Hvar er mandarínan?

Ég var sett 1. desember. Meðgangan gekk vel og ég var bókstaflega dansandi hress alveg fram yfir fertugustu viku. Fór á djammið eftir settan dag og dansaði á barnum fram á nótt í þeirri von um að fara af stað. Fór ekki af stað og þegar ég vaknaði og fann engar hreyfingar panikkaði ég. Ég gat ekki vakið soninn með að pota í bumbuna, vakti Adda með kökkinn í hálsinum og við brunuðum á spítalann í þögn. Við sáum ekki fram úr þessu. Ég hélt að ég hefði gert of mikið og barnið hefði ekki höndlað það og sjálfshatrið var að byrja að malla í mestu hræðslu sem ég hef upplifað. Til allrar hamingju var sonurinn bara steinsofandi með dúndrandi hjartslátt í mónitornum. Ég hætti að dansa.

Þegar ég var gengin sex daga fram yfir hreyfði ljósmóðirin mín við belgnum án þess að ég hafi verið búin að ákveða mig hvort við ættum að gera það. Hún ætlaði að skoða mig og svo myndum við ákveða en svo bara potaði hún í þegar hún var að skoða. Mér fannst svo frekt að vera að draga son minn í heiminn sem hann var kannski ekki tilbúinn í. Ég vildi að hann kæmi þegar hann væri tilbúinn. Ég geri mér grein fyrir því núna að ég var í ruglinu og að það þarf að ná í börn sem ætla sér að mæta svo seint að það stofni þeim í hættu. Þannig að ég fyrirgaf ljósunni þegar ég var búin að skæla þetta út.

Þann 10. desember mættum við svo upp á fæðingargang í gangsetningu kl. 8:45. Ég þurfti smá æðruleysi til að sætta mig við að ekki gæti ég átt á Hreiðrinu. Við hittum Ingu ljósmóðurnema og hún spurði hvort ég vildi bað sem ég játaði áköf. Leiðir hún okkur ekki bara inn í stofu 5 með stærsta baði spítalans og ég gleymdi öllu sem heitir Hreiður á stundinni. Svo kemur í ljós að ég er komin með 6 í útvíkkun og ég send í labbitúr um spítalann. Addi minn var soldið stressaður og eiginlega bara úrvinda þannig að ég sendi hann að leggja sig og fór í labbitúr með huggulega tónlist í eyrunum. Þess má geta að ég gat ekki labbað áfram í samdráttunum og stóð kyrr og hélt um bumbuna og alltaf stoppaði einhver starfsmaður spítalans og spurði hvort mig vantaði aðstoð. Það fannst mér fallegt. Þegar ég kom til baka eftir að hafa villst nokkrum sinnum var ég ennþá bara með sex í útvíkkun og þá var ákveðið að sprengja belginn.

Það var gerti kl. 12:30 og ég fann ekkert fyrir því og ákvað að borða hádegismatinn minn sem var hveitikímssamloka og tvær mandarínur. Ég náði að borða samlokuna á milli samdrátta meðan ég sat á rúminu og vatnið drippaði niður á gólf. Svo stóð ég upp og í samdráttunum þurfti ég að hrista mig og dansa…ég bað Adda um að setja danslistann á fóninn. Danssporin voru ekki fögur…svona eins og tveggja ára barn að hossa sér frekar. Þegar ég gat klifraði ég svo ofan í pottinn og juggaði mér fram og aftur og borðaði eina mandarínu milli samdrátta. Ég verð nefnilega að klára matinn minn.

Hríðarnar urðu svolítið sterkar á þessum tímapunkti en þetta var ennþá bara soldið vont. Ég var í froskastöðunni, ruggaði mér og tók haföndunina eins og mér væri borgað fyrir það. Ljósan sagði að ég væri ýkt góð í þessu. Mér fannst það líka. Þegar dansinn í baðinu varð mér um megn dró ég Adda ofan í bað og klemmdi hann á mér grindina og það sló rosalega á sársaukann. Hann klemmdi með höndum og svo fótum til skiptis og þetta var líka hörkupúl fyrir hann. Ég bað um glaðloft en það hafði engin áhrif og pirraði mig bara. Þær sögðu mér þá að það hlyti að vera eitthvað bilað. Ég var tvo tíma í baðinu og seinni klukkutímann var ég með fingurinn á höfði sonarins og þvílíkt með augun á verðlaununum þegar ég andaði hann nær og nær og nær.

Klukkan 14:30 fór ég upp úr og var þá komin með tíu í útvíkkun. Ég lá á bakinu meðan þær voru að mæla útvíkkunina og það var ógeðslega vont. Ég hélt í Adda með einni og einhvern þríhyrning í lausu lofti með hinni og þetta var svo vont að ég hristist öll en ég man það bara því ég man að sjá handfangið, þríhyrninginn á fleygiferð með mér. Djöfull er vont að vera á bakinu!!! Ég fór þá á hnén og hallaði mér fram á púða og fékk rembingsþörfina. Addi sagði mér að rembast og ég öskraði á hann að ég mætti ekkert rembast…það væri ekki kominn tími. Ég var náttúrlega ekki búin að vera í sólahring og hélt þetta ætti að verða miklu sársaukafyllra áður en ég mætti rembast. Ljósan segir mér þá að ef ég þarf að rembast þá er kominn tími. Sársaukinn varð allt öðruvísi einhvernveginn. Í svona tvær sekúndur eftir hverja hríð var ég alveg verkjalaus og svolítið svona skringilega hress eitthvað…mjög skrýtið. Ekkert gerðist í hálftíma að mér fannst nema það að englarnir flugu yfir okkur í hverri hríð. Ég eyddi öllum mínum kröftum í rembinginn og þögnin í stofunni okkar var alger meðan ég varð öll eldrauð á litinn. Þessu tók ég náttúrlega ekki eftir fyrr en ég sá myndbandið sem við tókum upp en Adda datt allt í einu í hug að stilla bara símanum upp á einni hillunni og ég er honum rosalega þakklát fyrir það. Á myndbandinu sést semsagt framan í mig, bumban og brjóstin síðasta kortér fæðingarinnar…Ótrúlega gaman að horfa á þetta kraftaverk eftirá.

En já…eftir smástund í þessari stöðu langaði mig að leggja mig og fór virkilega að spá af hverju ég væri ekki á verkjalyfjum en það hafði einhvernveginn farið framhjá mér í allri þessari haföndun. Eftir hálftíma báðu ljósurnar mig um að fara á bakið og ég þverneitaði en þá vildu þær fá mig á hliðina og halda undir hnésbótina meðan ég remdist. Þarna var þetta orðið rosa vont og ég hristist öll og skalf og emjaði eitthvað um þyngdaraflið og að ég vildi standa og að mig sveið en svo kom hríð og ég í fyrsta skiptið báðu þær mig um að purra og það sem ég purrrrrraði. Ég var eins og fjórir hestar í kapppurri og eftir purrið æpti ég um leiðbeiningar og hvað ég ætti að gera og spurði hvað væri að gerast…ég var oggu lost þarna í nokkrar sekúndur og hvæsti á þær þegar þær buðu mér að finna kollinn. Ég hafði ekkert tíma í það!!! Um leið og þær segja mér að rembast eftir purrið poppar herforinginn út mér til mikillar furðu eftir tæpa þriggja tíma fæðingu eða kl.15:19. Ég var svo hissa og fór ekkert að skæla heldur horfði bara á hann og spurði hvar mandarínan mín væri. Eftir að hafa dáðst að honum fékk Addi hann meðan ég kláraði mandarínurnar og var saumuð saman en ég rifnaði soldið þar sem þetta gekk svo fljótt yfir og það var greinilega þessi sviði sem var að trufla mig undir það síðasta. Mér fannst ýkt pirrandi að bíða í klukkutíma meðan þær saumuðu mig og fannst þetta óþægilegt auk þess sem deyfingin virkaði ekki á einum staðnum og ég fann alltaf fyrir nálinni þar. Á meðan var Arnþórsson í fanginu á föður sínum og kúkaði feitt í sængina án þess að nokkur tæki eftir því.

Við fengum svo að vera í fjölskylduherbergi í Hreiðrinu um nóttina og um leið og ég hlustaði á aðra konu eignast barn gerði ég mér grein fyrir hvers ég væri mögnug. Ég grét af stolti yfir sjálfri mér og þessu djásni við hlið mér í gegnum fæðingu ókunnrar konu í næsta herbergi. Stundum þarf maður bara tíma til að átta sig á hlutunum.
Stelpur…var einhver af ykkur að eignast barn í Hreiðrinu um 02:30 þann 11. Des? Ef svo er…takk!

Foringinn er fullkominn. Hann heyrir og sér, er með tíu fingur og tær, englahvítt hár og eitt Pétursspor. Hann fæddist 15 merkur og 52 sentimetrar og augljóslega frekar þungar augabrúnir. Við erum viss um að hann sé snillingur og þessar fyrstu vikur með honum eru búnar að vera mesta rússíbanareið lífs míns.

Heimafæðing yndislegu dömunnar minnar 5.2.2014

Formáli

Þegar ég fékk jákvætt þungunarpróf var ég orðin ákveðin, heimafæðing skyldi það verða. Fyndið að segja frá því að heimafæðingin var löngu ákveðin áður en við ákváðum að fara reyna við næsta barn. Ég hafði hitt Kristbjörgu ljósmóður á seinustu meðgöngu en hún hafði verið að leysa af á heilsugæslunni og man að mér fannst hún mjög indæl. Hafði ég samband við hana um 16. viku og hafði hún áhuga á að taka á móti. Maðurinn minn var alls ekki mótfallinn heimafæðingu, hann hafði meira áhyggjur af hlutum eins og við myndum trufla nágrannanna eða eyðileggja parketið. Eftir stutt spjall við Kristbjörgu var hann líka alveg heillaður af þessum áformum og var mjög gott að hafa hans stuðning í gegnum ferlið sérstaklega þar sem margir í kringum okkur voru ekki eins sannfærðir. Ég fann líka hvað ég náði vel saman við Kristbjörgu og heillaðist af hennar nálgun á meðgöngu og fæðingu sem náttúrulegt ferli sem á að grípa sem minnst inn í, konan gerir þetta alveg sjálf og líkaminn alveg fær um að fæða barnið í heiminn. Ákvað því strax á 16. viku að fara eingöngu í mæðraskoðanir til Kristbjargar til að tengjast og kynnast henni ennþá betur.

Meðgangan gekk mjög vel. Ég var dugleg að mæta í jóga og sund. Fannst það skipta miklu máli að komast út úr húsi öðru hvoru og eiga bara tíma með mér og ófædda barninu. Það átti til með að gleymast í amstri dagsins í fullri vinnu, með eina 2 ára orkubolta og heimili.

Fæðingin sjálf

Settur dagur var 1. febrúar, hann kom og fór án þess að eitthvað gerðist. Kristbjörg kom og kíkti á mig um kvöldið 4. febrúar. Þá var blóðþrýstingurinn búinn að fara hækkandi og fannst prótein í þvaginu. Annars leið mér mjög vel. Sama gerðist á seinustu meðgöngu en hún ætlaði að ráðleggja sig við lækni daginn eftir og ég þyrfti líklegast að fara niður á kvennadeild í monitor. Þetta kvöld varð ég alveg eyðilögð, þarna var ég handviss um að heimafæðing væri ekki í boði fyrir mig og ég myndi enda í gagnsetningu upp á sjúkrahúsi. Ég talaði heillengi við krílið mitt og bað það að fara koma í heiminn þar sem mamman væri aðeins að verða veik. Ég lofaði fullt af knúsum og mjólk í nýja heiminum.

Ég vakna rétt fyrir kl. 6 morguninn eftir þann 5. febrúar með slæma verk. Hélt fyrst að ég væri bara að fá í magann en verkurinn leið hjá og ég náði að sofna. Hálftíma seinna vakna ég upp við sama verk og fór fljótlega að átta mig á því að það væri kannski eitthvað farið að gerast. Vildi samt ekki gera mér neinar vonir, hélt áfram að kúra upp í rúmi, en verkirnir komu og fóru á uþb 15 mín fresti, missterkir. Lét kallinn minn vita að ég grunaði eitthvað og hann sleppti að fara í vinnuna þennan morguninn. Sendi líka sms til Kristbjörgu og sagði henni að það væri kannski eitthvað að gerast og ég átti að láta vita ef þetta myndi aukast. Sendum stóru stelpuna síðan bara í leikskólann en hún var 2,5 árs á þessum tíma.

Verkirnir héldu áfram að vera óreglulegir, og missterkir. Datt einu sinni niður í meira en 40 mín og þá hélt ég að öll von væri úti. Tók samt smá göngutúr með kallinum og eftir hann fór meira að gerast. Gengum meðal annars framhjá leikskólanum þar sem stelpan okkar er og sáum hana leika úti. Kallinn fór í leiðangur að kaupa mat og drykki, birgðir fyrir komandi átök. Fljótlega eftir að hann kom aftur voru verkirnir að verða ansi öflugir og hafði ég misst alla matarlyst. Kallinn byrjaði að undirbúa “hreiðrið” okkar heima, blés upp laugina, setti teppi yfir gluggana og færði til húsgöng. Ég kveikti á kertum og var orðið mjög kósý í stofunni okkar. Kveiktum svo á gamanmynd (Men in Black) og knúsuðum hvort annað. Það var rétt fyrir 12 sem hríðarnar fóru að verða reglulegar og sterkar, 5­7 mín á milli og ég þurfti að anda mig vel í gegnum þá. Fór líka að blæða frá leghálsinu sem er víst bara merki um að hann væri að undirbúa sig og að opnast. Sendi annað sms á Kristbjörgu og hún sagði mér bara að láta mig vita hvenær við vildum fá hana. Við slökktum á sjónvarpinu, kveiktum á Grace disknum og settum myndasýningu í sjónvarpið með myndum af eldri dóttur okkar nýfæddri, svona til að gefa mér innblástur og aukin kraft því þetta var markmiðið, litla barnið okkar.

Mér fannst best í hríðunum að standa yfir skeknum í stofunni og halla mér örlítið fram, Axel stóð fyrir aftan mig og nuddaði mjóbakið með hnefunum eða puttum. Þarna kom nuddkennsla sér vel í jóganum. Í lok hverja hríða hallaði ég mér upp að honum og kyssti hann. Já ég veit, ógeðslega væmna ég, bara hafði rosalega mikla þörf fyrir ást, snertingu og umhyggju. Rúmum 30 mín eftir að ég sendi sms­ið fóru hríðarnar að koma á 3­4 mín fresti og fóru að vera ennþá erfiðari og fór að finna þrýsting niður á við. Sendi þá strax sms og bað hana að koma. Hún kom rétt eftir 13. Hún sá strax að ég væri í fæðingu og ég komst í laugina. Það var himneskt.

Ég byrjaði að halla mér fram með höfuð og hendur á bakkanum og hné við botninn og fann vel hvernig kollurinn færðist neðar í hverri hríð. Eftir nokkur skipti fór ég að fá svo mikinn þrýsting niður í mjóbak að ég gat ekki lengur verið í þessari stellingu og ákvað að fara yfir á bakið og hvíldi höfuðið bakkanum. Þannig náði ég að slaka vel á og fljóta í vatninu. Þarna fór aðeins að lengjast á milli hríða og vill Kristbjörg meina að vatnið hafði verið aðeins of heitt en mér fannst það fínt, gaf mér betri hvíld á milli hríða. Fór síðan að finna kunnuglegan þrýsting niður á við og vissi að þetta færi að klárast. Ég þurfti að nota allan minn kraft til að slaka á þarna niðri til að leyfa hríðunum að gera sitt. Undir lokin fannst mér æðislegt að stynja í hríðunum, þá náði ég að slaka ennþá betur á.

Rembingsþörfin kom smátt og smátt. Kristbjörg sagði mér bara að hlusta á líkamann, ef ég þyrfti að rembast þá myndi ég bara rembast. Hún athugaði aldrei útvíkkunina. Fann hvernig hríðarnar breyttust, og var mikill léttir. Eins og seinast fannst mér rembingurinn mun auðveldari en útvíkkunin. Ákvað til að auðvelda allt að fara aftur í sömu stellingu og ég byrjaði í, því þannig náði ég að opna grindina vel og fann strax að það virkaði. Þannig náði ég líka að halda vel í hendurnar á kallinum mínum og gat kysst hann og knúsað eins og ég vildi. Byrjaði að rembast um 3 leitið og finnst mér alltaf jafn ótrúlegt að finna kollinn fara neðar og neðar. Ég passaði mig að um leið og ég fór að finna fyrir sviða, hægði ég á rembingnum og kollurinn fór aftur inn. Eftir 20 mín af rembing eða kl. 15:20 kom loksins kollurinn. Ótrúlegt að segja þá var það eina skiptið í fæðingunni sem ég missti stjórn á mér og öskraði en vá það var alveg ótrúlegt að þetta væri búið. Var ekki að átta mig að þetta væri búið og ég heyri Kristbjörgu segja fyrir aftan mig, “Mamma ég er komin út, ég þarf einhvern til að taka mig upp” en þá var barnið komið allt út og ég tók það sjálf upp úr vatninu. Væmna ég fór strax að hágráta enda yndislegasta augnablik í heiminum. Litla gullið var mjög rólegt en það andaði alveg strax, og grét stuttu seinna. Við kíktum í pakkann en við vissum ekki kynið á meðgöngunni og sáum strax að við höfðum eignast aðra litla stelpu. Þegar litlan var búin að átta sig á þessum nýja heim fór hún sjálf strax á brjóstið og hefur verið þar síðan. Klárlega besti staðurinn í heiminum.

Síðan vorum við bara í rólegheitum í lauginni og fór upp þegar ég var tilbúin. Fylgjan var ennþá ófædd enda fannst Kristbjörgu alveg óþarfi að koma henni út, hún kæmi út þegar hún væri tilbúin. Ég fór upp í mitt eigið rúm með dömuna og við litla fjölskyldan fórum að kynnast. Á meðan gengu Kristbjörg og ljósmóðurneminn sem hafði verið viðstaddur frá stofunni. Þegar ég fór fram þá var ekki að sjá að þarna hefði verið fæðing. Rúmlega 1,5 klst eftir fæðinguna kom fylgjan og það þurfti ekkert að sauma. Stelpan var vigtuð og mæld, 13 merkur og 51,5 cm. Algjörlega fullkomin.

Eftirmáli

Ég vissi hreinlega ekki að það væri hægt að eiga draumafæðingu. Þessi reynsla mín er gjörólík þeirri fyrri og það er tvennt ólíkt að eiga rólega heimafæðingu þar sem líkaminn fer sjálfur af stað heldur en að þurfa hríðaraukandi lyf til að koma ferlinu af stað eins og ég lenti í seinast. Mér fannst dásamlegt að geta kynnst eingöngu einni ljósmóður í gegnum allt ferlið, sem þekkir mann og óskir. Ég er óendanlega þakklát að hafa tekið þá ákvörðun að eiga heima og vera í mínu umhverfi þar sem ég er á heimavelli. Maðurinn minn er líka sammála því. Þetta var yndisleg upplifun frá byrjun og til enda og svíf ég á bleiku skýi þessa dagana. Lífið er sannlegar dásamlegt.

Fæðing Viktors

Ég hafði ekki sagt neinum settan dag og af því við fjölskyldan vorum í sumarfríi var ég næstum hætt að fylgjast með dögunum sem liðu hver af öðrum. Það var því engin pressa. Mér leið vel og vissi að ekki þýddi að miða of mikið við dagatalið, seinast hafði ég gengið 41 viku og 6 daga.

Við Kristbjörg ljósmóðir vorum báðar afslappaðar og miðuðum hálft í hvoru við að ég gengi vel og lengi með, eins og í fyrra skiptið.

Ég vaknaði á fallegum miðvikudegi, gengin 40 vikur og 3 daga. Mágkona mín kom og sótti mig undir hádegið og við fórum saman í jógatíma til Auðar. Ég ákvað að skella mér á töfradýnuna í horninu, mér fannst það einhvern veginn viðeigandi í þetta skiptið. Ég tók orð Söru jógakennara um að við skyldum hlusta á líkamann bókstaflega og lagðist snemma undir teppið í slökun og naut þess sem ég vissi að myndi verða einn af mínum síðustu tímum í meðgöngujóga.

Eftir hádegið fórum við litla fjölskyldan í búðarferð, keyptum auka lak á hjónarúmið og bleyjupakka fyrir nýbura. Planið var svo að baka hafrakex eftir að minn 2 ára færi í háttinn um kvöldið. Það varð lítið úr bakstrinum því ég var svo þreytt í mjóbakinu upp úr klukkan 7 að ég treysti mér varla til að standa. Ég lagðist því bara upp í sófa og fór að horfa á sjónvarpið meðan eiginmaðurinn straujaði skyrtur og ungbarnarúmföt.

Rétt upp úr kl 10 um kvöldið fann ég sting niður og fannst ég heyra smell. Í nokkrar mínútur þorði ég ekki að hreyfa mig og sagði manninum mínum að þetta hefði nú verið eitthvað undarlegur stingur. Það var svo ekki fyrr en ég stóð upp úr sófanum sem ég fann vatnið leka. Maðurinn minn stökk og náði í handklæði og rétti mér svo síma til að hringja í Kristbjörgu. Seinast hafði fæðingin líka byrjað með því að vatnið fór, ég hafði búið mig undir að núna yrði þetta öðruvísi og að reglulegar bylgjur myndu segja mér að ég væri komin af stað. Mér var því nokkuð brugðið. Kristbjörg kom, allt leit vel út og litla krílið loks skorðað.

Ég fór upp í rúm til að reyna að hvílast, því ég bjóst við að fljótlega færi allt að gerast, þannig var það síðast. Ég hlustaði á Hypnobirthing slökunina og valin lög af playlistanum. Ég náði að dotta smá. Hægt og rólega fóru bylgjurnar að gera vart við sig og ég tók brosandi á móti þeim með djúpri öndun. Á einhverjum tímapunkti fann ég að bylgjurnar voru orðnar of sterkar til að eg gæti tekið á móti þeim útaf liggjandi og fór á fjóra fætur. Um svipað leyti fór ég að hnippa í sofandi eiginmanninn, hann svaf í gegnum stunurnar frá mér. Hann ræsti Kristbjörgu í annað sinn, lagði hitapoka á mjóbakið sem var enn jafn þreytt og gaf mér fiðrildanudd (e. light touch massage). Ég tók aldrei tímann á milli hríða, hafði augun lokuð og lét mér líða vel í eigi heimi.

Þegar Kristbjörg kom bauð hún mér að fara í laugina sem ég þáði. Á leið minni inn í stofu vissi ég að ég myndi ganga fram hjá eldhúsklukkunni en mér fannst skipta miklu máli að vita ekki hvað klukkan væri. Ég vissi að það myndi ekki hafa góð áhrif á mig að komast að því hvort langt eða stutt væri síðan vatnið fór, annað hvort myndi ég upplifa að fæðingin væri að ganga hratt fyrir sig sem myndi gera mig órólega eða að ég upplifði að ég væri búin að vera lengi í fæðingu og myndi þá meðvitað fara að þreytast eða vorkenna sjálfri mér. Ég vissi semsagt ekkert á þessarri stundu hvort ég hefði legið uppi í rúmi í eina klukkustund eða sex. Tímaleysið hafði þjónað mér vel í síðustu fæðingu og ég vildi að það gerði það líka núna.

Vatnið var notalegt en það var ég að prófa í fyrsta skipti. Ég man ég hugsaði þegar ég fór ofan í laugina að þegar ég færi upp úr þá myndi barnið vera fætt og þessarri meðgöngu lokið. Mér fannst það að vissu leyti leiðinlegt því ég hafði notið mín á meðgöngunni. Ég dúaði og vaggaði í vatninu í bylgjunum og reyndi að nýta mér þyngdarleysið. Ég var einnig í dágóða stund að finna þægilegustu stellinguna, átti í einhverjum vandræðum með hvernig ég vildi hafa hnén meðan ég hallaði mér yfir brúnina á lauginni og var því á smá iði. Mér finnst eins og fljótlega eftir að ég fór ofan í laugina að það væri kominn þrýstingur niður í toppunum á bylgjunum og Kristbjörg hafði orð á því. Ég leyfði líkamanum að stjórna og ýtti ekki með. Mig grunar að Kristbjörgu hafi eitthvað verið farið að lengja eftir því að eitthvað meira gerðist og bað mig að snúa mér við svo hún gæti skoðað leghálsinn. Hún sagði að allt væri mjúkt en það væri brún á leghálsinum. Fyrir mér þýddi þetta að rembingurinn væri ekki tímabær og frekar að trufla, ég þyrfti að einbeita mér að því að opna betur. Ég ákvað að prófa að fara á klósettið en gat ekkert pissað. Mér til mikils léttis duttu bylgjurnar niður meðan ég var á klósettinu, það kom svona eins og pása. Ég heyrði að strákurinn minn var vaknaður og var að koma niður. Hann var mjög glaður þegar hann sá mig koma út af klósettinu enda hafði hann komið að mömmu og pabbarúmi auðu og vissi ekki alveg hvað var í gangi. Einhver reyndi að útskýra fyrir honum að mamma væri upptekin meðan ég fékk aðstoð við að komast aftur ofan í laugina. Að mamma væri í sundlaug inni í miðri stofu vakti sko heldur betur áhuga en hann skynjaði samt að það væri eitthvað sérstakt í gangi, hélt ró sinni og strauk mér nokkrum sinnum áður en hann var lokkaður inn í eldhús með ABT mjólk. Amma hans kom svo innan fárra mínútna og sótti hann.

Fljótlega fór allt af stað aftur. Ég ímyndaði mér að leghálsinn væri eins og lítil gúmmíteygja og að hún stækkaði og það teygðist á henni í hverri bylgju. Tilfinningin í líkamanum var einhvern veginn þannig. Ef ég fann að bylgjan var sterk fór ég að fnæsa eins og hestur til að hemja rembinginn. Ég vildi ekki rembast því mér fannst rembingurinn þreyta mig. Ég reyndi líka að vagga mjöðmunum, dúa í vatninu, hreyfa fæturna og vera á einhvers konar hækjum, það virtist hjálpa mér að vera á smá hreyfingu. Þetta var samt stutt stund, fæðingarskýrslan segir 10 mínútur. Skyndilega fann ég svo barnið bara næstum detta niður fæðingarveginn í einni hríð og kollinn þrýsta á spöngina. Síðast hafði ég verið lengi að mjaka barninu neðar og neðar og mér fannst þetta því vera að ganga vel og örugglega fyrir sig, þakkaði fyrir í hljóði og sagði ,,kollur’’ við manninn minn og Kristbjörgu.

Ég leyfði líkamanum að stjórna ferðinni í kollhríðunum, einbeitti mér að önduninni og sagði sjálfri mér að taka mér þann tíma sem ég þyrfti, hægt og ljúft myndi verða þægilegast. Ég tengdist barninu mjög vel þegar ég fann svona vel fyrir kollinum. Alltaf þegar ég upplifði að það gæti ekki teygst meira á mér kom næsta hríð og afsannaði það. ,,I am big’’ eins og Ina May segir. Að lokum fæddist kollurinn og svo allt barnið í næstu bylgju, fæðingarskýrslan segir að þetta hafi tekið 30 mínútur. Ég sneri mér við í lauginni, tók barnið mitt upp og í fangið. Þetta var strákur.

Ég fæddi fylgjuna í sófanum hálftíma seinna, á sama tíma og ég lagði drenginn minn á brjóst í fyrsta skipti. Spöngin var heil. Ég bað um að stóri strákurinn minn fengi að koma og hann mætti galvaskur og glaður og fannst afar spennandi að sjá þetta litla barn drekka mjólk hjá mömmu sinni. Pabbinn klippti svo á naflastrenginn og mamma og litla kríli sofnuðu vært í sófanum.

Fæðingarsaga Ronju – {óvænt spítalafæðing}

Formáli

Frá því ég pissaði á prikið (og reyndar alveg frá því ponsan mín var ennþá bara hugmynd) var stefnan sett á heimafæðingu. Ég hafði lengi átt erfitt með að staðsetja sjálfa mig innan þeirrar hefðar að eiga heilbrigða fæðingu inni á sjúkrastofnun, líkt og um sjúkdóm eða slys væri að ræða. Við Konni höfðum því snemma samband við heimafæðingaljósmæðurnar Arney og Hrafnhildi, sem voru aldeilis til í að vera með okkur í fæðingunni. Ég fann mér aðrar konur í svipuðum pælingum að spjalla við, drakk í mig sögur af fæðingum, kynnti mér rannsóknir og fræðigreinar, og las fæðingarbækur með áherslu á náttúrulega nálgun. Ég undirbjó mig sumsé heil ósköp undir þennan merkilegasta dag ævinnar, og lagði mesta áherslu á að halda jákvæðu hugarfari. Að líta ekki á fæðinguna sem eitthvað hættulegt, ógnvekjandi, subbulegt eða sjúklegt – heldur eðlilegan og stórkostlegan atburð sem gæfi mér ekki aðeins barnið mitt, heldur einnig sterkari sjálfsmynd og betri sjálfsskilning. Hugarfar sem ég held að öllum verðandi mæðrum sé hollt að tileinka sér, óháð því hvar er stefnt á að fæða.

Auðvitað var ég meðvituð um að ekki eru allar fæðingar heilbrigðar eða viðráðanlegar, og því alltaf möguleiki að ég þyrfti að fæða á spítala. Þetta passaði ég að muna til að verða ekki fyrir áfalli ef svo færi, en reyndar gerði ég aldrei ráð fyrir öðru en fara temmilega létt með þessa fæðingu þar sem meðgangan var hreinlega til háborinnar fyrirmyndar. Á daginn kom að náttúran vildi ekki kvitta undir þetta fína samstarf sem ég stefndi á (við erum samt alveg vinkonur ennþá) svo notalega heimafæðingin mín endaði á spítala með mænudeyfingu, sogklukku og vökudeild.

Án efa hafði allur undirbúningurinn og jákvæða hugarfarið á meðgöngunni mikil áhrif á upplifun mína af fæðingunni. Framan af fannst mér fæðingin frábærlega skemmtilegt verkefni og vel viðráðanlegt, þótt vissulega tæki það á. Og þótt atburðarrásin hafi tekið U-beygju frá upphaflegum plönum þykir mér samt óskaplega vænt um hverja einustu mínútu sem átti hlut í því að koma dóttur minni í heiminn.

Heimafæðingin

Laugardagurinn 30. apríl var settur dagur. Þegar ég vaknaði um morguninn hafði ég aldrei þessu vant engar æfingahríðar haft yfir nóttina, og tók því sem merki um að það væri pottþétt langt í að litla gullið mitt fæddist. Við Konni fórum í barnaafmæli og seinni part dags fór ég að finna fyrir æfingahríðum. Töluvert sterkari en síðustu vikurnar en samt svo óreglulegum að ég afskrifaði að fæðing væri að fara í gang. Um kvöldið fór minn vita laglausi sambýlismaður að syngja júróvisjón-rokklag á sviði Laugardalshallar með karlakór og risabangsa með luftgítar. Þegar hann kom heim í kringum miðnætti voru hríðarnar orðnar reglulegar og ca 7 mínútur á milli, og mér því orðið ljóst að nú væri stuðið raunverulega að byrja og helgin yrði eftirminnileg fyrir fleira en að Konni og félagar lönduðu 5. sæti í árlegri söngkeppni Landsbankans.

Ég átti ekki sjens á að sofa – bæði fyrir samdráttum og spenningi – og dúllaði mér því um nóttina. Rölti um íbúðina og græjaði fyrir fæðinguna, naut mín við kertaljós og jólalegu snjókomuna fyrir utan gluggann – sem var auðvitað tóm steik á aðfaranótt 1. maí! Það var sumsé vetur þegar fæðingin hrökk í gang, en þegar daman kom sér loks út löngu seinna var komin bongóblíða. Veðurfræðingarnir segja engin fordæmi fyrir svona snöggum árstíðaskiptum hérlendis, svo í okkar huga verður skonsan alltaf vorboðinn ljúfi sem kom með langþráð sumar í bæinn.

Konni fékk að sofa fyrst um sinn, en ég var ekkert einmana því glænýju nágrannarnir á efri hæðinni voru með partý. Þar spilaði einhver voða fallega á gítar og stytti mér stundir. Konni vaknaði þegar ég skreið upp í rúm, þar sem við eyddum nóttinni við kertaljós, nudd og spjall. Og að telja á milli hríða með aðstoð hinnar stórfínu netsíðu contractionmaster.com (hvað gerði fæðandi fólk fyrir netið, taldi bara sjálft??). Um morguninn voru hríðarnar orðnar það sterkar, og ca 5 mínútur á milli, að við ákváðum að hringja í ljósurnar sem kíktu í heimsókn og blésu upp laugina. Klukkan 8 reyndist leghálsinn fullþynntur en útvíkkun þó aðeins komin í 2 cm. Hún hefði sannarlega mátt vera meiri eftir heila nótt… en það pirraði mig samt lítið, ég hafði svo gaman af þessu öllu saman. Ljósurnar gáfu mér nálastungur og ég lagðist inn í rúm. Náði fínni slökun á milli hríða svo þær skruppu aftur heim.

Fljótlega fóru þó hríðarnar að breytast, urðu mun kröftugri og við bættist þrýstingur niður, svo ég þorði ekki öðru en að kalla ljósurnar aftur til á hádegi en þá voru 3 mínútur á milli hríða. Látið var renna í laugina sem tók næstum klukkutíma að fylla – fokking vatnsþrýstingur í miðbænum – en vá hvað biðin var þess virði! Heita vatnið gaf þvílíka slökun og verkjastillingu að mér finnst ótrúlegt að hugsa til þess hversu stutt er síðan íslenskar konur fóru að nota vatn í fæðingum. En reyndar hægði vatnið aðeins á ferlinu svo lengdist á milli hríða. Klukkan rúmlega 15 var útvíkkun tékkuð oooog… heilir 3 cm! Æði, einn vesæll centimeter tók mig 7 fjandans tíma. Var orðin frekar þreytt þarna og alveg til í hraðara ferli… en vottever, þetta var ennþá vel viðráðanlegt verkefni.
Mér fannst alveg geggjað að finna hvernig líkaminn virkar í fæðingu. Þótt hríðarnar tækju orðið svakalega á (í nokkrum hugsaði ég með mér: Nei andskotinn þetta verður sko mitt eina barn!!!) kom alltaf smá pása á milli þeirra, og þá fann ég hvernig endorfínið sprautaðist út í líkamann og virkaði eins og góður verkjalyfjaskammtur. Í sjálfum hríðunum voru Konni og ljósurnar líka dugleg að minna mig á að slaka á öxlunum og anda rétt, og þannig fannst mér ég ávallt hafa stjórn á aðstæðum. Náttúruvænu fæðingarbækurnar og meðgöngujógað voru ekkert að djóka – slökun og haföndun er klárlega málið!

Konni var svo stórkostlegur fæðingarfélagi að ég ætti hreinlega að leigja hann út í slík djobb. Meðan allt gekk vel var hann 150% með mér í verkefninu og gerði allt sem ég þurfti – faðmaði mig, nuddaði mig, hellti drykkjum upp í mig, hvatti mig og hrósaði mér. Þegar allt fór svo að hrynja tókst honum að styðja mig fullkomlega þrátt fyrir að vera sjálfur niðurbrotinn. Í erfiðasta hjallanum hefði hans angist algjörlega farið fram hjá mér, nema af því ég varð þess áskynja að ljósmæðurnar og spítalastarfsfólk var sífellt að faðma hann og hughreysta. Enda stendur skrifað út um alla fæðingarskýrsluna okkar hvað pabbinn stóð sig vel.
Seinni part sunnudagsins var dæmið farið að taka allsvakalega á og hríðarnar orðnar mjög krefjandi, enda hátt í sólarhringur síðan fæðingin hófst og ég orðin skrambi þreytt. Það eina sem ég virkilega óttaðist á meðgöngunni var að verða óglatt í fæðingunni og kasta upp. Var alveg tilbúin að troða heilli manneskju út um ogguponsu gat, en að æla er það versta sem ég veit. Og það kom að því að ég kastaði upp. Skærbláu! Ég man eftir að hafa horft ofan í fötuna meðan ég ældi og hugsað: Blá æla? Djísús kræst hvað fæðing gerir klikkaða hluti við líkamann! En þetta var auðvitað bara blái orkudrykkurinn sem ég var nýbúin að drekka. Grannarnir uppi voru aftur með partý þetta kvöld (það þarf sko alvöru tjúttara til að ná tveimur partýum á meðan ein fæðing stendur yfir) og aftur var strákurinn með gítarinn mættur. Ég gaf skít í jógatónlistina og vildi miklu frekar hlusta á fallega trúbadorinn uppi.

Næstu klukkutímarnir voru óskaplega erfiðir, ég var orðin fullkomlega úrvinda og missti algjörlega þá fínu stjórn sem ég hafði haft á hríðunum hingað til. Klukkan 18 mældist útvíkkunin 5-6 cm, og rúmum klukkutíma seinna komin í 7 cm. Öðrum klukkutíma seinna var hún komin í 8 cm, en þar stoppaði hún. Á þeim tímapunkti fannst mér ég engan veginn geta meira. Þarna var ég farin að tapa flestum pásunum á milli hríða, því þótt hríðin gengi yfir fann ég sífellt gríðarlega sáran þrýsting niður – eins og rassinn væri að springa af! Ástæðan fyrir þeim sársauka og hægu ferlinu er að stelpan kláraði ekki að snúa höfðinu eins og börn eiga að gera í fæðingu, heldur þrýsti breiðasta hluta höfuðsins á kolrangan stað (hliðarbeinsstaða) og pyntaði þannig mömmu sína sem þurfti svo óskaplega smá hvíld. Þessi ranga höfuðstaða olli því að kollurinn gekk ekki niður og ferlið því nánast stopp, enda var ég föst með 8 cm í útvíkkun í 2,5 tíma – eða þar til belgirnir voru sprengdir og þá gekk kollurinn loks niður. Þetta var þó gert upp á spítala þar sem belgjarof með skökku höfði er almennt ekki framkvæmt í heimahúsi af öryggisástæðum.

Hugur og líkami eru merkileg fyrirbæri. Síðustu þrír klukkutímarnir heima voru hands down erfiðasta upplifun lífs míns (þótt mér fyndist þetta þó vera miklu styttri tími – náttúran aftur að sýna snilli sína). Sem var ömurleg breyting, því fram að þessu fannst mér hríðarnar skemmtileg átök. En á meðan líkaminn þjáðist fann hugurinn sér leiðir til að fúnkera.

Stundum var eins og ég stæði utan við líkamann og fylgdist með. Þá var hugurinn súrrealískt yfirvegaður og í fullkomnu ósamræmi við skjálfandi og vælandi fyrirbærið sem flaut um í fæðingarlauginni. Ástandið á mér var orðið þannig að ég grátbað um miskunn: Konni hjálpaðu mér! Þú verður að laga þetta! Láttu koma pásu! En salírólegi hugurinn sagði með sér: Hvernig dettur manneskjunni í hug að segja svona við hann Konna sinn, sem líður sko alveg nógu illa!? Og reyndar fannst pjöttuðu hugar-Eygló voða niðurlægjandi hvernig líkama-Eygló volaði eins og aumingi, hugurinn skammaðist sín fyrir hönd líkamans. Þegar ég sá svo sjúkraflutningamenninga birtast í dyrunum sagði yfirvegaði hugurinn: Æ ég vona að Sigurjón sé á sjúkrabílavakt í kvöld, mikið væri nú gaman að hitta hann. Einmitt. Af því ég er almennt svo mikið fyrir að fá gamla vini heim í kaffi þegar ég er nakin, blaut og ýlfrandi af kvölum.

En á öðrum stundum leitaði hugurinn inn á við og bjó sér til eigin heim til að forðast erfiðan raunveruleikann. Þær stundir hafði ég ekki hugmynd um hvað gerðist í kringum mig, ég var örugg inni í mér í félagsskap nettra ofskynjana. Best man ég eftir því þegar ein hríðin hét Guðmundur, og ég átti gott spjall við hann Guðmund um að stoppa nú ekki of lengi hjá mér.

Fram að þessu hafði stelpan ekki sýnt nein merki þess að líða illa – hjartslátturinn mældist alltaf sterkur og ég fann vel fyrir hreyfingum hennar. Hún var sumsé í góðu stuði og sparkaði á fullu, þótt ég væri of þreytt og þjáð til að muna nafnið mitt. Í von um að ferlið myndi fljótlega klárast reyndum við ítrekað að klára fæðinguna heima, þótt ég væri nokkurn veginn orðin sturluð og farin að grátbiðja um flutning á spítala til að fá einhvers konar hjálp. Klukkan 21 var hins vegar orðið ljóst að krakkinn væri ekkert á leiðinni út, og loks ákveðið að hringja á sjúkrabíl til að flytja mig á náðir mænudeyfingar. Konna mínum til mikils léttis, en hann var farinn að halda í fúlustu alvöru að hann myndi missa bæði konu og barn á stofugólfinu þetta kvöld. Sá ótti hvarf reyndar ekkert uppi á spítala – því þar tók í fyrsta sinn við hættuástand, þegar loks kom að því að barnið gat ekki meira af þessari erfiðu fæðingu frekar en mamman.

Óvænt spítalafæðing

Klukkan 21:30 vorum við komin inn á fæðingarherbergi LSH, þar sem tók á móti okkur frábær hópur starfskvenna. Konni minnist oft á hversu góðar þær hafi verið, svo þær hafa greinilega hugsað vel um þennan úrvinda og skíthrædda pabba. Ég var ekki alveg með rænu á þessum tímapunkti heldur staðsetti mig lengst inni í haus meðan ég beið eftir langþráðu hríðarpásunni minni. Vel gekk að setja upp mænudeyfingu og fljótlega fékk ég loksins hvíld.

Þá fór hjartsláttur barnsins að taka dýfur, svo ákveðið var að sprengja belgina og út rann tært og fínt legvatn. Þetta dreif í gang ferlið sem hafði verið alveg stopp, á miðnætti var útvíkkun komin í fulla 10 cm og seinna um nóttina kláraði höfuðið loks að snúa sér. Hjartslátturinn tók alvarlega dýfu svo ákveðið var að taka blóðprufu úr kolli barnsins til að mæla sýrustigið í líkamanum. Slíkar mælingar þykja öruggari en mónitorinn sem fylgist með hjartslættinum, en sýrustig líkamans segir til um undir hversu miklu álagi hann er. Þegar líkami verður fyrir gríðarlegu álagi verður hann mjög „súr“, en blóðprufan sýndi allt í góðu lagi með skonsuna. Hjartsláttur hennar hélt þó áfram að pompa niður eftir hríðar, svo á meðan ég rembdist næstu þrjá klukkutímana voru reglulega teknar blóðprufur sem allar sýndu eðlilegt sýrustig.

Klukkan 1 fór ljósmóðir að tala um að byrja að rembast. Í fyrstu kveikti ég engan veginn á því hvað manneskjan meinti – remba hverju hvert hvað?? Ég var loksins búin með þennan langa dag, hafði loks fengið pásuna mína sem ég hafði grátbeðið alheiminn um síðustu klukkutímana, hafði ekki sofið í 40 tíma og nú ætlaði ég náðarsamlegast að leggja mig takk fyrir pent. Var búin að steingleyma að partýið átti að enda með barni. En samkvæmt Konna sagðist ég aldeilis vera til í að hefja rembinginn og hófust þá leikar. Þótt mænudeyfingin tæki allan sársauka fann ég ennþá þrýsting niður í hverri hríð. Ég fann hinsvegar ekki neina rembingsþörf og gekk illa að fatta hvernig ég ætti að fara að þessu. Hvorki örmagna hugurinn né deyfður  líkaminn skildi verkefnið. Ljósan þurfti bókstaflega að kenna mér að remba barninu út, segja mér hvaða vöðva skyldi nota og hvernig. En við rembdumst og rembdumst í alls kyns stellingum í langan tíma. Í fæðingarskýrslunni stendur: Konan vill sjálf halda áfram að rembast sjálf. Ekki man ég hvers konar samtal það var eða hvað mér stóð annað til boða en að rembast sjálf.

Samkvæmt skýrslunni rembdist ég af krafti (hvar sá kraftur fannst er mér ráðgáta) en samt færðist kollurinn voða hægt niður. Eins og ég var mikið búin að kynna mér fæðingarstellingar og sá aldeilis ekki fyrir mér að fæða liggjandi á bakinu, gerði ég heldur aldrei ráð fyrir að vera svo örmagna að haldast ekki upprétt í fæðingarvænni stellingunum. Hvað þá gerði ég ráð fyrir að fæða á bakinu í fótastatífum eins og á ógeðslegri spítalaljósmynd frá 1965, en í sogklukkufæðingu er víst ekki annað í boði. Enda fannst mér statífin ljómandi fín þegar ég átti enga orku eftir til að halda fótunum uppi. Einhvern tímann sagðist ljósan sjá kollinn á barninu og fullt af ljósu hári, og ég gat sjálf snert hann. Sem var ótrúlega furðulegt augnablik. Annars vegar því við gerðum fastlega ráð fyrir dökkhærðri stúlku en ekki blondínunni sem þarna glitti í (enda búin að ákveða nafnið Ronja eftir hinni frábæru dökkhærðu Ronju Ræningjadóttur), og hins vegar af því þarna varð okkur ringlaða parinu ljóst að í alvöru væri alveg að koma alvöru barn með alvöru hár!

Klukkan tæplega 4 sást dökkgrænt legvatn – merki um að litlunni leið illa – svo ákveðið var að sækja sogklukku og koma henni út sem fyrst. Þvílíkur kraftur í þessu klukkufyrirbæri, í flestum rembingunum losnaði klukkan af höfðinu svo staffið hentist aftur á bak í látunum. Konna fannst þetta hrikaleg sýn, og í mínu ruglaða hugarástandi var ég í hvert sinn viss um að nú hefði hausinn rifnað af barninu. Þegar klukkan náði svo að tosa barnið út slitnaði naflastrengurinn í leiðinni.

Stúlkan fæddist klukkan 4:34 – 28,5 tímum eftir að ég viðurkenndi fyrir sjálfri mér að fæðingin væri hafin. Henni var skutlað upp á bringu mér, Konna rétt skæri til að skilja á milli og við grenjuðum í kór. Hún var strax tekin af mér og yfir á borð þar sem læknir skoðaði hana, og fylgjan skaust út rétt á eftir. Ég bað Konna að standa hjá dóttur okkar, snerta hana og tala við hana, svo hún væri ekki ein í heiminum með ókunnugum lækni. Þar stóð hann og gólaði í sífellu: Sérðu hana? Sérðu hana? Sérðu hvað hún er falleg?? Ég vissi varla hvort var stórkostlegri sjón – fallega barnið eða stolti pabbinn.

Þótt blóðprufurnar í rembingnum hafi ítrekað komið vel út, fæddist skonsan með mjög hátt sýrustig og algjörlega örmagna. Þessi langa og stranga fæðing gekk á endanum fram af litlu stelpunni minni – sem var þó þvílíkur nagli að halda þetta út allan þennan tíma. Hún virðist bara hafa loks fengið nóg og lífsmörkin þá skyndilega pompað niður. Blessunarlega fæddist hún í sömu andrá og hún gafst upp, því lengri rembingur í því ástandi hefði geta valdið súrefnisskorti. Hún fékk aðeins 3 á fyrsta apgar-prófinu, en var komin í 7 á því næsta. Þrátt fyrir slæmt ástand var það mikilvægasta í góðu lagi – hjartslátturinn sterkur og súrefnismettunin góð – svo við þurftum ekki að óttast varanlegan skaða. Dóttir mín var það sem kallast „óvænt slappur krakki“, þ.e. fæddist mun verr haldin en búast mátti við miðað við öll merkin. Morguninn eftir var víst farið vel yfir okkar mál á fæðingarganginum vegna þess hve slæmt ástand barnsins kom á óvart – til að fá á hreint hvort rangt hafi verið brugðist við. Sem var ekki málið heldur er lítill líkami bara óskaplega fljótur að missa tökin.

Stelpan var drifin á vökudeild vegna örmögnunar eftir erfiða fæðingu, hás sýrustigs og of hraðrar öndunar, og vegna hættu á sýkingu þar sem hún hafði gleypt grænt legvatn. Konni fór með henni, en ég lá eftir í fæðingarherberginu og lét tjasla mér saman eftir árás skæra og sogklukku. Tveimur tímum eftir fæðinguna hitti ég skonsuna mína á vökudeildinni og var svo sjálf lögð inn á sængurkvennagang. Hún var sett í hitakassa og á sýklalyf. Sonda var sett ofan í maga í gegnum nefið til að hægt væri að gefa henni að borða, en hún var of uppgefin til að ráða við brjóstið.
Þá tóku við afar skrýtnir dagar hjá nýbökuðu foreldrunum en skonsa var á vökudeild í viku. Fyrsta nóttin heima án hennar var hreint út sagt ömurleg og fátt gert annað en grátið. Hver sólarhringur sem leið var þó betri en sá fyrri, enda leitun að jafn frábærum konum og starfa á vöku. Skottan var eldsnögg að losa sig við hitakassann og klára sýklalyfjaskammtinn sinn, svo mestur tími fór í að þjálfa upp þrekið til að ráða við að drekka sjálf. Hún sýndi gríðarlegar framfarir við hverja matargjöf á þriggja tíma fresti. Ef við hefðum skálað í kampavíni í hvert sinn sem hún tók fleiri dropa úr brjóstinu og fékk þannig færri í sonduna, værum við núna með króníska áfengiseitrun. Eftir vikudvöl var hún svo útskrifuð af mjög hávöxnum barnalækni með toppeinkunnina: Flott stelpa, sterk og skapgóð!

Eftirmáli

Fæðingin mín fór ekki beint eftir planinu. Einhvern tímann mun eflaust koma að því að ég verð ógeðslega sár og reið yfir að hafa ekki fengið náttúrulegu og rómantísku heimafæðinguna sem ég skipulagði svo lengi og óskaði mér svo innilega, og þá verð ég bara að fá að kýla í vegg og vera tussufúl í smá stund. Einhvern tímann á síðustu metrunum sagði Konni við mig óskaplega bugaður: Ég hlakka svo til þegar þetta verður allt búið. Þarna brotnaði eitthvað pínu inni í mér. Þessi stórkostlegi atburður sem ég hafði hlakkað svo til í marga mánuði, var orðinn að einhverju skelfilegu sem beðið var eftir að lyki. Algjört svindl. En ef við skyldum seinna búa til fleiri gullklumpa mun ég aftur reyna við heimafæðingardrauminn. Að ýmsu leyti vorum við óheppin í þetta skipti, en þessi fæðing segir ekkert um almenna getu mína til að fæða barn og næst gæti allt gengið snurðulaust. Þá ætla ég samt að vera með tilbúna spítalatösku til öryggis, sem mér fannst óttalegur óþarfi núna – ég ætlaði sko ekkert á neinn spítala! Þar af leiðandi var ég ekki með svo mikið sem skó með mér á spítalanum, og fór á sokkunum heim eftir fæðinguna.

Ég lít samt jákvæðum augum á fæðinguna fyrst skonsan mín er heil og hraust, enda er fátt flottara en fæðing nýrrar manneskju (líka þegar krúttlegu heimafæðingarplönin bregðast). Líklega hjálpar til að ég svíf um á bleiku skýi þessa dagana með nýja frábæra barnið mitt, uppfull af ást á öllum og öllu.

Fyrir það fyrsta er ég himinlifandi yfir að hafa ákveðið heimafæðingu. Fyrstu 16-18 klukkutímarnir voru frábær upplifun og algjörlega í takt við þá jákvæðu fæðingarsýn sem ég tileinkaði mér á meðgöngunni. Að upplifa lyfjalausar hríðar var mögnuð reynsla. Aldrei hef ég skynjað þvílíkan kraft í líkama mínum eða upplifað mig jafn öfluga og þegar ég náði að hafa stjórn á þessum ógnarkrafti. Að vera í mínu umhverfi átti stóran þátt í því hversu vel mér leið og hversu góða stjórn á aðstæðunum ég hafði lengst af. Mitt rúm, mín sturta, minn ísskápur, mín kertaljós, mínar ljósmæður, mín Klovn-sería, minn partýnágranni með fína gítarspilið… Að vera heima í fæðingu einfaldlega rokkar!

Þá er ég líka ánægð með að hafa upplifað síðustu erfiðu klukkutímana heima, og að hafa ítrekað ákveðið að halda áfram þrátt fyrir að grátbiðja reglulega um deyfingu. Ég var búin að segja ansi oft að nú gæti ég sko ekki meira, en alltaf gat ég samt aðeins meira… þangað til ég raunverulega gat ekki meira. Nú veit ég hvernig fæðing er og nú þekki ég mín þolmörk – og það kom mér sko helling á óvart hvað minn veimiltítulíkami ræður við. Mér finnst ég því hafa lagt mig 150% fram, og mun aldrei líða eins og ég hafi brugðist sjálfri mér með að óska á endanum eftir mænudeyfingu á spítala. Enda hefði barnið aldrei fæðst heima, við hefðum auðvitað flutt okkur á spítalann um leið og stelpurófan sýndi að henni leið ekki vel – ef það hefði gerst áður en ljóst var orðið að fæðingin væri stopp og skynsamlegast í stöðunni að flytjast á spítalann. Og auðvitað er ég fegin að hafa á endanum haft aðgang að spítala, þar sem allar bjargir biðu minnar ofurslöppu dóttur þegar hún loks kom út.

Sjúkrarúm, mænudeyfing og sogklukka voru klárlega ekki á óskalistanum, en fyrst svo fór er ég í það minnsta glöð að hafa þó geta nýtt þá örlitlu orku sem ég átti eftir til að remba henni út um hið hefðbundna gat – loks eitthvað sem gekk eftir planinu! Hápunktur þessa langa og viðburðaríka ævintýris var svo auðvitað að fá loks í fangið undurfagra og rósbleika stúlku með englabros og blik í augum. Þannig er minningin, svo ég skil ekkert í því af hverju fæðingarskýrslan lýgur því til að hún hafi verið blá og líflaus.

Að lokum finnst mér ég nú eiga glænýjan mann sem er miklu merkilegri en sá gamli – og fannst mér hann þó ljómandi fínn. Dagarnir sem við eyddum saman við fæðingu og vökuvesen bundu streng á milli okkar sem ég sé ekki að geti mögulega slitnað. Maður gæti haldið að veikt barn, sundurklippt kynfæri, mjaltavélar og hjólastólar drægi úr rómantíkinni – en neibb við höfum aldrei verið eins ástfangin og þessa fáránlegu viku á spítalanum.

Svo í raun má barasta segja að þetta hafi verið frábær fæðing! ☺

Fæðing Óskars

Ég var ólétt að mínu fyrsta barni og við stefndum á heimafæðingu. Meðgangan gekk vel og ég var heilsuhraust og leið vel allan tímann. Ég notaði tímann til að undirbúa mig vel. Ég las allar bækur um fæðingar sem ég komst í, horfði á bíómyndir um fæðingar, og mætti á öll námskeiðin sem í boði voru. Fór meira að segja á tvö brjóstagjafanámskeið með eiginmanninn í eftirdragi 🙂 Ég mætti líka í hvern einasta jóga tíma í næstum því 6 mánuði og lokahnykkurinn var svo hypnobirthing námskeið hjá Kristbjörgu ljósmóður. Ég var því orðin afar tilbúin þegar stóri dagurinn fór að nálgast.

Ég hafði það reyndar á tilfinningunni alla meðgönguna að ég myndi ganga fram yfir. Gerði eiginlega ráð fyrir því. Mætti t.d. í síðasta planaða hypnobirthing tímann þegar ég var komin 5 daga fram yfir. Þegar ég var komin rúma viku fram yfir þurfti Arney heimafæðingarljósmóðirin mín að byrja að ræða gangsetningu og tímabókanir í monitor upp á spítala, það er venjan. Að hafa gangsetninguna hangandi yfir mér síðustu dagana var afar erfitt því ég hafði eytt öllum tíma mínum í að undirbúa mig fyrir heimafæðingu og af því ég var búin að lesa mér svona mikið til þá vissi ég líka að tölfræðin segir að gangsetning auki líkur á alls konar vandræðum. Þessa síðustu viku viðurkenni ég því að mér varð í fyrsta skipti órótt á meðgöngunni og grét þungum tárum yfir því að eiga svo ekki að fá að upplifa fæðinguna eins og mig langaði og hafði stefnt að. Arney kom reglulega til mín í mæðraskoðun þessa síðustu daga og það sést í mæðraskránni minni hvað blóðþrýstingurinn hækkaði þessa daga. Merkilegt nokk þá lækkaði hann aftur þegar Arney hughreysti mig og sagði að hún myndi gera allt sem hún gæti fyrir mig og hún hefði ekki enn misst eina einustu konu í gangsetningu sem hafði viljað fæða heima. Ég var líka sett á laugardegi og Arney sagði að ég gæti vel afþakkað gangsetningu fram yfir helgi því konur eru ekki gangsettar nema á virkum dögum 🙂 Ég hafði aldrei áhyggjur af barninu mínu þó meðgangan væri orðin þetta löng, ég vissi einhvern veginn að því liði vel.

Ég reyndi samt ALLT sem átti hugsanlega að geta komið fæðingu af stað og veit ekkert hvort eitthvað af því virkaði.

Á þriðjudeginum fékk ég svakalega úthreinsun. Þetta voru svo ofsaleg iðrahljóð, að á milli klósettferða vissi ég ekki alveg hvort ég ætti að hlæja eða gráta. En það gerðist ekkert meira í framhaldi af því.

Ég mætti svo í síðasta meðgöngujógatímann minn á fimmtudeginum, gengin 41 viku og 5 daga. Ég átti bókað í monitor upp á spítala daginn eftir og vissi að barnið yrði að fæðast núna á allra næstu dögum. Þetta var yndislegur jógatími og það kom mér á óvart hvað mér leið enn vel í líkamanum, gengin næstum fullar 42 vikur. Eftir tímann kom ein ykkar til mín og sagði falleg orð við mig, orð sem ég man varla í dag hver voru, en ég þurfti svo að heyra ákkurat þá. Takk fyrir það. Um kvöldið var ég að fá nokkra samdrætti, eins og undanfarna daga. Ég fann engin óþægindi í líkamanum þegar þeir komu, vissi bara að þeir voru þarna því bumban mín varð svo hörð. Í hvert skipti sem ég varð vör við samdrátt strauk maðurinn minn mér yfir magann, það hafði orðið að venju hjá okkur á síðastliðnum vikum.

Um kvöldið horfðum við á Birth as we know it þar sem konur fæddu börn bara syndandi í hafinu með höfrungum og eitthvað álíka yndislegt meðan ég fékk nudd og strokur frá manninum mínum. Svo fórum við að sofa. Ég vaknaði rétt upp úr 1 eftir miðnætti og þurfti á klósettið. Þegar ég var að leggjast aftur upp í rúm þá heyri ég smell og hoppa fram úr því ég held fyrst að þetta séu meiri iðrahljóð. Ég næ ekki að taka nema nokkur skref áleiðis á klósettið þegar ég finn heita gusu milli læranna. “Gestur, vatnið er farið”, segi ég við sofandi eiginmanninn. Gestur hringir í Arneyju ljósmóður meðan ég finn eitthvað út úr því hvað ég á gera við sjálfa mig og þessa bleytu. Arney kemur og athugar hvort barnið sé ekki örugglega vel skorðað sem það og var. Arney segir okkur að reyna að sofa meira, það sé líklegast ekkert að fara að gerast bráðlega og kveður í bili. Ég set hypnobirthing slökunina mína í gang og við leggjumst saman upp í sófa. Eiginmaðurinn byrjar fljótlega að dotta og ég slæ til hans, finnst hann kannski einum of afslappaður og auk þess voru hljóðin í honum að trufla mig. Eftir á segir hann mér að ég hafi hlustað á slökunina að minnsta kosti fjórum sinnum.

Ég man næst eftir mér hálfliggjandi uppi í rúmi með stóran kodda bak við mig. Það komu nokkrar öldur og ég einbeitti mér 100% að önduninni. Öndunin sem ég lærði á hypnobirthing námskeiðinu hentaði mér best þarna en hún er mjög svipuð hafönduninni. Í hápunkti öldunnar kipptist ég samt alltaf við, sama hversu djúpt ég andaði. Þegar aldan var byrjuð að fjara út þá fann ég endorfín flæða niður eftir líkamanum og það var yndisleg tilfinning. Ég man mig hlakkaði til endorfín-rússins í lok hverrar öldu. Ég opnaði held ég aldrei augun, leit ekkert á klukku og hugsaði enga meðvitaða hugsun. Ég held ég hafi verið hálfsofandi.

Næst þegar ég man eftir mér þá er ég nakin, nema í baðslopp mannsins míns, á fjórum fótum á stofugólfinu með undirlag undir mér. Mig grunar að ég hafi verið að koma af klósettinu. “Gestur, það blæðir”, segi ég við sofandi eiginmanninn. Hann hoppar ringlaður fram úr og bregður eflaust aðeins þegar hann sér blóð á undirlaginu. Hann hringir aftur í Arneyju en hún virðist ekkert alltof viss um að eitthvað sé farið að gerast hjá okkur. Vill samt koma fyrst það er blæðing. Þarna byrja ég að rugga mjöðmunum og í raun öllum líkamanum með hverri öldu og stynja djúpt. Ég vissi ekki af hverju það blæddi en ég hafði samt engar áhyggjur og leyfði öldunum að koma og fara eins og þær vildu. Ég held að jákvæða staðhæfingin: “I will calmly meet whatever turn my birthing may take” hafi hljómað í undirmeðvitundinni. Þegar Arney kemur segir hún: “Hér er allt að gerast!” en ég hugsa að hún sé nú örugglega að misskilja þetta og oftúlka þessar háværu stunur mínar. Ég hafði nefnilega alltaf heyrt að það myndi ekkert fara fram hjá mér þegar ég færi af stað og ég var ennþá að bíða eftir því augnabliki. Útaf blæðingunni gerði Arney innri skoðun og ég var komin með rúma 8 í útvíkkun. Blæðingin var líklegast frá leghálsinum því hann var að opna sig svo hratt. Við þessar yfirlýsingar átta ég mig loks á því að kannski sé ég komin í fæðingu núna.

Tímaskyn mitt var ekkert en seinna komst ég að því að klukkan var hálffimm um nóttina þegar Gestur hringdi í seinna skiptið og þegar Arney mætti voru 3-4 mínútur á milli. Gestur hafði tekið tímann án þess að láta mig vita.

Ég varð lítið vör við það sem var að gerast í kringum mig á þessum tíma. Veit t.d. bara að Arney er þarna því ég heyri hana tala, ég leit aldrei á hana held ég. Ég man svo eftir að hafa heyrt í henni í símanum að hringja í Kristbjörgu ljósmóður og biðja hana að koma og aðstoða. Ég man eftir að hafa heyrt: “Viltu koma og aðstoða í fæðingu sem er samt að verða búin?” Er að verða búin?, hugsa ég, hvað meinar hún, þessi fæðing var að byrja rétt áðan! Gestur og Arney byrja að blása í laugina í snarhasti. Ég man hvað mér líkaði rafmagnspumpan vel því það voru svona drunur í henni og það var þægilegt að stynja með þessum drunum. Þegar laugin er komin upp á mitt stofugólfið áttar einhver sig samt á því að barnið verði eflaust komið í heiminn áður en laugin verði orðin full af vatni. Einhver reynir að spyrja mig hvort mér sé sama eða hvort ég vilji samt að þau láti renna í laugina. Þetta var of flókin spurning til að ég gæti svarað henni 🙂

Arney hvetur mig til að reyna að fara á klósettið og pissa. Ég fer en get alls ekki pissað. Er líka svo hrædd um að aldan komi meðan ég sit á klósettinu en ég vil taka á móti henni á fjórum fótum. Ég opna baðhurðina, gef einhverja skipun um að fá dýnu á gólfið beint fyrir framan hurðina og fæ ósk mína uppfyllta. Gruna að þar hafi eiginmaðurinn verið að verki og áralöng reynsla hans í að átta sig á óskýrum óskum mínum og löngunum hafi þarna borið mikinn ávöxt. Áður en ég læt mig hrynja á dýnuna sé ég Kristbjörgu brosa til mín. Hún var semsagt mætt á svæðið.

Ég hef afar litla stjórn á líkamanum á þessum tímapunkti. Ég gat til dæmis ekki pissað í klósettið en þegar ég lá þarna á dýnunni þá pissaði líkaminn í bindið sem ég var svo heppilega með í buxunum. Ég hafði enga stjórn á þessu. Ég reyndi að láta einhvern vita að mér hefði tekist að pissa. Kannski skildi mig enginn.

Svo kom þessi svokallaða rembingsþörf skyndilega með einni öldu. Ég hafði lesið ógrynni af fæðingarsögum og þar með lýsingum á þessum rembing en ég vissi fyrst ekkert hvað var að gerast. Kannski var mín upplifun eitthvað öðruvísi en eftir að hafa upplifað þetta sjálfri finnst mér rembingsþörf mjög slæmt orð yfir þetta fyrirbæri. Þetta var engin ‘þörf’, svona eins og þegar maður þarf að klóra sér eða þarf að kúka. Þess í stað byrjaði líkaminn bara að æla barninu út. Þetta var í alvörunni alveg eins og að liggja yfir klósettskálinni með ælupest, nema það var verið að æla niður en ekki upp. Ég upplifði meira að segja sömu kippina í líkamanum. Ég myndi lýsa minni upplifun sem ósjálfráðu niðurkasti, miklu frekar en rembingsþörf.

Smátt og smátt öðlaðist ég svo stjórn á ákafanum og þetta varð minna krampakennt. Ég lét samt líkamann alfarið um að ýta barninu út, ég rembdist ekki neitt sjálf. Það eina sem ég gerði var að slaka á og fylgja eftir. Ég vissi ekki hvort mér myndi takast það fyrir fram því þegar maður heyrir um fæðingar eða sér atriði í sjónvarpinu þá er þetta alltaf svaka hasar og átök. Í hypnobirthing bókinni stendur að konur í dái hafi eignast börn án þess að nokkur hafi tekið eftir eða þurft að aðstoða og sú setning seldi mér svolítið þá hugmynd um að líkaminn væri fær um þetta sjálfur, og ég þyrfti ekki að láta hvetja mig áfram og telja upp á 10 og verða rauð í framan við að ýta svona eins og maður sér í sjónvarpinu. Mér leið líka best þegar ég var sem minnst að skipta mér af því sem var að gerast.

Til að gera langa sögu stutta þá held ég að ég hafi verið að ýta barninu út í 2 og hálfa klukkustund á fjórum fótum í sófanum. Aðrar stellingar virkuðu ekki. Þegar á leið byrjaði ég að halla mér yfir arminn á sófanum með hrúgu af púðum undir. Ég fékk góða hvíld milli hríða. Ég drakk kókosvatn gegnum rör, hlustaði á Grace diskinn og fékk kaldan þvottaklút á ennið. Ég man að ég sá sólina gægjast inn undan gluggatjöldunum og fannst það afar skrýtið því ég hélt það væri mið nótt. Arney segir á einum tímapunkti að ég geti örugglega fundið kollinn og ég prófa að þreifa fyrir honum. Það var ótrúlegt að finna fyrir mjúkum kollinum rétt fyrir innan spöngina; að snerta barnið sitt í fyrsta skipti.

Erfiðustu mínúturnar voru þegar höfuðið var að koma út. Þrjú skref áfram með hverri hríð, tvö skref til baka í hvíldinni. Ég passaði mig að drífa þetta ekki áfram og ýtti eins lítið og ég gat með. Þetta tók þó furðanlega fljótt af og það var ÓLÝSANLEGUR léttir þegar höfuðið var allt fætt og þrýstingurinn næstum hvarf. Axlirnar og líkaminn allur rann út í næstu hríð, Arney losaði í snöggheitum strenginn sem var tvívafinn um hálsinn og rétti mér svo barnið mitt upp milli fóta mér. Hann var sleipur og kaldur og ég tók hann í fangið. Tíu fingur og tíu tær. Þetta var fullkominn strákur sem öskraði hressilega.

Við foreldrarnir kysstumst og hlógum og dáðumst að litla kraftaverkinu okkar. Mér fannst þetta allt saman svo ótrúlegt og óraunverulegt. Hann fór svo strax á brjóst og tók vel. Fylgjan kom svo ekki fyrr en rúmum klukkutíma síðar eftir að það var búið að skilja á milli og þeir feðgar komnir upp í rúm að kúra. Ég slóst þá í hópinn og við kúrðum saman, öll fjölskyldan, í rúminu okkar. Spöngin var heil og þetta hafði ekki tekið nema rétt rúma 7 tíma frá því ég missti vatnið.

Ég held að það fyrsta sem ég hafi sagt við ljósmæðurnar eftir að ég fékk strákinn minn í fangið var: Þetta var bara eiginlega ekkert vont.

Það er þrennt sem ég þakka hvað mest fyrir hversu vel gekk. Fyrst er það undirbúningurinn en vegna hans vissi ég hvers ég mætti vænta og fátt sem kom mér á óvart. Ég öðlaðist einnig traust og trú á því að fæðing væri náttúrulegur og eðlilegur atburður og að líkaminn vissi alveg hvað hann væri að gera. Ég þakka einnig heilaleysinu og því hvernig ég náði að slökkva á meðvituðum hugsunum svo þær væru ekki að trufla framgang fæðingarinnar. Mig langar einnig að gerast svo djörf að hvetja ykkur til að sleppa því líka að taka tímann á hríðunum. Vatnið sýður ekki ef þú starir á pottinn. Fáðu fæðingarfélagann til að fylgjast með ef þetta skiptir þig máli. Að lokum: taktu þér tímann sem þú þarft til að ýta barninu út. Það er örugglega ekkert sem liggur á. Það er nefnilega tvenns konar tími í heiminum. Það eru dagarnir og klukkustundirnar sem við mælum á klukkunni og svo er það tíminn sem það tekur ferskjuna að þroskast á trénu.