Þetta byrjaði allt aðfaranótt sunnudagsins 11. október. Daginn áður vorum við með tveggja ára afmælisveislu fyrir stelpuna okkar og mikið búið að vera í gangi. Ég var algerlega óundirbúin, spítalataskan tóm og barnafötin niðri í geymslu, enda var rétt rúm vika í settan dag, og ég ekki beint þekkt fyrir að vera sérstaklega tímanleg manneskja. Ég var líka handviss um að stelpan ætlaði fæðast 12. október þar sem það er afmælisdagur ömmunnar sem hún átti að heita í höfuðið á og þá var akkúrat vika í settan dag en systir hennar kom einmitt viku fyrir sinn setta dag. Þetta var allt útpælt og planað og sunnudagurinn 11. október átti bara að fara í slökun fyrir komandi átök og undirbúning í rólegheitunum.
Um nóttina var lítið sofið eins og vanalega, bumban var alls staðar fyrir og stefnumótin við klósettið voru endalaus. Kkukkan var orðin rúmlega 6 og ég var að fara að staulast enn eina ferðina upp í rúm, sem var bæði tímafrekt og vandasamt verkefni á þessu stigi meðgöngunnar, þegar gusan kom. Það gat nú varla verið að ég væri að pissa á mig svona nýbúin á klósettinu, en það var svosem orðið fátt við þessa óléttu sem gat komið mér á óvart. Ég vakti Sigga með þeim orðum að ég héldi að ég hefði verið að missa vatnið og hann rauk upp, hentist fram úr með eldri stelpuna og var horfinn á nóinu. Ég var ekki alveg að meðtaka þennan hamagang og rölti aftur inn á klósett til að athuga málið betur. Þá var klukkan um 6:20.
Rétt á eftir fékk ég svo fyrsta verk og næsti kom nánast alveg í kjölfarið. Verkirnir urðu svo fljótlega mjög sárir og komu með örstuttu millibili. Þá varð ég víst að viðurkenna að ég væri komin með hríðar.
Ég var strax algjörlega ófær um að hugsa skýrt, hljóp bara um og reyndi að finna til dót í töskuna á milli hríða. Á meðan stökk Siggi niður í geymslu að sækja kassana með barnafötunum og ég fór enn einu sinni á klósettið og þá var byrjað að blæða. Ég vissi þá að útvíkkunin væri að verða búin af því þannig var það í síðustu fæðingu. Þá voru kannski liðnar 15-20 mínútur frá því vatnið fór. Siggi var búinn að taka Sóleyju
til á methraða og var rokinn út í bíl með hana og ég greip einhver föt úr kassanum og henti í töskuna og ætlaði svo að hlaupa út en varð að leggjast niður því verkirnir voru svo miklir. Ég endaði á fjórum fótum og gat ómögulega staðið upp aftur. Í því kom Siggi upp, sá mig þarna á gólfinu og spurði hvort ég kæmist ekki út í bíl, ég náði að stynja upp neitun og að krakkinn væri bara að koma og hann hljóp þá aftur niður til að sækja Sóleyju, skutlaði henni inn og hringdi á spítalann. Sóley hljóp strax til mín, hágrátandi, og skildi ekkert hvað var í gangi, greip í hárið mitt og reyndi að toga mömmu sína upp. Ég reyndi eitthvað að hugga hana en gat varla talað þannig við vorum þarna bara organdi í kór. Ég heyrði útundan mér í Sigga að reyna að fá konuna á spítalanum til að skilja hvað væri að gerast og senda sjúkrabíl en það gekk mjög erfiðlega. Líkt og flestir Norðmenn sem við höfum átt samskipti við var kunnátta hennar í ensku á svipuðu leveli og grunnskólakrakka og hún var engan veginn að átta sig á aðstæðum. Bara sultuslök og sagði honum nú bara að fara með mig út í bíl og koma uppeftir, ekkert vera að flækja þetta neitt.
Þarna var ástandið orðið frekar klikkað, við öll gargandi af mismunandi ástæðum og kaosið algjört. Ég var farin að sjá fram á að þurfa að fæða barnið þarna fyrir framan dauðhræddu stelpuna mína og tilhugsunin var skelfileg. Þá skyndilega kom hlaupandi inn um svaladyrnar öldruð nágrannakona okkar, eins og ekkert væri eðlilegra, og þvílík himnasending! Hún benti á Sóleyju, greip hana í fangið og var svo horfin jafn fljótt og hún birtist. Ég man að ég hugsaði hvað væri nú vandræðalegt að hún sæji mig þarna á orginu liggjandi á fjórum fótum og held ég hafi sent henni aumkunarvert bros en annars höfðum við Siggi engan tíma til að pæla í þessu því nú var farið að sjást i kollinn. Siggi henti sér niður fyrir aftan mig, setti símann á speaker og gargaði að það sæist í höfuðið. Þá loks tók konan í símanum við sér og ákvað að senda sjúkrabíl og reyndi svo eitthvað að leiðbeina Sigga sem var nú kominn í ljósmóðurhlutverk.
Ég byrjaði að ýta á fullu og mér fannst taka heila eilífð að koma hausnum út þar sem hann stoppaði á kjálkanum og sat þar fastur og það var einsog ég væri um það bil að rifna í tvennt. Þeirri tilfinningu, þegar hausinn var hálfur kominn út og Siggi að brasa við að ná taki á honum, mun ég seint gleyma! Siggi náði svo að gera einhverja galdra og hausinn poppaði út í næsta rembing en þá sat hún föst á öxlunum. Ekkert gerðist sama hvað ég ýtti og á endanum var Siggi farinn að toga í hausinn af krafti og nokkrum ofurrembingum síðar skaust hún út. Ég heyrði smá tíst frá henni og andaði léttar, var svo uppgefin og fegin að hún væri komin út að ég hreyfði mig ekki og lá bara þarna áfram. Svo var ég farin að hugsa af hverju hún grenjaði ekki.
Ég hafði ekki hugmynd um hvað gekk á bakvið mig þar sem Siggi var skíthræddur að reyna að fá hana til að gráta sem virtist taka heila eilífð. Hann nuddaði hana alla og hristi og sló á bakið og hún var víst orðin helblá og það var ekki fyrren hann tróð fingrinum ofan í kokið á henni að hún fór að taka við sér. Þá hafði ég afrekað það að snúa mér á bakið og Siggi vafði hana inní bolinn sinn og rétti mér, settist svo við hliðina á mér alveg stjarfur og sagði ekki orð. Þar sat hann svo og ég liggjandi með hana á bringunni enn fasta við naflastrenginn þegar sjúkraliðarnir og ljósmæðurnar komu flæðandi inn um svaladyrnar, nokkrum mínútum síðar en óratíma að okkur fannst. Ljósmæðurnar skoðuðu mig og Siggi klippti á strenginn, ennþá í massívu sjokki en ég var nokkuð róleg yfir þessu öllu saman. Ég vissi einhvern veginn frá byrjun að þetta færi allt vel enda er maðurinn minn algjör klettur og það er fátt sem hann ræður ekki við. Ljósmæðurnar græjuðu mig og gengu frá fylgjunni, vöfðu barnið inn í ótal handklæði og við mæðgur vorum svo bornar út í sjúkrabíl og Siggi keyrði á eftir okkur upp á spítala.
Bryndís Lena fékk toppeinkunn af ljósmæðrunum og mældist 12 merkur eða 3100 grömm og 47,5 cm. Hún fæddist kl 6:55 samkvæmt ljósmóðurinni sem var í símanum á meðan á þessu stóð, og fæðingin tók því um hálftíma frá því eg missti vatnið. Siggi var skráður ljósmóðir á fæðingarspjaldið hennar og við vorum eflaust vinsælasta fjölskyldan á deildinni þennan dag. Ljósurnar báðust afsökurnar og sögðust aldrei hafa lent í slíku áður og þess vegna ekki trúað Sigga þegar hann hringdi og sent sjúkrabíl strax. Þær munu eflaust ekki gera þau mistök aftur. Ég var líka í toppstandi og rifnaði ekkert og Sigga var hrósað í hástert fyrir að hafa afgreitt þetta svona vel og honum var meira að segja boðið ljósmóðurstarf í góðu gamni. Hann afþakkaði þó pent enda situr þessi lífsreynsla þungt í honum og mun eflaust gera lengi. Sú stutta tók brjóstið um leið, var vær og góð og fullkomin og við mæðgur áttum þrjá notalega daga saman á spítalanum og fórum svo heim að hefja öll saman nýtt og spennandi líf sem fjögurra manna fjölskylda.
Næst mun ég flytja á spítalann mánuði fyrir settan dag, það er á hreinu!