, svo greinilega höfðu andvökunæturnar gert sitt gagn (sorrý vantraustið kæru æfingarhríðir!).

Laugin var næst á dagskrá og þótt hríðirnar yrðu sífellt erfiðari urðu þær aldrei óviðráðanlegar. Fæðing er ansi hreint auðveldara verkefni þegar hún er það stutt að konan er langt frá örmögnun. Þegar ég bað um að drekka var mér alltaf rétt sama orkudrykkjarflaskan og ég hafði sjálf opnað í byrjun fæðingar. Þetta gladdi mig kjánalega mikið, því með gömlu 30 tíma fæðinguna í huga hafði ég keypt cirka tíu flöskur. Það fleytti mér langt í jákvæðu hugarfari að þetta ætlaði að verða „baraeinnarflöskufæðing“. Mestu munaði þó um að á milli hríða kom alltaf pása. Algjörlega sársaukalaus pása! Þetta var mér ný reynsla því síðast ýtti skakka höfuð dóttur minnar á rófubeinið en ekki leghálsinn, sem olli gríðarlegum sársauka í bakinu sem hvarf ekkert þó hríðin gengi yfir. Ég hafði mikla þörf fyrir að heyra uppörvandi orð – vera minnt á hvað hlutirnir væru að ganga hratt og vel, og að nú væri örstutt eftir. Svo ýmist sagði ég mér þá sjálf eða bað viðstadda að tyggja þetta ofan í mig. Orð eru svo kröftugt tæki.

Eftir tæpan klukkutíma í lauginni voru hríðirnar orðnar tussuerfiðar svo ég bað um innri skoðun. Ég hafði löngu ákveðið að grípa mun fyrr inn í ferlið en síðast, og hafði því þörf fyrir að vita nákvæmlega hvernig staðan væri. Ennþá brotin af fyrri reynslu óttaðist ég að þetta síðasta og erfiðasta tímabil útvíkkunarinnar yrði alltof langt fyrir mig að þola. Þá hafði tekið sex tíma að ná útvíkkun frá 6 cm í 10 cm – og á þessu tímabili færðum við okkur á spítala. Arney stakk upp á að klára næstu hríð og koma svo inn í rúm að tékka á útvíkkun… REEEEEMMMB! Skyndileg rembingsþörfin staðfesti að skoðun væri óþörf, útvíkkun var greinilega að klárast – bara klukkustund eftir að ljósmæðurnar mættu og mátu útvíkkun í 6 cm. Vúhú!!

Rembingsþörf var mér glæný upplifun. Síðast tók mænudeyfingin alla tilfinningu fyrir fæðingunni, og úrvinda rembdist ég í þrjá tíma – undir stjórn ljósmóður en ekki náttúrunnar – án þess að barnið haggaðist og loks var það sogklukka sem dró hana út. Mér líður því ekki eins og ég hafi í raun fætt stelpuna mína. Að upplifa þessa náttúrulegu rembingsþörf var allt önnur ella, og alveg eins og mamma hafði sagt mér fyrr um kvöldið – er hægt að grípa hríðina í kviðnum og færa hana niður í legháls, breyta henni úr sársauka í þrýsting. Nú þurfti ekki lengur að umbera kvalirnar heldur var hægt að nota þær í eitthvað gagnlegt. Að upplifa slíka stjórn á krafti náttúrunnar fannst mér mögnuð upplifun.

Rembingurinn tók þrjú korter og þarna tók þessi draumafæðing mín smá U-beygju, því mér fannst algjört helvíti að koma höfðinu út. Yfirveguð dönnuð kona breyttist í leiðinda væluskjóðu með endalaust: Are we there yet? Are we there yet? Í trylltum sársaukanum hélt ég mér fast í setningu sem ég hafði stuttu áður lesið í einni fæðingarbókinni: „Enn hefur engin kona rifnað í tvennt og þú verður ekki sú fyrsta“. Óttalega kjánaleg lesning svona í huggulegheitum á þriðjudagskvöldi – en bráðnauðsynleg vitneskja þegar barnshöfuð virtist í raun vera að gera sitt besta til að rífa mig í tvennt. Þarna varð mér líka hugsað til nágrannanna sem mér þótti betra að láta vita af yfirvofandi heimafæðingu. Flestir myndu jú líklega hringja á lögreglu eða banka upp á til að aðstoða nágrannakonu sem öskraði af lífs- og sálarkröftum á einhvern í íbúðinni sinni að DRULLA SÉR ÚÚÚÚÚT!!! Loksins var höfuðið úti og annan eins létti hef ég aldrei áður fundið. Með höfðinu fylgdi handleggur sem reif mig illa. Takk sonur, þú átt rassskellinn inni.

Mun minna mál var að ýta búknum út og skyndilega var drengur í fangi mér. Önnur ljósan opnaði munninn til að róa okkur með að stundum tæki nýbura smá tíma að taka við sér – en í sömu andrá opnaði hann sjálfur munninn og gargaði hressilega í góða stund. Vildi sjá um það sjálfur að fullvissa foreldra sína um að í þetta skipti ættu þau alheilbrigt barn með toppeinkunn sem þyrfti ekki á vökudeild eins og stóra systir sem fæddist líflaus. Mömmuhjartað jafnar sig aldrei alveg á þeirri minningu að skilja við glænýja barnið sitt, svo þarna rættist minn æðsti draumur fyrir þessa fæðingu – barnið mitt færi ekki fet frá mér.

Ég naut þess þó ekki lengi að dást að gaurnum mínum því fljótt helltist yfir mig hrikalegur sársauki í rófubeininu. Það var þessi sársauki sem hafði gert síðustu fæðingu hvað erfiðasta, en í þessari höfðu bakverkir verið blessunarlega fjarri. Á sínum tíma var ég lengi að jafna mig í mjóbakinu eftir fæðinguna, og við að remba öðru barni út virðist hið skaddaða rófubein hafa fengið flashback aftur í tímann og laskast á ný. Eftir að fylgjan var fædd og Konni hafði skilið á milli var ég leidd inn í rúm. Við bakverkinn bættust nú við mjög harkalegir samdráttarverkir svo ég hélt áfram að garga af kvölum. Kræst! Á ekki fæðingu að vera lokið á þessum tímapunkti?? Ég fékk verkjalyf, bakstra og nálastungur við verkjunum og lagði drenginn á brjóst. Hann leitaði ákafur og þolinmóður þar til hann náði fyrsta sopanum. Þetta var enn önnur ný reynsla í bankann, þar sem litla vakan okkar hafði verið of örmagna fyrir brjóstagjöf og fengið næringu í sondu fyrstu vikuna sína.

Illa staðsetti handleggurinn hafði ekki farið vel með neðri partinn á mér og hófust ljósurnar nú handa við saumaskap á meðan snúður svaf sultuslakur í pabbafangi. Mínar afar vandvirku ljósmæður taka saumaskap alvarlega og eyddu næstum klukkutíma í að sauma mig saman. Rófubeinsverkurinn + samdráttarverkirnir + potið og stungurnar í sundurrifið klofið var aaaðeins of mikill sársauki fyrir eina litla konu sem fannst hún alveg eiga skilið smá breik eftir afrek næturinnar. En þá var allavega huggun í að horfa á fallega drenginn sinn á meðan. Á endanum urðu ljósmæðurnar að játa sig sigraðar. Rifan virtist vera af þriðju gráðu – svo slæm að skurðlæknir varð að laga hana. Þær tilkynntu okkur því að við yrðum að færa okkur á spítalann þar sem ég myndi gangast undir aðgerð. Eftir að hafa haldið aftur af tárunum í erfiðasta hjalla útvíkkunar, löngum rembingi og sársaukafullum saumaskap missti ég alveg kúlið og hágrét. Mér hafði tekist að fæða heima eins og mig dreymdi um en SAMT var spítali fram undan. Þvílík vonbrigði.

Við tókum því rólega um morguninn og ég átti ljúfa stund með monsa mínum áður en við lögðum af stað, og fljótt komst ég yfir þessi vonbrigði. Hann fékk mælingar og reyndist 14 merkur og 52 cm – hálfu kílói og 4 cm stærri en systir hans. Enn önnur skemmtileg fæðingarnýung var að geta gengið um og m.a.s. niður af þriðju hæð. Þrátt fyrir verki og rifur var ég ótrúlega hress, annað en eftir síðustu fæðingu þar sem ég varla stóð upp úr hjólastólnum fyrstu dagana. Hrafnhildur kvaddi okkur en Arney kom með okkur á spítalann.

Á LSH var dálítið kaos (búhú mig langar heim í kertaljósin!). Ég var færð á milli sjúkrastofa á fæðingarganginum, alls kyns fólk kallað til í að stilla sjúkrarúmið sem enginn kunni á, og þar sem við mættum akkúrat á vaktaskiptum tók tíma að finna mannskap í aðgerðina. Loks mætti læknir og aftur tók við kvalarfullt pot neðra. Í þetta sinn með glaðloft fyrir vitunum – sem gerði ekkert gagn en dempaði allavega ópin í mér. Læknirinn staðfesti þriðju gráðu rifu og skurðstofan var bókuð á hádegi. Ég þurfti að hemja grátkast nr. 2 þegar mér var sagt að ég yrði svæfð og myndi líklega liggja inni heila nótt eftir aðgerðina. Á skurðstofunni ákvað svæfingarlæknirinn hins vegar að gefa mér frekar keisara-mænudeyfingu. Ég var auðvitað hæstánægð með að sleppa svæfingunni en vissi samt varla hvort skyldi hlæja eða gráta við að heyra M-orðið. Í þetta skiptið hafði mér tekist að fæða án deyfingar en samt fékk ég fríggin mænudeyfinguna EFTIR að krakkinn var mættur og kominn í ullarsokka? Æ þetta líf sko.

Eftir hálftíma aðgerð hitti ég aftur nýbökuðu feðgana og öll lögðum við okkur á meðan deyfingin fór úr líkamanum. Hjúkka tilkynnti mér að ég mætti fara heim um leið og ég gæti pissað, svo ég hellti í mig mörgum lítrum til að komast heim sem fyrst. Kl. 17:30 keyrðum við heim í skínandi hreina íbúð og risa blómvönd eftir tiltekt foreldra minna – sem mættu svo stuttu seinna með langþráð sushi og hvítvín handa mér og auðvitað stóru systur sem fyrst nú fékk að vita að litli bróðir væri kominn út úr bumbunni. Það var heldur betur sæl stúlka sem dáðist að fallega bróður sínum, og sæl mamma sem horfði á börnin sín saman og fannst hún loks hafa lokið hringnum í fæðingarreynslu og grætt gömul sár. Engin horror fæðing og enginn aðskilnaður frá nýja barninu fyrir utan hálftíma á skurðstofunni. Fjölskyldan mín var heil og sameinuð. Skítt með það þó slatti af vöðvum hafi ekki verið heilir.