Litli gullmolinn minn sem reyndist vera lítil prinsessa kom í heiminn miðvikudaginn 3. ágúst kl. 14.34 eftir 41 vikna meðgöngu. Hún var 12,5 mörk, 51,5cm og höfuðmál 35 cm. Hún er fullkomin í alla staði.
Fæðingin gekk mjög vel og hratt fyrir sig en það er langur aðdragandi að henni enda var ég rúmlega tvo sólarhringa á spítalanum. Hlutirnir fóru ekki alveg eins og ég hafði ímyndað mér en ég er enga að síður mjög sátt við útkomuna.
Mér var búið að líða vel líkamlega og andlega á meðgöngunni en seinustu vikuna fór ég að fá hækkaðan blóðþrýsting og þurfti algjöra hvíld. Ég var orðin slöpp, þreytt og pirruð á biðinni. Um kvöldið mánudaginn 1.ágúst ákvað ég að reyna einhverja þrýstipunktanudd til að reyna að koma einhverju af stað. Um morguninn eftir byrjaði svo legvatnið að leka. Ég hringdi niður í Hreiður og sagði þeim frá þessu, þær ráðlögðu mér að leggja mig og slappa af, bíða eftir að verkir kæmu með þessu og svo kíkja niður til þeirra seinna um daginn. Ég hringdi í Axel sem var í vinnunni og bað hann um að koma heim. Síðan tók við mjög langt ferli og bið. Það var ekki fyrr en um 12 sem ég fór að finna samdrætti með verkjum en ekkert reglulegt en legvatnið hélt áfram að leka. Við fengum okkur að borða og ég reyndi að hvíla mig. Ég reyndi allt sem ég gat til að koma þessu af stað, göngutúrar, froskastellingin, geirvörtunudd. Um 7 leitið fórum við upp á deild í skoðun.
Ljosmóðirin sem tók á móti okkur vildi ganga úr skugga að þetta væri örugglega legvatn sem væri farið að leka. Ég sagði að það hlyti að vera legvatn, annars væri ég farin að pissa á mig. Eftir stutta skoðun var hún alveg sannfærð og athugaði útvíkkun í leiðinni. Hún náði að koma útvíkkun úr 1 í 4 því leghálsinn var svo þunnur og fullstyttur. Við vorum enn að vonast til að ég myndi nú malla sjálf af stað og ætlaði hún að fara að senda mig bara heim í rúmið en eftir að hafa mælt blóðþrýstinginn sem var orðin 160/110 vildu þau ekki senda mig heim heldur buðu mér að vera eftir. Ég mátti því ekki eiga í Hreiðrinu eins og ég var búin að vonast eftir en var þess í stað boðið að vera á fæðingarganginum þar sem ég þyrfti aukið eftirlit vegna blóðþrýstings. Ég fékk fínt herbergi þar með baði eins og ég hafi óskað.
Síðan tók við ennþá meiri bið. Ekkert var að gerast nema óreglulegir samdrættir og pínu verkjaseyðingur. Um 22 bauð ljósmóðirin mér belgjarof til að sjá hvort það myndi koma einhverju af stað. Ekkert gerðist nema auknir samdrættir og verkjaseyðingur í byrjun en þeir duttu svo aftur niður. Um vaktaskipti fór ég aðeins í göngu um sjúkrahúsið, upp og niður tröppurnar og reyndi nánast allt. Ákvað síðan að hætta að reyna og frekar að reyna að slaka á og hvíla mig. Ég setti Grace diskinn í tækið og náði að slaka heilmikið á. Upp undir morgun tjáði ljósmóðirin mér að það þyrfti líklegast að gefa mér hríðaraukandi lyf til að koma ferlinu á stað þar sem það langt var síðan legvatnið byrjaði að leka. Morgunvaktin tók við og fékk ég þennan yndislega ljósmóðurnema sem heitir Edda og útskýrði hún vel fyrir mér að þó að ég þyrfti lyf til að koma mér af stað þýddi það ekki að upplifun mín ætti að verða einhver önnur á fæðingunni. Hún var búin að lesa óskalistann minn vel og vissi að ég vildi gera þetta á náttúrulegan hátt. Útvíkkunin eftir nóttina var ennþá 4-5 enda var ekki margt sem skeði.
Dreypið fór upp um 9 leitið og þá fór allt að gerast. Verkirnir og samdrættir jukust jafnt og þétt, urðu sárari og sárari. Ég byrjaði að ganga um gólf, sitja á bolta og halla mér yfir rúmið. Eg reyndi að vera eins mikið á hreyfingu og ég gat enda fannst mér óþægilegt að sitja kyrr. Ég var samt svoldið bundin þar sem ég var með nál og dreypið í æð og með mónítor (þráðlausan samt) um kviðinn til að fylgjast með hjartslættinum. Ég andaði mig í gegnum verkina,notaði allt það sem ég lærði í jóganu og reyndi að slaka vel á. Edda minnti mig líka á það að spyrnast ekki á móti verknum heldur leyfa hverri hríð að vinna sína vinnu. Það var erfitt en mér tókst það. Ég hugsaði bara að hver hríð færði mér nær barninu mínu og að þetta væru verkir með tilgang. Ég missti pínu tímaskyn eftir þetta og geri mér enga grein fyrir því hve hlutirnir gengu hratt fyrir sig. Það var um 12leitið þá spurði ég hvort ég mætti fara í baðið, hún tjékkaði fyrst á útvíkkuninni og hún var orðin 6 og leghálsinn orðinn tilbúinn. Það var himneskt að komast í baðið og fann ég hvernig ég náði að slaka á í hverjum einasta vöðva líkamans. Ég kom mér þannig fyrir með höfuðið á brúninni og lét mig fljóta í vatninu. Axel stóð fyrir aftan mig allan tímann og hélt í hendurnar á mér. Mér fannst ótrúlegt öryggi að hafa hann þarna og hafði ótrúlega mikla þörf að hafa hann nálægðan mér. Í erfiðustu hríðunum fannst mér best að leggja höfuðið á mér upp í hálsakotið á honum og finna lyktina af honum. Það var svona cirka um 13 leitið sem verkirnir voru að vera óbærilegir og ég missti svoldið stjórninni á mér, ég fór að kalla að ég gæti þetta ekki lengur og vildi bara hætta við.
Edda heyrði mig öskra hástöfum en minnti mig á að panikka ekki, anda rólega, hvatti mig áfram og sagði að þetta gæti ég alveg, ég væri búin að standa mig það vel hingað til. Ég get svarið það að verkirnir voru orðnir það slæmir að ef mér hefði verið boðin mænudeyfing á þessum tímapunkti hefði ég þáð með þökkum. En ég var harðákveðin á óskalistanum að ég vildi hvorki fá deyfinguna eða vera spurð, og var ég mjög þakklát að þau hlustuðu ekki á vitleysuna í mér. Þá spurði Axel mig hvort ég vildi ekki prófa glaðloftið. Fyrst fannst mér það óþægilegt en ég prófaði aftur og vá það bjargaði alveg lífi mínu. Náði að einblína vel á öndunina og talandi ekki um áhrifin sem loftið hafði á mig, mér leið eins og ég hafi verið búin að drekka nokkra bjóra þarna. Ég náði liggur við að dotta á milli hverja hríða og mér leið þá mjög vel. Axel stóð ennþá fyrir aftan mig og var með kalda þvottapoka. Það er svo fyndið að þrátt fyrir að ég væri líklegast komin með 8-9 í útvíkkun þá var ég alltaf að segja einhverja brandara við Axel og ljósuna. Síðan fóru verkirnir að breytast og ég fann þennan svakalega þrýsting niður í rass. Sagði ljósunni að ég héldi að rassinn á mér væri að springa og hún sagði þetta eðlilegt. Ég þurfti að hafa mig alla við að reyna að slaka á þarna niðri til að létta af þessum þrýsting en þetta var ótrúlega óþægilegt. Síðan fékk ég smátt og smátt rembingsþörf. Held að þetta sé undarlegasta og óþægilegasta tilfinning sem ég hef fundið. Í átökunum byrjaði ég að kasta upp og var glaðloftið tekið af mér. Edda spurði mig hvort ég vildi ekki koma upp úr til að athuga útvíkkunina, henni fyndist það betra en við gætum líka gert það ofan í baðkarinu. Nei ég var alveg tilbúin að fara upp úr. Á þessum tímapunkti breyttust verkirnir yfir í algjöra rembingsþörf og get ég sagt að ég var mjög fegin, þá vissi ég líka að þetta væri farið að styttast. Önnur ljósmóðir var þá líka komin inn.
Ég fór upp í rúm og athugaði hún með útvíkkun og hún var orðin 10. Ég vildi bara fá að liggja hálfupprétt í rúminu því þá náði ég að slaka vel á milli hríða. Edda var mjög góður leiðbeinandi og útskýrði hvernig best væri fyrir mig að anda og rembast. Ég reyndi að einblína alla orku mína niður. Hún bað Axel um að koma og hjálpa þannig að hann stóð í eldlínunni og í hverri hríð setti ég fæturnar á mér upp á mjaðmirnar á honum og henni. Er rosa stolt af honum að standa þarna og sjá allt saman, þó ég skil hann vel að hann hafi litið undan á tímum. Rembingurinn tók rúmlega 45 mín. Ég fékk að finna kollinn þegar hann var á leiðinni út og það var mjög undarlegt. Í seinasta rembingnum hélt Edda vel um spöngina á mér og dróg litla barnið út. Það var líka ótrúlega sárt en ég fékk litla barnið mitt strax í fangið og það fór að gráta. Ég fór líka að gráta og var strax búin að gleyma öllu. Þetta var það fallegasta sem ég hafði séð og ég var svo stolt að hafa komið þessu litla barni í heiminn. Síðan var það sem við höfðum beðið eftir var að athuga hvort við hefðum fengið litla prinsessu eða prins. Við kíktum undir handklæðið og jú viti menn þetta var lítil dama. Þarna sátum við öll þrjú, nýja litla fjölskyldan. Fylgjan fæddist nokkrum mínútum seinna og við tók smá saumaskapur. Spöngin var alveg heil en það þurfti nokkur spor í barmana.
Þetta er án efa það erfiðasta sem ég hef gert en ég er enga síður mjög stolt. Mér fannst mjög gott að fá hrós og hvatningu í gegnum fæðinguna enda held ég að annars hefði ég ekki getað gert þetta. Er líka þakklát fyrir að hafa fengið að hafa Eddu hjá mér því hún fór alveg eftir mínum óskum og reyndi að gera þetta að minni stund. Þrátt fyrir að fá ekki alveg það sem ég hefði ímyndað mér hefði ég ekki viljað breyta neinu og er mjög sátt með niðurstöðuna. Verðlaunin eru líka þau bestu í heimi. Þrátt fyrir að vera síþreytt, með slappan, slitin og sigin maga, saumuð saman í klofinu og með brjóstin úti allan daginn þá er þetta best í heimi enda á ég núna fallegustu stelpu í heimi.