Ég var komin 41 v + 6 daga þegar ég var sett af stað, ég hafði kviðið svolítið fyrir þessum degi þar sem ég bjóst ekki við að þurfa að fara í gangsetningu. Ég upplifði það sem pínu vonbrigði að líkaminn minn hafi ekki bara gert þetta sjálfur. Ég sem hafði átt frábæra meðgöngu, lítil sem engin ógleði, fékk enga grindargliðnun og leið almennt vel, en þar sem ég var ólétt af fyrsta barni hafði ég engan samanburð, en miðað við þær sögur sem ég hafði heyrt og lesið var ég heppin. Undir lok meðgöngunnar var ég þó kominn með mikinn þrýsting niður í lífbein og fann fyrir mikilli þreytu. Ég ákvað að hlusta á líkamann minn og hætti að vinna þegar ég var komin rúmar 36 vikur.
Fannst tíminn þó líða heldur hægt en ég notaði tímann til að prjóna, fara í jóga hjá Auði og undirbúa mig og dútla fyrir nýja heimilið, en við Eyvindur vorum nýlega búin að kaupa okkur íbúð sem við vorum að gera upp og markmiðið var að flytja inn áður en litli fæddist. Þannig vikurnar voru teknar í rólegheitum. Ég var mikið að dunda mér heima með mömmu þar sem hún var hætt að vinna. Var að prjóna vettlinga og trefil til að reyna að láta tímann líða.
Settur dagur var 2. febrúar en ég hafði það á tilfinningunni að hann myndi koma aðeins seinna en það, svona 6-7 febrúar. Sá dagur leið og ekkert gekk og eftir 40 -41 vikurnar var þetta farið að reyna heldur á andlegu hliðina þar sem hann hefði geta komið hvenær sem er. Ég reyndi þó að nýta tímann eins og ég gat og hvíla mig en ekkert gerðist, þannig ég var oft að skreppa í búðir og stússast eitthvað fyrir íbúðina eins og ég treysti mér til. Ég lét hreyfa við belgnum í 40+5 skoðun hjá ljósmóðurinni en það var ekki einu sinni hægt, fór í nálastungur, labbaði um Ikea og fleiri búðir, borðaði ananas en allt kom fyrir ekki. Ljósmóðirin pantaði svo tíma fyrir mig í gangsetningu til öryggis, en ég var frekar smeyk við að fara í gangsetningu og vildi helst fara sjálf af stað svo dagurinn var ákveðinn eins langt frá og hægt var.
Daginn fyrir gangsetningu fórum við Eyvindur í síðustu sundferðina og fórum í ísbíltúr og fengum okkur bragðaref hjá Huppu , það var frekar súrrealískt að hugsa til þess að þetta væri síðasti dagurinn sem við yrðum bara tvö. En það var mjög gott og eftirminnilegt að eiga svona stund saman.
Gangsetningardagurinn, 15. febrúar rann upp og vorum við mætt upp á landsspítala kl 8 um morguninn í monitor. Ég var mæld vel og vandlega, en þar sem blóðþrýstingurinn var orðinn nokkuð hár þá var ég send í blóðprufu. Ljósmóðirin mældi mig og var ég komin með 1 í útvíkkun og náði hún að hreyfa við belgnum. Ég fékk svo fyrstu töflu kl 10 og var send heim með spjald og átti að taka eina töflu á tveggja tíma fresti. Við stoppuðum í bakaríinu og fengum okkur morgunmat og ætluðum að taka því rólega.
Verkirnir urðu þó fljótt heldur verri og þegar ég kom heim gat ég varla setið. Ég fékk svo símtal frá spítalanum kl 13:30 um að niðurstöðurnar úr blóðprufunum sýndu að ég væri komin með byrjunareinkenni á meðgöngueitrun svo þau vildu fá mig upp á deild og átti ég að taka töflurnar hjá þeim. Það var pínu skrítið að hugsa til þess að ég myndi að öllum líkindum ekki fara aftur heim nema með barnið með mér. Mér fannst það þó líka ákveðinn léttir þar sem ég vissi að ég þyrfti ekki að vera að spá í tíma á milli samdrátta og ákveða hvenær tími væri kominn til að fara á spítalann. Þegar þarna var komið við sögu var ég nýbúin að taka 3 töflur og samdrættirnir voru búnir að versna talsvert. Við pökkuðum í rólegheitum í töskurnar og gat ég rétt svo staulast út í bíl og var bílferðin ekki þægileg. Þegar upp á deild var komið var kl um 14:30 og þá fékk ég fína stofu með baði. Það var settur á mig mónitor til að fylgjast með hjartslætti mínum og barnsins út af eitruninni og þurfti ég að vera með hann á mér allan tímann. Kl 15:30 voru vaktaskipti og fékk ég fínar ljósmæður og nema sem sáu mjög vel um mig, þær Margréti og Ingunni. Þar sem átti að reyna að hraða ferlinu aðeins út af eitruninni var stungið gat á belginn um kl 16 og fossaði vatnið út um allt í nokkrum skiptum. Þá var ég komin með 2-3 í útvíkkun. Kl 17 fór ég svo í baðið og var það mjög þægilegt. Hríðirnar urðu þó fljótt frekar harðar og var stutt á milli. Þá kynnti ljósmóðurneminn hún Ingunn mig fyrir glaðloftinu sem átti heldur betur eftir að vera besti vinur minn í þessarri fæðingu. Það komu tímabil þar sem mig langaði að fá mænudeyfingu vegna verkjanna en þá hefði ég þurft að fara upp úr baðinu og það vildi ég ekki, heldur vildi ég vera þar sem lengst þar sem verkirnir virtust dofna í baðinu. Ákvað ég því að taka stöðuna aftur eftir klukkutíma. Klukkan 18 var svo útvíkkunin könnuð aftur og var ég komin með 4 í útvíkkun. Verkirnir voru alveg orðnir rosa vondir en ég náði að anda með jógaönduninni sem ég lærði í jóganu hjá Auði í gegnum glaðloftsgrímuna og tókst mér að halda ró minni og góðum takti með því. Í eitt skipti losnaði þó gasið frá grímunni þegar ég var í miðri hríð og eina sem ég gat var að öskra GAS GAS, eins og ég væri komin í lögregluaðgerð í hruninu að spreyja táragasi.
Einnig var ég með jógamöntrurnar á í græjunum og er ég ekki frá því að það róaði mig. Jógaundirbúningurinn hjálpaði mér mjög vel Um 19 leytið fékk Eyvindur sér svo hamborgara í kvöldmat sem pabbi hans skutlaði til hans en ég hafði enga matarlyst, eina sem ég gat komið ofan í mig var gatorate og vatn. Mér fannst skrýtið að finna hamborgaralykt á meðan ég var að kveljast í baði, sem er reyndar frekar fyndið að hugsa til svona eftirá. Kl 20 var svo tekin staðan aftur og var ég komin með 8 í útvíkkun. Þá var eiginlega orðið of seint fyrir mænudeyfingu og ákvað ég að harka þetta af mér þar sem ferlið var búið að ganga svo vel. Það var því aðeins farið að hraða á ferlinu. Út af meðgöngueitruninni þá mátti ég ekki eiga í baðinu og voru það svolítil vonbrigði. Mér var hjálpað upp úr baðinu um kl 20:30 og um 21 leytið var einhver brún eftir, svo kom einhver rembingur og um 21:20 var ég komin með fulla útvíkkun. Mér fannst best að vera á fjórum fótum og var spítalarúmið ekki beint hannað til þess, ég náði því að liggja á hlið og með löppina upp Ég byrjaði að rembast. Það var enginn smá kraftur sem kom með þessum rembingi og öskraði ég með hverri hríð. Ljósmæðurnar sögðu mér þó að reyna að nota orkuna freka í að remba honum út í staðin fyrir að öskra og emja. Ég tók ráðleggingunum og einbeitti mér að því og þá fór þetta að rúlla. Eftir 3-4 rembinga kom höfuðið út og hann skaust svo út í næstu hríð í einu lagi kl 21:46. Stór og flottur strákur. 4252 gr og 52.5 sm og grét hann kröftuglega við fyrsta andardrátt. Mömmuhjartað fæddist á þessarri stundu. Ég fékk hann beint á bringuna og var ekki farið að líða á löngu fyrr en hann var farinn að sjúga brjóstið eins og hann hafi aldrei gert neitt annað.
Ég þurfti svo að fæða fylgjuna og gekk það ágætlega, en þar sem belgirnir urðu eftir þurfti að bíða svolítið eftir þeim sem er eitthvað sem ég hafði aldrei heyrt um. Þeir komu þó að lokum Hélt að fylgjan og belgirnir myndu koma út saman. Þarna var ég alveg orðin örmagna af þreytu og verkjum. Við þurftum svo að bíða eftir fæðingarlækni sem átti að meta hvort að þurfti að sauma. Allt í einu um 23:30 leytið fylltist stofan af fólki. Barnalæknateymi kom og skoðaði strákinn og þar sem hann var með stórt naflaslit var honum trillað á vökudeild ásamt pabba sínum og var haldið að hann þyrfti jafnvel að fara í aðgerð strax og fékk ég ekki að vita hvort að ég fengi að hafa hann hjá mér yfir nóttina. Ég var svo að bíða eftir að komast á skurðarborðið þar sem ég fékk 3b gráðu rifu og þurfti að fá litla mænudeyfingu. Þessi deyfing var mjög kærkomin eftir alla þjáninguna.
Í öllu þessu róti voru líka vaktaskipti og kvöddu ljósmæðurnar mig og allt í einu var ég ein eftir á stofunni með engan síma og alveg búin á því og hrædd um litla strákinn minn og tíminn leið mjög hægt. Eftir klukkutíma af saumaskap var mér svo trillað aftur inn og komu strákurinn og Eyvindur aftur til mín eftir stutta viðkomu á vökudeildinni. Hann var svo stór og flottur að hann þurfti ekkert að vera þar nema rétt í innskrift yfir nótt. Ég var mjög fegin að fá að hafa hann hjá mér. Þetta var algjörlega mögnuð lífsreynsla og frábær fæðing þrátt fyrir þessa gangsetningu og meðgöngueitrun og er ég fegin hvað allt gekk vel hjá okkur. Ég er mjög þakklát ljósmæðrum og læknum á landspítalanum fyrir að hafa hugsað svona vel um okkur litlu nýbökuðu fjölskylduna.
Margrét 30 ára, fyrsta barn, gangsetning.