Þá kom ljósið í líf mitt

Það var ótrulegt sjokk að ég hafði orðið ólétt, bara algjört kraftarverk. Ég fékk nefnilega streptakokka og sýkingu í eggjastokkana sautján ára. Það var sagt mér að ég væri líklegast ófrjó eftir allt þetta vesen. En 14 desember ákvað ég taka óléttupróf ég fann það bara á mér eitthvað var skrýtið. Og það kom jákvætt!. Var bæði búin vera ótrulega viðkvæm og var alltaf hágrátandi yfir öllu. Allt mitt líf hafði ég dreymt um verða mamma. Frá barnæsku lenti ég í miklum áföllum og eitt af stærstu áföllunum var þegar ég var eins og hálf árs missti ég mömmu mína. Þegar ég varð 18 ára byrjaði þunglyndið og kvíðinn aukast hrikalega og það mikið að ég vildi ekki lifa lengur og sá engan tilgang. Hafði misst alla og átti engan að, það gat enginn höndlað þunglyndið mitt. Ég dett svo í það að reykja gras á hverjum degi í nokkra mánuði til reyna deyfa sársaukann. Ég hafði misst alla von á góðu lífi og var tilbúin að gefast upp. Svo kynnist ég yndislegum strák sem varð besti vinur minn. Loksins var einhver sem hlustaði og þótti raunverulega vænt um mig. Eftir þrjá mánuði byrjuðu tilfinningar spila inn í og við byrjuðum hittast og fara á deit. Ég átti mjög erfitt með treysta því að einhver gæti elskað mig og ekki farið frá mér. Við byrjuðum svo saman og þann 14 desember fékk ég jakvætt ólettupróf. First trimester var erfiður og mér var alltaf óglatt en ældi bara tvisvar. Þegar ég var gengin 14vikur byrjaði ég að fá mikla verki i bakið og grindina (grindargliðnun). Svo kemur second trimister og hann var betri en var orðin þung og þreytt.

Á 32 viku var ég byrjuð finna fyrir miklum fyrirvaraverkjum. Svo aftur á 34 viku urðu þeir sterkari og ég hélt hreinlega að ég væri fara af stað en svo var ekki. Vá var orðin rosalega þunglynd og varð sett þrisvar inn á geðdeild, ég vissi aldrei mér gæti liðið svona ótrulega illa á sama tíma og með lítið kraftarverk inn í mér. Var alltaf með svo mikla sektarkennd með hverri ljótri hugsun sem ég fékk og hverju tári sem ég grét. Ég var orðin ótrulega þreytt bæði líkamlega og andlega, ég vissi bara ég gat ekki haldið þessari meðgöngu áfram svo það var tekið ákvörðun að setja mig í gang gengin 39 vikur.

Ég kem á spítalann á föstudegi og er yfir helgi með mikla samdrætti og var bíða eftir gangsetningar dagsetningunni. Eftir langa og erfiða 9 mánuði fékk ég svar frá fæðingardeildinni að gangsetningardagur væri mánudagur 19 águst. Ég man eftir því hversu glöð ég var að loksins vita þetta væri fara vera búið en ég áttaði mig ekki á því hversu hröð fæðingin myndi vera. Fæ töflur og samtals tek ég 8 töflur. Um nóttina byrja ég að fá rosalega mikla bakverki í neðra bakinu, og ég fékk parkodín. Um morgunnin klukkan 8 kemur ljósmóðir inn og gerir leghálsskoðun. Ég var bara með einn og hálfan í útvíkkun og var svo ósátt með að það var ekki meira að gerast. Klukkan 11 kemur önnur ljósmóðir og tjékkar aftur og segir það sé hægt reyna gera belgjarof. Ég færist í fæðingarherbergið og það er gert belgjarof sem tókst!. Man hvað það var skrýtin og heit tilfinning að finna fyrir vatninu leka.

Klukkutíma eftir að það var sprengt belginn byrja ég finna verki í bumbunni og bakinu. Prófa nota glaðloftið eftir þrjá tíma að anda gegnum verkina bara. Svo verða verkirnir harðari og reglulegir og ég spurði ljósmóðurina “er ég þá komin af stað?” Og hún svarar “já” og ég bara omægat og var ekki trúa þessu en hélt ró minni. Ákvað svo prufa baðið og það var mjög næs en tók ekki verkina eins mikið og ég hélt að það myndi. Ég byrja svo gefast upp í baðinu og ég sagði ítrekað við kærasta minn “ég get þetta ekki” “er svo hrædd” og hann hélt í hendina mína og strauk mér. Ljósmóðirin kemur svo inn og ég grátbið hana um mænudeyfingu því þetta var orðið óbærilegt. En ég vissi ekki að ég þurfti bíða í klukkutíma eftir lækninum sem var gera mænudeyfinguna tilbúna. Svo loksins kemur hann inn og ég verð svo skíthrædd við nálina að ég fer aftur hágráta. Hríðarnar voru orðnar svo sterkar að ég var öll á hreyfingu. Yndislega ljósmóðir mín hjálpar mér í gegnum mænudeyfinguna og ég kvíðasjúklingur sem hélt að mænudeyfingin væri bara hræðileg var svo ekkert mál.

Verkirnir urðu betri eeen eftir klukkutíma voru þeir búnir færast alveg í neðra bakið og ég get sagt að það var bara verra. En ég hélt áfram anda mig í gegnum hverja hríð og reyndi hugsa jákvætt. Var svo dofin í líkamanum og sérstaklega fótunum eftir mænudeyfinguna að það þurfti hjálpa mér labba á klósettið. Það var svo gert aftur skoðun og þá var ég með 3 í útvíkkun og útaf því það var ekkert mikið gerast þá fékk ég dreypi í æð. Klukkutíma seinna var ég komin með 7 í útvíkkun og ég var drepast úr verkjum, ég nefnilega áttaði mig ekki á því hvað þetta var gerast hratt. Nei sko hálftíma seinna er ég komin með 10 í útvíkkun og ljósan segir “þú mátt byrja rembast ef þú ert tilbúin eða bíða í hálftíma” og ég horfi á hana í sjokki og segi “nei nei langar bíða í hálftíma”. Svo byrjar ballið og ég var svo ekki tilbúin en tengdó og kærastinn og ljósan sögðu öll bara “jæja kýlum á þetta”. Kærasti minn og tengdamamma mín halda löppunum uppi og ég byrja rembast og aftur rembast og aftur. Eftir klukkutíma rembing kemur litla gullfallega prinsessa mín í heiminn klukkan 21:22. Hún var 50cm og 3534 grömm og 14 merkur❤️.

Fyrstu dagarnir voru jú krefjandi en svo yndislegir. Brjóstagjöfin gekk vel en ég var með rosalega mikla framleiðslu að ég þurfti pumpa og gefa oft. Bæði mjög gott vera með mikla mjólk en mikil vinna passa að maður fyllist ekki og sem nýbökuð móðir var ég alltaf í kvíðakasti yfir því hvort ég myndi fá sýkingu í brjóstin, eða hvort hún væri anda eða afhverju hún gerði svona hljóð😅. Bara hreinlega allt sem hún gerði efaðist ég um en það var sagt mér það væri eðlilegt. Núna í dag 10 september er hún þriggja vikna gömul og er algjör mús. Þó að ég er læra á hverjum degi nýtt og oft kvíðin og þunglynd er ég reyna mitt allra besta að gefa henni lífið sem ég hefði þurft þegar ég var yngri. Hún gaf mér tilgang í lífinu og er ástæðan að ég er enn á lífi í dag, orð geta ekki lýst hvað ég er þakklát fyrir hana. Það fallegasta í heimi fá að vera mamma þín elsku Adríana mín❤️. Mamma elskar þig múslan mín 🐻

Munið elsku nýju mömmur þið eruð hetjur og þetta er svo erfitt en svo worth it! Og þetta verður betra🫶 ekki gefast upp. Börn eru svo gefandi og gefa manni ást sem maður hefur aldrei upplifað áður. Að hafa fætt er það magnaðasta í heimi og er og mun alltaf vera í sjokki hvernig ég fæddi bara barn í heiminn. Líkami konu er hreinlega bara ótrúlegur.

Áttavillt á leiðinni út

Ég fór í síðasta jógatímann minn í hádeginu fimmtudaginn 15. ágúst, gengin ákkurat 40 vikur, fjörutíu ára gömul, með fjórða barn. Ég geng alltaf vel og lengi með svo ég bjóst fastlega við að mæta í jóga í að minnsta kosti viku í viðbót, kannski alveg tvær. 

Kristbjörg ljósmóðir hefur fylgt mér í öllum mínum fæðingum og hjá henni hef ég líka fengið alla mæðravernd og heimaþjónustu, alveg samfellda þjónustu. Það er rosalegur lúxus. 

Ég hef alltaf farið af stað með því að missa vatnið svo ég gat ekki ímyndað mér að fara af stað einhvern veginn öðruvísi í þetta skiptið. Um kvöldið þennan fimmtudag fór maðurinn minn út og ég gaf krökkunum að borða, hafði einhverja tilfinningu og gat lítið gert annað en að rugga mér á jógaboltanum við matarborðið. Ég gladdist óskaplega þegar ég sá að slímtappinn var að losna, það var þá eitthvað á bakvið þessa tilfinningu hjá mér. Ég sendi Kristbjörgu ljósmóður skilaboð og reyndi að sofna snemma. Um nóttina vaknaði ég til að fara á klósettið og fann straum í öllum líkamanum, út í fingur og tær og vissi að það væri eitthvað meira að gerast. Um morguninn þegar ég rumska hugsa ég: Núna er vatnið kannski farið, dreg andann djúpt og gríp þetta síðasta augnablik þessarar meðgöngu í huganum. Ég rúlla mér fram úr rúminu og jú, vatnið lekur á gólfið og maðurinn minn vaknar við vatnsdropana.

Ekkert barn hefur nokkru sinni skorðað sig hjá mér svo ég lagðist bara aftur upp í rúm og sendi ljósmóðurinni skilaboð. Ég ætlaði að eiga heima eins og í öll hin skiptin. Skólinn var ekki byrjaður enn og þennan föstudag var meira að segja starfsdagur í leikskólanum. Það þýddi að öll fjölskyldan var heima og vakandi. Það var ákveðin pressa. Kristbjörg kom og hlustaði á hjartsláttinn og þreifaði bumbuna. Barnið óskorðað og í skrýtinni stöðu, líklega framhöfuðstaða. En ég komst á klósett, legvatnið lak út um allt og ég lagðist svo aftur upp í rúm. Fjögurra ára stelpan mín hvíslar stolt að mér að potturinn sé kominn upp inni í stofu.

Í öllum hinum fæðingunum mínum hafa öldurnar byrjað svona 1-2 klst eftir að ég missi vatnið en það gerðist ekki í þetta skiptið. Í staðinn eyddi ég deginum í læstri hliðarlegu á vinstri hliðinni til að fá barnið til að snúa sér og var hreinlega farið að leiðast. Ég reyndi hvíld, hugleiðslu, oxytocin vímu með yngsta barninu, örvun á geirvörtur, ilmkjarnaolíur og jurtir sem ljósmóðirin var með. Ekkert að gerast nema vatn út um allt. Kl 6 um kvöldið fara allir krakkarnir til afa síns og ég reyni að horfa á bíómynd með manninum mínum og við pöntum okkur mat. Næstum um leið finn ég fyrstu bylgjuna koma. Ég borða nokkra bita og svo fer maðurinn minn fram, ég var búin að biðja um að fá að vera sem mest ein. Barnið var þarna búið að snúa sér í betri stöðu en enn óskorðað.

Ég anda haföndun og gleðst yfir hverri bylgju, þakklát fyrir hverja og eina. Ég hlusta á Hypnobirthing slökunina mína og ímynda mér að ég sé að blása upp magann, eins og risastóra blöðru, og slaka niður í grindarbotn. Mér líður alveg rosalega vel. Alveg ofsalega vel. Um 9 eru bylgjurnar orðnar vel sterkar og ég sendi á ljósmóðurina að hún megi koma núna. Hún hafði kvatt okkur seinnipartinn eftir að hafa hangið heima hjá mér næstum allan daginn. Ég heyri manninn minn svæfa 4 ára stelpuna. 

Ég ligg ein í myrkrinu örugglega fram að miðnætti, með hypnobirthing á repeat og rosalega ánægð og hamingjusöm. Ég ákveð svo að ef ég ætli að fara í pottinn þá sé það núna. Er með noise cancellation heyrnartól og augnskýlu og strákarnir mínir tveir strjúka á mér bakið í pottinum meðan ég held áfram að hlusta á slökunina með lokuð augun. Bylgjurnar breytast eftir einhvern tíma, líkaminn byrjar ósjálfrátt að ýta og rembast. Ég veit að útvíkkun er lokið því ég er ekki að fá rembing bara í toppnum á bylgjunum heldur er öll bylgjan rembingur. 

Það er samt eitthvað aðeins að standa út af því ég finn enga enga tilfinningu um höfuð eða þrýsting ofan í grindinni svo ég fer upp úr pottinum, prófa að fara á klósettið. Ég tek svo á móti bylgjunum á dýnu á gólfinu en reisi mig upp og hangi um axlir og háls mannsins míns í bylgjunum. Ég prófa ýmsar stellingar, fer aftur á klósettið en allt er við það sama. Ekkert breytist. Eftir 3 klukkutíma af þessu er ég orðin ansi þreytt. 

Ég var búin að afþakka innri skoðanir fyrir fram og ljósmóðirin vissi að ég vildi helst ekkert vera neitt trufluð. Hún hlustaði af og til með doppler á hjartsláttinn hjá krílinu, annars var ég bara sjálf og ein að vinna ótrufluð með líkamanum sem mér fannst gott. En ég var orðin mjög þreytt og búin að prófa allt sem mér datt í hug. Ég var með rembing í öllum öldunum en ég hreinlega fann ekkert höfuð ofan í grindinni, engan þrýsting eins og ég hef alltaf fundið áður. Kannski var barnið bara enn óskorðað. Ég var orðin nokkuð viss um að barnið myndi ekki fæðast nema eitthvað breyttist og ég fann ákveðna uppgjöf. Ég vissi ekki hvað ég gæti gert meira. Klukkan var orðin um 4 um nóttina. 

Þarna segi ég ljósmóðurinni að ég sé orðin þreytt. Hún stingur upp á að halda og lyfta bumbunni í gegnum nokkra rembinga. Hún stendur þá fyrir aftan mig og heldur utan um bumbuna og lyftir meðan ég hangi á manninum mínum. Við tökum kannski 3 rembinga svona, þetta var mjög intense. Svo verð ég að fá einhverja hvíld, ég sit á gólfinu og halla bakinu upp að sófanum og reyni að hvíla mig og tempra rembinginn svo ég nái aðeins að safna kröftum. Ég ligg viljandi svona aflíðandi því ég vildi halda barninu eins nálægt hryggnum mínum og ég get, svo höfuðið rati vonandi rétta leið og þrýsti rétt á leghálsinn og ofan í grind.

Næst vill Kristbjörg að ég prófi að squatta djúpt við hurðarhúninn. Ég þarf að labba alveg 5m að næst hurðarhúni og fæ nokkra rembinga á leiðinni, ég labba líka svo hægt! Ég finn samt að nú er eitthvað búið að breytast, það er kominn þrýstingur aftur í átt að rassinum og reyni að tjá mig um það með takmörkuðum árangri. Ég reyni líka að drekka á þessum tímapunkti, ég sé það eftir á að ég hefði mátt vera duglegri að drekka yfir nóttina, þá hefði ég kannski ekki orðið jafn þreytt. Ég er svo í dágóða stund að koma mér í djúpt squat með sveigju á hryggnum en það var alls ekki jafn óþægileg stelling og ég hélt hún myndi verða. Við hurðarhúninn kom rífleg blæðing, þannig að Kristbjörg vildi gera innri skoðun. Ég var vel sátt við það á þessum tímapunkti enda sjálf orðin alveg mát á því af hverju það var ekki meira að gerast. 

Kristbjörg sagði að hún finndi vel fyrir kolli og staðfesti að útvíkkun væri lokið sem ég taldi mig vita að hefði gerst fyrir talsverðu síðan. En kollurinn var aðeins skakkur og krílið lá allt vinstra megin í bumbunni. Af einskærri ljósmóðurlist náði Kristbjörg að hnika kollinum svo hann lægi rétt og halda við bumbuna utan frá svo krílið færi inn að miðju og myndi nú vonandi takast að finna réttu leiðina út. Ég var eins og skjaldbaka föst á bakinu og gat mig hvergi hreyft og þurfti að biðja manninn minn um að hreinlega lyfta mér upp því ég vildi ekki takast á við öldurnar á bakinu, það finnst mér óþægilegasta stellingin af þeim öllum. Hann lyfti mér á fætur í einni lyftu og ég fann næstu bylgju skella á mér. Kristbjörg spurði hvaða stellingu ég vildi fara í en mér datt ekkert í hug, það var líka svo erfitt að hreyfa sig. Ég stóð því eins og valkyrja í gegnum þessa bylgju, með hendur um háls mannsins míns og kollurinn hreinlega datt í gegnum grindina og niður á spöngina. Ljósmóðirin var rosalega ánægð með þetta, ég líka, en aldrei hefði mér dottið í hug að ég myndi fæða standandi! Ég var á engan máta hæf til að skipta um stellingu og tók því á móti kollhríðinni líka standandi. Mér fannst undarlegt að vera svona standandi og það flaug í gegnum hausinn á mér að þetta barn myndi hreinlega hrynja niður á parketið, ég lagði allt traust mitt á Kristbjörgu sem myndi svo sannarlega þurfa að ,,grípa” þetta barn. Eftir á finnst mér alveg ótrúlega merkilegt og valdeflandi að ég hafi fætt standandi, við getum svo miklu meira en við höldum. 

Á þessum tímapunkti í fæðingu hef ég lært að slaka á og fara rólega. Nú liggur ekkert á. Auðvitað viltu klára þessa fæðingu og koma barninu í fangið sem fyrst en með smá rósemd á réttu augnabliki hefur mér alltaf tekist að fæða með heila spöng og ég ætlaði mér að endurtaka leikinn. Ætli þetta hafi því ekki verið 2-3 hríðar sem það tók kollinn að koma út. Ég leyfði líkamanum að stjórna. Og þyngdaraflinu. Kristbjörg spurði hvort ég vildi að hún héldi við og ég sagði bara já því þá myndi ég allavega finna fyrir henni þarna og vita að barnið myndi ekki gossa bara á gólfið. Kollhríðin sjálf er ekki nema örfáar sekúndur af blindri, óbilaðri trú á eigin líkama og algjörri eftirgjöf. Þegar höfuðið var komið út fann ég svo sterkt fyrir því þegar barnið snéri sér inni í mér til að axlirnar kæmust út í næstu hríð þar á eftir. Þyngdaraflið lét mig eflaust finna þetta svona sterkt. Afar sérstök tilfinning. 

Ég var svo glöð þegar barnið kom. Þakið fósturfitu og með stuttan streng vafinn um hálsinn. Barnið fór strax að gráta meðan Kristbjörg, maðurinn minn og ég héldum barninu upp við lærin á mér og en það tók smá stund að losa strenginn svo ég gæti tekið barnið í fangið. Öll börnin mín hafa fæðst með naflastrenginn um hálsinn svo ég veit vel að það er fullkomlega eðlilegt og ekkert til að hafa áhyggjur af. Það voru bara 17 mínútur liðnar frá innri skoðuninni. 

Elsti strákurinn minn, 12 ára, hafði sofnað örmagna á stofugólfinu bakvið fæðingarlaugina (ég vissi ekki að hann væri þarna) og pabbi hans vakti hann hlæjandi með hvítar hendur af fósturfitu og svo voru hin börnin vakin og þustu niður. 

Það var rosalega skemmtileg stund þegar öll fjölskyldan skoðaði litla krílið til að komast að því hvort þetta væri lítil systir eða lítill bróðir. Lítil stúlka reyndist það vera 😉

Litla dóttirin fór strax á brjóst. Það blæddi lítið sem ekkert en ég fékk sterka samdrætti því legið var að dragast hratt saman. Fylgjan fæddist 1 klst og 30 mín seinna þá voru strákarnir mínir sofnaðir aftur en 4 ára dóttir mín fylgdist með og fékk að klippa á naflastrenginn. Mikið rosalega var gaman að upplifa þessa fæðingu með allri fjölskyldunni en ofsalega voru allir þreyttir eftir þessa löngu nótt. 

Fjórða fæðingin mín varð því mín lengsta og átakamesta fæðing. Hún hefði orðið enn lengri ef ég hefði ekki haft svona hæfa og reynda ljósmóður til taks fyrir mig þegar ég vildi stuðning hennar og hjálp. Ég er samt svo þakklát fyrir að hafa fengið þennan tíma í útvíkkun ein og ótrufluð uppi í rúmi og að hún hafi ekkert truflað mig allan þennan tíma sem ég hékk á manninum mínum og dýnunni. Það er svo valdeflandi að eiga sína fæðingu sjálf.

Tólf ára strákurinn minn sem vakti næstum í gegnum þetta allt saman með mér. Hann náði því miður ekki að verða vitni að síðustu fæðingu eins og planað hafði verið.  Mér fannst svo gaman og gott að hafa hann hjá mér núna eins og hann hafði sjálfur beðið ítrekað um og við rætt í þaula. 

Hann sagði líka við mig daginn eftir:,,Mamma, þetta var algjörlega fullkomin fæðing”. Og það er rétt hjá honum. 

Síðan skein Sól

Undanfari

Barnið hafði skorðað sig á 36. viku og frá 38. viku var ég stundum að finna fyrir þrýsting niður í grind og seyðing neðst á baki og bumbu. Þegar nær dró fór ég að fá óreglulega „æfingasamdrætti“ sem komu á nokkurra daga fresti í svolítinn tíma og svo vikuna fyrir fæðingu var ég að fá þá á hverjum degi, stundum nokkrum sinnum á dag.

Fæðingin

Þann 19. desember var ég gengin 41 viku. Ég fann fyrir nokkuð sterkum samdráttum yfir nóttina og það kom smá bleikt í klósettpappírinn þegar ég þurrkaði mér eftir klósettferð. Um morguninn voru byrjaðir nokkuð reglulegir samdrættir með 5-7 mínútna millibili og við Róbert áttum rólegan morgun heima. Ég átti tíma í nálastungur og mæðravernd hjá Emblu, ljósmóður á Fæðingarheimili Reykjavíkur klukkan 12 og við fórum saman þangað. Ég lá í rúminu á fæðingarstofunni með nálarnar í klukkutíma, að þeim tíma liðnum kom Embla og fjarlægði þær. Í kjölfarið framkvæmdi hún belgjalosun og sagði okkur að leghálsinn væri mjög stuttur og mjúkur, u.þ.b. 2 cm í útvíkkun. Samdrættirnir síðustu daga höfðu verið að undirbúa okkur fyrir stóru stundina.

Við vorum komin heim um 13 leytið og samdrættirnir voru enn á 5-7 mín fresti. Við ætluðum að reyna að leysa þraut dagsins í jóladagatali sem við áttum en samdrættirnir voru orðnir svo kröftugir að ég gat ekki setið kyrr heldur varð ég að vera á hreyfingu þar til samdrátturinn byrjaði, þá þurfti ég að stoppa, styðja mig við eitthvað og anda mig í gegnum hann. Róbert notaði mjaðmakreistur til að hjálpa og mér fannst það mjög gott. Samdrættirnir voru á u.þ.b. 5 mín fresti í svolítinn tíma og styrkurinn hækkaði frekar hratt.

Við kveiktum á Spotify spilunarlista sem ég hafði búið til fyrir fæðinguna og ég ákvað að fara í sturtu sem hjálpaði mér mjög mikið. Ég skiptist á því að standa upprétt eða sitja á hækjum mér undir sturtunni með lokuð augun, fann fyrir dropunum lenda á mér og renna sér niður. Ég var í miklu slökunarástandi og andaði mig í gegnum kröftuga samdrætti, brosti svo til Róberts inn á milli sem var þarna hjá mér og skráði samdrættina. Kvíðinn sem ég hafði upplifað á meðgöngunni, varðandi fæðinguna, hvernig hún yrði og hvað gæti gerst var hvergi nær. Ég fann fyrir yfirvegaðri ró, gleði, tilhlökkun og ást. Um 16 leytið var ég ennþá í sturtunni og samdrættirnir farnir að vera á u.þ.b. 2 mínútna fresti. Róbert hringdi í Emblu til að láta hana vita og hún stakk upp á því að við myndum vera aðeins lengur heima þannig ég var í sturtunni í svona hálftíma í viðbót eða þar til að samdrættirnir voru farnir að vera mjög sterkir og á 1-2 mínútna fresti. Ég bað Róbert þá að hringja aftur og spyrja hvort við mættum koma á fæðingarheimilið sem var velkomið. Róbert hjálpaði mér úr sturtunni, aðstoðaði mig við að gera mig til og við mættum á fæðingarheimilið klukkan u.þ.b. 18 þar sem Embla tók á móti okkur og bauð okkur að koma inn á fæðingarstofu. Mér fannst rosalega gott að vera komin þangað, í hlýjuna og öryggið sem fyllti upp fallega herbergið. Embla framkvæmdi skoðun, það leit allt vel út og ég var komin 4 í útvíkkun. Samdrættirnir voru orðnir mjög kröftugir, með stuttu millibili og nú fór öll mín orka og einbeiting í að svífa á öldunum þegar þær komu og slaka alveg á þess á milli. Embla dempaði ljósin og lét renna í bað, Róbert kveikti á ilmkertum sem við höfðum tekið með og tónlist. Ég var komin ofan í baðið um 19, Róbert hélt köldum þvottapokum við ennið mitt og bringuna sem var mjög þægilegt en hann þurfti alltaf að fara frá til að kæla þá og á ákveðnum tímapunkti vildi ég bara hafa hann hjá mér þannig ég bað hann um það. Mér leið vel í baðinu en ég átti svolítið erfitt með að halda jafnvægi og að finna „rétta“ stellingu þar en ég var svo einbeitt og það var svo stutt á milli bylgja að mér datt ekki í hug að fara upp úr.

Ég byrjaði að finna fyrir rembingsþörf um 20 leytið en var þá komin 8 í útvíkkun, ég hlustaði á líkamann og var ekki að streitast á móti rembingsþörfinni en ég var ekki að rembast af fullum krafti heldur. Ég reyndi að „anda niður“ eins og ég hafði lært í myndbandi hjá doulu á youtube. Þarna fór að heyrast í frumkonunni sem ég hafði heyrt Helgu Reynis ljósmóður tala um, við fórum í fæðingarfræðslu hjá henni sem kom sér vel í fæðingunni. Mér fannst gott að anda niður en ég var ekki að ná að beina kraftinum nógu mikið í rembinginn, höfuðið rétt kíkti út og fór svo alltaf aftur inn, en það var góður undirbúningur sem hjálpaði með því að mýkja og teygja á svæðinu. 

Embla hringdi í Stefaníu, hina ljósmóðurina sem mætti stuttu seinna til að hjálpa. Hún tók líka fullt af myndum og einhver myndbönd því hún hafði lesið fæðingarplanið okkar þegar hún mætti þar sem stóð að við myndum endilega vilja að teknar yrðu myndir ef hægt væri. Ég tók svosem ekki mikið eftir því sem var að gerast í kringum mig þar sem ég fór svo mikið inn á við og var svo rosalega einbeitt alla fæðinguna. Ég var að anda mig í gegnum hverja bylgju fyrir sig, hugsandi að hver bylgja færi mig nær því að fá barnið okkar í fangið. Um 22 leytið var ég beðin um að fara upp úr baðinu og prófa að fara á klósettið, ég gerði það og fann fyrir miklum þrýsting. Eftir það langaði mig að prófa að koma mér fyrir í rúminu, þar sem ég var orðin þreytt og fann að ég þurfti að ná fullri slökun á milli bylgjanna, sem ég var ekki að ná í baðinu. Ljósmæðurnar gerðu rúmið tilbúið fyrir mig, ég lagðist á hliðina og Róbert lagðist hjá mér á því litla plássi sem ég hafði skilið eftir fyrir hann. Ég náði betri slökun milli bylgja í rúminu og það var mjög gott að hafa Róbert hjá mér, hann og Stefanía skiptust á að hjálpa mér að lyfta efri löppinni þegar ég þurfti að rembast á meðan Embla lagði heitan bakstur við spöngina og beið þess að taka á móti barninu. Þau voru öll með ótrúlega góða nærveru, hvetjandi og yndisleg. Embla spurði hvort ég vildi finna fyrir kollinum, sem ég gerði og mér fannst mjög hughreystandi að finna að hún væri alveg að koma.

Ég hætti að reyna að anda niður vegna þess að ég vildi ná að rembast af meiri krafti og fann strax mun. Þá fór þetta að ganga frekar hratt fyrir sig, stuttu seinna fann ég fyrir því að höfuðið var loksins að komast út og það tók nokkrar bylgjur. Í kjölfarið voru bara nokkrar bylgjur í viðbót þar til Embla tók á móti yndislegu stelpunni okkar og rétti mér hana. Samkvæmt myndunum var höfuðið komið út klukkan 23:34 og 23:36 fékk ég hana í fangið. Ég heyrði gráturinn hennar þegar hún var á leiðinni út og tók við henni þegar Embla rétti mér hana, talaði við hana og veitti henni hlýju, öryggi og nánd. Við kúrðum saman fjölskyldan og fundum fyrir einskærri hamingju og skilyrðislausri ást. Emilía Sól var loksins komin að lýsa upp heiminn okkar. Eftir að dágóður tími hafði liðið þá klippti Róbert naflastrenginn, hún var lögð á magann á mér og var ótrúlega sterk, skreið um og leitaði að brjóstinu sem hún fann að lokum með smá aðstoð.

Hún drakk hjá mér í rúman klukkutíma, Róbert lá við hliðina á okkur og það var ótrúlega notaleg stund sem mér mun alltaf þykja rosalega vænt um. Fylgjan kom klukkan 00:15, Stefanía sýndi okkur hana og fræddi okkur aðeins. Á einhverjum tímapunkti var ég deyfð og Embla hóf saumaskap, sem ég tók varla eftir. Þegar Emilía var búin að drekka þá fékk pabbi hennar að vera með hana húð við húð. Svo fórum við með hana á skiptiborðið, ljósmóðirin framkvæmdi skoðun þar sem allt leit mjög vel út, hún mældist 52 cm og vó 4050 g. Við nýbökuðu foreldrarnir fengum svo að setja á hana fyrstu bleyjuna og klæða hana í fyrstu fötin. Um 3 leytið var hún klædd og komin í fallegu bastvögguna við hliðina á rúminu okkar þar sem hún sofnaði fljótt. Við vorum á Fæðingarheimilinu yfir nótt og fórum svo heim daginn eftir. Embla sinnti heimaþjónustunni, veitti okkur ótrúlega góðan stuðning og var alveg yndisleg.

Fyrstu dagarnir

Dagana eftir fæðinguna var ég með einhverja verki í kviðnum sem við héldum að væri mögulega ristilkrampi, en þegar Emilía Sól var orðin 4 daga gömul þá var verkurinn orðinn staðbundinn neðarlega hægra megin og óbærilegur, ég var komin með hita og gat varla hreyft mig. Við hringdum í Emblu sem ráðlagði okkur að fara á kvennadeildina og hringdi þangað fyrir okkur. Róbert þurfti að gera Emilíu tilbúna og allt sem henni fylgdi, svo þurfti hann að hjálpa mér að klæða mig í föt og að komast út í bíl. Ég emjaði og grét alla leiðina þangað, ég hef aldrei á ævi minni fundið fyrir svona miklum sársauka. Eftir skoðanir og myndatökur kom í ljós að botnlanginn minn hefði sprungið og að ég myndi fara í aðgerð daginn eftir, þann 24. desember. Róbert og Emilía fengu að vera hjá mér sem var rosalega gott. 

Ég þurfti að liggja á bakinu í rúminu með halla og gat varla hreyft mig, Róbert og starfsfólkið á deildinni þurftu að hjálpa mér að gefa Emilíu brjóst með því að hjálpa mér að færa mig til hliðar, leggja kodda við hliðina á mér og leggja hana á koddann þannig hún gæti drukkið hjá mér og svo að færa mig aftur til hliðar, leggja kodda hinum megin og leggja hana á hann. Þetta var erfitt en mér þótti mjög vænt um þessar stundir þrátt fyrir erfiðleikana og var ótrúlega þakklát fyrir að geta gert þetta fyrir hana. Auk þessa þurfti hún að fá ábót og ég þurfti að pumpa mig reglulega til þess að ná upp brjóstamjólkinni. Það var mjög erfitt að fara frá Róberti og Emilíu þegar ég þurfti að fara í aðgerðina, ég var alveg svolítið hrædd og grét á leiðinni þangað. Þegar ég var komin rétt náði ég að sjá eitthvað fólk, svo taldi einhver niður og ég vaknaði á vöknun. Ég hugsaði strax til fjölskyldunnar minnar sem beið eftir mér og bað um að fá að hringja, Róbert svaraði mér, það var ótrúlega gott að heyra röddina hans og ég heyrði að það var léttir fyrir hann að heyra mína. Svo hringdi ég í alla mína nánustu og lét vita að aðgerðinni væri lokið og að það væri í lagi með mig. Ég fékk vökva og sýklalyf í æð auk þess sem ég fékk reglulega verkjastillingu. Ég var enn mjög verkjuð og þurfti aðstoð við að hreyfa mig, en það var hugsað ótrúlega vel um okkur og Róbert var ótrúlega duglegur að sinna okkur mæðgum. Við eyddum jólunum á spítalanum, höfðum það huggulegt þrátt fyrir allt og opnuðum pakkana frá hvort öðru. Ég var dugleg að hreyfa mig með aðstoð Róberts og vöggunar hennar Emilíu þar til ég var farin að geta hreyft mig án mikillar aðstoðar þó það væri enn svolítið vont. Mér fór batnandi með hverjum deginum en það tók samt langan tíma fyrir mig að ná mér almennilega og ég held að líkaminn sé ennþá að jafna sig, auk þess sem þetta hafði einhver áhrif á andlega líðan. Mér leið eins og ég væri að missa af því að eiga „eðlilega“ fyrstu daga með Emilíu og brjóstagjöfin átti í högg að sækja. En það var dásamlegt að fá að vera með fjölskyldunni yfir þetta erfiða tímabil og ég naut þess að kúra með Emilíu Sól mér við hlið, gefa henni brjóst, syngja fyrir hana og spjalla við hana. Hún var ljós mitt í myrkri og Róbert kletturinn okkar.

Ég útskrifaðist af spítalanum 28. desember og við héldum upp á aðeins öðruvísi jól með mömmu. Daginn eftir fékk ég sterkari verki og hita, hringdi á deildina og fékk tíma í blóðprufu morguninn eftir. Ég kjagaði um allt vegna verkja og átti ennþá erfitt með að hreyfa mig án aðstoðar en ég mætti á spítalann í blóðprufu og hitti svo einn af læknunum sem sá um mig. Hann sagði eftir niðurstöður og skoðun að þetta hefði ekki verið það sem hann hefði viljað sjá. Hvítum blóðkornum hafði fjölgað, ég var með hita og mjög verkjuð. Hann bað sjúkraflutningamann að sækja mig í hjólastól og fara með mig upp á 13D.

Það þurfti að taka nýjar myndir og ég þurfti að vera fastandi á deildinni þar til búið væri að skoða þær. Róbert og Emilía komu til mín og eftir einhvern tíma kom í ljós að það væri gröftur í kviðarholinu þar sem botnlanginn hafði sprungið og ég þurfti að fá meiri sýklalyfjagjöf í æð, auk þess sem þurfti að koma fyrir dreni. Við eyddum næstu dögum á 13EG og byrjuðum nýja árið með stæl. Ég losnaði á endanum við drenið og þann 3. janúar fengum við loksins að fara heim. Ég átti að taka sýklalyf um munn en las á sérlyfjaskrá að ekki mætti taka þau með brjóstagjöf og ákvað að hringja á deildina, konan sem svaraði ætlaði að tala við lækni. 

Tengdaforeldrar mínir komu í heimsókn og ætluðu að elda fyrir okkur jólamat en þá hringir deildin og segir mér að ég þurfi að koma og vera áfram á sýklalyfjum í æð vegna þess að ég skipti um lyf í miðri meðferð vegna útbrota og þurfti að vera lengur á því nýja. Ég vildi bara vera heima með fjölskyldunni minni þannig ég ákvað að mæta frekar fjórum sinnum á sólarhring í meðferðina, kl. 6, 12, 18 og 24. Síðasta sýklalyfjagjöfin kláraðist kl. 00:30 þann 6. janúar og ég fékk loksins að vera bara heima að hafa það huggulegt með yndislegu fjölskyldunni minni. Embla, dásamlega ljósmóðirin sem tók á móti Emilíu, sinnti heimaþjónustunni og sýndi mér ótrúlega mikinn stuðning í gegnum þessa erfiðu tíma kom og hjálpaði okkur að gefa Emilíu Sól fyrsta baðið sitt. Við tók bataferli heima, brjóstagjafir og brjóstapumpu sessions, kúr og notalegar stundir sem fjölskylda. Ég gerði mitt allra besta og vann hart að því að reyna að ná upp brjóstagjöfinni, fékk aðstoð og stuðning frá Edythe sem er brjóstagjafarráðgjafi á fæðingarheimilinu og náði að gefa henni brjóst í 5 mánuði þrátt fyrir veikindin. Þá var engin breyting á magninu sem hún fékk hjá mér, ég var orðin uppiskroppa með orku til þess að reyna að breyta því og Emilía farin að mótmæla þannig ég slakaði á þessu og þar af leiðandi fór framleiðslan minnkandi þar til við tókum síðustu brjóstagjöfina. Emilía dafnaði mjög vel, mér fór batnandi með hverjum degi sem leið og við fjölskyldan höfðum það ótrúlega gott. Þegar ég horfi til baka myndi ég ekki vilja breyta neinu, þetta mótaði okkur sem fjölskyldu og ég er ótrúlega ánægð með okkur eins og við erum. Ég er mjög þakklát fyrir lífið, heilsuna, fjölskylduna mína og alla sem studdu við okkur.

Fæðingarsaga Lukku

Litla ljósið okkar ákvað að koma í heiminn um morguninn 11 febrúar 2022 klukkan 05:28, rúmlega 5 tímum eftir settan dag. Hún valdi sér nafnið Lukka Rún Gilbert. Fæðingin var einstaklega göldrótt og falleg á heimilinu okkar í Hvalfirðinum. Við fjölskyldan erum endanlaust þakklát fyrir því að hafa átt tök á því að fæða heima – án deyfingu, hláturgas eða verkjalyfja. Í stað þess vorum við með ilmkjarnaolíur og kirsuberja Sun Lolly til handa, vel valda tónlist, og helling af kertaljósum, með Katrínu ljósu og Ösp nema til aðstoðar, og elsku Kristján, maka minn, sem ómetanlegur stuðningur í gegnum allt ferlið. Fæðingarsagan hefst eftir að hafa gist í bænum hjá mömmu minni og pabba í tvær nætur vegna tveggja daga óveðurs og óvissu með færð. Við vorum nýkomin aftur heim í Hvalfjörðinn 9. febrúar og það var eins og Lukka hafi vitað að nú væri í lagi fyrir hana að láta sjá sig, en seinna um kvöldið fór ég að finna fyrir léttum hríðum.

Næsta dag lagðist bjart og fagurt vetrar veður yfir fjörðinn, sólin glampandi í snjóþakinni birkiskógarhlíð með mildri þoku yfir hafsútsýnið sem leiðir að borginni. Til þess að taka sem best á móti hríðunum, sem voru stöðugt að aukast, þá nýtti ég þess að leggjast í heitapottinn og setja á fæðingar tónlistina mína. Um 17.00 leitið létum við Katrínu ljósmóður vita að verkirnir voru farnir að aukast verulega og hún sagðist vilja leggja af stað til okkar úr bænum þegar það væru komnar 8-10 mín á milli hríða í að minnsta lagi klukkustund. Seinna um kvöldið, áður en við náðum að sofna, voru hríðarnar komnar á 6 mín millibil, en það entist ekki í nema 40 mín fyrr en þær hægðu svo aftur á sér. Við vorum bæði smá óróleg að sjá hvað myndi eiga sér stað um nóttina, en þá var ég að vakna á 20-30 mín millibili með þunga verki í legi og mjóbaki.

Ekkert skeði þessa nótt og næsta dag urðu verkirnir mildari en héldu áfram óreglulega. Seinna um kvöldið, eftir kvöldmat, lagðist ég aftur í pottinn í rúmlega tvær klukkustundir undir stjörnubjörtum himni og glampandi norðurljósum og beið þolinmóð eftir því að hún kæmi. Klukkan slær 23:00 og ég er orðin ansi mjúk og lipur. Þá rís ég upp úr pottinum og leggst upp í rúm að bera á mig olíublöndur, teygja mig smá og hugleiða – en þá voru verkirnir virkilega farnir að rífa í. Ég átti erfitt með að átta mig á því hvenær verkirnir voru að byrja eða taka enda, en ekki virtist núna vera nema 3 mínútur á milli hríða. Óviss fer ég fram og segi Kristjáni að ég haldi að þetta sé allt að fara að gerast. Ég sit og rugga mér á æfingarboltanum að ræða þetta við hann þegar það hellist yfir mig einskonar “trans” tilfinning, ég fæ léttan svima, sting í fingurnar og hjartað fór að slá hraðar. Ég er lent í öðrum heimi.

Kristján hringir þá í Katrínu til að láta hana vita og fyllir fæðingarlaugina af vatni, á meðan ég kem mér fyrir á júdó dýnunni á öllum fjórum að rugga mér fram og til baka á æfingarboltanum. Þegar Katrín mætir klukkutíma seinna, klukkan sirka 00:30, gat ég ómögulega komið mér fyrir í annarri stellingu. Hún reynir að fá mig til að leggjast í sófann svo að hún geti skoðað mig en ekki gat ég setið í meira en 10 sekúndur fyrr en verkirnir urðu óbærilegir í þeirri stellingu. Þá kemur í ljós að litla Lukka mín hafi snúið sér bak í bak og er að þrýsti svona harkalega á mjóbakið mitt. Ég kem mér svo fljótlega fyrir í lauginni en er þar að rembast við sársaukann í gegnum söng og öskur fram að loka sprettinum. Kristján var hjá mér allan tímann að heila mig og veita mér góðan stuðning, leiða mig, anda í takt við mig, og minna mig á að Anda, Slaka, Treysta. Á tveim tímapunktum fann ég fyrir einskonar “Kundalini” titring niður allann hryggjaliðinn, sem var fyrir mér einhverskonar áminning um að þetta ferli væri svo miklu stærra en ég – ég stjórnaði engu, nema því að sleppa tökunum.

Rétt fyrir 05:00 hvatti Katrín mig til að koma upp úr lauginni og færa mig inn í svefnherbergi. Ég vildi alls ekki leggjast upp í rúm þar sem ég vissi að ég gæti ekki legið á bakinu, en við færðum okkur yfir og byrjuðum á því að setjast aðeins á klósettið. Á þessum tímapunkti var ég með svo mikla verki að mér leið eins og ég væri að fara að gefast upp og fara að gráta. En ég vissi að ekki væri aftur snúið þannig í hvert skipti náði ég að hrista af mér fórnarlambið og í staðinn sækja í villikellingar orkuna og koma upp góðu GARGI í staðin fyrir tárum. Ég vildi nú ekki taka á móti henni á klósettinu, þannig við komum mér á fætur og upp í rúm, aftur á fjórar fætur. Katrín var búin að vara mig við að þegar höfuðið kæmi að lokum myndi ég finna fyrir tilfinningu sem kallast “RING OF FIRE.” Sú tilfinning entist í gegnum þrjár hríðir en þá hafði ég komið mér í standandi stöðu, með Katrínu á gólfinu fyrir aftan mig og Kristján sitjandi á rúminu fyrir framan mig að styðja við mig. Fáum mínutum seinna kom hausinn og búkurinn með stuttu millibili og áður en ég vissi af því var ég komin með hana í fangið! Ég tárast við að skrifa þetta, því á þeirri stundu brást ég í grát, hjartað að springa, þakklát því að sársaukinn væri búinn, orðlaus yfir fegurð hennar og ástfangin á einhvern hátt sem hefur áður ekki verið partur af mínum raunveruleika. Ég var orðin móðir.

Þegar hún fæðist var hún með naflastrenginn í kringum hálsinn, en Katrín var fljót að bregðast við. Áður en ég vissi af var ég farin að fæða fylgjuna, sem mér var búið að kvíða fyrir því ég hafði heyrt að það væri svo sársaukafullt, en var það alls ekki og ekki var verra að vera komin með Lukku í fangið. Katrín aðstoðaði mig við það með því að draga fylgjuna út þannig ég þurfti ekki að hafa jafn mikið fyrir því. Að því loknu, skoðar Katrín skaðann og segir mér að ég hafi ekkert rifnað sem var mér líka mikill léttir, enda var hún svo lítil, einungis 2560g eða 9 merkur, 49 cm í lengd og 31,5 í höfuðmáli. Litli gullmolinn minn, hún Lukka Rún.

Hneta kom í heiminn

Það var ekki eftir neinu að bíða, ég var gengin 40 vikur og 6 daga og bað ljósuna um að hreyfa við belgjum, þetta barn var meira en velkomið í heiminn. Þetta var þriðja barnið mitt, ég gekk vel og lengi með hin tvö líka, lengst 41 viku og 6 daga, og fannst því ekkert að vanbúnaði að reyna að koma þessu af stað. Ég ætlaði að eiga heima, alveg eins og í tvö fyrri skiptin.

Eftir ljósmæðraheimsóknina bauð ég 5 ára stráknum mínum í göngutúr í skammdeginu, ég hugsaði með mér að þetta gætu vel verið síðustu stundirnar áður en nýtt barn bættist í fjölskylduna. Hann vildi fara langt en ég var hikandi, vildi spara orkuna aðeins. Leið samt vel, hafði enga fyrirvaraverki eða seiðing og samkvæmt Kristbjörgu var ég með rétt um 2-3 í útvíkkun. Ég hafði samt einhverja tilfinningu sem ég vissi ekki alveg hvort ég þyrði að hlusta á. Við keyptum nýburableyjur og enduðum þennan göngutúr á því að labba óvart inn á opnunarhóf á Lífsgæðasetri St. Jó og bárum þar forsetann augum áður en við rákumst fyrir slysni á Kristbjörgu heimafæðingarljósmóðurina mína í eigin persónu þarna á staðnum og aðra ljósmóður sem var með henni. Sú ljósmóðir fékk að þreifa bumbuna þarna á ganginum en þrátt fyrir það var enn óljóst hvort barnið væri búið að skorða sig.

Ég vaknaði kl 9 næsta morgun og hugsaði með mér að ég þyrfti að fara að velta mér og þessari stóru bumbu fram úr þegar ég fann örlitla bleytutilfinningu. Fyrri fæðingarnar tvær hófust báðar með því að ég missi vatnið og því taldi ég mig vita hvað væri að gerast og stökk fram úr rúminu eins og engispretta. Það var eins gott því það kom risa gusa niður á milli fótanna á mér, ég hefði getað verið að leika í Hollywood mynd þetta var svo mikið vatn sem bara gusaðist niður og ætlaði engan endi að taka. Ég heyri ennþá hljóðið í höfðinu á mér. Fssssssssss. Svona hafði ég aldrei upplifað, í fyrri skiptin tvö var þetta bara pollur sem kom. Ég tók upp símann, vissi að strákarnir mínir tveir væru komnir í skóla og leikskóla en vissi ekki hvar maðurinn minn var. Hann svaraði og ég sagði um hæl: „Vatnið er farið“. Ég heyrði hann brosa í símann. Sem betur fer var hann bara inni í stofu og kom upp til mín þar sem ég stóð í stöðuvatni á svefnherbergisgólfinu. Það þurfti tvö stór baðhandklæði til að þurrka herlegheitin upp! Ég lagðist aftur upp í rúm og við hringdum í Kristbjörgu. Ekkert barnanna minna hefur skorðað sig og þetta barn var heldur ekki skorðað. Kristbjörg dreif sig af stað til okkar til að hlusta á hjartsláttinn sem var sterkur og góður og enn var barnið ekki skorðað.

Kristbjörg hvatti mig til að liggja bara og hvíla mig. Ég fór á klósettið og lagðist svo upp í rúm, kveikti á kerti og hlustaði á fallega tónlist. Ég var mjög þakklát fyrir að vera bara í eigin rúmi og fá ljósmóðurina til mín. Kristbjörg kvaddi fljótt, átti von á nokkrum til sín í mæðravernd fyrir hádegið og að við ættum bara að heyra í henni. Ég dorma og hlusta á Spotify playlistann og sem ég hafði sett saman og slökun úr Hypnobirthing. Ég var með hitapoka og maðurin minn strauk mér af og til um bakið. Fullt af hugsunum þutu gegnum höfuðið á mér, ég var spennt og óþreyjufull og vonaði að allt myndi ganga vel og ég hugsaði um hvenær barnið myndi fæðast og hvernig dagurinn yrði og ég kæmist ekki í hádegistímann í jóga og alls konar skrýtnar hugsanir komu fram. Það var stutt í kvíðann en ég hafði fengið svo mikinn jákvæðan boðskap í jóga og heilaþvegið sjálfa mig með jákvæðum staðhæfingum og fæðingarsögum að kvíðinn var kvaddur í hvert sinn sem hann bankaði upp á. Ég var samt ekki komin með neinar reglulegar bylgjur.

Að lokum tek ég af mér noise-cancellation heyrnartólin til að segja bara eitt orð við manninn minn: Kristbjörg. Hann segir að Kristbjörg sé á leiðinni, hann sé nú þegar búinn að hringja í hana. Hann sagði mér seinna að hann hefði heyrt mig gefa frá mér kunnugleg hljóð sem urðu til þess að hann ákvað að kalla Kristbjörgu til okkar án þess að trufla mig. Ég hafði greinilega bara mallað rólega í gang og klukkan er um 12 á hádegi þegar Kristbjörg kemur. Ég tók aldrei tímann á milli hríða og vissi ekkert hvað klukkan var, einbeitti mér að því að slaka á og hafa höfuðið á réttum stað.

Ég veit að Kristbjörg er komin því hún færir heyrnartólin mín og segir: „Ef þú vilt komast í vatnið, þá þarftu að koma núna.“ Ha?, hugsa ég, skil ekki af hverju hún segir þetta svona og spyr hvort laugin sé tilbúin. Jú, allt tilbúið svo ég gríp tækifærið milli bylgjanna og næstum hleyp niður stigann og inn í stofu. Ég fæ aðstoð við að klifra ofan í laugina og svo ligg ég bara í vatninu með heyrnartólin mín og augnskýlu, sé ekkert og heyri ekkert og veit ekkert hvað er að gerast í kringum mig. Af og til segi ég „Næsta lag“, en þá var Spotify playlistinn minn löngu búinn og nú var Spotify að spila bara eitthvað svipað. Einhver hélt á símanum mínum og ýtti á næsta lag. Maðurinn minn rétti mér kaldan þvottaklút sem ég hélt á enninu og þrýsti á augun í hverri bylgju. Hann var líka með vatnsglas með röri og kókosvatn með röri. Alveg hreint frábær þjónusta hjá mínu fæðingarteymi!

Ég byrja að fá rembingsþörf í toppunum á bylgjunum en það var kunnugleg tilfinning úr síðustu fæðingu. Af því rembingurinn var bara í toppunum en ekki alla bylgjuna, þóttist ég viss um að útvíkkun væri ekki lokið og rembingurinn því til lítils nema þá að þreyta mig. Hérna er öndunin ómetanleg og í toppunum keppist ég við að halda niðri ákefðinni í rembingnum. Ég hugsa að ég þurfi að drífa mig að klára útvíkkunina svo ég haldi orkunni. Ég segi: „Vil ekki rembast“. Ég get ekki sagt neitt meira, það er svo erfitt fyrir mig að tala í fæðingu. Kristbjörg svarar og segir að ég sé að standa mig vel en ég held að hún og allir viðstaddir haldi að ég sé komin lengra en ég er. Reynslan úr fyrri fæðingum sagði mér að núna vantaði mig tilfinninguna fyrir kollinum í grindinni, svona eins og þrýstingur á beinin í grindinni, það er þá sem rembingurinn er að skila einhverju fyrir mig, veit ég af fyrri reynslu. Ef beinin eru ekki að ýtast í sundur þá er þessi rembingur ekki að gera neitt. Ég vil leiðrétta þennan misskilning og bið því um innri skoðun ofan í vatninu. Það var auðveldara að fá innri skoðun en að ég færi að útskýra eitthvað að ég héldi að rembingur væri ótímabær, það er svo erfitt að tala. Varðandi innri skoðunina þarna segir Kristbjörg: „Ef þú vilt, allt á þínum forsendum“. Þetta var eina innri skoðunin í allri þessari fæðingu og hún var bara gerð af því ég bað um hana. Kristbjörg segir að það sé töluvert eftir og að það sé þykk og mikil brún á leghálsinum. Gott, hugsaði ég því ég fékk grun minn staðfestan: útvíkkun var ekki lokið. Rosalega er ég fegin að hún sagði enga tölu við mig. Ef ég hefði heyrt 5 þá hefði ég farið að gráta. 

Ég ákvað að reyna eitthvað annað til að klára útvíkkun svo ég fór á klósettið. Ekki gat ég pissað og ekkert gerðist en rembingsþörfin minnkaði örlítið, kannski bara af því ég stóð upp og hreyfði mig. Ég var algjörlega í eigin heimi og leyfði mér að sökkva djúpt inn í sjálfa mig. Líkaminn minn myndi vita hvað ég ætti að gera til að klára þessa útvíkkun.

Ef einhver hefði sagt mér að ég myndi geta staðið og tekið á móti bylgjunum þannig i fæðingu þá hefði ég hlegið. Samt var það ákkurat það sem líkamanum fannst góð hugmynd á þessum tíma og ég hlustaði á likamann. Það var hvort sem er svo erfitt að klifra upp í laugina aftur. Svo ég stóð upprétt á stofugólfinu og notaði kantinn á lauginni mér til stuðnings. Enda kláraðist útvíkkunin þarna á kannski 20 mínútum. Fyrir mér voru þetta svona 2 til 3 bylgjur. Kannski voru þær miklu fleiri í rauninni, ég hafði ekki hugmynd um hversu langt var á milli og það var gott. Tímaleysið þjónaði mér vel. Það blæddi víst vel þarna, ég fann blóð leka, en kannski var þetta legvatn? Ég er ekki viss. Ég var ekki vitund hrædd, ég hugsaði bara Aaaahhhhh. Þetta hafði verið svipað í fyrstu fæðingunni minni og blóð þýddi að leghálsinn var að opna sig hratt. 

Svo fann ég skyndilega breytingu á bylgjunum og nú var rembingurinn mættur. Rosalega var það góð tilfinning, ég vissi að það erfiðasta var að baki. Ég kastaði mér á 4 fætur á pullu á gólfinu og veslings Kristbjörg og ljósmóðurneminn að bisa við að koma undirlagi undir mig. Ég, sem rétt áðan hafði staðið eins og valkyrja, sagði nú: Ég get ekki hreyft mig og það var hverju orði sannara. Ég var samt orðin mega peppuð og bað manninn minn um að færa mér orkustykki úr frystinum sem ég hafði búið til svo ég hefði nú orku fyrir þetta og það alveg hlakkaði í mér. Ég var svo peppuð þarna á pullunni með orkustykkið mitt að ég man ég hugsaði að nú væri HÚN að koma og mér fannst góð hugmynd að skíra hana Hnetu (örugglega innblásin af orkustykkinu). Við vissum ekki kynið sko, þarna bara rauk það upp í kollinn á mér að þetta barn væri stelpa.

Stærsti munurinn á fyrstu fæðingunni minni og seinni tveimur er ákkurat á þessum punkti en í fyrsta skipti var ég heillengi að koma höfðinu niður grindina. Það tók alveg 2 klukkustundir í fyrstu fæðingu en nú gerðist þetta bara í einum rembing og þá er höfuðið komið á spöngina. Ég vildi gera allt til að forðast að rifna svo ‘ljúflega’ varð mitt mottó. Einn rembingur og ekkert höfuð sást en ég fann það hreyfast neðar inni í mér. Svo finn ég höfuðið renna upp þegar bylgjunni lýkur. Annar rembingur og höfuðið færist niður og sést. Svo rennur það aftur upp og hverfur. Þriðji rembingur og höfuðið kemur niður og hálft út og stoppar þar. Þarna er eldhringurinn og mig langar mest að klifra út úr eigin skinni. Ég reyndi mitt allra besta til að hægja á rembingnum í þessu ferli, ljúflega, ljúflega, ljúflega, þú ert ekki að flýta þér, vandaðu þig, ómaði í kollinum á mér og það þurfti allt sem ég átti til hemja kraftinn. Eftir bylgjuna slakar á sviðanum því höfuðið færist aftur aðeins inn. Næsta bylgja kemur fljótt af miklum krafti og höfuðið skýst út og ég man eftir að hafa beðið í nokkrar mínútur með heitt höfuðið milli læranna á mér, vitandi það að bara ein bylgja væri eftir af þessari fæðingu. Það er mjög sérstök tilfinning að vera með heilt höfuð standandi út úr sér, ég þorði ekki að hreyfa mig, beið og beið í það sem virtist heil eilífð.

Hún fæðist svo beint á pulluna, bara svona dettur næstum út. Ég sest á hækjur mér og horfi á þetta barn og já það var stelpa! Ég safna orku til að lyfta henni upp í fangið og hlæ og kyssi manninn minn. Ég þurfti í alvöru að safna orku, ég skalf einhvern veginn og hló og grét. Hún var með dökkt hár og þakin fósturfitu á höfði og baki, hin börnin mín fæddust nánast alveg laus við fósturfitu og með gegnsætt hár. Hún var grá eins og öll börn eru þegar þau fæðast og hún hafði líka kúkað í fæðingunni, það var svartur kúkur á henni og á fótunum á mér. Þetta var því ágætlega subbulegt allt saman býst ég við en ég var upptekin við annað og ljósmæðurnar þessar elskur þrifu allt og gerðu fínt 🙂 Pulluna góðu (sem ljósmæðurnar þrifu einhvern veginn) á ég enn og tek fram á vorin því þetta er pulla sem breytir pallettu í garðhúsgagn.

Við færum okkur svo upp í sófa og ég set litlu stelpuna á brjóst. Fylgjan kemur fljótlega, alveg áreynslulaust. Strákarnir mínir koma svo heim, þeir voru sóttir í skólann. Þeir klippa naflastrenginn sem þeir sögðu eftir á að hefði verið mjög erfitt því hann var svo seigur. 

Ég grínaðist með það við Kristbjörgu að ég hefði svo sannarlega fætt þetta barn á skrifstofutíma, missti vatnið klukkan 9 og barnið var fætt fyrir 4. Ekkert næturbrölt á mér þetta skiptið. Það þurfti heldur ekkert að sauma og sængurlegan gekk eins og í sögu. Ég var ekkert að drífa mig af stað, eyddi örugglega heilum mánuði uppi í sófa með lillunni minni.

Ástarjátning föðurs

Motherhood

Að kvöldi bjartrar sumarnætur sátum með vinum í sófanum og deildum berjate-i af tegundinni „Motherhood“ sem rímaði fyllilega við andrúmsloft liðinna mánaða. Í þeim fjögurra manna hópi sem stóð að te-supplinu voru tvær konur sem báru barn undir belti, þó svo að í tilviki annarrar þeirra væru þær upplýsingar ekki orðnar opinberar og voru umræðurnar í anda þess. Eftir að vinir voru kvaddir seint kvölds mætti mér alvarlegur svipur á andliti Katerynu – „Matti, þetta er byrjað“. Samdrættir voru þó vægir og langt leið á milli þeirra og við sem útskrifuð vorum úr hvorki fleiri né færri en fjórum fæðingarnámskeiðum og parameðgöngujógakvöldi vissum að ekki var tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu. Vaknað var seinna þá nóttina og sífellt jukust verkirnir og ég fékk tækifæri til að sýna hve vel ég hafði fylgst með á áðurnefndum námskeiðum. Nótt þessi rennur mér seint úr minni en hún einkenndist af haf-öndun, köldum þvottapokum á enni og heitum bakstri á mjóbakið- sem ilmaði af poppkorni sem rekja mátti til helsta tilgangs örbylgjuofnsins þaðan að. Sem sprenglærðir akademíkar í fræðum ljósmæðra, töldum við okkur hafa allar forsendur til þess að bruna upp á fæðingardeild á Akranesi þegar komið var undir morgun, enda ekki nema 3-4 mínútur á milli samdrátta sem hver fyrri sig entist í um 90 sekúndur. Ljósmóðirinn sem rætt var við í símann þegar lagt var af stað var ekki eins sannfærð og við um að tíminn væri kominn en sagði okkur þó velkomin. Samdrættirnir hættu nánast alfarið á meðan á keyrslunni stóð – sem þó var lengri en vonir stóðu til vegna þess að Hvalfjarðargöngin voru lokuð vegna framkvæmda og stressaðir verðandi foreldrar neyddust til að taka rómantískan rúnt um Hvalfjörðinn á leiðinni. Eftir stutta skoðun frá ljósmóður vorum við send heim að nýju, vonsvikin en þó staðráðin í því að mæta áskorunum í þessu ferli af bjartsýni og jákvæðni.

Ólýsanlega falleg

Sagt hefur verið að óléttar konur sem langt eru komnar beri með sér einskonar fegurðarljóma (e. glow). Í háði hafa konur í þeirri stöðu bent á ýmis einkenni óléttu sem vart teljast samræmast hefðbundnum hugmyndum um fegurð kvenna. Eftir þá reynslu að fylgjast með Katerynu í gegnum 41 vikna óléttu, því ferli að veita barninu líf og fæða það í heiminn að mér viðstuddum get ég með sanni sagt mig meðal þeirra sem tala um fegurðarljómann. Ekkert magn af maskara, meiki, púðri eða varalit, enginn þröngur kjóll eða glitrandi hælaskór, engin litun og engin plokkun hafa nokkurn tíma ljáð konu jafn ólýsanlega fegurð og fæðing Nadíu ljáði Katerynu. Það er nefnilega þannig að engin hugsanleg athöfn er jafn náttúrulega kvenleg og einmitt sú. Með alvarlegan og staðráðin svip á dauðþreyttu andlitinu lá hún í rúminu og vann sig í gegnum hríð eftir hríð af stakri einbeitingu, með risastóra bumbuna og svitann lekandi af vöngum sínum – fullkomin fegurðardís sem stuttu síðar varð mamma barnsins míns.

„Ég get ekki meira“

Dagarnir og næturnar sem fylgdu sýndust saman renna eins og þoka við sjónarrönd á hafi úti. Tíminn einkenndist af skemmtilegu spjalli okkar hjónanna á milli, stöku bíómynd sem reglulega var sett á pásu þegar samdrættir létu á sér bera og af tilraunum okkar til að njóta þessarar mögnuð vegferðar sem fyrir okkur stóð. Á tímum máttum við gleyma því verkefni sem framundan var, og samdrættirnir einungis til þess fallnir að trufla okkur við að fylgjast með afdrifum Jennifer Lopez í gervi viðskiptakvendis eða annars sem fyrir bar á sjónvarsskjánum. Á öðrum stundum mátti hvorugt okkar mæla af einbeitingu við að komast yfir sársaukann sem tíðum samdráttum fylgdi – ég í aukahlutverk við að lina þjáningar aðalhetjunnar, Katerynu – sem af stórkostlegum innri styrk sínum sigraðist á hverjum samdrættinum á fætur öðrum. Ég hef aldrei efast um styrk hennar og göfgi en á þessum tíma gat ég vart hamið aðdáun mína og lotningu fyrir þeirri stórkostlegu konu sem konan mín hefur að geyma. Það var því með öllu ljóst hvað koma skyldi á aðfaranótt Sunnudags, þegar hún þrýsti af alefli milli samanbitinna tanna sinna eftirfarandi setningu: „Ég get ekki meira, Matti.“ Stuttu áður en þangað var komið höfðum við átt samtal við aðra ósannfærða ljósmóður á Akranesspítala sem ekki taldi tilefni til athafna í ljósi þess hve stuttan tíma Kateryna hafði verið vakandi með svo tíða samdrætti. Við héldum af stað og í þetta skiptið voru samdrættirnir engu minni eða færri þegar í bílinn var komið. Bílferðin var sem allra óþæginlegust – skyndilega virtist leiðin til Akraness engu styttri en til Hornafjarðar og til baka. Ekki bætti það úr skák þegar Katerynu tilkynnti mér að verkir sínir höfðu nú komist á annað skref, svokallaðar rembingshríðar sem sannarlega veitti mér tilefni til að rjúfa þann snefil af innri kyrrð sem eftir var í iðrum mínum og kalla fram í huga mér vofu ofsakenndar örvæntingar. Af stakri tillitsemi við aðstæður takmarkaði ég þó útrás þessarar örvæntingar við aukin hraðakstur og tíðari óumbeðnar athugasemdir til Katerynu um að allt væri í lagi og að við kæmum brátt á spítalann. Eftir u.þ.b. 1874 km akstur frá Mosfellsbæ til Akraness komum við að læstum dyrum Heilbrigðisstofnunnar Vesturlands. Ég renndi fingrunum ítrekað yfir allar mögulegar bjöllur sem finna mátti við innganginn, ekki ósvipað því hátterni sem haft var við þegar gert var dyraat í Breiðholtinu hér á árum áður. Eftir stutta könnun ljósmóður var haldið til fæðingarstofu þá þegar – barnið var að koma núna, strax.

Toppurinn fjarlægður

Það höfðu einungis liðið um 5 mínútur eftir að Kateryna hafði komið sér fyrir á fæðingarrúminu þegar henni var bent á að e.t.v. væri réttast að hún skyldi fjarlægja toppinn sinn – svo leggja mætti barnið beint á brjóst þegar það kæmi. Skilaboð þessi komu báðum verðandi foreldrum í opna skjöldu þar sem þau færðu til raunveruleikans það merkilega atferli sem var að eiga sér stað. Biðtíminn eftir barninu frá því komið var upp á fæðingardeild var svipaður og eftir 16 tommu pítsu frá Dómínós á föstudagskvöldi – Nadía fæddist ca. 25 mínútum eftir komu á spítalann. Að vera vitni af komu hennar í heiminn er merkilegasta hlutskipti mitt í lífinu til þessa. Í einni hríð, eftir að kollurinn kom í ljós, skaust hún út í sigurkufli. Ég horfði slímugan, grábrúnan, pokann springa með látum er hann snerti rúmmið og eftir lá líflaust barnið á maganum, þakið eigin hægðum. Tvær skelfilegar sekúndur liðu uns lítil lungu drógu sinn fyrsta andardrátt og rödd þess ómaði um eyru stoltra foreldra í allra fyrsta sinn. Yfirþyrmandi léttir skók líkama minn og sál þegar ég sá fullfrískt barnið mitt í örmum fullfrískrar konunnar minnar. Þessu var lokið og á sama tíma var það rétt að byrja.

Dramatíkin

Ýmsu hefur verið haldið fram um foreldrahlutverkið sem ég hef ekki samsvarað við mína reynslu. Eitt er að þó að sem rétt er, enda eflaust með augljósari ábendingum sem verðandi foreldrar fá gjarnan, en það er að hlutskipti þetta er engu líkt. Þrátt fyrir að teljast með dramatískari persónuleikum í flestum félagslegum hópum í mínu umhverfi hefur það ekki komið fyrir mig fyrr en núna að tár streyma niður andlitið af einskærri hamingju. Þegar þessi orð eru skrifuð er Nadía 2 mánaða gömul og enn þann dag í dag kemur það fyrir að hnútur kemur í magann og gæsahúð myndast á örmum mér af þakklætinu fyrir þá staðreynd eina að tilvist hennar sé staðreynd. Í augum hennar speglast einskært sakleysi sem eru mér áminning um þá fegurð sem fyrirfinnst í heiminum. Ekkert gerir mig jafn óstöðvandi í eigin augum og þegar sár grátur hennar víkur fyrir svefni vegna vögguvísu sem kemur frá vörum minum. Nadía hefur hjálpað mér að ná hæðum á lífsins leið sem ég voru mér að öllu leyti ókunnugar áður fyrr. Geislandi bros hennar eða sár grátur, spyrjandi augnaráð eða rólegur andardráttur svefnsins eru sem vörður í vegferð að einskærri hamingju sem til er kominn fyrir tilstilli nýrrar tilfinningar í hjarta mér. Það er óbeisluð, skilyrðislaus, yfirþyrmandi ást.

Matthías nýbakaður faðir
Matthías, Kateryna og Nadia litla

Fæðingarsagan mín

Þessi fæðingarsaga var upphaflega birt á lady.is en er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi Guðrúnar.

Ég var sett 15. ágúst 2015. Föstudaginn 14. ágúst fer ég á heilsugæsluna að hitta ljósuna mína til að athuga stöðuna á mér. Litla stelpan mín var ennþá óskorðuð og ég var ekki komin með neitt í útvíkkun. Ég var pínu svekkt. Mig verkjaði svo mikið í grindinni að ég haltraði af sársauka. Brjóstsviðinn var heldur ekki að hjálpa til, ég beið bara eftir því að það kæmi kolamoli uppúr mér. Það var ekki mikill svefn þessa dagana vegna verkja í grindinni. Á mánudeginum (17.ágúst) fór ég í nálastungur og hreyft var við belgnum, daman var enn óskorðuð. Daginn eftir, á þriðjudeginum, byrjaði ég að fá samdrætti og versnuðu þeir með kvöldinu og nóttinni. Á miðvikudagsmorgninum áttum við pantaðan tíma hjá fæðingarlækni, en hún átti að meta hvort það ætti að setja mig af stað. Ég var nefnilega með mjög stóra kúlu.

Á þessari mynd er ég gengin 36 vikur en kúlan stækkaði ennþá meira í lokin.

Ég fór í auka vaxtasónar á seinni hluta meðgöngunnar og var talið að barnið mitt yrði allavegana um 18 merkur þegar það myndi fæðast.

Það er reyndar oft mikil skekkja í þessum mælingum þannig að þetta var ekki pottþétt. En þennan miðvikudagsmorgun fórum við uppá deild og þá var daman loksins skorðuð og ég komin með 2-3 í útvíkkun. Það var hreyft aftur við belgnum og við svo send heim að leggja okkur. Ég gat ekkert sofið og leið ekkert mjög vel. Við áttum að fara aftur uppá deild um klukkan 18 til að athuga stöðuna. Allt var óbreytt og ég var send heim með verkjalyf og svefnlyf. Ég gat loksins sofið eitthvað smá en vaknaði 4 um nóttina með mikla verki. Við fórum uppá deild og ég var lögð inn. Á fimmtudagsmorgninum var ég með 5-6 í útvíkkun. Um 10 leitið gat ég ekki meira af sársaukanum og fékk mænudeyfingu. Þvílíkur munur! Ég gat loksins andað venjulega, slakað á og sofnað! Með næsta barni ætla ég að biðja fyrr um mænudeyfingu, ekki spurning. Klukkan 13 var aftur tekin staðan og ég með um 6 í útvíkkun og hríðarnar voru mjög óreglulegar. Belgurinn var sprengdur líka. Um klukkan 16 þegar þriðja ljósmóðirin kom á vakt þá sagði hún að belgurinn hafði ekki verið nógu vel sprengdur þannig að hún gerði það aftur. Ég fékk einnig dripp til að reyna auka hríðarnar en þær voru ennþá mjög óreglulegar. Klukkan 20 um kvöldið kom ljósmóðirin inn til okkar og sagði að þetta væri ekki að ganga svona og að hún ætlaði að ná í stelpuna. Ég skildi ekkert hvað hún var að meina.. ná í stelpuna? Hvernig ætlaði hún að gera það eiginlega. Ég spurði hana dauðþreytt og ringluð „haa ætlaru að ná í hana“. Já hún ætlaði bara að ná í hana sagði hún aftur. Þá spurði Óli hvort hún væri þá að meina með keisara, og jú hún var að meina það. Ég fór að hágráta. Tilfinningarnar voru útum allt og ég búin að bíða og bíða eftir að geta fætt barnið mitt og svo allt í einu átti bara að skera mig upp. En ég var fljót að jafna mig, ég var svo þreytt og langaði bara að fá barnið mitt strax. 20 mínútum seinna var stelpan okkar komin í heiminn eða klukkan 20:18. Hún var 17 merkur og 52 sentimetrar.

Ágústa Erla komin í heimferðarsettið 

Fyrirburahetja

Loksins kom ég mér að því að setjast í ró og næði og skrifa söguna mína.
Þetta er mín fyrsta meðganga en Árni á eina dóttur fyrir. Meðgangan gékk eins og í sögu fyrstu mánuðina og leið mér rosa vel að vera ólétt fyrir utan örlitla þreytu sem stafaði af járnskorti og auðvelt að laga þegar það var vitað.

Þegar ég var gengin 21 viku fékk ég flensu sem ég hafði litlar áhyggjur af fyrr en á þriðja degi þá verð ég vör við örlitla blæðingu, ég hafði samband við ljósmóður inn í Keflavík sem segir þetta í það litlu magni að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur. Á fimmtudeginum 2 dögum seinna er ég ekki ennþá orðin hress og þá blæðir aðeins aftur, en eins og seinast þá er það í svo litlu magni að líklegast var um slímhúða blæðingu að ræða. Ég átti morgun flug til Boston daginn eftir og Árna var ekkert að farið að litast á blikuna því ég var ekkert að hressast og vildi að við mundum biðja um skoðun áður en ég færi í flug. Á fimmtudagskvöldið fórum við upp á Lsh og fengum skoðun og eftir langa bið þá kom í ljós að ég var komin með 3 í útvíkkun og belgurinn byrjaður að síga. Ég var ekki gengin 22 vikur og okkur því tjáð að því miður sé ekkert hægt að gera til að bjarga fóstrinu og ég væri komin afstað í fæðingu.Við fengum herbergi á sængurkvenna ganginum og okkur sagt að slaka á og reyna að sofa.Við vorum í vægast sagt miklu sjokki og ég trúði bara ekki að þau gætu ekkert gert til að bjarga barninu mínu, ég fann hann hreyfa sig og á sama tíma er verið að reyna að segja mér að þetta sé búið.

Um morguninn voru komnar niðurstöður úr blóðprufu sem var tekin og það kom í ljós að ég var ekki með neina sýkingu þannig að þetta væri leghálsinn sem væri að opnast og byrjaður að gefa sig. Í ljósi þess að enginn sýking væri þá voru þau tilbúin til að fara í bráðaaðgerð til að sauma leghálsinn saman en þá væri samt meiri hætta á að í aðgerðinn mundi belgurinn rofna. Við urðum að taka lokaákvörðina hvað við vildum gera en ég var gengin 22 vikur þarna og við viku 23 þá er fóstrið orðið barn og þá er allt gert til að reyna að bjarga því. Við ákváðum að þiggja neyðarsauminn og treysta á að belgurinn mundi ekki rofna. Aðgerðin tókst og við tók algjör rúmlega fyrir mig. Markmiðið var að ná allaveganna 7 daga rúmlegu og allt aukalegt yrði guðsgjöf.

Ég náði að liggja í tæpar 2 vikur en þegar ég var gengin 23v4d þá var ég komin með sýkingu og örlítið legvatn byrjað að leka. Ég fór beint á sýklalyf og við trúðum því að við mundum sigra þessa sýkingu. Á miðvikudagskvöldi þá gengin 23v5d þá fékk ég fyrsta verk um hálf 8 um kvöldið. Þarna vissum við strax hvað mundi gerast í framhaldinu og fórum strax að hugsa hvað við vorum heppin að hafa náð fram yfir þessi mörk en hræðslan og óvissan var svo mikil þrátt fyrir það. Ég var komin upp í fæðingarherbergi um hálf ellefu með töluverða verki og 6 í útvíkkun. Hann var í höfuðstöðu og því var ekki gripið til keisara en þau voru viðbúin öllu því hann hafði nóg pláss til að hreyfa sig um í belgnum. Við vorum með æðislega ljósmóður og allt fagfólk sem mögulegt er að hafa var hjá okkur bæði kvennalækna og eins sérfræðinga í nýburum tilbúna til að taka á móti honum. Ég var með mikinn hita og slappleika út frá sýkingunni sem ég var með og langaði bara að klára þetta. Ég fékk þó aldrei neina rembingstilfinningu að ráði þannig að þetta tók mun lengri tíma en áætlað var í upphafi. Þær voru allar svo varkárar og vildu helst ekki grípa inn í á neinn hátt en svo ákvað ljósmóðirin að sprengja belginn. Stuttu eftir það eða kl 03:24 kom litli agnarsmái drengurinn okkar svo í heiminn eftir 23v6d meðgöngu 658 gr og 32 cm. Hann fæddist lifandi en andaði ekki. Kristín sérfræðingur í nýburum og teymi frá vökudeildinni tekur við honum og það tekur 10 mínútur að fá hann til að svara öndum í gegnum öndunarvélina. Þessi tími var endalaus en á sama tíma var ég svo dofin og langaði bara til að fá að sjá hann. Hann fæddist með sýkingu sem hann fær frá mér í móðurkviði og því mjög erfiðir dagar framundan og ástandið tvísýnt.

Hann er þvílíkur baráttukarl og eftir 110 erfiða daga þá var hann útskrifaður af vökudeild og þá hefði ég verið gengin 39v3d.

Í dag er hann flottur 1 árs strákur, hetjan okkar!

💙

Hypnofæðing Dagmar

Kæru konur – verðandi mæður.

Mig langar að deila með ykkur fæðingarsögunni minni af okkar öðru barni. Þessi fæðing var svo mögnuð upplifun og þess vegna er það skylda mín að miðla henni til ykkar í þeirri von um að þið finnið hvatningu og hugrekki til að takast á við þetta allra stærsta verkefni okkar kvenna – að koma barni í heiminn. Með fyrra barn gekk ég 14 daga framyfir settan dag og því sett í gang með öllum þeim ofsa og stjórnleysi sem því fylgir – mér fannst það erfitt. Núna þremur árum síðar var ég gengin 5 daga framyfir settan dag og aðeins nokkrir dagar í jól. Sökum yfirvofandi jólafrís þá var fæðingardeildin búin að bóka fyrir mig gangsetningu daginn fyrir gamlársdag. Allar frumur líkamans herptust saman við þá tilhugsun og ég þráði ekkert heitar en að þetta færi af stað af náttúrunnar hendi. Ég biðlaði til minnar yndislegu ljósmóður á fæðingardeildinni á Akranesi – Hafdísar Rúnarsdóttur að gefa mér nálastungur þennan fallega eftirmiðdag í desember. Ég hafði verið með samdrætti nánast alla meðgönguna og sérstaklega er leið á. Barnið var búið að skorða sig langt niður í grindina og ég var heldur betur tilbúin í þetta verkefni. Á báðum meðgöngum var ég í yogatímum hjá Auði Bjarnadóttur og hennar gyðjum og haföndunin var fyrir löngu orðinn hluti af sál minni og líkama. Mér hafði nýverið áskotnast bók um Hypnobirthing sem ég las í einum rykk en þar opnaðist mér alveg ný sýn og skilningur á fæðingarferlinu. Sérstaklega fannst mér áhugavert að lesa um sögu fæðinga í gengum árþúsundin. Það að setja okkur inn í sama mengi og dýrin og náttúruna hjálpaði mér að skilja grunnelementin sem þurfa að vera til staðar í fæðingu – friður og öryggi. Dýrin finna sér rólegan stað, eru yfirveguð og treysta því að að líkaminn stýri ferlinu sjálfur. Þau koma afkvæmum sínum í heiminn á hljóðlátan og yfirvegaðan hátt á þeim tíma sem líkaminn þarf í þetta verkefni. Í raun á það nákvæmlega sama við um okkur nema við mannfólkið höfum einnig það stóra verkefni að reyna að hafa stjórn á huganum – svo að hann taki ekki yfir. Mér tókst að tileinka mér þessar hugmyndir og öndunartækni að einhverju leyti en hvort ég gæti notfært mér í fæðingunni yrði að koma í ljós. Það er mikilvægt að vera algjörlega æðrulaus gagnvart fæðingarferlinu. Það fer eins og það fer.

Í nálastungunum leyfði ég ljósunni að skoða mig því ég var svo viss um að ég væri hægt og rólega byrjuð að opna fyrir krílinu. Sem var og rétt því ég var komin með 4 í útvíkkun þá þegar. Við maðurinn minn ákváðum að fara heim og borða kvöldmat með dóttur okkar og koma henni fyrir hjá ömmu og afa og bjuggumst svo við að fara aftur upp á skaga um nóttina. Ég var vissulega mjög spennt en á sama tíma pollróleg, því ég hafði einsett mér að halda ró og yfirvegun. Klukkan 19 fór ég að fá greinilega verki með samdráttunum. Ég tímasetti þá og þeir voru fljótlega orðnir taktfastir þannig að við settum tösku í bílinn og keyrðum aftur af stað á Akranes. Í hverri öldu notaði ég haföndunina. Því sárari verkur – því ýktari og kröftugri öndun. Svo gat ég hlegið og spjallað á milli og ég man hvað það var stórkostleg tilfinning að finna að ég réði við þetta! Ég var komin inn í eitthvað ferli sem ég varð strax hluti af – einbeitti mér að önduninni og fór eins mikið inn í hana og hægt er. Við komum upp á deild kl 20:30 og Hafdís sem var enn á vakt gerði baðið tilbúið fyrir mig. Ég rúllaði út yogadýnunni minni og á milli þess sem öldurnar riðu yfir settist ég á hækjur mér og vaggaði mér til hliðanna til þess að greikka leiðina niður fyrir krílið. Er aldan reið yfir lagðist ég út af og hvarf algjörlega inn í öndunina. EInhverjir þekkja eflaust hvernig það er að leika sér í sjónum í sólarlöndum í miklum öldum. Maður þarf að stinga sér inn í öldurnar og gefa eftir – leyfa öldunni að grípa sig og bíða eftir að yfirborðið róist. Þá kemst maður aftur upp á yfirborðið og bíður eftir þeirri næstu. Stundum kasta þær manni til undir yfirborðinu og þá er mikilvægt að gefa eftir og streitast ekki á móti heldur bíða eftir að yfirborðið róist. Því ef maður berst við ölduna þá finnur maður vanmátt sinn og getur auðveldlega orðið skelkaður, farið að ofanda og þá örmagnast maður fljótt… Nákvæmlega svona upplifði ég þetta fæðingarferli.

Smám saman stækkuðu öldurnar mínar og ég ákvað að fara í baðið. Ég fékk óstöðvandi sjálfta á tímabili sem eru viðbrögð líkamans við kraftinum í samdráttunum og andaði þá að mér glaðlofti nokkrum sinnum og sjálftinn stöðvaðist við það. Ofan í baðinu sat ég á hnjánum og hélt þessu ferðalagi mínu áfram í gegnum öldurnar. Á milli þeirra fékk ég alltaf stutt hlé til þess að opna augun og kyssa manninn minn og finna hvatninguna úr augum hans. Ég bað hann að þrýsta með fingrunum á þriðja augað er ég fór inn í öldurnar – það var kraftmikið og hjálpaði verulega. Það var eins og ég færi algjörlega inn í sjálfa mig þegar öldurnar riðu yfir, og ég einbeitti mér djúpt að eins hægri útöndun og ég réði við hverju sinni. Einbeiting og slökun er algjört lykilatriðið í fæðingu – að einbeita sér að önduninni, þá sérstaklega útönduninni. Við vorum öll í flæði og trausti yfir því að allt væri eins og það átti að vera. Enginn var að pæla í klukku eða tímanum á milli hríða, útvíkkun eða neinu slíku. Við vorum bara þarna saman í þessu verkefni. Smám saman ágerðust öldurnar, urðu stærri en samt var alltaf hlé á milli til þess að jafna mig og búa undir næstu. Á einhverjum tímapunkti þurfti ég að pissa og ljósan sagði mér bara að pissa í laugina ef ég vildi, til þess að trufla ekki slökunina og þetta flotta flæði sem ég var í. Svo fór ég að finna meiri og meiri þrýsting niður á opið og fann að það styttist í þetta. Ljósan skrapp fram að ná sér í kaffi og kom svo aftur og ég sagði henni að ég fyndi mjög aukinn þrýsting niður með hverri hríð. Hún stóð úti á gólfi með kaffibolla í hendinni og sagði við mig hlý og brosandi “þá máttu bara byrja að rembast elskan”. Örfáum sekúndum síðar kom þessi mikli þrýstingur sem ég andaði niður í af öllum kröftum – og viti menn kollurinn þrýstist út. Hafdís, sem átti alls ekki von á þessu frekar en ég, stökk til með hendurnar ofan í vatnið tilbúin að taka á móti. Ég fann eitthvað springa í vatninu og það reyndist vera belgurinn sem fram að þessu hafði verið órofinn. Ég sogaði allt loft til mín sem ég gat á næstu innöndun og á útönduninni komu axlir og svo kroppurinn. Barnið var fætt á fjórum mínútum í tveimur hríðum. Klukkan var 23:45. Ég settist í sætið í baðinu og fékk í fangið fullkomna stúlku dásamlega kraftmikla. Öll vorum við jafnhissa og skellihlægjandi yfir þessari ótrúlegu fæðingu. Með öndun, slökun og einbeitingu hafði mér tekist að leyfa líkamanum að koma barninu niður og svo þrýsta því út.

Það sem mér fannst merkilegast í hypnobirth fræðunum var að höfundur bókarinnar vill meina að hinn dæmigerði rembingur með tilheyrandi öskrum og djöfulgangi sé algjörlega röng hugsun, það sé í raun eitthvað sem hafi komið til með vestrænni sjúkrahúsmenningu. Við þurfum bara að anda – slaka og treysta og beina önduninni og orku niður á við. Líkaminn mun sjá um að þrýsta á hárréttum tímapunkti. Ég hafði lesið hypnobirth fæðingarsögur þar sem þessu er lýst en eftir fyrri reynslu átti ég bágt með að trúa að þetta væri virkilega hægt. En núna veit ég að þetta er mögulegt. Ég var róleg og yfirveguð allan tímann, fyrir utan eitt móment í kollhríðinni með miklum sársauka þar sem mér fannst ég í augnablik missa stjórn og rak upp vein og kastaði mér um hálsinn á eiginmanni mínum, en þetta augnablik var jafnskjótt liðið hjá því stúlkan var fædd. Ég fylgdi líkamanum og lét öndunina fylgja samdráttunum alveg þar til stúlkan fæddist. Daginn eftir var stysti dagur ársins, en jafnframt sá bjartasti síðustu mánaða. Fullt tungl, heiðskýrt og sjórinn spegilsléttur fyrir utan herbergisgluggan okkar. Stúlkan fékk nafnið Dagmar.

Ég var hátt uppi á hormónum eftir þessa mögnuðu fæðingu, og mun fljótari að jafna mig á allan hátt, heldur en ég var eftir fæðingu fyrsta barns. Legið dróst ótrúlega hratt saman – ég var dugleg að drekka hindberjalaufste fyrir og eftir fæðingu sem ég er viss um að hafi hjálpað. Þó svo að saumaskapurinn hafi verið andstyggilegur eftir báðar mínar fæðingar þá grær líkaminn á undraverðan hátt, bæði hratt og vel og áður en maður veit af þá er allt orðið heilt á ný. Það er mikið á okkur lagt en við getum þetta allar sem ein.

Gangi ykkur vel.

Birta

Frábær fæðing þrátt fyrir gangsetningu og meðgöngueitrun

Ég var komin 41 v + 6 daga þegar ég var sett af stað, ég hafði kviðið svolítið fyrir þessum degi þar sem ég bjóst ekki við að þurfa að fara í gangsetningu. Ég upplifði það sem pínu vonbrigði að líkaminn minn hafi ekki bara gert þetta sjálfur. Ég sem hafði átt frábæra meðgöngu, lítil sem engin ógleði, fékk enga grindargliðnun og leið almennt vel, en þar sem ég var ólétt af fyrsta barni hafði ég engan samanburð, en miðað við þær sögur sem ég hafði heyrt og lesið var ég heppin. Undir lok meðgöngunnar var ég þó kominn með mikinn þrýsting niður í lífbein og fann fyrir mikilli þreytu. Ég ákvað að hlusta á líkamann minn og hætti að vinna þegar ég var komin rúmar 36 vikur.

Fannst tíminn þó líða heldur hægt en ég notaði tímann til að prjóna, fara í jóga hjá Auði  og undirbúa mig og dútla fyrir nýja heimilið, en við Eyvindur vorum nýlega búin að kaupa okkur íbúð sem við vorum að gera upp og markmiðið var að flytja inn áður en litli fæddist. Þannig vikurnar voru teknar í rólegheitum. Ég var mikið að dunda mér heima með mömmu þar sem hún var hætt að vinna. Var að prjóna vettlinga og trefil til að reyna að láta tímann líða. 

Settur dagur var 2. febrúar en ég hafði það á tilfinningunni að hann myndi koma aðeins seinna en það, svona 6-7 febrúar. Sá dagur leið og ekkert gekk og eftir 40 -41 vikurnar var þetta farið að reyna heldur á andlegu hliðina þar sem hann hefði geta komið hvenær sem er. Ég reyndi þó að nýta tímann eins og ég gat og hvíla mig en ekkert gerðist, þannig ég var oft að skreppa í búðir og stússast eitthvað fyrir íbúðina eins og ég treysti mér til.  Ég lét hreyfa við belgnum í 40+5 skoðun hjá ljósmóðurinni en það var ekki einu sinni hægt, fór í nálastungur, labbaði um Ikea og fleiri búðir, borðaði ananas en allt kom fyrir ekki. Ljósmóðirin pantaði svo tíma fyrir mig í gangsetningu til öryggis, en ég var frekar smeyk við að fara í gangsetningu og vildi helst fara sjálf af stað svo dagurinn var ákveðinn eins langt frá og hægt var.

Daginn fyrir gangsetningu fórum við Eyvindur í síðustu sundferðina og fórum í ísbíltúr og fengum okkur bragðaref hjá Huppu , það var frekar súrrealískt að hugsa til þess að þetta væri síðasti dagurinn sem við yrðum bara tvö.  En það var mjög gott og eftirminnilegt að eiga svona stund saman.

Gangsetningardagurinn, 15. febrúar rann upp og vorum við mætt upp á landsspítala kl 8 um morguninn í monitor. Ég var mæld vel og vandlega, en þar sem blóðþrýstingurinn var orðinn nokkuð hár þá var ég send í blóðprufu. Ljósmóðirin mældi mig og var ég komin með 1 í útvíkkun og náði hún að hreyfa við belgnum. Ég fékk svo fyrstu töflu kl 10 og var send heim með spjald og átti að taka eina töflu á tveggja tíma fresti. Við stoppuðum í bakaríinu og fengum okkur morgunmat og ætluðum að taka því rólega.

 Verkirnir urðu þó fljótt heldur verri og þegar ég kom heim gat ég varla setið. Ég fékk svo símtal frá spítalanum kl 13:30 um að niðurstöðurnar úr blóðprufunum sýndu að ég væri komin með byrjunareinkenni á meðgöngueitrun svo þau vildu fá mig upp á deild og átti ég að taka töflurnar hjá þeim. Það var pínu skrítið að hugsa til þess að ég myndi að öllum líkindum ekki fara aftur heim nema með barnið með mér. Mér fannst það þó líka ákveðinn léttir þar sem ég vissi að ég þyrfti ekki að vera að spá í tíma á milli samdrátta og ákveða hvenær tími væri kominn til að fara á spítalann. Þegar þarna var komið við sögu var ég nýbúin að taka 3 töflur og samdrættirnir voru búnir að versna talsvert. Við pökkuðum í rólegheitum í töskurnar og gat ég rétt svo staulast út í bíl og var bílferðin ekki þægileg. Þegar upp á deild var komið var kl um 14:30 og þá fékk ég fína stofu með baði. Það var settur á mig mónitor til að fylgjast með hjartslætti mínum og barnsins út af eitruninni og þurfti ég að vera með hann á mér allan tímann. Kl 15:30  voru vaktaskipti og fékk ég fínar ljósmæður og nema sem sáu mjög vel um mig, þær Margréti og Ingunni. Þar sem átti að reyna að hraða ferlinu aðeins út af eitruninni var stungið gat á belginn um kl 16 og fossaði vatnið út um allt í nokkrum skiptum. Þá var ég komin með 2-3 í útvíkkun. Kl 17 fór ég svo í baðið og var það mjög þægilegt. Hríðirnar urðu þó fljótt frekar harðar og var stutt á milli. Þá kynnti ljósmóðurneminn hún Ingunn mig fyrir glaðloftinu sem átti heldur betur eftir að vera besti vinur minn í þessarri fæðingu. Það komu tímabil þar sem mig  langaði að fá mænudeyfingu vegna verkjanna en þá hefði ég þurft að fara upp úr baðinu og það vildi ég ekki, heldur vildi ég vera þar sem lengst þar sem verkirnir virtust dofna í baðinu. Ákvað ég því að taka stöðuna aftur eftir klukkutíma. Klukkan 18 var svo útvíkkunin könnuð aftur og var ég komin með 4 í útvíkkun. Verkirnir voru alveg orðnir rosa vondir en ég náði að anda með jógaönduninni sem ég lærði í jóganu hjá Auði í gegnum glaðloftsgrímuna og tókst mér að halda ró minni og góðum takti með því. Í eitt skipti losnaði þó gasið frá grímunni þegar ég var í miðri hríð og eina sem ég gat var að öskra GAS GAS, eins og ég væri komin í  lögregluaðgerð í hruninu að spreyja táragasi.

Einnig var ég með jógamöntrurnar  á í græjunum og er ég ekki frá því að það róaði mig. Jógaundirbúningurinn hjálpaði mér mjög vel  Um 19 leytið fékk Eyvindur sér svo hamborgara í kvöldmat sem pabbi hans skutlaði til hans en ég hafði enga matarlyst, eina sem ég gat komið ofan í mig var gatorate og vatn. Mér fannst skrýtið að finna hamborgaralykt á meðan ég var að kveljast í baði, sem er reyndar frekar fyndið að hugsa til svona eftirá.  Kl 20 var svo tekin staðan aftur og var ég komin með 8 í útvíkkun. Þá var eiginlega orðið of seint fyrir mænudeyfingu og ákvað ég að harka þetta af mér þar sem ferlið var búið að ganga svo vel. Það var því aðeins farið að hraða á ferlinu. Út af meðgöngueitruninni þá mátti ég ekki eiga í baðinu og voru það svolítil vonbrigði. Mér var hjálpað upp úr baðinu um kl 20:30 og um 21 leytið var einhver brún eftir, svo kom einhver rembingur og um 21:20 var ég komin með fulla útvíkkun.  Mér fannst best að vera á fjórum fótum og var spítalarúmið ekki beint hannað til þess, ég náði því að liggja á hlið og með löppina upp Ég byrjaði að rembast. Það var enginn smá kraftur sem kom með þessum rembingi og öskraði ég með hverri hríð. Ljósmæðurnar sögðu mér þó að reyna að nota orkuna freka í að remba honum út í staðin fyrir að öskra og emja. Ég tók ráðleggingunum og einbeitti mér að því og þá fór þetta að rúlla. Eftir 3-4 rembinga kom höfuðið út og hann skaust svo út í næstu hríð í einu lagi kl 21:46. Stór og flottur strákur. 4252 gr og 52.5 sm og grét hann kröftuglega við fyrsta andardrátt. Mömmuhjartað fæddist á þessarri stundu. Ég fékk hann beint á bringuna og var ekki farið að líða á löngu fyrr en hann var farinn að sjúga brjóstið eins og hann hafi aldrei gert neitt annað. 

Ég þurfti svo að fæða fylgjuna og gekk það ágætlega, en þar sem belgirnir urðu eftir þurfti að bíða svolítið eftir þeim sem er eitthvað sem ég hafði aldrei heyrt um. Þeir komu þó að lokum Hélt að fylgjan og belgirnir myndu koma út saman. Þarna var ég alveg orðin örmagna af þreytu og verkjum. Við þurftum svo að bíða eftir fæðingarlækni sem átti að meta hvort að þurfti að sauma. Allt í einu um 23:30 leytið fylltist stofan af fólki. Barnalæknateymi kom og skoðaði strákinn og þar sem hann var með stórt naflaslit var honum trillað á vökudeild ásamt pabba sínum og var haldið að hann þyrfti jafnvel að fara í aðgerð strax og fékk ég ekki að vita hvort að ég fengi að hafa hann hjá mér yfir nóttina. Ég var svo að bíða eftir að komast á skurðarborðið þar sem ég fékk 3b gráðu rifu og þurfti að fá litla mænudeyfingu. Þessi deyfing var mjög kærkomin eftir alla þjáninguna.

Í öllu þessu róti voru líka vaktaskipti og kvöddu ljósmæðurnar mig og allt í einu var ég ein eftir á stofunni með engan síma og alveg búin á því og hrædd um litla strákinn minn og tíminn leið mjög hægt. Eftir klukkutíma af saumaskap var mér svo trillað aftur inn og komu strákurinn og Eyvindur aftur til mín eftir stutta viðkomu á vökudeildinni. Hann var svo stór og flottur að hann þurfti ekkert að vera þar nema  rétt í innskrift yfir nótt. Ég var mjög fegin að fá að hafa hann hjá mér. Þetta var algjörlega mögnuð lífsreynsla og frábær fæðing þrátt fyrir þessa gangsetningu og meðgöngueitrun og er ég fegin hvað allt gekk vel hjá okkur. Ég er mjög þakklát ljósmæðrum og læknum á landspítalanum fyrir að hafa hugsað svona vel um okkur litlu nýbökuðu fjölskylduna.

Margrét 30 ára, fyrsta barn, gangsetning.