Hypnofæðing Dagmar

Kæru konur – verðandi mæður.

Mig langar að deila með ykkur fæðingarsögunni minni af okkar öðru barni. Þessi fæðing var svo mögnuð upplifun og þess vegna er það skylda mín að miðla henni til ykkar í þeirri von um að þið finnið hvatningu og hugrekki til að takast á við þetta allra stærsta verkefni okkar kvenna – að koma barni í heiminn. Með fyrra barn gekk ég 14 daga framyfir settan dag og því sett í gang með öllum þeim ofsa og stjórnleysi sem því fylgir – mér fannst það erfitt. Núna þremur árum síðar var ég gengin 5 daga framyfir settan dag og aðeins nokkrir dagar í jól. Sökum yfirvofandi jólafrís þá var fæðingardeildin búin að bóka fyrir mig gangsetningu daginn fyrir gamlársdag. Allar frumur líkamans herptust saman við þá tilhugsun og ég þráði ekkert heitar en að þetta færi af stað af náttúrunnar hendi. Ég biðlaði til minnar yndislegu ljósmóður á fæðingardeildinni á Akranesi – Hafdísar Rúnarsdóttur að gefa mér nálastungur þennan fallega eftirmiðdag í desember. Ég hafði verið með samdrætti nánast alla meðgönguna og sérstaklega er leið á. Barnið var búið að skorða sig langt niður í grindina og ég var heldur betur tilbúin í þetta verkefni. Á báðum meðgöngum var ég í yogatímum hjá Auði Bjarnadóttur og hennar gyðjum og haföndunin var fyrir löngu orðinn hluti af sál minni og líkama. Mér hafði nýverið áskotnast bók um Hypnobirthing sem ég las í einum rykk en þar opnaðist mér alveg ný sýn og skilningur á fæðingarferlinu. Sérstaklega fannst mér áhugavert að lesa um sögu fæðinga í gengum árþúsundin. Það að setja okkur inn í sama mengi og dýrin og náttúruna hjálpaði mér að skilja grunnelementin sem þurfa að vera til staðar í fæðingu – friður og öryggi. Dýrin finna sér rólegan stað, eru yfirveguð og treysta því að að líkaminn stýri ferlinu sjálfur. Þau koma afkvæmum sínum í heiminn á hljóðlátan og yfirvegaðan hátt á þeim tíma sem líkaminn þarf í þetta verkefni. Í raun á það nákvæmlega sama við um okkur nema við mannfólkið höfum einnig það stóra verkefni að reyna að hafa stjórn á huganum – svo að hann taki ekki yfir. Mér tókst að tileinka mér þessar hugmyndir og öndunartækni að einhverju leyti en hvort ég gæti notfært mér í fæðingunni yrði að koma í ljós. Það er mikilvægt að vera algjörlega æðrulaus gagnvart fæðingarferlinu. Það fer eins og það fer.

Í nálastungunum leyfði ég ljósunni að skoða mig því ég var svo viss um að ég væri hægt og rólega byrjuð að opna fyrir krílinu. Sem var og rétt því ég var komin með 4 í útvíkkun þá þegar. Við maðurinn minn ákváðum að fara heim og borða kvöldmat með dóttur okkar og koma henni fyrir hjá ömmu og afa og bjuggumst svo við að fara aftur upp á skaga um nóttina. Ég var vissulega mjög spennt en á sama tíma pollróleg, því ég hafði einsett mér að halda ró og yfirvegun. Klukkan 19 fór ég að fá greinilega verki með samdráttunum. Ég tímasetti þá og þeir voru fljótlega orðnir taktfastir þannig að við settum tösku í bílinn og keyrðum aftur af stað á Akranes. Í hverri öldu notaði ég haföndunina. Því sárari verkur – því ýktari og kröftugri öndun. Svo gat ég hlegið og spjallað á milli og ég man hvað það var stórkostleg tilfinning að finna að ég réði við þetta! Ég var komin inn í eitthvað ferli sem ég varð strax hluti af – einbeitti mér að önduninni og fór eins mikið inn í hana og hægt er. Við komum upp á deild kl 20:30 og Hafdís sem var enn á vakt gerði baðið tilbúið fyrir mig. Ég rúllaði út yogadýnunni minni og á milli þess sem öldurnar riðu yfir settist ég á hækjur mér og vaggaði mér til hliðanna til þess að greikka leiðina niður fyrir krílið. Er aldan reið yfir lagðist ég út af og hvarf algjörlega inn í öndunina. EInhverjir þekkja eflaust hvernig það er að leika sér í sjónum í sólarlöndum í miklum öldum. Maður þarf að stinga sér inn í öldurnar og gefa eftir – leyfa öldunni að grípa sig og bíða eftir að yfirborðið róist. Þá kemst maður aftur upp á yfirborðið og bíður eftir þeirri næstu. Stundum kasta þær manni til undir yfirborðinu og þá er mikilvægt að gefa eftir og streitast ekki á móti heldur bíða eftir að yfirborðið róist. Því ef maður berst við ölduna þá finnur maður vanmátt sinn og getur auðveldlega orðið skelkaður, farið að ofanda og þá örmagnast maður fljótt… Nákvæmlega svona upplifði ég þetta fæðingarferli.

Smám saman stækkuðu öldurnar mínar og ég ákvað að fara í baðið. Ég fékk óstöðvandi sjálfta á tímabili sem eru viðbrögð líkamans við kraftinum í samdráttunum og andaði þá að mér glaðlofti nokkrum sinnum og sjálftinn stöðvaðist við það. Ofan í baðinu sat ég á hnjánum og hélt þessu ferðalagi mínu áfram í gegnum öldurnar. Á milli þeirra fékk ég alltaf stutt hlé til þess að opna augun og kyssa manninn minn og finna hvatninguna úr augum hans. Ég bað hann að þrýsta með fingrunum á þriðja augað er ég fór inn í öldurnar – það var kraftmikið og hjálpaði verulega. Það var eins og ég færi algjörlega inn í sjálfa mig þegar öldurnar riðu yfir, og ég einbeitti mér djúpt að eins hægri útöndun og ég réði við hverju sinni. Einbeiting og slökun er algjört lykilatriðið í fæðingu – að einbeita sér að önduninni, þá sérstaklega útönduninni. Við vorum öll í flæði og trausti yfir því að allt væri eins og það átti að vera. Enginn var að pæla í klukku eða tímanum á milli hríða, útvíkkun eða neinu slíku. Við vorum bara þarna saman í þessu verkefni. Smám saman ágerðust öldurnar, urðu stærri en samt var alltaf hlé á milli til þess að jafna mig og búa undir næstu. Á einhverjum tímapunkti þurfti ég að pissa og ljósan sagði mér bara að pissa í laugina ef ég vildi, til þess að trufla ekki slökunina og þetta flotta flæði sem ég var í. Svo fór ég að finna meiri og meiri þrýsting niður á opið og fann að það styttist í þetta. Ljósan skrapp fram að ná sér í kaffi og kom svo aftur og ég sagði henni að ég fyndi mjög aukinn þrýsting niður með hverri hríð. Hún stóð úti á gólfi með kaffibolla í hendinni og sagði við mig hlý og brosandi “þá máttu bara byrja að rembast elskan”. Örfáum sekúndum síðar kom þessi mikli þrýstingur sem ég andaði niður í af öllum kröftum – og viti menn kollurinn þrýstist út. Hafdís, sem átti alls ekki von á þessu frekar en ég, stökk til með hendurnar ofan í vatnið tilbúin að taka á móti. Ég fann eitthvað springa í vatninu og það reyndist vera belgurinn sem fram að þessu hafði verið órofinn. Ég sogaði allt loft til mín sem ég gat á næstu innöndun og á útönduninni komu axlir og svo kroppurinn. Barnið var fætt á fjórum mínútum í tveimur hríðum. Klukkan var 23:45. Ég settist í sætið í baðinu og fékk í fangið fullkomna stúlku dásamlega kraftmikla. Öll vorum við jafnhissa og skellihlægjandi yfir þessari ótrúlegu fæðingu. Með öndun, slökun og einbeitingu hafði mér tekist að leyfa líkamanum að koma barninu niður og svo þrýsta því út.

Það sem mér fannst merkilegast í hypnobirth fræðunum var að höfundur bókarinnar vill meina að hinn dæmigerði rembingur með tilheyrandi öskrum og djöfulgangi sé algjörlega röng hugsun, það sé í raun eitthvað sem hafi komið til með vestrænni sjúkrahúsmenningu. Við þurfum bara að anda – slaka og treysta og beina önduninni og orku niður á við. Líkaminn mun sjá um að þrýsta á hárréttum tímapunkti. Ég hafði lesið hypnobirth fæðingarsögur þar sem þessu er lýst en eftir fyrri reynslu átti ég bágt með að trúa að þetta væri virkilega hægt. En núna veit ég að þetta er mögulegt. Ég var róleg og yfirveguð allan tímann, fyrir utan eitt móment í kollhríðinni með miklum sársauka þar sem mér fannst ég í augnablik missa stjórn og rak upp vein og kastaði mér um hálsinn á eiginmanni mínum, en þetta augnablik var jafnskjótt liðið hjá því stúlkan var fædd. Ég fylgdi líkamanum og lét öndunina fylgja samdráttunum alveg þar til stúlkan fæddist. Daginn eftir var stysti dagur ársins, en jafnframt sá bjartasti síðustu mánaða. Fullt tungl, heiðskýrt og sjórinn spegilsléttur fyrir utan herbergisgluggan okkar. Stúlkan fékk nafnið Dagmar.

Ég var hátt uppi á hormónum eftir þessa mögnuðu fæðingu, og mun fljótari að jafna mig á allan hátt, heldur en ég var eftir fæðingu fyrsta barns. Legið dróst ótrúlega hratt saman – ég var dugleg að drekka hindberjalaufste fyrir og eftir fæðingu sem ég er viss um að hafi hjálpað. Þó svo að saumaskapurinn hafi verið andstyggilegur eftir báðar mínar fæðingar þá grær líkaminn á undraverðan hátt, bæði hratt og vel og áður en maður veit af þá er allt orðið heilt á ný. Það er mikið á okkur lagt en við getum þetta allar sem ein.

Gangi ykkur vel.

Birta