Þessi yndislega skotta fæddist þann 18. nóvember í heimafæðingu, 4.120 gr og 54 cm. Áætlaður fæðingardagur var 7. nóvember, svo að ég var gengin 11 daga framyfir. Hún er okkar þriðja barn, fyrir eigum við stúlku fædda 13. nóvember 2007 á sjúkrahúsinu á Akureyri, og dreng fæddan 24. desember 2009, sem fæddist heima.
Ég veit ekki alveg hvað varð til þess á sínum tíma að ég valdi heimafæðingu, en þegar ég var ófrísk af mínu öðru barni 2009, þá kom einhvernveginn aldrei neitt annað til greina. Ég fór í mína fyrstu mæðraskoðun og þá ræddi ég þetta við ljósuna, að ég vildi heimafæðingu, en þá var ég ekki einu sinni búin að nefna það við manninn minn. Ég var bara búin að ákveða þetta! Sú heimafæðing gekk ótrúlega vel og tók aðeins 6 klst, eins og ég sagði þá fæðist hann á aðfangadag og þessi upplifun var bara dásamleg. Hann fæðist í fæðingarlaug rétt fyrir klukkan 6 á aðfangadagsmorgun, nánast við hliðina á jólatrénu. Andrúmsloftið var svo rólegt og afslappað, jólaljós og jólatónlist og ljósurnar að borða jólasmákökur og 2.ára systir hans horfði á. Svo 12 klst eftir að hann fæddist settist ég við matarborðið og borðaði jólamatinn með fjölskyldunni, dásamlegt!!
Svo að þegar ég vissi að ég væri ófrísk af þriðja barninu þá kom að sjálfsögðu ekkert annað til greina en önnur heimafæðing, og var maðurinn minn alveg sammála mér þar. Ég fór daginn áður (10 dagar framyfir) og lét hreyfa við belgnum (áááááiiiii!!!!!). Kom heim og var með einhvern seiðing restina af deginum en samt ótrúlega hress, fór í mjög langan göngutúr í brjáluðu veðri og kom svo heim og steikti 200 kleinur, og hugsaði svo með mér, jæææja þetta kemur í nótt. Áður en ég fór að sofa gekk ég frá heimilinu eins og ég væri að fara að fæða, setti myndavélar og videovélar í hleðslu til að hafa þær alveg pottþétt fullhlaðnar, ég bara vissi að þetta kæmi um nóttina þó ég væri ekki komin með neina verki. Klukkan 4 um nóttina vakna ég svo til að snúa mér, og hugsa „Djöfullinn!!! Þetta kemur þá ekki í dag fyrst ég er ekki komin með verki!!“ Ég ligg andvaka og maðurinn minn vaknar og við liggjum og spjöllum… svo klukkan 5 kemur fyrsti verkurinn. Ég var ekki alveg að trúa því að ég væri að fara í gang og sagði við manninn minn að þetta væri ekki neitt. Svo þegar ég var búin að vera með verki í klukkutíma og frekar stutt á milli þá gaf ég mig og sagði manninum mínum að vekja mömmu (sem var í heimsókn hjá okkur). Við fórum fram og stuttu seinna hringdi maðurinn minn í ljósuna. Hún spurði hvort hún ætti að koma strax og við sögðum henni að vera ekkert að stressa sig. 30 mín seinna hringdi hann aftur í hana og sagði henni að jú, hún mætti kannski alveg fara að koma, verkirnir voru orðnir mjög harðir. Svo þurfti að vekja börnin í skólann, þau voru mjög spennt að sjá að barnið væri að fara að fæðast en fannst líka pínu skrítið að sjá mömmu sína finna svona til. Verkirnir voru mjög fljótt mjög harðir, ég var á jóga bolta og bað ljósuna um nálar í bakið, en þær gerðu ekkert fyrir mig í þetta skiptið.
Um 8 leitið fór ég ofan í fæðingarlaugina. Þegar ég var komin ofan í laugina var ég komin með smá rembingsþörf en ekki mikla, svo að ég rembdist létt í hríðunum. Maðurinn var hliðina á mér allann tímann og mátti sko ekki fara frá mér, ég gat ekki hugsað mér það, var alltaf að hvetja mig áfram og ég fékk óspart að nota hendina hans til að kremja í hríðunum. Um 8.30 var rembingsþörfin orðin mjög mikil og ég var farin að rembast að krafti, og svo klukkan 8.40 fæddist stúlkan, ofan í lauginni. Við mæðgur lágum í lauginni í einhvern tíma á eftir, ég hreinlega tímdi ekki að fara uppúr og þurfa að láta hana frá mér, þó að ég lægi í blóðugri sundlaug, þá bara stoppaði tíminn og ég hefði getað hugsað mér að vera þarna ofaní í marga klukkutíma! En að lokum þurftum við að fara uppúr, og þegar ég stóð upp þá leið yfir mig! Það var mjög spes, ég vaknaði bara í blóðpolli í gólfinu haha! Ljósurnar mínar sögðu mér að það væri ekki óalgengt að það líði yfir konur eftir fæðingar, svo að þetta var ekkert til að hafa áhyggjur af.
Ég færði mig yfir í rúmið þar sem ég var skoðuð og jibbý! Enginn saumaskapur, það jafnast ekkert á við það! En þó að fæðingin hafi gengið eins og í sögu þá voru smá eftirmálar af fæðingunni. En legið náði ekki að draga sig nógu vel saman og ég missti mjög mikið blóð eftir að ég var komin uppí rúm, áætlað var að ég hefði misst um 2 lítra af blóði. Þess vegna var ég mjög slöpp eftir fæðinguna, mér var boðið daginn eftir þegar ég fór blóðtöku (Var þá með 70 í blóði, á að vera um 120 skilst mér) að fara í blóðgjöf en þrjóska ég vildi ekkert vera eitthvað að fara inná sjúkrahús og láta leggja mig inn! Þannig að ég er búin að vera að taka járntöflur og er öll að koma til! Einnig fékk ég einhverja sýkingu sem er ekki alveg vitað samt hvar hún var, en ég fékk síendurtekið hita og fór því inná sjúkrahús í skoðun og fór heim með sýklalyf. Var sagt að þegar maður missir svona mikið blóð að þá er meiri sýkingarhætta. En ég er búin að jafna mig á því!
Ok vá þetta átti svo sannarlega ekki að vera svona langt! Ætlaði að skrifa „smá“ fæðingarsögu en sýnist þetta enda í heilli ritgerð! En allavegana, dagarnir líða og stúlkan stækkar, finnst hún orðinn algjör risi þó það sé bara eins og að hún hafi fæðst í gær, já stundum vill maður bara geta stoppað tímann, þau stækka svo hratt! Ég er svo ótrúlega heppin að finnast meðgangan og fæðingin það allra skemmtilegasta í heiminum, en ég hef heyrt konur tala oft svo neikvætt um meðgönguna sína og fæðinguna en fyrir mér er þetta dásamleg upplifun sem því miður ekki allar konur fá að njóta. Ég er svo þakklát fyrir þessi 3 dásamlegu og heilbrigðu börn sem ég á, og það að hafa fengið að eiga þau öll á eðlilegan hátt. Nokkrum mínútum eftir að hún fæddist sagði ég að ég vildi sko alveg gera þetta strax aftur, ég held að það lýsi minni upplifun af fæðingu ansi vel.