Fæðing Ástrósar

Ég var búin að vera með væga túrverki í nokkra daga sem ég tók samt lítið mark á. Þeir voru að ágerast örlítið og þó að ég vonaði mikið að þeir væru að hafa einhver áhrif var ég samt róleg yfir þessu öllu. Á miðvikudeginum fyrir hitti ég Kristbjörgu og bað hana um að skoða mig og var ég þá komin með 3 í útvíkkun. Á laugardagskvöldið vorum við öll heima hjá foreldrum mínum að passa húsið þeirra því þau fóru til Akureyrar á frumsýningu. Ég og Sigurjón horfðum á Matrix og slökuðum vel á.

Við fórum svo bara að sofa og ég vaknaði um kl. 3 við það að Elísabet þurfti aðstoð á klósettinu. Svo ég fer og aðstoða hana en eftir það tek ég eftir að verkirnir höfðu aukist töluvert og ég var farin að finna greinilegt upphaf og endi. Svo ég leggst aftur uppí rúm og reyni að sofna en tekst það ekki svo ég ákveð að taka tímann á verkjunum. Þá voru svona 2-4 mínútur á milli. Klukkan 3:40 ákveð ég svo að fara á fætur og fara á klósettið. Ég sest á klósettið og pissa og svo kemur önnur alveg svaka gusa og þá fer vatnið. Verkirnir aukast lítið við það en ég þorði ekki annað en að ræsa út liðið. Svo ég vakti Sigurjón og sagði honum að við þyrftum að fara heim, hann hringdi í foreldra sína sem komu til að vera hjá Elísabetu og ég hringdi í Kristbjörgu ljósmóður.
Um leið og Siggi og Lísa komu þá brunuðum við heim á Hvammabraut og þau voru verkirnir orðnir ansi slæmir.

Við vorum komin heim rétt eftir 4 og Kristbjörg kom svo um hálf 5. Sigurjón fór í að pumpa upp laugina og Kristbjörg fór í símann að reyna að ræsa út nema sem ætlaði að vera með í fæðingunni.

Á meðan hélt ég mig inná baði því vatnið lak í hverri hríð og þá var best að vera ofaná handklæði. Um leið og laugin var svo tilbúin, kl. 5:30, fór ég ofaní. Mér fannst það mikill léttir að komast ofaní vatnið og auðveldaði allar hreyfingar. Mér fannst best að vera á hnjánum og hallaði mér að laugarbrúninni. Þar sat Sigurjón og hélt í hendurnar á mér þegar ég þurfti á því að halda. Fljótlega komu 2 hríðar og þeim fylgdi smávegis rembingtilfinning en mér fannst ég ekki alveg tilbúin að rembast. En svo í þriðju hríðinni fann ég að ég var alveg tilbúin. 
Eftir svona 4 hríðar fann ég vel fyrir kollinum.

Þá fannst mér mjög gott að halda sjálf við kollinn og gat þá stjórnað stefnunni, en mér fannst best að ýta höfðinu aðeins framávið. Svona 3 rembingum seinna var hún svo mætt í fangið á mér á slaginu kl. 6. Hún var þakin fósturfitu og alveg risastór. Af einskærri þrjósku og óþolinmæði þá átti ég það aðeins til að halda áfram að rembast þó hríðin væri búin, en Kristbjörg var fljót að sjá það og fékk mig til að hlusta betur á líkamann. Fylgjan kom svo 15 mínútum seinna. Með fylgjunni blæddi aðeins meira en Kristbjörg hefði viljað, en samt bara örlítið meira en þykir eðlilegt. Það var samt frekar óhugnalegt því vatnið í lauginni varð alveg eldrautt.

Það var mjög skrýtið að fara uppúr lauginni því ég var búin að vera næstum hreyfingarlaus á hnjánum í svo langan tíma að ég var komin með náladofa og svo fannst mér allar hreyfingar svo erfiðar og ég öll svo þung svona á “þurru landi”. Við fórum svo öll þrjú saman inní rúm og kúrðum á meðan ljósurnar sáu um að ganga frá öllu.

Hún var svo vigtuð og mæld og var hún 4390 gr, 17,5 merkur og 50 cm. Heilu kílói þyngri en Elísabet. Hún fæddist með einhvern blett, sem lítur út eins og mar, á síðunni, en Kristbjörg hafði litlar áhyggjur og vildi bara fylgjast með þessu.

Ég rifnaði örlítið en þurfti ekkert að sauma.

Fæðingin er skráð 2 tímar og 10 mínútur frá því að vatnið fór.

Siggi og Lísa komu svo í hádeginu með Elísabetu sem var mjög spennt að hitta litlu systur sína og virðist vera alveg fædd í hlutverk stóru systur.

Fæðingin var fullkomin í alla staði og væri alveg til í að upplifa aðra svona fæðingu ef við ákveðum að bæta öðru við. Nema kannski að ég myndi vilja vera heima þegar ég fer af stað.

Fæðing Óskars

Ég var ólétt að mínu fyrsta barni og við stefndum á heimafæðingu. Meðgangan gekk vel og ég var heilsuhraust og leið vel allan tímann. Ég notaði tímann til að undirbúa mig vel. Ég las allar bækur um fæðingar sem ég komst í, horfði á bíómyndir um fæðingar, og mætti á öll námskeiðin sem í boði voru. Fór meira að segja á tvö brjóstagjafanámskeið með eiginmanninn í eftirdragi 🙂 Ég mætti líka í hvern einasta jóga tíma í næstum því 6 mánuði og lokahnykkurinn var svo hypnobirthing námskeið hjá Kristbjörgu ljósmóður. Ég var því orðin afar tilbúin þegar stóri dagurinn fór að nálgast.

Ég hafði það reyndar á tilfinningunni alla meðgönguna að ég myndi ganga fram yfir. Gerði eiginlega ráð fyrir því. Mætti t.d. í síðasta planaða hypnobirthing tímann þegar ég var komin 5 daga fram yfir. Þegar ég var komin rúma viku fram yfir þurfti Arney heimafæðingarljósmóðirin mín að byrja að ræða gangsetningu og tímabókanir í monitor upp á spítala, það er venjan. Að hafa gangsetninguna hangandi yfir mér síðustu dagana var afar erfitt því ég hafði eytt öllum tíma mínum í að undirbúa mig fyrir heimafæðingu og af því ég var búin að lesa mér svona mikið til þá vissi ég líka að tölfræðin segir að gangsetning auki líkur á alls konar vandræðum. Þessa síðustu viku viðurkenni ég því að mér varð í fyrsta skipti órótt á meðgöngunni og grét þungum tárum yfir því að eiga svo ekki að fá að upplifa fæðinguna eins og mig langaði og hafði stefnt að. Arney kom reglulega til mín í mæðraskoðun þessa síðustu daga og það sést í mæðraskránni minni hvað blóðþrýstingurinn hækkaði þessa daga. Merkilegt nokk þá lækkaði hann aftur þegar Arney hughreysti mig og sagði að hún myndi gera allt sem hún gæti fyrir mig og hún hefði ekki enn misst eina einustu konu í gangsetningu sem hafði viljað fæða heima. Ég var líka sett á laugardegi og Arney sagði að ég gæti vel afþakkað gangsetningu fram yfir helgi því konur eru ekki gangsettar nema á virkum dögum 🙂 Ég hafði aldrei áhyggjur af barninu mínu þó meðgangan væri orðin þetta löng, ég vissi einhvern veginn að því liði vel.

Ég reyndi samt ALLT sem átti hugsanlega að geta komið fæðingu af stað og veit ekkert hvort eitthvað af því virkaði.

Á þriðjudeginum fékk ég svakalega úthreinsun. Þetta voru svo ofsaleg iðrahljóð, að á milli klósettferða vissi ég ekki alveg hvort ég ætti að hlæja eða gráta. En það gerðist ekkert meira í framhaldi af því.

Ég mætti svo í síðasta meðgöngujógatímann minn á fimmtudeginum, gengin 41 viku og 5 daga. Ég átti bókað í monitor upp á spítala daginn eftir og vissi að barnið yrði að fæðast núna á allra næstu dögum. Þetta var yndislegur jógatími og það kom mér á óvart hvað mér leið enn vel í líkamanum, gengin næstum fullar 42 vikur. Eftir tímann kom ein ykkar til mín og sagði falleg orð við mig, orð sem ég man varla í dag hver voru, en ég þurfti svo að heyra ákkurat þá. Takk fyrir það. Um kvöldið var ég að fá nokkra samdrætti, eins og undanfarna daga. Ég fann engin óþægindi í líkamanum þegar þeir komu, vissi bara að þeir voru þarna því bumban mín varð svo hörð. Í hvert skipti sem ég varð vör við samdrátt strauk maðurinn minn mér yfir magann, það hafði orðið að venju hjá okkur á síðastliðnum vikum.

Um kvöldið horfðum við á Birth as we know it þar sem konur fæddu börn bara syndandi í hafinu með höfrungum og eitthvað álíka yndislegt meðan ég fékk nudd og strokur frá manninum mínum. Svo fórum við að sofa. Ég vaknaði rétt upp úr 1 eftir miðnætti og þurfti á klósettið. Þegar ég var að leggjast aftur upp í rúm þá heyri ég smell og hoppa fram úr því ég held fyrst að þetta séu meiri iðrahljóð. Ég næ ekki að taka nema nokkur skref áleiðis á klósettið þegar ég finn heita gusu milli læranna. “Gestur, vatnið er farið”, segi ég við sofandi eiginmanninn. Gestur hringir í Arneyju ljósmóður meðan ég finn eitthvað út úr því hvað ég á gera við sjálfa mig og þessa bleytu. Arney kemur og athugar hvort barnið sé ekki örugglega vel skorðað sem það og var. Arney segir okkur að reyna að sofa meira, það sé líklegast ekkert að fara að gerast bráðlega og kveður í bili. Ég set hypnobirthing slökunina mína í gang og við leggjumst saman upp í sófa. Eiginmaðurinn byrjar fljótlega að dotta og ég slæ til hans, finnst hann kannski einum of afslappaður og auk þess voru hljóðin í honum að trufla mig. Eftir á segir hann mér að ég hafi hlustað á slökunina að minnsta kosti fjórum sinnum.

Ég man næst eftir mér hálfliggjandi uppi í rúmi með stóran kodda bak við mig. Það komu nokkrar öldur og ég einbeitti mér 100% að önduninni. Öndunin sem ég lærði á hypnobirthing námskeiðinu hentaði mér best þarna en hún er mjög svipuð hafönduninni. Í hápunkti öldunnar kipptist ég samt alltaf við, sama hversu djúpt ég andaði. Þegar aldan var byrjuð að fjara út þá fann ég endorfín flæða niður eftir líkamanum og það var yndisleg tilfinning. Ég man mig hlakkaði til endorfín-rússins í lok hverrar öldu. Ég opnaði held ég aldrei augun, leit ekkert á klukku og hugsaði enga meðvitaða hugsun. Ég held ég hafi verið hálfsofandi.

Næst þegar ég man eftir mér þá er ég nakin, nema í baðslopp mannsins míns, á fjórum fótum á stofugólfinu með undirlag undir mér. Mig grunar að ég hafi verið að koma af klósettinu. “Gestur, það blæðir”, segi ég við sofandi eiginmanninn. Hann hoppar ringlaður fram úr og bregður eflaust aðeins þegar hann sér blóð á undirlaginu. Hann hringir aftur í Arneyju en hún virðist ekkert alltof viss um að eitthvað sé farið að gerast hjá okkur. Vill samt koma fyrst það er blæðing. Þarna byrja ég að rugga mjöðmunum og í raun öllum líkamanum með hverri öldu og stynja djúpt. Ég vissi ekki af hverju það blæddi en ég hafði samt engar áhyggjur og leyfði öldunum að koma og fara eins og þær vildu. Ég held að jákvæða staðhæfingin: “I will calmly meet whatever turn my birthing may take” hafi hljómað í undirmeðvitundinni. Þegar Arney kemur segir hún: “Hér er allt að gerast!” en ég hugsa að hún sé nú örugglega að misskilja þetta og oftúlka þessar háværu stunur mínar. Ég hafði nefnilega alltaf heyrt að það myndi ekkert fara fram hjá mér þegar ég færi af stað og ég var ennþá að bíða eftir því augnabliki. Útaf blæðingunni gerði Arney innri skoðun og ég var komin með rúma 8 í útvíkkun. Blæðingin var líklegast frá leghálsinum því hann var að opna sig svo hratt. Við þessar yfirlýsingar átta ég mig loks á því að kannski sé ég komin í fæðingu núna.

Tímaskyn mitt var ekkert en seinna komst ég að því að klukkan var hálffimm um nóttina þegar Gestur hringdi í seinna skiptið og þegar Arney mætti voru 3-4 mínútur á milli. Gestur hafði tekið tímann án þess að láta mig vita.

Ég varð lítið vör við það sem var að gerast í kringum mig á þessum tíma. Veit t.d. bara að Arney er þarna því ég heyri hana tala, ég leit aldrei á hana held ég. Ég man svo eftir að hafa heyrt í henni í símanum að hringja í Kristbjörgu ljósmóður og biðja hana að koma og aðstoða. Ég man eftir að hafa heyrt: “Viltu koma og aðstoða í fæðingu sem er samt að verða búin?” Er að verða búin?, hugsa ég, hvað meinar hún, þessi fæðing var að byrja rétt áðan! Gestur og Arney byrja að blása í laugina í snarhasti. Ég man hvað mér líkaði rafmagnspumpan vel því það voru svona drunur í henni og það var þægilegt að stynja með þessum drunum. Þegar laugin er komin upp á mitt stofugólfið áttar einhver sig samt á því að barnið verði eflaust komið í heiminn áður en laugin verði orðin full af vatni. Einhver reynir að spyrja mig hvort mér sé sama eða hvort ég vilji samt að þau láti renna í laugina. Þetta var of flókin spurning til að ég gæti svarað henni 🙂

Arney hvetur mig til að reyna að fara á klósettið og pissa. Ég fer en get alls ekki pissað. Er líka svo hrædd um að aldan komi meðan ég sit á klósettinu en ég vil taka á móti henni á fjórum fótum. Ég opna baðhurðina, gef einhverja skipun um að fá dýnu á gólfið beint fyrir framan hurðina og fæ ósk mína uppfyllta. Gruna að þar hafi eiginmaðurinn verið að verki og áralöng reynsla hans í að átta sig á óskýrum óskum mínum og löngunum hafi þarna borið mikinn ávöxt. Áður en ég læt mig hrynja á dýnuna sé ég Kristbjörgu brosa til mín. Hún var semsagt mætt á svæðið.

Ég hef afar litla stjórn á líkamanum á þessum tímapunkti. Ég gat til dæmis ekki pissað í klósettið en þegar ég lá þarna á dýnunni þá pissaði líkaminn í bindið sem ég var svo heppilega með í buxunum. Ég hafði enga stjórn á þessu. Ég reyndi að láta einhvern vita að mér hefði tekist að pissa. Kannski skildi mig enginn.

Svo kom þessi svokallaða rembingsþörf skyndilega með einni öldu. Ég hafði lesið ógrynni af fæðingarsögum og þar með lýsingum á þessum rembing en ég vissi fyrst ekkert hvað var að gerast. Kannski var mín upplifun eitthvað öðruvísi en eftir að hafa upplifað þetta sjálfri finnst mér rembingsþörf mjög slæmt orð yfir þetta fyrirbæri. Þetta var engin ‘þörf’, svona eins og þegar maður þarf að klóra sér eða þarf að kúka. Þess í stað byrjaði líkaminn bara að æla barninu út. Þetta var í alvörunni alveg eins og að liggja yfir klósettskálinni með ælupest, nema það var verið að æla niður en ekki upp. Ég upplifði meira að segja sömu kippina í líkamanum. Ég myndi lýsa minni upplifun sem ósjálfráðu niðurkasti, miklu frekar en rembingsþörf.

Smátt og smátt öðlaðist ég svo stjórn á ákafanum og þetta varð minna krampakennt. Ég lét samt líkamann alfarið um að ýta barninu út, ég rembdist ekki neitt sjálf. Það eina sem ég gerði var að slaka á og fylgja eftir. Ég vissi ekki hvort mér myndi takast það fyrir fram því þegar maður heyrir um fæðingar eða sér atriði í sjónvarpinu þá er þetta alltaf svaka hasar og átök. Í hypnobirthing bókinni stendur að konur í dái hafi eignast börn án þess að nokkur hafi tekið eftir eða þurft að aðstoða og sú setning seldi mér svolítið þá hugmynd um að líkaminn væri fær um þetta sjálfur, og ég þyrfti ekki að láta hvetja mig áfram og telja upp á 10 og verða rauð í framan við að ýta svona eins og maður sér í sjónvarpinu. Mér leið líka best þegar ég var sem minnst að skipta mér af því sem var að gerast.

Til að gera langa sögu stutta þá held ég að ég hafi verið að ýta barninu út í 2 og hálfa klukkustund á fjórum fótum í sófanum. Aðrar stellingar virkuðu ekki. Þegar á leið byrjaði ég að halla mér yfir arminn á sófanum með hrúgu af púðum undir. Ég fékk góða hvíld milli hríða. Ég drakk kókosvatn gegnum rör, hlustaði á Grace diskinn og fékk kaldan þvottaklút á ennið. Ég man að ég sá sólina gægjast inn undan gluggatjöldunum og fannst það afar skrýtið því ég hélt það væri mið nótt. Arney segir á einum tímapunkti að ég geti örugglega fundið kollinn og ég prófa að þreifa fyrir honum. Það var ótrúlegt að finna fyrir mjúkum kollinum rétt fyrir innan spöngina; að snerta barnið sitt í fyrsta skipti.

Erfiðustu mínúturnar voru þegar höfuðið var að koma út. Þrjú skref áfram með hverri hríð, tvö skref til baka í hvíldinni. Ég passaði mig að drífa þetta ekki áfram og ýtti eins lítið og ég gat með. Þetta tók þó furðanlega fljótt af og það var ÓLÝSANLEGUR léttir þegar höfuðið var allt fætt og þrýstingurinn næstum hvarf. Axlirnar og líkaminn allur rann út í næstu hríð, Arney losaði í snöggheitum strenginn sem var tvívafinn um hálsinn og rétti mér svo barnið mitt upp milli fóta mér. Hann var sleipur og kaldur og ég tók hann í fangið. Tíu fingur og tíu tær. Þetta var fullkominn strákur sem öskraði hressilega.

Við foreldrarnir kysstumst og hlógum og dáðumst að litla kraftaverkinu okkar. Mér fannst þetta allt saman svo ótrúlegt og óraunverulegt. Hann fór svo strax á brjóst og tók vel. Fylgjan kom svo ekki fyrr en rúmum klukkutíma síðar eftir að það var búið að skilja á milli og þeir feðgar komnir upp í rúm að kúra. Ég slóst þá í hópinn og við kúrðum saman, öll fjölskyldan, í rúminu okkar. Spöngin var heil og þetta hafði ekki tekið nema rétt rúma 7 tíma frá því ég missti vatnið.

Ég held að það fyrsta sem ég hafi sagt við ljósmæðurnar eftir að ég fékk strákinn minn í fangið var: Þetta var bara eiginlega ekkert vont.

Það er þrennt sem ég þakka hvað mest fyrir hversu vel gekk. Fyrst er það undirbúningurinn en vegna hans vissi ég hvers ég mætti vænta og fátt sem kom mér á óvart. Ég öðlaðist einnig traust og trú á því að fæðing væri náttúrulegur og eðlilegur atburður og að líkaminn vissi alveg hvað hann væri að gera. Ég þakka einnig heilaleysinu og því hvernig ég náði að slökkva á meðvituðum hugsunum svo þær væru ekki að trufla framgang fæðingarinnar. Mig langar einnig að gerast svo djörf að hvetja ykkur til að sleppa því líka að taka tímann á hríðunum. Vatnið sýður ekki ef þú starir á pottinn. Fáðu fæðingarfélagann til að fylgjast með ef þetta skiptir þig máli. Að lokum: taktu þér tímann sem þú þarft til að ýta barninu út. Það er örugglega ekkert sem liggur á. Það er nefnilega tvenns konar tími í heiminum. Það eru dagarnir og klukkustundirnar sem við mælum á klukkunni og svo er það tíminn sem það tekur ferskjuna að þroskast á trénu.