Fædd­ist á stofugólf­inu heima – {óvænt heimafæðing}

Þessi fæðingarsaga birtist upphaflega á mbl.is en er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi Hólmfríðar.

Sig­urður Aðal­geirs­son og unn­usta hans Hólm­fríður Guðmunds­dótt­ir eignuðust dótt­ur á stofugólf­inu heima hjá sér í Nor­egi. Hlut­irn­ir gerðust hratt og eng­inn tími var til þess að keyra upp á spít­ala. Sig­urður tók því á móti dótt­ur sinni og er skráður sem ljós­móðir henn­ar á fæðing­ar­skír­tein­inu.

Laug­ar­dag­inn 10. októ­ber héldu Sig­urður og unn­usta hans Hólm­fríður upp á tveggja ára af­mæli eldri dótt­ur sinn­ar, Sól­eyj­ar Rós­ar. Dag­ur­inn eft­ir átti að fara í ró­leg­heit og voru þau búin að ákveða að taka sam­an dót fyr­ir spít­al­ann en áætluð koma barns­ins var þann 19. októ­ber. „Við fór­um bara al­sæl að sofa þarna á laug­ar­deg­in­um,“ seg­ir Sig­urður í sam­tali við mbl.is.

Um nótt­ina missti Hólm­fríður vatnið og þá voru hlut­irn­ir fljót­ir að ger­ast. „Við vöknuðum og ég klæddi Sól­eyju Rós í föt og við ætluðum að drífa okk­ur upp á spít­ala.“ Sig­urður fór með Sól­eyju út í bíl en þegar hann kom aft­ur inn lá Hólm­fríður á gólf­inu og tjáði hon­um að barnið væri að koma.

„Ég hljóp því aft­ur út í bíl, sótti Sól­eyju og hringdi upp á spít­ala og bað þá um að koma.“ Sig­urður seg­ir að starfs­fólk spít­al­ans hafi verið poll­ró­legt í sím­an­um og ekki áttað sig á því hversu stutt væri í raun og veru í barnið. „Það var ekki fyrr en ég fór að kalla hátt í sím­ann og sagði þeim að ég væri far­inn að sjá í koll­inn á barn­inu að þeir áttuðu sig á al­var­leika máls­ins. Ég lagði sím­ann frá mér og sá að barnið var að fara að koma. Kon­an mín var á org­inu og einnig eldri dótt­ir­in. Ég hélt ég yrði ekki eldri.“

Á þeirri stundu birt­ist ná­granni þeirra Sig­urðar og Hólm­fríðar í dyr­un­um en hann er á átt­ræðis­aldri. „Hann kom á harðahlaup­um og greip Sól­eyju með sér. Fyrst hugsaði ég hvað í ósköp­un­um væri að ger­ast en var ánægður með hjálp­ina.“

Þá tók al­var­an við. Sig­urður sagði Hólm­fríði að rembast og barnið byrjaði að koma út. „Fyrst stoppaði hún á kjálk­an­um og það var erfitt að koma hon­um út. Ég var stressaður og vissi ekk­ert hvað ég ætti að gera en eft­ir smá stund kom höfuðið út. Þá stoppaði hún aft­ur af því að axl­irn­ar komust ekki út.“

Sig­urður seg­ist þá hafa verið orðinn hrædd­ur þar sem að barnið var farið að blána. „Ég var orðinn aga­lega hrædd­ur og byrjaði að toga á móti á meðan hún rembd­ist.“

Eft­ir smá stund kom svo litla stúlk­an í heim­inn. „Fyrst var hún al­veg blá og mátt­laus en ég byrjaði að strjúka henni og klappa henni á bakið og nudda hana. Svo stakk ég putt­an­um upp í hana og þá allt í einu vaknaði hún, hóstaði og byrjaði að gráta.“

Sig­urður klæddi sig úr boln­um og vafði hon­um utan um dótt­ur sína sem hann lagði svo í fang móður sinn­ar. „Þetta var það rosa­leg­asta sem ég hef upp­lifað.“

Um fimm mín­út­um seinna kom sjúkra­bíll­inn og þá var klippt á nafla­streng­inn. „Þeir komu og sögðu að allt liti vel út, bæði hjá móður og barni og buðu mér í leiðinni starf á spít­al­an­um,“ seg­ir Sig­urður. Hann seg­ist þó hafa afþakkað starfið þar sem að þessi upp­lif­un hafi verið nóg. Hann fór svo og sótti Sól­eyju Rós sem var í góðu yf­ir­læti hjá ná­grönn­um sín­um.

Bæði móður og barni heils­ast vel og hef­ur unga stúlk­an hlotið nafnið Bryn­dís Lena Sig­urðardótt­ir.

Fjöl­skyld­an flutt­ist bú­ferl­um í sum­ar til Hø­nefoss í Nor­egi þar sem að Sig­urður starfar sem bif­véla­virki. Hólm­fríður er heima með Bryn­dísi Lenu en Sól­ey Rós er á leik­skóla.

Lestu fæðingarsögu Bryndísar Lenu frá sjónarhóli Hólmfríðar hér

Fæðingarsagan – {heimafæðing í Danmörku}

Ég átti son minn fyrir 4 árum í yndislegri fæðingu á Hvidovre spítala í Kaupmannahöfn á sólbjörtum sumardegi. Sú fæðing var inngripalaus og gekk mjög eðlilega fyrir sig, en hún var átakamikil, tók 15 tíma og hríðar voru mjög harðar og örar megnið af tímanum. Ég hef alla tíð lýst þeirri fæðingu sem draumafæðingu, en vá, á mánudaginn var fékk ég svo sannarlega að upplifa sannkallaða draumafæðingu. Ljósmæður Hvidovre spítala hvöttu okkur hjónin til að velja heimafæðingu í þetta skiptið þar sem allt hefði gengið svo vel með fyrsta barn og eftir stuttan umhugsunarfrest þáðum við það. Við sjáum aldeilis ekki eftir því.

Hér er fæðingarsagan:
Á mánudagseftirmiðdag (30. nóv. – komin 39v4d) ákvað ég að hringja upp á deild því þá var ég búin að vera með fyrirvaraverki og glerharða kúlu nánast án pásu í tvo daga, hafði lítið sem ekkert sofið og var orðin mjög þreytt. Það var búið að vera mikið að gera hjá mér dagana á undan við að klára vinnutengd verkefni og almennan jólaundirbúning. Ljósmóðirin á deildinni sagði að líklegast væri ég bara að malla í gang, en vildi gjarnan að ég kæmi uppeftir í rit ef ég yrði ekki betri eftir rúma klst. af hvíld. Ég átti að taka eina panódíl, fara í heita sturtu og leggjast niður til að slaka alveg á. Þegar ég loksins fékkst til að slappa af fann ég að verkirnir breyttust og þennan eina og hálfa tíma sem ég lá komu vægar hríðar á 3-5 mínútna fresti. Klukkan hálfsex hringdi ég upp á deild og sagði þeim að ég þyrfti ekki að koma uppeftir þar sem ég væri nokkuð viss um að nú væri ég komin í gang. Heimaljósmóðirin sagðist koma eftir klukkutíma svo ég hringdi í manninn minn og sagði honum að hann mætti gjarnan koma með son okkar (4 ára) heim af taekwondo æfingu því fæðingin væri að hefjast. Feðgarnir komu heim og næsta klukkutímann gengum við um íbúðina og gerðum klárt. Mamma mín var hjá okkur hér í Kaupmannahöfn og hún tók strákinn inn í svefnherbergi vopnuð kvöldmat og iPad og þar voru þau í góðu yfirlæti.

Hríðarnar urðu svolítið sterkari og ég andaði mig í gegnum þær á meðan maðurinn minn setti mottur á gólfið, blés upp fæðingarlaugina, kveikti á kertum og gerði almennt kósý. Klukkan hálfsjö kom ljósmóðirin og um leið og hún kom fattaði hún að hún hafði gleymt hönskum. Nú voru góð ráð dýr. Hún þreifaði kúluna, hlustaði á hjartslátt og endaði á að mæla útvíkkun með skrjáfandi nestispoka á höndunum. Mjög notalegt (not). Ég var með tvo í útvíkkun. „Andskotinn“ hugsaði ég og sá fyrir mér langa og stranga nótt og var satt að segja svolítið fúl að vera að fara í gang svona þreytt. Ég var einhvern vegin ekki í „stuði“ til að fara að fæða og langaði til að afþakka pent og fá bara góðan nætursvefn. Það var auðvitað ekki mjög lógískt svo það næstbesta var að sætta sig við orðinn hlut og setja sig í gírinn. Það helltist yfir mig einhver hrollur svo ég skalf eins og hrísla og það var orka sem ég vildi ekki missa, svo ég náði í dáleiðsluæfinguna mína (Adam Eason – mæli með því!), setti á mig headphones og lagðist á gólfið í einbeitingu. Maðurinn minn kom með hitapoka fyrir mig og þarna lá ég og slakaði á. Í hríðunum talaði ég upphátt við sjálfa mig og sagði ýmist: „Já já já já“, „Komdu til mín elska mín – mamma vill fá þig“ eða „Opna opna opna opna“.

Klukkutíma síðar, um hálfátta, voru vaktaskipti hjá ljósmóðurinni og þegar nýja ljósmóðirin kom – með almennilega hanska og ljósmóðurnema í farteskinu – var ég skoðuð aftur og þá komin með 3 cm í útvíkkun. Þá ákvað ég að nú skyldi ég opna mig enn hraðar. Í hverri hríð hugsaði ég: „Þetta eru ekki verkir, þetta eru bara samdrættir. Hér er það ÉG sem ræði. Það er ÉG sem er að framkalla þessa samdrætti. Ekki hugsi-hausinn-ég, heldur líkams-ég, frum-ég. Þetta er minn líkami og hann gerir ekkert sem ég ræð ekki við. Nú ÆTLA ég að opnast og búa til gott pláss fyrir þetta barn.“ Ég fór í baðkarið, það var yndislegt og ég náði góðri slökun þar. Ég notfærði mér „Smertefri fødsel” tækni (mæli með henni!) og maðurinn minn var með mér í hverri hríð – það skipti sköpum. Líkamleg snerting við ástina sína og föður barnsins er besta verkjastilling sem hægt er að hugsa sér. Hann nuddaði ýmist bakið, axlirnar eða hendurnar. Knúsaði mig og kyssti og hvatti áfram. Þegar þarna var komið var ég hætt að fylgjast með klukkunni. Hríðarnar voru vel viðráðanlegar og mér fannst ég fá góða pásu á milli. Við brostum og slógum á létta strengi og stemningin var yndisleg. Ég hugsa að það hafi ekki liði meira en rúmur hálftími þar til ég var komin með 4-5 í útvíkkun og eftir annan hálftíma var ég komin með rúma sex. Við fögnuðum hverjum sentimetra eins og uppáhalds fótboltaliðið okkar hefði skorað sigurmark. Sonur okkar kom tvisvar fram úr herberginu með ömmu að kíkja á hvernig gengi og fannst bara voða spennandi að litla systir væri að koma.

Fljótlega eftir 6 cm var ég farin að fá svolitla rembingsþörf efst í hríðunum og ljósan tók eftir því og sagði mér að halda alls ekki aftur af því – leyfa líkamanum algjörlega að gera það sem hann kallaði á. Belgurinn var ekki sprunginn ennþá og hann bungaði niður í leghálsinn og gaf þessa þrýstingsþörf. Með hverri hríð eftir þetta jókst rembingurinn og á örskotsstundu var ég komin með 10 í útvíkkun og gat þreifað fyrir belgnum og kollinum nokkrum sentimentrum inni í leggöngunum. Þegar þarna var komið hoppaði maðurinn minn ofan í laugina til mín og settist með mig í fangið. Hann tók undan um hnén á mér og hjálpaði mér að halda mér vel opinni í rembingshríðunum. Það kom aðeins ein hríð þar sem ég veinaði af sársauka, en þá þrýsti höfuðið svo harkalega niður að ég vissi ekki út um hvaða gat barnið myndi koma. Ég varð að grípa um klofið á mér til að halda á móti svo hún færi ekki út of hratt.

Í næstu hríð kom svo kollurinn út, ennþá í belgnum og einni hríð síðar runnu axlirnar og restin af búknum út. Við hjónin tókum á móti henni sjálf og tókum hana beint í fangið. Barnið fæddist í sigurkufli, þ.e. ennþá í líknarbelgnum. Hún var með höfuðið örlítið skakkt, þ.e. í stað þess að andlit vísi niður, þá var andlitið inn að læri. Þegar hún var komin á bringuna slitum við gat á líknarbelginn og þá umlaði hún örlítið áður en hún lygndi aftur augunum og kúrði sig í fangið á okkur. Við hlógum og hlógum og táruðumst af gleði – dóttir okkar komin í heiminn í stofunni heima hjá okkur eftir ca. 5 tíma fæðingu kl. 21:51. Það var algjörlega ólýsanlegt að fá að gera þetta svona saman tvö, við stjórnuðum öllu ferlinu og okkur leið svo vel að vera inná fallega heimilinu okkar. Ljósmæðurnar héldu sér alveg til hlés allan tímann, komu af og til og hlustuðu hjartsláttinn hjá barninu og leiðbeindu mér með öndunina í rembingnum en unnu að öðru leyti sitt starf úr fjarlægð.

Jógafæðing 27.06.07

Þriðjudagsmorguninn 26. júní vaknaði ég upp af mjög svo værum blundi, hafði ekki sofið svona vel í nokkrar vikur að því er mér fannst.  Ég var komin 12 daga fram yfir settan fæðingardag og var farin að undirbúa mig fyrir annað hvort gangsetningu eða keisaraskurð fyrir lok vikunnar þar sem ég hafði áður farið í keisaraskurð út af barni í sitjandi stellingu.

En það var eitthvað þennan fallega júnímorgun sem sagði mér að eitthvað væri að fara af stað, ég svona úthvíld og svo var ég að fá einhverja samdrætti og útferð sem var meira áberandi en áður. Hugsið ykkur hvað líkaminn er fullkominn að leyfa manni að hvílast svona vel fyrir það sem koma skal!

Dagurinn leið, ég hafði það bara gott ein heima, las í bók úti á svölum í sólinni og fór svo um klukkan fjögur að sækja son minn á leikskóla og verslaði tvo fulla poka af mat í Nettó.  Verkirnir voru alveg bærilegir, ekkert þannig að þeir heftu mig í neinu þannig.  Klukkan rúmlega sex þegar maðurinn minn kom heim úr vinnu fór þetta að ágerast aðeins, voru komnir á svona 20 mínútna millibili og ég hugsaði með mér að ég þyrfti kannski að fara að huga að því að taka allt til, fá pössun og slíkt ef ske kynni að við þyrftum að fara upp á spítala.  Um þetta leyti fór ég að fá slímkennda blóðuga útferð og hringdi þá upp á fæðingardeild til þess helst að róa manninn minn sem var aðeins farinn að stressast…  Þær sögðu mér að ég væri velkomin til þeirra þegar ég vildi og ég gæti hringt hvenær sem er.  Nú fóru samdrættirnir að vera reglulegri en ég byrjaði þarna strax að anda haföndun og rugga mér í lendunum og fannst þetta bara allt í fínu lagi og áttaði mig á að þetta var bara byrjunin á einhverju miklu lengra ferli.

Klukkan ellefu ákváðum við að kíkja uppeftir svona fyrir nóttina og láta tékka á stöðunni.  Við hittum yndislegan ljósmóðurnema sem tók á móti okkur, hún setti mig í mónitor þar sem kom fram að samdrættirnir (því þetta hétu víst ekki hríðar ennþá) voru enn óreglulegir með svona 10-15 mínútum á milli, allt var enn bærilegt fyrir mig, ég stundaði bara mína haföndun og hrossaöndun og hún hafði strax orð á því ljósmóðirin hvað þetta væri flott hjá mér og ég hlyti að hafa verið í jóga. Þetta varð alveg til þess að ég einbeitti mér ennþá frekar að nota þessa öndun.  En þeim fannst ég ætti að fara heim því að þetta gæti allt eins gengið niður en ef þetta færi að verða reglulegra með 3-5 mínútna millibili þá skildum við koma aftur.  Við fórum heim og mamma ákvað að sofa hjá okkur ef ske kynni að við færum uppeftir aftur um nóttina, það var rosalega gott að hafa hana til öryggis.  Ég fór í bað þarna um miðnættið, rakaði á mér lappirnar og svona og fékk mér svo ristað brauð.  Ég reyndi síðan að fara að sofa en það er skemmst frá því að segja að ég gat aldrei sofnað því að verkirnir fóru strax að verða reglulegri en ég reyndi að slaka vel á á milli verkjanna.  Klukkan þrjú var þetta orðið á svona 5-7 mínútna millibili og ég vakti manninn minn af værum blundi og tilkynnti um brottför.  Mamma hafði orð á því þarna hvað ég væri róleg yfir þessu og hvað þetta jóga sem ég er ekki búin að geta hætt að hrósa hefði greinilega góð áhrif á mig því þarna var ég farin að halla mér fram á hvað sem ég fann næst mér þegar verkirnir komu og anda haföndunina á meðan.

Við vorum komin á Landspítalann klukkan hálf fjögur og þá var bara frekar rólegt hjá þeim og sömu ljósmæður (neminn sem hafði tekið á móti okkur fyrr um kvöldið) og sú sem var yfir henni tóku á móti okkur.  Neminn var svo ánægð að geta boðið okkur flottustu fæðingarstofuna með stórum heitum potti (hún var með glampa í augunum þegar hún sagði þetta við okkur) en hin var fljót að rífa þessa draumsýn niður þegar hún tilkynnti henni að ég væri fyrri keisari og mætti því ekki fara í vatnið.  Ég varð soldið mikið svekkt en þegar næsti verkur kom þá einhvern veginn gleymdist þetta bara og ég  sætti mig við þetta sem ég vissi svo sem áður.  Fékk samt nýja stofu með klósetti inn af og fínni sturtu.  Næstu klukkutímar liðu alveg ótrúlega fljótt.  Ég gat ekki hugsað mér að liggja þannig að ég stóð allan tímann með mónitor nemana utan um mig sem skrásetti hríðarnar (þetta hét það víst þegar þarna var komið).  Hreinsunin úr ristlinum hafði ekki verið mjög mikil þarna um daginn þannig að ég bað um svona hreinsikitt sem var minnsta mál að fá, mér leið allavegna betur með að losa aðeins um.  Einnig reyndi ég að pissa en gat það ekki þannig að það var settur upp þvagleggur sem samt skilaði ekki miklu.  En klukkan sex var fyrst athugað með útvíkkun og hún þá orðin 7 cm, ég trúði því ekki að ég væri komin svona langt án þess að vera eitthvað að drepast úr verkjum og þegar þær sögðu mér að ég myndi kannski bara klára þetta á þeirra vakt fannst mér það ótrúlegt, ég var einhvern veginn búin að ímynda mér að ég yrði þarna allavegna fram undir kvöldmatarleitið næsta dag!  En þessir síðustu 3 sentimetrar urðu þeir erfiðustu í þessu, þær stungu á belginn og þetta urðu verulega miklir verkir upp úr þessu.  Ég stóð alltaf og maðurinn minn hélt í hendina á mér og nuddaði á mér bakið sem mér fannst gott.  Neminn kom með kalda bakstra og lagði á mjóbakið á mér og svo í framan og það fannst mér líka mjög gott, einnig nuddaði hún á mér mjóbakið þannig að hún og maðurinn minn voru á fullu á bakinu á mér í verstu hríðunum og það var mjög gott.  Þegar ég fór svo að röfla um mænudeyfingu þarna örugglega á níunda sentimetranum vildu þær fyrst að ég prófaði glaðloftið, ég samþykkti það á endanum og hóf þá öndunina í grímuna sem var eftir á að hyggja mjög gott. Þarna breytti ég aðeins um og andaði inn um munninn og út um nefið en passaði samt að slaka á í þessum vöðvum sem notaðir eru í hafönduninni.  Þetta tók svona toppinn af hríðunum og um leið einbeitir þetta manni að önduninni.  Þegar klukkan var orðin átta komu nýjar ljósmæður á vaktina alveg jafn yndislegar og þær sem voru fyrir, skipti mig engu máli að fá nýtt sett.  Ég fékk þá nema sem var nafna mín og eldri ljósmóður með henni sem heitir Ágústa, frábærar konur.  Nú var útvíkkunin komin í 10 og Ágústa sagði mér að sleppa nú glaðloftinu enda var svo komið þarna að ég fékk þessa ótrúlegu rembingstilfinningu sem mjög erfitt er að lýsa en ég ætla samt að reyna að það.

Talað er um að merar kasti folöldum og mér fannst að þetta væri svona eins og þegar maður kastar upp þá tekur líkaminn einhvern veginn völdin. En þetta var eins og að kasta niður í stað upp, það bara fara einhverjir innri kraftar af stað og allt ýtist niður. Alveg undarleg tilfinning þegar maður fær þessa rembingstilfinningu og svo bara slokknar á öllu á milli og maður getur þá dregið andann og slakað aðeins á. Eitthvað fannst Ágústu að hríðarnar stæðu ekki nógu lengi yfir þannig að ég fékk dripp til að lengja þær. Hún hafði á orði að ég hefði mjög góða stjórn á þessu og hún gat alveg sagt mér hvenær ég átti að rembast ,,hægt” eða fast.  Hún bauð okkur að snerta kollinn þegar hann sást en við vildum nú hvorugt gera það, ég vildi bara einbeita mér að klára dæmið þegar þarna var komið. En það var mjög uppörvandi þegar hún fór að lýsa öllu hárinu sem hún sá og að þessi færi nú örugglega heim með slaufu. Svo fyrr en varði og miklu fyrr en ég áttaði mig á var stelpan mín komin í heiminn og lá allt í einu á bringunni á mér svo fullkomin að ég trúði ekki eigin augum. Með bústnar kinnar, mikið dökkt hár og langar neglur.  Þetta var allt svo eitthvað náttúrulegt og rólegt og ljósmæðurnar svo öruggar í öllum sínum handtökum að þessi stund hverfur manni aldrei úr minnum.  Fimm mínútum seinna kom fylgjan sem ég fann ekkert fyrir að fæða, við hjónin afþökkuðum líka pent nánari skoðun á henni…Ég fékk að skoða fæðingarskýrsluna mína eftir á og sé að lengd fæðingarinnar minnar er 5 klukkutímar og 22 mínútur og þá er talið frá fyrstu reglulegu hríðunum sem komu hjá mér um klukkan þrjú um nóttina.  Rembingstíminn hjá mér var 32 mínútur og því get ég ekki annað er verið í skýjunum með þessa fæðingu sem ég gæti vel hugsað mér að endurtaka þess vegna strax á morgun… Ég rifnaði eitthvað sem er kallað annars stigs en hún Ágústa var mjög fljót að sauma mig og við kjöftuðum bara öll saman á meðan og maðurinn minn knúsaði stelpuna og hún var mæld og vigtuð.  Við vorum þarna saman á fæðingarstofunni í góða tvo tíma eftir fæðinguna og löbbuðum síðan yfir í Hreiðrið þar sem var yndislega gott að vera.

Ég þakka þessa góðu fæðingarsögu skilyrðislaust jóganu sem ég er búin að stunda síðan í byrjun janúar og þeim frábæra undirbúningi sem ég tel að ég hafi fengið hjá þér Maggý mín. Það má ekki gleyma að þessi andlegi undirbúningur sem fylgir stundun jóga er svo mikilvægur og mun mikilvægari en margar konur grunar.  Að lokum vil ég biðja að heilsa öllum bumbulínunum og gangi ykkur innilega vel!

Fjör í fjóra daga

Ég mætti í vinnuna 14. nóvember, vitandi að það væri síðasti vinnudagurinn minn þar sem að ég var sett á mánudeginum 17. nóvember.

Ég fór heim út vinnunni og beint að passa einn 4ra ára.Við lékum okkur og djöfluðumst. Hann ýtti svo eitt skiptið frekar fast í kúluna að mér fanst og eftir það þá byjuðu verkirnir. Þeir komu hægt og rólega til að byrja með og ég var lítið að spá í þessu. Svo um kl 21.00 þá er ég að keyra heim og tek eftir því að verkirnir eru farnir að vera ansi vondir og komu með 5-7 mínotna millibili. Ég gerði nú ekki mikið úr því, skellti mér í bað þegar ég kem heim og fer svo bara að sofa. Daginn eftir vakna ég frekar snemma eftir svefnlitla nótt að sökum verkja . Ég skelli mér í afmæli hjá fænku minni þar sem allir voru að veðja á hvenær barnið léti sjá sig. Ég sagði engum að ég væri með verki, en fór snemma heim þar sem ég var uppgefin. Um kl 17.00 á laugardeginum hringi ég í systir mína og segi henni að ég geti ekki meira og að hún verði að koma til mín. Hún kom og við hringdum uppá fæðingardeild þar sem ég var lögð inn. YES! Komin inn og nú skal þetta barn koma. Ljósmóðirin sagði að miðað við hvað samdrættirnir væru miklir þá kæmi barnið líklegast þessa nótt, en þar sem ég var ekki komin með nema 3,5 í útvíkkun þá vildi hún gefa mér lyf í æð sem áttu að vera vöðvalsakandi og ættu að geta leyft mér að sofa aðeins.

Ég fékk þessi lyf og af einhverjum ástæðum (sem enginn virðist skilja) þá gaf hún mér lyf sem minnka samdættina, sem varð þess valdandi að það datt allt niður. Ég ældi eins og múkki þá nótt og var svo bara send heim þar sem að allt datt niður.

Ég var komin á aftur á byrjunarreit. Úfff núna var bara að bretta upp ermarnar og byrja uppá nýtt. Á sunnudagsmorgni fór ég að malla af stað aftur (dagur 3 í verkjum) og núna ætlaði ég ekki að fara aftur í fýluferð upp á spítala og vildi sko ekki fara þangað fyrr en helst hausinn væri kominn. Ég þraukaði allan sunnudaginn til miðnættis, þá fór ég upp á deild aftur þar sem ég var send heim með Smarties (eina parkodín) og sagt að reyna að sofa þar sem að útvíkkunin var ekkert búin að breytast. OK ég fer heim og sef ekki baun. Reyni að drösla mér í bað heima aftur, horfi á fyndna mynd og reyni að hlægja barnið út sem var ekki að virka því ég gat varla talað út af verkjum. Í hádeginu á mánudegi (dagur 4) fer ég aftur uppá deild og bað til guðs að barnið færi nú að koma. Ég fer upp á deil og JEY!! Ég er komin með 4ra í útvíkkun jibbíkóla!

Þær ætluðu að senda mig heim, en þá kom æðisleg ljósa sem heitir Kristín og sagði að ég gæti ekkert hvílt mig heima með þessa verki og hún bókaði herbergi númer 9 í hreiðrinu (extra stórt með risa stóru baði) Hún fyllti baðið og ég svamlaði þar í dágóðan tíma með því að ég rétt stökk uppúr bara rétt til að soðna ekki um of.

Mér leið mikið betur og þar sem að ég má ekki fá mænudeifingu vegna bílslys sem ég lenti í þá var ekkert sem ég gat gert til að lina sársaukan nema bað, nálar og bíta á jaxlinn. kvöldið leið og ekkert var að frétta af útvíkkunni. Um kl 22.00 var ég komin í heila 5 og mér var bannað að fara meira í bað þar sem að ég slakaði of mikið á og samdættirnir urðu ekki jafn sterkir.

Mér var svo boðið morfín í æð um miðnætti, ásamt svefnlyfjum svo að ég næði að kvílast aðeins fyrir stóru átökin. Ég þáði það og um klukkustund síðar sofna ég. Þegar ég var búin að sofa í tæpan klukkutíma vakna ég við það að ég held að vatið sé farið. Kalla á ljósuna og hún kemur og staðfestir það og segir mér að fljótlega ætti allt að fara af stað. En viti menn… nei engin breyting klukkutíma síðar. Enþá 5 í útvíkkun og ég orðin út úr heiminum af morfíni og þreytu. Svo um kl 5 þá kemur ljósan inn og skoðar mig þar sem að ég var í sleep-coma. Ljósan er nýbúin að skoða mig og segir systum mínum að ég sé komin með 9 í útvíkkun. Ég fór út 5 í 9 á innan við einni klst. Þar sem ég var í þessu sleep coma þá var ég ekki viðræðuhæf þegar ljósan skoðaði mig og um leið og hún fer út úr herberginu þá byrja ég að rembast. Systur mínar fríka pínu út og hlaupa fram og kalla aftur á ljósuna.

Hún kemur inn og ég er látin rembanst í dágóðan tíma. Ég man ekkert eftir þessum tíma sem betur fer kanski. Ég rembist nokkrum sinnum og ekkert barn kemur, allt í einu fyllist stofan af læknum, hjúkkum, nemum og öllu tilheyrandi með nálar, sprautur og fæðingarrúm. Þegar mest var þá voru um 11 manns inni í herberginu fyrir utan mig. það eina sem ég man var að einhver sagði við mig „Stefanía ef þú vilt fá barið þitt lifandi í fangið á þér þá þarftu að rembast eins fast og þú mögulega getur NÚNA! Þú færð bara einn séns“ Ég hikaði ekki við það og rembdist eins og vindurinn. Barnið kom og ég svo rugluð að ég man lítið sem ekkert eftir því. Heilbrigður strákur kom í fangið á mér kl 8.21 á þriðjudagsmorgni. Og það eina sem ég gerði var að ég furðaði mig á því af hverju ég var komin í sjúkrarúm og hálfa leið út á gang.

En það var neflilega svo að hjartað í drengnum hætti að slá og þau byrjuðu að undir búa mig undir bráða keisara en ákváðu að reyna einusinni með sogklukku, sem betur fer gerði trixið. Ég missti mikið blóð í fæðingunni og mátti ekki standa upp nema hafa einhvern hjá mér í 24 klst eftir. Ég var rosalega fegin að fá að vera á sjúkrahúsinu sólarhring lengur en vaninn er, enda fyrsta barnið mitt og ég og pabbinn ekki í sambúð. í dag á ég fullkominn lítinn kút sem gerir lífið svo óendalega dásamlegt að ég myndi glöð ganga í gegnum þetta allt aftur fyrir hann.

Hin fullkomna tvíburafæðing

Kæra Auður og mínar fallegu jógasystur

Hvernig byrjar maður á að lýsa því að eignast tvö börn í einni og sömu fæðingunni? Trúið mér, það er mjög erfitt. Ég vil byrja á að segja ykkur frá öllum smáatriðunum en á sama tíma kalla yfir hópinn það stórfenglegasta að öllu: Ég var að eignast tvo undurfagra drengi!

Þegar við hjónin fórum í snemmsónar rétt fyrir jól þá var ég búin að búa mig undir að fá slæmar fréttir. Ég hafði verið með verki sem ég þekkti ekki úr fyrri meðgöngu og á um áttundu viku hafði farið að blæða smá og ég var því búin að búa mig undir að ekki væri allt sem skyldi. Um leið og ég sá sónarmyndina þá áttaði ég mig á að hlutirnir væru vissulega óvenjulegir en þó ekki á þá vegu sem ég hafði ímyndað mér; þarna var tvennt af öllu sem hafði verið til staðar síðast – Tvíburar! Mín fyrstu viðbrögð voru að hlægja og gráta á sama tíma: Þvílík gjöf! En hvernig eignast maður 2 börn? Það eina sem ég náði þó að gera var að líta á manninn minn með hendur yfir munni og segja: „Við þurfum ekki einn bílstól heldur TVO!“ Og þá heyrðist í lækninum; „Tja, mér sýnist aftursætið hjá ykkur allavega vera orðið fullt!“. Ég var í svo miklu sjokki að þegar læknirinn spurði mig hvort það væru einhverjir tvíburar í ættinni þá svaraði ég „nei“. Þegar ég settist inn í bíl eftir skoðunina þá áttaði ég mig á að það væru jú víst tvíburar í ættinni og hafði afi minn tildæmis átt tvíburabróður. Að ég ætti von á tvíburum voru voru samt fréttir sem mig datt aldrei í hug að ég myndi fá!

Meðgangan gekk mjög vel þrátt fyrir smá ógleði og umtalsverða þreytu um miðbik meðgöngunnar, og smátt og smátt þá byrjuðum við að undirbúa komu barnanna. Jóga var stór hluti af meðgöngu og fæðingu dóttur minnar sem fæddist í mars 2009 og því var ekki um annað að ræða en að byrja sem fyrst að mæta í Borgartúnið og leyfa jógaandrúmsloftinu taka völdin í sálartetrinu.

Þar sem meðallengd tvíburarmeðgöngu er styttri en einburameðgöngu þá vorum við alltaf með það í huga að krílin gætu komið fyrr og við vonuðum að ég myndi ná í það minnsta 36 vikum. Við höfðum líka fengið að heyra það að 38 vikur hjá tvíburamömmu væru eins og 42 vikur hjá einburamömmu hvað varðar legvatnsmagn, heilbrigði fylgju og fleira og því vorum við engan vegin búin undir það að ég myndi ganga 39 vikur með strákana okkar, en það gerði ég. Og ég segi það satt að augnablikið þegar afleysingarkennarinn klæddi mig í skóna eftir síðasta jógatímann minn í 38 viku var eitt það auðmjúkasta sem ég hef upplifað!

Og hefst þá sagan sjálf af hinni „fullkomnu tvíburafæðingu“.

Að morgni mánudagsins 27. Júní var ég virkilega farin að öfunda þær tvíburamömmur sem áttu tíma í keisarafæðingu á einhverjum ákveðnum degi. Það að vera ólétt lengur en þann tíma sem maður er búin að búa sig undir er að mínu mati eins og að jólunum sé frestað hjá ungu barni. Spennan og eftirvæntingin, forvitnissímtöl úr öllum áttum og fleira gera það að verkum að þú þráir SVO heitt að fá gjöfina þína í hendurnar og ég held að það hafi gert það að verkum að ég samþykkti að láta hreyfa við belgnum hjá fæðingarlækninum þá um morguninn.

Að láta hreyfa við belgnum var sérkennilegt og mér leið hálfpartinn eins og ég væri að svindla. Þóra fæðingarlæknir hafði útskýrt að það væri ekki víst að þessi aðferð myndi virka til þess að koma mér af stað og að ég gæti jafnvel átt von á fyrirvaraverkjum sem ekki myndu skila neinni útvíkkun. Ég var því alveg róleg þegar ég fór að finna fyrir aðeins seiðingi neðarlega í bakinu um hádegisbilið, fór bara aðeins í búðina, lagði mig í nokkra tíma, sótti tilvonandi stóru systur til dagmömmunnar, skellti mér í afmæliskaffi til tengdamömmu og fleira. Smátt og smátt tók ég eftir daufum túrverkjum í bakinu á 6-7 mínútna fresti. Ég var samt bara róleg og borðaði kvöldmat og setti svo stelpuna mína í sturtu enda verkirnir eiginlega ekki „verkir“ og enn alltaf 6-7 mínútur á milli. Við horfðum svo á sjónvarpið fram eftir kvöldi og um miðnætti lögðumst við hjónin upp í rúm og mér tókst að sofna í um 30-40 mínútur þrátt fyrir verkina  sem voru smátt og smátt að aukast og verða taktfastari. Um klukkan 2 þá ákvað ég að það væri skynsamlegast að fara upp á deild og láta athuga líðan drengjanna því þrátt fyrir að ég hefði nú frekar bara viljað vera heima undir sæng þá væru þeir nú búnir að vera með hamagang í kringum sig í einhvern tíma. Mamma kom því og var hjá stelpunni okkar og þegar ég kvaddi hana þá sagði ég við hana að þau mættu jafnvel alveg búast við því að við kæmum bara aftur enda gætu þetta allt eins verið einhverjir fyrirvaraverkir.

Á leiðinni niður á spítala þá fann ég hvernig verkirnir ágerðust og þegar við vorum komin inn í skoðunarherbergið þá helltist yfir mig það sem þau kölluðu „glímuskjálfta“; ég byrjaði að skjálfa óstjórnanlega á milli verkjanna, mér leið eins og mér væri ískalt en samt var einhvernvegin engin leið að hlýja mér. Ég fékk að heyra að svona lagað er mjög algengt en ég verð að viðurkenna að það var frekar óþægilegt að geta ekki nýtt tímann á milli hríða (sem urðu enn kröftugari eftir að við komum niður á deild) til að slaka vel á. Ljósmóðirin hélt þó áfram að skoða mig og mér til mikillar furðu og augljósrar ánægju þá var ég komin með 6-7 í útvíkkun! Ég var því send inn á fæðingarstofu og byrjað var að undirbúa komu strákanna okkar.

Tíminn inn á stofu leið frekar hratt. Þegar ég átti stelpuna mína þá fannst mér best að vera á hreyfingu á milli hríða og í hríðum, en núna fann ég að mér leið langbest liggjandi á bakinu, algjörlega kyrr og með hugann algjörlega inn á við. Ég vildi helst ekki segja orð og á milli hríða var maðurinn minn tilbúinn með vatn á brúsa – það má eiginlega segja að við höfum verið eins og boxari og þjálfarinn hans; hann var rólegur á hliðarlínunni í hríðunum en sagði mér ef honum fannst ég ekki vera að anda nógu rétt og svo að hríð lokinni stökk hann til með vatnsbrúsann og þurrkaði mér um ennið.

Þegar hríðarnar voru orðnar hvað verstar var ég hvað þakklátust fyrir jógað. Upp í huga mér kom allt það sem ég hafði tileinkað mér um vorið, sem og heilræði úr sögum jógasystra okkar eins og það að hugsa um hverja hríð sem „kraftaverk“. Á vissum tímapunkti þá varst þú sjálf komin upp í huga minn Auður; brosandi og hvetjandi og það veitti mér mikla ró.

Þegar ég fór að ræða við ljósmóðurina um að verkirnir væru nú orðnir það harðir að það væri ekki nokkur möguleiki fyrir mig að geta meira þá bauð ljósmóðirin mér að fá glaðloft. Þegar ég átti stelpuna mína þá notaði ég glaðloft til að linna verkina en fannst það í raun aldrei gera neitt að viti, frekar bara rugla mig í ríminu og því ákvað ég að afþakka það í þetta skiptið. Þá sagði hún að mænudeyfing væri þá næsti valmöguleiki og lýsti því ferli fyrir okkur. Á þeim tímapunkti varð ég nú frekar svekkt út í sjálfa mig því ég vissi að það var ekki alveg sagan sem ég ætlaði að segja ykkur en sársaukinn var bara orðinn svo mikill að ég bara gat ekki meir. Hún vildi þó, áður en að sóttur yrði læknir til að koma mænudeyfingunni fyrir, athuga útvíkkunina mína og tilkynnti mér í kjölfarið að mænudeyfingar yrði ekki þörf; ég væri komin með 10 í útvíkkun og ef ég fyndi til þess þörf þá mætti ég í næstu hríð byrja að rembast.  Ég varð svo hissa við þessar fréttir að ég held ég hafi hreinlega bara gleymt að finna til í nokkrar hríðir.

Ein af stóru áhyggjunum mínum fyrir fæðinguna var sú að það eru alltaf mun fleiri starfsmenn staddir í tvíburafæðingum og ég hafði séð fyrir mér að verða rugluð í ríminu af öllum mannskapnum. Það reyndist hins vegar ekki verða vandamál hjá mér þar sem ljósmóðirin kallaði ekki á auka mannskap fyrr en að rembingshríðirnar voru hafnar og ég hafði því aldrei tíma til að tapa áttum.  Smátt og smátt týndist inn fleira fólk og mjög fljótlega kom fyrri strákurinn í heiminn með miklum gusugangi þar sem belgurinn var enn heill. Ég held að ég eigi aldrei eftir að gleyma augnablikinu þegar hann spýttist í heiminn og ljósmæður og læknar stukku aftur til að forða sér frá vatnsflóðinu. Aldrei hefði mér dottið í hug að ég ætti eftir eignast barn og vera hlægjandi  5 sekúndum seinna.

Í aðdraganda fæðingarinnar, og enn eftir fæðinguna, þá ræða konur við mig um hvernig í veröldinni konur fara að því að fæða eitt barn og eiga svo eftir að ýta öðru barni í heiminn. Í mínu tilfelli þá er svarið einfalt: Ég gerði það með bros á vör!  Þessar 11 mínútur sem liðu þar til seinni strákurinn kom í heiminn eru einhverjar þær skýrustu sem ég hef upplifað. Í heilar 11 mínútur átti ég bara 2 börn, upplifði það að horfa á barnið liggjandi á maganum á mér, fylgjast með honum fara til fæðingarlæknisins, heimta að fá að vita allt sem hann væri að sjá, horfa á ljósmóðurina byrja að reyna að örva næstu hríðar, og þegar líkaminn sagði að nú væri komið að næsta barni þá var takmarkið svo skýrt og krafturinn mikill að það tók bara nokkrar hríðar til að fá hann í heiminn. Og þá átti ég 3 börn!

Seinni strákurinn þurfti að fara á vökudeild í 3 tíma þar sem hann andaði grunnt þegar hann kom í heiminn. En eftir ristað brauð, smá saumaskap, og vel heppnaða brjóstagjöf hjá þeim fyrri rölti ég yfir á vökudeild og sótti hann. Svo mikil var gleðin og orkan! Ég var þó stoppuð á leiðinni af einni ljósmóðurinni sem spurði mig hvort ég hefði ekki verið að eignast barn og hún neitaði að hleypa mér yfir án þess að taka hjá mér blóðþrýstinginn☺

Við nutum þess í rúman sólarhring að láta dekra við okkur á sængurkvennaganginum.  Brjóstagjöfin komst vel af stað og reglulega litu yndislegar ljósmæður við hjá okkur til að sjá þessa fallegu stráka sem komið höfðu  í heiminn í fullkominni tvíburafæðingu að sögn viðstaddra.

Hér ætla ég að láta staðar numið og sleppa því að ræða sönduga kossa frá stóru systur, vatnslekann sem gerði það að verkum að nýbakaða fimm manna fjölskyldan flutti af heimann, ælupestir og allt hitt sem hefur gengið á síðustu tvo mánuðina. Ég skal samt segja ykkur það að í þessari umbreytingu og aðlögun sem ég hef gengið í gegnum frá því að fallegu drengirnir mínir komu í heiminn hefur jógað verið lykillinn.

Ég óska ykkur öllum velfarnaðar og gleði.

Ljós og friður,

Sólveig Kolbrún

Hvar er mandarínan?

Ég var sett 1. desember. Meðgangan gekk vel og ég var bókstaflega dansandi hress alveg fram yfir fertugustu viku. Fór á djammið eftir settan dag og dansaði á barnum fram á nótt í þeirri von um að fara af stað. Fór ekki af stað og þegar ég vaknaði og fann engar hreyfingar panikkaði ég. Ég gat ekki vakið soninn með að pota í bumbuna, vakti Adda með kökkinn í hálsinum og við brunuðum á spítalann í þögn. Við sáum ekki fram úr þessu. Ég hélt að ég hefði gert of mikið og barnið hefði ekki höndlað það og sjálfshatrið var að byrja að malla í mestu hræðslu sem ég hef upplifað. Til allrar hamingju var sonurinn bara steinsofandi með dúndrandi hjartslátt í mónitornum. Ég hætti að dansa.

Þegar ég var gengin sex daga fram yfir hreyfði ljósmóðirin mín við belgnum án þess að ég hafi verið búin að ákveða mig hvort við ættum að gera það. Hún ætlaði að skoða mig og svo myndum við ákveða en svo bara potaði hún í þegar hún var að skoða. Mér fannst svo frekt að vera að draga son minn í heiminn sem hann var kannski ekki tilbúinn í. Ég vildi að hann kæmi þegar hann væri tilbúinn. Ég geri mér grein fyrir því núna að ég var í ruglinu og að það þarf að ná í börn sem ætla sér að mæta svo seint að það stofni þeim í hættu. Þannig að ég fyrirgaf ljósunni þegar ég var búin að skæla þetta út.

Þann 10. desember mættum við svo upp á fæðingargang í gangsetningu kl. 8:45. Ég þurfti smá æðruleysi til að sætta mig við að ekki gæti ég átt á Hreiðrinu. Við hittum Ingu ljósmóðurnema og hún spurði hvort ég vildi bað sem ég játaði áköf. Leiðir hún okkur ekki bara inn í stofu 5 með stærsta baði spítalans og ég gleymdi öllu sem heitir Hreiður á stundinni. Svo kemur í ljós að ég er komin með 6 í útvíkkun og ég send í labbitúr um spítalann. Addi minn var soldið stressaður og eiginlega bara úrvinda þannig að ég sendi hann að leggja sig og fór í labbitúr með huggulega tónlist í eyrunum. Þess má geta að ég gat ekki labbað áfram í samdráttunum og stóð kyrr og hélt um bumbuna og alltaf stoppaði einhver starfsmaður spítalans og spurði hvort mig vantaði aðstoð. Það fannst mér fallegt. Þegar ég kom til baka eftir að hafa villst nokkrum sinnum var ég ennþá bara með sex í útvíkkun og þá var ákveðið að sprengja belginn.

Það var gerti kl. 12:30 og ég fann ekkert fyrir því og ákvað að borða hádegismatinn minn sem var hveitikímssamloka og tvær mandarínur. Ég náði að borða samlokuna á milli samdrátta meðan ég sat á rúminu og vatnið drippaði niður á gólf. Svo stóð ég upp og í samdráttunum þurfti ég að hrista mig og dansa…ég bað Adda um að setja danslistann á fóninn. Danssporin voru ekki fögur…svona eins og tveggja ára barn að hossa sér frekar. Þegar ég gat klifraði ég svo ofan í pottinn og juggaði mér fram og aftur og borðaði eina mandarínu milli samdrátta. Ég verð nefnilega að klára matinn minn.

Hríðarnar urðu svolítið sterkar á þessum tímapunkti en þetta var ennþá bara soldið vont. Ég var í froskastöðunni, ruggaði mér og tók haföndunina eins og mér væri borgað fyrir það. Ljósan sagði að ég væri ýkt góð í þessu. Mér fannst það líka. Þegar dansinn í baðinu varð mér um megn dró ég Adda ofan í bað og klemmdi hann á mér grindina og það sló rosalega á sársaukann. Hann klemmdi með höndum og svo fótum til skiptis og þetta var líka hörkupúl fyrir hann. Ég bað um glaðloft en það hafði engin áhrif og pirraði mig bara. Þær sögðu mér þá að það hlyti að vera eitthvað bilað. Ég var tvo tíma í baðinu og seinni klukkutímann var ég með fingurinn á höfði sonarins og þvílíkt með augun á verðlaununum þegar ég andaði hann nær og nær og nær.

Klukkan 14:30 fór ég upp úr og var þá komin með tíu í útvíkkun. Ég lá á bakinu meðan þær voru að mæla útvíkkunina og það var ógeðslega vont. Ég hélt í Adda með einni og einhvern þríhyrning í lausu lofti með hinni og þetta var svo vont að ég hristist öll en ég man það bara því ég man að sjá handfangið, þríhyrninginn á fleygiferð með mér. Djöfull er vont að vera á bakinu!!! Ég fór þá á hnén og hallaði mér fram á púða og fékk rembingsþörfina. Addi sagði mér að rembast og ég öskraði á hann að ég mætti ekkert rembast…það væri ekki kominn tími. Ég var náttúrlega ekki búin að vera í sólahring og hélt þetta ætti að verða miklu sársaukafyllra áður en ég mætti rembast. Ljósan segir mér þá að ef ég þarf að rembast þá er kominn tími. Sársaukinn varð allt öðruvísi einhvernveginn. Í svona tvær sekúndur eftir hverja hríð var ég alveg verkjalaus og svolítið svona skringilega hress eitthvað…mjög skrýtið. Ekkert gerðist í hálftíma að mér fannst nema það að englarnir flugu yfir okkur í hverri hríð. Ég eyddi öllum mínum kröftum í rembinginn og þögnin í stofunni okkar var alger meðan ég varð öll eldrauð á litinn. Þessu tók ég náttúrlega ekki eftir fyrr en ég sá myndbandið sem við tókum upp en Adda datt allt í einu í hug að stilla bara símanum upp á einni hillunni og ég er honum rosalega þakklát fyrir það. Á myndbandinu sést semsagt framan í mig, bumban og brjóstin síðasta kortér fæðingarinnar…Ótrúlega gaman að horfa á þetta kraftaverk eftirá.

En já…eftir smástund í þessari stöðu langaði mig að leggja mig og fór virkilega að spá af hverju ég væri ekki á verkjalyfjum en það hafði einhvernveginn farið framhjá mér í allri þessari haföndun. Eftir hálftíma báðu ljósurnar mig um að fara á bakið og ég þverneitaði en þá vildu þær fá mig á hliðina og halda undir hnésbótina meðan ég remdist. Þarna var þetta orðið rosa vont og ég hristist öll og skalf og emjaði eitthvað um þyngdaraflið og að ég vildi standa og að mig sveið en svo kom hríð og ég í fyrsta skiptið báðu þær mig um að purra og það sem ég purrrrrraði. Ég var eins og fjórir hestar í kapppurri og eftir purrið æpti ég um leiðbeiningar og hvað ég ætti að gera og spurði hvað væri að gerast…ég var oggu lost þarna í nokkrar sekúndur og hvæsti á þær þegar þær buðu mér að finna kollinn. Ég hafði ekkert tíma í það!!! Um leið og þær segja mér að rembast eftir purrið poppar herforinginn út mér til mikillar furðu eftir tæpa þriggja tíma fæðingu eða kl.15:19. Ég var svo hissa og fór ekkert að skæla heldur horfði bara á hann og spurði hvar mandarínan mín væri. Eftir að hafa dáðst að honum fékk Addi hann meðan ég kláraði mandarínurnar og var saumuð saman en ég rifnaði soldið þar sem þetta gekk svo fljótt yfir og það var greinilega þessi sviði sem var að trufla mig undir það síðasta. Mér fannst ýkt pirrandi að bíða í klukkutíma meðan þær saumuðu mig og fannst þetta óþægilegt auk þess sem deyfingin virkaði ekki á einum staðnum og ég fann alltaf fyrir nálinni þar. Á meðan var Arnþórsson í fanginu á föður sínum og kúkaði feitt í sængina án þess að nokkur tæki eftir því.

Við fengum svo að vera í fjölskylduherbergi í Hreiðrinu um nóttina og um leið og ég hlustaði á aðra konu eignast barn gerði ég mér grein fyrir hvers ég væri mögnug. Ég grét af stolti yfir sjálfri mér og þessu djásni við hlið mér í gegnum fæðingu ókunnrar konu í næsta herbergi. Stundum þarf maður bara tíma til að átta sig á hlutunum.
Stelpur…var einhver af ykkur að eignast barn í Hreiðrinu um 02:30 þann 11. Des? Ef svo er…takk!

Foringinn er fullkominn. Hann heyrir og sér, er með tíu fingur og tær, englahvítt hár og eitt Pétursspor. Hann fæddist 15 merkur og 52 sentimetrar og augljóslega frekar þungar augabrúnir. Við erum viss um að hann sé snillingur og þessar fyrstu vikur með honum eru búnar að vera mesta rússíbanareið lífs míns.

Heimafæðing yndislegu dömunnar minnar 5.2.2014

Formáli

Þegar ég fékk jákvætt þungunarpróf var ég orðin ákveðin, heimafæðing skyldi það verða. Fyndið að segja frá því að heimafæðingin var löngu ákveðin áður en við ákváðum að fara reyna við næsta barn. Ég hafði hitt Kristbjörgu ljósmóður á seinustu meðgöngu en hún hafði verið að leysa af á heilsugæslunni og man að mér fannst hún mjög indæl. Hafði ég samband við hana um 16. viku og hafði hún áhuga á að taka á móti. Maðurinn minn var alls ekki mótfallinn heimafæðingu, hann hafði meira áhyggjur af hlutum eins og við myndum trufla nágrannanna eða eyðileggja parketið. Eftir stutt spjall við Kristbjörgu var hann líka alveg heillaður af þessum áformum og var mjög gott að hafa hans stuðning í gegnum ferlið sérstaklega þar sem margir í kringum okkur voru ekki eins sannfærðir. Ég fann líka hvað ég náði vel saman við Kristbjörgu og heillaðist af hennar nálgun á meðgöngu og fæðingu sem náttúrulegt ferli sem á að grípa sem minnst inn í, konan gerir þetta alveg sjálf og líkaminn alveg fær um að fæða barnið í heiminn. Ákvað því strax á 16. viku að fara eingöngu í mæðraskoðanir til Kristbjargar til að tengjast og kynnast henni ennþá betur.

Meðgangan gekk mjög vel. Ég var dugleg að mæta í jóga og sund. Fannst það skipta miklu máli að komast út úr húsi öðru hvoru og eiga bara tíma með mér og ófædda barninu. Það átti til með að gleymast í amstri dagsins í fullri vinnu, með eina 2 ára orkubolta og heimili.

Fæðingin sjálf

Settur dagur var 1. febrúar, hann kom og fór án þess að eitthvað gerðist. Kristbjörg kom og kíkti á mig um kvöldið 4. febrúar. Þá var blóðþrýstingurinn búinn að fara hækkandi og fannst prótein í þvaginu. Annars leið mér mjög vel. Sama gerðist á seinustu meðgöngu en hún ætlaði að ráðleggja sig við lækni daginn eftir og ég þyrfti líklegast að fara niður á kvennadeild í monitor. Þetta kvöld varð ég alveg eyðilögð, þarna var ég handviss um að heimafæðing væri ekki í boði fyrir mig og ég myndi enda í gagnsetningu upp á sjúkrahúsi. Ég talaði heillengi við krílið mitt og bað það að fara koma í heiminn þar sem mamman væri aðeins að verða veik. Ég lofaði fullt af knúsum og mjólk í nýja heiminum.

Ég vakna rétt fyrir kl. 6 morguninn eftir þann 5. febrúar með slæma verk. Hélt fyrst að ég væri bara að fá í magann en verkurinn leið hjá og ég náði að sofna. Hálftíma seinna vakna ég upp við sama verk og fór fljótlega að átta mig á því að það væri kannski eitthvað farið að gerast. Vildi samt ekki gera mér neinar vonir, hélt áfram að kúra upp í rúmi, en verkirnir komu og fóru á uþb 15 mín fresti, missterkir. Lét kallinn minn vita að ég grunaði eitthvað og hann sleppti að fara í vinnuna þennan morguninn. Sendi líka sms til Kristbjörgu og sagði henni að það væri kannski eitthvað að gerast og ég átti að láta vita ef þetta myndi aukast. Sendum stóru stelpuna síðan bara í leikskólann en hún var 2,5 árs á þessum tíma.

Verkirnir héldu áfram að vera óreglulegir, og missterkir. Datt einu sinni niður í meira en 40 mín og þá hélt ég að öll von væri úti. Tók samt smá göngutúr með kallinum og eftir hann fór meira að gerast. Gengum meðal annars framhjá leikskólanum þar sem stelpan okkar er og sáum hana leika úti. Kallinn fór í leiðangur að kaupa mat og drykki, birgðir fyrir komandi átök. Fljótlega eftir að hann kom aftur voru verkirnir að verða ansi öflugir og hafði ég misst alla matarlyst. Kallinn byrjaði að undirbúa “hreiðrið” okkar heima, blés upp laugina, setti teppi yfir gluggana og færði til húsgöng. Ég kveikti á kertum og var orðið mjög kósý í stofunni okkar. Kveiktum svo á gamanmynd (Men in Black) og knúsuðum hvort annað. Það var rétt fyrir 12 sem hríðarnar fóru að verða reglulegar og sterkar, 5­7 mín á milli og ég þurfti að anda mig vel í gegnum þá. Fór líka að blæða frá leghálsinu sem er víst bara merki um að hann væri að undirbúa sig og að opnast. Sendi annað sms á Kristbjörgu og hún sagði mér bara að láta mig vita hvenær við vildum fá hana. Við slökktum á sjónvarpinu, kveiktum á Grace disknum og settum myndasýningu í sjónvarpið með myndum af eldri dóttur okkar nýfæddri, svona til að gefa mér innblástur og aukin kraft því þetta var markmiðið, litla barnið okkar.

Mér fannst best í hríðunum að standa yfir skeknum í stofunni og halla mér örlítið fram, Axel stóð fyrir aftan mig og nuddaði mjóbakið með hnefunum eða puttum. Þarna kom nuddkennsla sér vel í jóganum. Í lok hverja hríða hallaði ég mér upp að honum og kyssti hann. Já ég veit, ógeðslega væmna ég, bara hafði rosalega mikla þörf fyrir ást, snertingu og umhyggju. Rúmum 30 mín eftir að ég sendi sms­ið fóru hríðarnar að koma á 3­4 mín fresti og fóru að vera ennþá erfiðari og fór að finna þrýsting niður á við. Sendi þá strax sms og bað hana að koma. Hún kom rétt eftir 13. Hún sá strax að ég væri í fæðingu og ég komst í laugina. Það var himneskt.

Ég byrjaði að halla mér fram með höfuð og hendur á bakkanum og hné við botninn og fann vel hvernig kollurinn færðist neðar í hverri hríð. Eftir nokkur skipti fór ég að fá svo mikinn þrýsting niður í mjóbak að ég gat ekki lengur verið í þessari stellingu og ákvað að fara yfir á bakið og hvíldi höfuðið bakkanum. Þannig náði ég að slaka vel á og fljóta í vatninu. Þarna fór aðeins að lengjast á milli hríða og vill Kristbjörg meina að vatnið hafði verið aðeins of heitt en mér fannst það fínt, gaf mér betri hvíld á milli hríða. Fór síðan að finna kunnuglegan þrýsting niður á við og vissi að þetta færi að klárast. Ég þurfti að nota allan minn kraft til að slaka á þarna niðri til að leyfa hríðunum að gera sitt. Undir lokin fannst mér æðislegt að stynja í hríðunum, þá náði ég að slaka ennþá betur á.

Rembingsþörfin kom smátt og smátt. Kristbjörg sagði mér bara að hlusta á líkamann, ef ég þyrfti að rembast þá myndi ég bara rembast. Hún athugaði aldrei útvíkkunina. Fann hvernig hríðarnar breyttust, og var mikill léttir. Eins og seinast fannst mér rembingurinn mun auðveldari en útvíkkunin. Ákvað til að auðvelda allt að fara aftur í sömu stellingu og ég byrjaði í, því þannig náði ég að opna grindina vel og fann strax að það virkaði. Þannig náði ég líka að halda vel í hendurnar á kallinum mínum og gat kysst hann og knúsað eins og ég vildi. Byrjaði að rembast um 3 leitið og finnst mér alltaf jafn ótrúlegt að finna kollinn fara neðar og neðar. Ég passaði mig að um leið og ég fór að finna fyrir sviða, hægði ég á rembingnum og kollurinn fór aftur inn. Eftir 20 mín af rembing eða kl. 15:20 kom loksins kollurinn. Ótrúlegt að segja þá var það eina skiptið í fæðingunni sem ég missti stjórn á mér og öskraði en vá það var alveg ótrúlegt að þetta væri búið. Var ekki að átta mig að þetta væri búið og ég heyri Kristbjörgu segja fyrir aftan mig, “Mamma ég er komin út, ég þarf einhvern til að taka mig upp” en þá var barnið komið allt út og ég tók það sjálf upp úr vatninu. Væmna ég fór strax að hágráta enda yndislegasta augnablik í heiminum. Litla gullið var mjög rólegt en það andaði alveg strax, og grét stuttu seinna. Við kíktum í pakkann en við vissum ekki kynið á meðgöngunni og sáum strax að við höfðum eignast aðra litla stelpu. Þegar litlan var búin að átta sig á þessum nýja heim fór hún sjálf strax á brjóstið og hefur verið þar síðan. Klárlega besti staðurinn í heiminum.

Síðan vorum við bara í rólegheitum í lauginni og fór upp þegar ég var tilbúin. Fylgjan var ennþá ófædd enda fannst Kristbjörgu alveg óþarfi að koma henni út, hún kæmi út þegar hún væri tilbúin. Ég fór upp í mitt eigið rúm með dömuna og við litla fjölskyldan fórum að kynnast. Á meðan gengu Kristbjörg og ljósmóðurneminn sem hafði verið viðstaddur frá stofunni. Þegar ég fór fram þá var ekki að sjá að þarna hefði verið fæðing. Rúmlega 1,5 klst eftir fæðinguna kom fylgjan og það þurfti ekkert að sauma. Stelpan var vigtuð og mæld, 13 merkur og 51,5 cm. Algjörlega fullkomin.

Eftirmáli

Ég vissi hreinlega ekki að það væri hægt að eiga draumafæðingu. Þessi reynsla mín er gjörólík þeirri fyrri og það er tvennt ólíkt að eiga rólega heimafæðingu þar sem líkaminn fer sjálfur af stað heldur en að þurfa hríðaraukandi lyf til að koma ferlinu af stað eins og ég lenti í seinast. Mér fannst dásamlegt að geta kynnst eingöngu einni ljósmóður í gegnum allt ferlið, sem þekkir mann og óskir. Ég er óendanlega þakklát að hafa tekið þá ákvörðun að eiga heima og vera í mínu umhverfi þar sem ég er á heimavelli. Maðurinn minn er líka sammála því. Þetta var yndisleg upplifun frá byrjun og til enda og svíf ég á bleiku skýi þessa dagana. Lífið er sannlegar dásamlegt.

Fæðingarsagan mín 3.8.2011

Litli gullmolinn minn sem reyndist vera lítil prinsessa kom í heiminn miðvikudaginn 3. ágúst kl. 14.34 eftir 41 vikna meðgöngu. Hún var 12,5 mörk, 51,5cm og höfuðmál 35 cm. Hún er fullkomin í alla staði.

Fæðingin gekk mjög vel og hratt fyrir sig en það er langur aðdragandi að henni enda var ég rúmlega tvo sólarhringa á spítalanum. Hlutirnir fóru ekki alveg eins og ég hafði ímyndað mér en ég er enga að síður mjög sátt við útkomuna.

Mér var búið að líða vel líkamlega og andlega á meðgöngunni en seinustu vikuna fór ég að fá hækkaðan blóðþrýsting og þurfti algjöra hvíld. Ég var orðin slöpp, þreytt og pirruð á biðinni. Um kvöldið mánudaginn 1.ágúst ákvað ég að reyna einhverja þrýstipunktanudd til að reyna að koma einhverju af stað. Um morguninn eftir byrjaði svo legvatnið að leka. Ég hringdi niður í Hreiður og sagði þeim frá þessu, þær ráðlögðu mér að leggja mig og slappa af, bíða eftir að verkir kæmu með þessu og svo kíkja niður til þeirra seinna um daginn. Ég hringdi í Axel sem var í vinnunni og bað hann um að koma heim. Síðan tók við mjög langt ferli og bið. Það var ekki fyrr en um 12 sem ég fór að finna samdrætti með verkjum en ekkert reglulegt en legvatnið hélt áfram að leka. Við fengum okkur að borða og ég reyndi að hvíla mig. Ég reyndi allt sem ég gat til að koma þessu af stað, göngutúrar, froskastellingin, geirvörtunudd. Um 7 leitið fórum við upp á deild í skoðun.

Ljosmóðirin sem tók á móti okkur vildi ganga úr skugga að þetta væri örugglega legvatn sem væri farið að leka. Ég sagði að það hlyti að vera legvatn, annars væri ég farin að pissa á mig. Eftir stutta skoðun var hún alveg sannfærð og athugaði útvíkkun í leiðinni. Hún náði að koma útvíkkun úr 1 í 4 því leghálsinn var svo þunnur og fullstyttur. Við vorum enn að vonast til að ég myndi nú malla sjálf af stað og ætlaði hún að fara að senda mig bara heim í rúmið en eftir að hafa mælt blóðþrýstinginn sem var orðin 160/110 vildu þau ekki senda mig heim heldur buðu mér að vera eftir. Ég mátti því ekki eiga í Hreiðrinu eins og ég var búin að vonast eftir en var þess í stað boðið að vera á fæðingarganginum þar sem ég þyrfti aukið eftirlit vegna blóðþrýstings. Ég fékk fínt herbergi þar með baði eins og ég hafi óskað.

Síðan tók við ennþá meiri bið. Ekkert var að gerast nema óreglulegir samdrættir og pínu verkjaseyðingur. Um 22 bauð ljósmóðirin mér belgjarof til að sjá hvort það myndi koma einhverju af stað. Ekkert gerðist nema auknir samdrættir og verkjaseyðingur í byrjun en þeir duttu svo aftur niður. Um vaktaskipti fór ég aðeins í göngu um sjúkrahúsið, upp og niður tröppurnar og reyndi nánast allt. Ákvað síðan að hætta að reyna og frekar að reyna að slaka á og hvíla mig. Ég setti Grace diskinn í tækið og náði að slaka heilmikið á. Upp undir morgun tjáði ljósmóðirin mér að það þyrfti líklegast að gefa mér hríðaraukandi lyf til að koma ferlinu á stað þar sem það langt var síðan legvatnið byrjaði að leka. Morgunvaktin tók við og fékk ég þennan yndislega ljósmóðurnema sem heitir Edda og útskýrði hún vel fyrir mér að þó að ég þyrfti lyf til að koma mér af stað þýddi það ekki að upplifun mín ætti að verða einhver önnur á fæðingunni. Hún var búin að lesa óskalistann minn vel og vissi að ég vildi gera þetta á náttúrulegan hátt. Útvíkkunin eftir nóttina var ennþá 4-­5 enda var ekki margt sem skeði.

Dreypið fór upp um 9 leitið og þá fór allt að gerast. Verkirnir og samdrættir jukust jafnt og þétt, urðu sárari og sárari. Ég byrjaði að ganga um gólf, sitja á bolta og halla mér yfir rúmið. Eg reyndi að vera eins mikið á hreyfingu og ég gat enda fannst mér óþægilegt að sitja kyrr. Ég var samt svoldið bundin þar sem ég var með nál og dreypið í æð og með mónítor (þráðlausan samt) um kviðinn til að fylgjast með hjartslættinum. Ég andaði mig í gegnum verkina,notaði allt það sem ég lærði í jóganu og reyndi að slaka vel á. Edda minnti mig líka á það að spyrnast ekki á móti verknum heldur leyfa hverri hríð að vinna sína vinnu. Það var erfitt en mér tókst það. Ég hugsaði bara að hver hríð færði mér nær barninu mínu og að þetta væru verkir með tilgang. Ég missti pínu tímaskyn eftir þetta og geri mér enga grein fyrir því hve hlutirnir gengu hratt fyrir sig. Það var um 12­leitið þá spurði ég hvort ég mætti fara í baðið, hún tjékkaði fyrst á útvíkkuninni og hún var orðin 6 og leghálsinn orðinn tilbúinn. Það var himneskt að komast í baðið og fann ég hvernig ég náði að slaka á í hverjum einasta vöðva líkamans. Ég kom mér þannig fyrir með höfuðið á brúninni og lét mig fljóta í vatninu. Axel stóð fyrir aftan mig allan tímann og hélt í hendurnar á mér. Mér fannst ótrúlegt öryggi að hafa hann þarna og hafði ótrúlega mikla þörf að hafa hann nálægðan mér. Í erfiðustu hríðunum fannst mér best að leggja höfuðið á mér upp í hálsakotið á honum og finna lyktina af honum. Það var svona cirka um 13 leitið sem verkirnir voru að vera óbærilegir og ég missti svoldið stjórninni á mér, ég fór að kalla að ég gæti þetta ekki lengur og vildi bara hætta við.

Edda heyrði mig öskra hástöfum en minnti mig á að panikka ekki, anda rólega, hvatti mig áfram og sagði að þetta gæti ég alveg, ég væri búin að standa mig það vel hingað til. Ég get svarið það að verkirnir voru orðnir það slæmir að ef mér hefði verið boðin mænudeyfing á þessum tímapunkti hefði ég þáð með þökkum. En ég var harðákveðin á óskalistanum að ég vildi hvorki fá deyfinguna eða vera spurð, og var ég mjög þakklát að þau hlustuðu ekki á vitleysuna í mér. Þá spurði Axel mig hvort ég vildi ekki prófa glaðloftið. Fyrst fannst mér það óþægilegt en ég prófaði aftur og vá það bjargaði alveg lífi mínu. Náði að einblína vel á öndunina og talandi ekki um áhrifin sem loftið hafði á mig, mér leið eins og ég hafi verið búin að drekka nokkra bjóra þarna. Ég náði liggur við að dotta á milli hverja hríða og mér leið þá mjög vel. Axel stóð ennþá fyrir aftan mig og var með kalda þvottapoka. Það er svo fyndið að þrátt fyrir að ég væri líklegast komin með 8-­9 í útvíkkun þá var ég alltaf að segja einhverja brandara við Axel og ljósuna. Síðan fóru verkirnir að breytast og ég fann þennan svakalega þrýsting niður í rass. Sagði ljósunni að ég héldi að rassinn á mér væri að springa og hún sagði þetta eðlilegt. Ég þurfti að hafa mig alla við að reyna að slaka á þarna niðri til að létta af þessum þrýsting en þetta var ótrúlega óþægilegt. Síðan fékk ég smátt og smátt rembingsþörf. Held að þetta sé undarlegasta og óþægilegasta tilfinning sem ég hef fundið. Í átökunum byrjaði ég að kasta upp og var glaðloftið tekið af mér. Edda spurði mig hvort ég vildi ekki koma upp úr til að athuga útvíkkunina, henni fyndist það betra en við gætum líka gert það ofan í baðkarinu. Nei ég var alveg tilbúin að fara upp úr. Á þessum tímapunkti breyttust verkirnir yfir í algjöra rembingsþörf og get ég sagt að ég var mjög fegin, þá vissi ég líka að þetta væri farið að styttast. Önnur ljósmóðir var þá líka komin inn.

Ég fór upp í rúm og athugaði hún með útvíkkun og hún var orðin 10. Ég vildi bara fá að liggja hálfupprétt í rúminu því þá náði ég að slaka vel á milli hríða. Edda var mjög góður leiðbeinandi og útskýrði hvernig best væri fyrir mig að anda og rembast. Ég reyndi að einblína alla orku mína niður. Hún bað Axel um að koma og hjálpa þannig að hann stóð í eldlínunni og í hverri hríð setti ég fæturnar á mér upp á mjaðmirnar á honum og henni. Er rosa stolt af honum að standa þarna og sjá allt saman, þó ég skil hann vel að hann hafi litið undan á tímum. Rembingurinn tók rúmlega 45 mín. Ég fékk að finna kollinn þegar hann var á leiðinni út og það var mjög undarlegt. Í seinasta rembingnum hélt Edda vel um spöngina á mér og dróg litla barnið út. Það var líka ótrúlega sárt en ég fékk litla barnið mitt strax í fangið og það fór að gráta. Ég fór líka að gráta og var strax búin að gleyma öllu. Þetta var það fallegasta sem ég hafði séð og ég var svo stolt að hafa komið þessu litla barni í heiminn. Síðan var það sem við höfðum beðið eftir var að athuga hvort við hefðum fengið litla prinsessu eða prins. Við kíktum undir handklæðið og jú viti menn þetta var lítil dama. Þarna sátum við öll þrjú, nýja litla fjölskyldan. Fylgjan fæddist nokkrum mínútum seinna og við tók smá saumaskapur. Spöngin var alveg heil en það þurfti nokkur spor í barmana.

Þetta er án efa það erfiðasta sem ég hef gert en ég er enga síður mjög stolt. Mér fannst mjög gott að fá hrós og hvatningu í gegnum fæðinguna enda held ég að annars hefði ég ekki getað gert þetta. Er líka þakklát fyrir að hafa fengið að hafa Eddu hjá mér því hún fór alveg eftir mínum óskum og reyndi að gera þetta að minni stund. Þrátt fyrir að fá ekki alveg það sem ég hefði ímyndað mér hefði ég ekki viljað breyta neinu og er mjög sátt með niðurstöðuna. Verðlaunin eru líka þau bestu í heimi. Þrátt fyrir að vera síþreytt, með slappan, slitin og sigin maga, saumuð saman í klofinu og með brjóstin úti allan daginn þá er þetta best í heimi enda á ég núna fallegustu stelpu í heimi.

Fæðing í faðmi fjölskyldunnar

Þegar ég komst að því að ég væri ófrísk kom ekkert annað til greina en heimafæðing. Mig langaði að eiga draumafæðinguna mína, hafa hlutina eftir mínu höfði og vera stjórnandi en ekki þátttakandi í eigin fæðingu.

Ég setti mig strax í samband við Áslaugu Hauksdóttur ljósmóður og hitti hana á seinnihluta meðgöngunnar. Meðgangan gekk þokkalega eins og gengur og gerist, þurfti að vera í auknu eftirliti, en stefnan var alltaf á heimafæðingu hvað sem á dundi. Ég las og las og drakk í mig allan þann fróðleik sem ég gat fundið. Við hittum líka hana Eydísi doulu og það hjálpaði líka rosalega mikið að undirbúa eins yndislega og persónulega fæðingu og hægt var.

Þegar ég vaknaði 14. apríl grunaði mig ekki hvað sá dagur bæri í skauti sér. Hann var nokkuð frábrugðinn dögunum á undan. Ég var pirruð yfir því að ekkert væri að gerast hjá mér og sannfærð um að ég myndi enda á því að ganga framyfir 40 vikur. Þennan dag vildi ég bara vera ein og alls ekki að neinn væri í kringum mig. Svo fór ég bara að sofa á mínum venjulega tíma um kvöldið, talaði við bumbuna og bað drenginn vinsamlegast um að fara að koma sér í heiminn, það væru allir að bíða eftir honum.

Um klukkutíma seinna kl. 12.30 eftir miðnætti, 15. apríl, vaknaði ég við það að það var eitthvað að leka á milli lappanna á mér og var svolítið mál að pissa. Ég stóð þá upp og fór fram á bað og þegar ég ætlaði að stíga yfir þröskuldinn inn á baðið kom væn skvetta af legvatni. Ég var nú samt ekki sannfærð um að þetta væri legvatn, hélt svo sem alveg að ég væri að pissa á gólfið. Ég fór aftur upp í rúm og ætlaði að halda áfram að sofa. En við hverja hreyfingu lak alltaf meira og meira.

Þá vaknaði Daði við bröltið í mér og við vorum nokkuð viss um að nú færi þetta að gerast. Ég fór að fá aðeins sterkari verki, ekki reglulega, en á svona 4-6 mínútna fresti. Ég hringdi og lét Áslaugu vita að þetta væri að byrja hjá okkur. Ég fann samt að þetta var ekki að fara að gerast alveg strax svo mér fannst ég ekki þurfa að fá hana alveg strax til okkar. Ákvað að reyna að hvíla mig eitthvað smá, en það gekk nú ekkert svo rosalega vel. Ég tók til spítalatöskuna ef til þess kæmi að ég þyrfti að fara þangað. Fór fram og settist á grjónapúða og reyndi að slaka vel á. Hlustaði á tónlistina mína og reyndi að undirbúa mig fyrir átökin framundan.

Daði fór í að undirbúa heimilið. Hann blés í sundlaugina og kveikti á kertum og gerði allt svo kósí fyrir okkur. Um klukkan 3 hringdi ég svo í Áslaugu og hún kom stuttu seinna. Hún tók aðeins stöðuna sem var bara fín, þrír í útvíkkun, samdrættirnir á 2-4 mínútna fresti en ekkert svo vondir. Bjóst samt eiginlega við meiri útvíkkun og leið hálf kjánalega yfir því að hafa kallað svona snemma í hana.

Hún smellti svo nál á milli augnanna á mér sem átti að hjálpa til við slökunina og sagði okkur að reyna að hvíla okkur bara inni í rúmi og lagði sig svo sjálf í sófanum. Við fórum þá bara inn í herbergi og reyndum að hvíla okkur, ég sat uppi í rúmi og verkirnir byrjuðu að verða verri þarna en ekkert óbærilegir og ég andaði mig bara í gegnum þá. Lilja Bríet dóttir okkar, sem þá var fjögurra ára, vaknaði þarna og var ótrúlega spennt yfir því sem var að gerast. Kallaði inn í bumbuna og sagði litla bróður að drífa sig.

Um kl. 04:30 voru verkirnir orðnir frekar vondir og ég vildi fara í laugina. Það var alveg ótrúlegt hvað það var gott! Að geta hreyft sig að vild og slakað vel á var einmitt það sem ég þurfti á að halda. Ég svamlaði svo bara í lauginni og andaði og slakaði. Lilja Bríet og Daði gáfu mér kalda þvottapoka á ennið og Áslaug kom öðru hvoru til mín og tók hjartsláttinn hjá barninu. Hún rétt snerti magann til að finna samdrættina og notaði sinn innbyggða „mónitor” til að meta þá. Annars hélt hún sig bara til hlés og fylgdist með úr fjarlægð.

Klukkan 5 kom Arnbjörg vinkona mín til að líta eftir Lilju og þær dunduðu sér bara í stofunni, kíktu til mín öðru hverju og fóru svo bara inn í herbergi. Stuttu seinna fann ég að þetta var að fara að gerast, litli kútur vildi greinilega fara að komast í heiminn. Síðustu þrjár hríðar fyrir rembing komu hver á eftir annarri, voru langar og vondar og eina sem ég gat hugsað um var að fá smá hvíld fyrir rembinginn því mér fannst ég vera svo þreytt. Bara 5 mínútur var allt sem ég þurfti til að safna kröftum, en það var víst ekki í boði.

Daði hoppaði ofan í laugina til mín og tók sér stöðu fyrir aftan mig. Hann hélt undir handleggina á mér og ég hálf sat/stóð í vatninu. Í þremur hríðum og á 7 mínútum kom drengurinn syndandi út í vatnið, kl. 05:37. Ég veiddi hann sjálf upp úr og settist beint í fangið á Daða. Hann var kominn! Og hann var svo rólegur og dásamlegur, en skemmtilega brúnaþungur. Grét ekki en lét bara rétt heyra í sér að það væri allt í lagi með hann. Lilja Bríet kom þá hlaupandi innan úr herbergi og hoppaði ofan í til okkar.

Áslaug beið svo bara á hliðarlínunni, tilbúin að grípa inn í ef til þess kæmi. Þvílíka upplifunin að hafa alla fjölskylduna og æskuvinkonu hjá sér á þessu ótrúlega augnabliki. Og þessa dásamlegu ljósmóður sem veit upp á hár hvað hún er að gera. Lætur manni líða svo vel, eins og maður sé eina konan í heiminum sem er gerð til að fæða börn og engin geti gert það betur! Hvetur mann áfram á mildan og mjúkan hátt og leyfir manni að finna sínar eigin leiðir og treysta á sitt eigið innsæi. Er ekki sífellt að tékka á útvíkkun, gerði það bara þegar hún kom og svo ekkert aftur. Trúði því bara að þegar ég sagðist þurfa að rembast, þá var ég komin með fulla útvíkkun og mátti byrja.

Við lágum svo bara þarna í smá stund og dáðumst að nýja fjölskyldumeðlimnum. Um korteri seinna fæddi ég fylgjuna og við skoðuðum hana. Það sem Áslaugu þótti merkilegt við fæðinguna var að það blæddi ekki dropa af blóði, hvorki þegar ég fæddi barnið né fylgjuna. Ég fór svo upp í rúm og litli kútur kom á brjóstið og drakk eins og hann hefði aldrei gert neitt annað. Svo var einhver smáræðis saumaskapur og á meðan voru feðgarnir og stóra systir að skoða hvert annað. Þau hjálpuðust svo að frammi við að ganga frá og svo borðuðum við öll saman áður en Áslaug og Arnbjörg héldu út í morgunsólina.

Litla fjölskyldan fór öll upp í rúm að kúra eftir þessa viðburðaríku og skemmtilegu nótt. Hún gleymist aldrei.

Sagan var upphaflega birt á pressan.is

Fæðingarsagan hennar Röskvu

Ég átti tíma hjá ljósunni á settum degi og þegar ég mætti í skoðun kom í ljós að blóðþrýstingurinn hafði hækkað og neðri mörkin voru komin yfir 100. Ég hef verið með háan blóðþrýsting síðan hann var mældur fyrst þegar ég var 17 ára og aldrei fundið neitt fyrir því, held að það sé mér bara eðlilegt. Hann hafði líka haldið sér nær alla meðgönguna og meira að segja lækkað á öðrum þriðjungi hennar. Ég var svo búin að vera á lyfjum við honum frá 35. viku þegar hann fór aðeins að stíga en hann hafði haldið sig á mottunni þangað til. Ljósan ákvað þennan umrædda dag að senda mig í dagönn og ég mætti niður á deild nokkrum tímum seinna.

Ég var klukkutíma í mónitor og mældust töluverðir samdrættir á meðan. Blóðþrýstingurinn hélst jafn hár og eftir að það mældust tveir plúsar í þvagi hjá mér var ég úrskurðuð með meðgöngueitrun og ákveðið að setja mig af stað daginn eftir. Það er óneitanleg skrítin tilfinning að fá að vita fyrir víst að maður fái ungann sinn í hendurnar eftir einn til tvo daga! Ég var að springa úr spenningi þegar ég hringdi í konuna mína og mömmu til að segja þeim fréttirnar, kannski yrði komið barn á morgun!

Við tók undirbúningur fyrir gangsetninguna og spítalavist, stóra systir látin vita af fréttunum sem og pössunarpían og svo var bara að bíða. Þar sem ég var með samdrætti með verkjum ákvað ég að taka verkjatöflu, fara í sturtu og reyna að sofa og það tókst bara ágætlega. Spúsan var hins vegar eins og hengd upp á þráð og alveg að farast úr stressi og sat alla nóttina inni í stofu og bjó til stuttmynd í tölvunni.

Við áttum kósý morgun með stelpunni okkar og fengum góða vinkonu í heimsókn sem var ágætt til að dreifa huganum. Vorum svo mættar með allt okkar hafurtask niður á deild á slaginu eitt. Það var búið að segja mér að mæta bara með maka og hringja svo í mömmu þegar eitthvað færi að gerast en við vorum löngu búnar að ákveða á hún yrði viðstödd þessa merkisstund. Það var mikið að gera niðri á deild og við látnar bíða í meira en hálftíma frammi á gangi. Þá var okkur loks vísað á herbergi, nokkurs konar biðherbergi en þar áttum við að vera þangað til fæðingin færi að malla í gang. Þar sem ég var með meðgöngueitrun mátti ég ekki eiga í Hreiðrinu sem var pínu svekkjandi en sem betur fer var herbergið sem við fengum æðislegt, tvö stór, stillanlega rúm, sjónvarp (eina herbergið með sjónvarpi) og stórt baðherbergi. Ég var sett í mónitor og klukkan þrjú fékk ég fyrstu gangsetningartöfluna. Við krossuðum putta og vonuðum að ég þyrfti bara eina.

Stuttu seinna kom ljósan til okkar með þær fréttir að viðbúnaðarstig spítalans hefði verið fært á hæsta stig vegna svínaflensunnar, lokað hefði verið fyrir allar heimsóknir og bara einn mátti vera viðstaddur fæðinguna. Mér leið eins og ég hefði verið kýld í magann og ljósan hafði varlað lokað dyrunum þegar ég byrjaði að háskæla af vonbrigðum. Mig hafði dreymt svo lengi um að deila þessari stund með mömmu og svo fannst mér líka sárt að Rakel fengi ekki að koma upp á deild að sjá barnið nýfætt. Ég held ég hafi grátið stanslaust í klukkutíma og treysti mér ekki til að segja mömmu fréttirnar svo Hrund sá um það. Mamma var að vonum svekkt en við skildum alveg afhverju þurfti að gera þessar ráðstafanir, það var pakkað á gjörgæslu og berskjaldaðir nýburar í húsinu.

Ég náði aðeins að jafna mig og þá var komið að næstu töflu, fimm tímum frá þeirri fyrstu. Eftir hana fór ég að fá reglulega og sterka samdrætti og voru um 5 mín. á milli. Ný og yndisleg ljósa var komin á vakt og tilkynnti mér að leghálsinn væri fullstyttur og mjúkur og ég komin með 1 í útvíkkun. Þegar þriðja ljósan kom á vakt á miðnætti ákvað hún að færa okkur yfir á fæðingargang þar sem hún átti von á því að útvíkkunin væri orðin meiri og hægt yrði að sprengja belginn. Aftur vorum við heppnar og fengum stærsta fæðingarherbergið með baðkari sem var einmitt það sem ég hafði beðið um. Því miður var leghálsinn alveg eins og því ekki hægt að reyna að sprengja belginn. Samdrættirnir voru meira og minna dottnir niður en ég var með stöðuga verki svo ég fékk verkjatöflu, þriðju gangsetningartöfluna og skipun um að reyna að sofa. Verkirnir og spenningurinn héldu fyrir mér vöku og auk þess þurfti stöðugt að vera að mæla blóðþrýstinginn og setja mig í mónitor svo það var lítill svefnfriður. Klukkan þrjú fékk ég fjórðu gangsetningartöfluna og þær fréttir að það væru ekki gefnar fleiri en fimm, eftir það væri gripið til annarra ráðstafanna. Ég var orðin úrvinda af verkjum og þreytu og bað og vonaði að það þyrfti ekki fleiri töflur.

Áður en ljósan fór af vakt ákvað hún að reyna að sprengja belginn en það hafðist ekkert upp úr því nema hrikalegur sársauki fyrir mig. Það var kominn bjúgur í leghálsinn þar sem hann hafði verið fullstyttur svo lengi en samdrættirnir dottnir niður. Ég fékk aftur verkjatöflu og nýja ljósu á vakt og náði þetta skiptið að sofa í um einn og hálfan tíma.

Sem betur fer náði ég að hvílast aðeins því ballið var að byrja. Ég vissi ekki fyrr en inn komu tveir læknar og ljósan með þær fréttir að það eigi að gera aðra tilraun til að sprengja belginn. Hálfsofandi geri ég mig klára og en vakna snögglega við nístandi sársauka. Annar læknirinn ýtti barninu ofan í grindina á meðan hinn læknirinn notaði alla sína krafta til að komast inn fyrir og sprengja belginn. Eftir óratíma fann ég loks vatnið seytla en þessi meðferð hafði það í för með sér að í hvert skipti eftir þetta sem ég var skoðuð ætluðu augun út úr höfðinu á mér af sársauka, ég var öll svo aum.

Samdrættirnir hrukku í gang. Þarna var klukkan rétt um tíu á föstudagsmorgni, 17 tímar frá fyrstu gangsetningartöflu. Ljósan hafði ákveðið að bíða með að gefa mér hríðaukandi dreypi þar sem ég var með samdrætti en eftir einn og hálfan tíma höfðu þeir ekkert aukist svo dreypið var sett upp. Þá fór sko allt í gang.

Fyrst rólega og ég andaði mig gegnum verkina. Eftir því sem dreypið var aukið hertust verkirnir og ég bað um að fá að fara í baðið þar sem mér var farið að vera mjög illt. Læknarnir vildu hins vegar ekki leyfa mér það, bæði var ég með dreypi í æð og mónitor um mig miðja en svo var blóðþrýstingurinn líka farinn að hækka svo mikið. Ég fékk blóðrþýstingslyf í töfluformi og í æð en þrýstingurinn var áfram hár. Dreypið var aukið og allt í einu ruddust verkirnir fram. Ég greyp andann á lofti í hverri hríð og fannst eins og bakið væri að brotna. Mér var svo illt að ég stóð ekki í fæturna og engdist því um sitjandi í rúminu. Á klukkutíma urðu verkirnir óbærilegir og ég missti mig algjörlega. Grét og veinaði í hverri hríð og leið eins og ég væri að deyja, þvílíkur sársauki. Elsku Hrund var alveg miður sín en ljósan var fljót að átta sig og sagði kominn tíma á mænudeyfingu. Bæði var þrýstingurinn svo hár (og mænudeyfing besta meðalið við því) og svo sá hún að ég gat ekki meir. Það er víst ekki óalgengt að svona fari í gangsetningu, sóttin verður allt öðruvísi en þegar maður fer sjálfur af stað.

Þessi yndislega ljósa (hún var uppáhaldið mitt af þeim sex sem unnu sínar vaktir á meðan öllu stóð) var 5 mínútur að ná í svæfingarlækni og hann var 4 mínútur að setja upp deyfinguna og svo ég var ekkert smá heppin með það. Þetta gekk eins og í sögu og klukkan tvö lá ég í rúminu og mestu verkirnir farnir. Deyfingin tekur reyndar ekki þrýstinginn sem er líka sársaukafullur en ég réð vel við hann. Við Hrund fengum okkar að borða og ég gat dottað.

Um hálf fjögur var tekin blóðprufa úr kollinum á krílinu og útvíkkunin skoðuð en hún var þá komin í 5-6. Ég fékk ábót á deyfinguna og nýja ljósu og ljósmóðurnema. Verkirnir hertust svo skyndilega og um leið og það var hægt fékk ég ábót á deyfingua og þær yndislegu fréttir að útvíkkunin væri fullkláruð og aðeins smá brún eftir. Útvíkkunin hafði farið úr 5 í 10 á einhverjum klukkutíma. Deyfingin virkaði takmarkað og ég var byrjuð að fá rembingstilfinningu. Blóðþrýstingurin rauk upp úr öllu valdi og allt einu fór hjartsláttur ungans að taka dýfur. Það var hræðilegasta stund lífs míns þegar ég heyrði hvernig hægðist á honum og svo datt hann skyndilega út þrátt fyrir að elektróða (fyrir þá sem ekki vita virkar hún eins og móntor og mælir hjartsláttinn nema hún er fest beint við barnið) væri tengd við kollinn á krílinu. Læknirinn sem hafði fylgst með blóðþrýstingum og dælt í mig blóðþrýstingslyfjum í æð undanfarna tvo tímana ákvað að það væri kominn tími á sogklukku. Ég mátti svo bara rembast þegar ég vildi og ég var byrjuð að rembast áður en sogklukkunni var komið fyrir.

Þegar allt var klárt tók það þrjár hríðar að koma unganum út. Miðað við sársaukann í hríðunum áður en ég fékk mænudeyfinguna var rembingurinn lítið mál þótt það væri frekar sárt að vera með kollinn á milli fótanna. Léttirinn þegar barnið skaust út og ég fékk það upp á magann var ólýsanlegur. Fyrir einhvern misskilning héldum við Hrund í smá stund að við hefðum fengið strák, ég get svo svarið að mér heyrðist einhver segja það. Ljósan spurði svo hvort við værum búnar að kíkja á kynið og þá sáum við að þetta var þess gullfallega stelpa!

Ég var búin að gleyma að ég þurfti að fæða fylgjuna og dauðbrá þegar þær byrjuðu að ýta á magann á mér. Fylgjan kom og tonn af blóði með. Þar sem fæðingin hafði verið svo lengi í gang var legið orðið mjög þreytt og við fæðingu fylgjunnar sprungu æðar í því. Blæðingin ætlaði aldrei að hætta og í klukkutíma hömuðust tvær ljósur á maganum á mér til þess að fá legið til að dragast saman. Ég fékk lyf í æð sem átti að hjálpa til og Hrund reyndi að róa stelpuna sem var sármóðguð yfir því að fá ekki brjóst.

Sársaukinn við hnoðið var meiri en í hríðunum og rembingnum samanlagt. Ég lá bara þarna og tárin láku niður kinnarnar á mér og ég hélt ég myndi ekki hafa þetta af. Sem betur fer tekur allt enda og loksins minnkaði blæðingin og það var hægt að sauma mig. Þrátt fyrir sogklukkuna rifnaði ég lítið sem ekkert og mér var líka nokkuð sama þar sem ég fékk að gefa stelpunni á meðan lappað var upp á mig. Við Hrund vorum búnar að ákveða nafn svo hún var nefnd í fanginu á mér og það var ólýsanleg tilfinning að halda á Aðalbjörgu Röskvu í fyrsta skipti.

Þrátt fyrir að fæðingin tæki 27 tíma frá gangsetninu tók hún enga stund þegar hríðarnar loksins byrjuðu eða rétt um 4-5 tíma. Mér var rúllað niður á sængurkvennagang og við mæðgurnar þrjár fengum smá stund áður en Hrund þurfti að fara heim. Það var erfitt að vera ein um nóttina og Sprundin gat ekki haldið aftur af tárunum þegar hún þurfti að fara. Röskva grét þangað til ég tók hana upp í en þar svaf hún eins og steinn. Við fengum svo að fara heim á hádegi daginn eftir þar sem blóðþrýstingurinn lækkaði fljótt eftir fæðingu og ég var öll að koma til.

Við fundum ekki fyrir því að það væri niðurskurður á spítalanum þar sem allir sýndu natni og mikla umhyggju og ljósurnar voru hver annarri frábærari. Þar sem ég missti um 1 lítra af blóði er ég búin að vera lengi að jafna mig en brjóstagjöfin gengur vel og Röskva er algjör draumur.

Sagan var upphaflega birt á litlahusid.blog.is